Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Það er verið að myrða fólk

$
0
0

Kristinn Hrafnsson birti eftirfarandi færslu á Facebook síðu sinni og við deilum henni hér.

kristinn hrafns

Ísraelsmenn rufu eigið fyrirheit um nokkurra klukkustunda vopnahlé í dag og létu sprengjum rigna m.a. á markað þangað sem fólk sótti, til að byrgja sig upp, eftir langa innilokun. Tugir voru drepnir. Bygging Sameinðu þjóðanna var sprengd og 15 drepnir.

Ég skora á fólk að horfa á þetta myndband sem hér fylgir, og er sagt sýna frá þessum atburðum. Þetta er svakalegt, en ég tel að enginn geti undan litið.

Vert að beina athyglinni að þyrpingu sjúkrabíla sem verður fyrir sprengjuregni. Látnir og særðir liggja víða. Það er til umhugsunar að Ísraelski herinn býr yfir tækni til að láta ómannaða dróna (gott ef ekki heyrist í þeim) fljúga yfir og taka myndir af vettvangi, í bestu upplausn. Herinn vissi sem sé, að líkindum, af sjúkrabílunum.

Vert er einnig að reyna að telja vopnin sem sjást á, eða við, hina særðu og föllnu, eða í höndum þess fólks sem bregður fyrir. Ég sá ekkert.

Sem blaðamaður sé ég að vísu fallinn félaga, með hjálm, í skotheldu vesti kyrfilega merkt PRESS. Hann hét Rami Rayan og var einn af þeim hetjum sem fórna lífinu til að koma upplýsingum til mín og þín. Sannleikanum.

Ef blaðamaður á að gera eitthvað, þá er það að benda á hið augljósa. Það er verið að fremja voðaverk á Gaza. Það eru sterkar vísbendingar um stríðsglæpi og þær berast daglega frá svæðinu. Nánast í beinni útsendingu.

Er vert fyrir blaðamenn að spyrja Utanríkismálanefnd hvort hún telji ekki tímabært að senda harðorð skilaboð til Ísraels, frá æðstu pólitísku samkundu landsins, sjálfu löggjafarþinginu?

Er hæfandi að spyrja ríkisstjórnina alla, hvort hún telji ekki vert að senda umbúðalausa fordæmingu, í stað fyrri „vinur-er-sá-sem til-vamms-segir“ orðsendingar á dögunum.

Er ef til vill komin tími til að spyrja forsetann, sem hefur gert sig gildandi á alþjóðavettvangi og m.a. lýst áhyggjum af hlýnun jarðar og bráðnun jökla (þó það opni að hans mati vissulega tækifæri), að hann hafi nú skoðun á þessum óhæfuverkum?

Er yfirhöfuð í boði að þegja?

Er hugsandi að blaðamenn dragi umræðuna upp úr „hann segir – hún segir“, sófaspjalli, með kryddlegnum, sögulegum vangaveltum með frekar lúnum jafnvægistilburðum með innantómum möntrum á borð við; „Já – en hvað-með-Hamas!?“.

Það er verið að myrða fólk.

Afsakið, en mér er of óglatt, til að leika þykjustuleik meintrar hlutlægni. Ég kæri mig ekki um að verða síðar sakaður um að hafa þagað, eða raulað með söng ísraelanna:

„Það verður skólafrí á Gaza! – Öll börnin eru dauð!“

Nei takk.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283