Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir flutti þessa ræðu á Austurvelli 26. maí 2015
„Góðan daginn elsku vinir
Lóan er komin og grasið grænkar, sól skín í heiði og lundin á að vera létt, full af tilhlökkun fyrir sumrinu og öllum þeim ævintýrum sem það ber í skauti sér. Hvað erum við þá að gera hérna? Í alvöru, hvað erum við að gera?
Jú, við erum að mótmæla. Mótmæla ríkisstjórn Íslands sem við sjáum núna að komst til valda á fölskum forsendum. Líkt og úlfar í sauðagæru laumast þau um og bíta þar sem þau geta.
Það er erfitt að tapa ekki gleðinni þegar nánast vikulega berast fréttir af hörmungum ríkisstjórnarinnar. Það hrannast óveðursský fyrir ofan höfuðið á mér þegar ég heyri enn eina fréttina af verkum ríkisstjórnarinnar sem toppa hvert annað í fáránleika.
Það er auðvelt að hætta að hlusta, setja sig í fréttabann og fylgjast ekki með því hvaða glapræði ríkisstjórninni hefur dottið til hugar þann daginn. En það megum við alls ekki gera.
Spilling, Makrílfrumvarpið, launaójöfnuður, siðblinda, skortur á virðingu við þjóðaratkvæðagreiðslur, brotin kosningaloforð, heilbrigðiskerfið niðurbrotið, umhverfismál, engin tengsl við samfélagið. Þetta eru nokkur af þeim atriðum sem fólk nefndi á fésbókarviðburði fyrir þessa samkomu hér á Austurvelli.
Við erum hér samankomin af ólíkum ástæðum en saman styðjum við hvert annað og sýnum það hér í dag. Við erum nefninlega öll á sama báti. Við erum öll Íslendingar sem viljum lifa hérna og hrærast og geta notið landsins gæða. Saman. Því við erum samfélag.
Orðræða. Við verðum að fylgjast með henni á gagnrýninn hátt. Við verðum að passa okkur að gleypa ekki við þeim villandi ummælum sem formenn ríkisstjórnarinnar ropa út úr sér til að fá okkur til að gleyma eða dreifa huganum frá því sem miður er að fara í samfélaginu okkar. Það er réttlát reiði sem við finnum fyrir og við megum svo sannarlega tjá hana. Samfélagið okkar logar í illindum og deilum sem ríkisstjórnin virðist ekki hafa nokkurn áhuga á að hlusta á eða leysa úr. Við lifum í samfélagi sem er veikt og þarf að hlúa að- í rauninni umturna.
Er það ósanngjörn krafa að staðið sé við gefin loforð og að farið sé að lögum?
Er það ósanngjörn krafa að fólk fái greidd lágmarkslaun sem duga fyrir framfærslu?
Er það ósanngjörn krafa að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum?
Við erum rík þjóð. Hér ætti hver einasti Íslendingur að geta lifað í vellystingum. En samfélagið okkar er óréttlátt, misskipt og okkur er ekki tryggður arður af auðlindunum okkar.
Nú þegar við stöndum hér saman hafa 39 þúsund manns skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að vísa hverjum þeim lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindinni okkar er ráðstafað til lengri tíma en eins árs, á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra.
Þið hafið bara engan rétt til að taka auðlindirnar okkar og gefa þær til nokkurra útvaldra aðila!
Hugsið ykkur. Við erum að berjast við okkar eigin ríkisstjórn um ráðstöfun náttúruauðlinda þjóðarinnar!
Í dag, líkt og síðustu tvær vikur, hefur staðið yfir umræða á Alþingi um rammaáætlun, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ríkisstjórnin er tilbúin að brjóta það faglega ferli sem samþykkt var með lögum um rammaáætlun til þess að styðja meirihluta atvinnuveganefndar og færa kosti, náttúruperlur okkar Íslendinga, í nýtingarflokk, þvert á faglegt mat og án umfjöllunar.
Sama hvar fólk er í flokk sett eða ef það stendur utan við stjórnmálaflokka, þá getum við þó verið sammála um það að Alþingi eigi að virða sett lög. Það eru mjög brýn mál sem þarf að takast á við í samfélaginu okkar en tímanum er sóað í óþarfa þras vegna þess að meirihluti atvinnuveganefndar ætlar að fá sínu framgengt með frekju og yfirgangi.
Nei, nú þurfum við að standa saman öll sem eitt.
Mig langar að minna á fólkið okkar. Það erum við. Fólkið. Amma og afi sem lifa á lúsarlaunum, lífeyrisgreiðslum, sem búið er að skerða margsinnis. Foreldrarnir sem eru að svigna undan afborgunum húsnæðislána sem bara hækka og hækka, unga fólkið sem berst á leigumarkaði eða skoðar hvort WOW, Icelandair eða Norræna bjóði hagstæðust kjörin úr landi. Launþegar sem standa í kjarabaráttu, þeirri undarlegustu sem farið hefur fram hér á landi vegna ummæla forsætisráðherra.
Og á meðan við stöndum hér, fólkið, sitja ráðamenn og skilja ekkert í því hversu veruleikafirrt við erum. Ef að veruleikinn okkar rímar ekki við veruleika þeirra, þá er líklega farsælast að þau fari frá áður en þjóðin ber meiri skaða af þeirra verkum sem hafa afleiðingar í okkar raunveruleika.
Það er nú einhvernvegin þannig, eins og hún Stella í orlofi vinkona allra Íslendinga orðar það „að vandamálin eru til að takast á við þau“. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts til þess að vinna okkur út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Þvert á móti.
Ef fólk ekki stendur sig í vinnunni sinni, þá er því sagt upp. Ég vil líta svo á að þessi fundur sé uppsagnarbréf þjóðarinnar til ríkisstjórnarinnar.
Er það ósanngjörn krafa að þegar ríkisstjórnin nýtur ekki traust þjóðarinnar, að þá segi hún af sér?
Ykkar þjónustu er ekki lengur óskað. Það er deginum ljósara að þessi ríkisstjórn ætlar sér að byggja upp samfélag sem er mjög gott fyrir suma, en miður slæmt fyrir okkur flest hin. Það er ekki sanngjarnt og þessvegna vísum við ykkur á dyr.
Skilið lyklunum, við viljum ykkur frá
Takk fyrir“