Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvers vegna er lundinn að hverfa? spyr New York Times

$
0
0

Ferðamönnum fækkar, flugfélögin hníga til jarðar, makríllinn flýr til Noregs — og á fimmtudag birti bandaríska dagblaðið New York Times ítarlega umfjöllun undir fyrirsögninni: Hvers vegna er lundinn að hverfa?

Í greininni segir að lundum hafi fækkað stöðugt frá því í upphafi aldar, bæði á Íslandi og öðrum heimahögum þeirra á Atlantshafi. Veiði á fuglinum sjálfum, mengun og ofveiði fiskstofna sem lundinn nærist á, eru allt sagðir mögulegir orsakavaldar – en vísindamenn séu telji eina breytu enn skipta verulegu máli: hnatthlýnun.

Dr. Annette Fayet klædd felulitum, við rannsóknir.

Dr. Annette Fayet klædd felulitum, við rannsóknir.

Á alþjóðlegum válista frá 2015

Samkvæmt talningum hefur lundum á Íslandi fækkað um fjórðung frá árinu 2002, úr 7 milljónum í um 5,4 milljónir nú. Árið 2015 var fuglinn skráður meðal „viðkvæmra“ tegunda á alþjóðlegum verndarlista, sem þýðir að nokkur hætta er talin á útrýmingu fuglsins í villtri náttúru.

Dr. Erpur Snær Hansen, sviðsstjóri vistfræðirannsókna við Náttúrufræðistofu Suðurlands, starfar með Dr. Annette Fayet, líffræðingi, að rannsóknarverkefni á vegum Oxford háskóla, við að fylgjast með fjórum varpstöðvum lunda: tveimur á Íslandi, einni í Wales og einni í Noregi. Blaðamaður New York Times fylgdist með þeim að störfum á Grímsey, við talningu og aðrar athuganir.

Dr. Fayet segir að eftirlætisfæða lundanna séu sandsíli, sem hann fyllir gogg sinn af til að færa ungviði sínu, eins og flestir þekkja af ljósmyndum ef ekki af eigin kynnum við fuglinn. Marsíli og trönusíli koma hérumbil í sama stað niður. Sandsílum fer nú fækkandi, eins og nokkuð hefur verið fjallað um. Sandsílastofnuninn við Suðurland hrundi árið 2005. „Nýliðun sandsílis hefur meira og minna brugðist síðan þá,“ segir á vef Náttúruminjasafns Íslands, og ennfremur að ekkert bendi til að það sé að breytast. Þá hefur lundavarp misfarist síðustu ár í fuglabjörgum Færeyja og er það einnig rakið til ætisskorts.

Umfjöllun New York Times prýða veglegar ljósmyndir. Hér má sjá Erp Snæ Hansen og félega að störfum á Papey.

Umfjöllun New York Times prýða veglegar ljósmyndir. Hér má sjá Erp Snæ Hansen og félega að störfum á Papey.

Ýktari hitasveiflur valda sandsílahruni

Erpur Snær hefur áður fjallað um efnið og greinir blaðamanni New York Times frá 30–35 ára löngum hitasveiflum sem verða nokkuð taktfast í Atlantshafi. Síðasta kuldaskeið hafi staðið frá 1965 til 1995. Hlýindaskeiðið nú sé aftur á móti einni gráðu heitara en að jafnaði er gert ráð fyrir. Það virðist ef til vill ekki mikill munur, en hann hafi geigvænlegar afleiðingar fyrir sandsílin. Vaxtarhraði þeirra snarbreytist með hitanum og um leið geta þeirra til að þrauka gegnum veturinn.

Samkvæmt mælingum teymisins léttast um þessar mundir um 40 prósent lundaunga, þegar þeir ættu að öllu jöfnu að þyngjast um leið og þeir vaxa. Þetta sé til marks um að fullorðnir lundar finni ekki næga fæðu til að næra bæði sig og ungana. Lundarnir virðast vera vel versaðir í öryggisviðmiðum allrar flugumferðar, og bjarga sjálfum sér áður en þeir hjálpa öðrum: ungarnir svelta.

Enn eru milljónir lunda til staðar, hefur blaðamaður eftir Erpi Snæ, en fjöldinn á varpstöðvunum blekki, fuglarnir séu langlífir og því sjái maður stofninn ekki hrynja á augabragði. Til lengri tíma litið, aftur á móti, sé staða hans ekki sjálfbær.

Lundi á flugi með sandsíli. Ljósmynd, cc: Richard Towell.

Lundi á flugi með sandsíli. Ljósmynd, cc: Richard Towell.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283