Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

Kúrbítspitsa

$
0
0

Ég hef óskaplega gaman að því að bæði lesa og fara á fyrirlestra um heilsutengd málefni. Það sem mér finnst allir vera sammála um, er að við þurfum að borða töluvert mikið af grænmeti. Nú gæti einhver haldið að ég ætlaði að fara að fræða og predika um mataræði og ég teldi mig vera einhvern heilsugúrú. Það ætla ég ekki að gera og það er mjög langur vegur frá því að ég sé gúrú. Er “bara„ venjuleg húsmóðir.  Þó reyni ég að borða það sem ég tel hollt og mér finnst gott.

Ein leið til að fá nóg af grænmeti í einni máltíð er að skella í kúrbítspitsu. Það er ekki bara að hún sé stútfull af grænmeti, mér finnst hún líka virkilega góð. Hrafntinna, litla barnabarnið okkar, 17 mánaða, gerði pitsunni líka góð skil.

Ef einhver afgangur verður af pitsunni er um að gera að skella henni í nestisboxið og taka með í vinnuna daginn eftir.

Kúrbítspitsa

Áætlað fyrir fjóra fullorðna.

Hitið ofninn í 200°C

DSC_0156

Innihald í botninn:

  • 2 stk. kúrbítur
  • 1 stk. brúnt egg
  • 200 g rifinn ostur
    • Ég notaði rifinn mozzarella-ost
  • 1 bolli hveitikím

DSC_0170

Aðferð:

  • Notið frekar stóra skál
  • Rífið niður kúrbítinn með rifjárni
  • Bætið egginu, ostinum og hveitikíminu saman við
  • Hnoðið öllu saman með höndunum
  • Klæðið ofnplötu með smjörpappír
  • Þjappið blöndunni á ofnplötuna
  • Bakið við 200°C í 20 mínútur.

DSC_0184

Næsta skref  er þegar botninn er bakaður.

Ofan á pitsuna

Ég  nota að þessu sinni tómat og basilikupestóið sem ég hef áður verið með í blogginu en þá ofan á brauð.

 Tómat og basilikupestó

Innihald:

  • 1 bolli sólþurrkaðir tómatar
  • 1 bolli fersk basilika
  • ½ stk. rautt chili
  • 1 stk. geiralaus hvítlaukur
  • 4 msk. möndlur
  • Flögusalt og pipar
  • Ólífuolía eftir þörfum

Aðferð:

  • Setjið allt hráefnið í matvinnsluvélina nema ólífuolíuna.
    • Byrjið að mauka.
  • Bætið olíunni smátt og smátt út í og látið vélina ganga.
    • Magnið af olíunni fer eftir því hversu þykkt þið viljið hafa pestóið.

Smekksatriði er hversu gróft fólk vill hafa pestóið.  Mér finnst gott að hafa hneturnar svolítið grófar.

 Þegar botninn er bakaður smyrjið þá pestóinu jafnt yfir hann og raðið álegginu á.

DSC_0188

Áleggið sem ég notaði:

  • 1 askja steiktir sveppir
  • Nokkrar sneiðar hráskinka
  • Hægelduð paprika
    • Uppskriftin er á blogginu undir speltbrauði og bollur.
  • 100 g rifinn mozzarella-ostur
  • ½ rauðlaukur
  • Notið endilega bara það sem ykkur líkar best.

Raðað á botninn og bakað áfram í 10 mínútur.

Þegar pitsan er bökuð dreifi ég yfir hana ¼ úr öskju af brokkóli/smára spírum.

Áferðin á kúrbítspitsunni er allt önnur en á brauðpitsu. Botninn er frekar mjúkur en ofboðslega góður.

DSC_0195

Með pitsunni hafði ég ofnbakaðar franskar úr sætum kartöflum.

Ofnbakaðar sætar kartöflur

Ég miða við ½ sæta kartöflu á mann fyrir fjölskylduna mína. Við erum sjúk í sætar. Þið þekkið ykkar heimafólk með magn.

  • Skerið sætu kartöflurnar í strimla.
    • Ég hef hýðið á.
  • Dreifið jafnt yfir ofnskúffu.
  • Bakið við 200°C í ca 50 mínútur.
  • Þegar kartöflurnar er tilbúnar hellið ólífuolíu yfir þær og saltið með flögusalti.

DSC_0200

Fólkið mitt vill nánast  sósu með  öllu.

Köld hvítlaukssósa

Innihald:

  •  1 dós sýrður rjómi
  • 2 stk. hvítlauksrif
  • 1- 2 tsk. akasíu-hunang
  • salt og pipar
  • Hrærið öllu saman.

Mér finnst mjög gott að útbúa sósuna áður en ég byrja á pitsunni og læt ég hana þá standa á borðinu þar til við borðum.

Njótið.


Mölturiddarinn að ári liðnu

$
0
0

Sólin skín, kirkjuklukkurnar hafa slegið tólf að hádegi. Hér á Möltu er þeim klingt alla daga, oft á dag en mest þó á sunnudögum. Mér finnst það mjög skemmtilegt en ég er líka svo heppin að búa ekki við hliðina á kirkju þannig að klukknahljómurinn er mér alls ekki til ama heldur ánægju.

Nú er rúmt ár síðan við fluttum hingað og ég hóf mína heilsugöngu. Ég þurfti á hjólastól að halda á flugvöllunum þegar við komum og gekk svo við staf. Ég gat einungis gengið í korter án hvíldar og verkjataflna en nú stússast ég allan daginn án verkjalyfja! Ég tek fleiri hvíldarpásur en margir og þarf oftast að leggja mig eftir hádegi til að komast í gegnum daginn en ástandið hefur svo sannarlega batnað til muna. Ég er slæm suma daga og býst við að ég eigi eftir að fá leiðinda verkjaköst í framtíðinni sem geta varið í marga daga, jafnvel vikur. EN ég sé árangur og ég veit það sem ég vissi ekki fyrir ári, að mér getur liðið vel!

Mataræðið

Ég var aðeins byrjuð að undirbúa ferlið áður en við fluttum hingað. Laura Tuomarila sem er svæðanuddari en fyrst og fremst vinkona mín, hvatti mig til að fara á candida-fæði, í þrjár vikur áður en ég kæmi til Möltu. Hér er krækja : http://www.thecandidadiet.com/foodstoeat.htm Sá matarkúr hefur haft góð áhrif á líðan vefjagigtarsjúklinga samkvæmt einhverjum könnunum og ég var alveg til í að prófa hann þótt ég hafi líka séð greinar sem segja að candida-fæði hafi ekki tilætluð áhrif. Mér fannst satt best að segja ekki verða nein afgerandi breyting á líðan minni en það var jákvætt að við það að vera á þessum stranga kúr var minna mál að breyta jafnvæginu í mataræðinu á eftir, þ.e. að vera með meira grænmeti en kjöt og fisk og taka út brauð – sem var nokkuð sem mig hafði langað að gera lengi en ekki drifið mig í. Mér líður betur ef ég borða meira grænmeti og svo finnst mér hveitineysla hafa slæm áhrif á mig en síðan hef ég séð á spjallsíðum vefjagigtarsjúklinga að þessi breyting á mataræði er algeng. Það er hreinlega hið besta mál hvort sem maður er með vefjagigt eða ekki.

Hnykklækningar, sjúkraþjálfun og nálastungur

Þegar við fjölskyldan komum til Möltu til að skoða aðstæður nokkrum mánuðum áður en við fluttum hingað, kynnti Laura mig fyrir BodyWorks sem er eins konar heilsu/leikfimistöð. Hún mælti með Bryn Kennard sem er einn eigenda stöðvarinnar. Hann er pilates-kennari og er að klára osteopathy eða hnykklækningar. Hér er krækja sem skýrir hnykklækningar http://en.wikipedia.org/wiki/Osteopathy  Hann fékk Samönthu Bonnici sjúkraþjálfara, MSc Sports Medicine, og nálastungulækni, með sér inn í ferlið en hún er líka með aðstöðu í BodyWorks. Mér fór strax að líða ögn betur bara við að hitta þau og útbúa plan. Ég fann að þau vildu allt til þess vinna að ég næði mér á strik og það gaf mér von. Vonin skiptir svo miklu máli því án hennar erum við dæmd til að gefast upp.

Uppbyggingin

Eftir skoðun hjá þeim og ítarleg viðtöl, gerðum við eftirfarandi plan: Ég myndi fara í einkatíma í pilates til Bryn tvisvar í viku og einu sinni í viku til Sam í ýmist nudd eða nálastungur. Þau komust að því að ég væri með Allodynia eða lauslega þýtt: Snertisársauka. Hér er krækja sem útskýrir snertisársauka http://chronicfatigue.about.com/od/glossary/g/allodynia.htm En snertisársauki er þekkt fyrirbæri hjá þeim sem hafa vefjagigt, langvinna verki og síþreytu og lýsir sér þannig að líkaminn verður ofurnæmur fyrir allri snertingu og í sínu ýktasta formi getur manni fundist létt snerting verið eins og skaðræðisbruni.

Sam og Bryn ákváðu að til að vinna gegn snertisársauka þyrfti að róa miðtaugakerfið. Það var gert með nálastungum og nuddi ásamt því að í tímunum hjá Bryn þá „rugluðum við kerfið“. Ég hafði kannski legið á hliðinni til að gera æfingu og var komin með sáran verk eftir allri hliðinni en í stað þess að strjúka hana strauk Bryn á mér höfuðið eða axlirnar til að færa skynjunina til og fá boðkerfið til að „hugsa“ um eitthvað annað. Ég man vel eftir að við systurnar gerðum þetta þegar við vorum litlar, þ.e. ef maður meiddi sig þá klipum við okkur einhvers staðar annars staðar til að rugla kroppinn!

Bryn lét mig fá krækjur á tvo fyrirlestra sem hjálpuðu mér mjög mikið við að skilja hvað væri í gangi. Mér finnst sjálfri oft betra að horfa á stutta fyrirlestra en lesa, því vefjagigtin gerir manni svo erfitt að halda einbeitingu. Hér er TED-fyrirlestur með Elliot Krane þar sem hann útskýrir langvinna verki (chronic pain), snertisársaka og meðferð: http://www.physiospot.com/2014/02/23/the-mystery-of-chronic-pain/ svo er annar fyrirlestur með prófessor Lorimer Mosely um sársauka: https://www.youtube.com/watch?v=-3NmTE-fJSo Þessir fyrirlestrar eru frábærir og hjálpuðu mér mjög mikið við að skilja hvað var að gerast í líkamanum og líka að bregðast við því.

Samantha benti mér svo á bækur sem ég las þegar ég var orðin aðeins betri, en þær eru einmitt eftir prófessor Lorimer Mosely: Painful Yarns sem er mjög skemmtileg og fræðandi, og svo: Explain Pain, eftir hann og David Butler.

Vatnsleikfimi og svæðanudd

Sam og Bryn mæltu með því að ég færi í sjúkraþjálfun í vatni hjá Alan Zammit sem er helsti sjúkraþjálfarinn hér á eyjunni. Vatnsmeðferð þykir mjög góð fyrir fólk með vefjagigt og langvinna verki þar sem æfingarnar eru mýkri í vatninu og heitt vatnið hefur líka svo góð áhrif á líkamann. Síðan var ákveðið að þegar við værum komin svolítið af stað með þetta allt saman væri gott að fara í svæðanuddsmeðferð hjá Lauru og hefja sálfræðimeðferð: schematherapy líka en ég talaði um hana í grein minni: Þegar ég áttaði mig á að ég væri veik 2. hluti. En fyrsta verkefnið okkar var að róa miðtaugakerfið og passa okkur á að fara rólega af stað.

Daglegt líf

Þetta varð svo dagskráin hjá mér. Ég fór í mismunandi tíma á degi hverjum, hvíldi mig á eftir, fór svo út að ganga ef ég gat með litla stráknum mínum í sólinni og kynntist hverfinu mínu smátt og smátt. Það er svolítið sérstakt hvað það tekur lengri tíma að kynnast hverfinu þegar maður er veikur. Ég hef aldrei spáð í það þar sem ég hef aldrei áður þurft að takast á við svona veikindi. Það er alltaf jafn spennandi og gaman að kynnast nýju þótt það gerist hægar. Öll nýju hljóðin, litirnir, rytminn, kerfið. Í götuna okkar kemur gasbíllinn einu sinni í viku og flautar rosalega dimmu flauti. Brauðbíllinn kemur líka einu sinni í viku, held ég, og er með mun bjartara flaut en grænmetisbíllinn sem kemur fjóra daga í viku og flautar ekki neitt. Það er Josep (segist á maltnesku: Jooooseeep) sem selur grænmetið og hann þekkir alla í götunni.

Hjá Jooooseeeeef.

Hjá Jooooseeeeef.

 

Baunasalatsbíll keyrir af og til um og spilar afskaplega gamaldags auglýsingu sem er eins konar hróp. Ég hélt fyrst að þetta væri kosningabíll að kalla kosti einhvers frambjóðanda til hugsanlegra kjósenda, en nei, þetta er baunasalatsbíllinn. Svo eru fiskibílar og kleinuhringjabílar en ég hef ekki séð þá hér í götunni okkar.

En aftur að meðferðinni … Mér fannst taka óratíma að koma miðtaugakerfinu í jafnvægi þannig að ég gæti farið að gera „alvöru æfingar“. Við þurftum að fara ofur varlega því ef við ofbyðum líkamanum var hætta á að taugakerfið myndi fara í fyrra horf og við myndum hleypa sjúkdómnum upp. Þannig að við hreyfðum til dæmis annan fótinn í smá stund svo hinn pínulítið. Við vorum alltaf að skipta um stöður til að leggja ekki of mikið á hvern líkamspart fyrir sig og til að hleypa ekki snertisársaukanum á flug. Svona tókum við líkamann fyrir hægt og rólega. Þegar ég sagði fólki að ég væri í pilates og sundleikfimi fjórum sinnum í viku bjóst það við að ég yrði súper fitt – en það er langt frá því. Það tók hálft ár að komast á það stig að geta verið í hóptímum með fólki sem er að jafna sig eftir slys, mikil veikindi, nú eða konum sem eiga von á barni. Hver tími er miðaður við þá sem í honum eru.

 Fangar í ökuþjálfun

Það gat tekið mjög á að komast í sundleikfimina því þangað þurfti ég að taka strætó því það var of langt fyrir mig að ganga. Núna geng ég aðra leið sem er sannarlega gott líkamlega en líka andlega því strætisvagnarnir hérna á Möltu eru alveg sér kapituli út af fyrir sig. Ég hef oft kvartað yfir strætó á Íslandi og í London svo ekki sé minnst á Mexíkó þegar við vorum þar í denn … Þeir eru aldrei á réttum tíma og bílstjórarnir rykkja af stað eða snarhemla eins og ekkert sé.

En ef þið takið verstu reynslu ykkar í strætó á Íslandi og margfaldið hana með a.m.k. 10 getið þið farið að nálgast ástandið hér, því að í viðbót við rykkingar, snarhemlanir, rosabeygjur á of miklum hraða bætist við áberandi mikill dónaskapur bílstjóranna. Eitt sinn var dónaskapurinn svo öfgafullur að ég hélt að strætóbílstjórinn myndi hjóla í einn farþegann … Mér skilst að strætófyrirtækið sé með endurhæfingardagskrá: Að það taki fyrrverandi fanga í ökuþjálfun og ráði þá í vinnu til að hjálpa þeim aftur inn í samfélagið. Það er mjög gott mál, en þeir voru bara ekki þjálfaðir nógu vel, blessaðir. Á meðan ég var að ná betra andlegu jafnvægi voru strætóferðirnar oft mjög erfiðar fyrir sálartetrið. Það verður þó að segjast að ástandið hefur batnað til muna eftir að maltneska ríkið tók aftur við rekstrinum. Það virðist sem bílstjórarnir hafi verið sendir í ökuþjálfun og á kurteisisnámskeið sem er mjög gott og blessað.

Strætómenning.

Strætómenning.

En aftur að ferlinu. Ég er enn þá í þessum sömu pilates-hóptímum fyrir þá sem eru að jafna sig eftir slys og á svolítið langt í land að geta verið í almennum tímum. Ég fer og geri æfingarnar mínar í sundlauginni tvisvar í viku og geng heim á eftir. Ég hitti sálfræðinginn minn a.m.k. tvisvar í mánuði en oftar ef ég er viðkvæmari fyrir eða eitthvað hefur komið upp á. Ég fékk til dæmis mikið verkjakast þegar strákurinn minn var búinn að vera lengi veikur og ég sofið illa í fleiri daga. Þá þurfti ég að fara í nálastungur og til sálfræðingsins reglulega í þrjár vikur til að róa taugakerfið, ná mér upp úr vefjagigtarkastinu og angistinni sem var að hreiðra um sig.

Mér líður stundum eins ég sé Don Quixote

Mér hefur liðið stundum eins og ég væri Don Quixote riddari að berjast við vindmyllur síðastliðin ár. Sérstaklega þegar ég gekk á milli lækna og enginn virtist geta gert nokkuð eða gefið nokkur svör. En þessi tilfinning hefur minnkað mjög mikið síðan ég fékk greininguna og byrjaði meðferðina hér. Mér hefur stundum fundist ekkert ganga og tilraunirnar til að ná betri heilsu eins og vindhögg. Ég verð þá svo viðkvæm á sál og líkama að ég græt við minnsta tilefni, allt sem ég geri verður sársaukafullt og ég missi kjarkinn, fyllist kvíða og hræðslu, verkirnir verða verri og ég dett í sjálfsvorkunn og volæði. En um leið og ég átta mig á að þetta er einmitt ferlið, þetta er spírallinn niður, á ég möguleika á að snúa honum við! Með einbeittum vilja og stuðningi allra í kringum mig kemst ég aftur á ról og get haldið áfram.

Hægur bati

Málið er að þegar maður finnur að manni er að batna svolítið þá vill maður að það gangi hraðar. En það tekur tíma að byggja upp líkama og sál eftir langt og erfitt veikindatímabil og maður má ekki gleyma því. Jákvæði punkturinn er að þótt ég hafi fengið veikindaköst á þessum tíma hef ég aldrei orðið jafn slæm og þegar ég kom hingað fyrir ári.

Þegar ég lít til baka yfir þetta ár þá eru nokkrir litlir sigrar sem standa upp úr: Þegar ég vaknaði í fyrsta sinn verkjalaus og var það alveg fram að hádegi. Þegar ég sat í strætó á leiðinni heim eftir að hafa verið alla nóttina uppi á spítala hjá stráknum mínum sem var með lungnabólgu, og ég áttaði mig á því að ég hafði tekið strætó án þess að kvíða fyrir því! Þegar ég áttaði mig á og játaði fyrir sjálfri mér að ég kveið því að verða hraust því þá þyrfti ég að taka þátt í lífinu af fullum krafti – og ég velti fyrir mér hvort ég gæti það?

Það er nóg komið af norrænu týpunni

Til þess að geta tekið fullan þátt í lífinu þarf ég að halda mér við efnið: Kaupa grænmetið hjá Joooseep og borða heilsusamlegan mat, hvílast nóg, stunda leikfimi og útiveru og síðast en ekki síst sjá til þess að ég fái útrás fyrir tilfinningar mínar. Það er nóg komið af norrænu týpunni sem byrgir tilfinningarnar inni. Nú skal opna og hleypa þeim út!

Ég sendi ykkur öllum bros inn í vorið!

Opið bréf til Gylfa Ægis

$
0
0

Nansý Guðmundsdóttir skrifar:

Nansy

Við hvað ert þú hræddur? Ég myndi bjóða þér í kaffi til mín og gott málefnalegt spjall, en ég get það ekki. Ég flutti erlendis!

Þú talar fyrir því að vernda börnin okkar frá samkynhneigðum, svo ég spyr þig. Hvað með samkynhneigðu börnin? Ætlar þú að vernda þau frá sjálfum sér líka?

Nú skrifa ég hér sem móðir 17 ára gamals drengs sem er samkynhneigður. Við vissum það þegar hann var þriggja ára. Ég réði mig í vinnu á gamla leikskólanum hans eftir BA námið mitt í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands sirka 13 árum seinna og þá barst sonur minn í tal og það kom í ljós að kennaranir hans höfðu líka vitað þetta. Flestir í fjölskyldunni vissu það fyrir 5 ára aldurinn, svo opinn og yndislegur var hann og er! Heldur þú að hann hafi bara valið þetta?

En hann var öðruvísi, hann fór sínar eigin leiðir og gerir enn. Hann fylgdi aldrei þessu „normi“ hvað svo sem það á að vera. Hann fór sem Mjallhvít í leikskólann einn öskudaginn, við útskýrðum fyrir honum að hann kæmi líklega niðurbrotinn heim, því við vissum að enn væri til svona fólk eins og þú. Hann kom niðurbrotinn heim!

Hann fór með bangsa á dótadag í skólann því hann lék sér ekki með þetta hefðbundna action strákadót sem var vinsælt þá. Við útskýrðum sama hlutinn fyrir honum og við gerðum með leikskólann bara nokkrum árum seinna, því við vissum að enn var til svona fólk eins og þú. Hann kom niðurbrotinn heim!

Hann vissi sem betur fer að knúsin voru alltaf til staðar heima, til að vega upp á móti svona fólki eins og þér!

Krakkar geta verið illgjörn, þau leggja í einelti, þau stríða, þau skilja ekki fjölbreytileika eins vel og við fullorðna fólkið gerum, eða flest okkar. Það þarf að fræða börnin, kenna þeim og fá þau til að skilja að það eru ekki allir eins. Sonur minn gekk í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, sú skólaganga var hræðileg fyrir hann þar til í 8. bekk, þá eignaðist hann, sem betur fer, nokkrar góðar vinkonur og tvo góða vini. Þessa vini er hægt að telja á fingrum annarrar handar. Aldrei gleymum við þó námsráðgjafanum og umsjónakennaranum hans sem loks tóku almennilega á málunum.

Ég fagna því mínum heimabæ og allri fræðslu um fjölbreytileikann. Mér leiðist að tala um „hinsegin“ fólk. Við erum öll fólk, sama hvaða lit við berum, trúabrögðum við fylgjum eða kynhneigð við höfum, við erum eins misjöfn og ólík eins og við erum mörg. Ég vona svo innilega að þessi fræðsla nái fram að ganga og í alla skóla til að vega upp á móti fólki eins og þér. Kannski þá þurfa þessi börn ekki að ganga um með kvíðahnút og skömm í maganum yfir því að finnast þau öðruvísi en aðrir, meðtekin í hópinn og ekki skilin útundan.

Gylfi þú talar um að barnaverndalög eigi að vernda börnin okkar og já þau eiga svo sannarlega að gera það, lögin og við, foreldrarnir, eigum að vernda þau fyrir fólki eins og þér!

Þegar þú komst fyrst fram með þína fordóma og fáfræði um samkynhneigt fólk þá varst þú að tala um barnið mitt og hjálpi mér hvað mér sárnaðu þessi ummæli þín. Ég skora á þig, Gylfi, skoðaðu barnaverndarlögin aftur og segðu mér hvaða grein laganna þú sjálfur hefur brotið með því að tala svona um barnið mitt (og öll hin samkynhneigðu börnin) í fjölmiðlum? Lestu vel, því greinin er þarna!

Þú talar um að barnið mitt skemmist fyrir að vera hann sjálfur! „Börn sem horfa á og alast upp við að þetta sé allt eðlilegt finnst þetta kannski spennandi og skemmast við að sjá þetta seinna meir. Ef svo að þjóðin öll verður orðin öfug eftir nokkur ár, þarf að flytja inn börn frá Rússlandi,“ skrifar þú. Gylfi þú gerir þér grein fyrir því að samkynhneigð er ekkert val!

Það yndislega við þetta allt saman er að 17 ára sonur minn stendur uppi sem hetjan, fyrir að hafa þolað fólk eins og þig, lesið það sem þú skrifið og hlustað á það hvernig þú talar um hann. Hann lét það ekki á sig fá, það sama má segja um allar hinar hetjurnar sem fagna fjölbreytileika og láta ekki hópa eins og þinn, „Barnaskjól“ sem hafa 380 „like“ á Facebook þegar þetta er skrifað. Þið eruð hávær lítill hópur, það verð ég að gefa ykkur.

Hinsvegar hópurinn „Verndum börnin frá fáfræði og fordómum“ hefur 6.465 fylgjendur. Takk kærlega fyrir, þið 6.465 sem standið á bak við þessi „like“. Þið eruð best í heimi. Gylfi, þú sagðir í Útvarpi Sögu: „þjóðin hefur talað“, hvað segja tölurnar þér?

Áfram fjölbreytileikinn, áfram Hafnarfjörður og áfram sonur minn!

Kossar og knús frá Svíþjóð

Kveðja

Nansý Guðmundsdóttir

Rannsóknarskýrsla um íslensku lopapeysuna

$
0
0

Uppruni, hönnun og þróun lopapeysunnar er mikilvægur hluti af textílsögu þjóðarinnar. Lopapeysan er hluti af sögu íslenskra karla og kvenna sem með hugverki sínu lögðu grunn að einni mikilvægustu útflutningsvöru Íslendinga fyrr og síðar.

Haustið 2014 hófst rannsókn á uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar en verkefnið var samstarfsverkefni þriggja safna: Gljúfrasteins – húss skáldsins, Hönnunarsafns Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi. Rannsóknin var unnin af Ásdísi Jóelsdóttur lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Screenshot 2015-04-25 09.56.26

Rannsóknin byggir á frumheimildum í formi munnlegra og ritaðra heimilda úr greinum og umfjöllunum. Höfundur skýrslunnar vann með bréfasöfn, ljósmyndir og safnmuni og notaðist einnig við prjónauppskriftir og auglýsingar í dagblöðum, tímaritum og bæklingum í rannsókn sinni. Viðtöl voru tekin við fjölmarga einstaklinga auk þess sem höfundur studdist við ýmsar upplýsingar og ábendingar sem bárust á meðan á rannsókninni stóð. Varðveisla safna á handprjónuðum peysum og öðrum munum var rannsókninni einnig mikilvæg. Einnig ber sérstaklega að nefna framlag og skrif Halldóru Bjarnadóttur og rannsóknir Elsu E. Guðjónsson á uppruna prjóns á Íslandi.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að fjölmargir áhrifavaldar hafa átt þátt í að marka upphaf, hönnun og þróun lopapeysunnar. Hún hefur fyrst og fremst mótast innan grasrótarinnar og þannig fengið sinn eðlilega framgang og þroska. Lopapeysan sameinar útsjónarsemi, handverksþekkingu og meginhráefnið til fatagerðar hér á landi, þ.e. íslensku ullina.

Í skýrslunni má m.a. finna upplýsingar um prjón og ullarvinnslu í sögulegu samhengi og þær aðstæður hérlendis sem rekja má upphaf lopapeysunnar til og þá þróun sem greina má allt frá upphafsárum Lýðveldisins. Rakin eru þau atriði sem gerðu lopapeysuna að séríslenskri frumhönnun sem þróuð var í samvinnu og með þátttöku margra einstaklinga og áhrifavalda þar sem samfélags- og tæknilegir þættir og framboð og eftirspurn hafa skipt sköpum. Það að hægt væri að gera úr lopapeysunni fljótunna og söluhæfa vöru þar sem margir aðilar gátu haft af því hag, er grunnurinn að því að lopapeysan hefur fest sig í sessi.

Lopapeysan er þannig mikilvægur hluti af tæknibyltingu og útflutnings- og hönnunarsögu þjóðarinnar og hefur því ekki að ástæðulausu orðið stór þáttur í þjóðarímynd Íslendinga.

Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og er aðgengileg á heimasíðum safnanna: www.gljufrasteinn.is, www.textile.is og www.honnunarsafn.is

Rannsóknin hlaut styrk úr Safnasjóði.

Meðfylgjandi myndir eru fengnar úr Ljósmyndasafni Reykjavíkur:

1) Theódóra Þórðardóttir ásamt annarri sýningarstúlku sýna handprjónaðar lopapeysur fyrir G. Bergmann heildsala árið 1961. Ljósmynd Andrés Kolbeinsson.

2) Ungur sjómaður í lopapeysu. Gunnar Rúnar Ólafsson.

Vilmundur heimsækir garðinn þinn

$
0
0

Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur er löngu landsþekktur fyrir fræðistörf og skrif sín um plöntur og ræktun. Hann er einnig stofnandi og stjórnandi síðunnar Ræktaðu garðinn þinn á Facebook þar sem eru tæplega 20.000 meðlimir.  

Í tilefni sumarkomu þótti okkur upplagt að heyra í honum. 

4719_1130832721413_5824746_n

Maður getur ímyndað sér að vorið sé þinn uppáhaldstími nú þegar plönturnar byrja að láta á sér kræla? Er það svo?

Já, engin spurning, ég er mikill vor-, sumar- og haustkarl sem eru allt árstíðir gróðurs og helst af öllu vildi ég leggjast í dvala yfir svartasta skammdegið. Á vorin finn ég alltaf ákveðna lykt í lofti og veit þá að það styttist í sumarið.

Hvað er það fyrsta sem þú gerir í þínum eigin garði eftir að snjóa leysir og sannarlega er komið vor?

Satt best að segja er ég fremur sófagarðyrkjumaður en að vinna mikið í eigin garði og þar sem ég er að skrifa og veita ráðgjöf um garðyrkju er ég latur í eigin garði.

Finnst þér gaman að gera tilraunir með að rækta plöntur sem eiga öllu jöfnu erfitt uppdráttar hér á landi? Hvaða, og hefurðu náð góðum árangri?

Ég á nokkur tré í garðinum sem teljast á mörkunum hér, til dæmis beyki og snjóboltarunna. Ég safna líka burknum.

Screenshot 2015-04-19 10.03.55

Það tala margir um það að garðvinna sé góð fyrir mannsálina, ertu sammála því?

Ræktun er góð bæði fyrir líkama og sál og veitir vellíðan, það er ekki spurning.

Finnurðu fyrir auknum áhuga á matjurtaræktun á Íslandi?

Ekki spurning. Ég varð var við aukinn áhuga á matjurtarækt strax eftir hrun og sá áhugi er bara að aukast. Fólki finnst gaman að rækta sjálft það sem það borðar.

Ræktarðu sjálfur matjurtir?

Nei, hreinlega nenni því ekki.

Áttu þér eftirlætisblóm eða jurt?

Alltaf haft áhuga á burknum og blómstrandi runnum.

Hvers konar ráðgjöf veitir þú fólki þegar þú heimsækir garða þeirra?

Ráðgjöfin felst í því að ég kem á staðinn og svara spurningum og bendi á það sem ég tel að betur megi fara.

Hvað er það helst sem fólk er að velta fyrir sér?

Spurningarnar eru oft á svipuðum nótum. Hvernig á að klippa, losna við mosa, hvar er best að hafa matjurtagarðinn og staðsetja ávaxtatré?

Skiptir skipulag garða miklu máli?

Já, auðvitað, ef fólk vill ná árangri er nauðsynlegt að skipuleggja og til dæmis planta ekki trjám sem verða há þannig að með tímanum skyggi sól frá pallinum.

Fyrir þá sem hafa hug á því að fá Vilmund í heimsókn er best að hafa samband með því að senda tölvupóst vilmundur.hansen@gmail.com eða hringja í síma 861 1013 og við spurðum hann hvernig hann tæki kaffið sitt og hann svaraði:

Svart og sykurlaust ☺.

Mörk – Bókarkafli

$
0
0

Kvennablaðið birtir hér kafla úr nýútkominni bók Þóru Karítasar Árnadóttur sem ber heitið Mörk. Í tilkynningu frá útgefanda segir:

„Mörk er fyrsta bók höfundar sem dregur hér upp mynd af lífi móður sinnar sem elst upp í hlýjum faðmi stórrar fjölskyldu, en undir niðri kraumar sá hryllingur sem ekkert barn á að þurfa að þola. Vel falið leyndarmál fylgir Guðbjörgu Þórisdóttur alla tíð og vofa þess skýtur upp kollinum þegar síst skyldi, allt þar til hún á fullorðinsaldri ákveður að segja skilið við hana fyrir fullt og allt. Nú hefur dóttir hennar, Þóra Karítas Árnadóttir, skrifað sögu litlu stúlkunnar sem vissi ekki hve óeðlilegt var „að búa í tveimur aðskildum heimum, himnaríki og helvíti, í einu og sama húsinu.“

Mork

„Ég var fjörutíu og átta ára gömul þegar ég hóf loks meðferð hjá geðlækni í rauðmáluðu bárujárnshúsi við Suðurgötu í Reykjavík. Ég vissi að ég þyrfti að æfa mig í því að treysta einhverjum fyrir sjálfri mér og að það væri hluti af bataferlinu. Ég vissi líka að ég yrði að tala við karlmann, að það myndi gagnast mér betur en að tala við konu þar sem óttinn við karlmenn hefur alltaf verið svo sterkur; mér fannst ég ekki síst þurfa að yfir­stíga þann ótta. Ég skoraði sjálfa mig á hólm. Það var ekki úr mér allur vindur.
Ég vandaði mig við valið á trúnaðarmanni. Ég spurð­ist fyrir um góða geðlækna mörgum árum áður en ég valdi mér lækni. Ég gat ekki komið mér í að taka upp símtólið til að panta tíma svo að lokum sendi ég honum bréf með fyrirspurn um hvort hann væri til í að taka mig að sér. Ég man hvar ég stóð í Breiðagerðisskóla, um­kringd krökkum að leik í frímínútum, þegar læknirinn hringdi í mig í fyrsta sinn. Hann sagði að sér þætti það leitt að hann gæti ekki tekið mig að sér fyrr en eftir þrjár vikur. Ég var nýbúin að taka við skólastjórastöðu og sannfærði lækninn um að ég væri ekki í neinni ör­væntingu; að ég hefði nóg að gera og að þrjár vikur væri alls ekki langur tími í mínum augum. Ég sagðist hafa í huga langtíma samtalsmeðferð án lyfjatöku, ef það gengi upp.

Þegar ég mætti svo loks á geðlæknastofuna við Suður­götu á sólríkum mánudagsmorgni kom ég ekki upp orði. Ég og vofan mín sátum saman í sófa á huggulegri stofu læknisins. Í fyrstu tímunum hélt hún þéttingsfast fyrir munn mér og nú þegar ég lít til baka sé ég að rétta leiðin var að sitja þarna sem lengst og koma sem oftast. Við geðlæknirinn vorum þrjóskari en vofan og fundum að lokum leið til að reka hana út í sameiningu. Það þurfti engin orð til að byrja með, bara vissu um að við gætum deilt þessari þungu, döpru þögn sem bjó í kjarna mínum. Þegar ég skrifaði bréf til læknisins og pantaði fyrsta tím­ann upplýsti ég hann skriflega um brot af reynslu minni. Ég treysti mér ekki til að opna á vandann öðruvísi. Lækn­irinn vissi því í hvaða tilgangi ég var mætt og einnig vissi hann að þolinmæði og traustið sem myndaðist á milli okkar í þögninni var það eina sem dugði. Ég borg­aði lækninum lengi vel fyrir það eitt að sitja, hlusta á þögn mína og horfa á mig stara út um gluggann einu sinni í viku, klukkutíma í senn. Ég réð ferðinni í meðferð­inni og því var það mitt að velja hvenær ég hæfi mál mitt. Þó kom að því eitt sinn er vofan sat með mér í húsinu við Suðurgötu að læknirinn rauf loks kæfandi þögnina.

– Ég var að velta því fyrir mér hvort þú myndir kannski vilja koma tvisvar sinnum í viku?

Þessi uppástunga var eins og blaut tuska í andlitið. Fannst honum ég þá svona klikkuð? Ég hugsaði með sjálfri mér hvort það gæti verið að lækninum þætti nota­legt að þegja svona með mér tímunum saman en vofan áttaði sig fljótt á því að þetta var mótleikur og að hún yrði brátt skák og mát.

– Þetta á eftir að taka langan tíma, bætti læknirinn við. Þegar ég lít til baka sé ég að hann hafði á réttu að standa. Ég fór löturhægt í gegnum fortíðina meðan læknirinn sýndi mér kærkomna þolinmæði.

Meðferðin tók mig tæpan áratug. Fyrstu sjö árin hitti ég lækninn bæði á mánudögum og föstudögum en síðan einu sinni í viku eftir það. Ósjaldan vorkenndi ég honum að bíða eftir því að ég gæti komið orðum að því sem þurfti til að finna farveg út úr sálartetrinu og stundum kveið ég mjög fyrir að hitta hann. Mér fannst eins og ég hefði ekki neitt að segja og gat með engu móti búið mig undir tímana, vissi ekkert hvernig ég ætti að vera þegar ég settist í stólinn hjá honum. Undirmeðvitundin ólgaði stöðugt. Smátt og smátt kom eitthvað til að ræða um. Eitt brot. Ein minning. Ein mynd. Andartak. Lykt. Hljóð. Brak í stiga. Hleri sem féll. Það var meira en að segja það fyrir mig að draga myrkustu minningarnar upp úr undirvit­undinni og færa þær í orð.

Læknastofan er í sömu götu og kirkjugarðurinn þar sem afi er grafinn. Einn sólríkan mánudag þegar ég hafði þagað of lengi á læknastofunni stakk ég upp á því við lækninn að við fengjum okkur göngutúr í kirkjugarðinn. Þetta var ekkert annað en lúmsk leið til að forðast orðin en læknirinn samþykkti þó að rölta með mér út. Hann hefur eflaust verið að vonast eftir því að einhverjar til­finningar brytust fram við legstein afa míns, en mér datt ekki í hug að nokkuð slíkt gæti átt sér stað. Við gengum saman út Suðurgötuna og inn í garðinn og fundum þar leiði ömmu og afa. Beinin liggja þarna einhvers staðar grafin en holdið er horfið og orðið aftur að mold. Sumir segja að kisturnar hafi færst úr stað í jarðveginum, að þær hafi jafnvel ferðast alla leið niður að Tjörn.

Það gerðist ekki neitt í heimsókn okkar í kirkjugarð­inn. Eða jú, það gerðist reyndar eitt ógleymanlegt því að svanirnir á Tjörninni byrjuðu að syngja. Svo hátt að það lá við að þeir öskruðu.

Ég er karamellumella! sagði ég eitt sinn við lækninn er ég sat í sófanum á stofunni hans. Ég trúði honum fyrir því að ég hefði ung að árum smíðað þetta nýyrði um sjálfa mig: Karamellumella! Hann horfði á mig með samúð og bað mig um að lofa sér því að uppnefna sjálfa mig aldrei með þessum hætti. Hann sagði að karamellu­mella væri ósanngjarnt orð yfir barn sem hefur verið rænt sakleysi sínu og bannaði mér að vera svona hörð við sjálfa mig. Þann áratug sem meðferðin tók þurfti ég að láta útskýra ýmislegt fyrir mér svo að barnið innra með mér öðlaðist nýjan skilning og þyrði að vaxa úr grasi. Það tók mig tíma að læra að tala alltaf fallega til sjálfrar mín og finna að ég ætti það skilið. Ég var aldrei karamellumella!“

 

Ég er tvítug!

$
0
0

Í dag eru liðin tuttugu ár frá þeim degi er ég gekkst undir aðgerð til leiðréttingar á kyni, annar Íslendingurinn sem það gerir samkvæmt opinberum tölum og sá fyrsti sem tjáir sig opinberlega um málið.

IMG_0002
Ég ætla ekki að tjá mig mikið um einstöku atriði í tengslum við aðgerðina enda margoft tjáð mig um hana, stundum nánast í smáatriðum þegar eftir því hefur verið leitað.  Ég var búin að berjast fyrir markmiðum mínum í mörg ár og þarna var komið að ákveðnum endapunkti en um leið nýju upphafi, endurfæðingunni.  Að kvöldi 23. apríl 1995  mætti ég á Karólinska sjúkrahúsið í Solna (Stokkhólmi) og var inni um nóttina og síðan flutt niður á aðgerðarstofu í bítið morguninn eftir þar sem aðgerðin var framkvæmd og vissi svo ekkert af mér fyrr en ég vaknaði á uppvakningunni um eftirmiðdaginn sama dag.  Ég lá svo á spítalanum í ellefu daga eftir aðgerðina en var frá vinnu í tvo mánuði á eftir.

Ýmislegt hefur á daga mína drifið á þessum tveimur áratugum sem liðnir eru, bæði gott og slæmt, en spurningunni sem ég fæ oft um hvort ég sjái eftir þessu risastóra skrefi sem ég tók, verð ég enn og aftur að svara neitandi. Þetta er það jákvæðasta sem fyrir mig hefur komið og bjargaði kannski lífi mínu því allt hafði verið á niðurleið hjá mér árin áður en ég fékk samþykki fyrir því að hefja aðgerðarferlið.

Vissulega lauk erfiðleikunum ekki með aðgerðinni, þvert á móti jukust þeir vegna fordóma einstaklinga sem töldu mig betur dauða en lifandi, þar sem örfáir hafa fundið ástæðu til að lumbra á mér eða að niðurlægja mig á annan hátt, en sem betur fer eru þeir margfalt fleiri sem studdu mig og standa enn með mér og öðrum þeim sem ganga í gegnum aðgerðarferli til leiðréttingar.  Því hafa seinni tíma erfiðleikar verið léttvægir í samanburði við nánast ókleyfa erfiðleikana sem blöstu við mér árin áður en Gunnar Hambert prófessor og yfirlæknir við sjúkrahúsið í Uppsölum opnaði dyrnar fyrir mér í Svíþjóð.

Brynja2

 

Þegar ég hóf að berjast ákvað ég að taka létt á hlutunum, reyna að beita húmornum á vandamálin og hefur það gengið misjafnlega, oft valdið misskilningi og jafnvel vinslitum á Facebook, en síður í raunheimum, þó einhverjum.  Það sem gildir umfram allt er að vera jákvæð.  Nú er ég til dæmis orðin nógu gömul til að mega versla í Ríkinu og kom við í Heiðrúnu í fyrradag og fékk mér nokkrar öldósir til að neyta í tilefni þess að ég er komin með aldur til að drekka áfengi. Af sama toga voru póstkortin sem ég sendi til fjölskyldunnar í tilefni af breytingunni samanber myndina að ofan og að sjálfsögðu textanum sem ég sendi þeim:
Brynja1

Ostakaka eða búðingur? Allavega gott …

$
0
0

Bara í tilefni þess að áðan skein sólin og mig langar alltaf svo mikið í jarðarber á þessum árstíma og ég á einmitt jarðarber sem ég ætla að gera eitthvað með á eftir, þá er hér ein snögg uppskrift – þetta er einhvers konar sambland af ostaköku og búðingi. Ég gerði reyndar ekkert ósvipað fyrir fermingarveislu dóttursonarins um síðustu helgi en þá var kökubotn undir svo að ég gat kallað það ostaköku með góðri samvisku.

Og svo er þetta án viðbætts sykurs, náttúrlega. En með döðlum. Bara svo þið í döðluóvinafélaginu vitið það.

_MG_3954

Ég byrjaði á að steinhreinsa 100 g af döðlum (eða þær voru sko vigtaðar þegar ég var búin að taka steinana úr svo að þetta var eitthvað meira að steinunum meðtöldum), setja þær í matvinnsluvél og mauka þær.

_MG_3957

Svo setti ég 250 g af mjúkum mascarponeosti út í, ásamt 200 g af sýrðum rjóma (36%) og 100 ml af St. Dalfour-apríkósusultu, og hrærði vel saman. Ég nota St. Dalfour af því að hún er góð og sykurlaus – það er að segja, sætan í henni er eingöngu úr ávöxtum. En það má nota aðrar sultur, sykurlausar eða ekki.

_MG_3958

Bætti svo við tveimur kúfuðum matskeiðum af kakódufti og lét vélina ganga þar til blandan var orðin alveg slétt.

_MG_3963

Svo setti ég blönduna í form – ég notaði bökuform úr gleri en það má nota hvaða flatbotna form sem er, eða bara víða skál – og sléttaði yfirborðið.

_MG_3965

Ég tók til bæði bláber og jarðarber sem ég átti. Magnið er bara það sem maður á eða vill nota – ætli ég hafi ekki verið með svona 400 g af jarðarberjum og 250 g af bláberjum? Það þarf náttúrlega ekkert að gera við bláberin en ég sleit blöðin af jarðarberjunum og skar stilkinn burt með hnífsoddi. Einhvers staðar á ég sérstakt tól til þeirra nota en nennti ekki að leita. Svo skar ég hvert ber í tvennt.

_MG_3996

Svo raðaði ég jarðarberjahelmingunum í hringi ofan á og setti bláber á milli. Gott að kæla þetta svo í allavega klukkutíma. – Ég veit satt að segja ekki af hverju það gæti virst á myndinni að búðingurinn væri tvílitur, það var hann ekki, hann var allur með sama lit … Dularfullt.

_MG_4003

En þetta var allavega fínasti búðingur. Nema manni sé illa við döðlur, náttúrlega.

*

Búðingur með berjum

100 g döðlur

250 g mascarpone

200 g sýrður rjómi, 36%

100 ml apríkósusulta

2 kúfaðar msk kakó

jarðarber

bláber

 

Ný bók mín Sætmeti án sykurs og sætuefna, kemur út eftir nokkra daga …þangað til megiði heimsækja vefinn minn hér.


Bára sýnir í Kubbnum

$
0
0

Í Kubbnum sýnir Bára Kristinsdóttir ljósmynda- og vídeóverk sitt Verkstæðið.

11127561_10152903494798727_1456707099887027156_o

Verkið gefur innsýn í líf tveggja eldri manna á nælonhúðunar verkstæði í útjaðri Reykjavíkur á síðustu tveimur árum. Áður voru á vinnustaðnum blómleg viðskipti þar sem unnið var handvirkt upp á gamla mátann. Nútímatækni hóf hins vegar aldrei innreið sína í fyrirtækið og sá tími er kominn að handbragð þeirra er ekki lengur eftirsótt. Einungis eigandinn og einn starfsmaður eru eftir. Fyrirtækið þarf því að lúta í lægra haldi fyrir kínverskri verksmiðjuframleiðslu sem yfirtekið hefur markaðinn.

Verkstæðið lætur ekki mikið yfir sér utan frá séð og virðist eins og hver annar vinnustaður í iðnaðarhverfi. Þegar inn er komið blasir við önnur sýn. Heimurinn sem þeir félagar lifa og hrærast í hefur lítið breyst frá því að verkstæðið hóf starfsemi fyrir um 40 árum. Viðhald hefur verið í lágmarki sem gerir það að verkum að það er líkt og tíminn hafi staðið í stað.

Bára bregður upp einlægri og heillandi mynd af heimi sem er að hverfa. Myndirnar sýna okkur fagurfræðina og nostalgíuna í gömlum og slitnum hlutum ásamt gömlu handverki. Viðtöl Báru við eigandann og sagnamanninn Elías auka á dýpt verksins og glæða það mannlegri hlýju og nánd. Við skynjum stemninguna og þær tregablöndnu tilfinningar sem bærast í brjósti manns á þessum tímamótum í lífi hans. Um leið varpar verkið sjónum okkar að afleiðingum þjóðfélagsbreytinga,  starfslokum og þeim viðkvæmu tilfinningum sem þeim fylgja.

Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Tryggvagötu 15, 6. hæð
Aðgangur ókeypis

Sýningar er opin mánudaga til fimmtudaga 12:00 – 19:00
Föstudaga 12:00 – 18:00
Um helgar 13:00 -17:00

Neyðarástand í Nepal – Söfnun hafin

$
0
0

Talið er að tæplega 2000 manns hafi dáið vegna jarðskjálftans í Nepal. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í landinu. Nú er mál að standa með nepölskum börnum, konum og mönnum.
Sendu SMSið UNICEF í númerið 1900 og gefðu 1500 krónur til neyðaraðgerða UNICEF í Nepal.
Látið endilega ganga.

Frumvarp um samfélagsþjónustu ungra afbrotamanna

$
0
0

Fimm þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum sem veita mun dómurum heimild til að dæma unga afbrotamenn í samfélagsþjónustu. Mun ákvæðið ná til afbrotamanna á aldrinum 15-21 árs og taka til skilorðsbundinna dóma.

Markmiðið með umræddri breytingu er að unnt verði að veita ungum afbrotamönnum meira aðhald og þannig koma í veg fyrir að þeir leiðist á braut frekari afbrota. Samfélagsþjónusta geti því komið til áður en gripið verði til hugsanlegrar fangelsisvistar, þegar venjulegur skilorðsbundinn dómur hefur ekki nægt til að leiða viðkomandi á braut löghlýðni. Þannig má líta á úrræðið sem nokkurs konar millistig milli skilorðsbundinna dóma í upphafi brotaferils og óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar á síðari stigum.

Það er von flutningsmanna að gildi samfélagsþjónustu með tilheyrandi eftirliti og aðhaldi dragi úr líkum á því að umrædd ungmenni leiðist út á braut frekari afbrota. Mikilvægt er að slíkur valkostur sé til staðar fyrir dómstóla landsins auk þess sem það væri í samræmi við þróun á Norðurlöndunum þar sem aukin áhersla hefur verið lögð á úrræði til að hvetja ungmenni til góðrar hegðunar og leiða unga afbrotamenn aftur inn á brautir löghlýðni. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að leita allra leiða til að draga úr endurteknum brotum hjá ungu fólki og þeim vítahring sem því getur fylgt.
Frumvarpið má finna hér

Sjáðu hana …

$
0
0

Þessi texti er þýðing Vilhjálms Geirs Ásgeirssonar á pistli eftir hollenska blaðamanninn Chris Klomp. Hlekk á upphaflega textann má finna hér.

„Þetta er hún. Ein af þessum fjársjóðsleiturum. Hún klifraði um borð í bát til að stela af okkur velferðarkerfinu. Hún myndi sjá til þess að gamla fólkið okkar yrði af hjálpinni sem það þarf á að halda. Hún myndi valda óróa í samfélaginu okkar. Því það er það sem flóttamenn gera. Endalaust leitandi að heppninni. Dragandi okkur niður í svaðið sitt.

Sjáðu hana. Kannski var hún að spá í að fremja hryðjuverk. Það gerir þetta fólk frá þessum löndum. Múslímar – og því hryðjuverkamenn.

Horfðu á hana, fjandinn hafi það. Reyndu að skilja að þetta snýst um fólk. Ekki tölfræði.
Um drauma og ótta. Viljann um að finna hamingjuna.

Örfáum klukkutímum áður sat hún sennilega í fangi móður sinnar. Móður sem örugglega sagði henni að þetta yrði allt í lagi. Að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Að betri heimur biði hennar. Að þar væri fólk sem myndi hjálpa henni. Af því að heimurinn er ekki bara stríð og fátækt. Því það væru til lönd þar sem fólk hefði það svo gott að það gæti hjálpað þeim sem minna mega sín.

Sjáðu hana, marandi í hálfu kafi. Í bleika kjólnum sínum. Kannski er þetta uppáhaldskjóllinn hennar. Reyndu að skilja að móðir hennar hafði rangt fyrir sér. Það er erfitt að horfast í augu við það, en þannig er það samt.

Ég hef, fjandinn hafi það, aldrei skammast mín eins mikið fyrir Evrópu og nú. Fyrir Holland (og Ísland (innsk. þýðandi)). Ég skammast mín fyrir að hér sé fólk sem er svo ruglað og með svo furðulegar hugmyndir að það getur ekki sleppt fordómunum og útlendingahatrinu í smá stund. Getur ekki sýnt fólkinu sem lenti í þessum harmleik smá virðingu.

Shame on you.“

Í tilefni jafnréttisverðlauna Jafnréttisráðs

$
0
0

Birgitta Jónsdóttir skrifar:

Það hefur aldrei verið mér hindrun né fjötur um fót að vera kona. Ég held að sú hugsun hafi bara verið mér svo fjarri að ég hefði aðra stöðu í samfélaginu að ég gerði bara aldrei ráð fyrir né leit á tækifæri eða skort á þeim sem tengt kyni.

Það þýðir ekki að ég hafi ekki verið meðvituð um kynjamisrétti, enda alin upp af móður sem þurfti hreinlega að moka sér farveg í tónlistarheimum sem frumkvöðull á sínu kynjasviði í karllægum heimi. Ef einhver ætti að fá jafnréttisverlaun þá er það hún móðir mín heitin, Bergþóra Árnadóttir, enda ruddi hún veginn fyrir aðrar tónlistarkonur sem semja og flytja sína tónlist.

En það er þannig með frumkvöðla að þeir týnast oft í sögunni og þeir sem á eftir koma gera sér bara engan veginn grein fyrir hve á brattann var að sækja hjá forverum þeirra. Við værum ekki hér í landi sem kynjamisrétti hopar stöðugt nema vegna baráttu og hugrekkis fjölda forvera okkar, bæði kvenna og karla sem höfðu framtíðarsýn og ríka réttlætiskennd.

Þeirra vegna ávann ég mér nokkuð djarfa hugsun sem er á þá leið að ég get gert allt sem hugur minn stendur til, ég get lært allt sem mig langar, ég má gera mistök og ég get staðið upp ef ég dett og haldið áfram að henda mér út í djúpu laugina. Það geri ég í öllu, ég hugsa ekkert um hverjar afleiðingarnar eru af því að vaða bara í hlutina, ef ég myndi gera það, þá er alveg ljóst að ég myndi ekki gera neitt.

bergthora 1

Þegar ég fór að vefa vefi inn í alnetið og perla kóða eins og torkennileg dulkóðuð ljóð þá hafði ég ekki hugmynd um að þetta væri karlaheimur, en þegar ég sá að nánast allir samstarfsfélagar mínir voru karlar, þá tók ég meðvitaða ákvörðun um að það væri mjög mikilvægt að koma á alnetið málaflokkum er snertu á málefnum kvenna og barna.

Ég sá t.d. um Veruvefinn, með sitt dásamlega rauntímaspjall kvenna, og ég gerði einmitt fyrsta vefinn fyrir Jafnréttisstofu og ég gerði fyrsta vefinn fyrir Kvennasögusafnið og fyrir Hitt Húsið og Umboðsmann Barna.

Ég gerði þessa vefi fyrir nánast ekkert gjald, því að það var mér mikilsvert að tryggja að rödd og málefni kvenna og barna yrðu sterk í árdaga hins sýnilega nets á Íslandi á árunum 1995 til 1998. Í dag dettur engum í hug að segja að netið sé karllægt eða kvenlægt.

kodi vera

Ég fékk jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs (ásamt 14 öðrum konum sem voru fyrstar í að gegna allskonar embættum tengdum þingstörfum) fyrir eitthvað sem datt ekki einu sinni í hug að skipti máli, enda ákvarðanir í kringum þær alfarið teknar út af praktískum sjónarmiðum: hver hafði einhverja reynslu af inniviðum Alþingis þegar mínir litlu þingflokkar silgdu inn á þing. Það vildi svo til að það var ég.

Það sem mér finnst miklu mun fallegra og mikilvægara í sögulegu tilliti er að hafa ofið inn í stjórnmálahefð nútímans þann fallega og mikilvæga þráð sem átti upphaf sitt í Kvennalistanum, að enginn væri foringi, að taka sér aldrei valdið í fang heldur sjá valdið sem hring innan hrings og flytja það á milli þeirra sem sitja í þessum hring með reglubundnum hætti. Það er bara alger tilviljun að ég hafi verið í þeim sporum að vera fyrst og vera kona.

Ef karlmaður hefði haft reynsluna sem ég hafði þó lítil væri þá hefði karl orðið þingflokksmaður fyrst. Það er kannski einmitt þetta sjónarhorn sem er svo mikilvægt í kynjaumræðuna í dag. Að sá sem býr yfir reynslu tekur fyrst að sér stýra skútunni en sá hinn sami kennir næsta í hringum hvernig á að sigla um lífsins úfna sjó og svo koll af kolli.

Mest um vert er að verða aldrei valdið og vera alltaf og ávallt tilbúinn að meðhöndla það sem þjónustuhlutverk sem er aðeins tímabundin ábyrgð sem flýtur í gegnum mann frá og til næsta manns.

birgitta teik

EN fyrst að ég er að fjalla um þessa viðurkenningu þá verð ég að segja að mér þótti skringilegt að veita þeim ráðherra sem sagði af sér með skömm nýverið viðurkenningu í þessu samhengi, sér í lagi í ljósi þess að önnur kona var fyrst til að gegna embætti Dómsmálaráðherra og fékk viðurkenningu fyrir það.

Það er því skuggi á þessum viðburði og viðurkenningu og ég get eiginlega ekki glaðst yfir þessu. Ég hefði líka viljað sjá að þær konur sem stofnuðu stjórnmálaflokka hefðu fengið viðurkenningu fyrir það, það er að mörgu leiti margfallt erfiðara að ráðast í slíkt verk en nokkuð annað.

Mér hefði líka fundist að Kvennalistinn hefði átt að fá viðurkenningu, enginn gjörningur fyrr né síðar hefur haft eins mikil áhrif á jafnrétti á þingi eins og stofnun og framkvæmd Kvennalistans.

birgitta teikn 2

Ást í öllum litum – Hádegistónleikar Dísellu Lárusdóttur

$
0
0

Ást í öllum litum er yfirskrift hádegistónleika Dísellu Lárusdóttur hjá Íslensku óperunni þriðjudaginn 28. apríl kl. 12.15 í Norðurljósum í Hörpu.

Claire McAdams Photography

 

Dísella, sem er búsett á Íslandi um þessar mundir eftir að hafa starfað við Metropolitan-óperuna í New York undanfarin ár, mun flytja valdar aríur og sönglög sem henni eru kær, aríur úr óperum eftir W. A. Mozart, Giuseppe Verdi og Igor Stravinsky, auk þriggja söngljóða eftir Maurice Ravel.

Í haust snýr hún svo aftur til New York og mun meðal annars æfa titilhlutverkið í óperunni Lulu eftir Alban Berg undir stjórn James Levine, sem frumsýnd verður í Metropolitan-óperunni í nóvember.

Píanóleikari er Antonía Hevesi og er aðgangur að tónleikunum ókeypis.

 

Öruggasta skjólið

$
0
0

Ég átti ömmu – ömmu sem var mér miklu dýrmætari en rúbínar. Guðrún Þórdís hét hún, fædd 24. nóvember 1890. Hvernig var hún? Trúuð, væn og vel liðin, góð og falleg. Þegar ég kom til sögunnar var hún búin að lifa tvær heimsstyrjaldir og bróðir hennar var veginn í lok þeirrar síðari. Hún var búin að missa tvö fyrstu börnin sín úr lungnabólgu, nokkrum árum áður en penisilínið var uppgötvað, og síðan ala upp fimm falleg og fáguð börn.

Amma 25 ára.

Amma 25 ára.

Árið 1910 höfðu þau farið saman til Kaupmannahafnar til náms, stuttfættu systkinin Guðmundur og Guðrún Þórdís, hann til að skrifa, hún til að læra til klæðskera. Guðmundur kom aldrei framar heim til búsetu og var veginn í Kaupmannahöfn daginn sem stríðinu og fimm ára hernámi Þjóðverja í Danmörku lauk, þann 5. maí 1945.

Guðmundur Kamban.

Guðmundur Kamban.

Amma kom heim 1918 og stofnaði saumastofu. Hún réði þangað konu að nafni Ingibjörg Bachmann, hverrar bróðir, Hallgrímur, síðar ljósameistari, fór fljótlega að sniglast þar. Eftir einhvern tíma segir amma: ‚Ekki langar mig nú til að giftast, Halli minn, en hvað myndirðu segja ef ég bæði þig um að eignast með mér barn?‘ Afa rak í rogastans og stundi upp: ‚Þá myndi ég segja að það væri mér lífsins ómögulegt!‘

Börnin urðu sjö, fimm þeirra komust á legg og eru nú öll horfin til strandarinnar löngu.

Hún var hláturmild og hló oft þar til hún grét, hún amma, sem oft tók mig með sér af Óðinsgötunni upp í Hólavallakirkjugarð, að snyrta leiði hins og þessa fólks sem henni hafði verið kært, á meðan ég rólaði mér á keðjunum á milli leiðanna. Þegar ég spurði hana hvers vegna hún væri að þessu, sagði hún: ‚Að syrgja sýnir virðingu; en helgidómurinn felst í því að muna.‘

Eitt sinn sendi hún afa að kaupa blóm og leggja þau á leiði tengdamóður ömmu, Hallfríðar Bachmann ljósmóður. Sömu nótt dreymir ömmu að Hallfríður kemur fremur snúðug og fleygir í hana blómvendi. Daginn eftir spyr amma afa hvort hann hafi ekki farið með blómvönd á leiði móður sinnar: ‚Æ, Guðrún mín, ég fann ekki leiðið hennar mömmu, svo ég setti bara blómin á leiðið hennar mömmu þinnar.‘ Afi hafði ekki gert sér grein fyrir því þegar þar var komið sögu, að amma væri beintengd við almættið.

Biblíuþekking mín er vitanlega líka frá ömmu; eftir að hún fór að sjá illa var það besta sem ég gat gert fyrir hana að lesa úr Biblíunni – hún valdi ritningargreinar og ég las. Fæstum er gefin slík sannfæring, þessi djúpstæða fullvissa um skapara okkar og tilgang. Síðar hugsaði ég til þess að hún valdi aðallega úr GT og ávarpaði Guð en ekki son hans eingetinn, en skildi loks að hún hefur kunnað betur við að snúa sér til manns á sínum aldri.

Hvers vegna er hún mikilvægasti punkturinn á kompásnum mínum, svona fyrir utan að veita mér ótakmarkaða ást og gæsku? Hún lét mig oft lesa orð Prédikarans:

‚Hinir fljótu ráða ekki yfir kapphlaupinu, né hinir sterku yfir stríðinu, né spekingarnir yfir brauðinu, né vísir menn yfir auðnum, hvað þá hagleiksmenn yfir stuðningnum, því tími og tilviljun mætir þeim öllum.‘ Prédikarinn 9:11

Guðrún Þórdís.

Guðrún Þórdís.

Amma sagði að erfiðleikar hittu alla fyrir, einhvern tímann á lífsleiðinni‚ og þá þarftu að hafa eitthvað innra með þér, til þess að komast af og í gegnum eitt líf, þarftu eitthvert innra haldreipi.‘ Þessi lágvaxna kona gat kennt mér hugrekki.

Ég á mörg bréf frá henni, send til Kaupmannahafnar á áttunda áratugnum; Atlanta og New York á þeim níunda. Hún bendir mér á að biðja Drottinn að hjálpa mér – og biðja hann ekki bara einu sinni, heldur oft. Í einu bréfi kemur hún með fyrirmæli í eftirskrift: ‚Gerðu aldrei neitt sem þú þarft að iðrast.‘ Ég held að þarna sé hún að koma með þráð í þetta innra haldreipi.

Í síðasta bréfinu segir hún að ég hafi hryggt sig. Með kuldalegri framkomu, ekki við hana heldur annan aðila. Það er þó ekki það sem fer með mig, við að lesa bréfin hennar upp á nýtt núna. Heldur næstsíðasta bréfið, þar sem hún biður mig fyrirgefningar, á einhverju tilteknu sem ég get ekki lesið og grunar ekki hvað er. Ræð ekki við grátinn og get ekki lesið meira í gegnum tárin. Amma að biðja mig fyrirgefningar! Þannig var hún: Auðmjúk og staðföst í trú sinni, óhrædd á Drottins vegum. Amma gat kennt mér auðmýkt.

Sem krakka var mér árum saman trúað fyrir því að fara með bita til afa niður í Þjóðleikhús. Öll þau ár lét amma sem hún vissi ekki að ég væri að fara til að, jú, skutla bitanum í afa, en fara svo upp í ljósastúku og sjá sýninguna. ‚Mikið ertu góð stúlka, Þórdís mín‘, var það látið heita. Þannig var hún, laðaði fram það bezta í fari fólks með blíðmælgi og í þessu tilviki, óverðskulduðu hóli.

Í fangi ömmu.

Í fangi ömmu.

Þannig var það líka með köttinn. Afi var gjarnan að koma heim löngu eftir sólsetur og kötturinn, sem tekinn var upp á því að planta sér á dyraþrepið, hlykkjaðist þá um fætur hans svo lá við falli. ‚Hvað er þessi köttur alltaf að gera hérna?‘ sagði afi byrstur. ‚Ég skil það ekki, Hallgrímur minn, ég er margbúin að segja honum að snáfa héðan,‘ sagði amma. Nema hún notaði sömu taktík á köttinn, sýndi honum góðsemi með því að koma út með sporð og rjóma í skál, lúta niður að honum og hvísla blíðlega: ‚Farðu svo og láttu ekki sjá þig hérna aftur.‘ Þannig var hún: Gefandi, líknandi.

Umfram allt gat hún kennt mér kærleika, því eins og hún segir í einu bréfanna: ‚Mundu að sýna öðrum kærleika – við þráum öll kærleika, elsku Þórdís mín.‘ Ekki veit ég hvort ég læri nokkurn tíma að lifa samkvæmt öllu því sem mín elskulega móðuramma gat kennt okkur barnabörnunum sínum fjórtán. En ég veit hvernig ég minnist hennar sem bætti í hörpuna mína strengjum ástar, gleði, vonar og trúar. Hún plantaði sér svo rækilega í hjartað á mér að þar er hún ódauðleg þótt hún hafi farið annað fyrir 32 árum – eins og rósarunni sem klipptur er að hausti og blómstrar aftur að vori.

Með þakklæti, auðmýkt og kærleika, elsku amma mín, sem ég ætla að tileinka þessa ritningargrein, því þú hefur svo sannarlega uppfyllt lögmálið:

‚Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað; því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.‘
(Róm 13:8)


„Hrun lífríkisins er óhjákvæmilegt“

$
0
0

Guy McPherson heldur fyrirlestur í Yogavin, Grensásvegi 16, í kvöld klukkan 20 þar sem hann fjallar um nýjustu rannsóknir á vistkerfinu og hvernig við sem manneskjur og samfélög tökumst á við vandann. Guy McPherson er prófessor emeritus í náttúruauðlindafræði og í umhverfisfræði og þróunarlíffræði við háskólann í Arizona.

Guy McPherson ferðast um heiminn með fyrirlestra um loftslagsmálin og er einn af þeim vísindamönnum sem fegrar ekki myndina heldur horfist í augu við þjáningu jarðarinnar á þessum erfiðu tímum. Hann er bæði heiðarlegur og kærleiksríkur í sinni nálgun og bendir á þau tækifæri sem gefast þegar við horfumst í augu við ástandið eins og það er.

Það er fremur óvænt að boða bjartsýni á tímum alvarlegra breytinga og hættuástands. Guy McPherson heldur því fram að hlýnun jarðar sé komin á það stig að hrun lífríkisins sé óhjákvæmilegt. Á sama tíma bendir hann á tækifærið sem felst í því að horfast í augu við vonleysið og hvernig það getur verið hvatning til þess að lifa í kærleika og samhljóm með okkar mikilvægustu gildum.

Guy situr fyrir svörum hjá sjónvarpsstöðinni RT í apríl í fyrra.

Til skamms tíma hafa fyrirlestrar Guy McPherson snúist um að draga fram nýjustu rannsóknir og sýna fram á að ástandið í umhverfismálum sé fullkomlega vonlaust. En hvers virði er að sannfæra fólk um það þetta sé raunin? Veldur það ekki bara svartsýni og vonleysi?

Guy McPherson telur að svo þurfi ekki að vera. Til viðbótar við nýjustu „slæmar fréttir“ hvetur hann fólk til að mæta sorginni og í stað þess að draga úr slæmu fréttunum spyr hann; hvað svo? Hvað getum við gert? Hvað ef þetta er satt? Hvað ef ástandið er vonlaust? Fyrstu viðbrögð við þessum spurningum eru almennt afneitun. Þó fólk finni innra með sér að þetta líti ekki vel út er viðbragðið að bæla tilfinninguna.

En Guy hvetur til þess að fara í gegnum tilfinningaferlið. Það að búa í viðvarandi ástandi afneitunar er ekki gott. Margir deyfa sig, fara á flótta eða setja angistarkraft í eitthvert nærtækt verkefni. Þarna er vandi sem hægt er að leysa. Í stað þess að hörfa undan tilfinningum vonleysis og ótta er hægt að fara í gegnum sorgarferlið og finna sátt, þakklæti, kærleika og gleði. Sorgarferlið er þekkt. Það eru til leiðbeiningar og stuðningur til að vinna með sorgina. Í stað afneitunar kemur sátt. Fólk skoðar sig um á nýjum stað í lífinu, forgangsröðin breytist og kraftur til framkvæmda er endurnýjaður.

Það er því ánægjuefni að fá þennan frábæra fyrirlesara til Íslands.

Fyrirlesturinn er hluti af Evrópuferð hans http://guymcpherson.net/

Aðgangur ókeypis – frjáls framlög.

Silicor gerir árás

$
0
0

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur gaf Kvennablaðinu leyfi til að birta þessa færslu af bloggi hans sem má lesa hér.

 

Ég bloggaði  um áform Silicor hinn 18. júlí í fyrra um að reisa verksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði. Það vakti töluverða athygli, bæði vegna þess að margir hafa áhyggjur af sölu orku á ódýrasta verði, margir eru á báðum áttum með frekari iðnað og verksmiðjurekstur á Íslandi og einnig vegna hugsanlegrar mengunar frá þessari tegund iðnaðar. En framleiðsla á kísil sólarsellum er fræg fyrir að vera mjög mengandi. Í viðbót er það mín skoðun að efnahagsleg framtíð Íslands liggi ekki í aukinni og vaxandi mengandi stóriðju. Nú er ferðaþjónustan orðin stærsta grein í efnahag landsins. Til að vernda ásýnd og náttúru Íslands er mikilvægt að halda iðnaði og mengun í skefjum og draga úr, frekar en bæta við stóriðju.

Fyrirtækið Silicor hefur frekar ófagran feril í Norður-Ameríku og má segja að þeir hafi eiginlega flæmst úr landi. Hvorki Ameríkanar né Kanadamenn vilja líða mengandi iðnað af þessu tagi og láta því Kínverja um slík skítverk. Ég rakti í blogginu hvernig Silicor, sem hét áður Calisolar, flæmdist frá Kaliforníu, komst ekki inn í Ohio eða Mississippi með verksmiðjur, fór frá Kanada, en virðist nú geta komið sér fyrir á Íslandi. Hér fá þeir ódýra orku og virðast geta mengað eins og þeim sýnist.

Mér til nokkurrar undrunar svaraði fyrirtækið mér fullum hálsi, með því að gera árás á vefsíðu þá, sem vefritið Wikipedia hefur um mig og mín vísindastörf.  Þar hefur „agent“ eða umboðsmaður Silicor komist inn og skrifað meðal annars að Haraldur Sigurðsson sé virkur í að deila á Bandaríkjastjórn, deili á auðveldisstefnu heimsins, á starfsemi Kínverja á Norðurheimsskautinu, og einnig að ég hafi lýst því yfir að ég muni starfa gegn Hilary Clinton, ef hún fer í forsetaframboð.

Þetta virðist skrifað mér til lasta, og Silicor virðist ímynda sér að þessi skrif komi einhverju höggi á mig á þennan hátt. Nú, satt að segja er ég hreykinn af öllum þessum skrifum og tel, sem bandariíkur ríkisborgari til 40 ára að mér sé frjálst og heimilt að koma fram með mínar skoðanir á hverju máli sem er, í riti og í máli. Sem sagt: algjört vindhögg! Ég hef kosið Obama og Bill Clinton, en tel að Hillary sé ekki rétta forsetaefnið nú, vegna spillingar sem hefur komið sér fyrir í herbúðum hennar.  Það eru aðrir ágætir demókratar sem ég tel hæfari, eins og Elizabeth Warren.

Ég tel að Íslendingar eigi að vara sig á erlendum fyrirtækjum eins og Silicor og alls ekki hleypa þeim inn. Ferill þess er ekki glæsilegur, og ferillinn er slíkur að það ætti að vera sjálfkrafa að þeim væri neituð aðstaða til að hefja verksmiðjurekstur hér. Skrif þeirra um mig sýna einnig að viðhorf fyrirtækisins eru fjandsamleg og að þeir muni beita öllum brögðum til að koma sínu fram. Hættulegir. Sennilega verð ég að fara að læsa útihurðinni hjá mér, sem við erum nú ekki vanir að þurfa að gera hér í Stykkishólmi. En varið ykkur, Skagamenn: Hvernig líf viljið þið eiga í framtíðinni? Algjört mengandi verksmiðjuhverfi, sem venjulegt ferðafólk mun taka stóran krók á leið sína til að forðast?

 

Nokkrir dagar í lífi ríkisstjórnarflokkanna

$
0
0

Það hefur varla liðið sá dagur frá upphafi sumars að maður fórnar ekki höndum yfir því hvaða fregnir berast af stjórnarþingmönnum og ráðherrunum sem stjórna hlýðnum starfsmönnum á færibandi þingsins.

Það vægasta heyrðist frá Pétri Blöndal þar sem hann kom með þá hugmynd að gera launafólk skaðabótaskylt fyrir verkföllum og að launahækkanir til handa þeim sem tilheyra slíkri undirstétt yrðu gerðar að skyldusparnaði.

Þessi hugmynd minnir mann á einhvers konar 18. aldar franska yfirstéttarfirringu þeirra sem skilja ekki að fólk skuli ekki bara borða kökur eða tilhneigingu í átt til samfélagsmyndar fasismans á fyrri hluta 20. aldarinnar.

pbl

Svo riðu aðrir sjálfstæðismenn á vaðið, m.a. Flórída-fjármálaráðherrann okkar sem tekur undir það að skerða þurfi verkfallsrétt og fóru að undirbúa það í orðræðu að lög verði sett á verkföll sem hefur að öllum líkindum verið ætlunin allt frá upphafi. Það er nefnilega það eina sem útskýrir áhugaleysi atvinnurekenda og engan samningsvilja stjórnvalda á því að semja við launafólk um sómasamleg laun í stað brauðmola sem myndi ekki einu sinni duga fyrir vínarbrauðslengjunum á stjórnarfundi Granda og VÍS.

illugi_1

Svo er það nú hann Illugi Gunnarsson sem tók gerræðislega ákvörðun um að einkavæða Iðnskólann í Hafnarfirði inn í Tækniskólann án þess að hafa til þess leyfi frá Alþingi jafnvel þó að færiband ráðherraræðisins sé þar í gangi alla daga milli fría. Ekki nóg með það heldur er búið að upplýsa okkur um það að ekki sé hann bara að starfa sem kynningarstjóri fyrir orkufyrirtæki gamalla útrásarvíkinga úr gamla bankanum hans Tryggva Þórs heldur borgar hann stjórnarformanni þess fyrirtækis leigu eftir að sá keypti íbúðina af honum um svipað leyti og Illugi var að almannatenglast fyrir fyrirtækið við undirritun samninga við Kínverja. Til að kóróna það tiltekur hann það sérstaklega að það hafi ekki haft áhrif á störf hans … sem menntamálaráðherra.

Enda falla orku- og útrásarmál orkufyrirtækis gamalla útrásarvíkinga í Singapúr ekki undir menntamál á Íslandi.

En svo er það nú þingmaður LÍÚ eða hvað það batterí kallar sig eftir andlitslyftingu og bótexfegrun útgerðarmanna, sem telur sig ekki vanhæfan til að fjalla um og móta lög um makrílkvóta þrátt fyrir að fyrirtæki sem hann skráði yfir á eiginkonu sína muni hagnast á því. Það séu engin hagsmunatengsl fólgin í því að þau hjónin muni hagnast á þessari lagasetningu, seisei, en hann ætlar bara að sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins til að sýna að hann hafi engra hagsmuna að gæta.

En eins og þetta væri ekki nóg úr fréttum síðustu daga þá er Hanna Birna að snúa aftur á þing eftir lekamálið, hafandi neitað að gefa þinginu skýringar á lygum, blekkingum og óeðlilegum afskiptum sínum af lögreglurannsókn á sakamáli.

hannatony

You can‘t make this shit up.

Í alvörunni.

Þetta er bara það sem kallast róleg vika hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Hugsið aðeins aftur.

Rifjið upp allt saman sem gengið hefur yfir síðustu tvö árin eins og t.d. lekamálið og hversu langt stjórnarþingmenn gengust upp í vörnum fyrir því án þess að þurfa að biðjast afsökunar á ummælum sem voru mannfyrirlitleg, svikin með þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB og bréfið furðulega, lækkanir veiðigjalda og aflagningu auðlegðarskatts, aðfarir stjórnarflokkanna gegn fjölmiðlum, styrkir og skattaívilnanir til ættingja fjármálaráðherra að ógleymdri Borgun, gífuryrði forsætisráðherra og ósannsögli þessar fáu daga sem hann mætir til vinnu, hroka og hegðun stjórnarþingmanna, Jónas Fr. Jónsson í stjórn LÍN, Fiskistofuflutninginn, kerfisbundna veikingu eftirlits með forhertu atvinnulífi og ef minnið bregst:

Gúgglið Vigdís Hauksdóttir.

Ég veit.

vigdis hauks

 

Það gæti orðið geðheilsu ykkar ofviða en það eru enn til nóg af gleðipillum í landinu til að viðhalda staðlinum um að vera einhver hamingjusamasta þjóð heims.

Ef þetta dugar ekki til hugleiðið þá hvað ríkisstjórnin ætlar að láta hlýðnu starfsmennina á þingmálafæribandinu afgreiða.

Hún ætlar t.d. að láta gefa vasapeningavinum sínum úr útgerðinni makrílkvóta til viðbótar við minna en hóflegt auðlindagjald, hún ætlar sér að eyðileggja og fjársvelta innviði í átt til einkavinavæðingar, hún ætlar að færa skipun dómara undir pólitíska duttlunga ráðherra og hún vill fara að veita vélbyssuvæddri lögreglu heimilidr til njósna í nafni „hryðjuverkaógnar“ sem er 100% öruggt að verður misnotað í þágu Sjálfstæðisflokksins gegn andstæðingum hans.

Hún ætlar sér að selja Landsbankann vinum sínum að nýju auk meiri einkavinavæðingar, hún vill hreppaflytja heilu og hálfu stofnanirnar í Skagafjörðinn, hún ætlar sér að virkja Þjórsá og fleiri náttúruperlur í drasl og svo vilja stjórnarþingmenn byggja áburðarverksmiðju til að heilla ungt fólk heim til vinnu.

Þetta er bara brot af því besta af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar en við getum allavega huggað okkur við eitt:

Þau höfðu vit á því að hætta við náttúrupassann.

Það er allavega jákvætt þó maður sitji í kvíðakasti yfir því hvaða vitleysu og valdníðslu þeim dettur í hug í staðinn til að fagna tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar.

En hvað svo sem það verður þá er bara kjörtímabilið að verða hálfnað og við eigum hið minnsta eftir 104 vikur af sams konar ummælum, fyrirætlunum, hneykslismálum, spillingu og valdníðslu nema við förum að taka okkur sjálf almennilegu taki og segja við ríkisstjórnarflokkana:

Hingað og ekki lengra!

Það er búið að sýna ykkur gula spjaldið með mótmælum í vetur.

Skilið lyklunum sem fyrst ef þið viljið ekki skilja það eða virða þjóðina sem þið eigið að þjóna.

Annars berum við ykkur út.

Og það verður ekkert krúttlegt við það.

Spilar arijon@gmail.com golf?

$
0
0

Gildi markhópagreiningar 

Í byrjun náms í markaðsfræði er mikil áhersla lögð á markhópagreiningu, þ.e. að greina viðskiptavini í markhópa. Þannig má tala til ólíkra hópa með mismunandi skilaboðum og um leið hámarka styrk þeirra. Oft er notast við lýðfræðilegar breytur eins og kyn, aldur og póstnúmer en þegar aðrar breytur eru teknar með eins og lífsstíll og áhugasvið viðskiptavina getur markhópagreindur gagnagrunnur verið með því allra verðmætasta sem fyrirtæki eignast.

Það vekur því ákveðna furðu hve mörg íslensk fyrirtæki senda öllum sömu skilaboðin og virðast svo vona það besta. Þetta sést líklega best í tölvupóstsherferðum (e. Email Marketing) sem mörg fyrirtæki nýta sér í dag.

Vandamálið liggur í því að íslensk fyrirtæki nota sjaldan tækifærið til að kynnast viðskiptavinum sínum og markhópagreina þá um leið til þess að geta talað með ólíkum hætti til þeirra.

Viðeigandi skilaboð sem innihalda ávinning

Í flestum rannsóknum sem gerðar hafa verið um beina markaðssetningu eru tvö atriði sem skora oftast hæst; Ávinningur og viðeigandi skilaboð. Ef tölvupósturinn, SMS-ið, símtalið, gluggapósturinn eða samfélagsmiðlarnir innihalda viðeigandi skilaboð með ávinningi þá eru miklar líkur á að framkalla viðbragð sem getur leitt af sér sölu, heimsókn í verslun eða á heimasíðu.

Ef hins vegar annað þessara tveggja atriða vantar er nokkuð öruggt að markaðssetningin heppnist ekki.

Bæði atriðin verða alltaf að vera til staðar því það er ekki nóg að hafa ávinning ef hann er ekki viðeigandi fyrir viðtakandann.

Til dæmis er skýr ávinningur af meðgöngujóga fyrir margar verðandi mæður en slík skilaboð eru í besta falli kjánaleg fyrir 63 ára gamla konu sem fékk nýlega slíkt tilboð frá einni af stærri líkamsræktarstöðvum landsins.

Þar hafði líkamsræktarstöðin gert það sama og um 95% íslenskra fyrirtækja gera; „Spörum tíma og sendum bara öllum sömu skilaboðin. Þetta reddast.“

Færri en 5% íslenskra fyrirtækja markhópagreina á heimasíðum

Í apríl 2011 skráðum við ákveðið netfang á um 800 íslenska tölvupóstlista en markmið okkar var að mæla hversu mörg fyrirtæki markhópagreina þá sem skrá sig á póstlista. Um 95% fyrirtækja spyrja aðeins um netfang og missa um leið tækifæri til að senda persónuleg og hnitmiðuð skilaboð sem innihalda viðeigandi skilaboð.

Það er með öðrum orðum engin leið að senda viðeigandi skilaboð ef sendandinn veit ekkert um viðtakandann. Hver er t.d. arijon@gmail.com? Hvaða gagn er fyrir fyrirtæki sem selur golffatnað af slíku netfangi? Spilar arijon@gmail.com golf?

Hvernig byrjar markhópagreining?

Ef við föllumst á að viðeigandi skilaboð séu kjarninn í beinni markaðssetningu hvernig er þá best að markhópagreina og á hverju byrjar sölu- og markaðsstjórinn? Hann byrjar á að greina hvaða gögn eru mikilvægust til þess að breyta þekkingu í tekjur. Netfangið eitt og sér er nauðsynlegt til þess að geta átt bein samskipti en mikilvægar lýðfræðilegar og lífsstílsbreytur eru algert lykilatriði í allri markhópagreiningu.

Ef þú selur t.d. ferðalög þá viltu spyrja um uppáhaldsborg, eða áhuga á knattspyrnu, skíðum eða golfi. Ef þú selur myndavélar þá viltu spyrja um hvort viðkomandi sé áhuga- eða atvinnuljósmyndari. Ef þú selur skólavörur þá viltu vita hvort börn séu á heimilinu og aldur þeirra.

Gagnlegt fyrsta skref er að skipuleggja hugarflugsfund (e. Brain storm) þar sem þátttakendur fara á grænt ljós og allt er sett á blað. Eftir að hugarfluginu lýkur eru breyturnar settar í A,B og C-flokk þar sem A-breytur eru þættir sem auðvelt er að nálgast við fyrstu kynni. Þetta er oft nafn, netfang, GSM, kyn og póstnúmer ásamt 3-5 lykilspurningum um lífsstíl eða áhugasvið.

Breytur sem falla í B- og C-flokk má auðveldlega sækja síðar í gegnum stuttar og hnitmiðaðar netkannanir. Séu slíkar netkannanir rétt útfærðar má búast við 45-65% svörun og með þeim hætti er hægt að byggja upp afar verðmætan gagnagrunn til framtíðar.

Allir eyða í lífsstíl sinn!

Samkvæmt Hagstofu Íslands eyða íslendingar allt að 30% af ráðstöfunarfé sínu í áhugasviðs- og lífsstílstengda þætti. Því blasir það við að íslensk fyrirtæki ættu að hafa mikinn áhuga á að kynnast þessum lífsstílsþáttum hjá viðskiptavinum sínum og öðlast um leið tækifæri til að eiga persónuleg og hnitmiðuð samskipti.

Home! $weet Home! – Vandræðabarnið 75 ára

$
0
0

Árið 1940 má telja að marki upphaf nútímavæðingar á Íslandi. Með hernámi landsins í stríðsbyrjun gekk tækniöld í garð. Það er því fróðlegt að stikla yfir húsnæðissögu höfuðborgarinnar í þrjá aldarfjórðunga frá upphafi nútímavæðingar. Í hnotskurn má lýsa húsnæðispólítík tímabilsins á þessa leið: Séreignastefnan á 75 ára afmæli. Á sama tíma á tvíburasystir séreignastefnunnar líka afmæli: húsnæðisekla höfuðborgarsvæðisins.

Úr Morgunblaðinu 2. Október 1940

Úr Morgunblaðinu 2. Október 1940

Húsnæðisvandræði höfuðborgarinnar hófust fyrir alvöru með hernáminu. Þá myndaðist gríðarleg eftirspurn eftir leiguhúsnæði fyrir útlenskt herlið. Bretar og Ameríkanar yfirbuðu með gjaldeyri fátæka íslenska alþýðu í frumskógi leigumarkaðarins.

Alþýðublaðið 26. Október 1940

Alþýðublaðið 26. Október 1940

75 árum síðar er nánast sama staða í húsnæðismálum höfuðborgarinnar. Erlendir ferðamenn með haftalausan gjaldeyri yfirbjóða borgarbúa í „Villta vestrinu“. Það er annað orð yfir leigumarkað höfuðborgarsvæðisins. Þar að auki hafa „fagfjárfestar“ fjármagnaðir af lífeyrissjóðum gengið í lið með ferðamönnum. Þessi félög byggja viðskiptamódel sitt á síhækkandi fasteignaverði. Þau hafa undanfarin misseri keypt hundruð íbúða í miðborginni og eru byrjuð að kaupa íbúðir í úthverfum. Tilgangurinn er fasteignabrask. Fyrsta verk þessara félaga er yfirleitt að hækka leigu íbúanna. Oftast eru leigusamningar einungis eitt ár, enda markmiðið að leysa út söluhagnað eftir ákveðinn tíma. Oft eru talsmenn þessara félaga álitsgjafar í fjölmiðlum um þróun fasteignaverðs. Fjölmiðlar kalla svo yfirleitt á fasteignasala eða bankafulltrúa til andsvara til að ræða síhækkandi fasteignaverð.

Screenshot 2015-04-28 21.53.14

Þjóðviljinn Miðvikudagur 14. nóv 1945

 

Húsnæðisekla höfuðborgarinnar var viðvarandi eftir stríðið. Á stríðsárunum reisti hernámsliðið bragga fyrir starfsemi sína. Þeir voru hannaðir sem bráðabirgðahúsnæði. Uppsetningin tók örfáa daga en braggarnir stóðu áfram í áratugi eftir stríð víða í borgarlandinu. Þegar flest var bjuggu um 2400 manns í bröggum á Reykjavíkursvæðinu. Við þessa tölu bættist fjöldi fólks sem bjó við ófullnægjandi skilyrði í kjöllurum og á hanabjálkum, í geymslum eða öðru álíka.

braggi

Áratugina eftir stríð áttu sér stað miklir fólksflutningar frá sveitum landsins til höfuðborgarinnar. Einnig óx úr grasi stór „barnasprengju“-kynslóð eftirstríðsáranna. Samverkandi þættir viðhéldu þannig mikilli spennu á frumstæðum leigumarkaði borgarinnar.

Þjóðviljinn 13. febrúar 1955

Þjóðviljinn 13. febrúar 1955

Á þessum árum tók nokkur fjöldi til sinna eigin ráða í húsnæðiseklunni. Þetta fólk byggði sér hús á landskikum fyrir utan þáverandi borgarmörk. Húsakynnin voru byggð af vanefnum úr kassafjölum og afgangsefni sem til féll. Þessi hús voru flest illa einangruð og hreinlætisaðstaða bágborin. Langverandi búseta í þeim var talin heilsuspillandi. Fyrir fáeinum árum sáust allvíða minjar um þessi mannvirki í útjaðri borgarinnar.

Vikan 17. Desember 1964

Vikan 17. Desember 1964

Ef að er gáð er ástandið í dag mjög svipað og á áðurnefndu tímabili. Nú búa milli fjögur og fimm þúsund manns í ólöglegu iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi fólks býr ennfremur í ósamþykktum kjöllurum, bílskúrum, reiðhjólageymslum osfrv.

Morgunblaðið 28.september 1994

Morgunblaðið 28.september 1994

Helsti munurinn er að í dag er þessi búseta síður sýnileg en kofa- og braggaþyrpingar eftirstríðsáranna. Samsvarandi íbúafjöldi nútímans „týnist“ í kjallarakompum og bak við gardínur í iðnaðarhverfum. Það var ekki síst sýnileiki bragganna og kofahreysanna sem knúði á um aðgerðir í húsnæðismálum höfuðborgarinnar.

Ruv.is 9.9 2013

Ruv.is 9.9 2013

Á sama hátt er það ósýnileikinn, þögnin og meðvirkni stjórnvalda sem viðheldur núverandi vanda. Síðustu áratugina hefur ekkert stjórnmálaafl sett fram markmið um að eyða ólöglegri búsetu í íðnaðarhverfum, bílskúrum osfrv. Samkvæmt könnun á vegum slökkviliðs höfuðborgarinnar hefur fjöldi fólks sem býr við þessar aðstæður fjór- eða fimmfaldast undanfarinn áratug. Enginn borgarstjóri hefur gert opinbera heimsókn í þessi fátækrahverfi nútímans. Þau eru týnd í kerfinu.

Vísir 23. nóvember 2014

Vísir 23. nóvember 2014

Alveg eins og á eftirstríðsárunum vantar nú ódýrt og hentugt húsnæði fyrir þúsundir, ef ekki tugþúsundir manna í Reykjavík og nágrenni. Fjöldi fólks sem á í húsnæðisvandræðum um þessar mundir samsvarar stóru borgarhverfi eða kaupstað á landsbyggðinni.

Fyrir 50 árum krafði verkalýðshreyfingin stjórnvöld um aðgerðir í húsnæðismálum. Niðurstaðan varð svokallað júnísamkomulag, sem leiddi af sér uppbyggingu Breiðholtsins nokkrum árum síðar. Í fyrsta áfanga voru byggðar 1250 blokkaríbúðir. Þetta voru eignaríbúðir sem verkafólk fékk úthlutað til kaups á hagstæðum kjörum. Þetta var á sínum tíma ein stærsta byggingarframkvæmd á landinu. Með byggingu Breiðholtsins hurfu smám saman braggahverfin úr borgarmyndinni.

þjóðviljinn 26. mai 1978

þjóðviljinn 26. mai 1978

Breiðholtið er barn síns tíma, í ýmsum skilningi. Framkvæmdin var umdeild af mörgum ástæðum. Byggingarnar þóttu einsleitar, og ekki þótti góð latína að hrúga almennu verkafólki í einskonar gettó í úthverfi. Enn heyrast svipuð sjónarmið, ekki síst í umræðunni um hugsanlegar lausnir á núverandi húsnæðisvanda. Þá vill oftast gleymast úr hvaða kringumstæðum fólk flutti í Breiðholtið. Og við hvaða aðstæður fólk býr um þessar mundir í „ósýnilegu Breiðholti“ nútímans. Breiðholtið var þarft framtak sem sló á versta húsnæðisvandann. Nútímatækni var þá innleidd við byggingu fjölbýlis á Íslandi. Önnur afleiðing var nokkuð stöðugt fasteignaverð næstu árin. Það er fáséð í sögulegu samhengi. Samt sem áður leysti Breiðholtið ekki nema hluta húsnæðisvandans. Þegar best lét fékk einn af hverjum þremur íbúð úthlutað. Leigumarkaðurinn var áfram sama olbogabarnið í húsnæðispólítík höfuðborgarinnar.

Stríðsárin eru oft talin upphaf nútímavæðingar á Íslandi. Að þremur aldarfjórðungum liðnum er margt morgunljóst um húsnæðismál höfuðborgarsvæðisins:

Íslenska húsnæðisformúlan (séreignastefnan) hefur aldrei getað leyst þarfir allra borgarbúa í húsnæðismálum. Það vantar á hverjum tíma eitt stykki Breiðholt eða svo í húsnæðisjöfnuna. Til að sannreyna þetta þarf ekki annað en slá inn í leitarvél setningu á borð við „neyðarástand á leigumarkaði“, „húsnæðisokur“, „húsnæðiskreppa“ osfrv. Þá koma upp áratuga gamlar fyrirsagnir og blaðagreinar. Þær fjalla um stöðuga húsnæðiskreppu í höfuðborginni. Það má taka hvern áratug fyrir sig og finna lýsingar sem gætu alveg eins átt við líðandi stund.

Screenshot 2015-04-28 23.27.21

Séreignastefnan er séríslenskst fyrirbrigði að magni til. Hlutfall séreignar á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í sambærilegum löndum. Í Þýskalandi, efnahagslegum mótor V-Evrópu, búa t.d. einungis um 40% þjóðarinnar í séreign. Með öðrum orðum: Þar í landi leigja fleiri en eiga sinn íverustað. Leigumarkaðurinn myndar þannig kjölfestu og stöðugleika á þýskum húsnæðismarkaði. Stöðugleiki er varla til í orðaforða húsnæðissögu Reykjavíkur. Á Íslandi er hlutfall séreignar tvöföld á við Þýskaland eða um 80 hundraðshlutar.

Í lok síðustu og byrjun 21. aldar stimplaði heilbrigð skynsemi sig út af íslenskum fjármála- og fasteignamarkaði. Bankar gengu berserksgang á uppsprengdum hlutabréfa- og fasteignamarkaði. Fasteignaverð hækkaði upp úr öllu valdi á örfáum árum. Himinhátt hlutfall séreignar á Íslandi kynti undir þessa ógæfulegu þróun. Sambærileg bóla myndaðist ekki í Þýskalandi né öðrum löndum þar sem heilbrigður leigumarkaður virkar sem kjölfesta í sambærilegum aðstæðum.

Það er því lyginni líkast að eftir hrun hafa stjórnvöld endurreist nákvæmlega sömu kerfisvillu sem er ýkt íslensk séreignastefna.

Fyrir nokkru hélt Göran Persson ræðu í Hörpu. Hann var forsætisráðherra Svíþjóðar árin eftir sænsku bankakreppuna sem var í hámarki 1990 til 1994. Sú kreppa átti upptök sín í glórulausum fasteignaviðskiptum banka og fjármálafyrirtækja. Stjórnartímabil Perssons 1996 til 2006 var tími niðurskurðar og aðhalds í ríkisrekstri landsins.

Screenshot 2015-04-28 23.36.08

Inntak ræðu Göran Persons var nauðsyn þess að staldra við og spyrja hvað fór úrskeiðis. Hvaða kerfisgalli gerði atburðarásina mögulega? Hverju þarf að breyta til að sagan endurtaki sig ekki?

Á ekki þetta einmitt við um íslenska húsnæðispólítík? Hefur íslenska húsnæðisformúlan (ýkt séreignastefna) virkað síðasta sjö og hálfan áratug?

Hverju þarf að breyta til að forðast nýja fasteignabólu?

Er ekki þörf á nýrri hugsun / húsnæðisformúlu eftir hrun? Með áherslu á uppbyggingu leigumarkaðar í svipuðu hlutfalli og nágrannalöndin?

Með það að markmiði að útrýma búsetu í nútíma braggahverfum?

Eða á húsnæðisekla að vera íslenskt „náttúrulögmál“ áfram næstu áratugina?

Eins og frá upphafi nútímavæðingar fyrir 75 árum?

Breiðholt tvö, where art thou?

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live