Tíma lyfjaþróunar og læknisfræðitilrauna á simpönsum er lokið, eða svo gott sem. Fyrir þessu eru margar ástæður og deilt um vægi þeirra: frá því upp úr miðri 20. öld hefur þekking aukist meðal mannfólks á greind, samskiptahæfni og hátterni simpansa – að þeir eigi sér kúltur, svo ekki sé notað hið vandmeðfarnara og tegundabundna íslenska orð menning. Um leið hefur komið á daginn að hugsanlega voru þeir aldrei jafn gagnlegir sem tilraunadýr og margir töldu, eða að minnsta kosti að minni þörf reynist fyrir þá nú en áður.
Ólíkt flestum öðrum tilraunadýrum, sem eru drepin að tilraun lokinni, er sami simpansinn iðulega notaður til endurtekinna tilrauna. Sumir hafa dvalið á rannsóknarstofum og undirgengist ólíkar tilraunir í yfir 40 ára. Eftir stendur því spurningin: hvað á að gera við þá simpansa sem eru í haldi rannsóknarstofa en hafa þegar lokið störfum, svo að segja, eða munu gera það á næstunni. Margir þeirra eru sagðir of veikburða, eftir áralanga þjónustu sem tilraunadýr, til að þola flutning á verndarsvæði.

Meðal dýralæknahefur því verið haldið fram að engin tilraun á simpönsum hafi í reynd nokkru sinni skipt sköpum í þróun lækninga.
Var þeirra aldrei þörf?
Á síðustu árum hefur orðið hröð þróun í þá átt að stöðva eða takmarka verulega þær vísindatilraunir sem gerðar eru á simpönsum og öðrum mannöpum. Annars vegar hefur þessi þróun orðið í krafti þess, eins og fyrr segir, að minni þörf þykir á slíkum tilraunum en áður, hins vegar vegna réttindabaráttu sem farið hefur fram fyrir hönd mannapa.
Tilraunir á prímötum, öðrum en mannfólki, gegndu nokkru hlutverki við þróun lyfja, einkum um miðja 20. öld. Iðulega er til dæmis vísað til þess að þróunarferli bóluefnis gegn mænusótt fólst meðal annars í að rækta sýkilinn í líkömum apa. Mænusótt var nær útrýmt á Vesturlöndum á örfáum árum eftir að bóluefnið var samþykkt árið 1963. Hversu veigamikið hlutverk prímatanna var, og þá einkum hversu stóran þátt tilraunir á mannöpum lék nokkurn tíma við rannsóknir á sjúkdómum, þróun lyfja og lækninga, er þó umdeilt. Meðal dýralækna hefur því verið haldið fram að engin tilraun á simpönsum hafi í reynd nokkru sinni skipt sköpum í þróun lækninga. Gert var verulegt átak í að fjölga simpönsum á tilraunastofum við rannsóknir á HIV-veirunni og þróun lyfja gegn alnæmi, á seinni hluta 20. aldar. Fjölgunin reyndist töluvert umfram eftirspurn, og urðu simpansarnir að minna gagni en talið var. Þeim hefur því aftur farið fækkandi á síðustu árum. Yfir 1.000 simpönsum var haldið á sex bandarískum rannsóknarstofnunum árið 2011. Sá fjöldi var kominn niður fyrir 700 árið 2016.
Simpansar eru nú aðeins notaðir í rannsóknarskyni í tveimur löndum: í Bandaríkjunum og í Gabon. Langflestir simpansar eru í haldi í Bandaríkjunum. Nokkur hundruð tilheyra skemmtanaiðnaðinum, 250 eru í dýragörðum – en 1.280 simpansar eru enn í haldi bandarískra rannsóknarstofnana á sviði líffræði, læknisfræði og lyfjaþróunar. Árið 2012 var tilkynnt að af þeim muni 110 simpansar í eigu bandarískra stjórnvalda brátt láta af störfum. Gert var ráð fyrir að þeir yrðu allir fluttir á verndarsvæði sem rekist er án ágóða í Louisiana-fylki, undir heitinu Chimp Haven.

Samtökin Great Ape Project berjast fyrir því að meðal skilgreindra réttinda mannapanna verði rétturinn til lífs, einstaklingsfrelsi að einhverju marki og bann við pyntingum.
Robert Lanford, yfirmaður rannsókna á prímötum við lyfjafræðirannsóknarstofnun í Texas, segir í viðtali við NPR að tengslin sem skapast hafi á milli starfsfólks vísindastofnana og simpansa í vörslu þeirra séu afar sterk. „Í upphafi vildi mikill meirihluti starfsfólksins ekki að neitt dýranna yrði flutt.“ Smám saman hafi þó afstaða þeirra mildast, en þau líti enn svo á að af 80 simpönsum stofnunarinnar séu 7 of veikburða til að flytja. „Atferlislega, tilfinningalega og líkamlega eiga þessi dýr í miklum vanda,“ segir hann. „Einn simpansanna er blindur og tveir félagar hans í búrinu annast hann. Hvernig endurskaparðu það á Chimp Haven?“
Þessar áhyggjur Lanfords eru til marks um verulega hugarfarsbreytingu í garð simpansa, sem orðið hefur á undanliðnum áratugum: um 1950 hefðu fáir trúað því að um það yrði rætt af nokkurri alvöru í fjölmiðlum hvernig tryggja megi tilraunasimpönsum sem áhyggjulausast ævikvöld.

Jane Goodall hélt frá Nýja Sjálandi til Kenýa árið 1957 og hóf þar rannsóknir á simpönsum. Uppgötvanir hennar áttu eftir að gjörbreyta skilningi mannfólks á mannöpum.
Mannapaverkefnið
Ef eigna ætti einni manneskju heiðurinn af að breyta því hvaða augum mannfólk lítur frændapa sína væri það sennilega vísindamaðurinn Jane Goodall, sem árið 1961 stóð simpansa að því að smíða sér tól úr spýtum og nota þau til að veiða maura úr maurabúum. Fram að þeim tíma hafði verið litið á það sem sérstöðu mannfólks að búa til eigin tól. Leiðbeinandi Goodall við rannsóknina sendi henni símskeyti eftir uppgötvunina þar sem hann sagði að nú þyrfti að endurskilgreina bæði hugtakið tól og maður, eða gangast við því að simpansar séu menn.
Rúmum 30 árum síðar, árið 1993, var stofnað til alþjóðlegra samtaka fræðimanna, undir heitinu Great Ape Project (GAP). Samtökin hafa barist fyrir því að lagaleg réttindi simpansa, bónóbó-apa, górilla og órangútan-apa verði skilgreind á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Samtökin berjast fyrir því að meðal skilgreindra réttinda mannapanna verði rétturinn til lífs, einstaklingsfrelsi að einhverju marki og bann við pyntingum.
Að stofnun samtakanna stóðu heimspekingarnir Peter Singer og Paola Cavalieri. Richard Dawkins hefur einnig verið viðriðinn þessa baráttu, ásamt fjölda annarra umdeildra fræðimanna. Krafa samtakanna grundvallast á þeim skyldleika sem er meðal mannapa og mannfólks, bæði erfðafræðilega, að vitsmunum og í hátterni, til dæmis tengslamyndun. Taki slík réttindaskrá gildi á alþjóðavettvangi yrði þeim mannöpum sem nú eru í vörslu manna sleppt lausum.
Samtökunum hefur orðið nokkuð ágengt í einstökum ríkjum: Í Nýja Sjálandi hafa allar tilraunir á mannöpum verið bannaðar, líkt og á spænsku sjálfstjórnarsvæðum Baleareyja, það er Majorka, Menorka, Íbísa og Formentera. Spænska þingið samþykkti raunar ályktun, sumarið 2008, um að unnið skyldi að réttindaskrá mannapa fyrir spænska konungsríkið í heild. Málið vakti nokkra athygli, þrátt fyrir að í reynd hefði nær aðeins verið um formsatriði að ræða: á Spáni eru ekki, svo vitað sé, neinir mannapar í haldi og engar tilraunir gerðar á simpönsum. Lagasetningunni virðist þó ekki hafa verið haldið til streitu.

Af mannöpunum eru simpansar skyldastir okkur: erfðarannsóknir hafa leitt í ljós að 95% af erfðaefni mannfólks og simpansa er það sama. Þau sem berjast fyrir réttindum mannapa eru fljót að benda á að talan er hærri, eða um 99%, sé aðeins litið til þess virka erfðaefnis sem getur af sér prótín.
Eru simpansar eins lags menn?
Mannfólk og simpansar eru nógu skyld til að sú spurning hefur lengi verið uppi hvort tegundirnar geti eignast sameiginlegt afkvæmi. Rússneski líffræðingurinn Ilya Ivanovich Ivanov gerði tilraunir til þess, frá um 1910 til um 1930, að ala afkvæmi manneskju og simpansa, en án árangurs, það vitað sé. Ivanov dó í útlegð. Sögusagnir eru til af hliðstæðum tilraunum í öðrum löndum síðan, en engin þeirra telst staðfest.
Flokkunarfræðilega tilheyra átta tegundir mannætt, að meðtöldu okkur mannfólki: tvær tegundir af górillum, þrjár af órangútan-öpum, simpansar og bónóbó-apar. Af mannöpunum eru simpansar skyldastir okkur: erfðarannsóknir hafa leitt í ljós að 95% af erfðaefni mannfólks og simpansa er það sama. Þau sem berjast fyrir réttindum mannapa eru fljót að benda á að talan er hærri, eða um 99%, sé aðeins litið til þess virka erfðaefnis sem getur af sér prótín. Aðeins ein núlifandi tegund þessarar ættar telst hins vegar til ættkvíslarinnar Homo. Það erum við.

Ilya Ivanovich Ivanov, 1870–1932, gerði gerði tilraunir til að búa til afkvæmi manneskju og simpansa.
Frammi fyrir valinu sem leiðbeinandi Jane Goodall setti fram í símskeytinu fræga hefur hópur vísindamanna tekið þá afstöðu að breyta skuli flokkunarfræðinni, og að simpansar og bónóbó-apar ættu með réttu ekki aðeins að teljast til mannættar, heldur til ættkvíslarinnar Homo. Þannig yrði Homo sapiens ekki lengur eina núlifandi manntegundin, heldur yrði þar einnig að finna Homo troglodytes – simpansa, sem teldust þá simpansa-menn frekar en simpansa-apar og Homo paniscus – bónóbóapa sem teldust þar með bónóbómenn.
Sami skyldleiki og upphafsmenn GAP benda á sem rök fyrir réttindum mannapa er auðvitað ástæða þess að þeir, einkum þó simpansar, voru til að byrja með eftirsótt tilraunadýr: sú hugmynd, til dæmis, að ýmis lyf sé ekki hægt að fullprófa á dýrum með minni skyldleika við mannfólk en simpansar hafa. Þegar spænska þingið samþykkti að vinna að réttindaskrá mannapa andmæltu biskupar kaþólsku kirkjunnar, sem sögðu hugmyndina vera til þess fallna að grafa undan siðferðilegri sérstöðu mannfólks. En klerkarnir eru alls ekki einir á ferð. Colin Blakemore, taugalíffræðingur við Oxford-háskóla, var yfirmaður læknisrannsóknaráðs Bretlands til ársins 2007. Hann sagðist ánægður með að dregið hafi úr þörfinni á að nota mannapa sem tilraunadýr og hlynntur því að draga enn úr slíkri notkun. Eftir sem áður fullyrðir hann að ef alvarleg farsótt brytist út sem gerði tilraunir á nýjum lyfjum aðkallandi, gæti á nýjan leik orðið brýnt að nota mannapa til þeirra tilrauna sem ekki þykir siðferðilega verjandi að gera á mannfólki. Einu skýru siðferðilegu mörkin sem hægt sé að standa vörð um liggi á milli mannfólks og annarra tegunda.