Á ákveðnum tímapunkti í lífinu deildi ég forsjá barnanna minna með föður þeirra. Aðstæður við skilnaðinn, án þess að ég fari nánar í það, voru þannig að ég samþykkti að þau hefðu lögheimili hjá föður sínum, þrátt fyrir að ég hafi vitað að það fæli í sér að réttindi mín sem foreldri yrðu öðruvísi en ef lögheimilið væri hjá mér.
Það sem ég vissi hins vegar ekki þegar ég samþykkti þetta, var að með því var ég um leið orðin ósýnileg gagnvart kerfinu og samfélaginu. Ég ætla mér að útskýra það nánar í þessari grein og þeirri upplifun sem fylgdi.
Mörgum gæti þótt þessi nálgun mín eigingjörn og sjálfsmiðuð þar sem ég ætla mér ekki að fara í líðan barnanna sem eru aðalfórnarlömb í slíkum aðstæðum. Það sem gleymist oft í öllum þessum hrikalega tilfinningarússíbana sem fer í gang við skilnað er að það verður að gera báðum foreldrum kleift að veita börnum sínum verðskuldaðan stuðning í skilnaðarferlinu. Samfélagið og uppbygging hins opinbera kerfis skipta þar miklu.
Sameiginleg forsjá er lögbundin á Íslandi við skilnað/sambúðarslit, og svo hefur verið frá árinu 2006. Það þýðir að gert er ráð fyrir að foreldrar deili forsjá með börnum sínum. Hins vegar er staðan enn sú að lögheimili barna eru hjá öðru foreldrinu. Hljómar kannski einfalt og sanngjarnt, ekki satt?
Foreldri sem hefur börn sín t.d. helming tímans en hefur ekki lögheimili er kallað umgengnisforeldri og hefur engin réttindi sem foreldri, er ekki einu sinni skráð sem foreldri barns síns, hvorki á hagstofu né þjóðskrá. Og það er fleira. Umgengnisforeldri borgar lögheimilisforeldri meðlag, fær ekki barnabætur né neitt sem viðkemur því að eiga börn s.s. hækkun námsláns vegna framfærslu barna.
Nú veit ég vel að það eru alls ekki allir foreldrar sem sinna börnum sínum jafnt og þá er um allt annað dæmi að ræða. Hins vegar vil ég benda á að samkvæmt rannsóknum hefur jöfn umgengni beggja foreldra aukist mikið og er nú orðið svo að helmingsumgengni, eða 14 daga af 28 dögum, er orðin 24% af hlutfalli þeirra foreldra sem hafa sameiginlega forsjá.
Fleiri atriði er vert að taka fram sem gera umgengnisforeldri erfitt fyrir að finna sér stað innan kerfisins. Í skýrslu um þessi mál sem ég skoðaði kemur eftirfarandi fram;
„Einstæðir umgengnisforeldrar falla undir skilgreininguna einstæðir barnlausir hjá Hagstofu Íslands. Þetta gerir það að verkum að erfitt er að fá upplýsingar um stöðu meðlagsgreiðenda þar sem þeir eru ekki taldir sérstaklega í hagtölum.“
Kannski eru einhverjir orðnir brjálaðir því ég er að tala um viðkvæmt mál og því miður er oft svo að annað foreldri sinnir börnum sínum lítið og virðist ekki hafa áhuga á því. Ég vil taka það fram að ég er hér einungis að ræða þetta mál út frá reynslu minni sem móðir sem var ekki með lögheimli yfir börnum sínum en sinnti þeim til jafns við föður þeirra.
Ég er í miklum minnihluta, því um 90% mæðra eru með lögheimili yfir börnum sínum, á móti 10% feðra.
Sanngirnina í því má nú ræða en ég ætla ekki út í það hér, með fullri virðingu fyrir mæðrum þessa lands.
Ég er ekki heldur að gera lítið úr líðan feðra sem eru í þeirri stöðu sem ég var í. Margir feður eru að sinna börnum sínum til jafns við móður eða að berjast fyrir því að fá að sinna börnum sínum meira og tek ég ofan fyrir þeim.
Ég varð hins vegar svona tyggjóklessa á gangstétt samfélagsins í þessari stöðu. Móðir sem stimpluð var svo að hún kærði sig ekki um börnin sín, alger aumingi og eigingjarn vesalingur. Ég vil taka það fram að ekkert af þessari upptalningu tek ég til mín en á þessum tímapunkti voru skilaboðin svona, hvar sem á reyndi í hinu opinbera kerfi (og reyndar sum staðar í hinu mannlega samfélagi einnig). Alls staðar veggir og niðurlæging. Og dæmi það hver sem vill að ég hafi verið brotin.
Mörgum þykir ég nú ef til vill orðin helst til dramatísk, og verði þeim bara að góðu! Að standa með fárveikt barn sitt á bráðamóttöku spítala og þylja upp kennitölu þess og vera síðan spurð „hver ert þú?“ því hvergi kemur fram að þetta barn eigi móður því það hefur ekki lögheimili hjá henni, er með mest niðurlægjandi reynslu sem ég hef upplifað.
Að sækja um námslán og ætla að fá lán vegna framfærslu barna og fá hlátur upp í opið geðið með orðunum „en þú átt engin börn samkvæmt skráningu“ er heldur ekki reynsla til þess fallin að auka styrk og þol.
Í framhaldi af þessari fleygu setningu sem ég fékk í andlitið í samskiptum mínum við LÍN, er ég sótti um námslán, kemur eftirfarandi: Þegar ég var búin að sýna fram á að ég ætti víst börn og hugsaði um þau nær helming tímans var mér bent á að ég gæti sótt um meðlagslán til þess að létta mér það að lifa af strípuðum námslánum. „Þú getur ekki fengið bæði út á börnin“ var næst kastað fram þegar ég spurði hvernig ég ætti fjárhagslega að hugsa um börnin mín þegar þau væru hjá mér ef ég fengi ekki framfærslulán með þeim. Fallegt ekki satt! Einmitt þess vegna sótti ég um námslán, til að „nota“ börnin mín!
Meðlagslán er eitt það fáránlegasta lánafyrirbæri sem ég hef nokkurn tíma kynnst (sagt hátt í beiskum alhæfingartóni reiðrar konu). Meðlagslán hefur ekkert að gera með raunverulegar meðlagsgreiðslur. Ég skal útskýra nánar en fyrst hér beint af vef LÍN:
„Meðlagslán; Námsmaður getur sótt um viðbótarlán vegna meðlags. Sækja þarf um á hverju námsári. Sjóðurinn greiðir þá meðlag beint til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Lánað er vegna meðlags 3.354 kr. fyrir hverja ECTS-einingu sem námsmaður lýkur.“
Nokkur skynsemi í þessu (e.t.v. til að koma í veg fyrir misnotkun kerfisins) en ekki mikil sanngirni.
Svo ég setji þetta í samhengi og útskýri gremju mína. Meðlag með hverju barni er 26.081. kr. frá 1.janúar 2014, en þá var síðasta hækkun. Gríðarlega mikilvægir fjármunir, sérstaklega fyrir þá einstæðu foreldra sem fá engan stuðning frá hinum aðilanum.
Allt í lagi, ég var að borga með þremur börnum sem gera 78.243 kr. á mánuði samkvæmt þessu.
Setjum þetta nú upp miðað við eina önn í skóla. Það þýðir að fyrir jan., feb., mars, apríl og maí væri ég þá að borga 391.215 kr. En ég fékk hins vegar 292.500 kr. í meðlagslán fyrir þessa önn! Tek það fram að ég var í fullu námi eða 30ECTS-einingum. Jafnmikið lán fékk ég þó fyrir áramót þegar ég tók reyndar einni einingu meira.
Ég þurfti enn fremur að ganga á eftir því að meðlagslánið yrði reiknað „rétt“. Átti upphaflega að fá 195.000. Í samtölum við Innheimtustofnun sveitarfélaganna (þegar ég var að semja um þær skuldir sem ég er með vegna þessa „meðlagsláns“) kom fram að þær upphæðir sem þau fá frá LÍN séu gríðarlega misjafnar þrátt fyrir sama einingafjölda að baki.
Hér er því einhver skrípaleikur í gangi sem enginn vill upplýsa og hafa beiðnir mínar um útskýringar frá LÍN enn ekki borið árangur.
Nú hugsar þú kannski kæri lesandi „góða besta, þú hefir nú bara átt að sleppa því að fara í nám og hugsa um börnin þín“. Allt í góðu. Þú ert kominn í stellingar hins meðvirka samfélagsneytanda sem flokkar lögheimilislausar mæður mjög svo neðarlega í virðingarstiganum.
Ekki örvænta, það er í lagi, ég gerði það sjálf, um leið og ég stóð í þessum sporum. En ég skal hugga þig með því að ég fór í nám til þess að vera sú besta móðir sem ég get verið fyrir börnin mín, ég þurfti það til að styrkja mig eftir skilnaðinn. Því hvers virði er örvæntingarfull, niðurlægð, andlega búin móðir börnum sínum? Einskis!
Það er klárt að margt þarf að breytast til þess að foreldrar geti sinnt börnum sínum jafnt, fjárhagslega, félagslega og veraldlega við skilnað, sé vilji fyrir hendi hjá báðum aðilum. Niðurstöður nýlegra íslenskra rannsókna sýna að við slíkar aðstæður er mikilvægt að báðir foreldrar njóti stuðnings vegna framfærslu barna sinna.
En peningar eru ekki allt, heyri ég nú hrópað. Nei, nei, alls ekki, en við skulum ekki vera í einhverjum glimmerskreyttum blekkingarleik, þeir skipta máli! Það sem skiptir hins vegar ekki síður máli og ég hef reynt að draga fram hér, er sá samfélagslegi stuðningur sem foreldrum er mikilvægur þegar sambúð gengur ekki upp og börn eru í spilinu. Það skilur enginn vegna skemmtanagildis þess verknaðar. Það er nóg að finnast maður algerlega misheppnaður, að hafa ekki getað veitt börnum sínum uppvöxt með báðum foreldrum, heldur fær maður stanslaust að heyra það frá samfélaginu hversu ömurlegur maður er.
Smá innsýn í þá líðan hér að lokum; Fékk nýverið hringingu frá ritara tannlæknis dóttur minnar, sem ég hafði borgað reikning frá og spurningin var „fyrir hvern varst þú eiginlega að borga?“ Ég svaraði „dóttur mína“. Svar ritara „nú, hún er hvergi skráð á þig“.
Myndi þetta ekki snerta hjarta þitt, lesandi góður? Mér leið allavega eins og ég hefði verið kýld í magann.
Börn eru dýrmæt og mikilvægust. Vellíðan þeirra er það sem öllu skiptir. Sorg þeirra við skilnað foreldra er djúp og sár. Þau þarfnast stuðnings þeirra beggja. Fá hann stundum en stundum ekki, sem er átakanlegt. En tryggjum að samfélagið sé allavega með þeim í liði þegar foreldrarnir vilja báðir sinna þeim. Berjumst fyrir því að börn geti haft tvö lögheimili og foreldrar séu studdir í því að ala börn sín upp saman þó þeir geti ekki búið saman. Það skiptir máli!
P.S. Virðing til þeirra mæðra og feðra sem reyna að fá hinn aðilann til að sinna börnum sínum betur – munið bara að fara varlega með hatrið.
P.S.S Virðing til þeirra þjónustufulltrúa hjá LÍN sem vinna vinnuna sína af alúð og kurteisi – sú sneið sem LÍN fær í þessari grein beinist ekki að ykkur.
Heimildir:
Fjölskyldur og framfærsla barna – þegar foreldrar búa ekki saman – erindi flutt á ráðstefnunni Rannsóknir í félagsvísindum í október 2012. Guðný Björk Eydal og Heimir Hilmarsson.
Upplýsingar sóttar á vef Innheimtustofnunar sveitarfélaganna, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og velferðarráðuneytisins hins íslenska.
Réttindi barna eru skýr í barnalögum. Þar segir m.a í V. kafli. gr.28 á „Foreldrum ber að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum.“ (sótt af vef velferðarráðuneytis ágúst 2014).