Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

#SönnFegurð – Stuðlar að bættri sjálfsmynd stúlkna og kvenna

$
0
0

Stór hluti kvenna er frá unga aldri ósáttur við líkamsvöxt sinn og er sú staðreynd rakin að miklu leyti til útlitsþrýstings sem ríkir í samfélaginu. Á undanförnum áratugum hefur fegurðarímynd kvenna orðið sífellt óraunhæfari og með tilkomu nútíma myndvinnslutækni hafa verið búin til útlitsviðmið sem í raun engar konur geta uppfyllt.

Ljóst er að til þess að vinna gegn þessari þróun þurfa fjölmiðlar, fyrirtæki og auglýsendur að taka höndum saman um að axla samfélagslega ábyrgð og hverfa frá þeim einsleitu og óraunhæfu útlitsviðmiðum sem ríkt hafa til þessa.

forsidumynd

 

Í rúman áratug hefur Dove verið fremst í flokki þeirra fyrirtækja sem axla þessa samfélagslegu ábyrgð og stuðla að bættri líkamsmynd stúlkna og kvenna. Eitt þeirra verkefna er átakið #SönnFegurð sem er ætlað að stuðla að bættri líkamsmynd stúlkna og kvenna á Íslandi. Fylgist endilega með á Facebooksíðu verkefnisins.

Í þessu splunkunýja myndbandi voru lagðar sömu spurningarnar fyrir íslenskar stúlkur á grunnskólaaldri annars vegar og stúlkur á háskólaaldri hins vegar. Svörin eru sláandi og skilja eftir spurningu til okkar allra: Hvernig má bæta sjálfsmynd ungra stúlkna? Hvað fór eiginlega úrskeiðis?


Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf.

$
0
0

Opið bréf til forsvarsmanna Faxaflóahafna sf. frá Umhverfisvaktinni við Hvalfjörð með fimmtán spurningum varðandi fyrirhugaða sólarkísilverksmiðju Silicor Materials Inc. á Grundartanga. Allar varða spurningarnar rök fyrir því að leggja út í slíka tilraunastarfsemi í Hvalfirði.

Komið þið sæl ágætu forsvarsmenn Faxaflóahafna sf.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð biður ykkur að svara eftirfarandi spurningum:

  1. Getur Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fengið í hendur allar skýrslur sem lagðar hafa verið fram um væntanlega starfsemi Silicor Materials á Grundartanga og öll gögn sem liggja að baki skýrslunum? Jafnframt óskar Umhverfisvaktin upplýsinga um, hvar og undir hvaða kringumstæðum hið nýja framleiðsluferli Silicor Materials var prófað erlendis.
  1. Silicor Materials er ungt fyrirtæki með nýja tækni við hreinsun kísils. Á Grundartanga er stefnt að því að stórauka framleiðslu sem hefur aðeins verið á tilraunastigi í tvö ár, en það er of stuttur tími til að sannreyna ferlið.

Hefur verið gerð áhættugreining vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi Silicor Materials á Grundartanga? Ef svo er óskar Umhverfisvaktin eftir að fá hana í hendur. Hafi slík greining ekki verið gerð er beðið um skýringar á því.

  1. Einungis hafa verið framleidd 5 –700 tonn af hreinum kísil með hinni nýju aðferð Silicor Materials í Kanada. Áætluð ársframleiðsla Silicor Materials á Grundartanga er um 19.000 tonn. Mjög lítil reynsla er komin á framleiðsluna. Finnst forsvarsmönnum Faxaflóahafna réttlætanlegt að sannreyna tilraunastarfsemi Silicor Materials á náttúru og lífríki Hvalfjarðar?
  1. Í hvaða löndum hefur Silicor Materials reynt að selja viðkomandi tækni?
  1. Hefur sameignarfélagið Faxaflóahafnir nýtt sér ráðgjöf aðila sem hafa starfað fyrir Silicor Materials á Íslandi? Hvaða stöðu og sérþekkingu hefur ráðgjafarfyrirtækið VSÓ og aðrir sem hafa lagt mat á fyrirhugaða starfsemi Silicor Materials á Íslandi, til að leggja óháð mat byggt á sérfræðiþekkingu á starfsemi verksmiðjunnar? Umhverfisvaktin leggur áherslu á að það eru t.d. ekki nægjanleg rök að efnaverkfræðingur sé til staðar hjá viðkomandi ráðgjafarfyrirtæki.
  1. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar heilluðust af hugmyndinni um tækni við Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma. VSÓ var álitsgjafi Reykjavíkurborgar varðandi virkjunina en þar fer fram umdeild tilraunastarfsemi sem nú veldur vandræðum. Finnst Faxaflóahöfnum að það eigi að bjóða náttúru og lífríki Hvalfjarðar upp á meiri tilraunastarfsemi varðandi mengandi iðnað? Er ekki hægt að læra eitthvað af Hellisheiðarvirkjun og núverandi stöðu mengunarmála vegna stóriðju á Grundartanga?
  1. Umhverfisvaktin minnir á að tvær nýjustu verksmiðjurnar á Grundartanga störfuðu lengi á undanþágu með samþykki Umhverfisstofnunar, en það þýðir mengun eftir „þörfum“ fyrirtækisins. Hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að Silicor Materials starfi á undanþágu fyrst í stað? Ef svo er, þá hversu lengi? Faxaflóahafnir eru beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.
  1. Í upphafi kynningar á Silicor Materials var ekki minnst á flúormengun frá iðjuverinu, aðeins talað um „óverulega mengun“ sbr. ummæli efnaverkfræðings hjá VSÓ sem hafði einnig unnið fyrir Silicor, og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Báðir þessir aðilar sem svo oft hefur verið vitnað til virðast annaðhvort ekki hafa séð þennan veigamikla þátt eða að hann hafi ekki skipt máli í þeirra augum. Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafði þá þegar ákveðið að ekki skyldi aukið við flúormengun frá Grundartangasvæðinu og kvikaði ekki frá þeirri ákvörðun. Silicor Materials tók þá til við að breyta vinnsluferlinu til að koma í veg fyrir losun flúor, að sögn forsvarsmanna. Fyrst ekki var sagt satt og rétt frá í upphafi, má velta fyrir sér hverju megi eiga von á síðar. Við álbræðslu er flúor nauðsynlegur og við hreinsun kísils er notað brætt ál. Geta Faxaflóahafnir lagt á borðið fullnægjandi sannanir um að Silicor Materials muni ekki losa flúor út í andrúmsloftið?
  1. Hvernig verður unnt að mæla hvort flúor kemur frá verksmiðju Silicor Materials þar sem henni er ætlaður staður rétt hjá álveri Norðuráls?
  1. Þegar talað er um „óverulega mengun“ er meðal annars átt við um 60 tonn af ryki sem fari árlega út í andrúmsloftið frá fyrirhugaðri verksmiðju Silicor Materials. Hvaða eiturefni munu verða í þessu „ryki“ og í hvaða magni?
  1. Talað er um „lokaða ferla“ hjá verksmiðju Silicor Materials. Lítið hefur verið fjallað um mengun innan verksmiðjunnar sjálfrar þar sem gert er ráð fyrir að 350- 400 manns vinni að staðaldri. Umhverfisvaktin spyr hvort hægt sé að fá greinargóða lýsingu á starfsaðstæðum innan veggja fyrirhugaðrar verksmiðju.
  1. Iðjuverin á Grundartanga halda sjálf utan um umhverfisvöktun vegna starfsemi sinnar. Mun þetta fyrirkomulag einnig gilda um Silicor Materials? Enn og aftur eru Faxaflóahafnir beðnar að skýla sér ekki á bak við Umhverfisstofnun þegar þessari spurningu verður svarað.
  1. Gríðarleg hávaða- og sjónmengun er nú þegar frá Grundartanga. Tilkoma Silicor Materials mun gera hana langtum verri. Hennar gætir mest sunnan megin fjarðar, í Kjós. Hvernig hafa forsvarsmenn Faxaflóahafna hugsað sér að eyða þessari mengun þannig að íbúar við fjörðinn megi vel við una?
  1. Mikill hraði hefur verið á undirbúningi samnings við Silicor Materials. Þann 31. mars síðastliðinn hitti stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð borgarstjóra, Dag B. Eggertsson, til að tjá honum áhyggjur vegna Grundartanga og fá upplýst hvert Reykjavíkurborg stefndi með svæði Faxaflóahafna þar, en borgin á rúm 75% í Faxaflóahöfnum. Innan örskamms tíma var skrifað undir samninga við Silicor. Borgarstjórinn gaf sér ekki tíma til að hlusta á rök okkar. Hvers vegna?
  2. Hvert stefnir með Hvalfjörð? Enginn hefur þorað að segja upphátt að breyta ætti þessari undurfögru náttúruperlu í mengaðan iðnaðarfjörð. En verkin tala og það sem Faxaflóahafnir hafa aðhafst á Grundartanga síðustu árin bendir því miður allt í þá átt að það eigi ekki að hlífa Hvalfirði.

Enda þótt sameignarfélagið Faxaflóahafnir sé í eigu íbúa í fimm sveitarfélögum,* kemur vilji íbúanna sjaldnast í ljós þar sem ekki er leitað álits þeirra, en ljóst er að kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar halda uppi harðri stefnu gagnvart Hvalfirði.

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vísar á opið bréf til borgarstjóra og Reykvíkinga dags. 24. apríl 2015** og spyr: Hvert stefnir með Hvalfjörð?

Óskað er svara við ofangreindum spurningum sem allra fyrst, og eigi síðar en 13. maí nk.

Hvalfirði 28. apríl 2015

með fyrirfram þökk og kveðju,

f.h. Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Ragnheiður Þorgrímsdóttir formaður

*Sameignarfélagið Faxaflóahafnir er í eigu Reykjavíkurborgar (75,6%), Akraneskaupstaðar (10,8%), Hvalfjarðarsveitar (9,3), Borgarbyggðar (4,1%) og Skorradalshrepps (0,2%).

 

Pakoda á Íslandi fagnar fjölbreyttri matarmenningu

$
0
0

PAKODA á Íslandi eru samtök fólks um betri matarmenningu í Evrópu. Á Facebooksíðu samtakanna segir:

„Hvort sem það er pakóda, shish kebab, kúskús eða samósa, þá viljum við það og mikið af því! Við viljum arabískan mat, norður-afríska tónlist, íranskar bókmenntir og, síðast en ekki síst, allt yndislega fólkið sem færir okkur nýja menningarstrauma og það sem þeir hafa upp á að bjóða, hvaða nafni sem það nefnist.

10502171_697967960323657_3993141508177201145_n

Við viljum fordómalaust og fjölbreytt samfélag, þar sem allir fá að njóta sín og sinnar menningar án þess að verða fyrir aðkasti vegna trúarskoðana, þjóðernis eða útlits. Höfnum fordómum og undirróðri gegn erlendu fólki og aðfluttum Íslendingum en njótum fjölbreytileikans í allri sinni dásamlegu mynd.“

Í vikunni kynntu samtökin til sögunnar Pakoda matarkortið! Hafið þið prófað alla staðina?

Screenshot 2015-04-29 15.53.36

Spyrðu Guðmund, hina mennsku leitarvél, um allt sem viðkemur Íslandi!

$
0
0

Inspired by Iceland kemur áfram á óvart með óvæntum landkynningarherferðum og sú nýjasta er #AskGudmundur þar sem áhugasamir um Ísland geta fengið svör við spurningum sínum um land og þjóð.

Guðmundur og Guðmunda eru kynntar til sögunnar í fyrsta myndbandinu sem hinar mennsku leitarvélar, þá Vestfjarða-Guðmundur og svo Reykjanes-Guðmundur en myndböndin tala sínu máli:

„Mengaður iðnaðarfjörður og ruslahaugur Reykvíkinga“

$
0
0

Opið bréf til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Reykvíkinga

Kæru nágrannar!

Nýverið hlaut Reykjavíkurborg umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir markvissar aðgerðir í umhverfismálum. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð óskar Reykvíkingum til hamingju með verðlaunin.

Við hvetjum Reykvíkinga og borgarstjóra jafnframt til að hugleiða hvernig það fer saman að vinna að því að skapa umhverfisvænni borg og taka við verðlaunum á þeim forsendum, á meðan einnig er unnið að því að stuðla að mengandi starfsemi utan borgarmarkanna.

"Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2014 eru veitt sveitarfélagi, borg eða staðbundnu samfélagi sem sem annað hvort hefur í starfsemi sinni allri lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar eða lagt sig fram á einhverju ákveðnu sviði umhverfismála. Verðlaunin að þessu sinni voru veitt Reykjavíkurborg."

„Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir árið 2014 eru veitt sveitarfélagi, borg eða staðbundnu samfélagi sem sem annað hvort hefur í starfsemi sinni allri lagt mikið af mörkum til umhverfisverndar eða lagt sig fram á einhverju ákveðnu sviði umhverfismála. Verðlaunin að þessu sinni voru veitt Reykjavíkurborg.“

Með þessu bréfi vill Umhverfisvaktin við Hvalfjörð vekja athygli ykkar á því að sem meirihlutaeigendur Faxaflóahafna berið þið ábyrgð á iðnaðaruppbyggingu við Hvalfjörð sem stefnir lífríki fjarðarins og lífsgæðum íbúa hans í hættu.

Við teljum þörf á þessu bréfi vegna þess að við höfum áhyggjur af því að íbúar Reykjavíkur, þar með talinn borgarstjóri og borgarstjórn, séu ekki nægilega meðvitaðir og upplýstir um þau slæmu áhrif sem mengandi iðnaður hefur nú þegar á fjörðinn.

Reykjavíkurborg á rúmlega 75% eignarhlut í Faxaflóahöfnum. Faxaflóahafnir eru sameignarfélag í eigu nokkurra sveitarfélaga og eiga rúmlega 600 hektara lands á Grundartanga. Bróðurparturinn af tekjum Faxaflóahafna kemur frá inn- og útflutningi fyrir mengandi stóriðju.

Á Grundartanga eru starfandi fjögur iðjuver sem stöðugt dæla mengun yfir Hvalfjörð. Eftir ábendingar frá Umhverfisvaktinni og fleirum um að staða mengunar frá svæðinu og eftirlit með henni væru ámælisverð réðu Faxaflóahafnir sérfræðinga til að fara yfir gögn um málið og skila skýrslu.

Umhverfisvaktin fagnaði þessu skrefi í rétta átt, en benti einnig á að höfundum skýrslunnar var þröngur stakkur skorinn í verkefninu og þeir tóku ýmsum forsendum mengunarmarka og umhverfisvöktunar sem gefnum, þó þær séu það ekki.

Skýrslan byggir á vöktunarskýrslum iðjuveranna, en Umhverfisvaktin hefur ítrekað bent á að vöktun umhverfis í grennd við Grundartanga þarfnist verulegrar endurskoðunar þar sem hún er gerð á ábyrgð forsvarsmanna iðjuveranna sjálfra, sem veikir mjög áreiðanleika hennar.

Umhverfisvaktin hefur einnig bent ítrekað á það að viðmiðunarmörk vegna áhrifa mengunar á búfénað séu ekki byggð á fullnægjandi gögnum, en mörkin eru m.a. ákveðin út frá 20 ára gamalli rannsókn á áhrifum flúors á dádýr í Noregi. Þrátt fyrir þessa annmarka skýrslunnar gefur hún samt sem áður mikilvægar vísbendingar um þróun mengunarmála í kringum Grundartanga, en samkvæmt henni er þolmörkum nú þegar náð hvað varðar mengun af völdum brennisteinstvíoxíðs og flúors, og viðvörunarljós eru einnig kveikt hvað varðar þungmálma og svifryk.

Þrátt fyrir þessi viðvörunarljós vinnur Reykjavíkurborg að því að fjölga iðjuverum á Grundartanga. Nú á að reisa þar kísilverksmiðju sem borgarstjóri og aðrir forsvarsmenn Faxaflóahafna skilgreina sem grænan og umhverfisvænan iðnað.

"Full­trú­ar Faxa­flóa­hafna sf. og banda­ríska iðnfyr­ir­tæk­is­ins Silicor Mater­ials Inc. und­ir­rituðu í dag samn­inga um lóð, lóðarleigu og af­not af höfn vegna fyr­ir­hugaðrar sól­arkís­il­verk­smiðju á Grund­ar­tanga.Th­eresa Jester for­stjóri og Gísli Gísla­son hafn­ar­stjóri und­ir­rituðu fyr­ir hönd Silicor og Faxa­flóa­hafna. Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri og Skúli Þórðar­son, sveit­ar­stjóri Hval­fjarðarsveit­ar, vottuðu und­ir­rit­un­ina."

„Full­trú­ar Faxa­flóa­hafna sf. og banda­ríska iðnfyr­ir­tæk­is­ins Silicor Mater­ials Inc. und­ir­rituðu í dag samn­inga um lóð, lóðarleigu og af­not af höfn vegna fyr­ir­hugaðrar sól­arkís­il­verk­smiðju á Grund­ar­tanga.Th­eresa Jester for­stjóri og Gísli Gísla­son hafn­ar­stjóri und­ir­rituðu fyr­ir hönd Silicor og Faxa­flóa­hafna. Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri og Skúli Þórðar­son, sveit­ar­stjóri Hval­fjarðarsveit­ar, vottuðu und­ir­rit­un­ina.“

Umhverfisvaktin hefur sett spurningarmerki við þessa skilgreiningu sem virðist byggja á þeim skilningi að ef iðnaður mengi minna en annar samskonar iðnaður sé hann umhverfisvænn. Mengandi iðnaður getur aldrei talist vænn fyrir umhverfið, hversu mikið eða lítið sem hann mengar í samanburði við annan mengandi iðnað.

Umhverfisvaktin hefur vakið athygli á því að á síðustu árum hafa framleiðsluaukning Norðuráls og nýjar verksmiðjur sem rísa á Grundartanga ekki þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum. Sú skýring er gefin að mengun af völdum hverrar verksmiðju eða framleiðsluaukningar einnar og sér, sé óveruleg viðbót við núverandi mengun. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur það forkastanlegt að gefinn sé afsláttur á kröfum um mat á umhverfisáhrifum.

Þessi þróun vekur upp spurningar um raunverulega framtíðarsýn Faxaflóahafna fyrir Grundartanga. Á heimasíðu Faxaflóahafna má finna umhverfisstefnu fyrirtækisins þar sem fram kemur að Faxaflóahafnir ætli sér að vera leiðandi í umhverfismálum.

En athygli vekur að á ensku síðunni er Grundartanga lýst sem iðnaðarsvæði og gæði svæðisins fyrir iðnaðaruppbyggingu eru talin upp. Hvergi er þar að finna upplýsingar um umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Þessi og önnur misvísandi skilaboð frá Faxaflóahöfnum valda íbúum við Hvalfjörð áhyggjum. Loforð um umhverfisvænan og grænan iðnað á Grundartanga af hálfu Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna hafa verið svikin. Því miður er raunin sú að allt stefnir í að áfram bætist við fleiri og fleiri verksmiðjur og aukin mengun ef haldið verður áfram að skilgreina alla nýja mengandi starfsemi sem óverulega viðbót.

Það liggur í augum uppi miðað við núverandi mengunarálag og fyrirhugaðar framkvæmdir að vonir íbúa við Hvalfjörð um að fjörðurinn fái að vaxa og dafna sem útivistarparadís og landbúnaðarhérað verða að engu ef áfram er unnið að því að breyta honum í mengaðan iðnaðarfjörð og ruslahaug Reykvíkinga.

Við hvetjum Reykvíkinga og borgarstjóra til að hugleiða hvernig eftirfarandi yfirlýsing úr drögum að svæðisskipulagi sveitarfélaganna við höfuðborgarsvæðið, samræmist uppbyggingunni á Grundartanga, en þar segir: „Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga greiðan aðgang að sameiginlegu útivistarsvæði umhverfis borgina.

Þetta gefur þeim færi á að viðhalda góðri heilsu, slaka á og endurnærast, hvort sem um ræðir ströndina, Græna trefilinn, heiðar eða fjöll.“ Já, þetta eru mikilvæg lífsgæði, sem höfuðborgarbúar njóta allt í kring um sig, og íbúar við Hvalfjörð eiga skilyrðislaust einnig að fá að njóta.

Ágæti borgarstjóri og Reykvíkingar!

Nú er komið nóg. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga er mettað og má alls ekki við meiri mengandi iðnaði. Við förum því fram á það að þið, kæru nágrannar, hættið tafarlaust að laða að Grundartanga mengandi iðnað sem þið mynduð aldrei samþykkja að fá á Hafnarbakkann í Reykjavík.

Hvalfirði 24. apríl 2015
Stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð

Stjórn Óperunnar skýrir ráðningu nýs óperustjóra

$
0
0

Fréttatilkynning:

Greinargerð um ráðningu nýs óperustjóra vorið 2015

Í framhaldi af því að nýr óperustjóri hefur verið ráðinn til Íslensku óperunnar vill stjórn Óperunnar skýra hvernig staðið var að ráðningunni.

Íslenska óperan er sjálfseignarstofnun sem stofnuð var 3. október árið 1980. Fyrsta frumsýning í Gamla bíói, heimili Óperunnar um langt skeið, var 9. janúar árið 1982.

Stefán Baldursson hefur gegnt starfinu undanfarin átta ár, en samningur hans rennur út nú í vor. Í lok febrúar 2015 var birt auglýsing í dagblöðum þar sem starf óperustjóra var auglýst laust til umsóknar. Í auglýsingunni kom eftirfarandi fram:

„Óperustjóri er listrænn stjórnandi Íslensku óperunnar. Hann ber ábyrgð gagnvart stjórn á rekstri Íslensku óperunnar og kemur fram fyrir hönd félagsins.

Meðal helstu verkefna:

  • Stýrir listrænni starfsemi og verkefnavali í samráði við stjórn
  • Ábyrgð á stjórnun og daglegum rekstri
  • Yfirumsjón með fjármálum ásamt fjármálastjóra
  • Starfsmannamál
  • Ábyrgð á ytri samskiptum

Hæfniskröfur:

  • Brennandi áhugi á sviði óperulistar og hæfileiki til nýsköpunar
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi
  • Stjórnunarreynsla, æskileg á sviði menningar og lista eða umfangsmikil reynsla af óperustarfsemi
  • Leiðtogahæfileikar og hæfni í mannlegum samskiptum
  • Þekking og/eða reynsla af fjármálum

Stjórn Íslensku óperunnar ræður óperustjóra til fjögurra ára í senn. Umsókn skal jafnframt fylgja greinargerð um hugmyndir umsækjanda er varðar framtíðarsýn hans á starfsemi Íslensku óperunnar.

Farið er með umsóknir sem trúnaðarmál.“

Í auglýsingunni kom fram að Capacent myndi aðstoða við ráðninguna, en fyrirtækið hefur mikla reynslu af ráðningum í störf stjórnenda.

Alls bárust 16 umsóknir, en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Formaður stjórnar átti fund með fulltrúa Capacent og fór yfir umsóknirnar. Í framhaldinu var boðað til stjórnarfundar þar sem stjórnin fór yfir allar umsóknir. Ljóst var að allir umsækjendur uppfylltu skilyrði sem tilgreind voru í auglýsingunni. Stjórnin ákvað síðan að boða skyldi alla umsækjendur í viðtöl til Capacent.

Stjórn Óperunnar hitti fulltrúa Capacent á fundi þar sem farið var yfir umsóknirnar og viðtöl sem tekin höfðu verið við alla umsækjendur. Stjórnarmenn spurðu um mörg atriði og kafað var ofan í feril umsækjenda, menntun, stjórnunarreynslu og framtíðarsýn hvers um sig varðandi óperuna á Íslandi. Spurningar vöknuðu og þess var óskað að einstök atriði yrðu könnuð betur varðandi nokkra umsækjendur. Upplýsingar bárust um þessi atriði og stjórnarmenn fóru í kjölfarið aftur yfir umsóknirnar með hliðsjón af þeim.

Eftir þessa yfirferð ákvað stjórn að kalla Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, tónlistarstjóra Hörpu, til viðtals. Daginn eftir var ákveðið að ganga til samninga við hana. Um það var einhugur innan stjórnarinnar að þegar litið væri m.a. til menntunar Steinunnar Birnu, stjórnunarreynslu hennar og starfa sem frumkvöðuls ekki síst sem tónlistarstjóri Hörpu væri hún hæfust til starfsins, að öllum öðrum ólöstuðum.

Eins og fram kemur hér að ofan var tekið fram í auglýsingu um starf óperustjóra að farið yrði með umsóknir sem trúnaðarmál. Sá trúnaður verður að sjálfsögðu virtur, enda tóku nokkrir umsækjenda sérstaklega fram að hann væri þeim mikilvægur.

Þess ber að geta að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 taka þau eingöngu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. mgr. er kveðið á um að lögin gildi þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Af þessu er ljóst að það eru aðeins stjórnvöld á vegum ríkis og sveitarfélaga sem falla undir lögin, þ. á. m. ákvæði 21. gr. þeirra þar sem fram kemur að unnt sé að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðun stjórnvalds, svo sem um ráðningu í starf. Íslenska óperan, sem starfar samkvæmt skipulagsskrá og hefur ekki með höndum stjórnsýslu í þágu ríkis eða sveitarfélaga, telst ekki stjórnvald og fellur því ekki undir stjórnsýslulög.

Stjórn Íslensku óperunnar er þakklát öllum umsækjendum og fagnar þeim áhuga sem starfsemi Óperunnar er sýnd.

 

Stjórn Íslensku óperunnar,

 

Júlíus Vífill Ingvarsson, fráfarandi formaður

Benedikt Jóhannesson

Helga Lára Guðmundsdóttir

Kristinn Sigmundsson

Þórhildur Líndal

Sykurlaus jarðarberja jógúrt ís

$
0
0
Yngri sonur minn elskar jarðarber og ég reyni að útbúa allskonar gúmmelaði fyrir hann sem inniheldur jarðarber. Þessi jógúrt ís sló í gegn hjá honum.

Jarðarberjaís

4 bollar frosin jarðarber
200ml hrein jógúrt
100ml rjómi
4msk Sukrin melis (má sleppa)
1msk sítrónu safi

Setjið í blandara og blandið vel. Það er líka í lagi að hafa jarðarberin í bitum fyrir þá sem vilja það.
Ef þið eigið ísvél þá er hægt að hella blöndunni í ísvél.
Annars er hægt að borða hann strax (er þá meira eins og drykkur) eða setja í plastdollu/skál og inn í frysti.

Ef Andy Rooney væri Íslendingur og á lífi hefði hann skrifað þetta

$
0
0

„Þú verður að fjárfesta í framtíðinni,“ er setning sem ég heyrði oft þegar ég var yngri. Því fylgdi svo löng ræða um gildi menntunar því ekki vildi maður nú þurfa að lenda í því að framfleyta sér standandi í lappirnar þegar hægt væri að sitja á þægilegum afturendanum með myndarlega prófgráðu.

En ég er ekki sammála því að menntun sé endilega besta fjárfestingin fyrir framtíðina. Ekki hér allavega. Ráðamenn virðast í mörgum tilvikum hunsa ráðleggingar menntafólks og gera hlutina bara eftir sínu höfði. Þegar maður er kosinn á þing eða í sveitarstjórn þá virðist maður þróa með sér ákveðna tilfinningu fyrir því hvað sé best. Einhverskonar sjötta skilningsleysisvit. Sú tilfinning virðist trompa menntun eða reynslu kynslóðarinnar á undan.

Það breyttist ekkert við hrunið. Enn gera menn bara eitthvað og vona það besta. Þess vegna væri flugmiði af landi brott mun betri fjárfesting heldur en menntun hér á landi. Þú kemst út fyrir minna fé en eina önn í háskóla og þarft ekki að skrimta eins og eldri borgari á meðan þú ert á námslánunum.

Við stefnum augljóslega beina leið til fjandans aftur. Það sér hver óflokksbundinn maður.

Það er búið að byggja landsins stærstu vatnsrennibraut í Fnjóskadal. Þeir kalla hana Vaðlaheiðargöng. Menntamálaráðherra er alveg bit á því að hann megi ekki nota ráðherrastól sinn til að ferðast með leigusalanum sínum um Asíu. Fyrrverandi ráðherra sem hrökklaðist frá völdum vegna lyga sinna, hrakti lögreglustjóra úr starfi og reyndi að hylma yfir glæp er loksins búin að jafna sig á eineltinu sem hún varð fyrir í kjölfarið.

Leoncie finnur engan sem nennir að rífast við hana lengur þannig að hún þarf sjálf að senda sér morðhótanir. Fjölmiðlar keppast við að vera á undan lögreglu og prestum að tilkynna foreldrum að börnin þeirra gætu verið drukknuð.

Þjóðin með sína gjafmildu ríkisstjórn er langt komin með að gefa útgerðunum makrílinn sinn langt undir markaðsvirði, eitthvað af gróðanum mun þó renna í vasa eiginkvenna þingmanna. Lóur eru farnar að mynda ofbeldisgengi í bakgörðum fólks. Gylfi hamast á samkynhneigðum og allt of mörgum finnst það bara í góðu lagi.

Húsnæðis- og leiguverð hækkar hraðar en meðalaldur þjóðarinnar og bráðum fer að vanta gistirými til að hýsa alla þessa útlendinga sem við þurfum að flytja inn til að vinna á þessum hótelum sem verið er að byggja. Ferðamönnum hefur meira að segja fjölgað svo mikið að okkur vantar fólk til að svindla á þeim.

Það versta er kannski það að maður getur ekki einu sinni skilið við konuna sína útaf verkfalli lögmanna hjá Sýslumanni.

Í dag er nefnilega enginn maður með mönnum nema fara í verkfall. Það eru allir ólmir að fara í svona verkfall. Maður veltir því fyrir sér hvort einhver nýr og geggjaður tölvuleikur hafi verið að koma út og fólk vilji bara spila heima í friði án þess að vinna eða skylda trufli.

Og nú kemur niðurlagið

Og nú kemur niðurlagið

Helsta vandamálið og í raun það sem ræður úrslitum í því að úrskurða þetta fallega land okkar nánast óbyggilegt er sú dapurlega staðreynd að laun eru of há til að fyrirtæki og verslanir geti rekið sig almennilega en of lág til að fólk geti lifað á þeim. Kerfið er gallað og það er stjórnmálamönnunum að kenna.

Svo er veðrið ekki búið að vera nógu gott.


Hryðjuverkamaður snýr heim – Bókarkaflar

$
0
0

Í dag kemur út skáldsagan Hryðjuverkamaður snýr heim eftir Eirík Bergmann. Sögur útgáfa gefur bókina út. Kvennablaðið birtir hér tvo fyrstu kafla bókarinnar en í fréttatilkynningu útgefanda segir:

„Ekkert er alveg sem sýnist í þessari mögnuðu sögu Eiríks Bergmanns um miðaldra mann sem snýr heim til Íslands í byrjun árs 2008 eftir að hafa þurft að flýja land löngu fyrr út af illskiljanlegum glæp. Hann reynir að rifja upp gömul kynni við vini og vandamenn og átta sig á heiminum sem er gjörbreyttur frá þeim heimi sem hann hvarf frá. Og reynist vera í þann veginn að hrynja.

Vinátta, hugsjónir, æskan og sagan, minningar, skýjaborgir og loftkastalar, ástin og afkvæmin – allt kemur þetta við sögur í þessari leiftrandi skemmtilegu en þó svo djúpskreiðu bók.“

B

Hryðjuverkamaður snýr heim

Eiríkur Bergmann

1.kafli

Vor 2008

„Illa hafði gengið að koma sér fyrir í flugvélarsætinu og ómögulegt var að sofna. Ónotin í iðrunum höfðu stigmagnast allt frá því að hann fékk símtalið frá Gerði nokkrum dögum fyrir. Dauðbrá við að heyra rödd hennar eftir öll þessi ár. Þau hittust síðast skömmu eftir fall múrsins þegar hún kom að heimsækja hann í þetta eina sinn.
Síðan hrönnuðust árin bara upp í það hrúgald sem blasti við honum í baðherbergisspeglinum.
Nú fyrst fékk hann að vita að heimsóknin hefði borið ávöxt. Stúlku sem komin var í slík vandræði að Valur yrði að koma heim, hún lægi á gjörgæslu eftir félaga sína í alræmdri glæpaklípu sem gjörvallt líf hennar var flækt í. Gerður stakk upp á að hann fengi þá Sveinbjörn og Rút Björn vin þeirra til að greiða úr málunum, svo hann kæmist vandræðalaust til landsins.

Hann reyndi að sjá hana fyrir sér í sjúkrarúminu, sjá á henni svipinn. Árangurslaust. Hann átti aðeins þessa einu mynd af henni sem Gerður sendi honum eftir símtalið; bjarthærð hnáta í lopapeysu að kemba jörpum hesti bundnum við gerði. Sposkur munnsvipurinn var sá sami og á Öldu móður Vals, ömmu stúlkunnar. En hvasst augnaráðið gerði honum bilt við.

Hann kímdi yfir kunnuglegu nafni þessarar dóttur sinnar sem hann hafði rétt nýlega frétt af: Kolbrá. Valur afþakkaði samloku á kostakjörum úr hjólavagninum sem flugfreyjan rúllaði á undan sér. Hafði ekki lyst á fastri fæðu en svart brúsakaffið svolgraði hann í sig. Hugurinn loddi ekki heldur við þýska bókina svo hann sat uppi með sínar eigin hugsanir, sem hann hafði minni lyst á en samlokunni.

Deginum áður hafði hann bókað herbergi á gistiheimilinu Fönix við Snorrabraut í gegnum netið. Notaði nafn látins bróður síns en var nokkuð viss um að það yrði vandkvæðalaust. Þótt það væri að vísu löngu fallið úr gildi var hann enn með gamla vegabréfið hans Geirs Alfreðs. Hann klappaði lauslega á brjóstvasann til að fullvissa sig um að passinn væri á sínum stað.

Fyrir utan blasti Öræfajökull við í draumkenndri síðdegisbirtunni. Loftið var létt og hugurinn leitaði heim í Breiðholtið. Hvar skyldi Rútur rauði tækjaskelfir vera í dag? Minningarnar virtust stíga upp af landinu fyrir utan gluggann.

Þeir höfðu byrjað samtímis í skóla en ekki orðið vinir fyrr en ári síðar, í átta ára bekk. Þá gekk hann fram á Rút þar sem hann bjástraði við að rífa í sundur hjólið sitt úti á stétt. Undrandi spurði hann hvað væri að hjólinu, það var af góðri tegund og virtist glænýtt. Nei, það var svo sem ekkert að því. Rútur hafði bara meiri ánægju af því í bútum. Þannig var það með flest hjá Rúti, óþrjótandi forvitni rak hann áfram, stundum út í dómadagsdellu. Olían smitaðist af sístarfandi fingrum um ermar og buxnaskálmar.

Rútur renndi fingrunum í gegnum sítt hárið, sem límdist aftur hnakkann, og skildi eftir dökka smurolíurönd. Þegar hann hafði losað síðustu skrúfuna stakk hann upp á að þeir færu í hjólatúr niður í Indíánagil. Staðarvalið átti vel við því olíugljáandi hárlokkur stóð upp úr höfði hans líkt og fjöður.

„Á hvaða hjóli ætlar þú?“ spurði hann og leit í kringum sig.

„Nú, þessu auðvitað,“ sagði Rútur hissa og benti á óskipulega hrúguna á stéttinni.

Þegar Valur svo kom til baka skömmu síðar á græna Mostar-hjólinu sínu með háa bogadregna stýrinu hafði Rútur klambrað reiðhjólinu saman. Þó svo að nokkrar skrúfur ættu það til að ganga af í ákafanum virtist hann hafa nánast yfirnáttúrlegan skilning á flóknu gangverki hlutanna. Sem meðal annars birtist í endalausri skákinni sem hann tefldi stöðugt við föður sinn.

Ætli þeir hafi ekki verið búnir að renna niður hálfa Breiðholtsbrautina þegar þeir þegjandi og hljóðalaust ákváðu að verða vinir. Upp frá því voru þeir óaðskiljanlegir – allt þar til Valur stakk af úr landi.
Út um flugvélargluggann sá hann hvíta línu fjörunnar hlykkjast eins og kampavínsfroðu eftir víðum svörtum söndunum. Hann vissi ekki hvað hann átti að velja úr óreiðu hugans. Fannst freyðivínslegin fósturjörðin og hreifur þjóðarandinn, sem lá yfir eins og dalalæða, óraunveruleg.

Hann hafði ekki átt von á því að snúa nokkurn tímann heim, ekki úr því sem komið var. Trúði því tæpast á meðan hann var enn í öruggri fjarlægð. En hann vissi að brátt tæki biðin enda. Hjá því yrði ekki komist úr þessu.

„Please step aside,“ skipaði hnellin kona með rytjulegan hund og gekk í veg fyrir hann. „Put your bag through there,“ urraði hún til skýringar og benti á færibandið sem flaut hjá á jöfnum hraða eins og þungur niður tímans.
Þegar hann hélt af landi brott fyrir rúmum tuttugu árum staðhæfði vegabréfið, sem hann lagði eins fumlaust og hann gat á innritunarborðið, að hann héti Geir Alfreð Orrason. Nú þreifaði hann aftur á passa bróður síns í brjóstvasanum á meðan hann beið örlaganna. Af þvældri svarthvítri myndinni var ómögulegt að segja til um hvort hann væri hugsanlega Geir Alfreð. Þeir voru svo líkir í þá tíð. En það skipti kannski ekki máli. Nú var það fyrst og fremst minjagripur. Hitt vegabréfið sem hann bar á sér var ekki miklu skárra. Á því stóð að hann héti Magnus Heinz.

Ríkið sem gaf það út var ekki lengur til, svo hann vissi ekki alveg hvers vegna hann hafði það meðferðis. Ekki síst sökum gagnslítilla pappíranna var honum svona ómótt. Vonaði að það reyndist rétt sem hann hafði heyrt, að farþegar innan samhæfingarskrímslis Evrópuapparatsins lentu yfirleitt ekki í vegabréfsskoðun við komu til landsins.
Hann skellti þvældri tuðrunni á færibandið og horfði kvíðinn á eftir henni sigla á hægu stími á bleksvörtu gúmmífljótinu inn í gapandi svarthol. Tollvörður hékk áhugalítill við gegnumlýsingarskjáinn en aðhafðist ekkert. Hafði greinilega takmarkaðan áhuga á sveittum og illa tilhöfðum ferðalangi.

Konan með rytjulega hundinn tók aftur til máls:

„You can get your bag on the other side.“

Augnablik sá Valur hana fyrir sér veifandi íslenska fánanum og hugsaði með sér að þetta væri nú meiri móttökunefndin.

„Danke. Ég meina thank you,“ muldraði hann, greip tuðruna handan ginnungagapsins og gekk óstyrkum fótum út um hliðið.

2. kafli

Hvað nú? spurði Valur sjálfan sig þar sem hann gekk niður útitröppurnar á gistiheimilinu við Snorrabraut. Hann hafði ekki ákveðið hvert skyldi halda. Staldraði við á gangstéttinni og hugsaði sig um á meðan hann veiddi lítinn Partagas-vindil úr brjóstvasanum.

Það hafði tekið hann nokkra stund að átta sig á hvar hann var niðurkominn þegar hann vaknaði. Ekki fyrr en hann sá mosagræna íþróttatösku Láru, hinnar dóttur sinnar, á gólfinu mundi hann að hann var raunverulega kominn til Íslands. Eftir rúma tvo áratugi.

Í töskunni voru tvennar gallabuxur, brún peysa, tveir bolir – grár og rauður – og tvær bækur sem hann fékk í rauðu bókabúðinni við Kastanienalle heima í Berlín. Bókakosturinn var kannski það eina sem enn minnti á hugsjónirnar sem smám saman liðuðust úr huga hans líkt og skólaljóðin sem hann eitt sinn lærði utan að. Í töskunni voru einnig þrjár skyrtur – blá, hvít og svört, fátækleg snyrtibudda úr plastefni sem innihélt tannbursta, tannkrem og gula túbu af rakakremi fyrir exemið. Loks voru meðferðis nærföt sem gætu með góðri nýtingu dugað í viku. Hann vonaði að hann þyrfti ekki að vera lengur.

Honum hafði ekki tekist að losa sig við óraunveruleikakenndina í allan gærdag. Flugstöðin virtist framandi, fólkið ókunnuglegt og meira að segja sjálft hraunið sem flaut undan flugrútunni var eins og úr annarri veröld. Allavega ekki þeirri sömu og þegar hann arkaði þennan sama veg fúnum fótum til að mótmæla hernum. Nú var ameríski herinn farinn en í staðinn voru komnir bísperrtir borgarskriðdrekar, amerískir Hummerar, breskir Range Roverar og þýskir Porsche-jeppar. En engir rússajeppar. Ekki lengur.

Hann stóð á tröppunum fyrir utan gistiheimilið og velti vindlinum stutta stund á milli fingranna á meðan hann skimaði mögulegar leiðir. Fann loks eldspýtnabréf frá Karl-Elke í innanávasanum á græna jakkanum sem hann erfði eftir bróður Aldonu, vörð í pólska hernum sem gaf upp öndina við austurlandamærin. Stakk upp í sig stautnum og bleytti laufin af þeirri kúnst sem var orðin að kæk. Hann hafði mælt sér mót við Gerði á hóteli í miðbænum klukkan ellefu. Svo þyrfti hann að hringja í Rút. Og jafnvel í Sveinbjörn líka. Önnur áform hafði hann ekki þennan fyrsta morgun heimsóknarinnar.

Næðingurinn slökkti á þremur eldspýtum áður en honum tókst loks að tendra í vindlinum. Eftir svolítið óvissuhik tók hann stefnuna norður eftir Snorrabraut í átt að Laugavegi. Klukkan var rétt um sjö og fáir á ferli. Svalt loftið vafðist um hann eins og lak. Hann hneppti að sér fósturjörðinni og gekk af stað. Renndi niður dísætu vínarbrauði og römmu kaffi í bakaríi sem verið var að opna þegar hann átti leið hjá.

Þegar hann hafði lokið við morgunverðinn gekk hann rösklega út á skiptistöðina á Hlemmi og tók sér far með strætisvagni. Hann ætlaði að heimsækja gamla hverfið sitt áður en hann héldi til fundar við Gerði. Settist aftast til að rifja upp gamla daga frá réttu sjónarhorni. Hann var aleinn í vagninum, sem hann minntist ekki að hafa reynt fyrr. Þegar hann var krakki var alltaf troðfullt í strætó. Hann mundi líka hvað það var pirrandi að móðir hans rak hann jafnan til að standa upp fyrir fullorðnum, jafnvel þótt aftar í vagninum væru laus sæti. Nú var hann sjálfur orðinn fullorðinn. En enginn til að standa upp fyrir honum.

Við blöstu mýmörg ný hverfi, hvert á sínum álfhóli. Sum voru fullbyggð en önnur að rísa í knippi byggingarkrana þótt enginn sæist verkamaðurinn héðan úr strætisvagninum. Út um gluggann glitti í langar raðir gljáfægðra torfærutrukka, líkra þeim sem svifu eftir Keflavíkurveginum daginn áður. En hér liðu þeir löturhægt eftir yfirfullum götunum í umferð sem minnti helst á herferð Þjóðverja þegar þeir nálguðust Síberíu – allt pikkfast og samanfrosið. Vagninn dróst eins og traktorsdrifin toglyfta upp Breiðholtsbrautina á meðan bílalestin sem leið niður brekkuna var föst á rauðu ljósi.

Það var einmitt hér í beygjunni sem hann missti takið á strætóstuðaranum í einni teik-keppninni og hentist út í vegkantinn. Minnstu munaði að illa færi. Hann mundi ennþá þytinn af neglda jeppadekkinu sem straukst við vangann um leið og hann horfði á eftir Rúti hanga á stuðaranum út Miklubrautina.

Vagninn beygði nú til vinstri fram hjá Æsufellinu og stoppaði svo við Fellaskóla þar sem Valur vippaði sér út. Eftir að hafa virt fyrir sér sér leifarnar af gamla skólanum sínum gekk hann hægum skrefum upp að lágreistum verslunarkjarnanum og alla leið heim að stigaganginum við Unufell 39, þar sem hann átti heima – að honum fannst í annarri veraldarvídd. Varð í fyrsta sinn drukkinn á númer fjögur og missti sveindóminn á númer sex.

Gerður bjó hinum megin í hverfinu, í húsunum sem reist voru eftir gosið í Eyjum. Mörgum Fellabúum þótti fólkið í viðlagasjóðshúsunum láta eins og það væri á einhvern hátt hafið yfir skrílinn í blokkunum. Engar slíkar grillur var þó að merkja hjá Gerði þótt hún sannarlega skæri sig frá innfæddum Breiðholtsmeyjum, bæði fínlegri í háttum og fágaðri í fasi. Æsti sig ekki einu sinni yfir slysinu sem þeir Rútur ollu henni.

Ekki var laust við að kæmi á hann þegar hann gekk í gegnum gamla verslunarkjarnann. Ansi eyðilegt var um að litast, einungis tvær smágerðar konur af asískum uppruna á ferli. Verslanirnar voru horfnar og ýmist búið að negla tréplanka fyrir búðargluggana eða múra upp í þá. Hér var hjarta hverfisins; fullbúin kjörbúð, bakarí, yfirfull bóka- og ritfangaverslun, fatabúð, bankaútibú sem reglulega var rænt með leikfangabyssum og alræmd blómabúð þar sem barnaperrinn í hverfinu safnaði í kringum sig ungum drengjum – bauð þeim fyrst ókeypis appelsín og suðusúkkulaði í búðinni og hafði svo með heim til sín. Hér var líka vefnaðarvöruverslun, íþróttavöruverslun og svo auðvitað söluturn þar sem Valur varði góðum hluta æskuáranna.

Nú var aðeins sjoppan enn í rekstri og svo var kominn marghamur skyndibitastaður, sem af ljósaskiltinu að dæma virtist eins konar sambland af taílenskum núðlustað, ítalskri pítseríu og amerískri hamborgarabúllu. Að auki mátti fá kjúklingabita, sagði á blikkandi ljósaskiltinu. Þó var hér enginn til að nýta æsilega framsett hamborgaratilboðin. Ekki einu sinni stök fyllibytta á stangli, sem í eina tíð mátti ávallt treysta á.
En kannski var það ekki svo ýkja skrítið að verslanirnar skyldu á endanum leggja upp laupana. Þegar Valur var að vaxa úr grasi þótti það heilmikil íþrótt að hnupla smáhlutum úr búðunum. Búðahnupl var raunar eins konar manndómsvígsla hér í upphæðum.

Rútur bjó í blokkinni á bak við verslunarkjarnann. Í hjólageymslunni höfðu eldri strákarnir útbúið birgðageymslu fyrir góssið því þangað ráku fullorðnir aldrei inn nefið. Líklegra var að Fídel sjálfur myndi óvart villast inn í blómabúðina hans Tomma homma en að fullorðnir Breiðholtsblokkarbúar færu að athuga aðstæður á leiksvæði barna sinna.

Þegar Valur og Rútur voru rétt skriðnir á þrettánda ár – það er að segja á þann aldur þegar menn voru teknir í fullorðinna manna tölu í Breiðholtinu og áttu til að mynda bæði að vera búnir að ríða og detta í það í tæka tíð fyrir afmælisdaginn – voru þeir formlega vígðir í klíkuna. Þóttu einstaklega færir í að ná gosi úr kókbílnum þegar hann kom í hverfið til að fylla á birgðirnar í matvörubúðinni. Eldsnöggir, pínulitlir og þaulæfðir í klifri.
Krummi krunk sá um skipulagninguna og fulltrúar hans tóku að sér verkstjórn á vettvangi og lögðu á ráðin um ránsferðir. Yngri drengirnir voru hins vegar í framlínunni. Eiginlega bara fallbyssufóður. Ekki tiltökumál þótt þeir væru nappaðir og lokaðir inni í glerbúrinu hjá verslunarstjóranum.

Á meðan bílstjórinn og aðstoðarmenn hans báru inn gosið stukku Valur, Rútur og hinir yngstu strákarnir upp á pallinn og kipptu flöskunum hverri á fætur annarri upp úr kössunum og handlönguðu til hlauparanna sem lágu í leyni. Eins og boðhlauparar á ólympíuleikum fátækra tóku þeir á rás með fenginn í fylgsnið þar sem liðsforingjarnir tóku við góssinu. Fyrirkomulagið var þannig að fótgönguliðarnir fengu að halda tíundu hverri flösku. Á þeim tíma þótti engum það óeðlileg skipting, svona var einfaldlega munurinn á milli öreiga og ráðandi stétta. Liðsforingjarnir sem aðeins öttu þeim yngri út í ránsferðirnar en tóku enga áhættu sjálfir fengu mest og svo fengu handlangararnir – milliliðirnir – einnig sitt. Þegar Valur og Rútur gerðu eitt sinn athugasemd við skiptinguna lögðu Krummi og nótar hans þá í duftið.

Valur minntist þess þegar hann var gripinn í versluninni sem nú hafði verið byrgð með útkrössuðum spónaplötum. Hann var við það að sleppa út um dyrnar og taldi sig hólpinn þegar verslunarstjórinn þreif í grannan upphandlegginn svo undan sveið. Dró hann á eftir sér upp í glerbúrið aftast í versluninni, þar sem sá yfir búðina. Keyrði þar átta ára drenginn af alefli ofan í skrifborðsstól innarlega í glerbúrinu. Loksins náði hann einum skratta, en síhnuplandi drengir fóru eins og ræsisrottur um hverfið fannst honum. Viðskiptavinirnir horfðu í forundran á aðfarirnar en enginn sá ástæðu til að skerast í leikinn þó svo að verslunarstjórinn slægi strákinn eins og hverja aðra skaðræðistófu. Enda hafa meindýr ekki mannréttindi.

Sex appelsínflöskur fundust innan klæða. Verslunarstjórinn gnæfði eins og ógnarrisi yfir labbakút sem var nánast horfinn ofan í stólinn. Krafðist nafns og símanúmers og sagðist ætla að hringja í móður hans. Málið væri grafalvarlegt. Hann, þessi litli vesalingur, yrði kærður til lögreglu og látinn dúsa í steininum þar til skóli hæfist á ný.

Valur mátti ekki til þess hugsa að blanda mömmu sinni í málið og brá á það eina ráð sem mögulegt virtist í afar þröngri stöðunni. Starði um stund á rytjuleg hárin sem spruttu upp úr fráhnepptum ljósbláum pólóbol verslunarstjórans áður en hann lét til skarar skríða. Með örsnöggri hreyfingu vatt hann upp á sig og sneri sig eldsnöggt niður af stólnum, þaut svo upp á þrautþjálfaða spóaleggina og skellti óviðbúnum verslunarstjóranum í panellagðan vegginn. Valur gaf dynknum ekki gaum þegar ístrubelgur skall með hnakkann í gullrammaða fjölskyldumyndina á veggnum – útivistarleg konan á myndinni hélt áfram að brosa hvað svo sem á gekk – heldur reif upp hurðina og stökk yfir tröppurnar sem lágu niður úr glerbúrinu.

Hann lenti harkalega á gólfinu, féll við og tók byltu fram fyrir sig áður en hann kom snarlega aftur upp á sperrta fætur. Rétt náði að hliðra sér undan aðstoðarverslunarstjóranum, sem kom á ferðinni eftir niðursuðudósaganginum. Sá greip í tómt þegar Valur vék sér undan og keyrði lóðbeint á blaðastandinn, féll aftur fyrir sig og skall í gólfið. Val vitaskuld krossbrá en tók svo strikið framhjá afgreiðslukössunum. Þaut þar heilt Skeiðarárhlaup og stökk eins og þaninn grindahlaupsstökkvari yfir samankeðjaða kerruröðina og rauk svo beinustu leið út í frelsið án þess svo mikið sem líta um öxl.

Komið var undir morgun þegar Valur hrökk upp af minningum sínum við ískrandi skrölthljóð. Á að giska níu ára drengur leiddi reiðhjól með sprungið afturdekk niður brekkuna í áttina að Fellaskóla. Einmitt þar sem Krummi krunk og félagar hans höfðu barið Val og Rút svo illilega eftir að kastaðist í kekki á milli þeirra.
Þeim blöskraði arðrán hverfiskapítalistans svo mjög að þeir leituðu ásjár hjá Sveinbirni félaga sínum sem var tveimur árum eldri, jafnaldri Krumma. Söfnuðu stuðningi á meðal fótgönguliðanna og steyptu svo Krumma krunk af stóli sem hnuplstjóra í vel heppnaðri innanfélagsbyltingu og komu á mun sanngjarnara ráðstjórnarskipulagi undir strangri stjórn Sveinbjörns. Afrakstrinum skyldi jafnt skipt á meðal allra.

Sveinbjörn hélt fast um stjórntaumana og smám saman komst á ógnarjafnvægi á milli hans og Krumma. Alveg eins og hjá Maó formanni, sem sagði engu máli skipta hve margir liðsmenn alþýðuhersins myndu falla í stríðinu, alltaf yrði til nóg af Kínverjum, vissi Sveinbjörn að ávallt yrðu nógu margir litlir strákar til að fylla skarð þeirra sem féllu í orrustum hverfisins. Mottóið var í anda klassísks ráðstjórnarkommúnisma: klíkan fyrst, hverfið næst, einstaklingurinn síðast. Sumir kvörtuðu undan harðræði en undir stjórn Sveinbjörns fengu þeir í það minnsta réttlátari skerf erfiðis síns.

Fyrir utan asísku konurnar tvær var drengurinn með reiðhjólið sá eini sem sést hafði á ferli þá stund sem Valur hafði varið á æskuslóðunum þennan fyrsta morgun Íslandsheimsóknarinnar. Farið var að rigna svo hann stakk sér undir skjólgóðan húsvegg. Dró fram símanúmerið hjá Rúti, sem hann hafði skrifað hjá sér af netinu og var með samanbrotið í velktu seðlaveskinu sínu. Mundaði farsímann, sló inn númerið og þrýsti á græna hnappinn. En hringingin lét á sér standa. Þess í stað heyrðist aðeins örstutt hljóðmerki sem hann kannaðist ekki við. Svo gerðist nákvæmlega ekki neitt. Síminn sem hann hafði fengið hjá Aldonu, sambýliskonu sinni í Berlín – þegar vinnuveitandinn skipti út tækjum starfsmanna sinna enn einn ganginn – gegndi ekki skipunum hans. Hann vissi ekki hvers vegna. Hnapparnir hlýddu ekki frekar en óknyttadrengirnir í hverfinu forðum. Svo virtist sem símakort frá austurhluta Berlínar virkuðu ekki hér í austurhluta Reykjavíkur.

Hann gafst upp og skimaði eftir símaklefanum sem áður stóð í göngugötunni á milli búðanna. En nú var þar engan að finna svo Valur hélt aftur á strætisvagnastöðina. Hann mundi eftir fjölmörgum myntsímum á suðurveggnum inni á biðstöðinni á Hlemmi. Á leiðarenda steig hann úr vagninum og stökk inn á biðstöðina, fann veggsíma og stakk tíu króna mynt í raufina. Tók svo upp tólið en fékk engan són. Hann sá að heyrnartólssnúran hafði losnað í sundur. Hékk einvörðungu saman á málmhringjunum. Slitnir snúruendarnir lifðu nú hvor um sig sjálfstæðu lífi eins og ánamaðkarnir sem þeir Rútur dunduðu sér við að slíta í sundur í móanum á bak við Fellablokkirnar. Valur tók myntina úr raufinni og velti tíkallinum á milli fingranna á meðan hann skimaði árangurslaust eftir öðru símtæki.

En allir virtust þeir hafa verið teknir niður nema þessi eini – sem ekki virkaði. Honum datt í hug að fá að hringja hjá húsvörðunum en komst fljótt að því að engir slíkir voru lengur á Hlemmi. Sverar blikkplötur voru komnar fyrir gluggana í búrinu þar sem þeir höfðu afdrep í gamla daga. Alveg eins og á æskuslóðunum í Fellunum voru smáverslanirnar líka horfnar af Hlemmi. Fellahverfið og Hlemmur áttu það sameiginlegt að hafa gleymst í góðærinu.“

Opið bréf til eiginkonu Ólafs Ólafssonar stjórnarformanns Samskipa

$
0
0

Sæl Ingibjörg Kristjánsdóttir.

Ég las af áhuga og fróðleik samantekt lögmanna ykkar hjóna sem þú birtir í Fréttablaðinu 07. apríl, 2015 þar sem þú fullyrðir að Hæstiréttur hafi farið “mannavillt” og ranglega sakfellt eiginmann þinn, Ólaf Ólafsson í svokölluðu Al Thani málinu.

Eftir þann lestur kom eiginmaður þinn Ólafur Ólafsson hvergi nálægt þessu Al Thani máli og hafði nákvæmlega enga aðkomu að málinu eins og fullyrt er í grein þinni. Ef svo er þá er það auðvitað sjálfsagt og rökrétt að yfirvöld leiðrétti slíkt ranglæti strax og eiginmanni þínum verði sleppt úr fangelsi hið snarasta. Eftir að hafa lesið Hæstiréttadóminn langar mig að beina nokkrum spurningum til þín á sama vettvangi og bréf þitt birtist, í þ.e. Fréttablaðinu 07. apríl. 2015

ingibjörg kristjánsdóttir

 

1. Í símtali sem þú vitnar til í grein þinni, segir þú að verið sé að tala um Ólaf Arinbjörn, lögmann hjá Logos en ekki eiginmann þinn Ólaf Ólafsson og þú birtir svo hluta úr símtalinu, máli þínu til stuðnings.

Mig langar hinsvegar að birta þann hluta simtalsins sem þú birtir EKKI en hann er svohljóðandi:

“….já, sem það og er sko, af því mér skilst að Ólafur náttúrulega á að fá sinn part af kökunni sko”.

Um HVAÐA ÓLAF er verið að ræða hérna Ingibjörg? átti Ólafur Arinbjörn hjá Logos að fá “sinn part af kökunni” ?

2. Bjarnfreður Ólafsson hdl og stjórnarmaður í Kaupþingi, og starfaði fyrir eiginmann þinn, segir í þessu sama símtali og lýst er hér að ofan:

“Hann þarf að fá sinn part af upside-inu sko” og er þarna verið að vísa til skv. dómnum til mögulegra gengishækkana á Kaupþingsbréfunum sem voru keypt.

Hvaða “HANN” er starfsmaður ykkar hjóna að visa til hérna sem eigi að fá “sinn part af upside-inu sko”? Varla er Bjarnfreður, starfsmaður ykkar hjóna, að meina Ólaf Arinbjörn, lögmann hjá Logos sem eigi að fá hagnaðinn af gengishækkun hlutabréfanna í Kaupþing?

3. Í tölvupósti sem Kaupþingsmenn sendu sín á milli, sem Hæstiréttur vísar í ,er spurt „hvernig samning ÓÓ gerir við sjeikinn til að tryggja sér sinn hlut af hagnaðinum af Kaupþingsbréfunum sem þeir eru að kaupa“.

Ingibjörg, hvaða „ÓÓ“ eru Kaupþingsmenn að visa til hérna sem eigi að fá sinn hlut af hagnaðinum ?

4. Fram kom í málinu að Kaupþing hefði lánað félaginu “Gerland Assetts Ltd.”, skráðu á Bresku Jómfrúareyjunum, yfir 12 þúsund milljónir króna sem var að stórum hluta til í eigu Ólafs Ólafssonar eiginmanns þíns. Sama upphæð var svo lánuð til félags í eigu Sjeik Al Thani.

Var eiginmaður þinn skráður eigandi að “Gerland Assetts Ltd.” ÁN HANS SAMÞYKKIS? Ef svarið er já, hafið þið hjónin þá ekki lagt fram kæru á Kaupþingsmenn fyrir skjalafals?

5. Er það rétt að eftir að Kaupþingsbanki féll, þá hafi Ólafur Ólafsson eiginmaður þinn hringt til Kaupþingsbanka í Lúxemborg og beðið starfsmenn bankans að allar ábyrgðir sem Sjeik Thani hafði undirgengist yrðu felldar niður ?

6. Fram kom við vitnaleiðslur málsins að lögmenn Sjeik Al Thani töldu það fráleitt að Sjeikinn ætti að greiða einhverja fjármuni til baka og sögðu skjólstæðing sinn hafa verið blekktan. Sé hafður í huga hinn mikli vinskapur ykkar hjóna við Sjeik Al Thani, sbr. bréf þitt, af hverju kom Al Thani ekki fyrir dóm og bar vitni um sakleysi eiginmanns þíns ?

7. Fram kom fyrir dómi að eiginmaður þinn, Ólafur Ólafsson, hafi persónulega greitt mörg hundruð milljón krónur í vexti af láni til Al Thani. Ef eiginmaður þinn kom hvergi nálægt þessum hlutabréfakaupum Sjeik Al Thani eins og þið hjónin viljið halda fram, af hverju er þá Ólafur Ólafsson eiginmaður þinn að greiða vexti fyrir einn ríkasta mann í heimi,þar sem þetta voru hans persónulegu hlutabréfakaup í Kaupþingi banka en ekki ykkar hjóna?

Virðingarfyllst

Jon Gerald Sullenberger

Bréf birtist einnig í Fréttablaðinu í dag 30. apríl 2015.

Hættið að ljúga á Facebook, siðblindu sykurlausu skinkuhorn!

$
0
0

„Ekki láta Facebook blekkja þig,“ sagði ég við vinkonu mína sem sat buguð við eldhúsborðið hjá mér, starði á símann sinn og studdi hönd undir þreytta kinn. Ég kunni ekki við að auka á þjáningar hennar en ég er nokkuð viss um að hún var með skyr á olnboganum. Bláberja. Með viðbættum sykri.

„Ég meina, kom on,“ sagði hún. „Ekki séns að hún sé búin að baka bollakökur og skinkuhorn, fara með krakkana í sund og lakka kertaarin klukkan þrjú á sunnudegi. Ég meina, þetta er bara sögufölsun og sjúkleg lygi.“ Ég yppti öxlum og lét eins og ég tæki ekki eftir því að hún talaði fullhátt.

Ég verð að viðurkenna að þessa sömu konu og nú ældi dugnaði sínum yfir internetið hef ég grunaða um að fita morgunafrek sín duglega. Ég er meira að segja viss um að myndin sem hún póstaði af Beef Wellingtoninu um síðustu helgi sé tekin af gordonramsey.co.uk. Hún instaði* hana bara.

Vinkonan við eldhúsborðið mitt var hins vegar heiðarlegi Facebook-notandinn sem lét myndir af fremur misheppnuðum eldhúsverkum sínum á internetið og andlegur status hennar skein heiðarlega í gegnum síðuna. Hún setur aldrei inn ræktarstatus nema hún sé í alvörunni í ræktinni og gleymir jafnvel stundum að setja inn að hún hafi farið í ræktina. Þannig að hún er í raun betri manneskja en Facebook bendir til. Ég held meira að segja að hún hafi aldrei sett in selfie**. Hún á reyndar tvö börn og er oft þreytt þannig að séns á góðri selfie er yfirleitt á milli 14 og 16 á daginn þegar hún er aftur farin að sjá út um augun eftir að andvökubólgunni er farið að létta og áður en sturlunin sem fylgir því að hlusta á tvö börn rífast í gegnum Bónus leggst yfir.

„Nei, veistu þetta er rétt, hún er ekki búin að þessu öllu,“ sagði ég. „Djöfull ættum við að mæta óboðnar í kaffi til hennar og nappa hana í sjúskuðum Russel-galla með gargandi krakka í skálmunum, þurrkubletti í andlitinu og slitna enda í oflituðu – líklega aðkeyptu – hárinu.“

Ég brosti hughreystandi til þreyttu vinkonunnar um leið og ég leit á klukkuna og missti út úr mér: „Vúhú. Fjórir tíma í að barnið mitt sofni. 4,2 tímar í að ég geti farið að sofa. Djöfull sem það er ekki góður status.

Æfingamynd. Góð til blekkingar a Facebook.

Æfingamynd. Góð til blekkingar a Facebook.

Ég get svo sem skilið að fólk vilji fegra aðstæður aðeins. Smart status væri: Hot jóga og hráfæði! Eða 34 km á Ægisíðunni! Sannleikurinn = síríuslengja (sko bökunarsúkkulaði), stórt rauðvínsglas og hálfur Scandal-þáttur (næ aldrei að horfa á heilan vegna þreytu) er ekki að gera neitt fyrir neinn á internetinu! Ég sé kommentin fyrir mér hrúgast inn. Alki! Feitabolla! Letingi! Karaktersubba! Sykurfíkill!“

Vinkonan rankaði við sér. „Nei, fokk itt. Gott hjá þér. Síríus og Shiraz er gott kvöld. Æjjj, veistu ég held að við myndum sjá eftir því að mæta óboðnar í kaffi til siðblindu bollakökukonunnar. Ef hún er í raun búin að þessu öllu myndi það reynast mér of mikið áfall. Sjálfsmynd mín myndi splundrast.

Það er svo fátt sem stendur í vegi fyrir því að ég sæki páskaeggið sem ég ætlaði að senda Hrefnu frænku til Danmerkur inn í skáp og borði það allt ein – standandi yfir vaskinum með opna mjólkurfernu á kantinum.

Við þessu átti ég ekkert svar en gat ekki hætt að hugsa um leikritið sem Facebook býður upp á. Eigum við ekki að hætta þessu kjaftæði? Hætta að „insta“ statusa og fótósjoppa lífið. Það er stundum – jafnvel bara oft – fokk erfitt og leiðinlegt og það er bara eðililegt og í góðu lagi. Þessi gerviheimur fullur af túlípönum, bollakökum og vatnsgreiddum börnum gerir ekkert annað en að valda krónískri sektarkennd og vöðvabólgu. Fokk it.

Ég er ekki sykurlaus, er að drekka rauðvín, verkefnalistinn minn er þrútnari en franskur kvikmyndaleikari og dóttir mín fékk krukkumat í kvöldmat. Jebb – hún kúgast yfir lífræna heimatilbúna maukinu sem ég reyni að gefa henni. Hún veit að stundum má bara slaka á og að krukkur eru ekki alslæmar.

Er það kannski góður status?: Tobba Marinós elskar krukkumat og kolvetni! Já og á einhvern undraverðan hátt er sætkartöflumauk á náttbuxunum mínum en ég er of þreytt til að spá í það og ætla að sofa í þessum buxum. Örugglega á morgun líka. Dílið við það, bollakökukusur!

*insta = fríkka myndir með hjálp forritsins Instagram
**selfie = sjálfsmynd tekin á farsíma

„Við þurfum að taka okkur á“

$
0
0

Katrín Jakobsdóttir flutti þessa ræðu á Alþingi þann 29. apríl 2015.  Það má horfa á hana flytja ræðuna hér.

katrin jakobs

„Herra forseti.

Á árinu 2013 voru fleiri vegalausir innan eða utan eigin landamæra fleiri en nokkru sinni síðan í seinni heimsstyrjöld, en þá taldi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að ríflega 51,2 milljónir manna væru á flótta. Þeim hafði þá fjölgað um 6 milljónir frá árinu á undan og sá vandi er ekki í rénun. Hann er, má segja, allt í kringum okkur.

Samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna drukknuðu yfir 3.500 flóttamenn í Miðjarðarhafi á leið sinni frá Afríku til Evrópu árið 2014 og á árinu 2015 er óttast að nú þegar hafi látist um 1.700 manns, þar af 800 helgina 18.–19. apríl.

Þetta fólk flýr hörmulegar aðstæður, stríðsátök, fátækt og við horfum á Evrópusambandið loka landamærum sínum, sem vissulega hefur orðið tilefni harðra deilna innan sambandsins sem hlýtur að vera okkur öllum áminning um að svona stefna gengur ekki.

Við Íslendingar getum gert ýmislegt. Við í þingflokki Vinstri grænna höfum þegar lagt fram tillögu um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að stórefla þátttöku Íslands í björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafi með endurgjaldslausu útláni á varðskipi til björgunaraðgerða og með áætlun um móttöku flóttamanna á svæðinu.

Við getum gert meira. Samkvæmt Eurostat fékkst jákvætt svar aðeins við 30 af 110 umsóknum um hæli á Íslandi árið 2014. Það eru 27% sem fá hér hæli.

Til samanburðar má nefna Svíþjóð, sem er auðvitað mjög framarlega í flokki í þessum efnum. Þar fengu 30.650 af 39.905 hælisleitendum jákvætt svar. Það eru 77%.

Ef við fylgdum fordæmi Svía tækjum við á móti meira en eitt þúsund flóttamönnum á Íslandi. Raunveruleikinn er sá að aðeins 30 fengu hæli eða viðbótarvernd á síðasta ári.

Við þurfum að taka okkur á ef við ætlum að halda í við Svía því að það þarf stórátak í þessum málum ef við ætlum að standa við það að við séum öll jöfn, sama hvar í heiminum við erum fædd. Börnin fæðast alveg jafn saklaus í Sýrlandi og á Íslandi og myndin af litlu stúlkunni sem drukknaði í Miðjarðarhafi á dögunum ætti að vera okkur öllum áminning um að við getum gert miklu betur í þessum efnum.“

11149361_982955581714490_4405577642739949278_n

Hátíðarhöldin 1. Maí – Dagskráin um land allt

$
0
0

Árið 1923 var fyrst gengin kröfuganga 1. maí á Íslandi. Dagurinn varð ekki lögskipaður frídagur hér fyrr en árið 1972. Hugmyndin varð til á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1889 en þar var samþykkt tillaga Frakka að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks.

Á frídegi verkafólks fer launafólk í kröfugöngur oft undir rauðum fánum en litur sá á fánum verkalýðshreyfinganna táknar dagrenningu og merking fánans er uppreisn launafólks gegn ranglæti, mismunun og kúgun hverskonar.

Eftirfarandi upplýsingar um hátíðarhöld víða um land eru af vef ASÍ.

Reykjavík

Safnast saman á Hlemmi kl. 13
Kröfugangan leggur af stað kl. 13:30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur spila í göngunni og á Ingólfstorgi
Útifundur á Ingólfstorgi Kl. 14.10, fundarstjóri Þórarinn Eyfjörð
Gradualekór Langholtskirkju syngur
Árni Stefán Jónsson formaður SFR heldur ræðu
Ljótikór flytur tvö lög
Hilmar Harðarson formaður Samiðnar heldur ræðu
Reykjavíkurdætur flytja tvö lög
Kórar og fundarmenn syngja Maístjörnuna
„Internationallinn“ sunginn og leikinn
Ræður eru táknmálstúlkaðar
Hulda Halldórsdóttir syngur á táknmáli með kórunum
Hvatningarorð fundarstjóra frá aðstandendum fundarins

Baráttukaffi hjá stéttarfélögunum að fundi loknum

Efling-stéttarfélag býður félagsmönnum sínum upp á kaffi í Valsheimilinu að Hlíðarenda, VM býður félagsmönnum upp á kaffi í Gullhömrum, Grafarholti, VR er með fjölskylduhlaup á Klambratúni Kl. 11:00 og verkalýðskaffi í anddyri Laugardalshallarinnnar eftir útifundinn, Rafiðnarasambandið, Matvís og Grafía/FBN verða með kaffi í Stórhöfða 27 (Rafiðnaðarskólinn) og FIT og Byggiðn verða með 1. maí kaffi á Grand hóteli við Sigtún að loknum fundi.

Hafnarfjörður
Safnast saman fyrir framan Ráðhús Hafnarfjarðar kl. 13:30
Kröfuganga leggur af stað kl. 14 – gengið verður upp Reykjavíkurveg, Hverfisgötu, Smyrlahraun, Arnarhraun, Sléttahraun og að Hraunseli við Flatahraun
Hátíðarfundur hefst í Hraunseli, Flatahrauni 3 kl. 14:30
Fundastjóri: Jóhanna M. Fleckenstein
Ávarp dagsins: Karl Rúnar Þórsson formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar
Ræða: Kolbeinn Gunnarsson formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar
Skemmtiatriði: Sönghópurinn Voces masculorum kemur og tekur nokkur lög fyrir gesti

Akranes
Verkalýðsfélag Akraness, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, VR, FIT Félag iðn- og tæknigreina, Kennarasamband Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands
standa fyrir dagskrá á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí
Safnast verður saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn verður hringur á neðri-Skaga. Undirleik í göngu annast Skólahljómsveit Akraness
Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40
Ræðumaður dagsins: Vilhjálmur Birgisson
Karlakórinn Svanir syngur nokkur lög
Kaffiveitingar
Frítt í bíó fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15:00

Borgarnes
Hátíðarhöldin hefjast í Hjálmakletti kl. 14
Hátíðin sett: Eiríkur Þór Theódórsson, stjórnarmaður í ASÍ-UNG og trúnaðarmaður hjá Stéttarfélagi Vesturlands
Barnakór Borgarness syngur undir stjórn Steinunnar Árnadóttur
Ræða dagsins: Signý Jóhannesdóttir formaður Stéttarfélags Vesturlands
Nemendur úr þriðja bekk Grunnskóla Borgarness með atriði
Söngfjölskyldan úr Kveldúlfsgötunni flytur nokkur lög, Zsuzsanna Budai leikur með á flygilinn
Internasjónalinn
Félögin bjóða samkomugestum upp á kaffiveitingar að lokinni dagskrá. Útskriftarnemar Menntaskólans sjá um kaffihlaðborðið
Tvær kvikmyndasýningar verða fyrir börn í Óðali kl. 13:30 og 15:30, boðið verður upp á popp og ávaxtasafa

Stykkishólmur
Dagskráin hefst kl. 13:30 á Hótel stykkishólmi
Kynnir: Einar Strand
Ræðumaður: Sigurður A Guðmundsson formaður Vlf. Snæfellinga
Daníel Örn Sigurðsson töframaður
Helgi Björnsson ásamt gítarleikara
Lúðrasveit Stykkishólms
Boðið verður í bíó í Klifi kl. 18.00
Veitingar í boði félaganna

Grundarfjörður
Dagskráin hefst dagskrá kl. 14.30 í Samkomuhúsinu
Kynnir: Helga Hafsteinsdóttir formaður SDS
Ræðumaður: Guðbjörg Jónsdóttir varaformaður Vlf. Snæfellinga
Daníel Örn Sigurðsson töframaður
Helgi Björnsson ásamt gítarleikara
Alda Dís Arnardóttir sigurvegari Ísland got talent og Bragi Þór Ólafsson gítarleikari taka nokkur lög
Boðið verður í bíó í Klifi kl. 18.00
Veitingar í boði félaganna

Snæfellsbær
Dagskráin hefst í Klifi kl. 15.30
Kynnir: Guðmunda Wíum Stjórn SDS
Ræðumaður : Sigurður A Guðmundsson formaður Vlf. Snæfellinga
Daníel Örn Sigurðsson Töframaður
Alda Dís Arnardóttir sigurvegari Ísland got talent og Bragi Þór Ólafsson á gítar
Helgi Björnsson ásamt gítarleikara
Sýning eldriborgara
Boðið verður í bíó í Klifi kl. 18.00
Veitingar í boði félaganna

Búðardalur
Stéttarfélag Vesturlands og Starfsmannafélag Dala og Snæfellsnessýslu standa saman að samkomu í Dalabúð kl.14.30
Kynnir: Kristín G.Ólafsdóttir stjórn SDS
Ræðumaður: Geirlaug Jóhannsdóttir
Skemmtikraftar: Guðrún Gunnars og Jogvan
Gestum er boðið uppá kaffiveitingar að dagskrá lokinni

Ísafjörður
Lagt verður af stað frá Baldurshúsinu, Pólgötu 2 kl. 11:00. Gengið verður að Pollgötu og þaðan niður að Edinborgarhúsi með Lúðrasveitina í fararbroddi
Ræðumaður dagsins: Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR
Tónlistaratriði
Pistill dagsins: Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt
Söngatriði – Dagný Hermannsdóttir og Svanhildur Garðarsdóttir
Súpa í boði 1. maí nefndar í Edinborgarhúsinu að hátíðarhöldum loknum
Kvikmyndasýningar fyrir börn í Ísafjarðarbíói kl. 14:00 og 16:00

Suðureyri
Kröfuganga frá Brekkukoti kl. 14
Boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar
Kaffiveitingar í Félagsheimili Súgfirðinga
Ræða dagsins – Söngur og hljóðfæraleikur

Bolungarvík
Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur býður í kaffi og kökur í félagsheimili Bolungarvíkur
8. og 9. bekkur Grunnskóla Bolungarvíkur sér um kaffiveitingar
Tónlistaskóli Bolungarvíkur sér um tónlist og söng
Laddawan Dagbjartsson sér um dans

Blönduós
Kaffiveitingar í boði Stéttarfélagsins Samstöðu í félagsheimilinu á Blönduósi kl. 15
Tónlistaratriði hjá nemenda Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýlsu
Ræðumaður dagsins: Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands
Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps flytur nokkur lög
Bíósýning fyrir börnin, góðar veitingar og góð dagskrá

Skagafjörður
Stéttarfélögin í Skagafirði bjóða til hátíðardagskrár kl. 15:00 í sal Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra
Ræðumaður verður Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju og Starfsgreinasambands Íslands
Að venju verður boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð og skemmtiatriði. Að þessu sinni verða þau í höndum Kirkjukórs Sauðárkrókskirkju og nemenda úr 10.bekk Árskóla, auk þess sem Geirmundur Valtýsson mun leika fyrir gesti af sinni alkunnu snilld

Akureyri
Göngufólk safnast saman við Alþýðuhúsið Kl. 13:30 en hálftíma síðar verður lagt af stað við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar
Hátíðardagskrá í Menningarhúsinu Hofi að lokinni kröfugöngu
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB og Anna Júlíusdóttir, varaformaður Einingar-Iðju flytja ávörp
Sveppi og Villi og Jónas Þór Jónasson skemmta
Kaffiveitingar að lokinni dagskrá

Fjallabyggð
Dagskrá í Fjallabyggð verður í sal félaganna, Eyrargötu 24b Siglufirði frá kl. 14 til 17
Margrét Jónsdóttir flytur ávarp
Kaffiveitingar

Húsavík
Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum bjóða til hátíðarhalda í íþróttahöllinni kl. 14
Ræðumenn: Aðalsteinn Baldursson formaður og Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar
Jóhannes Kristjánsson fer með gamanmál
Óskar Pétursson syngur nokkur lög
Regína Ósk Óskarsdóttir, Bryndís Ásmundsdóttir og Sigríður Beinteinsdóttir syngja lög með Tinu Turner
Stúlknakór Húsavíkur og Steini Hall blæs í lúður

Þórshöfn
Verkalýðsfélag Þórshafnar býður öllum frítt í Íþróttamiðstöðina frá kl.11 til 14
Súpa og brauð í hádeginu er einnig í boði verkalýðsfélagsins

Vopnafjörður
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Miklagarði kl. 14:00
Kvenfélagskonur sjá um kaffiveitingar. Tónlistaratriði til skemmtunar
Ræðumaður: Kristján Magnússon

Borgarfjörður eystri
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Fjarðarborg kl. 12.00
Kvenfélagið Eining sér um veitingar
Ræðumaður: Reynir Arnórsson

Seyðisfjörður
Hátíðardagskrá verður í Félagsheimilinu Herðubreið kl. 15:00
8. og 9. bekkir Seyðisfjarðarskóla sjá um kaffiveitingar og skemmtiatriði
Ræðumaður: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

Egilsstaðir
Hátíðardagskrá verður á Hótel Héraði kl. 10.00
Morgunverður og tónlistaratriði.
Ræðumaður: Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

Reyðarfjörður
Hátíðardagskrá verður í Safnaðarheimili Reyðarfjarðar kl. 15:00
9. bekkur Grunnskóla Reyðarfjarðar sér um kaffiveitingar
Tónskóli Reyðarfjarðar
Ræðumaður: Pálína Margeirsdóttir

Eskifjörður
Hátíðardagskrá verður í Melbæ Félagsheimili eldri borgara kl. 14:00
Félag eldri borgara sér um kaffiveitingar
Tónskóli Reyðarfjarðar
Ræðumaður: Þröstur Bjarnason

Neskaupstaður
Hátíðardagskrá verður á Hildibrand hótel kl.14:00
Félag Harmonikkuunnenda spila
Ræðumaður: Sigurður Hólm Freysson

Fáskrúðsfjörður
Hátíðardagskrá verður í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar kl. 15:00
Kaffiveitingar. 9. bekkur grunnskólans sér um kaffiveitingar
Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar
Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson

Stöðvarfjörður
Hátíðardagskrá í Saxa guesthouse kl. 15:00
Kaffiveitingar
Tónlistarskóli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar
Ræðumaður: Sigríður Dóra Sverrisdóttir

Breiðdalsvík
Hátíðardagskrá verður á Hótel Bláfelli kl. 14:00
Kaffiveitingar og tónlistaratriði.
Ræðumaður: Sigríður Dóra Sverrisdóttir

Djúpavogur
Hátíðardagskrá verður á Hótel Framtíð kl. 11:00
Morgunverður og tónlistaratriði
Ræðumaður: Sverrir Mar Albertsson

Hornafjörður
Kröfuganga frá Víkurbraut 4 kl 13:30, takið með ykkur kröfuspjöld
Hátíðardagskrá á Hótel Höfn kl. 14:00, kaffiveitingar
Lúðrasveit Hornafjarðar, tónlistaratriði
Ræðumaður: Lars Jóhann Andrésson

Selfoss
Kröfuganga frá Austurvegi 56 kl. 11, félaga í Sleipni fara fyrir göngunni á hestum
Ræðumenn: Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS og Halldóra Magnúsdóttir formaður Nemendafélags FS
Lína langsokkur mætir á svæðið og Karlakór Rangæinga syngur nokkur lög
Bílasýning
Veitingar í boði stéttarfélaganna á Hótel Selfossi

Vestmannaeyjar
Dagskráin hefst með baráttufundi í Alþýðuhúsinu kl. 1500
Ræðumaður: Arnar Hjaltalín formaður Drífandi stéttarfélags
Kaffi kakó og vöfflur
Ungir nemendur í bland við eldri í Tónskóla Vestmannaeyja leika og syngja fyrir verkalýðinn

Reykjanesbær
Dagskrá í Stapa kl. 13:45 Guðmundur Hermannsson leikur ljúfa tónlist
Setning kl. 14 – Kristján Gunnarsson formaður VSFK
Sigríður og Sólborg Guðbrandsdætur syngja nokkur lög
Ræða dagsins: Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Sveitapiltins draumur – Atriði frá minningartónleikum til heiðurs
Rúnari Júlíussyni sem hefði orðið 70 ára á þessu ári
Kvennakór Suðurnesja flytja nokkur lög
Börnum boðið á sýningu í Sambíói Keflavík kl. 13
Kaffiveitingar

Sandgerði
Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðis verður með opið hús að Tjarnargötu 8, húsi félagsins frá kl. 15 – 17 Kaffi og meðlæti

Réttlæti og jöfnuður!

$
0
0

Katrín Jakobsdóttir skrifar:

 

Það er þungt yfir vinnumarkaðnum á Íslandi á þessum baráttudegi verkafólks. Veturinn einkenndist af verkföllum, nú eru verkfallsaðgerðir hafnar hjá Starfsgreinasambandinu og Bandalagi háskólamanna og fleiri samtök hafa vísað málum sínum til sáttasemjara.

Launafólk í landinu þurfti að taka á sig miklar byrðar eftir hrun. Nú þegar betur horfir í efnahagslífinu og hagvaxtarspár eru góðar virðast stjórnendur í atvinnulífinu tilbúnir til að bæta sér upp hin mögru sjö ár. Stjórnendur skirrast ekki við að skammta sér háar fjárhæðir í launahækkanir en tala svo fjálglega um stöðugleika þegar launþegar setja fram sínar kröfur. Hjá HB-granda hækkaði stjórnin sín eigin laun um þriðjung en bauð svo starfsfólki sínu íspinna í bónus. Slíkt fordæmi er ekki til þess fallið að auka sátt í samfélaginu.

Krafa Starfsgreinasambandsins um að lægstu taxtar fari ekki undir þrjú hundruð þúsund krónur nýtur víðtæks stuðnings í samfélaginu. Skal engan undra í ljósi þess að það er eðlileg krafa að fólk geti lifað af dagvinnulaunum sínum. Staðan er ekki þannig hjá fjölda fólks sem fær minna en þrjú hundruð þúsund krónur í grunnlaun. Í þessum hópi er hlutfall leigjenda hátt og ég hef hitt marga sem greiða allt frá 150 þúsundum í mánaðarleigu upp í enn hærri tölur. Það sér það hver maður að laun undir þrjú hundruð þúsundum duga skammt þegar húsnæðiskostnaður er orðinn meira en helmingur launa.

Tíu prósent þjóðarinnar eru undir lágtekjumörkum samkvæmt velferðarvakt stjórnvalda. Rúmlega 21% landsmanna eru undir þrjú hundruð þúsund krónum í grunnlaunum samkvæmt nýrri greiningu PwC á meðan rúmlega 7% eru með meira en milljón á mánuði. Um þetta getur engin sátt náðst og þess vegna tökum við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði undir kröfur launþegarhreyfingarinnar.

Stöðugleiki getur aldrei orðið öðruvísi en að allir geti lifað mannsæmandi lífi af sínum dagvinnulaunum. Stöðugleiki verður að snúast um réttlæti og jöfnuð sem og samstöðu um að útrýma fátækt í samfélagi sem þrátt fyrir allt er enn ofarlega á öllum listum yfir ríkustu lönd heimsins. Um slíkan stöðugleika hljótum við að geta sameinast.

1. maí í Reykjavík – Myndir


„HÆTTIÐ að beita okkur líkamlegu og sálarlegu ofbeldi!“

$
0
0

Í bústað uppi í sveit, vel varðar frá íslenska slyddurokinu, fórum við þrjár vinkonur að ræða málin. Dætur okkar allra, samtals sjö yndisleg eintök af manneskjum, voru sofnaðar og við dasaðar eftir erilsaman dag.

Ég hóf samræðurnar á alvarlegum nótum. Þær eru sjö, stelpurnar okkar. Hver af þeim verður fyrir kynferðislegu áreiti, misnotkun eða nauðgun?

Rannsóknir sýna að ein af hverjum fjórum verði fyrir slíku ofbeldi á lífsleiðinni, svo allavega tvær þeirra, jafnvel fleiri, svaraði önnur vinkvenna minna. Fyrir nú utan allar aðrar konur sem við þekkjum og hafa lent í einhverju svona.

Miðað við að okkur þrem hefur öllum verið nauðgað, ein verið misnotuð af fjölskyldumeðlim og tvær orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eru líkurnar á að dætur okkar verði fyrir svona ógeði miklar bætti hin við. Allt of miklar.

Og hvað eigum við að gera í því sagði ég? Ég fékk engin svör. Ég fann heldur engin hjá sjálfri mér. Ég gat ekki hætt að huxa um þetta næstu daga. Loksins fann ég svarið. Ég ákvað að segja frá. Það er eina vopn okkar gegn mönnum sem brjóta á okkur kynferðislega. Að fela ekkert. Að sitja ekki með skömmina í eigin skauti. Að halda ekki hlífiskildi yfir þeim.

Sem ungri var mér nauðgað af strák sem ég bauð heim. Ég sagði nei og fraus. Ég sagði engum frá og sat uppi með hræðilega vanlíðan, sektarkennd, skömm og lága sjálfsvirðingu í mörg ár. Mörg ár! Fyrir tæpum tveimur árum var ég áreitt kynferðislega af tveimur yfirmönnum mínum inni í litlu lokuðu rými. Ég dó innan í mér. Hörmungarlíðanin helltist yfir mig aftur.

Ég var hvött til að segja frá. Ég ákvað að vera sterk í þetta sinn. Sagði frá og færði þannig skömmina af mér. Þeir voru reknir. Bara ekki strax.

Ég var látin mæta öðrum þeirra í vinnu þremur dögum seinna. Í dag er hann kominn aftur til starfa. Af því að ég kærði ekki. Alein gegn þeim. Skömmin aftur komin, hún sat á mér og braut mig niður. Langt niður.
Þar til ég bað um hjálp. Öskraði á hjálp.

Ef þú ert ein af þessum fjórum bið ég þig að gera hið sama. Það bjargaði lífi mínu.

Þú veist aldrei hvað verður til þess að þú brotnar og gefst upp. En þolendur kynferðisofbeldis dúndra á vegginn einn daginn. Og það er miklu erfiðara að komast upp þaðan.

Segðu frá, talaðu upphátt, ekki skammast þín, þú gerðir ekkert. Leitaðu þér hjálpar strax!
Og fyrst og fremst, tökum höndum saman, konur OG karlar og segjum þeim að HÆTTA! HÆTTIÐ að beita okkur líkamlegu og sálarlegu ofbeldi!

Ég hef sannarlega ekki alltaf verið fullkomin mamma. Stundum finnst mér hreinlega allir í heiminum vera betur til þess fallnir að vera foreldrar en ég. En ég geri mitt besta með aðstoð dásamlegra foreldra og það eina sem ég vil í raun gefa dætrum mínum, fyrir utan ást og öryggi, er að vera sterk fyrirmynd. Og það geri ég svona.

Með því að segja frá, leita mér hjálpar og hætta að skammast mín fyrir ofbeldisgjörðir annarra. Með einmitt því varð ég betri mamma. Þannig sýni ég dætrum mínum að sterk geti ég risið upp frá myrkri. Að ábyrgðin er ekki mín, skömmin er ekki mín heldur þeirra sem á mér brutu.

Og ég ætla að verðlauna sjálfri mér fyrir að standa með sjálfri mér og fara í draumferð mína til Hong Kong að heimsækja kæra vinkonu. Þannig sýni ég líka dásamlegu dætrum mínum að þrátt fyrir allskonar skelli í lífinu getur maður alltaf látið drauma sína rætast. Með ákveðni og ást að vopni. Föðmum lífið. Fögnum góðum fyrirmyndum. Stöndum saman. Sterkar konur.

Við viljum geta horft í augu barnabarnanna!

$
0
0

Árni Stefán Jónsson formaður SFR stéttarfélags í almannaþjónustu flutti þessa ræðu þann 1. maí 2015 á Ingólfstorgi:

 

„Ágæta fundarfólk,

Við berum rauðan fána hér í dag. Fána verkalýðshreyfingarinnar sem táknar uppreisn gegn ranglæti – kröfu um breytingar. Réttlátara þjóðfélag!

Fáninn merkir að nú sé nóg komið! Hann er tákn dagrenningar – nýrra tíma!

Við boðum slíka tíma í dag:

Tíma samstöðu,
tíma uppbyggingar,
tíma heiðarleika,
tíma jafnréttis,
tíma skynsemi,
tíma réttlætis!

raud flogg

En það eru blikur á lofti. Óveðursskýin hrannast upp við sjóndeildarhringinn.
Íslensk verkalýðshreyfing og íslenskt launafólk verður því að beita afli og mætti sínum, til að ná til sín réttlátari sneið af kökunni.

Krafan er að fólk fái borgað mannsæmandi laun fyrir vinnu sína. En hverju svara atvinnurekendur?

Svarið er: Nei! Við höfum ekki efni á þessu. Það er ekki til peningur fyrir alla, bara suma.

Þeir hafa holan hljóm. Þegar hlustað er á forráðamenn ríkisstjórnarinnar ræða um efnahags- og kjaramál, er bjart framundan. Annar stjórnarflokkurinn stærir sig meira að segja af því að það sé ekki nema eðlilegt að almenningur geri kröfur um hækkun launa, því svigrúmið sé fyrir hendi.

En þegar til kastanna kemur er svarið: Nei.

Með atvinnurekendur í broddi fylkingar er fólki með laun á bilinu 200-400 þúsund kr. boðið 3,5% launahækkun og íspinna í kaupbæti! Það á að vera nóg.

En ekki fyrir þá sem eru með þrjár til sex milljónir á mánuði – það er allt annar Óli.

Þeir eru atvinnulífinu svo mikilvægir.
Það verður að halda þeim við efnið,
Þeir eiga skilið háa kaupauka því annars fer þjóðfélagið þráðbeint á hausinn.

Eigum við að sleppa þessum snillingunum lausum aftur og taka svo við næsta hruni eins og ekkert sé?
Er þetta rugl eitthvert náttúrulögmál?

Nei, að sjálfsögðu ekki!

kradak

 

Það er tími til kominn að almenningur á Íslandi fari að taka í taumanna!

Ísland er ekki fátækt land. Við erum ekki þjáð að hori og beinkröm. Við erum rík þjóð!

Náttúruauðæfi landsins eru gríðarleg og leitun er að öðru landi sem er þjóð sinni svo gjöfult. Svo ég tali nú ekki um ef við miðum við fólksfjölda. Við eigum gjöful fiskimið. Við búum að miklum möguleikum á raforkuframleiðslu svo ekki sé minnst á nýju auðlindina; ferðamennskuna sem byggir á náttúru okkar og víðerni. Öll þessi miklu auðæfi ættu að veita okkur, þessari 300 þúsund manna þjóð, fáheyrð lífsskilyrði og velmegun. En það er öðru nær.

• Það eru maðkar í mysunni!
• Það eru skemmd epli í tunnunni!
• Það eru samfélagsdólgar á ferðinni!

Stórtækar breytingar á skattkerfinu leiða til þess að almenningur þarf að taka á sig þyngri byrðar, en auðkonum og auðmönnum skal boðið í dans. Arðurinn og rentan af sjávarútveginum lendir í vösum fárra aðila, sem varðir eru af leiguþýi við Austurvöll. Arðurinn af stóriðjunni lendir meira og minna í höndum erlendra eigenda með hókus-pókus gjörningum. Ráðherrar íslensku þjóðarinnar eru skósveinar viðskiptajöfra í sendiferðum erlendis.

• Þeir lækka veiðigjöldin svo stóreignamenn megi græða meira.
• Þeir hækka matarskattinn svo barnafjölskyldur fái að greiða meira.
• Þeir þrengja að lánasjóðnum svo fátæku námsmennirnir geti haft það verra.
• Þeir hækka komugjöldin þannig að sjúkir fái að blæða.

Dreifing auðs með jöfnuði að leiðarljósi er hugmyndafræði sem við virðumst vera að fjarlægjast. Þróun samfélags á að snúast um samvinnu – samtal –virðingu og velferð.

Það sem einkennir hið svokallaða Norræna velferðarmódel er meðal annars sterk velferðarkerfi. Velferðarkerfi sem byggir á samtryggingahugsjón, þar sem við hjálpumst að. Þeir sem þurfa á aðstoð að halda, fái hana, án tillits til efnahags. Að menntun sé boðleg fyrir alla, óháð efnahag. Að heilbrigðisþjónusta sé fyrir alla, óháð efnahag. Að samfélagslegt uppeldi barna okkar sé vel útfært, fyrir alla, óháð efnahag.

Þessi samtryggingarhugsjón á Norðurlöndum hefur skilað sér í sterkari og stöðugri samfélögum. Þvert á allar spár frjálshyggju postulanna og viðskiptaráðs, þá eru það samfélög þar sem jöfnuður og félagshyggja er í fyrirrúmi, sem gefa bestu lífsgæðin.

Við verðum að vera á varðbergi nú þegar einkavæðingarjarlarnir eru aftur komnir af stað. Þróunin undanfarin ár ógnar samtryggingarhugsjóninni og nú eru úlfarnir farnir að heimta sitt:

• Einkavæðingu íslenskrar náttúru
• Einkavæðingu- og einkarekstur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu
• Einkavæðingu- og einkarekstur menntastofnana
• Einkavæðingu orkugeirans
• Einkavæðingu bankageirans

Góðir félagar,

Við stöndum nú á tímamótum þar sem teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um afdrif þjóðarinnar. Nú standa yfir einhver mestu og illvígustu átök á vinnumarkaði sem sést hafa í áratugi. Fullkomið vantraust og trúnaðarbrestur er á milli aðila. Við höfum séð hvernig atvinnurekendur koma fram. Á almenna markaðnum greiða fyrirtækin milljarða arð til eigenda sinna og segja launafólki að éta það sem úti frýs.

Ríkisvaldið gerir hina ríku ríkari og rekur samningastefnu þar sem beinlínis er hvatt til átaka. Það er tími til kominn að launafólk sýni mátt sinn og megin. Félögum okkar í verkfallsbaráttunni óska ég velfarnaðar. Hjarta okkar slær með ykkar í dag. Stöndum saman!

Tryggjum að dólgarnir steli EKKI undan okkur sameiginlegum auðæfum,verjum velferðarsamfélagið og gleymum því ekki að á ævikvöldi okkar viljum við gjarnan geta horft í augu barnabarnanna og sagt með reisn:

„Kútur litli, ég barðist fyrir þig og landið okkar allra“.

Til hamingju með daginn félagar.

Skjalfest falslýðræði

$
0
0

Það er óneitanlega að bera í bakkafullan lækinn að benda á þetta – en mér finnst bara svo sláandi merkilegt, það sem Ásta Helgadóttir bendir á í grein sinni um ESB-mál á Stundinni.

Í svari við spurningunni „Má búast við þjóðaratkvæðagreiðslu?“ á vef utanríkisráðuneytisins segir:

„Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðartkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin.“

Leyfum þessu aðeins að meltast

Bjarni Benediktsson hefur sagt á þessu kjörtímabili (sem eins og við vitum er lágmarksforsenda þess að ummælin gætu skipt einhverju máli) að klára þurfi vinnu við að setja sérstakt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá.

Sigmundur Davíð lagði áherslu á það í samtali við mig stuttu fyrir síðustu kosningar – og án efa víðar (þó ég finni það ekki í fljótu bragði) – að mikilvægustu breytingarnar sem þyrfti að gera á stjórnarskrá Íslands væri að setja inn ákvæði um auðlindir í þjóðareigu og um þjóðaratkvæðagreiðslur. Svo ekki sé minnst á vel þekkt kosningaloforð Framsóknarflokksins þess efnis fyrir kosningarnar 2009, sem flokkurinn hefur síðan gert allt til að koma í veg fyrir að nái fram að ganga.

Þessi fyrirheit eru vissulega jákvæð út af fyrir sig – en hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslur eiga þessir menn eiginlega við? Gera þeir sér einhverja grein fyrir því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur ganga fyrir sig?

Af því, sko, þjóðaratkvæðagreiðslur snúast um að leyfa kjósendum að ákveða mál. Óháð stefnu valdhafa.

Ekki að þjóna sem stimpill fyrir skoðanir og stefnu þeirra, til að veita þeim aukið lögmæti í pólitískum átökum.

Þetta er alveg átakanlega alvarlegur misskilningur, en til að gæta sanngirni þá hefur hans gætt meðal fleiri stjórnmálaleiðtoga undanfarin misseri – þ.e. að krafan um þjóðaratkvæði er bara sett fram þegar leiðtogar eru fullvissir um að niðurstaðan verði þeim að skapi og/eða að krafan sjálf skapi hindranir í vegi stefnu sem þeim líkar ekki.

En að sjá þennan skilning þinglýstan svona skýrt á opinberu vefsvæði ráðuneytis er óneitanlega magnað.

„… þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin“… SÓ?!

Í sem einföldustu máli: Ef þjóðaratkvæðagreiðslur eru bara haldnar þegar ljóst er fyrirfram að niðurstaðan verði í samræmi við fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda, þá hafa þær ekkert vægi. Ekki neitt. Þá eru þær sýndarmennska og falslýðræði, stimpill fyrir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Ekki vettvangur lýðræðislegrar ákvarðanatöku almennra borgara eða viðurkenning á valdi þeirra.

Og þetta er skjalfestur skilningur okkar valdhafa á lýðræðinu.

Það er fyrir þá, ekki okkur.

Hnetusmjörssmákökur

$
0
0

Mér finnst hnetusmjör ólýsanlega gott og flest allt sem inniheldur hnetusmjör. Ég verð samt að passa mig á að missa mig ekki í því og nota það því bara spari. Þessar hnetusmjörssmákökur hafa orðið til upp úr gamalli uppskrift sem ég átti.

Á árum áður bakaði ég hana oft fyrir jólin, þá datt mér ekki í hug að baka smákökur í annan tíma. Tók þær úr smákökuboxinu á aðventunni og lagði þær á borð í kaffitímanum. Eftir kaffið setti ég þær næstum allar aftur í boxið. Alltaf var ég að reyna að fá fjölskylduna til að gæða sér á þeim. Það bara gekk ekki. Enginn, fyrir utan mig, var hrifinn af smákökunum þannig að ég hætti að baka þær. Já, það er nú bara stundum þannig, ef fjölskyldan borðar ekki það sem gert er þá bara hættir maður að gera það.

Í fjöldamörg ár leit ég ekki við uppskriftinni og nánast gleymdi henni. Fyrir nokkrum árum var ég að skoða gömlu uppskriftabókina mína og rak augun í þessa. Rifjaðist þá upp fyrir mér hversu góðar mér hafði fundist þær vera. Ég ákvað að endurnýja kynnin við þær og skella í eina hræru, en nú með því hráefni sem ég nota í dag.

Nú kvað við annan tón hjá fjölskyldumeðlimum. Namm, hvaða kökur eru þetta? Hefur þú ekki bakað þessar áður? var spurt. Jú, jú, en þá varst þú/þið ekki hrifin af þeim. Þau trúðu því vart og féllu kylliflöt fyrir hnetusmjörssmákökunum.

Í fyrsta sinn sem ég bakaði hnetusmjörssmákökurnar rétt náði ég í eina eða kannski tvær.

Ég baka hnetusmjörssmákökurnar töluvert oft. Mér finnst frábært að eiga þær í frysti og setja í nestisboxið þegar við förum í einhverja útivist. Eða bara stinga upp í  mig þegar mig langar í smá bita.

Það verður að segjast eins og er að smákökurnar er lang-, langbestar nýbakaðar með kaffi eða ískaldri mjólk. En auðvitað eru þær alltaf góðar.

Hnetusmjörssmákökur

Úr uppskriftinni fékk ég 23 kökur

Hitið ofninn í 180 °C

Innihald

Innihald:

  • 1 bolli smjör.
    • Smjörið þarf að vera lint.
  • 1 bolli gróft hnetusmjör.
    • Ég nota lífrænt.
  • 1 bolli pálmasykur.
  • 2 stk brún egg.
  • 1 ½ bolli fínt spelt.
    • Ég nota lífrænt.
  • 100 g brytjað suðusúkkulað.i
  • Innan úr einni vanillustöng.
  • ¼ tsk. salt.

Aðferð:

  • Hrærið smjörinu, hnetusmjörinu og pálmasykrinum vel saman.
  • Bætið eggjunum út í og hrærið í ca 3 mínútur í viðbót.
  • Bætið vanillunni út í deigið.
  • Þá speltinu, suðusúkkulaðinu og saltinu.
    • Hrærið þar til allt hefur blandast vel saman.
  • Setjið með matskeið á bökunarplötu.
  • Bakið við 180 °C í 10 mínútur.

A leid i ofninn

 

Tilbuid

Gott er að geyma kökurnar í ísskáp eða frysti.

Njótið.

 

 

 

Subway-skólinn II: Þarfaskólinn

$
0
0

Fyrir nokkru fjallaði ég á kaldhæðinn hátt um kjánaskap ofuráherslu á eitt ákveðið fag. Hvernig það væri fáránlegt að skikka alla til að móta sinn akademíska feril eftir því sem ég hef gaman af og get lært. Þeir sem kannast við mig geta auðveldlega giskað á að hvaða fagi biturleikinn beindist. Þó ég hafi verið með mitt einkahatur í huga þá var þetta þó hugsað þannig að allir ættu að geta séð sína erfiðleika og kannski farið að skilja annarra.

Þegar nemendum líkar illa við fag eru fyrstu viðbrögð oft að pæla í nytsemi fagsins. „Ég á aldrei eftir að nota þetta“ og „þetta er gagnslaust“ er sérstaklega skemmtilegt fyrir kennara að heyra og þeir eru yfirleitt með föst og klisjukennd svör tilbúin til að slá umræðuefnið út af dagskrá. Svo hér er tillaga; ég hætti að vera með kaldhæðna niðurrifsgagnrýni og menntakerfið hættir að reyna að réttlæta eitthvað bara til að breytast ekki.

Ef nemendur vilja læra eitthvað gagnlegt þá skulum við kenna þeim eitthvað gagnlegt.

En tökum fyrst smá niðurrifsgagnrýni á t.d. dönsku. Það er mín skoðun að danska sé eitthvert ljótasta tungumál Evrópu. Einnig er það vísindaleg staðreynd. En burtséð frá mínum fagurfræðilegu pælingum um tungumál þá hefur dönskukennsla ýmislegt til að réttlæta tilvist sína. Yfirleitt kemur upp sú röksemdafærsla að margir Íslendingar fari í nám og vinnu til Danmerkur. Svo tilgangur í námi er m.a. að opna gáttir í atvinnulífinu? Allt í lagi. Þá legg ég til að ökukennsla verði fastaáfangi í framhaldsskólum.

Ég hef ekki farið í mörg starfsviðtöl á ævinni, en um helmingur þeirra hefur byrjað og endað á einni setningu: „Ertu með bílpróf?“ Hugsaðu aftur til allra þeirra starfa sem þú hefur íhugað eða haft. Hversu hátt hlutfall þeirra þarfnaðist bílprófs, og hversu mörg þeirra kröfðust góðrar dönskukunnáttu? Einhvern veginn held ég að fleiri starfsviðtöl gengju betur ef ég væri með bílpróf frekar en 15 einingar í sálfræði. 

Pældu í öllum þeim tíma sem þú sóaðir gónandi út í loftið í ensku eða stærðfræði eða líffræði eða hvað svo sem þú aldrei fílaðir. Hvað ef sá tími hefði ekki farið í að krassa sama hakakrossinn aftur og aftur heldur í að æfa þig á bíl.  Þessi áfangi, BÍL103 eða hvað svo sem það myndi heita, er ekki eitthvað sem mig langar til að gera, enda myndi ég falla önn eftir önn í þessu fagi. Ég er að hugsa um alla aðra og hvernig hægt er að nýta kerfið til að bæta aðstæður og getu fólks. Sjálfur myndi ég líklegast skrópa í þessum tímum eins og sundi þegar Rósa frænka er í heimsókn.

377349_4078089723942_1154629742_n

Jess! Tíðahringjabrandari! Nú er ég opinberlega festur í sessi sem rödd þjóðarinnar.

Bílprófið gæti enn verið aldurstengt og allt þannig, eina sem breyttist væri að menntakerfið myndi opinberlega styðja fólk í því. Opinbert menntakerfi er til þess gert að sporna við stéttaskiptingu, og eitt sem aftrar mörgu fólki í að ná þessum góðu réttindum er einmitt stéttaskipting. Ekki að það sé ekki hægt að vera án bílprófs. Það er vel hægt og margir virka vel þannig. Eini vankanturinn á bílprófsleysi er að enginn kvenmaður mun nokkurn tímann líta við þér.

Og nei, kostnaðarhliðin er ekki eitthvað sem ég er búinn að hugsa um. Ég er hugsjónahippinn og þið eruð fólkið sem náði STÆ103. Mínum hluta verksins er meira en lokið.

Annar hlutur sem skólar gætu tekið meiri þátt í er almenn lífskunnátta. Ekki innhverfir hæfileikar, það er pistill út af fyrir sig, heldur hæfni í samfélaginu. Af hverju veit ég flest allt sem vita má um rýrisskiptingu en þarf samt að hringja í mömmu til að skila skattaskýrslunni (og af hverju veit hún meira en ég um rýrisskiptingu en tvístígur sjálf þegar hún reynir að leiðbeina mér við skattaskýrsluna?)?

Fullt af orku og tíma fer í að undirbúa mig fyrir að skipuleggja nám og vinnu en engar leiðbeiningar fást um hvernig ég komist í vinnu. Hvergi erum við undirbúin fyrir samskipti í viðtölum eða við yfirmenn eða samstarfsfólk. Af hverju mátti ég vera stoltur af því að hafa lesið Hringadróttinssögu á tveimur tungumálum þegar ég var ellefu ára, en veit svo ekkert hvað ég er að horfa á níu árum síðar þegar mér er réttur ráðningarsamningur? Íslenska ríkið stóð sig vel í að fylla mig af þekkingu um Laxness og Jónas frá Hriflu en aldrei var mér sýnt hvernig sækja ætti um atvinnu. Eða heilbrigðisþjónustu eða neitt. Frekar á að leyfa fólki að tvístíga og ráfa í veikri von um að gera sig ekki að fífli.

Það er samt, til að bæta færni fólks í menningu og samskiptum, hægt að færa út kvíarnar í kannski íslensku og ensku og þess háttar fögum. Mín tillaga er að bæta við poppmenningarfræði. Nútímamenningarsaga. Vissuð þið að til er fólk sem botnar ekkert í setningunni „No – I am your father.“? Það er í alvörunni til fólk sem hefur ekki séð Star Wars! STAR WARS!

Fólk sem ekkert þekkir til Stjörnustríðs glatar stórum bút úr menningu okkar.  Það er blint þegar kemur að húmor og tilvitnunum í bókum og myndum og almennu tali. Menningarrisar á borð við Stjörnustríð eru jafnvel kannski fyrirferðarmeiri heldur en málshættir, sem þó eru kenndir og rýnt í í kennslustundum. Það eru hópar í þessu samfélagi sem tengjast og tjá sig einungis með tilvitnunum í álíka fyrirbæri. Gætirðu fyrirgefið börnunum þínum að þekkja ekki til Bítlanna eða Robert Johnson?

Já, eins og ég sé þetta fyrir mér er þetta heldur miðað við það sem minn innri (og ytri) nörd fílar. En hvað er að því? Ljóð og bækur sem kenndar eru í tungumálafögunum, hvað er það annað en afmarkað áhugasvið yfirstéttarnördanna fyrir hundrað árum?

Myndasögur eru goðafræði okkar tíma, popptónlistin klassík og Hollywood-bálkarnir epíkin. Þetta er alveg jafn mikilvægt að þekkja og fyrsta spíttbátinn okkar, hann Stjána.

stanley

„Já krakkar, Stanley var ágætis fley. En það voru Nautilus og Enterprise NCC-1701 líka eins og sést í kafla…“

Stærðfræði gæti verið hagnýtari, náttúrufræði kennt að skilja vísindi í stað þess að tyggja ofan í fólk staðreyndir, samfélagsfræði/saga farið í að skilja betur nágrannann í fortíð jafnt sem nútíð… allir þessir draumórar eilífðarstúdentsins.

Greinaröðin um Subway-skólann er nefnd í höfuðið á orðum Jóns Gnarr:

„Þú getur sagt: Ég ætla að fá bræðing mínus gúrkur plús ólivur. Það er enginn sem segir við þig: „En gúrkur eru svo hollar“. Ég þarf ekki að útskýra fyrir neinum af hverju ég vil ekki gúrkur, mér finnst þær einfaldlega vondar. Mér finnast gúrkur vondar og ég vil ekki borða þær. Á Subway þá hef ég þann rétt að ég get fengið Subway án þess að þurfa að borða gúrkur. Þannig vil ég sjá skólakerfið.“

Þannig vil ég líka sjá það. Skólakerfi fyrir fólkið en ekki skólakerfi hannað af háskólaprófessorum fyrir háskólaprófessora.

Og skólakerfið þarf ekki bara að undirbúa fólk fyrir að halda áfram í skóla. Það þarf líka að læra að sleppa nemendum. Hugsið um alla þá sem eru sleipir í stærðfræði en mega ekki fara neitt því þeir féllu í íslensku. Alla læknana sem við erum að missa af vegna dönsku. T.d. veit ég fullt um Shakespeare og rómantísku skáldin en má ekki læra sem enskukennari því ég get ekki diffrað hallamál af π.

Í kerfi sem leitast við að spara þykir ódýrast að halda fólki sem lengst eftir og snuða um atvinnu og nám.

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live