Guðrún Ögmundsdóttir flutti eftirfarandi erindi þann 15.05.2014 á málþingi Háskólans í Reykjavík um heimilisofbeldi á Íslandi. Í erindinu deildi hún með viðstöddum brotum úr eigin reynsluheimi. Kvennablaðið þakkar Guðrúnu fyrir að leyfa okkur að deila erindinu með lesendum.
„Góðan og blessaðan daginn.
Ég vil þakka Svölu Ólafsdóttur og Háskólanum í Reykjavík fyrir að halda ráðstefnu um þessi mikilvægu mál.
Ég gæti hér í dag talað um það hvernig vinnan gangi fyrir sig í nefnd um heimilisofbeldi og þau námskeið sem við erum að fara með um allt land og um mikilvægi þverfaglegs samstarfs í þessum málaflokki.
Ég gæti líka talað um stóra verkefnið sem ég hef verið með sem Tengiliður vistheimila, öll þau 1.000 viðtöl sem ég hef tekið vegna gamalla barnarverndarmála og meðferð á börnum í „þá daga“.
Ég gæti líka talað um það sem mér finnst vanta í lögin til að gera allt ljósara, skýrara og mennskara og ég gæti talað um mikilvægi stuðnings við börn og að tekið sé mark á börnum og að á þau sé hlutstað.
Um flest þetta hef ég margt að segja, hef miklar skoðanir og ákefð sem ég þarf stundum að hemja.
En ég ætla ekki að vera þar í dag, nema að hluta. Ég ætla að taka ykkur með í lítið ferðalag. Ferðalag með mér og ég vil gjarnan að þið hlustið eftir hvernig það var að vera þetta barn sem upplifði heimilisofbeldi. Prófið að setja ykkur í þessi spor.
Ég var nefnilega þetta barn sem rannsóknir í dag eru að beinast að.
Það má hins vegar eflaust til sanns vegar færa að ef ég hefði ekki unnið í þessum málaflokki þá myndi ég kannski ekkert muna, né viljað muna, né viljað setja upplifun í orð.
En orð eru til alls fyrst, og þegar gefin var út bók um sjálfa mig og mitt líf, þá var ég ekki tilbúin að kíkja í þennan bakpoka né deila því sem þar var að finna. Því að taka upp úr bakpokanum tekur á, en er kannski aldrei jafn vont og það ástand sem var, kannski má segja: það er vont og það venst!
Stundum á maður ekki að segja allt, þannig er það nú bara einu sinni. En núna er farvegur, núna eru breytingar, það er núna sem ekki er hægt að sitja hjá. Allt hefur nefnilega sinn tíma og stundum þarf bara að arka inn í óttann. Og ég var nákvæmlega eins og börn dagsins í dag, ég sagði ekki neinum frá.
Ég ætla gefa ykkur smá innsýn inn í tilfinningar og líðan þessa krakka sem var vitni að heimilisofbeldi.
Fyrsta mynd:
Ég stend við gluggann með ömmu og mömmu á Hringbrautinni, klukkan er orðin fimm mínútum meira en þetta vanalega þegar pabbi á að koma heim … þá veit maður það.
Ég veit það þegar ég stend við hliðina á mömmu, ég veit þegar óttinn tekur hús, ég veit það því það verður líkamlegt, ég pissa bara á mig, en segi ekki nokkrum manni frá þeirri skömm. Ég fæ lömun. Og greinilega hef ég upplifað svipað áður þó ég muni það ekki þarna … man bara ótrúlega skrítnar stemmingar og breytta skipan á húsgögnum í einhverjum óræðum tíma, á öðrum stað.
Ég veit það einhvers staðar inni í mér að allt verður vitlaust – það er vont.
Ég veit það um leið og ég sé vinnufélaga pabba koma með honum inn, ég veit þá að hann hefur verið að drekka. Ég skynja bara ógnina, ég skynja bara að eitthvað voðalegt gæti gerst.
Og það gerist, um leið og vinnufélagarnir eru farnir. En þeir halda að allt verði í lagi. En auðvitað verður ekkert í lagi.
Önnur mynd:
Það verða læti, allt brotið og bramlað, barsmíðar og ofsi, grátur, högg … En svo kemur löggan, þrír taka hann, það þurfti þrjá til að halda honum. Hann var fluttur í burtu með löggubíl og eftir var heimilið ein rjúkandi rúst og líka andleg rúst.
En það var líka einhver heilög lína í öllu þessu brjálæði, línan var herbergið okkar ömmu og þangað fór hann ekki inn, ég var óhult í faðmi feitu ömmunnar minnar og ég var örugg og ég hafði einhverja vissu um að ekkert kæmi fyrir okkur.
En martröðin var ekki hvað síst hljóðin, ópin, ofsinn og tryllingurinn … Ég var ekki lengi að átta mig á því að til að loka úti eitthvað vont þá tók maður fyrir eyrun og fór með faðirvorið … Ég tek enn fyrir eyrun til að útiloka eitthvað óþægilegt og faðir vorið verður mín mantra.
Á eftir storminum fór í hönd sérstakur tími, sérstakur tími fyrir barn að upplifa. Sektarkenndin lá í loftinu eins og mara og grátur pabba heyrðist þó ekki ætti hann að heyrast.
Og keypt voru ný húsgögn í stað þeirra sem brotnuðu. Samspilið milli þeirra var sérstakt og allt var áþreifanlegt, þó ekkert væri sagt.
Börn vita nefnilega allt, þau skynja allt, finna allt, það er ekkert hægt að fela fyrir þeim. Það er mikill misskilningur að halda að svo sé.
Og þú talar ekkert um þetta, þó svo að stórfjölskyldan viti. Þú talar ekki einu sinni um það við hana, hvað þá bestu vinkonu þína. Þetta var leyndarmál. Þú talar heldur ekki um skömmina, kannt nú varla að setja hana í orð, og ekki ertu að ræða eitthvað um það að löggan hafi tekið pabba þinn! En eflaust vissu það nú flestir, það fór nú ekki framhjá hverfinu. Ég kaus að láta eins og enginn vissi!
Þetta segir kannski það að það er gríðarlegur vandi að tala við börn sem hafa verið í svona aðstæðum, það er svo erfitt að setja orð á hlutina, margar tilfinningar í gangi, tilfinningar sem maður skilur ekki og aldrei má gleyma ástinni sem öllu stýrir, ástinni á foreldrum – þú átt enga aðra að í raun og veru.
Þriðja mynd:
Ég var ekki há í loftinu þegar mig langaði til að reyna að skilja þetta fyrirbrigði sem brast á eins og flóðbylgja – ekki oft, en nógu oft eða einum of oft.
… og þetta breyttist þannig: ég var bara sett í fangið á honum, hann róaðist og engin lögga … og þá varð allt gott.
Ég arkaði bara inn í óttann og gerði hann að félaga mínum, engin var amman núna, ég tók bara völdin – fannst mér … fór á vaktina, stýrði umhverfinu, sagði mömmu að hafa hægt um sig, láta mig um að tala við hann, passa að hann væri góður, passa að hann yrði ekki reiður, að hann myndi ekki sjá rautt þegar hann sæi hana, ég myndi koma honum í rúmið, sitja á rúmstokknum þar til hann sofnaði, fara fram, vera bara á vappi þessa nótt, vera tilbúin ef hann skyldi vakna, stöðugur hjartsláttur, en kraftur og vissa að allt yrði í lagi – ég réði algerlega við þetta … það var ekkert annað í stöðunni. Ég vildi halda heimilinu heilu … og þeim heilum.
En allt rjátlaðist þetta nú af honum, en ég hafði svo sem enga vissu né tryggingu … ég passaði bara alltaf að vera á staðnum ef ég vissi að hann var að smakka vín, það var að vísu ekki oft, það verður líka að segjast, fannst ég hreinlega aðstoða hann við að hafa hömlur á því magni sem hann drakk, fór í boð þar sem hann var og kom honum heim, og ef ég var á vaktinni þá gerðist ekkert, það fannst mér allavega … en auðvitað hafði ég enga vissu fyrir því. En ég var með tögl og hagldir …
Það er sérstakt þegar litið er til baka, að þá er ég að tala um frekar ung hjón, hjón sem voru mjög hamingjusöm, en áttu þessi erfiðu tímabil. Þau greinilega náðu að setja þetta á einhvern hátt á bakvið sig, þorðu samt að vera hamingjusöm, dansa tangó í stofunni við danslögin í útvarpinu og vera góð og hlý hvort við annað, já svo sannarlegu voru þau falleg, fallegu foreldrarnir mínir.
Og ég lærði mjög snemma, alltof snemma að sjá þau sem manneskjur með kostum og göllum, átti auðvitað bara að sjá þau sem foreldra …og sjá síðan manneskjuna þegar ég yrði eldri …
Það var yfirþyrmandi reynsla að verða vitni að þessum mannlega harmleik – ég horfi nefnilega á það þannig, hef valið það sjónarhorn, þann harmleik sem heimilisofbeldi er og í sumum tilfellum hægt að vinna úr og í sumum tilfellum bara alls ekki.
Það er ofboðslegt að verða vitni að því að horfa á móður sína bláa og marða, að sjá heimilið í rúst, að horfa á og verða vitni að sálarkvölum og angist eftir atburðina, að horfa á foreldra gráta og brotna, að verða vitni að gráti og sektarkennd fullorðinna, að finna hvernig allt er undirlagt og allt liggur í loftinu. Finna líka hvernig sættir nást, hvernig spilað er á sektarkennd, hvernig sektarkennd getur verið auðmýkjandi, að finna til sjálf og finna til með foreldrum sínum og standa bara hjá og geta lítið gert … eina sem ég gat gert var að strjúka á honum þetta litla hár sem hann hafði, vera góð.
En ég tók aldrei afstöðu með öðru hvoru, ekki sem barn og unglingur, hins vegar skildi ég svo margt miklu betur þegar ég varð fullorðin … hvað orð eru mikilvæg, hvað hlýja og skilningur er mikilvæg, hvað vinátta og virðing er mikilvæg.
En rjátlaðist þetta allt af honum vegna þess að hann fékk orð í stað athafna? Kannski …
Lagaðist þetta allt af því að ég var á staðnum? Kannski …
Vildi hann haga sér eins og maður þegar ég var nálægt? Kannski …
En eitt má aldrei gleymast og aldrei vanmeta, það er ástin á foreldrunum, þessi skilyrðislausa ást, þessi trúnaður við þau, að fyrirgefa þeim, að segja engum utanaðkomandi frá. Þú átt engan annan, það kemur ekkert í staðinn … þannig er það nú bara, nema ef vera skyldi amma, amma sem skilur allt.
En svona ofbeldishegðan í ákveðnum kringumstæðum er magnað fyrirbæri. Stundum skynjaði ég það þannig að hann notaði áfengi til að losa hömlur, segja það sem honum bjó í brjósti, sem annars yrði ekki sagt.
Er það kannski svo að tilfinningar liggi svo djúpt að orð ná ekki að höndla það og að í stað orða komi hnefi? Ef til vill.
Sennilega hefði Reykjanesmódelið getað hjálpað þeim og kannski hefði pabbi verið fínn kandídat í „karlar til ábyrgðar“, því það sem braust fram undir áhrifum áfengis var fortíðin, fortíðin sem þau áttu ekki sameiginlega, því mamma átti sín þrjú börn áður og svo tóku þau mig. Ó já, ég tók líka á mig sökina vegna þessa, ekki spurning.
Þau hefðu kannski aldrei átt að taka mig? Fáránleg vangavelta, ég veit það, en algjörlega raunveruleg. Hann átti bara mig, fannst mér stundum … Ég tók þetta á mig á einhvern hátt, fannst ég hafa komið á milli, nákvæmlega eins og börn gera oft, þau halda að þetta sé allt þeim að kenna.
En auðvitað veit ég núna að svo var ekki …
En svona minningar og svona reynsla, hún sest einfaldlega í frumurnar, verður líkamleg og hún er þarna alltaf, alltaf hægt að sækja þessa angist, þessa lömun, en auðvitað bara undir ákveðnum kringumstæðum, kringumstæðum ofsa og ofbeldis. Og þær aðstæður forðast ég eins og heitan eldinn.
Til dæmis gerðist það hér í hruninu, á þeim tíma þegar mikill óróleiki var í samfélaginu, að ég var á gangi í átt að Arnarhól. Þar varð ég vitni af þvílíkum ofsa og hreinu og kláru ofbeldi þegar ég sé hóp fólks hrista bíl forsætisráðherra og hann var inni í bílnum … þvílík geggjun, þvílík reiði.
Þá tók sig upp heiftarlegt gamalt minni … ég sá mann sem ég vissi að vann í stjórnarráðinu, greip í hann og hann strunsaði með mig yfir hólinn … ég játa það að ég var lengi að jafna mig, slík urðu áhrifin af þessum atburði, minningin sem vaknaði varð óbærileg.
Nei, þetta hverfur ekki svo glatt skal ég segja ykkur. Þetta fyrirbæri fer ekkert að heiman.
Þetta er í frumunum.
En hvaða lærdóma á að draga, hvað er hægt að gera, hvað er hægt að gera fyrir börn til að styðja þau í svona aðstæðum og eflaust miklu verri en þessum sem ég hef hér tæpt á? Börn sem búa við líkamlegt og andlegt ofbeldi og börn sem eru áhorfendur ofbeldis?
Við erum komin með kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í sterkan og góðan farveg, erum til fyrirmyndar og fyrirmynd annarra þjóða í þeim málum. En gildir það sama um börn sem búa við heimilisofbeldi, eða gagnvart börnum sem eru beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi, tökum við þau mál nægilega alvarlega?
Ekki alltaf, því miður, en við erum svo sannarlega á réttri leið.
Við getum alltaf gert betur, svo sannarlega, og mörg teikn á lofti um að við séum að taka á þessum málum af meiri festu en áður, minni hér á Reykjanesmódelið sem er orðið fyrirmynd víðar á landinu og Reykjaneshópurinn er enn að bæta um betur og nú eru þau að bjóða upp á sérstaka nálgun og stuðning við börn í þessum erfiðu aðstæðum.
Það heitir Trappan og þar er unnið í markvissri samtalsmeðferð við börn frá 4 ára aldri um þeirra upplifun af því sem gerðist á heimilinu.
Við sem hér erum í dag vitum að heimilisofbeldi er grafalvarlegt mál, með grafalvarlegum afleiðingum. Heimilisofbeldi getur drepið og drepur.
Notum nú besta vinnulag sem völ er á, vinnum saman, samhæfum, barnanna vegna, gerum börnin sýnileg, setjum velferð þeirra og reynslu í fyrsta sæti. Skoðum, skilgreinum og finnum lausnir, gerum það saman.
Við skulum vanda okkur þar, styðjum börn í að tala og segja frá, að vera ekki eins og ég og svo ótal margir aðrir.
Er ég að svíkja þá sem ég elskaði mest með því að segja ykkur frá?
Ég segi nei. Ég tel svo ekki vera, en ég vildi óska að mín reynsla gæti hjálpað.
Ég er að segja frá til að minna okkur öll á það að á bak við allar tölur eru litlar manneskjur sem þurfa okkar stuðning og aðstoð til að uppræta þennan ófögnuð.
Já, það er mál að taka upp úr bakpokanum … Það er vont, mjög vont, en það venst … en það er þess virði. Allt fyrir ástina, hlýjuna, virðinguna fyrir öðrum og okkur sjálfum og síðan en ekki síst út af mennskunni, því án hennar er ekkert samfélag.
„Allt hið liðna er ljúft að geyma –
láta sig í vöku dreyma.
Sólskinsdögum síst má gleyma, segðu engum manni hitt!
Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt.“
Takk fyrir að hlusta.“