Það kann að koma einhverjum á óvart að Íslendingar eru víst bara rúmlega 300 þúsund! Þetta frétti ég nýlega – hafði bara aldrei heyrt þetta fyrr. Kom gjörsamlega af fjöllum. Er Ísland í alvöru svona fámennt?
„Bara 300 þúsund“ er væntingastjórnunartækni. Við erum víst svo fámenn að við verðum að sætta okkur við að hér sé allt vonlaust. Að reglur heimsins gildi ekki hér á landi. Umræða um vanhæfni er lúxus hinna fjölmennu þjóða. Frændsemi er íslenska – en spilling og aðstöðubrask útlenska. Mannsæmandi laun sem eru í samræmi við framfærslukostnað er eitthvað sem önnur Norðurlönd geta boðið þegnum sínum en ekki við. Við erum nefnilega svo fá. Stöðugleikinn er svo brothættur.
„Það er kominn tími til að við horfumst í augu við eigin smæð,“ sagði maður við mig nýlega. Þessi frasi er táknmál – undir rós – fyrir: æi, þegiðu!
„Að horfast í augu við“ – þýðir í reynd, að takast EKKI á við hlutina – á íslensku.
„Að horfast í augu við“ – þýðir á Íslandi svo að ég stafi það, að hætta þessu nöldri, að sætta sig við almenn lélegheit, skort á fagmennsku og umbera smá svindl í þágu félaga, vina og ættingja.
Vegna þess að við erum bara rétt rúmlega 300 þúsund verðum við að sætta okkur við að …
… útgerðarmenn eigi þingmann.
Páll Jóhann Pálsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ítrekað lýst því yfir að hann sé á þingi sem fulltrúi útgerðarmanna. Páll Jóhann hefur raunar gengið lengra og gert að starfi sínu að hafa almenning að féþúfu. Þetta er víst afleiðing þess að við erum svo fámenn og allir eru svo tengdir hvort sem er. Ég meina, hvers vegna ættu útgerðarmenn ekki að eiga sína leigutík? Umræðan sko … já umræðan er þannig að útgerðarmenn eru ofsóttir eins og gyðingar í Þriðja ríkinu. Reyndar eiga útgerðarmenn stjórnarflokkana þannig að ég veit eiginlega ekki – sökum smæðar – hvernig þingmenn ættu að forðast þau tengsl. Þetta er bara svo flókið í svona litlum samfélögum. Hver er líka munurinn á almannahag og sérhagsmunum? Jóhanna Sigurðardóttir er lesbía og hún barðist fyrir hinsegin fólk? Var hún vanhæf? Hver er eiginlega munurinn … fámennið! … fámennið!
… frændi fjármálaráðherra fái Borgun gefins
Landsbankinn seldi 31% hlut í Borgun í lok árs 2014 fyrir 2.2 milljarða. Tæknilega séð er ekki hægt að tala um gjöf. Virði hlutarins er miklu meira en þeir borguðu og allt gerðist þetta bakvið tjöldin en þetta er alls ekki gjöf. Þetta er eitthvað annað – eitthvað miklu fínna. Tækifæri, heppni, tilviljun – ekki gjöf. Kaupendur voru ættingjar fjármálaráðherra sem þykist þó ekkert hafa haft með málið að gera. Ekkert geta gert og bara ekkert vita. Þetta megum við sætta okkur við enda „bara rétt rúmlega 300 þúsund.“ Nýir eigendur Borgunar ákváðu að greiða sér 800 milljóna arð út úr fyrirtækinu. Það þýðir að á tæpu ári hafa kaupendurnir tekið væna tíund af sinni fjárfestingu úr fyrirtækinu í eigin vasa. Þetta er samt engin spilling. Pínu spes en sko … engin spilling. Nú á svo að leggja niður Bankasýslu ríkisins og gefa ráðherra einum heimild til að einkavæða bankana. Það er samt alveg ótengt. Best að hafa allt bara einfalt.
Við erum bara svo fá. Allir sem eiga peninga eru einhvernveginn tengdir fjármálaráðherra og fjölskyldu … Það þýðir í sjálfum sér ekki neitt.
… menntamálaráðherra sprelli smá með leigusalanum sínum
Það segir sig sjálft að í 300 þúsund manna landi þá ferðast menntamálaráðherrar með leigusalanum sínum. Það segir sig líka sjálft að í slíku fámenni þá selja ráðherrar fyrrverandi vinnuveitendum sínum húsið sitt og búa þar áfram.
Við eru jú bara 300 þúsund. Á Íslandi tengjast allir öllum. Hver fer ekki til Kína með leigusalanum sínum? Mikið er fyrirsjáanlegt að fjölmiðlar geri þetta tortryggilegt. Ekkert er fjallað um að ráðherra sé á leigumarkaði eins og almúginn. Maður fólksins hann Illugi … maður fólksins.
Bölsýni og tuð alltaf hreint. Allavega þá er fallegt í Kína. Svaka gaman að heimsækja landið og mörg tækifæri fyrir leigusala og ráðherrann hans.
… frænka Hönnu Birnu fái yfirmannsstöðu þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega hæf
Í miðju lekamálinu – einnig þekkt sem „ljótur pólitískur leikur“ – ákvað Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, að skipa Birnu Guðmundsdóttur, frænku sína, í yfirmannsstöðu hjá lögregluskólanum. Birna var ekki meðal þeirra sem skólinn valdi en ég meina … bara 300 þúsund.
… iðnaðarráðherra gefi klíkubræðrum almannafé
Í litlum samfélögum þýðir ekkert að væla þótt iðnaðarráðherra gefi Matorku, fyrirtæki klíkubræðra, rétt rúmar 400 milljónir. Kannski eru fjölskyldutengsl og kannski eru einhver tengsl við ákveðið stjórnmálaafl en … ég meina, í litlu samfélagi eru allir vinir. Þetta er allt svo lítið og krúttlegt.
Viljum við að þetta ágæta fólk gjaldi fyrir fjölskyldu sína og flokksbræður? Í landi frelsis og jafnréttis höfum við öll getað tölt inn í ráðuneyti og fengið nokkrar milljónir. Fyrir utan að Benedikt Einarsson, frændi fjármálaráðherra, á þetta eiginlega ekkert sko. Benedikt situr bara í stjórn fyrir eignarhaldsfélag pabba síns. Ekki einu sinni tengdir aðilar. Hversu langt ætla ofsóknir Búsáhaldabyltingarinnar að ganga? Reiðinni verður að linna.
![Screen Shot 2015-05-05 at 16.00.11]()
… við hjálpum Hannesi karlinum að kaupa húsið sitt til baka
Fámennið er okkur til trafala þegar kemur að sérfræðingum. Nú þegar rannsaka þarf hrunið og varpa ásættanlegri ábreiðu yfir flokk og félaga er einfaldlega úr fáum að velja. Hannes Hólmsteinn er sá aðili sem best er til þess fallinn að smyrja þykku lagi heilagleika á þátt Sjálfstæðisflokksins í hruninu. Svo er hann líka í fjárhagsvanda þannig að tvær flugur fást þarna í einu höggi.
Mestu skiptir þó að hér er um einstaklega vandvirkan fræðimann að ræða.
Sjáið til, við erum bara 300 þúsund… Hversu margra Oddssyni elur slík þjóð? Ekki marga skal ég segja ykkur.
![gudfinnajoh]()
… að konan standi með sínum manni
Vegna þess að við erum of fá fyrir siðmenninguna verður almenningur bara að læra að sætta sig við smávægilega hagsmunaárekstra. Framsóknarflokkurinn er flokkur róttækrar rökhyggju og því afar skotinn í einföldum, sniðugum og nútímalegum lausnum á flóknum vandamálum. Húsnæðisvanda má víst leysa með gámum – bara fullt af gámum!
Það vill svo til um leið – og er algjör tilviljun – að kosningastjóri Framsóknar í Reykjavík er einmitt maðurinn sem vill reisa þessa gáma. „Ég hjálpa konunni minni og konan mín hjálpar mér,“ sagði Svanur Guðmundsson framkvæmdastjóri Smáíbúða ehf., í samtali við DV á síðasta ári. Svanur er eiginmaður Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknarflokks. Í sömu frétt þrætti hún fyrir að hafa beitt eða ætla að beita sér í málinu. Í þessu samhengi skal tekið fram að blaðamaður DV var að ræða við Svan um leit hans að lóðum fyrir gámahúsin á höfuðborgarsvæðinu þegar eftirfarandi orðaskipti áttu sér stað: Þú sagðist vonast til þess að hún [Guðfinna] myndi hjálpa þér í þessu, hvernig sem hún gæti gert það? „Já, ég hjálpa konunni minni og konan mín hjálpar mér, já ég vonast til þess.“ Akkúrat, þannig að hún getur kannski beitt sér eitthvað fyrir þessu? „Ég vona það og ætlast til þess að hún geri það.“ Aðspurður hvort hann áliti ekki að um hagsmunaárekstur væri að ræða, spurði Svanur hins vegar: „Bíddu, hver er hagsmunaáreksturinn?“
Já hver er hagsmunaáreksturinn? Það er eins og fólk geti ekki horfst í augu við sjálft sig og þjóðina. Við erum bara 300 þúsund …
… menntamálaráðherra gefi menntastofnun og fái svo vinnu á menntasviði atvinnulífsins.
Þegar ráðherra smáþjóðar gefur skóla, og árlega ríkisstyrkinn sem fylgir, til einkaaðila má auðvitað ekki búast við öðru en að sömu aðilar búi til vinnu handa henni. Þetta gerðist þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, gaf atvinnulífinu Tækniskólann nánast án aðkomu þingsins. Almenningur í 300 þúsund manna örríki verður að skilja hversu fá störf eru til handa fyrrverandi menntamálaráðherrum. Núna á svo að gefa sömu aðilum Iðnskólann í Hafnarfirði að beiðni stjórnar Tækniskólans. Þar situr Þorgerður Katrín einmitt fyrir hönd útvegsmanna. Ekkert af þessu eru samt „óeðlileg“ tengsl – raunar eru þetta ekki einu sinni tengsl. Við erum nefnilega svo fá og óformleg. Hér þekkja allir alla og allir geta fengið gefins skóla frá ráðherra svo fremur sem starf fylgi.
Jöfnuður, bræðralag og stéttleysi … Amen.
… útvarpsstjóri ráði sjálfan sig.
Stundum er eins og almenningur skilji ekki hvað stórmennin okkar eru fá. Erfitt getur reynst að manna merkustu stöður flokksins. Það liggur því í augum uppi að í smáu samfélagi eins og okkar er ekki hægt að ráða útvarpsstjóra sem ekki kemur innan úr stjórn útvarpsins. Það er raunar ómögulegt að finna hæft fólk sem ekki eru klíkubræður.
Magnús Geir Þórðarsson var stjórnarmaður RÚV fyrir hönd Sjálfstæðisflokks þegar sóst var eftir nýjum meistara í brúna (bls. 6). Sem stjórnarmaður í RÚV hafði Magnús, líkt og aðrir í stjórn, möguleika á aðkomu að ákvörðunum um að auglýsa, getur haft áhrif á hæfniskröfur, velur í verkefnanefnd um ráðninguna, getur haft áhrif á ákvörðun stjórnar um framlengingu umsóknarfrests og hefur umtalsvert meira aðgengi að upplýsingum en aðrir umsækjendur. Sem stjórnarmaður spilaði hann auðvitað rullu í að koma fyrrverandi útvarpsstjóra frá, sem um leið opnaði á starfið.
Sjáið samt til, Ísland er nú bara 300 þúsund manna þjóð. Maggi sagði sig úr stjórn, umsóknarfrestur var framlengdur og allir voru sáttir. Hann er líka rosa góður gaur. Fíla hann allir! Miklu nútímalegri og minna lummó en aðrir aðstöðubraskarar.
![Asta_R._Johannesdottir_talman_Althingi_oppnar_Nordiska_radets_session_i_Reykjavik_2010]()
… forseti Alþingis búi sér til smá vinnu
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ákvað sem þingforseti að búa til starf. Nú átti að fagna hundrað ára kosningaafmæli kvenna. Blásið var til mikillar hátíðar og til varð starf framkvæmdastjóra. Úr hópi áttatíu umsækjenda var Ásta – sú sem skapaði starfið – hæfust. Sko það sem margir virðast ekki skilja er að í 300 þúsund manna samfélagi … Ástu vantaði líka vinnu. Vill fólk að hún gjaldi fyrir tengslin við sjálfa sig?
![10926390_830475990347044_749202543054658976_n]()
… strákarnir sjái um sína
Á smáum einangruðum eyjum eru hæfileikar takmörkuð auðlind. Það er því ekki hlaupið að því að reka fjölmiðla án tengsla sem þvælast fyrir.
Kannski er hægt að krefjast fagmennsku í útlöndum en fólk verður að skilja að Íslendingar eru ekki nema 300 þúsund. Þar af leiðir að það þýðir ekkert að tuða yfir því þótt spilltur stjórnmálamaður reki fjölmiðla í milljónatapi ár eftir ár eftir ár.
Er óeðlilegt að kærasta stjórnmálamannsins skrifi í miðil kærastans á meðan hún er almannatengill? Ég veit það ekki. Kannski, en samt, við erum frekar fámenn. Í stærri samfélögum er kannski spes að spunameistari Framsóknarflokks og hrægammasjóða ritstýri fjölmiðli þrátt fyrir að hafa lýst því opinberlega yfir að hann hafi skáldað fréttir til að fylla blöðin. Á Íslandi gilda bara allt aðrar reglur.
Erlendis þykir kannski bjánalegt að framleiða bergmál um bók starfsmanns [1][2][3][4][5][6] og framkvæmdastjóra gervigrasrótasamtaka. [1][2] Þá eru til staðir þar sem hlegið yrði að hugmyndum um að ritstjóri einnar deildar fengi óhefta og gagnrýnislausa umfjöllun á annari deild. [1][2][3][4] Á útlensku er svona kallað ‘manufactured echo chamber‘ en á Íslandi vinna menn kosningar með svona aðferðum. Kannski er skrýtið að sami spillti stjórnmálamaður sé í nánu samstarfi við fjármálamann sem á aðra miðla. Ég veit það ekki? Fámenn þjóð og fáir miðlar. – Hvenær fer þessum ofsóknum að ljúka?
Það er gaman að spá í svona en við verðum að muna að við Íslendingar erum bara 300 þúsund. Í Kína og Indlandi er engin spilling og ekkert brask. Fjölmennið sér sjálfkrafa til þess að slíkt er ekki til. Þar er ekkert mál að koma í veg fyrir spillingu, valdníðslu og aðstöðubrask. Heimspekilegar umræður um hæfi og hagsmuni eru skemmtilegar en hvernig á þetta eiginlega að virka í praxís? Við erum jú bara litla Ísland.
Listinn er alls ekki tæmandi.