Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, virðist vera aðsópsmestur ráðherra Vinstri grænna í núverandi ríkisstjórn, ef marka má samantekt flokksis á þeim málum sem hann hefur náð í gegn í ríkisstjórnarsamstarfinu. Guðmundur Ingi er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem ekki situr á þingi.
Vinstri græn sendu fjölmiðlum ábendingu um lista sem flokkurinn hefur tekið saman yfir þau mál sem hann hefur komið í verk það sem af er kjörtímabilinu. Tilefnið er haustfagnaður VG sem haldinn var á fimmtudagskvöld.
Á listanum eru talin upp 50 efnisatriði. Af þeim eru 17 atriði umhverfismál.
Umhverfismál: 17
Fjárframlög til umhverfismála hafa hækkað um 35%;
kolefnisgjald hefur hækkað um 50% og frekari hækkanir boðaðar;
rannsókn er hafin á efnahagslegum áhrifum 11 friðlýstra svæða;
Loftslagsráð var skipað og hóf störf í júní;
þverpólitísk nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðar hefur verið stofnuð;
fjármagni hefur verið veitt í endurheimt votlendis;
verkefnastjórn sjö ráðuneyta vinnur að „viðamikilli aðgerðaáætlun í loftslagsmálum“;
samþykkt hefur verið „stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða svo vernda megi náttúru landsins … gegn ágangi ferðamanna“;
vinna er hafin að mótun aðgerðaáætlunar um orkuskipti í íslenskum höfnum;
Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið tilnefndur á heimsminjaskrá UNESCO;
ný byggingareglugerð gerir ráð fyrir tengibúnaði fyrir hleðslu rafbíla við hvert bílastæði nýs íbúðarhúsnæðis;
ný reglugerð um vegi í náttúru Íslands krefst athugunar á umhverfisáhrifum aksturs um hvern veg;
ný lög voru samþykkt um gerð skipulags á haf- og strandsvæðum;
lögum var breytt þannig að kæra má athafnir og athafnaleysi stjórnvalda vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda;
aðgerðaáætlun hefur verið sett saman um framfylgd Árósasamningsins um aðgengi almennings að upplýsingum um umhverfismál;
leitað hefur verið leiða til að draga úr og hætta notkun svartolíu við strendur Íslands;
og loks hefur Náttúruminjasafn styrkt til sýningarhalds.
Jafnrétti, kjaramál, stéttabarátta: 17 mál
Til samanburðar má telja fimm mál á skránni til jafnréttismála:
Stjórnvöld tvöfölduðu framlög hins opinbera til Samtakanna 78;
fullgiltu Istanbúl-samninginn um kynbundið ofbeldi;
fullfjármögnuðu aðgerðaráætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota;
samþykktu lög um bann við allri mismunun á vinnumarkaði;
og „settu jafnréttismálin á dagskrá í alþjóðaviðskiptum“.
Mál sem snúa beint að efnislegum kjörum fólks eru alls 11. Þar af eru sjö þegar orðnar breytingar, sem kalla má áþreifanlegar, en þrjú atriði af öðrum toga. Meðal orðinna breytinga eru:
hækkað frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna;
hækkun atvinnuleysisbóta;
hækkun greiðsla úr ábyrgðasjóði launa;
hækkun heimilisuppbótar örorkulífeyrisþega;
hækkun á hámarksgreiðslum í fæðingarorlofi;
auk þess sem samþykkt voru lög um keðjuábyrgð til að stemma stigu við undirboðum starfsmannaleiga og annarri mögulegri misnotkun á þeirra vegum. Aldraðir og öryrkjar greiða nú minna vegna tannlækninga en fyrr. Þá hefur úthlutunarreglum LÍN verið breytt. Ekki er nánar tilgreint í hverju breytingarnar hafa falist, nema að flóttafólk hefur nú í fyrsta sinn aðgang að framfærslulánum.
Við þetta bætast skýrslur, fundir og áform:
nýbirt skýrsla Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála;
fyrirhuguð skýrsla UNICEF um efnislega stöðu barna á Íslandi;
og fundaröð stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins.
Að öllu samanlögðu má þannig telja 11 mál á haustfagnaðarlistanum til kjaramála.
Því til viðbótar varðar eitt mál réttindi öryrkja, en það er lögfesting notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.
Heilbrigði, húsnæði, tækni og menning: 10 mál
Sex atriði á listanum tilheyra heilbrigðismálum:
11% hækkun fjárframlaga til heilbrigðismála;
fullfjármögnuð geðheilbrigðisáætlun;
lög um ætlað samþykki fyrir líffæragjöf;
undirbúningur að því að veita aukna göngudeildarþjónustu við Landspítala;
og stofnun Þróunarmiðstöðvar heilsugæslu til að auka samstarfs heilsugæslustöðva, auk þess sem kynnt hefur verið „áætlun um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma“.
Eitt atriði á listanum snertir húsnæðismál: stofnstyrkir til byggingar félagslegs leiguhúsnæðis munu hækka um 800 milljónir á næsta ári, og er gert ráð fyrir slíkum styrkjum til byggingar allt að 300 félagslegra leiguíbúða árlega.
Þrír þættir snerta tækniþróun: fjármagn hefur verið tryggt til að ljúka ljósleiðaravæðingu Íslands árið 2020. Þar af var 450 milljónum króna veitt til verkefnisins eftir að fjárlög voru samþykkt. Innviðauppbygging gæti þetta líka heitið. Hin tæknimálin tvö snúa um leið að íslenskri tungu og mætti raunar allt eins flokka sem menningarmálin á listanum: Máltækniáætlun hefur í fyrsta sinn verið fullfjármögnuð; og ríkisstjórnin hefur gert samstarfssamning við háskólana um meistaranám í máltækni.
Innviðir, stjórnsýsla og mannréttindi: 6 mál
Stærsti þátturinn í uppbyggingu innviða eru áform um fjárfestingu í samgönguinnviðum fyrir 124 milljarða á næstu fimm árum. Þá hefur verið kynnt áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum, með áherslu á friðlýst svæði. Hér verður áætlunin talin til uppbyggingar innviða, þó að snerting hennar við umhverfismál blasi einnig við.
Tvö mál teljast til bættrar stjórnsýslu: opnun vefsins Samráðsgátt til að kynna mál ráðuneyta og ferli þeirra fyrir almenningi, og ný lög um endurnot upplýsinga.
Þrjú mál snerta loks við mannúðar- og mannréttindabaráttu utanlands: 75 milljónir hafa verið veittar til mannúðaraðstoðar á þremur neyðarsvæðum og 50 milljónir til mannúðarverkefna Rauða krossins vegna Sýrlands. Þá var Ísland kjörið í Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna.