Sumargleði Stjórnarráðsins heldur áfram, þegar aðrir rembast við að elta „gula ófétið“ um allt land í sumarfríi.
Áður fyrr, lagðist landið á hliðina í 8 vikur, yfir sumartímann. Ekki var hægt að eiga nein vitræn viðskipti við banka eða þjónustufyrirtæki, því viðkomandi sérfræðingur var annaðhvort á leiðinni í frí, í fríi, eða í viku aðlögun úr fríi að vinna úr akút-málum.
Nú keppist sjálft Stjórnarráðið við að kasta gleðibombum út í samfélagið, á meðan allir eru í fríi. Nýjasta bomban úr forsætisráðuneytinu, er atlaga að „fjárans“ eftirlitinu. Lausleg lýsing á skipun vinnuhóps til að útfæra m.a. einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið, verður vart túlkuð sem atlaga af hálfu stjórnvalda, en skipun nefndarinnar og viðtal við formann hennar, vekur upp grunsemdir um raunverulega dagskipun.
Formaður nefndarinnar er reynslubolti í baráttu við „eftirlitið“ og hefur ákveðnar og skýrar skoðanir hvernig eftirlitið getur gert manni lífið leitt, já ……. gríðarlega óhagkvæmt!
Formaðurinn Skúli Sveinsson er lögmaður og átti í bölvuðu basli við FME vegna alvarlegra athugasemda sem gerðar voru við starfshætti hjá fyrirtækinu NordVest Verðbréf, sem nefndur Skúli var framkvæmdastjóri fyrir gullaldarárin 2004 til mars 2008, þegar félagið varð Reykjavík Capital í 95% eigu Sparisjóðs Mýrarsýslu og skipt var um framkvæmdastjóra og stjórn.
Af heimasíðu Fjármálaeftirlitsins þann 4. Júlí 2007;
Það er niðurstaða FME að umgjörð um regluvörslu NordVest Verðbréfa hf. hafi verið ófullnægjandi og fór Fjármálaeftirlitið fram á úrbætur er skyldi vera lokið innan nánar tiltekinna fresta.
Forsætisráðuneytinu þykir við hæfi þegar hæfnisskilyrði í formannstöðu nefndar um skilvirkara eftirlit eru metnar, að ráða fyrrum framkvæmdastjóra NordVest Verðbréfa í þetta starf ?!?
Nú víkur sögu að öðrum lögmanni, Eiríki Jónssyni, (af gefnu tilefni, bið fólk að rugla þessum ekki saman við Eiríkur.Jónsson.is)
Eiríkur var ráðinn prófessor við lagadeild Háskóla Íslands fyrir nokkrum dögum. Doktor Eiríkur Jónsson, vakti verðskuldaða athygli árið 2006 fyrir ágætiseinkunn frá Harvard Háskóla, varði doktorsritgerð sína árið 2011 við Háskóla Íslands og á enn eftir 3 ár í fertugs aldurinn.
Árið 2010 hélt Eiríkur fyrirlestur í Lagadeild Háskóla Íslands með yfirskriftinni: Hvað brást í eftirliti með fjármálamarkaðnum?
Prófessorinn fer yfir meginatriði úr skýrslu RNA sem draga fram það sem úrskeiðis fór í Fjármálaeftirliti og hjá Seðlabankanum í kjölfar hrunsins. Hann var einn af sérfræðingunum sem unnu að gerð skýrslu RNA.
Niðurstaða dr. Eiríks Jónssonar til úrbóta í eftirliti var eftirfarandi:
– Þar skiptir gríðarlegu máli að fólk með reynslu fáist til starfa og haldist í störfum sínum.
– Sama gildir um störf innan Stjórnarráðsins.
– Bæta verður skráningar- og upplýsingakerfi.
Í fyrirlestrinum fór dr. Eiríkur yfir ýmis heimspekileg og víðari sjónarmið sem lesa í þessari PPT útfærslu.
Gerum nú samanburð á lögmönnunum tveimur, Skúla og Eiríki. Sá fyrrnefndi hefur djúpa þekkingu og mikla reynslu við að „eiga við fjárans eftirlitið“ á meðan Eiríkur var að dúxa í Harvard og marka sín framtíðarspor á sviði lögfræði.
Ég hefði ráðið dúxinn til starfa, enda alltaf „svag“ fyrir ígulkerum ótal skólabóka, eins og Stephan G Stephansson Klettafjallaskáld, en ráðning Skúla virkar eins og enn ein meint „gleðibomba“ (lesist langatöng) úr forsætisráðuneytinu.