Bandaríski rithöfundurinn Robin Korth skrifaði þessa grein sem birtist í Huffington Post þann 12. júlí s.l. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi höfundar og er hér í þýðingu Magneu J. Matthíasdóttur. Ljósmyndir eru úr einkasafni Robin Korth.
Ég stóð nakin fyrir framan skápshurðirnar með ljósin kveikt og herti upp hugann. Ég andaði djúpt að mér og hagræddi speglunum þannig að ég sæi mig alla. Ég vann meðvitað að því að uppræta sjálfsmyndina sem ég geymdi í huganum. Ég opnaði augun og skoðaði líkama minn gaumgæfilega. Hjartað tók kipp í brjóstinu við sannleikann: ég er ekki lengur ung kona. Ég er kona sem hefur lifað lífinu til fulls. Líkami minn sýnir öll árin sem hann hefur borið sálu mína um lífsins veg.
Ég er 59 ára kona við mjög góða heilsu og vel á mig komin líkamlega. Ég er 1,75 á hæð og 61 kíló. Ég nota bæði gallabuxur og nærbuxur nr. 36 og brjóstin á mér ná ekki nálægt því niður að nafla. Reyndar gera þau enn sitt besta til að bungast upp úr brjóstahaldara með B-skálum. Lærin á mér eru ekki lengur flauelsmjúk og það eru spékoppar á rasskinnunum. Upphaldleggirnir eru dálítið skvapkenndir og sólin hefur sett sitt mark á húðina. Holdið í mittinu er ekki lengur alveg stinnt heldur dálítið mjúkt og bungan á maganum ber vott um keisaraskurð sem svipti hann sléttum bikinisvipnum – en færði mér son.
Hvers vegna er ég að þessari miskunnarlausu sjálfsskoðun? Það var kominn tími til að bregðast við áverkum menningarheims míns, mjúkum greipum eigin ótta og að ausa hlýjum kærleika yfir sál sjálfrar mín. Það var tímabært að gera tilkall til allra ummerkja og ófullkominna sentimetra á líkama mínum – líkama sem maður sem hreifst af lífsþrótti mínum og andlegu atgervi en leist ekki á mig í allri minni nekt hafði kallað „of hrukkóttan“. Hann hét Dave og hann var 55 ára gamall.
Við kynntumst á stefnumótasíðu. Dave var áhugaverður, kurteis og vel gefinn. Hann hélt í höndina á mér og fór með mér í langa hjólreiðatúra. Hann ók talsverða vegalengd til að komast heim til mín. Hann eldaði handa okkur báðum og klappaði himinsælum hundinum mínum á kollinn. Ég var hugfangin og þráði að kynnast þessum manni til fulls. Þess vegna ákváðum við að skreppa saman í helgarferð. Þá varð þetta allt saman ruglingslegt, ekkert sagt en small einhvern veginn ekki alveg saman. Við háttuðum eins og hvert annað par – nakin og snertumst – allir líkamshlutar í náinni snertingu. Við skiptumst á kossum og sofnuðum í faðmlögum. Ég reyndi að koma á nánari kynnum alla helgina en mætti eintómum hindrunum.
Á mánudagskvöldinu talaði ég við þennan mann sem hafði deilt með mér rúmi í þrjár nætur samfellt í síma og spurði hann hvers vegna við hefðum ekki elskast. „Líkami þinn er of hrukkóttur,“ svaraði hann hiklaust. „Ég er orðinn of góðu vanur eftir að hafa verið með ungum konum í mörg ár. Ég örvast hreinlega ekki af þér. Ég dái lífsþrótt þinn og hláturinn. Ég kann vel við hugsunarhátt þinn og hjartalagið. En ég get bara ekki sætt mig við líkama þinn.“
Ég varð klumsa. Sárindin komu seinna. Ég spurði hann hægt og varlega hvort honum þætti erfitt að horfa á líkama minn. Hann sagði já. „Áttu þá við að það hafi veist þér erfitt að sjá mig allsnakta?“ spurði ég. Hann sagðist bara hafa litið undan. Og þegar ljósin höfðu verið slökkt lét hann eins og líkami minn væri yngri – eins og ég væri yngri. Ég andvarpaði þungan á meðan ég melti þessar upplýsingar. Mér sjóðhitnaði í framan því ég dauðskammaðist mín og fannst vandræðalegt að hugsa til þess hvað ég hafði verið óþvinguð við að sýna honum mig allsnakta þessa nýliðnu helgi.
Við töluðum saman aðeins lengur, en mig sundlaði yfir umræðuefnunum. Hann talaði um sérstaka sokka og föt sem gætu „falið“ árin. Hann sagði mér sallarólegur að hann hefði yndi af „litlum, svörtum kjólum“ og bandaskóm. Hann sagði að hárið á mér væri ekki sítt og mikið eins og hann vildi helst hafa það, en það væri í lagi því klippingin væri „kúl“. Mér leið eins og Barbie á sýrutrippi þegar ég hlustaði á þennan mann. Hann gerði sér enga grein fyrir því hvað orð hans voru kvikindisleg. Hann hafði breytt mér í hlut sem átti að klæða og hagræða til að fullnægja hugmyndum hans um kynferðislega fullkominn kvenleika.
Hann útskýrði fyrir mér að fyrst ég vissi núna hvað ég þyrfti að gera gætum við skemmt okkur vel í svefnherberginu. Ég sagði nei. Ég ætlaði ekki að víkjast undan líkama mínum. Ég ætlaði ekki að klæða mig í búninga til að gera líkama minn „bærilegri“. Ég ætlaði ekki að hátta í myrkri eða fara í sturtu á bak við lokaðar dyr. Ég ætlaði ekki að gera minna úr sjálfri mér fyrir hann – eða neinn annan. Líkami minn er fallegur og hann fylgir huga mínum og hjarta.
Þegar ég sagði Dave að ég vildi aldrei sjá hann eða heyra frá honum aftur skildi hann hvorki upp né niður og sagði að ég væri að gera úlfalda úr mýflugu. Hann vældi að ég hefði tekið lítinn hluta af sambandi okkar og gert það að stórmáli. Ég kærði mig ekki einu sinni um að reyna að útskýra sárindin og hryllinginn sem hann hafði valdið mér. Ég vorkenndi manninum satt að segja sáran þegar ég lagði á. Það var eftir þetta símtal sem ég fór inn í svefnherbergi og klæddi mig úr öllum fötunum.
Þegar ég horfði í spegilinn – fráneygð og hugrökk – gerði ég tilkall til gjörvalls líkama míns af ást, virðingu og innilegri umhyggju. Þessi líkami er ég. Hann hefur geymt sál mína og borið hjarta mitt alla mína daga. Sérhver hrukka og lýti vottar að ég hafi lifað og að ég hafi veitt líf. Ég faðmaði sjálfa mig innilega með tárin í augnum. Ég þakkaði guði fyrir að hafa gefið mér líkama minn og líf mitt. Og ég þakkaði líka vorkunnarverðum manni sem hét Dave fyrir að hafa minnt mig á hve dýrmætt það er.
Um höfundinn:
Robin Korth er uppreisnarkona og útlagi. Hún er líka ræðumaður á alþjóðavettvangi, rithöfundur og kaupsýslukona. Hún er sú fjórða í röðinni af sjö systkinum og ólst upp á 7. áratug síðustu aldar innan um freyspálma í berangurslegum íbúðarhverfum Miami á Flórída. Eftir að hafa hagað lífinu „eins og henni bar“ árum saman hélt Korth sína leið og tók að lifa lífinu samkvæmt innstu sannfæringu. Hún lýsir reynslu sinni í bókinni Soul on the Run, sem kom út hjá Balboa Press í maí 2014. Soul on the Run er kjarkmikil og hreinskilin umfjöllun Korth um máttinn og gleðina sem lífinu er ætlað að vera.
Árið 2013 opnaði Korth fræðslu- og bloggvef sem fékk meira en 40.000 áhangendur á Facebook strax á fyrsta ári. Hún kynnti líka appið „Robin in Your Face“ til daglegrar hvatningar en því hefur verið hlaðið niður mörg þúsund sinnum um allan heim. Hún er fráskilin tveggja barna móðir, á vinalegan björgunarhund sem heitir Scruffy og sjálfbirgingslegan kött sem heitir Sean. Fleiri upplýsingar er hægt að finna á vefnum RobinKorth.com.
Twitter: @RobinKorth