Staðan í Úkraínudeilunni hefur margfaldast að þyngd eftir að farþegavél Malaysia Airlines var skotin niður. Hvort sem að endanleg staðfesting á sekt aðskilnaðarsinna fæst fram á næstunni eður ei, þá mun málið hafa grafalvarlegar afleiðingar.
Rússar bera ábyrgð á málinu hvernig sem á það er litið og þetta þýðir að deilur Evrópusambandsins og Bandaríkjanna við Rússa eru nú komnar í illleysanlega stöðu.
Bæði Evrópusambandið og Bandaríkin eiga hagsmuna að gæta mjög víða og sagan sýnir okkur að Rússar eru tilbúnir að beita mætti sínum mjög víða um heim, í Evrópu, í Asíu, í Afríku.
Evrópusambandið sem ætlað var að gæta friðar meðal Evrópuþjóða, stendur nú frammi þeirri prófraun, í fyrsta skipti frá stofnun þess, að eiga í heild sinni í alvarlegri deilu við annað stórveldi, fyrir hönd sinna aðildarríkja.
Ekkert gefur svo sem til kynna að sambandið búi yfir neinni nýrri þekkingu í samningamálum sem nýtast muni til að afstýra hörmungum ef til kastanna kemur.
Í öllu falli þá er nýtt kalt stríð skollið á sem vonandi helst kalt að mestu. Úkraínu verður líklega fórnað fyrir einhvern áframhaldandi frið. Evrópusambandið er „wildcard“ í málinu, jókerinn sem maður býst fastlega við að muni geta gangsett þriðju heimsstyrjöldina með of harkalegum aðhaldsaðgerðum í garð Rússa.
Komin er upp sú staða sem ég held að flestir andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu hræðist mest. Hún felst í núningi Evrópusambandsins við önnur stórveldi og heimildar í Lissabon-sáttmálanum til þess að grípa til aðgerða í varnarmálum.