Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hneisan

$
0
0

Í gær, fimmtudaginn 6. september, var hálft ár liðið frá því fyrsta fréttin barst af fráfalli Hauks Hilmarssonar í Sýrlandi.

Íslensk lögregluyfirvöld fara enn með mál Hauks sem mannshvarf. Hann hefur ekki komið í leitirnar, lífs eða liðinn, né hafa komið fram vitni að andláti hans. Allt sem er vitað er að hann hvarf á átakasvæði. Annað er leitt af líkum.

Íslensk stjórnvöld, bæði Forsætisráðuneytið og Utanríkisráðuneytið, hafa fyrir löngu komið sér upp ákveðnum starfsvenjum til að bregðast við fyrirspurnum um málið: fjölmiðlafulltrúar ráðuneytanna eru látnir endurtaka fyrri staðhæfingar um dugnað ráðuneytanna án þess þó að svara hreint út spurningum á við hvort íslensk yfirvöld sjái fyrir sér að spyrja tyrknesk yfirvöld erfiðra spurninga. Efst þessara spurninga væri: Hvar er Haukur?

Tyrkland fer enn með yfirráð í Afrin, því svæði í norðurhluta Sýrlands þar sem Haukur hvarf, á meðan árásir tyrkneska hersins stóðu þar yfir.

Svarleysi, hugleysi og andleysi einkenna framferði íslenskra stjórnvalda í málinu. Þegar þrír mánuðir voru liðnir frá fréttinni vondu, þann 6. júní, birti Kvennablaðið grein eftir Evu Hauksdóttur undir yfirskriftinni „Eins og við séum að tala um sorphirðu“.

Í byrjun júlí fjölluðum við um aðgerð Hauks Hilmarssonar og Jason Slade sumarið 2008, þegar þeir hlupu inn á flugbraut í Keflavík til að forða kenýskum manni, Paul Ramses, frá ólögmætri brottvísun. Aðgerðin varð upphaf þeirrar réttindabaráttu flóttafólks sem enn fer fram í landinu.

Þann 6. ágúst, þegar fimm mánuðir voru liðnir frá fréttinni, leituðum við svara frá Utanríkisráðuneytinu, vegna nýrrar skýrslu Amnesty International um mannshvörf og pyntingar í Afrin. Ráðuneytið sagðist ekki sjá fram á að bregðast við skýrslunni, það sagðist enn treysta upplýsingagjöf tyrkneskra yfirvalda í máli Hauks, það sagði að krafa um aðgang Rauða krossins að svæðinu, meðal annars til að leita líkamsleifa fallinna, myndi draga úr trúverðugleika Rauða krossins. Loks sagðist ráðuneytið myndu halda áfram að „tala fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðalögum í Tyrklandi og annars staðar …“

Íslenskt málsamfélag þyrfti helst að koma sér saman um nothæfa, lipra og stöðuga þýðingu á hugtakinu cynical á næstunni. Þetta er kaldranalegt, kaldrifjað, kaldhæðið og kaldlynt, allt í senn. Það er næðingur hérna inni. Það er ekki hægt að þykjast hafa áhuga á frekari viðbrögðum frá ráðuneytunum. Þau hirða ekki um þetta mál. Það er hneisa. Í tilfelli Utanríkisráðueytisins er hneisan fyrirsjáanleg. Ekki afsakanleg en pólitískt alveg fyrirsjáanleg. En forsætisráðherra er formaður flokks sem baðar sig í ljóma þeirrar róttækni sem Haukur Hilmarsson lagði lífið í sölurnar fyrir. Í því felst annars konar hneisa. Þykkari.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283