Ríki Evrópusambandsins munu fella niður sumartíma, eftir að viðamikil könnun leiddi í ljós að meirihluti íbúa álfunnar vilja heldur hafa klukkur sínar óbreyttar milli árstíða. Þetta tilkynnti Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB á föstudag. Það sem nú er sumartími mun þá gilda allt árið um kring.
Könnunin fór fram frá 4. júlí til 16. ágúst nú í sumar, lungann úr hitabylgjunni sem þá reið yfir Evrópu. 4,6 milljón manns svöruðu könnuninni. Hún var ætluð íbúum allra landa ESB en um 3 milljónir þeirra sem svöruðu reyndust Þjóðverjar.

Rómverjar til forna voru fyrstir til að stilla klukkur í samræmi við árstíðir: vatnsklukkur þeirra studdust við mislangar klukkustundir eftir mánuðum, og voru klukkustundirnar lengstar þegar dagur var lengstur, en styttust yfir veturinn. Heimild og skýringarmynd: W.
Juncker sagði framkvæmdastjórnina munu taka formlega ákvörðun um málið á fundi sínum seinna sama föstudag. Ekki kom fram hvenær ákvörðunin mun taka gildi.