Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

19 daga verkfall í bandarískum fangelsum

$
0
0

Fangar um gervöll Bandaríkin hafa sameinast um verkfallsaðgerðir sem boðað hefur verið að muni standa í 19 daga, frá 21. ágúst, þegar þær hófust, til 9. september. Þátttaka í aðgerðunum nær til 24 fylkja, ásamt, raunar, Kanada.

Tímaritið The Nation segir stefna í stærsta verkfall í bandarískum fangelsum til þessa. Markmiðið með aðgerðunum er meðal annars að vekja athygli á dauðsföllum fólks í varðhaldi í Bandaríkjunum, en í Mississippi-fylki einu létust 10 fangar á þremur vikum í aðdraganda verkfallsins, án þess að nokkuð hafi verið látið uppi um orsakir dauðsfallanna.

Tíu kröfur

„Önnur krafa er að bundinn verði endir á þrældóm í fangelsum, og fólki sem situr inni verði greitt í samræmi við almenn launaviðmið fyrir vinnuframlag sitt“

Verkfallsboðendur hafa birt tíu meginkröfur sem þeir sameinast um. Fyrsta krafan er bættar aðstæður og skilyrði sem grundvallist á virðingu fyrir mennsku þeirra karla og kvenna sem sitja í fangelsi. Önnur krafa er að bundinn verði endir á þrældóm í fangelsum, og fólki sem situr inni verði greitt í samræmi við almenn launaviðmið fyrir vinnuframlag sitt. Þriðja krafan er sú að tryggðar verði samskiptarásir fyrir fanga til að koma áhyggjum sínum og umkvörtunum á framfæri þegar brotið er á rétti þeirra. Fjórða krafan er að allir fanga skuli eiga rétt á betrun og reynslulausn. Fimmta krafan að þegar í stað verði bundinn endir á kynþáttabundna mismunun dóma gegn hörundsdökku fólki í fangelsum.

Breið fylking samtaka

Alls eru kröfurnar sem fyrr segir tíu. Sú síðasta er að öllum þeim sem sitja inni eða hafa setið inni verði tryggður atkvæðaréttur í kosningum.

Fremst í flokki þeirra hreyfinga sem standa að kröfugerðinni eru samtök lögfræðinga í fangelsum, hreyfingin Millions for Prisoners, Incarcerated Workers Organizing Committee og The People’s Consortium. Heill herskari samtaka og hreyfinga hafa tekið undir kröfugerðina og lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, að meðtöldum fjölda samtaka anarkista, sósíalista, kristilegra sósíalista og sósíal-demókrata.

Veldisvöxtur fangelsisiðnaðar frá 1980

Fjöldi fólks sem situr inni í bandarískum fangelsum 1925 til 2014. Áberandi og dramatísk eru hvörfin og uppsveiflan upp úr 1980.

Fjöldi fólks sem situr inni í bandarískum fangelsum 1925 til 2014. Áberandi og dramatísk eru hvörfin og uppsveiflan upp úr 1980.

Ársvelta bandaríska fangelsisiðnaðarins er sagt nema 74 milljörðum Bandaríkjadala. Það er þreföld landsframleiðsla Íslands, sem um þessar mundir er metin á um 23 milljarða í sömu mynt. Raunar er fangelsisiðnaðurinn á þessum mælikvarða umfangsmeiri en landsframleisðla 133 ríkja í heiminum.

Þetta var ekki alltaf tilfellið. Um 1980 sat að jafnaði um hálf milljón manna inni, í bandarískum fangelsum og gæsluvarðhaldsklefum. Um 1990 hafði sá fjöldi tvöfaldast í um milljón manns og áratug síðar, um aldamót, hafði hann tvöfaldast enn, í tvær milljónir manna. Síðan þá hefur fjöldi fanga í Bandaríkjunum legið á milli 2 og 2,5 milljóna, samkvæmt gögnum sem ná til ársins 2013. Það er tæplega 1 prósent af fullorðnum íbúum landsins.

Hvergi í heiminum er að finna hærra hlutfall fanga eða meiri fjölda þeirra. Ef þær 4,7 milljónir sem gegna skilorðsbundnum dómum eða hlotið hafa reynslulausn (m.v. árið 2013) eru taldar með, sæta alls um 3% fullorðinna íbúa landsins frelsissviptingu til refsingar á hverri stundu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283