Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sýknaður af ákæru um að nauðga 17 ára stúlku

$
0
0

Þessi pistill er skrifaður fyrir Reykjavík vikublað og birtist í gær 5. júlí. Höfundur er  Ingimar Karl Helgason sem er jafnframt ritstjóri Reykjavík Vikublaðs. Pistillinn er birtur með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

Það er eitthvað rangt við þetta

Karlmaður á þrítugsaldri var í vikunni sýknaður af ákæru um að nauðga 17 ára stúlku á Þjóðhátíð í Eyjum. Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Suðurlands, en málið hefur ekki fengið mikla umfjöllun.

Sakfellingar í nauðgunarmálum eru fáar, fæst slíkra mála rata til dómstólanna og aðeins lítill hluti þeirra er kærður til lögreglu.

Þetta var ekki fyrsti dómur í nauðgunarmáli sem ég hef lesið, en þessi sló mig. Það mátti nefnilega ætla við lesturinn að réttarhöldin hefðu verið yfir stúlkunni en ekki meintum nauðgara.

Í löngu máli er í dómnum fjallað um ástand hennar við atburðinn. Fjallað var um drykkju hennar þetta kvöld, áfengismagn í blóði. Einnig var fjallað um aðstæður hennar, persónu og fortíð. Hvernig hún hefði áður glímt við þunglyndi og farið á BUGL og vangaveltur voru um hvort sú fortíð kynni að skýra líðan hennar eftir nauðgunina. Þá er í dómnum gerð grein fyrir því hvernig áverkar og verkir sem hún gerði grein fyrir á neyðarmótttöku, gætu átt sér aðrar skýringar. Einnig var fjallað um hvernig hún hefði kysst meintan nauðgara eftir að hann hafði löðrungað hana fyrirvaralaust, að sögn til að ná athygli hennar. Á sex stöðum í dómnum er raunar talað um „kinnhest“ eða „léttan kinnhest“.

Ekki var fjallað um meintan nauðgara með líkum hætti og stúlkuna sem kærði. Þess var þó getið að hann væri nú í háskólanámi og ætti von á barni með unnustu sinni.

En það sem einna mesta athygli vakti var í niðurstöðu dómaranna. Þar segir:

Hins vegar verður ekki horft fram hjá því við mat á trúverðugleika framburðar brotaþola að hún taldi í tvígang ástæður til þess í yfirheyrslu hjá lögreglu að taka fram að hún væri að segja satt og rétt frá.

Gefið er í skyn að þetta geri framburðinn ótrúverðugan og endurspeglast í niðurstöðu dómaranna. Í ljósi þess að fæst nauðgunarmál eru kærð eða nauðgarinn sakfelldur, er undarlegt að 17 ára stúlka í uppnámi sé dæmd út frá ummælum af þessu tagi.

Ég hef engar forsendur til þess að meta sekt eða sakleysi í þessu máli. Mér finnst hins vegar magnað að sú sem verður fyrir ofbeldi og kærir skuli í reynd verða sú sem réttað er yfir. Það er eitthvað rangt við þetta.

Það blasir við að það þarf að bæta þetta ferli. Það er ekki í lagi að setja þolendur ofbeldis á sakamannabekk.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283