Sólin skín, kirkjuklukkurnar hafa slegið tólf að hádegi. Hér á Möltu er þeim klingt alla daga, oft á dag en mest þó á sunnudögum. Mér finnst það mjög skemmtilegt en ég er líka svo heppin að búa ekki við hliðina á kirkju þannig að klukknahljómurinn er mér alls ekki til ama heldur ánægju.
Nú er rúmt ár síðan við fluttum hingað og ég hóf mína heilsugöngu. Ég þurfti á hjólastól að halda á flugvöllunum þegar við komum og gekk svo við staf. Ég gat einungis gengið í korter án hvíldar og verkjataflna en nú stússast ég allan daginn án verkjalyfja! Ég tek fleiri hvíldarpásur en margir og þarf oftast að leggja mig eftir hádegi til að komast í gegnum daginn en ástandið hefur svo sannarlega batnað til muna. Ég er slæm suma daga og býst við að ég eigi eftir að fá leiðinda verkjaköst í framtíðinni sem geta varið í marga daga, jafnvel vikur. EN ég sé árangur og ég veit það sem ég vissi ekki fyrir ári, að mér getur liðið vel!
Mataræðið
Ég var aðeins byrjuð að undirbúa ferlið áður en við fluttum hingað. Laura Tuomarila sem er svæðanuddari en fyrst og fremst vinkona mín, hvatti mig til að fara á candida-fæði, í þrjár vikur áður en ég kæmi til Möltu. Hér er krækja : http://www.thecandidadiet.com/foodstoeat.htm Sá matarkúr hefur haft góð áhrif á líðan vefjagigtarsjúklinga samkvæmt einhverjum könnunum og ég var alveg til í að prófa hann þótt ég hafi líka séð greinar sem segja að candida-fæði hafi ekki tilætluð áhrif. Mér fannst satt best að segja ekki verða nein afgerandi breyting á líðan minni en það var jákvætt að við það að vera á þessum stranga kúr var minna mál að breyta jafnvæginu í mataræðinu á eftir, þ.e. að vera með meira grænmeti en kjöt og fisk og taka út brauð – sem var nokkuð sem mig hafði langað að gera lengi en ekki drifið mig í. Mér líður betur ef ég borða meira grænmeti og svo finnst mér hveitineysla hafa slæm áhrif á mig en síðan hef ég séð á spjallsíðum vefjagigtarsjúklinga að þessi breyting á mataræði er algeng. Það er hreinlega hið besta mál hvort sem maður er með vefjagigt eða ekki.
Hnykklækningar, sjúkraþjálfun og nálastungur
Þegar við fjölskyldan komum til Möltu til að skoða aðstæður nokkrum mánuðum áður en við fluttum hingað, kynnti Laura mig fyrir BodyWorks sem er eins konar heilsu/leikfimistöð. Hún mælti með Bryn Kennard sem er einn eigenda stöðvarinnar. Hann er pilates-kennari og er að klára osteopathy eða hnykklækningar. Hér er krækja sem skýrir hnykklækningar http://en.wikipedia.org/wiki/Osteopathy Hann fékk Samönthu Bonnici sjúkraþjálfara, MSc Sports Medicine, og nálastungulækni, með sér inn í ferlið en hún er líka með aðstöðu í BodyWorks. Mér fór strax að líða ögn betur bara við að hitta þau og útbúa plan. Ég fann að þau vildu allt til þess vinna að ég næði mér á strik og það gaf mér von. Vonin skiptir svo miklu máli því án hennar erum við dæmd til að gefast upp.
Uppbyggingin
Eftir skoðun hjá þeim og ítarleg viðtöl, gerðum við eftirfarandi plan: Ég myndi fara í einkatíma í pilates til Bryn tvisvar í viku og einu sinni í viku til Sam í ýmist nudd eða nálastungur. Þau komust að því að ég væri með Allodynia eða lauslega þýtt: Snertisársauka. Hér er krækja sem útskýrir snertisársauka http://chronicfatigue.about.com/od/glossary/g/allodynia.htm En snertisársauki er þekkt fyrirbæri hjá þeim sem hafa vefjagigt, langvinna verki og síþreytu og lýsir sér þannig að líkaminn verður ofurnæmur fyrir allri snertingu og í sínu ýktasta formi getur manni fundist létt snerting verið eins og skaðræðisbruni.
Sam og Bryn ákváðu að til að vinna gegn snertisársauka þyrfti að róa miðtaugakerfið. Það var gert með nálastungum og nuddi ásamt því að í tímunum hjá Bryn þá „rugluðum við kerfið“. Ég hafði kannski legið á hliðinni til að gera æfingu og var komin með sáran verk eftir allri hliðinni en í stað þess að strjúka hana strauk Bryn á mér höfuðið eða axlirnar til að færa skynjunina til og fá boðkerfið til að „hugsa“ um eitthvað annað. Ég man vel eftir að við systurnar gerðum þetta þegar við vorum litlar, þ.e. ef maður meiddi sig þá klipum við okkur einhvers staðar annars staðar til að rugla kroppinn!
Bryn lét mig fá krækjur á tvo fyrirlestra sem hjálpuðu mér mjög mikið við að skilja hvað væri í gangi. Mér finnst sjálfri oft betra að horfa á stutta fyrirlestra en lesa, því vefjagigtin gerir manni svo erfitt að halda einbeitingu. Hér er TED-fyrirlestur með Elliot Krane þar sem hann útskýrir langvinna verki (chronic pain), snertisársaka og meðferð: http://www.physiospot.com/2014/02/23/the-mystery-of-chronic-pain/ svo er annar fyrirlestur með prófessor Lorimer Mosely um sársauka: https://www.youtube.com/watch?v=-3NmTE-fJSo Þessir fyrirlestrar eru frábærir og hjálpuðu mér mjög mikið við að skilja hvað var að gerast í líkamanum og líka að bregðast við því.
Samantha benti mér svo á bækur sem ég las þegar ég var orðin aðeins betri, en þær eru einmitt eftir prófessor Lorimer Mosely: Painful Yarns sem er mjög skemmtileg og fræðandi, og svo: Explain Pain, eftir hann og David Butler.
Vatnsleikfimi og svæðanudd
Sam og Bryn mæltu með því að ég færi í sjúkraþjálfun í vatni hjá Alan Zammit sem er helsti sjúkraþjálfarinn hér á eyjunni. Vatnsmeðferð þykir mjög góð fyrir fólk með vefjagigt og langvinna verki þar sem æfingarnar eru mýkri í vatninu og heitt vatnið hefur líka svo góð áhrif á líkamann. Síðan var ákveðið að þegar við værum komin svolítið af stað með þetta allt saman væri gott að fara í svæðanuddsmeðferð hjá Lauru og hefja sálfræðimeðferð: schematherapy líka en ég talaði um hana í grein minni: Þegar ég áttaði mig á að ég væri veik 2. hluti. En fyrsta verkefnið okkar var að róa miðtaugakerfið og passa okkur á að fara rólega af stað.
Daglegt líf
Þetta varð svo dagskráin hjá mér. Ég fór í mismunandi tíma á degi hverjum, hvíldi mig á eftir, fór svo út að ganga ef ég gat með litla stráknum mínum í sólinni og kynntist hverfinu mínu smátt og smátt. Það er svolítið sérstakt hvað það tekur lengri tíma að kynnast hverfinu þegar maður er veikur. Ég hef aldrei spáð í það þar sem ég hef aldrei áður þurft að takast á við svona veikindi. Það er alltaf jafn spennandi og gaman að kynnast nýju þótt það gerist hægar. Öll nýju hljóðin, litirnir, rytminn, kerfið. Í götuna okkar kemur gasbíllinn einu sinni í viku og flautar rosalega dimmu flauti. Brauðbíllinn kemur líka einu sinni í viku, held ég, og er með mun bjartara flaut en grænmetisbíllinn sem kemur fjóra daga í viku og flautar ekki neitt. Það er Josep (segist á maltnesku: Jooooseeep) sem selur grænmetið og hann þekkir alla í götunni.
![Hjá Jooooseeeeef.]()
Hjá Jooooseeeeef.
Baunasalatsbíll keyrir af og til um og spilar afskaplega gamaldags auglýsingu sem er eins konar hróp. Ég hélt fyrst að þetta væri kosningabíll að kalla kosti einhvers frambjóðanda til hugsanlegra kjósenda, en nei, þetta er baunasalatsbíllinn. Svo eru fiskibílar og kleinuhringjabílar en ég hef ekki séð þá hér í götunni okkar.
En aftur að meðferðinni … Mér fannst taka óratíma að koma miðtaugakerfinu í jafnvægi þannig að ég gæti farið að gera „alvöru æfingar“. Við þurftum að fara ofur varlega því ef við ofbyðum líkamanum var hætta á að taugakerfið myndi fara í fyrra horf og við myndum hleypa sjúkdómnum upp. Þannig að við hreyfðum til dæmis annan fótinn í smá stund svo hinn pínulítið. Við vorum alltaf að skipta um stöður til að leggja ekki of mikið á hvern líkamspart fyrir sig og til að hleypa ekki snertisársaukanum á flug. Svona tókum við líkamann fyrir hægt og rólega. Þegar ég sagði fólki að ég væri í pilates og sundleikfimi fjórum sinnum í viku bjóst það við að ég yrði súper fitt – en það er langt frá því. Það tók hálft ár að komast á það stig að geta verið í hóptímum með fólki sem er að jafna sig eftir slys, mikil veikindi, nú eða konum sem eiga von á barni. Hver tími er miðaður við þá sem í honum eru.
Fangar í ökuþjálfun
Það gat tekið mjög á að komast í sundleikfimina því þangað þurfti ég að taka strætó því það var of langt fyrir mig að ganga. Núna geng ég aðra leið sem er sannarlega gott líkamlega en líka andlega því strætisvagnarnir hérna á Möltu eru alveg sér kapituli út af fyrir sig. Ég hef oft kvartað yfir strætó á Íslandi og í London svo ekki sé minnst á Mexíkó þegar við vorum þar í denn … Þeir eru aldrei á réttum tíma og bílstjórarnir rykkja af stað eða snarhemla eins og ekkert sé.
En ef þið takið verstu reynslu ykkar í strætó á Íslandi og margfaldið hana með a.m.k. 10 getið þið farið að nálgast ástandið hér, því að í viðbót við rykkingar, snarhemlanir, rosabeygjur á of miklum hraða bætist við áberandi mikill dónaskapur bílstjóranna. Eitt sinn var dónaskapurinn svo öfgafullur að ég hélt að strætóbílstjórinn myndi hjóla í einn farþegann … Mér skilst að strætófyrirtækið sé með endurhæfingardagskrá: Að það taki fyrrverandi fanga í ökuþjálfun og ráði þá í vinnu til að hjálpa þeim aftur inn í samfélagið. Það er mjög gott mál, en þeir voru bara ekki þjálfaðir nógu vel, blessaðir. Á meðan ég var að ná betra andlegu jafnvægi voru strætóferðirnar oft mjög erfiðar fyrir sálartetrið. Það verður þó að segjast að ástandið hefur batnað til muna eftir að maltneska ríkið tók aftur við rekstrinum. Það virðist sem bílstjórarnir hafi verið sendir í ökuþjálfun og á kurteisisnámskeið sem er mjög gott og blessað.
![Strætómenning.]()
Strætómenning.
En aftur að ferlinu. Ég er enn þá í þessum sömu pilates-hóptímum fyrir þá sem eru að jafna sig eftir slys og á svolítið langt í land að geta verið í almennum tímum. Ég fer og geri æfingarnar mínar í sundlauginni tvisvar í viku og geng heim á eftir. Ég hitti sálfræðinginn minn a.m.k. tvisvar í mánuði en oftar ef ég er viðkvæmari fyrir eða eitthvað hefur komið upp á. Ég fékk til dæmis mikið verkjakast þegar strákurinn minn var búinn að vera lengi veikur og ég sofið illa í fleiri daga. Þá þurfti ég að fara í nálastungur og til sálfræðingsins reglulega í þrjár vikur til að róa taugakerfið, ná mér upp úr vefjagigtarkastinu og angistinni sem var að hreiðra um sig.
Mér líður stundum eins ég sé Don Quixote
Mér hefur liðið stundum eins og ég væri Don Quixote riddari að berjast við vindmyllur síðastliðin ár. Sérstaklega þegar ég gekk á milli lækna og enginn virtist geta gert nokkuð eða gefið nokkur svör. En þessi tilfinning hefur minnkað mjög mikið síðan ég fékk greininguna og byrjaði meðferðina hér. Mér hefur stundum fundist ekkert ganga og tilraunirnar til að ná betri heilsu eins og vindhögg. Ég verð þá svo viðkvæm á sál og líkama að ég græt við minnsta tilefni, allt sem ég geri verður sársaukafullt og ég missi kjarkinn, fyllist kvíða og hræðslu, verkirnir verða verri og ég dett í sjálfsvorkunn og volæði. En um leið og ég átta mig á að þetta er einmitt ferlið, þetta er spírallinn niður, á ég möguleika á að snúa honum við! Með einbeittum vilja og stuðningi allra í kringum mig kemst ég aftur á ról og get haldið áfram.
Hægur bati
Málið er að þegar maður finnur að manni er að batna svolítið þá vill maður að það gangi hraðar. En það tekur tíma að byggja upp líkama og sál eftir langt og erfitt veikindatímabil og maður má ekki gleyma því. Jákvæði punkturinn er að þótt ég hafi fengið veikindaköst á þessum tíma hef ég aldrei orðið jafn slæm og þegar ég kom hingað fyrir ári.
Þegar ég lít til baka yfir þetta ár þá eru nokkrir litlir sigrar sem standa upp úr: Þegar ég vaknaði í fyrsta sinn verkjalaus og var það alveg fram að hádegi. Þegar ég sat í strætó á leiðinni heim eftir að hafa verið alla nóttina uppi á spítala hjá stráknum mínum sem var með lungnabólgu, og ég áttaði mig á því að ég hafði tekið strætó án þess að kvíða fyrir því! Þegar ég áttaði mig á og játaði fyrir sjálfri mér að ég kveið því að verða hraust því þá þyrfti ég að taka þátt í lífinu af fullum krafti – og ég velti fyrir mér hvort ég gæti það?
Það er nóg komið af norrænu týpunni
Til þess að geta tekið fullan þátt í lífinu þarf ég að halda mér við efnið: Kaupa grænmetið hjá Joooseep og borða heilsusamlegan mat, hvílast nóg, stunda leikfimi og útiveru og síðast en ekki síst sjá til þess að ég fái útrás fyrir tilfinningar mínar. Það er nóg komið af norrænu týpunni sem byrgir tilfinningarnar inni. Nú skal opna og hleypa þeim út!
Ég sendi ykkur öllum bros inn í vorið!