Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Happy Holiday

$
0
0

Hann gekk á móti mér eftir Colorado Boulevard daginn fyrir þakkargjörðarhátíðina. Óvenju hávaxinn, stuttklipptur, dökkur á hörund og dökkklæddur. Hann ýtti á undan sér innkaupakörfu með eigum sínum sem geymdar voru í mörgu litlum plastpokum. Þegar við mættumst brosti hann til mín, horfði í augu mín og sagði af stakri hlýju ,,happy holiday” og svo var hann horfinn. Allt í einu var ég blinduð af tárum og ég flýtti mér að þurrka þau í burtu. Hvað kom yfir mig? Jú, aðventan nálgaðist og á þeim tíma er ég alltaf svo hræðilega meyr og allt snertir hjarta mitt. Var það ástæðan? Nei, það var eitthvað heilagt við hina óvæntu kveðju þessa stóra manns. Hann meinti svo innilega það sem hann sagði en ég kyngdi bara og kom ekki upp einu orði.

Ég bý í lítilli og fallegri íbúð hérna í Los Angeles í Kaliforníu ásamt mínum karli og ég nýt þeirra forréttinda að vera í námsleyfi til að endurmennta mig og endurræsa líf mitt með gefandi hætti. Ég er ekki heimilislaus og á þakkargjörðarhátíðinni hitti ég dásamlega samlanda mína og borðaði kalkún með öllu tilheyrandi, – fékk að lifa ,,happy holiday”.

Ég hef séð margt fallegt hér í mannlífinu en líka sorglegar hliðar. Hátíðir eru ekki síst erfiður tími fyrir þau sem eru heimilislaus og utangarðs og það hefur verið sláandi að flytja hingað og sjá aðstæður þeirra sem búa við slík kjör. Í flestum hverfum má sjá fólk sem situr í lörfum og biður gangandi vegfarendur ásjár, líka eldri borgara, sem manni finnst að eigi að vera á fallegum dvalarheimilum að njóta ævikvöldsins. Við nánari athugun kemur í ljós að margt af þessu fólki er ekki í neyslu heldur er með ómeðhöndlaða geðsjúkdóma eða önnur veikindi og ræður ekki við líf sitt. Innan um eru líka hermenn sem koma heim eftir stríðsátök og enda á götunni.

Eitt kvöldið þegar við hjónin vorum á leið heim frá glæsilegu hverfi við Hollywood lá leið okkar undir brú þar sem lágu kassastaflar og drasl en skyndilega sá ég eitthvað hreyfast í hrúgunni og þar kom í ljós manneskja. Þetta voru skýli heimilislausra búin til úr pappakössum og pokum. Maður skynjar ofurmátt fjármagnsins svo glöggt í þessu samfélagi en því virðist vera mjög misskipt. Sem betur fer eru kirkjur, Hjálpræðisherinn og fleiri að veita heimilislausum stuðning og skjól, en það hrekkur skammt og einhver áður óþekktur kuldi læðist að Íslendingnum í stórborginni.

Þá hefur mér verið hugsað heim og fundið til þakklætis fyrir allan þann félagsauð og samstöðu sem tilheyrir íslensku samfélagi. Þótt flestar stofnanir hafi verið tortryggðar og harðlega gagnrýndar á síðustu árum og ýmis konar átök hafi átt sér stað manna í millum erum við ekki búin að missa þann mikla auð sem felst í því að treysta hvert öðru og eiga þjóðfélag þar sem gildir samfélagsleg ábyrgð. En við getum glatað því.

Í erlendum fjölmiðlum hefur mikið verið fjallað um þann sorglega atburð þegar lögreglan varð að grípa til skotvopna til að verja sig í Árbæjarhverfi í Reykjavík. Það sem þykir fréttnæmt er að þetta skuli vera í fyrsta sinn sem slíkur sorgar atburður eigi sér stað í einu landi. Hér rata fregnir af aðgerðum lögreglu af þessu tagi ekki einu sinni í blöðin. Bent er á að heilmikið magn af skotvopnum sé til á Íslandi í eigu almennings þótt aldrei áður hafi lögreglan þurft að fara þessa örvæntingarfullu leið. Hafa menn getið sér til að ástæðan kunni að vera sú að á Íslandi sé meiri jöfnuður en víða annars staðar og ekki mikil spenna á milli stétta borið saman við mörg önnur þróuð ríki. Það er mjög mikilvægt að taka eftir þessu. Við vitum að jöfnuður eykur frið og farsæld í samfélaginu en ójöfnuður dregur úr félagsauði og veldur margvíslegum þjáningum.

Nú nálgast jólin. Saga þeirra fjallar um allt það besta sem við þekkjum – fegurð og ást, vináttu og samstöðu, fæðingu barns og vonarríka framtíð. En leiksvið sögunnar er ójöfnuður og fátækt. Barnið sem fæddist, drengurinn frá Nasaret var vonarstjarna sem barðist fyrir sanngirni milli manna og gagnkvæmri ábyrgð. Hann talaði óttalaust gegn ríkjandi kerfi, valdhroka og misskiptingu. Hann lyfti upp þeim sem samfélagið hafði brotið niður og lagði fram ástarkröfu sem enn bergmálar um heiminn: ,,Elskið hvert annað, eins og ég hef elskað ykkur.” Hann var alltaf frjáls, jafn vel í aðstæðum sem voru óbærilegar. Hann horfðist í augu við ranglætið og hvatti okkur öll til að vera vakandi og virk. Hann stofnaði kirkju sína og fól henni það hlutverk að skapa félagsauð í samfélaginu, heila manneskjur og berjast fyrir friði og réttlæti. Hann átti ekkert þegar hann dó í veraldlegu tilliti nema kyrtil sem hermennirnir köstuðu hlut um, en hann skyldi eftir andleg gæði og gildi sem aldrei deyja. Ástarkrafan hans er eilíf; elskið, elskið, elskið.

Það var málið. Hann sagði þetta með elskandi röddu ,,happy holiday”. Þess vegna snerti þetta svona hjarta mitt.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283