Tímaritið MAN er komið út og að vanda stútfullt af frábæru efni. Kvennablaðið fylgist grannt með stallsystrum sínum í blaðaútgáfu og hrósið fær Björk Eiðsdóttir ritstjóri og samstarfsfólk hennar fyrir vandað og metnaðarfullt tímarit. Það er margt áhugavert í blaðinu þar á meðal löng grein um eignarhald fjölmiðla sem áhugavert er að lesa. Einnig er í MAN ítarlegt viðtal við leik-og söngkonuna Bryndísi Ásmundsdóttur en Bryndís prýðir forsíðu blaðsins.
„ÞAÐ ER ÓKEI AÐ VERA EKKI ÓKEI!“
Bryndís Ásmundsdóttir stendur á tímamótum eftir að hafa slitið sambandi við barnsföður sinn Fjölni Þorgeirsson sem hófst fyrir um 3 árum. Bryndís segir einnig frá ævintýrum sínum í Missouri Bandaríkjunum þar sem hún söng í djasssýningu kornung, erfiðu sambandi sínu við móður sína, þegar hún varð barnshafandi eftir einnar nætur gaman og hélt að lífið væri búið en það reyndist aldeilis ekki. Einnig talar Bryndís veikindi föður síns í viðtalinu. Faðir Bryndísar hefur glímt við geðhvarfasýki í um 20 ár en hún segir hann þó vera sinn besta vin: „Þetta er erfiður og lífshættulegur sjúkdómur og erfitt að finna réttu lyfin því eðlilega vill maður halda niðri hinum öfgafullu sveiflum sem fylgja sjúkdómnum en þá er hættan á að manneskjan verði alveg flöt og eigi erfitt með að upplifa tilfinningar sínar. Faðir minn er þó besti vinur minn og honum gengur vel í dag og á góða konu sem styður hann,“ útskýrir Bryndís.
„PERRAÆTTIN ÚR DÖLUNUM ER ALRÆMD“
Í nýjasta tölublaði MAN er einnig opinskátt viðtal við Sveinbjörgu Ingu Lind sem er 29 ára Dalamær sem býr í Þorlákshöfn. Sveinbjörg segist vera gráðugata tegund kynveru sem til er, sadómasókísk, alkynhneigð og fjölelskandi sem þýðir að allir í heiminum eru möguleigir leikfélagar. Í viðtalinu segir hún m.a. frá svokölluðu „munchi“ sem að hennar sögn er nafn yfir þá fundi þegar hópur af perrum hittist og spjallar saman um allt mögulegt: kynlíf, leiki veðrið eða íþróttir.
„Fólk er ekkert að detta í sleik úti í horni og fara heim saman. Ef þú hittir manneskju á munchi eru svo ákveðnar líkur á því að viðkomandi þekki til þín eða sé náskyldur. Það hefur oft komið fyrir mig. Perraættin úr Dölunum er alræmd!“
EKKI HÆGT AÐ FRYSTA EGG Á ÍSLANDI
Í nýjasta tölublaði MAN er líka að finna viðtal við Snorra Einarssson kvensjúkdóma- og ófrjósemislækni hjá Art Medica. Hér á landi hefur aldri frumbyrja hækkað líkt og annars staðar jafnvel þó íslenskar konur eignist að meðaltali fyrsta barn tveimur árum fyrr en kynsystur þeirra í Evrópu. Árið 1983 var meðaldur frumbyrja hér á landi 22 ára en í dag er hann 27 ára. Barneignum hefur því seinkað og mætti segja að konur eldist hægar en áður, þ.e. séu líkamlega hraustari lengur en eggjabúskapurinn aftur á móti dalar í kringum 35 ára aldurinn. Því gæti verið góð hugmynd að hafa fryst egg þegar frjósemin var í hámarki. Það er aftur á móti ekki mögulegt hér á landi þar sem tæknin er enn ekki til staðar hér þó hana sé að finna í nágrannalöndunum. „Þetta er tækni sem hefur þróast á síðustu árum og það eru ekki nema 2-3 ár síðan þetta fór að standa til boða á t.d. Norðurlöndunum,“ útskýrir Snorri.
Í blaði mánaðarins er líka að finna geðveikar uppskriftir meðal annars eftir okkar ástsælu Nönnu Rögnvaldardóttur. Þetta er ekta sumar og helgarlesning!