Í dag kemur út skáldsagan Hryðjuverkamaður snýr heim eftir Eirík Bergmann. Sögur útgáfa gefur bókina út. Kvennablaðið birtir hér tvo fyrstu kafla bókarinnar en í fréttatilkynningu útgefanda segir:
„Ekkert er alveg sem sýnist í þessari mögnuðu sögu Eiríks Bergmanns um miðaldra mann sem snýr heim til Íslands í byrjun árs 2008 eftir að hafa þurft að flýja land löngu fyrr út af illskiljanlegum glæp. Hann reynir að rifja upp gömul kynni við vini og vandamenn og átta sig á heiminum sem er gjörbreyttur frá þeim heimi sem hann hvarf frá. Og reynist vera í þann veginn að hrynja.
Vinátta, hugsjónir, æskan og sagan, minningar, skýjaborgir og loftkastalar, ástin og afkvæmin – allt kemur þetta við sögur í þessari leiftrandi skemmtilegu en þó svo djúpskreiðu bók.“
![B]()
Hryðjuverkamaður snýr heim
Eiríkur Bergmann
1.kafli
Vor 2008
„Illa hafði gengið að koma sér fyrir í flugvélarsætinu og ómögulegt var að sofna. Ónotin í iðrunum höfðu stigmagnast allt frá því að hann fékk símtalið frá Gerði nokkrum dögum fyrir. Dauðbrá við að heyra rödd hennar eftir öll þessi ár. Þau hittust síðast skömmu eftir fall múrsins þegar hún kom að heimsækja hann í þetta eina sinn.
Síðan hrönnuðust árin bara upp í það hrúgald sem blasti við honum í baðherbergisspeglinum.
Nú fyrst fékk hann að vita að heimsóknin hefði borið ávöxt. Stúlku sem komin var í slík vandræði að Valur yrði að koma heim, hún lægi á gjörgæslu eftir félaga sína í alræmdri glæpaklípu sem gjörvallt líf hennar var flækt í. Gerður stakk upp á að hann fengi þá Sveinbjörn og Rút Björn vin þeirra til að greiða úr málunum, svo hann kæmist vandræðalaust til landsins.
Hann reyndi að sjá hana fyrir sér í sjúkrarúminu, sjá á henni svipinn. Árangurslaust. Hann átti aðeins þessa einu mynd af henni sem Gerður sendi honum eftir símtalið; bjarthærð hnáta í lopapeysu að kemba jörpum hesti bundnum við gerði. Sposkur munnsvipurinn var sá sami og á Öldu móður Vals, ömmu stúlkunnar. En hvasst augnaráðið gerði honum bilt við.
Hann kímdi yfir kunnuglegu nafni þessarar dóttur sinnar sem hann hafði rétt nýlega frétt af: Kolbrá. Valur afþakkaði samloku á kostakjörum úr hjólavagninum sem flugfreyjan rúllaði á undan sér. Hafði ekki lyst á fastri fæðu en svart brúsakaffið svolgraði hann í sig. Hugurinn loddi ekki heldur við þýska bókina svo hann sat uppi með sínar eigin hugsanir, sem hann hafði minni lyst á en samlokunni.
Deginum áður hafði hann bókað herbergi á gistiheimilinu Fönix við Snorrabraut í gegnum netið. Notaði nafn látins bróður síns en var nokkuð viss um að það yrði vandkvæðalaust. Þótt það væri að vísu löngu fallið úr gildi var hann enn með gamla vegabréfið hans Geirs Alfreðs. Hann klappaði lauslega á brjóstvasann til að fullvissa sig um að passinn væri á sínum stað.
Fyrir utan blasti Öræfajökull við í draumkenndri síðdegisbirtunni. Loftið var létt og hugurinn leitaði heim í Breiðholtið. Hvar skyldi Rútur rauði tækjaskelfir vera í dag? Minningarnar virtust stíga upp af landinu fyrir utan gluggann.
Þeir höfðu byrjað samtímis í skóla en ekki orðið vinir fyrr en ári síðar, í átta ára bekk. Þá gekk hann fram á Rút þar sem hann bjástraði við að rífa í sundur hjólið sitt úti á stétt. Undrandi spurði hann hvað væri að hjólinu, það var af góðri tegund og virtist glænýtt. Nei, það var svo sem ekkert að því. Rútur hafði bara meiri ánægju af því í bútum. Þannig var það með flest hjá Rúti, óþrjótandi forvitni rak hann áfram, stundum út í dómadagsdellu. Olían smitaðist af sístarfandi fingrum um ermar og buxnaskálmar.
Rútur renndi fingrunum í gegnum sítt hárið, sem límdist aftur hnakkann, og skildi eftir dökka smurolíurönd. Þegar hann hafði losað síðustu skrúfuna stakk hann upp á að þeir færu í hjólatúr niður í Indíánagil. Staðarvalið átti vel við því olíugljáandi hárlokkur stóð upp úr höfði hans líkt og fjöður.
„Á hvaða hjóli ætlar þú?“ spurði hann og leit í kringum sig.
„Nú, þessu auðvitað,“ sagði Rútur hissa og benti á óskipulega hrúguna á stéttinni.
Þegar Valur svo kom til baka skömmu síðar á græna Mostar-hjólinu sínu með háa bogadregna stýrinu hafði Rútur klambrað reiðhjólinu saman. Þó svo að nokkrar skrúfur ættu það til að ganga af í ákafanum virtist hann hafa nánast yfirnáttúrlegan skilning á flóknu gangverki hlutanna. Sem meðal annars birtist í endalausri skákinni sem hann tefldi stöðugt við föður sinn.
Ætli þeir hafi ekki verið búnir að renna niður hálfa Breiðholtsbrautina þegar þeir þegjandi og hljóðalaust ákváðu að verða vinir. Upp frá því voru þeir óaðskiljanlegir – allt þar til Valur stakk af úr landi.
Út um flugvélargluggann sá hann hvíta línu fjörunnar hlykkjast eins og kampavínsfroðu eftir víðum svörtum söndunum. Hann vissi ekki hvað hann átti að velja úr óreiðu hugans. Fannst freyðivínslegin fósturjörðin og hreifur þjóðarandinn, sem lá yfir eins og dalalæða, óraunveruleg.
Hann hafði ekki átt von á því að snúa nokkurn tímann heim, ekki úr því sem komið var. Trúði því tæpast á meðan hann var enn í öruggri fjarlægð. En hann vissi að brátt tæki biðin enda. Hjá því yrði ekki komist úr þessu.
„Please step aside,“ skipaði hnellin kona með rytjulegan hund og gekk í veg fyrir hann. „Put your bag through there,“ urraði hún til skýringar og benti á færibandið sem flaut hjá á jöfnum hraða eins og þungur niður tímans.
Þegar hann hélt af landi brott fyrir rúmum tuttugu árum staðhæfði vegabréfið, sem hann lagði eins fumlaust og hann gat á innritunarborðið, að hann héti Geir Alfreð Orrason. Nú þreifaði hann aftur á passa bróður síns í brjóstvasanum á meðan hann beið örlaganna. Af þvældri svarthvítri myndinni var ómögulegt að segja til um hvort hann væri hugsanlega Geir Alfreð. Þeir voru svo líkir í þá tíð. En það skipti kannski ekki máli. Nú var það fyrst og fremst minjagripur. Hitt vegabréfið sem hann bar á sér var ekki miklu skárra. Á því stóð að hann héti Magnus Heinz.
Ríkið sem gaf það út var ekki lengur til, svo hann vissi ekki alveg hvers vegna hann hafði það meðferðis. Ekki síst sökum gagnslítilla pappíranna var honum svona ómótt. Vonaði að það reyndist rétt sem hann hafði heyrt, að farþegar innan samhæfingarskrímslis Evrópuapparatsins lentu yfirleitt ekki í vegabréfsskoðun við komu til landsins.
Hann skellti þvældri tuðrunni á færibandið og horfði kvíðinn á eftir henni sigla á hægu stími á bleksvörtu gúmmífljótinu inn í gapandi svarthol. Tollvörður hékk áhugalítill við gegnumlýsingarskjáinn en aðhafðist ekkert. Hafði greinilega takmarkaðan áhuga á sveittum og illa tilhöfðum ferðalangi.
Konan með rytjulega hundinn tók aftur til máls:
„You can get your bag on the other side.“
Augnablik sá Valur hana fyrir sér veifandi íslenska fánanum og hugsaði með sér að þetta væri nú meiri móttökunefndin.
„Danke. Ég meina thank you,“ muldraði hann, greip tuðruna handan ginnungagapsins og gekk óstyrkum fótum út um hliðið.
2. kafli
Hvað nú? spurði Valur sjálfan sig þar sem hann gekk niður útitröppurnar á gistiheimilinu við Snorrabraut. Hann hafði ekki ákveðið hvert skyldi halda. Staldraði við á gangstéttinni og hugsaði sig um á meðan hann veiddi lítinn Partagas-vindil úr brjóstvasanum.
Það hafði tekið hann nokkra stund að átta sig á hvar hann var niðurkominn þegar hann vaknaði. Ekki fyrr en hann sá mosagræna íþróttatösku Láru, hinnar dóttur sinnar, á gólfinu mundi hann að hann var raunverulega kominn til Íslands. Eftir rúma tvo áratugi.
Í töskunni voru tvennar gallabuxur, brún peysa, tveir bolir – grár og rauður – og tvær bækur sem hann fékk í rauðu bókabúðinni við Kastanienalle heima í Berlín. Bókakosturinn var kannski það eina sem enn minnti á hugsjónirnar sem smám saman liðuðust úr huga hans líkt og skólaljóðin sem hann eitt sinn lærði utan að. Í töskunni voru einnig þrjár skyrtur – blá, hvít og svört, fátækleg snyrtibudda úr plastefni sem innihélt tannbursta, tannkrem og gula túbu af rakakremi fyrir exemið. Loks voru meðferðis nærföt sem gætu með góðri nýtingu dugað í viku. Hann vonaði að hann þyrfti ekki að vera lengur.
Honum hafði ekki tekist að losa sig við óraunveruleikakenndina í allan gærdag. Flugstöðin virtist framandi, fólkið ókunnuglegt og meira að segja sjálft hraunið sem flaut undan flugrútunni var eins og úr annarri veröld. Allavega ekki þeirri sömu og þegar hann arkaði þennan sama veg fúnum fótum til að mótmæla hernum. Nú var ameríski herinn farinn en í staðinn voru komnir bísperrtir borgarskriðdrekar, amerískir Hummerar, breskir Range Roverar og þýskir Porsche-jeppar. En engir rússajeppar. Ekki lengur.
Hann stóð á tröppunum fyrir utan gistiheimilið og velti vindlinum stutta stund á milli fingranna á meðan hann skimaði mögulegar leiðir. Fann loks eldspýtnabréf frá Karl-Elke í innanávasanum á græna jakkanum sem hann erfði eftir bróður Aldonu, vörð í pólska hernum sem gaf upp öndina við austurlandamærin. Stakk upp í sig stautnum og bleytti laufin af þeirri kúnst sem var orðin að kæk. Hann hafði mælt sér mót við Gerði á hóteli í miðbænum klukkan ellefu. Svo þyrfti hann að hringja í Rút. Og jafnvel í Sveinbjörn líka. Önnur áform hafði hann ekki þennan fyrsta morgun heimsóknarinnar.
Næðingurinn slökkti á þremur eldspýtum áður en honum tókst loks að tendra í vindlinum. Eftir svolítið óvissuhik tók hann stefnuna norður eftir Snorrabraut í átt að Laugavegi. Klukkan var rétt um sjö og fáir á ferli. Svalt loftið vafðist um hann eins og lak. Hann hneppti að sér fósturjörðinni og gekk af stað. Renndi niður dísætu vínarbrauði og römmu kaffi í bakaríi sem verið var að opna þegar hann átti leið hjá.
Þegar hann hafði lokið við morgunverðinn gekk hann rösklega út á skiptistöðina á Hlemmi og tók sér far með strætisvagni. Hann ætlaði að heimsækja gamla hverfið sitt áður en hann héldi til fundar við Gerði. Settist aftast til að rifja upp gamla daga frá réttu sjónarhorni. Hann var aleinn í vagninum, sem hann minntist ekki að hafa reynt fyrr. Þegar hann var krakki var alltaf troðfullt í strætó. Hann mundi líka hvað það var pirrandi að móðir hans rak hann jafnan til að standa upp fyrir fullorðnum, jafnvel þótt aftar í vagninum væru laus sæti. Nú var hann sjálfur orðinn fullorðinn. En enginn til að standa upp fyrir honum.
Við blöstu mýmörg ný hverfi, hvert á sínum álfhóli. Sum voru fullbyggð en önnur að rísa í knippi byggingarkrana þótt enginn sæist verkamaðurinn héðan úr strætisvagninum. Út um gluggann glitti í langar raðir gljáfægðra torfærutrukka, líkra þeim sem svifu eftir Keflavíkurveginum daginn áður. En hér liðu þeir löturhægt eftir yfirfullum götunum í umferð sem minnti helst á herferð Þjóðverja þegar þeir nálguðust Síberíu – allt pikkfast og samanfrosið. Vagninn dróst eins og traktorsdrifin toglyfta upp Breiðholtsbrautina á meðan bílalestin sem leið niður brekkuna var föst á rauðu ljósi.
Það var einmitt hér í beygjunni sem hann missti takið á strætóstuðaranum í einni teik-keppninni og hentist út í vegkantinn. Minnstu munaði að illa færi. Hann mundi ennþá þytinn af neglda jeppadekkinu sem straukst við vangann um leið og hann horfði á eftir Rúti hanga á stuðaranum út Miklubrautina.
Vagninn beygði nú til vinstri fram hjá Æsufellinu og stoppaði svo við Fellaskóla þar sem Valur vippaði sér út. Eftir að hafa virt fyrir sér sér leifarnar af gamla skólanum sínum gekk hann hægum skrefum upp að lágreistum verslunarkjarnanum og alla leið heim að stigaganginum við Unufell 39, þar sem hann átti heima – að honum fannst í annarri veraldarvídd. Varð í fyrsta sinn drukkinn á númer fjögur og missti sveindóminn á númer sex.
Gerður bjó hinum megin í hverfinu, í húsunum sem reist voru eftir gosið í Eyjum. Mörgum Fellabúum þótti fólkið í viðlagasjóðshúsunum láta eins og það væri á einhvern hátt hafið yfir skrílinn í blokkunum. Engar slíkar grillur var þó að merkja hjá Gerði þótt hún sannarlega skæri sig frá innfæddum Breiðholtsmeyjum, bæði fínlegri í háttum og fágaðri í fasi. Æsti sig ekki einu sinni yfir slysinu sem þeir Rútur ollu henni.
Ekki var laust við að kæmi á hann þegar hann gekk í gegnum gamla verslunarkjarnann. Ansi eyðilegt var um að litast, einungis tvær smágerðar konur af asískum uppruna á ferli. Verslanirnar voru horfnar og ýmist búið að negla tréplanka fyrir búðargluggana eða múra upp í þá. Hér var hjarta hverfisins; fullbúin kjörbúð, bakarí, yfirfull bóka- og ritfangaverslun, fatabúð, bankaútibú sem reglulega var rænt með leikfangabyssum og alræmd blómabúð þar sem barnaperrinn í hverfinu safnaði í kringum sig ungum drengjum – bauð þeim fyrst ókeypis appelsín og suðusúkkulaði í búðinni og hafði svo með heim til sín. Hér var líka vefnaðarvöruverslun, íþróttavöruverslun og svo auðvitað söluturn þar sem Valur varði góðum hluta æskuáranna.
Nú var aðeins sjoppan enn í rekstri og svo var kominn marghamur skyndibitastaður, sem af ljósaskiltinu að dæma virtist eins konar sambland af taílenskum núðlustað, ítalskri pítseríu og amerískri hamborgarabúllu. Að auki mátti fá kjúklingabita, sagði á blikkandi ljósaskiltinu. Þó var hér enginn til að nýta æsilega framsett hamborgaratilboðin. Ekki einu sinni stök fyllibytta á stangli, sem í eina tíð mátti ávallt treysta á.
En kannski var það ekki svo ýkja skrítið að verslanirnar skyldu á endanum leggja upp laupana. Þegar Valur var að vaxa úr grasi þótti það heilmikil íþrótt að hnupla smáhlutum úr búðunum. Búðahnupl var raunar eins konar manndómsvígsla hér í upphæðum.
Rútur bjó í blokkinni á bak við verslunarkjarnann. Í hjólageymslunni höfðu eldri strákarnir útbúið birgðageymslu fyrir góssið því þangað ráku fullorðnir aldrei inn nefið. Líklegra var að Fídel sjálfur myndi óvart villast inn í blómabúðina hans Tomma homma en að fullorðnir Breiðholtsblokkarbúar færu að athuga aðstæður á leiksvæði barna sinna.
Þegar Valur og Rútur voru rétt skriðnir á þrettánda ár – það er að segja á þann aldur þegar menn voru teknir í fullorðinna manna tölu í Breiðholtinu og áttu til að mynda bæði að vera búnir að ríða og detta í það í tæka tíð fyrir afmælisdaginn – voru þeir formlega vígðir í klíkuna. Þóttu einstaklega færir í að ná gosi úr kókbílnum þegar hann kom í hverfið til að fylla á birgðirnar í matvörubúðinni. Eldsnöggir, pínulitlir og þaulæfðir í klifri.
Krummi krunk sá um skipulagninguna og fulltrúar hans tóku að sér verkstjórn á vettvangi og lögðu á ráðin um ránsferðir. Yngri drengirnir voru hins vegar í framlínunni. Eiginlega bara fallbyssufóður. Ekki tiltökumál þótt þeir væru nappaðir og lokaðir inni í glerbúrinu hjá verslunarstjóranum.
Á meðan bílstjórinn og aðstoðarmenn hans báru inn gosið stukku Valur, Rútur og hinir yngstu strákarnir upp á pallinn og kipptu flöskunum hverri á fætur annarri upp úr kössunum og handlönguðu til hlauparanna sem lágu í leyni. Eins og boðhlauparar á ólympíuleikum fátækra tóku þeir á rás með fenginn í fylgsnið þar sem liðsforingjarnir tóku við góssinu. Fyrirkomulagið var þannig að fótgönguliðarnir fengu að halda tíundu hverri flösku. Á þeim tíma þótti engum það óeðlileg skipting, svona var einfaldlega munurinn á milli öreiga og ráðandi stétta. Liðsforingjarnir sem aðeins öttu þeim yngri út í ránsferðirnar en tóku enga áhættu sjálfir fengu mest og svo fengu handlangararnir – milliliðirnir – einnig sitt. Þegar Valur og Rútur gerðu eitt sinn athugasemd við skiptinguna lögðu Krummi og nótar hans þá í duftið.
Valur minntist þess þegar hann var gripinn í versluninni sem nú hafði verið byrgð með útkrössuðum spónaplötum. Hann var við það að sleppa út um dyrnar og taldi sig hólpinn þegar verslunarstjórinn þreif í grannan upphandlegginn svo undan sveið. Dró hann á eftir sér upp í glerbúrið aftast í versluninni, þar sem sá yfir búðina. Keyrði þar átta ára drenginn af alefli ofan í skrifborðsstól innarlega í glerbúrinu. Loksins náði hann einum skratta, en síhnuplandi drengir fóru eins og ræsisrottur um hverfið fannst honum. Viðskiptavinirnir horfðu í forundran á aðfarirnar en enginn sá ástæðu til að skerast í leikinn þó svo að verslunarstjórinn slægi strákinn eins og hverja aðra skaðræðistófu. Enda hafa meindýr ekki mannréttindi.
Sex appelsínflöskur fundust innan klæða. Verslunarstjórinn gnæfði eins og ógnarrisi yfir labbakút sem var nánast horfinn ofan í stólinn. Krafðist nafns og símanúmers og sagðist ætla að hringja í móður hans. Málið væri grafalvarlegt. Hann, þessi litli vesalingur, yrði kærður til lögreglu og látinn dúsa í steininum þar til skóli hæfist á ný.
Valur mátti ekki til þess hugsa að blanda mömmu sinni í málið og brá á það eina ráð sem mögulegt virtist í afar þröngri stöðunni. Starði um stund á rytjuleg hárin sem spruttu upp úr fráhnepptum ljósbláum pólóbol verslunarstjórans áður en hann lét til skarar skríða. Með örsnöggri hreyfingu vatt hann upp á sig og sneri sig eldsnöggt niður af stólnum, þaut svo upp á þrautþjálfaða spóaleggina og skellti óviðbúnum verslunarstjóranum í panellagðan vegginn. Valur gaf dynknum ekki gaum þegar ístrubelgur skall með hnakkann í gullrammaða fjölskyldumyndina á veggnum – útivistarleg konan á myndinni hélt áfram að brosa hvað svo sem á gekk – heldur reif upp hurðina og stökk yfir tröppurnar sem lágu niður úr glerbúrinu.
Hann lenti harkalega á gólfinu, féll við og tók byltu fram fyrir sig áður en hann kom snarlega aftur upp á sperrta fætur. Rétt náði að hliðra sér undan aðstoðarverslunarstjóranum, sem kom á ferðinni eftir niðursuðudósaganginum. Sá greip í tómt þegar Valur vék sér undan og keyrði lóðbeint á blaðastandinn, féll aftur fyrir sig og skall í gólfið. Val vitaskuld krossbrá en tók svo strikið framhjá afgreiðslukössunum. Þaut þar heilt Skeiðarárhlaup og stökk eins og þaninn grindahlaupsstökkvari yfir samankeðjaða kerruröðina og rauk svo beinustu leið út í frelsið án þess svo mikið sem líta um öxl.
Komið var undir morgun þegar Valur hrökk upp af minningum sínum við ískrandi skrölthljóð. Á að giska níu ára drengur leiddi reiðhjól með sprungið afturdekk niður brekkuna í áttina að Fellaskóla. Einmitt þar sem Krummi krunk og félagar hans höfðu barið Val og Rút svo illilega eftir að kastaðist í kekki á milli þeirra.
Þeim blöskraði arðrán hverfiskapítalistans svo mjög að þeir leituðu ásjár hjá Sveinbirni félaga sínum sem var tveimur árum eldri, jafnaldri Krumma. Söfnuðu stuðningi á meðal fótgönguliðanna og steyptu svo Krumma krunk af stóli sem hnuplstjóra í vel heppnaðri innanfélagsbyltingu og komu á mun sanngjarnara ráðstjórnarskipulagi undir strangri stjórn Sveinbjörns. Afrakstrinum skyldi jafnt skipt á meðal allra.
Sveinbjörn hélt fast um stjórntaumana og smám saman komst á ógnarjafnvægi á milli hans og Krumma. Alveg eins og hjá Maó formanni, sem sagði engu máli skipta hve margir liðsmenn alþýðuhersins myndu falla í stríðinu, alltaf yrði til nóg af Kínverjum, vissi Sveinbjörn að ávallt yrðu nógu margir litlir strákar til að fylla skarð þeirra sem féllu í orrustum hverfisins. Mottóið var í anda klassísks ráðstjórnarkommúnisma: klíkan fyrst, hverfið næst, einstaklingurinn síðast. Sumir kvörtuðu undan harðræði en undir stjórn Sveinbjörns fengu þeir í það minnsta réttlátari skerf erfiðis síns.
Fyrir utan asísku konurnar tvær var drengurinn með reiðhjólið sá eini sem sést hafði á ferli þá stund sem Valur hafði varið á æskuslóðunum þennan fyrsta morgun Íslandsheimsóknarinnar. Farið var að rigna svo hann stakk sér undir skjólgóðan húsvegg. Dró fram símanúmerið hjá Rúti, sem hann hafði skrifað hjá sér af netinu og var með samanbrotið í velktu seðlaveskinu sínu. Mundaði farsímann, sló inn númerið og þrýsti á græna hnappinn. En hringingin lét á sér standa. Þess í stað heyrðist aðeins örstutt hljóðmerki sem hann kannaðist ekki við. Svo gerðist nákvæmlega ekki neitt. Síminn sem hann hafði fengið hjá Aldonu, sambýliskonu sinni í Berlín – þegar vinnuveitandinn skipti út tækjum starfsmanna sinna enn einn ganginn – gegndi ekki skipunum hans. Hann vissi ekki hvers vegna. Hnapparnir hlýddu ekki frekar en óknyttadrengirnir í hverfinu forðum. Svo virtist sem símakort frá austurhluta Berlínar virkuðu ekki hér í austurhluta Reykjavíkur.
Hann gafst upp og skimaði eftir símaklefanum sem áður stóð í göngugötunni á milli búðanna. En nú var þar engan að finna svo Valur hélt aftur á strætisvagnastöðina. Hann mundi eftir fjölmörgum myntsímum á suðurveggnum inni á biðstöðinni á Hlemmi. Á leiðarenda steig hann úr vagninum og stökk inn á biðstöðina, fann veggsíma og stakk tíu króna mynt í raufina. Tók svo upp tólið en fékk engan són. Hann sá að heyrnartólssnúran hafði losnað í sundur. Hékk einvörðungu saman á málmhringjunum. Slitnir snúruendarnir lifðu nú hvor um sig sjálfstæðu lífi eins og ánamaðkarnir sem þeir Rútur dunduðu sér við að slíta í sundur í móanum á bak við Fellablokkirnar. Valur tók myntina úr raufinni og velti tíkallinum á milli fingranna á meðan hann skimaði árangurslaust eftir öðru símtæki.
En allir virtust þeir hafa verið teknir niður nema þessi eini – sem ekki virkaði. Honum datt í hug að fá að hringja hjá húsvörðunum en komst fljótt að því að engir slíkir voru lengur á Hlemmi. Sverar blikkplötur voru komnar fyrir gluggana í búrinu þar sem þeir höfðu afdrep í gamla daga. Alveg eins og á æskuslóðunum í Fellunum voru smáverslanirnar líka horfnar af Hlemmi. Fellahverfið og Hlemmur áttu það sameiginlegt að hafa gleymst í góðærinu.“