Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Draumar rætast ekki bara heldur dafna og þroskast

$
0
0

Sól í Tógó eru frjáls félagasamtök sem starfa í Tógó í Vestur-Afríku. Verkefnismarkmið Sól í Tógó eru tvö. Annars vegar að byggja heimili fyrir varnarlaus börn í Glidji í Tógó þar sem þau geta notið skjóls, umhyggju og menntunar. Hins vegar að starfsfólk heimilisins hljóti starfsþjálfun og og öðlist þekkingu á aðferðum Hjallastefnunnar á Laufásborg, sem og innleiðingu og framkvæmd stefnunnar í Tógó.

Gunnar Smári Egilsson og Alda Lóa leifsdóttir ættleiddu litla stúlku frá Tógó fyrir nokkrum árum og hér birtum við grein eftir Gunnar Smára sem fjallar um kynni þeirra hjóna af systur Victorien og hvernig félagasmtökin Sól í Tógó urðu til. Um þessar mundir stendur Sól í Tógó fyrir sölu á varningi framleiddum í Tógó til styrktar þeirri vinnu sem fram fer á vegum samtakanna. Við hvetjum lesendur eindregið til að fara inn á þennan hlekk og skoða varning þann sem er til sölu.

Systir Victorien

Systir Victorien

Draumar rætast ekki bara heldur dafna og þroskast

 

Við kynntumst systur Victorien þegar við ættleiddum dóttur okkar frá Tógó. Victó hafði tekið að sér litla munaðarlausa stúlku fjórtán árum fyrr og síðan aðra og enn aðra. Þegar við hittum hana var hún eiginlega komin með heilt barnaheimli; nema hvað hún var bara með börnin en ekkert heimili. Victó bjó með börnin undir risi á barnaskóla sem var í reisulegri byggingu frá þeim tíma að Tógóland var nýlenda Þjóðverja; byggingin var reisuleg en í mikilli niðurníðslu. Eldri börnin sváfu í öðrum enda hússins; sum á hálmdýnum en önnur á alls engum dýnum. Yngri börnin sváfu í hinum endanum uppí hjá Victó og tveimur nunnum öðrum sem kenndu við skólann. Victó deildi rúmi með fimm hvítvoðungum. Og skiljanlega svaf hún lítið og var oft þreytuleg og áhyggjufull. Hún vissi sjaldnast að morgni hvort hún ætti mat að gefa börnunum um kvöldið.

Screen Shot 2014-06-09 at 9.21.01 PM

Það er auðvelt að segja svona ástand vonlaust. Það má segja að það sé viðurkennd nafngift á þeirri stöðu sem Victó og börnin voru í; þau voru í vonlausri stöðu. Þegar Victó settist niður með okkur og sagði frá draumum sínum kom hins vegar í ljós að það var einmitt vonin sem gaf lífi Victó og barnanna merkingu. Hún teiknaði drauminn sinn á blað fyrir okkur. Þetta var yfirlitsmynd af afgirtri lóð með íveruhúsi fyrir börnin, kennslustofu þar skammt frá og pavillon; hringlaga þak á súlum sem gefur skugga frá sólinni fyrir samverustundir. Kringum húsin teiknaði Victó ávaxtatré og matjurtagarð; í einu horninu var kofi með hænum sem gáfu börnunum egg.

Við gátum ekki fært Victó þennan draum. En við gátum ekki annað en heillast af þessari sterku konu á bak við þreytuna og voninni í erfiðleikunum. Við gáfum eldri börnunum dýnur, yngri börnunum vöggur og lagfærðum eldhúsið og flísalögðum matsalinn og nokkur herbergi til að gera húsakynnin skaplegri. Victó átti líka draum um að kenna eldri börnunum saumaskap og við hjálpuðum henni til að opna saumaverkstæði. Og hárgreiðslustofu vegna þess að ein af stúlkunum vildi verða hárgreiðslukona.

IMG_7913

Þegar við fórum heim til Íslands lofuðum við Victó að segja fólki frá starfi hennar og bjóða því að styrkja hana. Við buðum líka Victó heim og kynntum hana fyrir Möttu og Jensu á Laufásborg og fleira góðu fólki. Hægt og bítandi fjölgaði þeim sem vildu styðju þessa konu til að búa varnarlausum börnum gott heimili og tryggja þeim menntun og gott vegarnesti út í lífið. Það fólk sem stendur að baki starfinu með stuðningi sínum myndar samtökin Sól í Tógó. Sumt af því hefur farið út til Tógó og kynnst Victó, börnunum og því fólki sem sinnir þeim.

Sól í Tógó hefur á undanförnum árum tekist að láta drauminn hennar Victó rætast að hluta. Hún er nú flutt með yngstu börnin í hús á afgirtri lóð með aldintrjám og matjurtagarði. Í sumar verður tekið í notkun nýtt hús fyrir eldri börnin. Það var byggt með stuðningi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og með afrakstri uppboðs á myndverkum sem íslenskir myndlistarmenn gáfu börnunum. Skammt frá heimilinu hefur Victó hafið eggjabúskap og kanínu- og geitarækt til að gera heimilið frekar sjálfum sér nægt um mat.

IMG_8258

Eftir því sem samstarfið hefur þroskast og starfið á heimilinu eflst hefur draumurinn líka þróast og breyst. Hann þokast áfram eftir því sem meiri árangur næst. Það er enn sem fyrr markmið að búa varnarlausum börnum eins gott heimili og kostur er; en við teljum það ekki síður mikilvægt að byggja upp stuðning við fjölskyldur svo þær geti haldið börnunum hjá sér og þau þurfi ekki að búa á heimilinu alla sína æsku. Við uppbygging vöggustofu verður eitt af markmiðunum að sem flest barnanna snúi aftur til fjölskyldna sinna eða eignist nýjar fjölskyldur. Rekstur leikskólans miðar að því að sem flest börn fari heim til fjölskyldna sinna á kvöldin eða um helgar, foreldris eða fjarskyldari ættmenna. Til þess þarf að styðja fjölskyldurnar en slíkt þarf ekki að vera dýrara en að halda börnunum á heimilinu.

En það er auðvitað ekki hægt að leysa vanda allra barnanna með þessum hætti. Mörg þeirra eru án fjölskyldutengsla og ef þau fá ekki nýja fjölskyldu munu þau búa og alast upp á heimilinu. Okkur ber að sinna þessum börnum eins vel og við getum og kunnum þótt okkur takist vonandi með tímanum að koma í veg fyrir að fleiri börn þurfi að alast upp á munaðarleysingjaheimili.

Heimilið hennar Victó er því orðið heimili fyrir varnarlaus börn sem vill breytast í vöggustofu, leikskóla og skóla með stuðningskerfi fyrir fjölskyldur í erfiðleikum. Og eftir því sem starfið teygir sig meira út í samfélagið og út fyrir afgirtu lóðina því fjölbreytilegra verður það. Sól í Tógó stefnir að því að efla menntun og heilsugæslu í nágrenni heimilisins, æskulýðs- og íþróttastarf, ungbarnaeftirlit og mæðraskoðun, fullorðinsfræðslu og sjálfseflingu kvenna. Sól í Tógó vill að heimilið hennar Victó verði miðja samfélagsins í Glidji og styðji fjölskyldurnar þar svo einstaklingarnir geti eflst og dafnað.

Ástæða þess að Sól í Tógó treystir sér til að víkka út starfsemi sína er að reynslan hefur sýnt að samtökin ráða við flókin verkefni. Besta dæmið um það er samvinna Laufásborgar og leikskólans á heimilinu í Glidji. Starfsfólk leikskólans í Glidji hafa komið í starfsnám á Laufásborg og síðan séð um innleiðingu Hjallastefnunnar í Glidji. Starfsfólk Laufásborgar fylgir stefnunni síðan eftir með vikulegum samráðsfundum gegnum skype. Þetta samstarf hefur á skömmum tíma gerbyllt starfinu í Glidji til hins betra og eflt okkur kjark til að ráðast í fleiri svona verkefni.

IMG_7480

Annað dæmi er skákkennsla sem Omar Salama innleiddi á heimilinu. Á skömmum tíma hafa öll börnin lært skák og mörg þeirra náð góðum árangri, ferðast á mót og keppt við börn í öðrum skólum. Ein stúlkan á heimilinu mun í sumar keppa á Olympíuleikum unglinga í Noregi. Svona starf er mikilvægt fyrir öll börn en sérstaklega þau sem búa í samfélögum í mótun og við erfiðar aðstæður.

Sól í Tógó leitar bæði stuðningsfólki við starfið en líka samstarfsaðilum sem treysta sér til að leggja starfinu lið með þekkingu sinni og kunnáttu. Sól í Tógó ætlar sér ekki að verða stofnun með viðamikilli starfsemi heldur fyrst og fremst farvegur fyrir fólk sem vill láta gott af sér leiða. Sól í Tógó hefur byggt upp traust milli fólks í Tógó og á Íslandi og aflað reynslu um hvernig má með skýrum hug og heitu hjarta láta stóra drauma rætast. Á grunni slíkra persónulegra tengsla og sameiginlegra minning um sigra getur fólk látið sér dreyma stærri drauma. Og leyft þeim að dafna.

Gunnar Smári Egilsson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283