Auður Eggertsdóttir skrifaði þessa grein að beiðni Kvennablaðins en okkur á ritstjórninni fannst henni hafa tekist meistaralega vel til með að breyta heldur ósjálegum skáp í hreint stofustáss. Kannski að einhver fái hugljómun og bjargi ljótu húsgagni frá því að verða haugamatur og komi því í nýjan búning fyrir jólin!
Auður Eggertsdóttir skrifar:
Eftir að hafa lært húsgagnaviðgerðir á Spáni fyrir mörgum árum síðan, hefur samband mitt við húsgögn verið einskonar haltu mér – slepptu mér ástarsamband. Ég hef staðið löngum stundum við vinnuborðið og pússað og pólerað, límt og bæsað húsgögn, fengið yfir mig nóg af þessu, skellt hurðinni á vinnustofunni og heitið því að koma aldrei aftur þangað inn. En samt sný ég alltaf aftur til baka.
Þegar húsgögn eru löguð þá er tilgangurinn að færa þau aftur til upprunalegrar heilsu og útlits, sem ekki er vanþörf á, en sú vinna veitir manni ekki sérstakt frelsi. Því fór fljótlega að fæðast nýtt áhugamál hjá mér, sem var að breyta húsgögnum. Í frítíma mínum fór ég að draga heim allskonar húsgögn, bæði gömul og ný, falleg og ljót og breyta þeim og gera úr þeim nýjar mublur.
Yfirleitt var áskorunin stærri eftir því sem húsgagnið var ljótara, til að gera það fallegt, eða eftir því sem húsgagnið var nýrra, til að láta það líta út fyrir að vera antík. Húsgögnum var rogað upp á fjórðu hæð, þau lamin með keðjum og hamri og sulluð út í allskonar efnum, endalaus tilraunastarfsemi til að breyta útliti þeirra en láta samt líta út fyrir að svona hafi þau alltaf verið.
Það hefur ekki alltaf tekist vel til, æfingin skapar meistarann. Einn fyrsti skápurinn sem ég reyndi að gera ellilega máðan, fékk á sig tilviljanakennda bletti og lítur út eins og dalmatíuhundur. Mér þykir sérstaklega vænt um hann.
Nú hef ég enga vinnustofu lengur enda búin að flytja margoft og penslarnir og málningin komin niður í geymslu. En um daginn ákvað ég að ná í allt dótið mitt og ráðast á gamlan skáp sem var keyptur á netinu fyrir nokkru síðan. Hann var ljósbrúnn og oðraður, þ.e.a.s. málaður með pensilstrokum til að líkja eftir áferð viðarins. Oðrun getur verið mjög falleg, en þessi skápur var forljótur.
Ég reyndi í byrjun að láta það ekki fara í taugarnar á mér hversu ljótur hann var, en einn daginn var mælirinn fullur og ég ákvað að tala ekki lengur um hversu ljótur skápurinn væri, heldur mála hann og gera hann fallegan. Það tók mig nokkrar stundir á dag í þrjá daga, en þá var skápurinn líka orðinn gjörbreyttur.
Ef þú kannast við þessa tilfinningu, ert með húsgagn heima hjá þér sem angrar þig eða þér finnst ljótt, þá þarftu alls ekki að losa þig við það eða setja það á lítið áberandi stað á heimilinu. Stilltu þér frekar upp fyrir framan mubluna, virtu hana fyrir þér og reyndu að sjá eitthvað nýtt í henni. Það þarf ekki að vera svo flókið mál, þú þarft bara að undirbúa þig svolítið áður en þú byrjar og hér á eftir eru nokkrar ráðleggingar og leiðbeiningar sem gætu hjálpað þér, eða komið þér af stað.
Það fyrsta sem þú skalt gera er að ákveða hvernig þú vilt hafa húsgagnið. Þú skalt ákveða litina og áferðina svo að þú vitir nákvæmlega hvað þú viljir gera og hvað þú eigir að kaupa til verksins. Hugmyndirnar koma ekki alltaf eins og kallaðar og maður þarf stundum að fá hjálp frá hugmyndabönkum, fletta í bókum eða tímaritum, eða farið á netið. Pinterest er t.d. endalaus uppspretta hugmynda. Þá er að ákveða hvenær þú hafir tíma til þess að gera þetta og svo er að byrja á verkinu.
Hér á eftir kemur listi yfir efni og tæki sem ég notaði þegar ég var að mála skápinn minn, þessi listi gæti nýst við að mála hvaða húsgagn sem er:
Grunnur fyrir tréverk
Akrýllitir sem þú hefur valið á húsgagnið
Antíkkrem (sjá mynd)
Húsgagnavax eða lakk
Fínn sandpappír (grófleiki 180-200)
Lítil lakkrúlla og bakki
Málningarpensill u.þ.b. 5 cm breiður
Minni penslar úr föndurdeildum
Tvistur
Latexhanskar (ef þú vilt verja hendurnar)
Tuska
Lítil plastbox fyrir litina
Áður en byrjað er á málningarvinnu er best að útbúa gott vinnusvæði í kringum sig. Það er mikilvægt að vera ekki hræddur um að sulla málningu á húsgögn eða gólf og dreifa því úr dagblöðum og hafa borð þar sem hægt er að leggja frá sér málningardósir og pensla. Höldur og skraut sem hægt er að taka af, er best að fjarlægja svo að það sé ekki fyrir manni. Á myndunum sem fylgja eru skúffurnar í skápnum á meðan á vinnunni sendur, en ég tók þær úr og vann þær sér.
Þegar búið er að velja lit eða liti, er að fara út og kaupa þá. Það getur verið vandasamt að finna hárréttan lit og kostar stundum svolítið ferðalag á milli búða. Á stóra fleti finnst mér best að láta blanda fyrir mig málningu í 1l dós og fyrir þennan skáp fékk ég málninguna í Slippfélaginu. Þeir eru með gott litaúrval. Af öðrum litum þarf líklega ekki eins mikið og þá er hægt að kaupa í minni plastflöskum í föndurdeildum. Ég keypti mína akrýlliti í A4 föndurdeildinni og Litum og föndri. Ef húsgagnið sem á að mála er lítið og nett, þá duga þessar litlu plastflöskur nokkuð vel því akrýllitir þekja vel.
Yfirleitt eru húsgögn, hvort sem þau eru gömul eða ný, með húsgagnalakki, póleruð eða vaxborin þegar maður fær þau í hendurnar. Akrýlmálningin festist ekki vel á lakki og þessvegna verður að byrja á því að grunna með trégrunni áður en byrjað er að mála. Þú getur fengið trégrunn í hvaða byggingar eða málningarverslun sem er. Ef flöturinn sem á að mála er stór, þá er best að grunna með lakkrúllu og síðan pensli í horn og skorur svo að pensilstrokur sjáist ekki. Þegar grunnurinn er orðinn þurr, er gott að fara lauslega yfir hann með fínum sandpappír, þá tekur hann betur við málningunni sem kemur ofaná.
Síðan er að mála skápinn eða húsgagnið. Eftir að hafa grunnað allan skápinn minn, rúllaði ég stóru fletina og skúffurnar með blárri málningu, tvær umferðir. Síðan málaði ég með litlum pensli alla lista, útskurð og skreytingar í þeim litum sem ég var búin að ákveða. Ég skipti oft um skoðun á meðan á verkinu stóð og málaði yfir lit með öðrum lit og enn öðrum. Það má skipta um skoðun á meðan það er hægt. Maður verður að vera alveg sáttur við litavalið.
Skápurinn sem ég málaði er gamall og því vildi ég ekki láta hann líta út fyrir að vera nýmálaðan. Ég vildi láta hann líta út eins og gamlan sveitaskáp. Því þurfti ég að vinna í því að gera hann svolítið máðan og helst skítugan. Þá þarf að hugsa sig vel um hvernig best sé að bera sig að. Húsgögn verða máðust þar sem mest mæðir á og þetta þarf að reyna að ímynda sér. Á skáp verður mestur núningur í kringum höldurnar, þar sem alltaf er verið að opna skúffur og hurðir. Hornin fjögur á skúffunum nuddast við grindina í hvert skipti sem skúffan er dregin út og skáphurðir eyðast þar sem maður tekur mest í þær.
Þetta eru staðirnir þar sem þarf að má málninguna af, pússa niður svo að viðurinn komi í ljós, með sandpappír og/eða stálull. Ekki má ganga of langt, þá lítur þetta gervilega út. Eftir þetta er hægt að smyrja antíkkreminu á málninguna til að gera hana skítuga og gamla. Þetta efni er borið á eins og málning með pensli og strax strokið yfir með klút eða svampi svo að ekki verði of þykkt lag.
Best er að vinna með lítil svæði í einu. Þetta krem á að festast í hornum, sprungum og skorum, eins og ævafornt ryk og skítur. Það er best að byrja með þunnu vatnsblönduðu lagi, það má alltaf bæta við öðru lagi. Ég hef svampinn blautan svo ég geti stjórnað með honum hvar ég þvæ meira af og hvar minna. Ef þú vilt ganga lengra og hafa verulega skítug svæði þá kemur gamla góða skósvertan að góðum notum.
Þá er komið að fráganginum. Akrýlmálning er viðkvæm og mött og það þarf að verja hana. Það er hægt að nota húsgagnalakk og rúlla yfir og pensla þegar skápurinn er tilbúinn. Sjálf er ég ekki hrifin af lakkáferðinni, hún glansar of mikið fyrir minn smekk. Ég nota frekar húsgagnavax. Það má bera það á með pensli, á lítinn flöt í einu, og svo þarf að nudda vaxinu inn eða pólera með tvisti, líkt og þegar bíll en bónaður. Þetta er svolítil vinna en það kemur afar falleg áferð þegar þetta er gert vel.
Að gleyma sér svona við að mála húsgagn er allra meina bót. En það þarf þolinmæði, ekki bara þína heldur allra á heimilinu, því herbergið er undirlagt í þá daga sem á verkinu stendur. En það er vel þess virði.