Bréf til Bandaríkaforseta
Hr. Barack Hussein Obama
Þegar ég horfi á eldflauga og sprengjuárásirnar á Gaza núna minnist ég jólaloftárásanna 1972 þegar Kissinger lét Nixon fyrirskipa loftárásir á Hanoi enda þótt búið væri að ná samkomulagi um frið í Víetnam í Parísarviðræðunum 27. október. Kissinger vildi láta á það reyna hvort ekki væri hægt að hnika þeim niðurstöðum.
Þúsundir manna voru myrt af Bandaríkjaher í þessum grimmdarlegu loftárásum á þéttbýlissvæði án nokkurs tilgangs. Heimurinn stóð á öndinni og alls staðar var mótmælt, líka á Íslandi. Engu var hnikað með fjöldamorðunum og friðarsamkomulagið undirritað 27. janúar 1972.
Eid eru jól múslima, haldin í lok föstumánaðarins Ramadan. Í nokkurra klukkustunda uppstyttu árása á laugardaginn var voru foreldrar komnir út, leitandi að einhverju til að gefa börnunum í Eid-gjöf. Á Al Jazeerah sjónvarpstöðinni heyrðist í föður sem hafði leitað sonar síns í þrjá daga. Það hafði tekið tíma að komast að rústunum og grafa upp líkin þar sem sonur hans fannst. Það hjálpaði honum að óvissan var á enda. Eid í ár eru Eid píslarvotta og særðra, sagði hann.
Tilraunir Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna til að koma á vopnahléi á Gaza ásamt tilraunum Ban Ki-Moon og Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafa allar runnið út í sandinn. Kerry er hæddur og svívirtur í ísraelskum fjölmiðlum og ekki í fyrsta sinn.
Netanyahu hefur staðið við eitt, það er halda grimmdaræðinu gangandi og skella skollaeyrum við hverju sem sagt er utan Ísraels varðandi stríðsreksturinn, hvers kyns mótmælum almennings í heiminum og þjóðarleiðtoga.
Netanyahu sagði að Ísrael myndi fara sínum fram án tillits, og það hefur þessi stríðsglæpastjórn gert. Ísraelsstjórn er ekkert heilagt í þessu einhliða stríði sem líkist æ meir útrýmingarherferð Nazista, þar sem gyðingar voru lokaðir inni í gettói og síðan var gengið til verks við að myrða þá hvern á fætur öðrum. Þannig eru íbúar Gaza lokaðir inni í risastóru gettói, fangelsi undir opnum himni, þaðan sem engin kemst burt, hvorki á sjó, landi né lofti.
Þetta er ekki stríð gegn Hamas, heldur gegn palestínsku þjóðinni, íbúum Gazasvæðisins. Og þetta er fyrst og fremst útrýmingarherferð gegn börnum, því að meiri hluti íbúanna eru börn. Einn af þingmönnum flokksins Gyðingaheimili (Jewish Home) hefur lýst því yfir að myrða beri allar palestínskar mæður svo að þær beri ekki af sér fleiri snáka, því að öll palestínsk börn eru snákar að hennar mati og tilvonandi hryðjuverkamenn.
Minnst á hryðjuverk , þá er það rétta orðið yfir stríðsrekstur Ísraels sem beinist nær alfarið að palestínskum börnum og fjölskyldufólki og getur ekki haft annan tilgang en að hræða og skapa skelfingu með morðum og sprengjuárásum á heimili fjölskyldna, skóla, bænahús, sjúkrahús, heilsugæslustövar, heimili fyrir fatlaða og sjónvarpsstöðvar.
Þung ábyrgð hvílir á þér, Obama Bandaríkjaforseti, sem getur stöðvað barnamorðin ef þú kærir þig um í stað þess að klifa á rétti Ísraelsmanna til að verja land sitt. Blóðbaðið heldur áfram og þú herra forseti og Kerry utanríkisráðherra byrja sérhverja ræðu á heilshugar stuðningi við árásarstríð Ísraels.
Þið hafið á orði frómar óskir um vopnahlé en gerið ekkert til að fylgja því eftir.
Hvað getum við gert? Stjórnmálamenn, verkalýðshreyfing og önnur fjöldasamtök og íslenska þjóðin upp til hópa tekur afdráttarlausa afstöðu gegn blóðbaðinu á Gaza og krefst þess að umsátrinu verði aflétt. Alþingi Íslands og ríkisstjórn hafa viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki og að hernáminu verði aflétt og að Palestínumenn fá frelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Og núna þurfa þeir alþjóðlega vernd tafarlaust.
Ísland hefur frá upphafi sýnt Ísraelsríki mikla vinsemd, en vinur er sá er til vamms segir.
Ísraelsríki er undir stjórn stríðsglæpamanna sem skella skollaeyrum við öllum mótmælum. Við hljótum því að snúa okkur að Bandaríkjastjórn og þér herra forseti, Barack Obama, og krefjast þess að þú látir af stuðningi við blóðbaðið og stöðvir það þegar í stað.
F16 árásarvélarnar, skriðdrekarnir, drónarnir, njósnatækin til að miða út skotmörk, allt er þetta tilkomið fyrir tilverknað og fjármuni Bandaríkjanna.
Obama, stöðvaðu fjöldamorðin strax. Þú getur það, ef þú vilt.
Sveinn Rúnar Hauksson læknir,
formaður Félagsins Ísland-Palestína