Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hraunbæjarannáll: Lífsháski lásasmiðsins

$
0
0

Af verklagsreglum lögreglu um viðbrögð og viðbúnað við ógnun með vopnum, gíslatöku, hryðju- og skemmdarverka

Ríkissaksóknari kemst að þeirri niðurstöðu í greinargerð sinni, , að aðgerðir lögreglu við Hraunbæ 20 þann annan desember sl. hafi verið í fullu samræmi við „verklagsreglur lögreglu um viðbrögð og viðbúnað við ógnun með vopnum , gíslatöku, hryðju- og skemmdarverka“ eins og segir orðrétt í greinargerðinni. Ennfremur ályktar ríkissaksóknari að lögreglan hafi ekki gerst sek um gáleysislega hegðun þegar hún fékk óvarinn lásasmið til að brjótast inn í íbúð Sævars án þess að upplýsa hann um mögulegt hættuástand. Rökstuðningurinn að baki þessu virðist vera sá að lögreglan taldi Sævar hefði fyrirfarið sér. Það útskýrir þó ekki hvers vegna lögreglan ákveður þá að vopnbúast og verjast í samræmi við fyrrnefndar verklagsreglur um viðbrögð og viðbúnað við ógnun með vopnum, gíslatöku, hryðju- og skemmdarverka.

Þar sem þessar verklagsreglur íslensku lögreglunnar eru ríkisleyndarmál, öfugt við það sem tíðkast víða annarstaðar, eigum við einfaldlega að trúa ríkissaksóknara þegar hún segir okkur að allt hafi verið í stakasta lagi með aðgerðir lögreglu þetta kvöld. Væntanlega er það þá í samræmi við þessar verklagsreglur að notast við óbreytta og óvarða borgara til að brjótast inn til byssumanna. Persónulega er ég ekki sannfærð.

Aðkoma lásasmiðsins fullkomlega eðlileg?

Eins og fram kom í síðasta pistli þá fékk lögreglan tilkynningu frá nágranna Sævars um að hár hvellur hafi heyrst úr íbúð hans. Þegar lögreglan kemur á vettvang er henni tjáð af tilkynnanda að vegna reynslu sinnar af hermennsku teldi hann sig fullvissan um að hafa heyrt skothvell frá íbúð Sævars, sem hann kallaði þó öðru nafni, M (eða B eða M2, greinargerðin er ekki alveg klár á því). Einnig sagðist hann hafa heyrt dynk þar á eftir og síðan ekkert nema háværa tónlist. Út frá því ályktaði þessi dularfulli hermaður að Sævar hefði fyrirfarið sér.

Í ljósi þessara upplýsinga kallar lögreglan til sérsveitarmenn sér til aðstoðar og þeir ákveða að vopnbúast skammbyssum slíðruðum á læri. Þar að auki fór einn sérsveitarmaður og sótti skotskýlingarskjöld úr bílnum áður en gengið var að íbúð Sævars.[1]

Lögreglumaður með skotskýlingarskjöld.

Lögreglumaður með skotskýlingarskjöld.

Orðaröð og orðaval ríkissaksóknara um þessa atburðarás og aðkomu lásasmiðsins vekur þó athygli höfundar:

verklagsreglurverklagsreglur framhald
Úr greinargerð ríkissaksóknara, bls. 2 og 3.

Hér er því haldið fram að tilkynning sérsveitarinnar til yfirmanns um fyrirhugaðan vopnaburð hafi verið í fullu samræmi við verklagsreglur lögreglu. Í beinu framhaldi er síðan tekið fram að ákveðið hafi verið að kalla á lásasmið til að opna íbúð Sævars.

Það skyldi þó ekki vera að það sé einmitt ekki í fullu samræmi við verklagsreglur lögreglu um viðbrögð og viðbúnað við ógnun með vopnum, gíslatöku, hryðju- og skemmdarverka að kalla til óvarinn lásasmið til þess að brjótast inn til manns sem talinn er hafa skotvopn undir höndum? Það skyldi þó ekki vera að lögreglunni væri í það minnsta skylt að upplýsa lásasmiðinn um þá hættu sem hann var mögulega í? Ef greinargerð ríkissaksóknara skal tekin trúanlega eru það lögmætar aðgerðir lögreglu að láta lásasmið brjótast inn til ætlaðs byssumanns, óvarinn og ómeðvitaðan um hugsanlegt hættuástand. Getur það virkilega staðist?

Ef svo er þá geri ég alvarlegar athugasemdir við þessar leynilegu verklagsreglur lögreglu.

Mistök réttlæta mistök

Ríkissaksóknari telur lögreglu það til málsbóta að hún hafi fengið rangar upplýsingar hjá dularfulla hermanninum. Lögreglan hafi ekki hegðað sér gáleysislega gagnvart lífi og öryggi lásasmiðsins þar sem hún hélt að maður að nafni M (eða B eða M2) hefði fyrirfarið sér og því væri engin hætta á ferðum. Þetta þótti mönnum staðfest þegar Sævar ansaði lögreglunni ekki er hún knúði ítrekað dyra hjá honum.[2] Einnig er lögreglunni talið til málsbóta að þar sem hinn rangnefndi M væri ekki með nein mál á skrá hjá lögreglu hefði lögreglan ekki getað vitað að um jafn hættulegan mann og Sævar væri að ræða.

Þessi rökstuðningur er að mörgu leyti mjög öfugsnúinn hjá ríkissaksóknara. Röð mistaka lögreglu er þannig notuð til þess að réttlæta enn verri afglöp; að notast við lásasmiðinn til að brjótast inn í íbúð Sævars. Lögreglan reiðir sig alfarið á vitnisburð dularfulla hermannsins, vitnisburð sem reynist uppspuni frá rótum. Nú er vitað að maðurinn hét Sævar en ekki M og að hann hafði ekki skotið úr byssu sinni þegar lögreglu bar að garði.[3] Innrás lögreglu inn á heimili Sævars virðist því hafa verið tilefnislaus með öllu.

Ríkissaksóknara virðist þó ekki finnast neitt óeðlilegt við að lögreglan ráðist með vopnavaldi inn til manns án þess að vita hvern um er að ræða eða hvort nokkuð sé að marka framburð vitnisins um ætlað sjálfsmorð hans. Ekkert virðist hafa verið gert til að sannreyna þennan vitnisburð áður en ráðist var í innbrotið, annað en að berja að dyrum og kalla til Sævars (eða M, eins og þeir munu hafa gert og því spurning hvort Sævar hefði tekið það til sín jafnvel þótt hann hefði heyrt til þeirra) gegnum háværa tónlistina sem barst að innan.[4]

Meint gáleysi lögreglunnar:

En hvað hefði verið hægt að gera annað og/eða öðruvísi, kann þá einhver að spyrja. Þar sem verklagsreglur lögreglu eru trúnaðarmál fáum við ekki staðfest hvort aðkoma lásasmiðsins sé í raun í samræmi við þær. Þó vitum við að lögreglunni ber eins og öllum stjórnvöldum að rannsaka mál til hlítar áður en ákvörðun er tekin í því (rannsóknarregla).[5] Eins og fram kom í síðasta pistli hefði lögreglan auðveldlega getað flett því upp hver var skráður fyrir íbúð Sævars (sem var hann sjálfur). Einnig gátu þeir fundið nafn Sævars á bjöllu og á póstkassa í anddyri stigagangsins. Undarlegt verður að teljast að ríkissaksóknari telji það afsökun fyrir því að hafa stofnað lífi lásasmiðsins í hættu að lögreglan hafi gert þau mistök að fá það ekki staðfest hver bjó í íbúðinni sem hún ætlaði sér að brjótast inn í.

Meginrökstuðningur ríkissaksóknara fyrir því að lögreglan hafi ekki farið gáleysislega með líf lásasmiðsins er þó sá, að menn á vettvangi töldu Sævar hafa fyrirfarið sér. Þetta mat þeirra var þó, sem fyrr segir, alfarið byggt á því sem einn maður í annarri íbúð taldi sig hafa heyrt og túlkun hans á því. Það, að enginn svari kalli þeirra í gegnum drynjandi tónlist virðast lögreglumenn síðan túlka sem næga staðfestingu á þessari túlkun vitnisins. Hefði þó lögreglunni verið í lófa lagið að taka rafmagnið af íbúð Sævars með því að slá út lekaliðanum í rafmagnstöflunni í stigaganginum, þar sem rafmagnsöryggi allra íbúða er að finna. Mögulega hefði Sævar heyrt betur í lögreglunni og lögreglan betur í honum ef þessi einfalda aðgerð hefði verið framkvæmd. Ríkissaksóknari virðist þó ekki hafa velt þessu atriði sérstaklega fyrir sér.

Að þessu sögðu er ljóst að hæglega má færa fyrir því rök að lögreglan hafi farið gáleysislega með líf lásasmiðsins. Sé raunin önnur – sem alls ekki skal útilokað hér – þá er það algjörlega ólíðandi fyrir lögregluna að ríkissaksóknari rökstyðji þá niðurstöðu sína jafn snautlega og hún gerir. Almennileg rannsókn er til þess fallin að auka tiltrú almennings á lögreglunni – sem er mikilvægt – en hvítþvottur ýtir undir vantraust og tortryggni. Sé það virkilega svo að ekkert sé athugavert við þessa framkvæmd, þá er það lágmarkskrafa að sýnt sé fram á það með sannfærandi og óyggjandi gögnum og rökum fremur en þeim kattarþvotti sem hér er boðið upp á.

Hvað er gáleysi?

En hver er skýringin á þessum litla og lélega rökstuðningi? Er einhver ásetningur þar að baki eða vantar kannski eitthvað upp á skilning ríkissaksóknara á því hvað gáleysi er í lagalegum skilningi? Eða er það eitthvað enn annað sem veldur? Hvað sem það er, þá er ekki úr vegi að skoða gáleysishugtakið aðeins nánar.

Gáleysi er form ásetnings þar sem aðili aðhefst eitthvað sem hann veit eða hefði mátt vita að gæti leitt til þess að refsiverður verknaður eigi sér stað. Þrátt fyrir þessa vitneskju aðhefst aðilinn þetta eitthvað í þeirri trú að refsiverði verknaðurinn muni ekki eiga sér stað. Á lagalensku er gáleysi útskýrt svona:

Það er gáleysi, ef hinn brotlegi álítur eða hefur hugboð um, að refsinæm afleiðing verknaðar kunni að koma fram (tjónsbrot) [...], en hann vinnur verkið í trausti þess, að afleiðingin komi ekki fram eða að hugboðið reynist ekki rétt. Enn fremur er það gáleysi, ef hinn brotlegi, sem gegn og skynsamur maður, hefði átt að gera sér grein fyrir nefndum aðstæðum og bregðast við í samræmi við þær, en hann hefur hins vegar ekki gætt þeirrar varkárni, sem af honum mátti ætlast.[6]

Hin refsinæma afleiðing verknaðar í þessu tilfelli væri brot á 132. grein almennra hegningarlaga sem hljóðar svo:

132. gr. [Ef opinber starfsmaður, sem í 130. gr. eða 131. gr. getur, gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögmætra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar, eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, þá skal hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.]

Það væri því refsiverður verknaður ef lögreglan hefði af stórfelldu gáleysi ekki beitt lögmætum aðferðum í aðgerðum sínum umrædda nótt. Af framangreindu má færa rök fyrir því að svo hafi verið þótt verklagsreglur lögreglu séu leyndarmál.

Ef við setjum nú upp lögfræðidæmi, þar sem við skoðum aðgerðir lögreglu innan gáleysisskilgreiningarinnar þá kemur það svona út:

Hér hefði lögreglan getað álitið eða haft hugboð um að með því að fá R (lásasmiðinn) til þess að opna dyrnar að íbúð Sævars væri lífi R stefnt í hættu (tjónsbrot). Einnig hefðu sérsveitarmennirnir, sem gegnir og skynsamir menn, átt að gera sér grein fyrir nefndum aðstæðum og bregðast við í samræmi við þær en hér hljóta að vakna spurningar um hvort þeir hafi í raun gætt þeirrar varkárni sem af þeim mátti ætlast.

Rétt er að undirstrika að hugtakið „gegn og skynsamur maður“ hefur sérstaka þýðingu í þessu samhengi. Þetta hugtak er miðjan á ákveðnum skala sem dómarar notast við þegar þeir meta ásetning brotamanna. Þá getur fólk verið metið ýmist yfir eða undir meðaltali á þessum skynsemisskala. Þannig er ætlast til meiri varkárni og betri viðbragða af lögreglumönnum þegar kemur að innrásum inn í hús vopnaðra manna en af venjulegum borgara.

Ef sérsveitin tekur til vopna vegna tilkynningar um byssuhvell og nær jafnframt í skotskýlingarskjöld sér til varnar má ætla að lögreglan hafi haft hugboð um að þar fyrir innan væri vopnaður maður. Má þá ekki ætlast af þeim að gæta þeirrar varkárni að setja R í skothelt veski? Segja honum út í hvað hann er að fara? Sleppa því kannski bara að fá lásasmið til verksins og brjótast inn sjálfir? Taka rafmagnið af íbúð Sævars svo betur mætti heyra í honum? Verður þetta allt réttlætt með því að þeir héldu að Sævar (eða sá sem þeir töldu búa í íbúðinni) hefði framið sjálfsmorð? Til hvers þá að vopnbúast? Hvers vegna sækja þeir skotskýlingarskjöld? Hvers vegna vopnast þeir í samræmi við verklagsreglur lögreglu um viðbrögð og viðbúnað við ógnun með vopnum , gíslatöku, hryðju- og skemmdarverka en láta jafnframt eins og engin sé hættan þar sem R er annars vegar?

Rökstuðningur ríkissaksóknara heldur ekki vatni

Í raun má segja að sá vottur af rökstuðningi sem ríkissaksóknari færir fyrir því að lögreglan hafi gert allt rétt og ekki stefnt lásasmiðnum í lífshættu af gáleysi felist í eftirfarandi: Maður sagði lögreglunni að annar maður í annarri íbúð hefði framið sjálfsmorð með byssu. Máli sínu til stuðnings sagðist maðurinn hafa verið í hernum, hann þekkti byssuhvelli, hann hefði heyrt einn síkan, svo dynk og svo ekkert nema háværa tónlist. Þar af leiðandi hefði nágranni hans, M, örugglega drepið sig. Lögreglan tók hann á orðinu. Tékkaði ekkert á því hvort upplýsingar mannsins um nágrannann væru réttar, gerði ekkert til að auka líkurnar á því að heyra mögulegan umgang eða tryggja að íbúinn heyrði örugglega til hennar ef ske kynni að hann væri á lífi, sendi svo óvarinn mann til að opna dyrnar en brynvarði samt sjálfa sig til öryggis – og þetta á að heita fullkomlega rökrétt og sýna að ekki var um gáleysi að ræða – afþví að hvað? Af því bara?

Telst þetta virkilega ekki stórfellt gáleysi gagnvart lífi og öryggi lásasmiðsins? Ef svo er ekki, þá þarf a.m.k. töluvert bitastæðari rökstuðning fyrir því en þann sem ríkissaksóknari býður upp á í greinargerð sinni. Lögfræðilegan rökstuðning, sem heldur vatni.

Heimildir:

[1] Mál Ríkissaksóknara nr. 003-2013-34, Reykjavík, 13. júní 2014 (hér eftir nefnd Greinargerð RSS), bls. 2 og 3.
[2] Greinargerð RSS, bls. 3.
[3] Sama heimild.
[4] Sama heimild.
[5] 10. grein stjórnsýslulaga.
[6] Jónatan Þórmundsson, Afbrot og refsiábyrgð II (n. 36) bls. 123.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283