Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ber að neðan? Nei, þetta er bara Ingunn

$
0
0

Flestir sem þekkja mig vita hversu óskaplega utan við mig ég get orðið þegar kemur að klæðnaði. Ég hef gerst sek um að fara á inniskónum í búðina og jafnvel brjóstahaldaralaus, sem væri ábyggilega bara ágætt ef settið væri eitthvað til að stæra sig af. Eitthvað í anda Pamelu Anderson eða Jordi, en því fer fjarri.

Eftir þrjú börn er þetta nánast lögreglumál en þar sem ég bý í samfélagi þar sem flestir þekkja mig þá hefur þetta sloppið hingað til og sennilega ríkir hér sátt um að líta bara í hina áttina þegar ég beygi mig eftir rjómanum í mjólkurkælinum í Bónus. Eða ég vona það allavega. Ég er konan sem á crocks-skó og flíspeysu og sé bara fjandakornið ekkert athugavert við að nota þessar ágætu flíkur, mér líður jú vel í þeim þó að sexapíllinn sé við frostgráðu, en maður er kannski ekkert að leitast sérstaklega eftir heitu stefnumóti kl 4 í leikskólanum þegar hryðjuverkamennirnir eru sóttir þar eftir dagsdvölina.

Ég hef mætt berfætt í veislur, ógreidd og jafnvel gerst svo óviðeigandi að sofna í þeim miðjum ef góður sófi er fyrir hendi.

Það hafa hins vegar komið upp tilvik sem eru alveg á mörkunum og þau varða pilsin mín. Ég hef ekki gengið í buxum í hartnær 7 ár. Þetta er einhver þróun í fatavali mínu sem ég tengi við vaxandi rass og vínarbrauðsbelg, en þetta tvennt lítur snöggt um skár í pilsi en pakkað inn í gallabuxur með lágri íssetu. Ég hef bara engan áhuga á að hliðarspikið detti alltaf út um leið og ég sest eða beygi mig. Samfélagið er sammála mér þar.

Greinarhöfundur tekur fram að þessi ljósmynd er EKKI af henni.

Greinarhöfundur tekur fram að meðfylgjandi ljósmyndir eru EKKI af henni.

En aftur að pilsunum. Með auknu álagi sem fylgir því að vera með tvö börn, í tveimur vinnum og um tíma í fullu námi þá hlýtur eitthvað að gleymast. Ég vann á sjúkrahúsinu fyrir nokkrum árum og var að drífa mig á kvöldvakt einhverju sinnið og var búin að setja á mig varalit, maskara, troða mér í sokkabuxur og klína gellusólgleraugunum á smettið. Dreif mig út í bíl og keyrði glaðbeitt á vakt.

Þegar ég hoppaði út úr bílnum þá tók ég eftir því að það blés heldur hressilega um mig miðja, en velti því ekkert frekar fyrir mér heldur skondraði inn. Á móti mér tóku hressir piltar á níræðisaldri og annar þeirra missti stafinn í gólfið þegar ég æddi inn og ég er ekki frá því að fölsku tennurnar í hinum hafi færst fram um nokkra sentímetra þar sem kjálkinn datt aðeins niður.

„HÆ STRÁKAR, ERU ÞIÐ EKKI HRESSIR?“ sagði ég og brunaði fram hjá þeim niður í fataklefa. Þegar þangað var komið leit ég í spegil og þá blasti það við mér. EKKERT PILS og allra minnstu nærbuxurnar sem fundust á Héraði fyrir minn þyngdarflokk blöstu við. Eldrauð af skömm læddist ég upp en vinir mínir biðu á stigapallinum og glottu við tönn (eða fölskutönn) þegar ég skaut mér inn á vakt. Ótrúlegt hvað sjónin í þeim var góð miðað við allt annað.

Í annað sinnið æddi ég með brjálaðan miðjupiltinn í sund og var búin að heilsa öllum hress og kát í forstofunni, í afgreiðslunni og á ganginum þegar ég fattaði að ég var bara í leggings og peysu. Ekkert pils. Sem betur fer var pilturinn ekki nema 5 ára og kunni því ekki enn þá að skammast sín fyrir utanveltu móður sína. Á leiðinni upp úr lét ég bara eins og ekkert væri eða ég væri hreinlega trendsetter og þetta væri bara eðlilegasti hlutur í heimi. Sem það er ekki nema þú sért 45 kíló og 14 ára. Ekki 75 kg plús og 32 ára.

Í þriðja sinnið var ég komin í tímaþröng með verkefni fyrir skólann og var mætt á námssetrið í síðri kápu, henti öllu frá mér, og fór inn í eldhús til þess að fá mér kaffi. ALMÁTTUGUR. Ég var pilslaus EINU SINNI ENN og í þetta sinn í götóttri teygjubrók OG ENGUM NÆRBUXUM. Ég lærði sem eftir lifði kvelds í kápunni og svitinn rann niður háls og herðar. Enginn sem varð vitni að þessu hefur haft brjóst í sér að ræða þessa skömm og þarna komum við aftur inn á augljósa samfélagslega samþykkt fyrir ástandi mínu.

Og að lokum. Ég skúra einnig á téðu námssetri og snemmendis í vetur var ég þar mætt til þess að þrífa og rakst á nokkra nema í einni stofunni. Þau spurðu mig um eitthvað og ég ákvað að svara í löööngu máli til þess að láta akademískt ljós mitt skína og setti hendur á mjaðmir og allt til þess að sýna þeim með líkamsstöðu minni hversu frábær og örugg ég væri. Eftir að samtali lauk snaraðist ég inn á baðherbergi og þar blasti við í speglinum tætt og úfin kona, í grárri ullarsíðbrók með tippaklauf, PILSLAUS MEÐ ÖLLU OG BRJÓSTAHALDARALAUS að auki. Ég lagði frá mér skúringaskaftið og fór heim.

Þetta er orðinn brandari hérna heima. Ólíklegasta fólk spyr mig hvort ég sé í pilsi og stundum fæ ég nett taugaáfall og athuga svo lítið beri á hvort ég sé viðeigandi klædd, á fundum, í búðinni og í vinnunni. Ég hef nokkrum sinnum snúið við í dyrunum, jafnvel á bílnum til þess að fara í pils og það verður þannig líklega áfram.

Ég er bara svakalega heppin hvað Egilsstaðabúar hafa mikla þolinmæði fyrir pilslausu konunni, ég er altént ekki ber að neðan ;)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283