Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

Brosandi allt til loka!

$
0
0

Saga klæðskiptinga er býsna löng og þótt hún sé kannski ekki jafnlöng sögu mannkyns (um það veit maður náttúrulega ekkert!) spannar hún engu að síður allnokkrar aldir; hefur þó yfirleitt á sögulegum tíma verið troðið í afkima menningarinnar og haldið þar í rökkrinu. En dæmi má finna úr grískri, hindúískri og norrænni goðafræði, hinu japanska dansleikhúsi, kabuki, sem og kóreönskum shamanisma. Dæmin eru sumsé býsna víða.

hannesogsmari-stor

Í okkar menningu og nær okkar tíma mun það hafa verið þýski kynfræðingurinn Magnus Hirschfeld sem bjó til hugtakið transvestit (=klæðskiptingur), sem byggir á “trans” latínunnar, sem þýðir “yfir” eða “skipti” og “vestis”, sem merkir “klæðnaður”. Þetta var í upphafi tuttugustu aldarinnar og Hirschfeld hafði verið að leita að hugtaki sem lýsti áráttu fólks að klæðast eins og hitt kynið af kynferðislegri þörf, óháð kynlöngun. Hann var þó ekki ánægður með hugtakið þegar til kom. Hann áleit að klæðnaðurinn væri aðeins ytri birtingarmynd sem táknaði mismunandi hugarástand persónuleikans. Hvað sem því leið, fól valdataka nasista og seinni heimsstyrjöldin í sér endalok rannsókna Hirschfeld og rannsóknir á mannlegri kynhegðun lá að mestu niðri þar til kom að sjöunda áratug síðastliðinnar aldar. Nú á tímum ku hugtakið klæðskipti fjalla minna um kynhneigð fólks en vilja til að tjá persónuleika sinn sem óháðan njörvaðri greiningu í annað hvort kynið. Það er kannski önnur umræða – en þó er eins og mér þyki þeir Hannes & Smári – og Ólafía Hrönn & Halldóra – hallast meira að þessari nútímalegu skilgreiningu en upphaflegri meiningu hugtaksins hans Hirschfeld.

En það er ekki fyrr en með jafnréttis- og frelsisbaráttu HBT-fólks á síðustu áratugum að klæðskiptingar hafa farið að koma fyrir almennings sjónir, vonandi lausir úr viðjum þeirra menningarkima sem þeim var gert að felast í, og með því er vonandi farið að sjá fyrir endann á viðhorfskúgun í garð bæði klæðskiptinga og annars fjölbreytileika í kyngalsageiranum.

En hin magnaða og merkilega saga klæðskiptinga er reyndar fjölbreyttari en svo að hún verði einungis einungis skoðuð útfrá sjónarhorni þöggunar, kúgunar og andspyrnu. Hér gefst auðvitað ekki rými til að ræða það til hlítar, en ef litið er til dæmis til leikhússins og horft eins og aðeins eina öld aftur í tímann (og þar áður má tala um sirkus og markaðsskemmtanir) hafa klæðskiptingar ávallt átt sér eins konar fríhöfn þar – leikhúsið hefur skapað úr þessum menningarkima ákveðna tegund húmors og í besta falli ádeilu, sem hefur leitt af sér aukið umburðarlyndi gagnvart klæðskiptum og klæðskiptingum sem og öðrum þeim kyngalsa sem HBT-fólk er í forsvari fyrir. Það sem hefur brugðið af frá norminu hefur hvatt til breytinga, framfara og aukins skilnings og umburðarlyndis. Á heildina litið hefur það vonandi leitt til betra samfélags.

screen-shot-2016-12-07-at-10-03-57

Klæðskiptingar geta auðvitað gengið í tvær áttir: konur klæðast eins og karlmenn og karlmenn klæðast eins og konur; hið síðastnefnda er kannski það sem við þekkjum helst til – það nægir að nefna Tony Curtis og Jack Lemmon í kvikmynd Billy Wilders, Some like it hot, þar sem Marilyn Monroe lék þriðja aðalhlutverkið. Þá þekkja margir til Dame Edna, en á bakvið hennar gervi leynist ástralski leikarinn Barry Humphries. Eins má minna á óborganlega senu í Life of Brian með Monty Python þar sem kastað er fyrsta steininum í bersyndugu konuna og loks má nefna þá David Walliams og Matt Lucas í Little Britain, sem bregða sér iðulega í kvengervi, gjarnan af óviðkunnanlegra taginu. Þessar klæðskiptingar, þar sem karlar bregða sér í kvennagervi, eiga sér líka rætur í hinu elísabetanska leikhúsi Shakespeares, en þar léku drengir og ungir karlmenn kvenhlutverkin, þar sem konum var meinað að leika á leiksviði.

Þekktustu konur í nútímasögu vestrænni sem klæddust eins og karlmenn voru vitaskuld George Sand; það má í sömu andrá nefna Gertrude Stein og Alice B. Toklas, sem hnikuðu til mörkum hins viðurkennda þegar kom að kynhlutverkum og karlmannsklæðnaði kvenna. En það má líka minna á, að þessar konur áttu sér forgöngukonur: á tímum 30 ára stríðsins, sautjándu öldinni, dulbjó sig þónokkur fjöldi kvenna sem hermenn og tóku þátt í styrjöldum og öllu öðru hervafstri, sennilega til að losna við þær félagslegu og kynferðislegu kvaðir sem borgarlegt hjónaband hefði lagt þeim á herðar. Og ekki má gleyma okkar eigin Þuríði formanni, sem fékk meira að segja sérstakt sýslumannsleyfi til að klæðast karlmannsfötum!

screen-shot-2016-12-07-at-10-04-07

 

Nóg um það. Að þessum sögulegu dæmum til tíndum má auðvitað spyrja sig, hver tilgangurinn sé að kalla karaktera á borð við Hannes & Smára upp á svið. Hvað hafa þeir fram að færa, sem getur bætt og kætt samfélagið í samræmi við sögu forvera þeirra í búningi?

Það er auðvitað ákveðinn húmor fólginn í því að tvær konur – hinar bráðsnjöllu eðalleikkonur Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir – bregði sér í karlagervi og meira að segja geri þá að hinum verstu karlpungum, ómeðvituðum þó. Þeir eru bara gúddí gæjar, vilja bara tjá hvað þeir gera góða músík, þeir vilja spila sína músík og ef konur vilja bæði vinna úti og sjá um heimilið þá er engin ástæða til að stoppa þær í því.

Á yfirborðinu myndum við sennilega kalla þann húmor þorrablótslegan og sem slíkan sakleysislegan. Hann á sér rætur í klæðskiptingaleikjum eins og t.d. skátaforinginn Baden-Powell varð frægur fyrir. (Baden-Powell var iðinn klæðskiptingur á yngri árum og tróð upp á skemmtunum innan áhugaleikhúss og síðar hersins og saumaði gjarnan sína eigin búninga. Þetta kemur málinu ekkert við og er einfaldlega einskisnýtur fróðleikur!).

screen-shot-2016-12-07-at-10-04-20

En Hannes & Smári ganga ívið lengra í þessari sýningu og sá sem hér skrifar hefur sterkan grun um að þar gæti áhrifa frá samvinnu leikstjórans, Jóns Páls Eyjólfssonar og Halldóru Geirharðsdóttur, sem fyrir fáum árum unnu saman í leikhópnum Mindgroup, sem setti upp að minnsta kosti þrjár magnaðar og kröftugar leiksýningar í Borgarleikhúsinu þar sem samfélagsástandið var brotið til mergjar. Hannes & Smári láta sér nefnilega ekki nægja að viðra skoðanir sínar á stöðu kynjanna og samskiptum þeirra – enda kannski í frekar vondri aðstöðu til þess – heldur sýna þeir líka tilburði til að taka á stéttasamfélaginu, aðstöðumun barna til lífsgæða og framtíðar velferðar og ýmsu fleiru í þeim dúr.

Hér hefði þó vel mátt ganga mun lengra en gert er í sýningunni. Þeir Hannes & Smári tæpa á afleiðingum stéttskiptingar, þeir vitna til eigin bernsku og komast að því að börn og börn búa ekki við sama hlutskipti. Efnið er að sönnu eldfimt – við erum nýbúin að fá fregnir af ofbeldi og kynferðismisnotkun á börnum sem voru undir vernd og í umsjá ríkisins og kaþólsku kirkjunnar, stéttasamfélagið lifir góðu lífi og er bara hresst jafnvel þótt við viljum á okkar tímum afneita því og telja okkur trú um að við séum bara í góðum gír og Ísland bestasta land í heimi. Hér hefði mátt skerpa hugmyndafræðina, fara út á ystu nöf og draga áhorfendur með sér, knýja þá til afstöðu og leyfa klæðskiptingnum að berjast úr þeirri lágstöðu sem samfélagið þröngvar henni/honum í. Þegar kemur að þessum kafla er eins og sýningin vilji brjótast úr því boxi þar sem þeir Hannes & Smári hafa komið sér fyrir, en það er eins og það takist ekki fullkomlega, þessi útbrotstilraun endar á því að sýningin festist endanlega í boxinu sínu og tilraunin til breytinga þar með dæmd til að falla um sjálfa sig. En þetta eru kannski aðfinnslur út í hött; þó verður ekki hjá því komist að varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki hefði mátt vinna öðruvísi með þann hluta sögunnar þegar sagt er frá þegar “þeir” nauðguðu móður Hannesar. Frásagnartækni leikhús felur í sér val á sjónarhorni og um leið og það hefur verið valið, eru dæmd úr leik öll önnur sjónarhorn. Um leið er leikhúsið “bara leikhús”, það er ekki alvöru, og þess gætir kannski sérstaklega, þegar leikhúsið spilar með hefðina; hér með því að konur leika karla. En þegar tvær konur leika karla, sem segja frá því þegar kona er beitt ofbeldi – breytir það ekki á einhvern hátt eðli sögunnar? Þetta er víðfeðmari spurning en svo að henni verði gerð réttlát skil í stuttri gagnrýni – en undirritaður leyfir henni þó að koma fram; geri svo hver upp við sig.

screen-shot-2016-12-07-at-10-04-29

Þær Ólafía Hrönn og Halldóra eru báðar frábærar leikkonur. Þær ráða yfir þeirri leiktækni sem krefst til að leika karla og það þannig að nálgast fullkomnun. Vissir kækir þeirra beggja sýna að þau hafa þrælstúderað atferli og félagshegðun karla og samspilið milli þeirra er eins karlmannlegt og það getur frekast orðið. Blekkingin er nánast fullkomin og það er eingöngu vegna þess að við áhorfendur vitum að þetta eru þær Ólafía Hrönn og Halldóra, sem við sjáum þær á bakvið gervi Hannesar og Smára; mér er til efs að áhorfendur sem aldrei hafa séð þá Hannes & Smára sjái að á bak við búninga og gervi leynast tvær konur.

Þær hafa sér til aðstoðar tvo feikigóða krafta; fyrsta skal telja Elmu Stefaníu Ágústsdóttur, sem birtist eins og utanaðkomandi skráveifa (þær voru kallaðar svo, í gamla daga, stúlkurnar sem seldu leikskrár í forsal leikhúsanna. Prýðilegt slanguryrði), en verður fyrr en varir hluti af sýningunni. Með hlutverki hennar leikur leikhúsið sér að sjálfu sér og það er náttúrulega í stíl við efnið. Hver er og fer í gervi hvers? Auk þess fer Elma Stefanía á kostum í “rómantíska kaflanum”, því atriði, þar sem dregið er dár að hugmyndum okkar um hina rómantísku ást.

Kolbeinn Orfeus Eiríksson er tólf ára gamall trommuleikari, sem Hannes hefur fengið til að hressa upp á tónlistarflutninginn. Það er að mörgu leyti vel til fundið og Kolbeinn Orfeus er viðkunnanlegur leikari og hörkugóður trommuleikari. Það hefði þó mátt gera meira úr hans hlutverki og tengja það fastar við sögu þeirra tvímenninga, Hannesar & Smára. Sagan hefði örugglega orðið bragðmeiri og sterkari fyrir vikið.

Sem fyrr segir eru aðfinnslur kannski út í hött og jafnvel óviðeigandi. Áhorfendur skemmtu sér konunglega, sýningin er fjörleg hvað sem líður allri hugmyndafræði og hún heldur meira að segja fúlum gagnrýndanda brosandi við efnið allt til loka.

Borgarleikhúsið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar: Hannes & Smári
Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir
Lýsing: Magnús Helgi Kristjánsson
Tónlist: Hannes & Smári
Hljóð: Baldvin Þór Magnússon og Þórður G. Þorvaldsson
Leikendur: Ólafía Hrönn Magnúsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Kolbeinn Orfeus Eiríksson.


ÖBÍ boðar til samstöðufundar fyrir utan Alþingi í dag

$
0
0

Öryrkjabandalag Íslands boðar til samstöðufundar fyrir utan Alþingi klukkan 13.00 í dag. Þar verða þingmönnum afhent skrín með óskum frá málefnahópum ÖBÍ vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2017.

Í frétt á vef Asma og ofnæmisfélags Íslands segir að meðal annars verði vikið að óskum um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgang fatlaðs fólks að námi, afnám „krónu á móti krónu“ skerðingar, virkt eftirlit með aðgengi að mannvirkjum og að heilbrigðisþjónusta verði endurgjaldslaus.

„Þingmönnum verða afhent óskaskrínin við upphaf þingfundar sem hefst kl. 13:30. Um opinn viðburð er að ræða og öllum velkomið að mæta og taka þátt,“ segir í tilkynningunni.

Fiskikóngurinn ósáttur við „bull“ áróður stórútgerðarinnar

$
0
0

Kristján Berg Ásgeirsson, betur þekktur sem Fiskikóngurinn, er enginn aðdáandi áróðurs Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ef marka má nýjust færslu fyrirtækisins á Facebook. Þar gagnrýnir Fiskikóngurinn málatilbúning Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, sem er ný framkvæmdastýra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrir andstöðu samtakanna gegn því að fiskur fari á markað. SFS er þrýstihópur stórútgerðarinnar og hefur það að hlutverki að verja pólitíska hagsmuni kvótahafa.

12916358_523001327825071_7055376960681925176_o„Þetta er svo mikið bull í henni,“ skrifar Fiskikóngurinn á Facebook og hlekkir í viðtal Viðskiptamoggans við Heiðrúnu. Heiðrún segir í samtali við Morgunblaðið að „einn af styrkleikum íslensks sjávarútvegs og það sem hefur gert hann samkeppnishæfan í harðri samkeppni við aðrar fiskveiðiþjóðir er að það er samþætti fiskveiða og vinnslu.“ Í öðrum orðum segir framkvæmdastjóri SFS að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs reiði sig á að stórútgerðin sitji báðum megin við borðið og geti verslað við sjálfa sig innbyrðis án þess að markaðslögmál komi þar að.

Þetta gagnrýnir Fiskikóngurinn og segir dellu. „Þeir eru samkeppnishæfari til þess að selja fiskinn erlendis, vegna þess að þeir geta boðið fiskinn á lægra verði, heldur en almennir fiskkaupendur á fiskmarkaðinum, vegna þess að þeir fá afslátt frá okkur landsmönnum öllum,“ skrifar Fiskikóngurinn. Hann útlistar í löngu máli hvers vegna framsaga framkvæmdastýru SFS sé „bull“.

Sjá einnig: Lénskerfi nútímans

Í færslunni segir:

  1. Línufiskur er verðmætastur og af dagróðrabátum. Nýjasti fiskurinn er af dagróðrabátum. Útgerðin er ekki með marga dagróðrabáta á sínum snærum. Útgerðin er yfirleitt með stóra togara sem eru 1-7 daga úti á sjó.
  2. Aðrir fiskkaupendur sem kaupa fisk á markaði, kaupa nýjan fisk og þeir fá því hæsta verðið. Þeir eru búnir að búa til ferskfisk-markaði sem útgerðin er að sækjast í, í dag og undirbjóða verð sem „litlu aðilarnir“ á markaðinum, þar að segja þeir sem eiga ekki útgerð/kvóta eru búnir að búa til.
  3. Það slitnar ekki nein keðja. Fiskurinn fer á markað, þeir fá fiskinn sem greiða hæsta verðið. Þeir selja þeim sem greiða hæsta verðið og vilja besta fiskinn. Mjög einfalt. Markaðslögmál sem gildir þar.
  4. Það er bara réttlát fyrir íslenskt samfélag að fleiri fái að njóta kvótans, íslensks fisk sem syndir í kringum Ísland, ekki fáir útvaldir.
  5. Ég á engan kvóta, ég þarf að sinna mínum viðskiptavinum dags daglega og Íslendingar eru kröfuharðir á gæði. Ef ég get rekið mitt fyrirtæki á því að kaupa allan minn fisk á fiskmarkaði og selja til minna viðskiptavina, þá hlýtur stórútgerðin að geta það líka… eða er það ekki?
  6. Stórútgerðin vill ekki að fiskurinn fari á fiskmarkað, vegna þess að þá þarf að vigta fiskinn á fiskmarkaðinum og það hentar þeim ekki. Fá betri vigt sem þeir vigta sjálfir í sínu húsi. Þeir þurfa heldur ekki að greiða sjómönnunum eins há laun ef þeir landa hjá sjálfum sér, vegna þess að þeir hafa verðið lægra til sín heldur en verðið er á fiskmarkaðinum.
  7. Þeir eru samkeppnishæfari til þess að selja fiskinn erlendis, vegna þess að þeir geta boðið fiskinn á lægra verði, heldur en almennir fiskkaupendur á fiskmarkaðinum, vegna þess að þeir fá afslátt frá okkur landsmönnum öllum.
    Finnst ykkur, fólkinu í landinu réttlátt að fiskurinn fari ekki á fiskmarkaðinn?

Fiskikóngurinn spyr hvort stórútgerðin eigi að halda á öllum spilunum „og draga okkur landsmenn á asnaeyrunum og hirða allan gróðann af þessu.“ Hann spyr hvort útgerðin eigi að stjórna veiðum, eiga kvótann, stjórna sölunni og hirða gróðann! „Er þetta óréttlát krafa fyrir okkur Íslendinga að við fáum að njóta auðæfanna sem eru á þessu landi og synda í kringum okkar land. Íslendingar, þið þurfið að fara að vakna, áður en það verður of seint. Það er réttlæti að allur fiskur fari á markað.“

Nafn Kristjáns var í Panamaskjölunum

Í færslunni segir Fiskikóngurinn að textinn sé skrifaður af einstaklingi sem aldrei hafi átt kvóta, vilji ekki eiga kvóta og kaupi allan sinn fisk á fiskmarkaði. Hann vilji aðeins að allir sitji við sama borð þegar kaupa á inn íslensk fisk sem veiddur sé við Íslandsstrendur. Sjálfur var Kristján þó í Panamaskjölunum og hefur opinberlega gefið þá skýringu að hann vildi komast hjá því að greiða skatt af sölunni á fiskibúðinni Vör til danska ríkisins. „Ég seldi fyrirtækið mitt, Fiskbúðina Vör, og flutti til Danmerkur þar sem skattar eru sextíu og eitthvað prósent. Ég var með einkabankaþjónustu í Lúxemborg og þeir ráðlögðu mér þetta. Ef ég hefði verið skattaður í Danmörku hefði öll vinna mín síðastliðin 25 ára farið í danska ríkið. Og ég hafði voðalega lítinn áhuga á því. Ég borgaði skatta af sölunni á Íslandi en ég vildi ekki fara með peningana til Danmerkur út af skattinum. Ég ætlaði ekki að láta danska ríkið hirða af mér restina,“ sagði Kristján í samtali við Fréttatímann og Reykjavík Media á sínum tíma.

Þá kemur fram að hann hafi lagt peningana inn á félag í Seychelle eyjum og svo tapað því í hruninu. „Ætli ég hafi ekki tapað svona 200 milljónum á hruninu. Ég flutti svo bara aftur til Íslands og er bara búinn að vinna baki brotnu síðan. Ég kann ekkert í fjárfestingum; ég er bara fisksali og hef alltaf bara verið það. Ég treysti öðrum mönnum til að gefa mér ráðleggingar um þetta. Ég vissi ekki betur á þessum tíma en að þetta væri í lagi. Ég var þrjátíu og tveggja ára og hélt ég gæti bara hætt að vinna og lifað á þessum peningum. Það er leiðinlegasta starf sem ég hef verið í,“ er haft eftir honum í umfjölluninni.

Tekið skal fram að Kristján virðist sá eini í hópi fisksala sem Fréttatíminn og Reykjavík Media ræddu við sem taldi sjálfsagt mál að fara yfir það hvers vegna nafn hans væri þarna. Áberandi er í umfjölluninni hve margir telja eign sína í skattaskjóli einkamál þeirra.

Árlegt Bréfamaraþon Amnesty International fer fram á laugardag

$
0
0

Áskorun frá Amnesty International:

Árlegt Bréfamaraþon Amnesty International fer fram á skrifstofu Amnesty næstkomandi laugardag, þann 10. desember frá kl. 13:00 til 17:00. Á Bréfamaraþoni Amnesty koma hundruð þúsunda saman um heim allan og krefja stjórnvöld um úrbætur í mannréttindamálum með bréfaskrifum, tölvupóstum og undirskriftum. „Stuðningskveðjurnar eru ekki síður mikilvægar því þær halda gjarnan lífi í þolendum mannréttindabrota, efla styrk og veita þeim von um lausn sinna mála. Á laugardaginn verður hægt að skrifa stuðningskveðjur til allra þeirra ellefu einstaklinga sem barist er fyrir í ár en einnig verður unnt að skrifa kveðjur til flóttamanna sem búa við ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum á Grikklandi, komast hvorki lönd né strönd og hafa misst alla von um betra líf,“ segir í tilkynningu Amnesty.

„Á undanförnum árum hefur stór fjöldi Íslendinga látið sig mannréttindabrot varða með þátttöku sinni á Bréfamaraþoni samtakanna. Sá samtakamáttur sem myndast hefur hér á landi í baráttunni fyrir þolendur grófra mannréttindabrota er einstakur og þakkaði Moses Akatugba frá Nígeríu Íslendingum sérstaklega fyrir að hafa stutt sig í baráttunni þegar hann heimsótti landið á dögunum,“ segir í tilkynningu Amnesty vegna viðburðarins. „Mál hans var tekið upp á Bréfamaraþoni Amnesty árið 2014 en Moses sætti pyndingum og tíu ára fangavist í heimalandi sínu, þar af sat hann tvö ár á dauðadeild. Moses var náðaður í kjölfar Bréfamaraþonsins í maí 2015.“

Þá segir Amnesty að fleiri þurfa nú á aðstoð og baráttukrafti að halda. „Í ár berjumst við fyrir réttlæti ellefu einstaklinga sem allir hafa sætt margvíslegum mannréttindabrotum. Við hvetjum ykkur til að leggja okkur lið í baráttunni í ár til að fleiri einstaklingar eins og Moses fái notið frelsis og mannlegrar reisnar.“

Boðið verður upp á kaffi og kruðeríi og Gunnar Þórðarson tekur nokkrar hugljúfar dægurperlur.

10 vel valin ráð frá mömmu

$
0
0

Halla Tómasdóttir deildi eftirfarandi færslu á Facebook og gaf Kvennablaðinu leyfi til að deila eftirfarandi bréfi til barnanna sinna með lesendum Kvennablaðsins:

 

„Hér áður fyrr sá Jólasveinninn gjarnan um að gefa börnunum mínum góð ráð í desember, en þar sem þau ár eru nú að baki ákvað ég að ráðin kæmu nú beint frá mömmu. Börnin mín tjáðu mér hinsvegar umsvifalaust að þau hafi þegar heyrt öll þessi ráð (og það oft) en viðurkenndu að þau hefðu reynst þeim vel og ættu fullt erindi til annarra. Ég ákvað því að deila bréfinu með ykkur kæru vinir. Gleðilega aðventu!“

————————————————————-

 

Elsku Tómas Bjartur og Auður Ína,

Árið sem er að líða undir lok var merkilegt ár í lífi okkar fjölskyldunnar sem og í heiminum öllum. Ég er djúpt hugsi yfir þeim veruleika sem blasir við ykkar kynslóð og finn mig knúna til að hvetja ykkur til dáða á grunni góðra ráða. Það er í ykkar höndum að standa ykkur betur en við höfum gert og ég trúi og treysti ykkur vel til þess. Megi þessi tíu ráð verða til þess að þið og ykkar kynslóð leiði okkur öll til betri vegar.

  1. Temjið ykkur auðmýkt 

Um leið og ég treysti ykkur til góðra verka og vil sjá ykkur hugsa án takmarkana um tækifærin í lífinu, þá hvet ég ykkur til að nálgast hvert verkefni og hverja manneskju af auðmýkt. Engin manneskja er merkilegri en önnur en öll höfum við eitthvað sérstakt fram að færa. Hlustið á hugmyndir annarra og sýnið samferðafólki ykkar einlæga athygli. Heilbrigð sjálfsmynd byggir á að þekkja styrkleika sína vel en skynja jafnframt hvar og hvernig aðrir geta bætt mann. Þegar þið gerið mistök, og þið munið gera mörg mistök, þá hvet ég ykkur til að viðurkenna þau og nýta lærdómstækifærin sem í þeim felast. Munið að þið eruð einstök og stórkostleg alveg eins og þið eruð, en varist að láta egóið vaxa ykkur yfir höfuð. Þið eruð nefnilega líka hluti af mikilvægri og stórkostlegri heild sem ykkur ber að virða. Horfið því ávallt til áhrifa ykkar á samfélag og náttúru og tryggið að þið gefið meira en þið takið. Hugsið meira VIРog minna ÉGog ykkur mun farnast vel.

group-identity

  1. Veljið samferðafólk og fyrirmyndir vandlega

Leitið eftir nærandi félagsskap og góðum fyrirmyndum. Finnið þá sem ganga á undan með góðu fordæmi og hafa hugrekki til að synda gegn straumnum og gera það sem réttara er. Umgangist þá sem gera ykkur enn betri. Forðist hjarðhegðun og félagsskap og fyrirmyndir sem hvetja ykkur til þess að gera og segja hluti til að falla í hópinn og gera ykkur þar með illa kleift að lifa í sátt við ykkur sjálf og þá sem þið elskið.

  1. Verið þakklát

Munið að þakka fyrir allt sem þið hafið. Þið búið í gjöfulu landi, eigið stóra og samheldna fjölskyldu og fjölda vina. Þið borðið hreinan og góðan mat og njótið menntunar og lífsgæða sem marga dreymir um en fá aldrei. Gerið þakklæti að daglegu veganesti, þakkið í hljóði og upphátt á hverjum degi fyrir allt það góða sem í lífi ykkar er og þá mun ykkur aldrei skorta neitt.

  1. Gerið allt sem þið gerið á grunni góðra gilda

Látið góð gildi vera ykkur leiðarljós í lífinu. Takið engar stórar ákvarðanir án þess að máta þær við ykkar grunngildi. Við höfum gert okkar besta til að ala ykkur upp við þau gildi sem við teljum verða ykkur til góðs, en það er ykkar að velja ykkar lífsgildi og láta þau varða ykkar vegferð. Fátt mun reynast ykkur betra veganesti í lífinu.

gildi-thjodfundar-appelsinugulur-rammi

 

  1. Gefist ekki upp, þó á móti blási

Lífið er yndislegt, en það er hvorki einfalt né auðvelt. Þið munið mæta mótbyr en ykkar viðbrögð við áskorunum og erfiðleikum munu hafa mest áhrif á það hvernig ykkur farnast í lífi og starfi. Ekki vera fórnarlömb, það leysir ekkert, veldur bara óhamingju. Veljið bjartsýni og seiglu þó á móti blási og haldið ótrauð áfram veginn með trú, von og kærleika.

  1. Veljið orð ykkar vandlega

Verið góð við aðra. Takið aldrei þátt í einelti og sýnið styrk til að standa sterk gegn slíkri hegðun og slíkum félagsskap. Skrifið hvorki né segið orð sem þið mynduð ekki þiggja með þökkum sjálf. Orð meiða og við búum því miður á fordæmalausum tímum og fólk grípur fljótt til hatursfullrar og grimmrar orðræðu. Verið gagnrýnin, við eigum að rýna til gagns, en veljið orð ykkar vel og hafið aðgát í nærveru hverrar sálar. Gleymið aldrei að þeir sem hata eru oftast hjálpar þurfi, hafið ykkur því yfir hatrið með yfirvegun og kærleika og látið aldrei aðra draga ykkur niður á svo lágt plan að þið séuð ekki stolt af hverju orði sem frá ykkur fer. Ef þið misstígið ykkur, biðjist afsökunar af auðmýkt.

  1. Verið leiðtogar OG góðir liðsmenn 

Ég hef óbilandi trú á ykkur og sé í ykkur sanna leiðtoga. Þið hafið hæfileika til þess að fá aðra með ykkur og ég vona einlæglega að þið nýtið þá gjöf til góðra verka. Ég vona jafnframt að þið leggið ykkur jafn vel fram um að vera góðir liðsmenn þegar aðrir leiða. Ræktið með ykkur auðmýkt, samskiptahæfni og ástríðu fyrir árangri og þið munið blómstra.

collaborative-leadership

  1. Verið lærdómsfús og sveigjanleg

Við lifum í veröld breytinga og þið munuð bæði hitta fyrir fólk og aðstæður munu vekja með ykkur ótta. Aldrei láta óttan bera ykkur ofurliði. Hann er lamandi afl og vondur húsbóndi. Verið lærdómsfús og tilbúin til að aflæra það sem ekki virkar. Náið ykkur stöðugt í nýja þekkingu og temjið ykkur ný vinnubrögð og viðhorf í takt við aðstæður hverju sinni. Verið sveigjanlegir eilífðarstúdentar.

  1. Finnið ykkar sanna tilgang 

Þið eruð gædd einstökum hæfileikum, nýtið þá vel. Verið óhrædd við að prófa þá í ólíkum verkefnum í lífinu en leitist við að finna ykkar eina sanna tilgang og eltið hann óttalaust og af ástríðu.

  1. Verið þið sjálf

Þið búið að því að eiga ágæta foreldra og marga fjölskyldumeðlimi sem ávallt eru tilbúnir til að ráða ykkur heilt. Þið hafið notið leiðsagnar fjölda góðra kennara og þjálfara og munið gera áfram. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá er stærsta verkefni lífs ykkar að vera þið sjálf. Að láta lífið ekki leika ykkur þannig að þið reynið að vera eitthvað annað en það sem þið eruð einlæglega hér til að vera og gera.

Ég trúi á ykkur!

 tomas-og-ina-ferming

Hælisleitandi hellti yfir sig bensíni og kveikti í sér

$
0
0

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi á þriðja tímanum í dag, en þar hafði hælisleitandi hellt yfir sig bensíni og kveikt í. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Auglýsing

„Maðurinn, sem er illa brunninn, var fluttur á sjúkrahús, en ekki er vitað frekar um líðan hans á þessari stundu. Þetta var annað útkallið sem lögreglan sinnti í Víðinesi í dag, en í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig. Ekki kom þó til þess, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð á meðan unnið er í máli hans. Áfallateymi Útlendingastofnunar var kallað út til að hlúa að íbúum og starfsfólki í Víðinesi,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Friður og ólífur

$
0
0

Hvernig er hægt að stuðla að friði með því að týna ólífur? Þessari spurningu og fjöldamörgum öðrum svara Gunnar Axelsson og Falasteen Abu Libdeh á friðarfundi á vegum Félagsins Ísland-Palestína í Hafnarhúsinu í kvöld, 8. desember klukkan 20.00.

Auglýsing

Síðastliðin ár hafa fjölmargir íslenskir sjálfboðaliðar á vegum félagsins starfað við ólífutínslu í Palestínu. Stór hópur fór frá Íslandi á vegum félagsins í október síðastliðnum. Gunnar og Falasteen kynna starfið við ólífuuppskeruna, sýna myndir og tala um friðsamleg mótmæli með ólífutínslu.

Félagið Ísland-Palestína var stofnað 29. nóvember 1987. Markmið félagsins hefur frá upphafi verið að stuðla að jákvæðum viðhorfum til ísraelsku og palestínsku þjóðanna og vinna gegn hvers kyns aðskilnaðarstefnu. Félagið hefur stutt baráttu Palestínumanna gegn hernámi og rétt flóttafólks til að snúa heim. Þann 18. maí 1989 náðist samstaða á Alþingi um ályktun sem fól í sér stuðning við öll meginmarkmið félagsins, tilverurétt Ísraelsríkis og þjóðarréttindi Palestínumanna.

Auglýsing

Stríð og friður í Hafnarhúsi
Í Hafnarhúsi standa nú þrjár sýningar þar sem listamennirnir Yoko Ono, Erró og Richard Mosse takast á við stríðsátök og vonir um heimsfrið. Af þessu tilefni býður safnið ólíkum félagasamtökum og hópum sem standa vörð um frið og mannréttindi að kynna málstað sinn.

Friðarfundirnir fara fram á íslensku og eru öllum opnir án endurgjalds. Listasafnið og Kaffi & matstofa Frú Laugu eru opin til kl 22 á fimmtudagskvöldum.

Auglýsing

Yoko Ono berst fyrir friði með aðferðum konseptlistarinnar þar sem hún vekur fólk til umhugsunar og hvetur til aðgerða. Viðamikil sýning á verkum hennar, YOKO ONO: EIN SAGA ENN…, er nú uppi í listasafninu auk þess sem Friðarsúla listakonunnar lýsir upp vetrarkvöldin frá Viðey.

Málverk Errós endurspegla söguleg og ímynduð átök þar sem hann skeytir saman fundnu efni úr myndheimi áróðurs, satíru og skops. Á sýningu hans, Stríð og friður, eru valin verk úr safneignum Listasafna Reykjavíkur og Íslands.

Richard Mosse sýnir ljósmyndir og kvikmyndainnsetningu, Hólmlenduna, sem byggist á ferðum hans um stríðshrjáð héruð Kongó. Myndefnið er fangað á innrauðar filmur sem hannaðar voru í þeim hernaðarlega tilgangi að koma upp um felustaði og felubúninga.  

Aftur í leti og aumingjaskap

$
0
0

15327524_10211418725483234_1951880451_nÞórunn Friðriksdóttir, kennari til áratuga, skrifar:

Enn á ný hefst umræðan um lélega kennslu eftir birtingu PISA-skýrslunnar, um löng frí kennara, lítinn metnað þeirra og sennilega sé best að árangurstengja launin þeirra til að þeir skili því sem þeir eiga að gera. Ekki held ég að þessi umræða hvetji ungt fólk í kennaranám eða þá sem enn sinna kennslu til að halda því áfram. Í grunninn snýst málið um hvort við viljum skóla og þá skóla þar sem börnin læra og þeim líður vel í. Ef við viljum skóla þurfum við að skoða hvað þarf til að þau markmið náist.

Viljum við gamla kerfið sem ég og mínir jafnaldrar ólumst upp við? Getuskiptan skóla þar sem einkunnir voru eina markmiðið, allt annað aukaatriði. Samráð við heimili ekkert, aldrei voru haldnir foreldrafundir, hringt var í foreldra ef nemandi gerði eitthvað af sér og foreldrum veitt tiltal. Skólinn einn hafði leyfi til að veita nemendum leyfi og þurfti töluvert til. Einelti, dyslexía, alls konar róf þekktust ekki. Félagslegir erfiðleikar almennt tengdir leti og aumingjaskap.

Auglýsing

Við þurfum að velta fyir okkur hvort við viljum getuskiptan skóla eða ekki, í orði hafna honum flestir en annað kemur oft upp á teninginn í samræðum og greinarskrifum. Foreldrar sumir kæra sig ekkert um að klára barnið þeirra sé í bekk með einhverjum sem eiga erfitt með að tileinka sér námið.

Viljum við að kennarar sinni öllum í bekknum, hafi fjölbreytt verkefni handa fjölbreyttum hóp, geti átt í samskiptum við foreldra barnanna, sem og ýmis konar sérfræðinga sem tengjast sumum nemendum, s.s. sálfræðinga, talmeinafræðinga, félagsráðgjafa. Kennarar þurfa einnig tíma til að sinna tölvusamskiptum fyrst og fremst við foreldra, símtölum frá foreldrum, sem oft snúast um af hverju fékk þeirra barn fær ekki meiri sinningu, hærri einkunnir, auðveldari verkefni, duglegri samstarfsaðila.

Auglýsing

Ef við viljum þetta í alvöru þurfum við velta því fyrir okkur hvernig við ætlum að ná því. Það gerist ekki með því að ráðast á þá sem þó sinna enn þessu starfi. En neikvæð orðræða hefur áhrif. Æ færri sækja i kennaranám og ekki draga launin ungt fólk í 5 ára háskólanám. Eftir nokkur ár megum við sennilega þakka fyrir ef enn verða skólar.


Fjárlög Bjarna Benediktssonar „hamfarir“ fyrir Landspítalann og „svik við þjóðina“

$
0
0

„Þessi fjárlög eru hamfarir fyrir okkur, það er ekkert öðruvísi,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, við Fréttablaðið sem kom út í morgun. Páll segir spítalann þurfa að skera niður um rúmlega fimm milljarða verði fjárlögin samþykkt óbreytt. Í samtali við Fréttatímann segir Páll að frumvarpið sé svik við þjóðina. „Þetta er sá málaflokkur sem þjóðin vill setja í forgang. Þetta eru því svik við þjóðina.“

Allir flokkar lofuðu endurreisn heilbrigðismála fyrir kosningar en nú nokkrum vikum síðar hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lagt fram fjárlagafrumvarp sem í raun boðar niðurskurð. Sjálfur segir Bjarni að aldrei hafi meira fé verið eytt í heilbrigðiskerfið og að alls hækki framlögin um sjö milljarða.

Auglýsing

Framkvæmdastjórn Landspítalans mun leita til heilbrigðisráðherra um tillögur að þjónustu sem skera á niður fái spítalinn ekki það aukna fjárframlag sem nauðsynlegt er. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 4. desember. Þá hafði þegar komið fram að spítalinn þurfi um tólf milljarða aukafjárframlag til að halda dampi. Fjárlög boða fjóra milljarða.

Stöð 2 ræddi við Maríu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landspítalans, sem segir ríkisfjármálaáætlun ekki í samræmi við þörfina. „Því miður að þá er það alls ekki í samræmi við þarfir og jafnvel þó við fengum alla þessa tvo milljarða, að þá nægir það varla til þess að svara þeirri eftirspurnaraukningu sem að verður á ári hverju, sem að er að minnsta kosti 1,7 prósent,” sagði María við Stöð 2.

Það munar því átta milljörðum frá því sem spítalinn getur átt von á að fá og því sem hann telur sig vanta til að sinna lögbundinni þjónustu með skikkanlegum hætti. „Svona gat, upp á allt að 12 milljarða, eftir því hvernig talið er, það þýðir auðvitað bara skerðingu á þjónustu. Það er því miður ekki hægt að skilja það öðruvísi,” sagði María við Stöð 2. „Það er sem sagt ekki Landspítalinn sem að ákveður að skerða þjónustu, það eru heilbrigðisyfirvöld á hverjum tíma sem að ákveða hvaða þjónusta á að vera í boði fyrir landsmenn,” segir María. Þá kemur fram í máli hennar að spítalinn sé í dag rekinn fyrir sömu upphæð á föstu verðlagi og í byrjun aldarinnar. Á sama tíma hafi landsmönnum fjölgað mikið og spítalinn hafi tekið við nýjum verkefnum.

Auglýsing

Allir stjórnmálaflokkar lofuðu fyrir kosningar betrun þegar kemur að fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í umtöluðu viðtali sem birtist í Morgunblaðinu að stóraukin áhersla yrði á bætta samfélagsþjónustu, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu Landspítalans og bætta heilbrigðisþjónustu með stórauknum fjárframlögum. Það vakti þá reyndar meiri athygli á sínum tíma að Bjarni stillti sér upp við garðyrkjustörf en í viðtalinu setti Bjarni tóninn fyrir áherslu Sjálfstæðisflokksins. Það var þó ekki aðeins Bjarni sem lofaði betrumbót eftir áralangan sult heilbrigðiskerfisins.

Píratar lofuðu gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu. Auka átti fjármagn til heilbrigðismála og færa sálfræðiþjónustu og tannlækningar í almannatryggingakerfið sem og að halda áfram uppbyggingu Landspítala við Hringbraut en skoða aðrar staðsetningarkosti.

VG boðuðu félagslega rekið og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi. Flokkurinn hafnaði einkavæðingu heilbrigðismála í ágóðaskyni. Þá lofaði flokkurinn að uppfylla kröfur áskorunar um endurreisn heilbrigðiskerfisins sem hátt í 90 þúsund skrifuðu undir. VG vildi efla sjúkraflug, halda áfram uppbyggingu við Hringbraut og færa sálfræðiþjónustu, tannlækningar, sjúkra-, tal- og iðjuþjálfun inn í almannatryggingakerfið.

Framsóknarflokkur boðaði nýjan Landspítala en á nýjum stað. Framlög til heilbrigðisstofnana yrðu aukin og heilsugæsla efld. Þá vildi flokkurinn stytta biðtíma, fjölga heimilislæknum og sálfræðingum. Lækka greiðsluþátttöku og auka forvarnir til bættrar lýðheilsu.

Auglýsing

Viðreisn ætlaði að ljúka byggingu Landspítalans við Hringbraut fyrir árið 2022. Styrkja heilsugæsluna um allt land. Stytta biðlista og leggja áherslu á meðhöndlun geðrænna vandamála. Þá átti að bæta forvarnir og auka aðgengi að sálfræðiþjónustu sem í skrefum átti að fara inn í almannatryggingakerfið. Greiðsluþátttöku átti að miðast við fjölskyldu og vera í samræmi við greiðslugetu allra samfélagshópa.

Björt framtíð lofaði því að allir hefðu jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu og efnahag í gegnum sameiginlegt sjúkratryggingakerfi. Þá lofaði flokkurinn að færa tannheilbrigðisþjónustu í auknum mæli undir sjúkratryggingar.

Samfylkingin lofaði svo afnámi á gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Það átti þó að gera í nokkrum skrefum. Tryggja átti heilbrigðisþjónustu um allt land og byggja upp heilsugæslukerfið. Samfylkingin vildi að nýr Landspítali yrði byggður við Hringbraut og boðaði uppbyggingu 500 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og langveika.

Samkvæmt þessu er því engin fyrirstaða frá nokkrum flokki við endurreisn heilbrigðiskerfisins. Á þingi er ekki einn einasti þingmaður sem kosinn er út á andstöðu við aukin fjárframlög til heilbrigðismála. Það má því ganga út frá því að fjárframlög til heilbrigðismála verði hækkuð umtalsvert í meðferðum þingsins.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, var gestur í þættinum Þjóðbraut á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í lok síðasta mánaðar. Páll fjallaði þá um niðurstöðu OECD-skýrslu um stöðu heilbrigðismála í heiminum. Ísland skrapar botninn ásamt Rúmenum þegar kemur að fjárframlögum til heilbrigðismála. Ísland skorar þó vel þegar kemur að forvörnum gegn unglingadrykkju og reykingum sem Páll sagðist telja að spiluðu þær nokkuð inn í málin.

Þá benti Páll á að skýrsla OECD sýni að Íslendingar eru eftirbátar í mörgum málum. „Við erum eftirbátar í mörgu, við sjáum það bara varðandi lýðheilsuna. Þá erum við t.d. ekki nægilega dugleg að bólusetja ungabörn. Það má sjá á mislingabólusetningum og bólusetningum við kíghósta og öðru slíku. Þar er 90% af börnum sem fá bólusetninguna hér á meðan meðaltalið í Evrópu er 96%. Þetta er ekki gott svo dæmi sé tekið,“ sagði Páll.

Páll sagði sláandi að sjá hversu litlu Íslendingar eru að eyða til heilbrigðisþjónustu almennt og svo til innviða. „Varðandi stóru málin í þessari skýrslu þá er það tvennt. Annars vegar hvað við erum að verja almennt til heilbrigðismála og hins vegar hvað við erum að verja til innviða. Ef við byrjum fyrst á þessu almennt þá hefur verið talsvert rætt um það að við séum ekki að verja nægilega stórum hluta af þjóðarkökunni til heilbrigðismála. Um það bil 8.8% af vergri landsframleiðslu er að fara í heilbrigðismál á meðan meðaltal Evrópuþjóðanna eru 9.9%,“ sagði Páll. Þá kom fram í þættinum að 1% í vergri landsframleiðslu séu um 18 milljarðar.

Auglýsing

Fyrir kosningar skrifuðu rúmlega 86 þúsund einstaklingar undir kröfugerð Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þá hafði í raun þegar verið gefið loforð um stóraukin framlög til heilbrigðismála en þrír ráðherra undirrituðu árið 2013 viljayfirlýsingu um framtíðar fjármögnun heilbrigðiskerfisins. Loforðið um endurreisn heilbrigðismála hefur því margsinnis verið gefið.

Í septemberlok árið 2013 tilkynnti Björn Zoëga, þáverandi forstjóri Landspítalans, að hann hefði sagt starfi sínu lausu. Hann sagði nokkrar ástæður fyrir uppsögn sinni og nefndi sérstaklega fjárskort spítalans. Nauðsynleg uppbygging væri ekki í augsýn. Björn hafði þá starfað sem yfirmaður á spítalanum í sex ár. Fyrst sem framkvæmdastjóri lækninga og síðar forstjóri. Á þeim tíma hefði spítalinn gengið í gengum miklar breytingar og linnulausan niðurskurð. Nú væri ekki lengra haldið á þeirri braut. Björn kveðst margoft hafa talað um að rekstur spítalans hafi verið kominn að bjargbrúninni. „Ég ætla ekki taka þátt í því að taka fram af brúninni. Ég held að við verðum aðeins að staldra við og einhver annar verði að taka við keflinu til að leiða spítalann í því umhverfi sem verður boðið upp á á næstunni,“ sagði hann í samtali við RÚV.

Landspítalinn Háskólasjúkrahús varð til árið 2000 þegar Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalar sameinuðust. Það er um það leiti sem 2-4% sparnaðarkrafa á ári er lögð á spítalann. Þröng fjárhagsstaða heilbrigðismála er því uppsafnaður vandi en ekki aðeins afleiðing efnahagshrunsins í lok ársins 2008.

Innan landa Efnahags- og framfarastofnunarinnar er almenna reglan sú að meðal þróaðra ríkja hefur hlutfall þjóðarframleiðslu til heilbrigðismála hækkað jafnt og þétt. Á Íslandi hefur þróunin verið þveröfug og raunar hefur hlutfallið lækkað. Árið 2009 voru útgjöld Íslendinga 9.6% af þjóðarframleiðslu en fjórum árum síðar, árið 2012, var það hlutfall komið niður í 9.1%. Hálft prósent virkar ef til vill ekki mikið við fyrstu sýn en þegar kemur að heilbrigðisútgjöldum telur hvert prómill rúmlega hundrað og fimmtíu milljónir króna. Sé það svo sett í samhengi við útgjöld ársins 2003 sem námu 10.4% af landsframleiðslu birtist okkur myndin af viðvarandi aðhaldi í heilbrigðismálum.

Auglýsing

Kjaradeila lækna á sér því meðal annars uppruna í langvarandi þreytu heilbrigðisstarfsmanna á aðhaldsaðgerðum og kröfum yfirvalda á sparnaði sem leitt hefur til aukins álags, eldri tækjabúnaðar og atgervisflótta. Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar undirrituðu nýlega yfirlýsingu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Meðal helstu atriða í viljayfirlýsingunni er bygging nýs Landspítala og markviss endurnýjun tækjabúnaðar. Hvoru tveggja er ætlað að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við almenning. Auknu fjármagni verður veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu. Þá er stefnt að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissari verkaskiptingu auk þess sem íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Yfirlýsingin, sem í sjálfu sér vakti litla athygli, var undirrituð af forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og Illuga Gunnarssyni, menntamálaráðherra og starfandi fjármálaráðherra í fjarveru Bjarna Benediktssonar. Við lestur yfirlýsingarinnar er ljóst að hér er um að ræða loforð upp á milljarða, jafnvel milljarðatugi, í formi aukins fjárframlags til heilbrigðismála. Þá er uppbygging nýs spítala sett aftur á dagskrá auk þess sem unnið verður að því að jafna álag, vaktafyrirkomulag og grunnlaun heilbrigðisstarfsmanna svo það verði sambærilegt við Norðurlöndin. Íslenskir læknar og hjúkrunarfólk vinna meira og á lengri vöktum en fólk í sambærilegum störfum frændþjóða okkar.

Framlög til heilbrigðismála eru hæst í Danmörku af Norðurlöndunum en Finnland og Noregur eru hvað næst okkur. Sé ætlunin að Íslendingar fjármagni heilbrigðiskerfið með dönsku hlutfalli af landsframleiðslu er hér um að ræða loforð upp á 34 milljarða, ár hvert, miðað við verðlag ársins 2012. Í samanburði við Noreg er viðbótin tíu milljarðar á ári. Vert er að taka fram að hér er aðeins um framlag til reksturs að ræða en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar lofar um leið nýjum Landsspítala. Áætlaður kostnaður við uppbyggingu hans er um 51 milljarður á verðlagi 2009. Vert er að taka fram að aldursuppsetning Íslendinga og annarra Norðurlanda er ekki sú sama og því eru hlutfallstölur landsframleiðslu aðeins til viðmiðunar en ekki algildur sannleikur.

Johannes Jansson-norden.org

Smæðin er dýrari

Það er eðli heilbrigðisþjónustu að henni fylgir gríðarlegur fastur kostnaður auk breytilegs kostnaðar. Það þýðir að almennt er lögð áhersla á að ná fram sem mestri stærðarhagkvæmni. Ísland er örríki og því hneigjast rök til þess að við getum búist við að greiða ákveðinn aukakostnað til reksturs kerfisins vegna smæðarinnar. Krabbameinsfélagið hefur raunar bent á þetta sérstaklega í skýrslu sem félagið lét vinna fyrir sig um Kostnaðarþátttöku krabbameinssjúklinga í eigin heilbrigðisþjónustu. „Sú spurning vaknar hvort ekki þurfi jafnvel enn hærri fjárframlög til að halda uppi jafn góðri heilbrigðisþjónustu á Íslandi og nú er gert í Danmörku, þar sem Íslendingar lifa í landi sem er í senn stærra að flatarmáli, harðbýlla og hefur færri íbúa,“ segir í skýrslunni. Komið er inn á þetta í yfirlýsingu yfirvalda og læknafélaganna og því lofað að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands hvað varðar mannfjölda og staðhætti. Yfirlýsingunni rándýru fylgir ekkert kostnaðarmat, né er fé eyrnamerkt starfinu eða tölur settar á boðað aukafjármagn. Reykjavík vikublað reyndi í kjölfar yfirlýsingarinnar að fá skýra mynd af málinu og spurði hvað væri að baki loforðunum upp á nokkra milljarða ár hvert. „Hér er um að ræða viljayfirlýsingu þar sem ríkisstjórnin ákveður að snúa bökum saman með samtökum lækna að því að efla og bæta íslenska heilbrigðiskerfið,“ segir í yfirlýsingu heilbrigðisráðuneytisins til blaðsins er leitað var svara um hvaða vinna væri að baki slíkum loforðaflaum. Í stuttu máli segir svarið að á bak við yfirlýsinguna sé fátt annað en fögur fyrirheit. Björn Zoëga, sá hinn sami og sagðist ekki ætla að taka þátt í að keyra heilbrigðiskerfið fram af bjargbrúninni, mun leiða verkefnahópinn sem skipaður verður vegna þessar vinnu.

„Þetta er til þess að ramma það inn að viljinn er að við stöndum jafnfætis Norðurlöndum,“ sagði Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, um yfirlýsinguna í samtali við Reykjavík vikublað við sama tækifæri. „Með yfirlýsingunni eru ekki tilteknir vegvísar um hvernig við eigum að ná þessu eða að fráteknir séu fjármunir. Þetta er bara hugsað sem almenn yfirlýsing um það hvert við höfum áhuga á að stefna,“ segir Þorbjörn. Sérstaklega er tekið fram að taka eigi tillit til mannfjölda og staðhátta. Ísland er fámennt land þannig að stærðarhagræðingar njótum við ekki.

– Er ekki verið að segja hér að það þurfi meira fé en Norðurlöndin [verja til þessara mála] til að vega upp á móti? „Okkur í Læknafélaginu þótti nauðsynlegt að setja þetta inn. Ef við ætlum að halda upp tiltekinni þjónustu í dreifbýlinu t.d. skurðstofuþjónustu á minni stöðum þá verður hún alltaf fjárhagslega óhagkvæm vegna þess að þú nærð ekki sömu nýtingu og á stærri stað í Reykjavík. Okkur þótti þetta vera nauðsynlegur varnagli út af fámenni og smæð.“

– Er þá ekkert annað í hendi með þessari yfirlýsingu en að það er vilji til að hækka fjárframlög? „Þetta er vilji okkar og ríkisins að við stöndum jafnfætis Norðurlöndum varðandi gæði og þjónustu. Það er markmiðið,“ sagði Þorbjörn.

Þingmaður Viðreisnar reyndi að þvæla tölum til að villa um fyrir almenningi

Það tók flokksholla ekki langan tíma að stökkva á vagninn og ráðast á undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, þar sem krafist er aukins framlags ríkisins til heilbrigðsmála. Vissulega væru hugmyndir Kára fínar en hvar ætti að finna peningana? Þeir vaxa nú víst ekki á trjánum… Pawel Bartoszek bauð sig síðar fram fyrir Viðreisn og er í dag þingmaður kosinn á loforði um endurreisn heilbrigðiskerfisins en þegar hann reyndi að villa um fyrir almenningi með útúrsnúningi var hann dyggur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins.

Þegar hefur slitnað upp úr einum stjórnarmyndunarviðræðum vegna þess að flokkur Pawels, Viðreisn, er ekki tilbúinn að auka tekjur ríkisins til að standa við umrætt loforð.

Þegar krafan um endurreisn kom fram sá Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra meðal annars ástæðu til að blogga og skellti fram grafi frá 2006. Hvernig það átti að vera innlegg í umræðuna er enn ósvarað.

Þá ýjaði forsætisráðherra fyrrverandi að því að aukin útgjöld til heilbrigðismála yrðu til þess að ýta undir nýtt hrun. „Varla vilja menn þó halda því fram að besta leiðin til að bæta heilbrigðisþjónustu sé efnahagshrun. Í stað þess að sveiflast eftir landsframleiðslu þurfa heilbrigðisútgjöld að vera næg og nógu vel fjármögnuð til að veita nauðsynlega þjónustu óháð efnahagssveiflum.“

Í dag er engin formleg andstaða á þingi við endurreisn heilbrigðiskerfisins. Það vekur því furðu að fjármálaráðherra leggi fram fjárlagafrumvarp sem boðar „stríðsástand“ á Landspítalanum og „svik við þjóðina.“

Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð

$
0
0

Það er mikið og gott úrval af íslenskum verkum sem koma út fyrir jólin ár. Kvennablaðið hafði samband við útgefendur og bað þá um að senda okkur uppáhalds bækurnar sínar.  Í samstarfi við forlögin munum við birta kynningar um nýjar íslenskar bækur í aðdraganda jólanna.

Hér má finna þrjár ólíkar en stórgóðar bækur sem eiga það sameiginlegt að vera íslenskar í húð og hár, eða á maður að segja kápu og kjöl?

Nýja Breiðholt er fyrsta skáldsaga Kristjáns Atla. Bókin er skuggaleg og hörkuspennandi framtíðarskáldsaga sem gerist í Reykjavík. Fullkomin bók til að lesa á jóladag ef maður vill ekki verða of afslappaður í hangikjöts- og konfektmóki.

Brú yfir boðaföllin er sjálfshjálparbók og ævisaga þar sem Steinunn Ósk, höfundur bókarinnar, gerir upp ofbeldi sinnar fortíðarinnar með von um að geta verið stuðningur við aðra. Holl lesning sem lýsir leiðina að bjartari framtíð.

Stóra smákökubókin er fullkomin gjöf fyrir þann sem hefur unun af því að stússast í bakstri. Það er enginn efi á því að ef þessi fer í jólapakkann að þá muni allir græða á afrakstrinum.

 

STÓRA SMÁKÖKUBÓKIN eftir Fanney Rut Elínardóttur

Ilmur af nýbökuðum smákökum stígur upp frá heimilum landsmanna þessa dagana og ilmurinn er líklega hvergi betri en hjá henni Fanneyju Elínardóttur, höfundi Stóru smákökubókarinnar. „Jú það passar, við erum búin að vera ansi dugleg að baka“, segir Fanney um smákökubaksturinn. „Ég er alin upp á smákökuheimili og það er hann pabbi sem sá og sér enn um baksturinn á því heimilinu. Spesíur, súkkulaðibitakökur, M&M kökur og ýmislegt fleira var og er enn bakað fyrir hver einustu jól. Þannig að það má segja að ég, kannski eins og flestir Íslendingar, alist við smákökubakstur í desember.“ stora-smako%cc%88kubokin

„En við höfum tekið þetta einu skrefi lengra. Við bökum nefnilega líka á milli jóla og nýárs. Þegar við systkinin vorum yngri reyndi pabbi að banna át á smákökum þangað til rétt yfir jólin. Þannig reyndi hann nýja felustaði á hverju ári þar til hann gafst upp að lokum og bauð okkur í fjölskyldunni og gestum og gangandi að fá sér kökur þó ekki væru komin sjálf jólin. Það er líka miklu skemmtilegra að njóta bakstursins jafn og þétt í desember. Þess vegna fórum við að baka oftar í desember og á endanum tókum við upp á því að henda í eina eða tvær sortir á milli jóla og nýárs líka. Það er kannski besti tíminn til að stunda þetta smákökusport því þá er erillinn í desember að baki og meiri afslöppun möguleg. Hvað er þá betra en nýbakaðar smákökur?“ spyr Fanney að lokum.

Í Stóru smákökubókinni er að finna þessar gömlu góðu smákökur, nýjar og spennandi kökur og kökur sem eru sykurlausar og jafnvel hveitilausar. Það því óhætt að fullyrða að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í Stóru smákökubókinni.

Hér að neðan er uppskrift af afar ljúffengri smáköku, sítrónuköku. Orðið á götunni er að innan fárra ára verði hún orðin „standard“ á hverju heimili fyrir jólin. Nýju lakkrístopparnir jafnvel!

sitronukokur

Sítrónukökur

– Fallegar og einstaklega ljúffengar kökur. Uppskriftin gefur um 35 kökur.

115 g smjör

225 g sykur

½ tsk vanilludropar

1 stk egg

börkur af 1 sítrónu, rifinn

1 msk sítrónusafi (helst nýkreistur)

¼ tsk salt

¼ tsk lyftiduft

170 g hveiti

60 g flórsykur (fer ekki í sjálft deigið)

Hitið ofninn í 180°C

fanney-rutBlandið saman smjör og sykur þar til blandan verður létt og ljós, bætið við vanilludropum, eggi, sítrónuberki og sítrónusafa. Skafið niður eftir hliðunum ef þarf og hrærið vel. Blandið öllum þurrefnunum (fyrir utan flórsykurinn) út í hægt og rólega. Passið að allt blandist vel saman.

Setjið flórsykur í skál eða disk, rúllið upp í litlar kúlur (um ein stór teskeið af deigi) og veltið upp úr flórsykrinum og raðið á ofnplötu. Hafið gott bil á milli.

Bakið í 9-11 mínútur, eða þar til kanturinn á kökunum er ljósbrúnn og þær eru ekki lengur glansandi.

Takið úr ofninum og leyfið að standa á plötunni í u.þ.b. 3 mínútur áður en þær eru settar afsíðis til að kólna.

Hér má sjá aðra umfjöllun um Stóru smákökubókina ásamt tveimur uppskriftum í viðbót.

Stóra smákökubókin er gefin út af Drápu forlagi

Facebook síða Drápu forlags

 

bru-yfir-bodafo%cc%88llin

BRÚ YFIR BOÐAFÖLLIN eftir Steinunni Ósk

Brú yfir boðaföllin er bók um von, andlegan bata og þær aðferðir sem gerðu Steinunni Ósk, höfundi bókarinnar, kleift að sigrast á æskuminningum sem mörkuðust  af kynferðisofbeldi, óhóflegri drykkju og erfiðum heimilisaðstæðum. Í bókinni deilir Steinunn þeim aðferðum sem hafa hjálpað henni að byggja upp brotna sjálfsmynd og finna þann styrk og þá gleði sem einkennir líf hennar í dag. Bókin er uppgjör við erfiða fortíð og leiðarvísir að bjartari framtíð sem vonandi getur orðið þolendum kynferðisafbrota hvatning til að skila skömminni þangað sem hún á heima.

Þennan sama dag kom bókin út á punktaletri sem er, að því er best er vitað, í fyrsta sinn sem það er gert samhliða almennri útgáfu.

Fanney Þórðardóttir, dóttir höfundar, sá um hönnun og umbrot.

Brú yfir boðaföllin er gefin út af Óðinsauga útgáfu

Facebook síða Óðinsauga útgáfu

Steinunn Ósk höfundur Brú yfir boðaföllin

Steinunn Ósk höfundur Brú yfir boðaföllin

 

 

NÝJA BREIÐHOLT eftir Kristján Atla

Hvað myndum við gera ef allt færi á versta veg, ef Ísland myndi einangrast frá umheiminum og innviði hins siðmenntaða samfélags myndu hrynja á einni nóttu? Hvernig myndum við bregðast við og hverjir myndu erfa landið?

screen-shot-2016-12-08-at-11-27-42Þessum spurningum leitast rithöfundurinn Kristján Atli við að svara í fyrstu skáldsögu sinni, Nýja Breiðholt. Auk þess að vera greining á nútímasamfélagi fléttast söguþættir saman í nýstárlega spennusögu þar sem hver er sjálfum sér næstur og blóðhefndin ríkir að sið hinna fornu Íslendingasagna. Nýja Breiðholt er óvenjuleg og spennandi skáldsaga sem kannar hvert íslenskt nútímasamfélag stefnir með því að skoða hvað við eigum á hættu á að glata.

Í Reykjavík þrjátíu árum eftir flóttann mikla þar sem helmingur þjóðarinnar flúði land og skildi eftir borg án stjórnkerfis, skipulags og yfirvalda þurfa þau sem eftir sitja að reyna að bjarga sér með því sem þau hafa, en þurfa að berjast fyrir sínu og jafnvel útdeila eigin réttlæti. Eftir flóttann hafa innviðir borgarinnar smám saman brotnað niður og einni kynslóð síðar er lítið um nútímaþægindi eins og rafmagn, bifreiðar og þjónustustörf. Reykvíkingum hefur verið varpað aftur á miðaldir og þar mæta þeim ýmsar áskoranir við að reyna að koma upp skikkanlegu samfélagi á nýjan leik.

Í þessu umhverfi gengur raðmorðingi laus. Hann rænir ungum konum úr Breiðholtinu og þegar hann nemur hina ungu Mónu á brott hrindir hann óafvitandi af stað atburðarás sem mun breyta landslagi hinnar nýju Reykjavíkur. Númi, einstæður faðir Mónu þarf að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni og saga hans fléttast saman við sögu hinnar undarlegu Brittu sem hefur sérstakan áhuga á máli feðginanna. Saman steypa þau öllu á annan endann en gjörðir þeirra ógna viðkvæmum stöðugleika borgarinnar og gætu leitt til blóðugra átaka valdaafla á milli.

Útgáfuteiti Nýja Breiðholts

Útgáfuteiti Nýja Breiðholts

„Hér var einu sinni fólk. Út um allt, fólk. Búið í hverju húsi, bílar í hverri götu, svo mikið að stundum stoppaði allt. Bílar sátu fastir, fólk stóð í biðröðum, tróð sér jafnvel þúsundum saman eitthvert til að horfa á tónleika eða íþróttir. Samvera var það dýrmætasta sem hægt var að njóta en það áttaði sig enginn á því fyrr en fólkið var farið. Nú söknum við bara, það er það eina sem við gerum. Við söknum.“

Hvað myndir þú gera ef veröldin í kringum þig myndi hrynja á morgun? Velkomin í Nýja Breiðholt, farðu varlega!

Nýja Breiðholt er gefin út af Draumsýn bókaforlagi

Facebook síða Draumsýnar bókaforlags

______

Umfjöllun unnin í samstarfi við : Drápa forlag, Draumsýn bókaforlag og Óðinsauga útgáfa

Fátækt og mannréttindi

$
0
0

Opinn fundur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um fátækt og mannréttindi fer fram í dag, 9. desember klukkan 12.00 – 13.30 í Iðnó í tilefni af 10. desember, alþjóðlegum degi mannréttinda.

Fátækt er ekki eingöngu skortur á efnahagslegum gæðum, eignum, sparifé og atvinnuleysi. Fátækt felur einnig í sér skort á líkamlegum og félagslegum gæðum líkt og andlegri og líkamlegri heilsu. Þá getur fátækt falið í sér skort á tækifærum til þess að hafa áhrif á stjórnmál og tækifærum til þess að lifa með mannlegri reisn og virðuleika.

Auglýsing

Dagskrá fundarins:

12.00 Setning fundar 
Elín Oddný Sigurðardóttir, formaður mannréttindarráðs Reykjavíkurborgar

12.05 Upplifun barns af fátækt
Sanna Magdalena Mörtudóttir meistaranemi í mannfræði 

12.20 Breiðholtsvinkillinn 
Nichole Leigh Mosty, leikskólastjóri og formaður Hverfisráðs Breiðholts.

12.35 Volæðis teikning á Bessastöðum – ölmusa eða mannréttindi?
Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar og formaður EAPN á Íslandi

12.45 Fátækt er ekki aumingjaskapur
Ásta Dís Guðjónsdóttir samhæfingarstjóri PEP á Íslandi

12.55 Brauð og kökur
Einar Már Guðmundsson rithöfundur

13.15 Umræður og fyrirspurnir 

13.30 Fundarslit

Öll velkomin meðan húsrúm leyfir. Boðið verður upp á súpu og brauð.
Fundarstjóri: Magnús Már Guðmundsson

 

 

Grínlaust í desember – Jólakvæði

$
0
0

Grínlaust í desember

Snjólaust í desember
frostlaust í desember
– Ef jólaskapið væri ekki nema lauslega tengt þessu tvennu
Ef aðeins

Hins vegar mætti mín vegna gjarnan vera
sólarlaust í desember
– Uppvöxtur í skjóli og faðmi austfirskra fjalla hafa gert mig ævarandi frábitna jólasól
Það er eitthvað andfætis við sólarglennur á aðventu og jólum
Eða sunnlenskt
Þeir hafa líka alltaf verið svolítið sérstakir fyrir sunnan,
sunnan við sól og sól um jól
Það er háttur sunnlenskra

Mín skýlausa krafa er
Sólarlaust í desember
– Annars verð ég þungbúin,
ríf seríurnar úr sambandi
Set aðventuandakt og jólahald á pásu
Gleðilaust

Stresslaust í desember
– Það eru ráðleggingar sálfræðinga,
boðorð lífsstílsþerapista
Krafa nútímans
Yfirlýst upplifun minimalista,
sjálfskipaðra sérfræðinga
og þeirra sem ævinlega eru með sjálfum sér í núvitundinni
Fyrir okkur hin er þetta streituvaldandi

Stresslaust í desember
– Álíka ólíklegt og að fæða barn í svefni
„Og þegar ég vaknaði var barnið fætt“
Einmitt!
Leiðin að jólunum er í gegnum stressið
Það yrði jólalaust í desember ef það yrði stresslaust í desember
Hvað vita minimalistarnir svosem?
Þeir halda bara litlu- jól

Sykurlaust í desember
eggjalaust í desember
– Sykur er fíkniefni,
dauði og djöfull í tólf sporum
Hámark
Egg eru antí – vegan
brúneggin síðustu naglar í kistu grænmetisætanna

Sykurlaust í desember
eggjalaust í desember
– Glætan!
Sykurbrúnaðar kartöflur og eggjapúns
Gamlir nautnaseggir og klafabundnir hefðarsinnar neita sér ekki um að neyta sykurs og eggja
Einhver verður að gæta barnanna og bændanna
varðveita hefðirnar
styðja landbúnaðinn
Grínlaust

Faðir fjármálaráðherra kom 500 milljónum til Flórída rétt fyrir þjóðnýtingu Glitnis

$
0
0

Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og bróðir fyrrverandi stjórnarformanns Glitnis, tók 500 milljónir króna út úr Sjóði 9 hjá Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. Feðgarnir forðuðu báðir miklum fjármunum úr Glitni fyrir hrun. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar í dag.

Auglýsing

„Úttekt úr safni – millif[ært]. til Flórída“ er skýringin við færslu Benedikts Sveinssonar á 400 milljónum króna úr Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. 1. október var gerð önnur færsla úr bankanum upp á hundrað milljónir króna með skýringunni „sj 9 selt og í usd“, sem gefur til kynna sama feril og í fyrri færslunni,“ segir í umfjöllun Stundarinnar. „Á árunum eftir síðustu aldamót var Benedikt umsvifamikill fjárfestir. Bjarni Benediktsson, sonur hans, var meðal annars fulltrúi fyrir hans hönd og hlutabréfa hans í olíufélaginu N1 og móðurfélagi þess, BNT ehf. Bjarni var stjórnarformaður beggja fyrirtækja þar til í árslok 2008 þegar hann hætti. Hann var því bæði þingmaður og umsvifamikill í viðskiptum með föður sínum á sama tíma.“

Benedikt er að finna í Panamaskjölunum en Stundin fjallaði ítarlega um félög Benedikts sem finna má í Panamaskjölunum í maí síðastliðnum. Þá hafði þegar komið fram að Bjarni Benediktsson átti félag á Seychelles-eyjum. Í frétt Stundarinnar frá maí síðastliðnum segir að Benedikt hafi stofnað „fyrirtæki á Tortólu í gegnum panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca. Fyrirtækið heitir Greenlight Holding Luxembourg S.A. og settist Benedikt sjálfur í stjórn þess ásamt eiginkonu sinni og móður fjármálaráðherra, Guðríði Jónsdóttur. Félagið var stofnað árið 2000 og var hætt að greiða umsýslugjöld af því til Mossack Fonseca árið 2010. Félagið var því virkt þar til eftir hrunið árið 2008.“

Á sínum tíma bauðst Skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn með nöfnum Íslendinga með eignir á lágskattasvæðum. Bjarni Benediktsson fundaði þá með skattrannsóknarstjóra um kaup á gögnum um Íslendinga í skattaskjólum sem meðal annars höfðu að geyma upplýsingar um hann sjálfan, fjölskyldu og viðskiptafélaga hans. Fjármálaráðuneytið setti kaupunum skilyrði sem reyndist erfitt að uppfylla. „Nafn fjármálaráðherrans var meðal gagnanna í pakkanum sem skattrannsóknarstjóra bauðst,“ segir í frétt sem fjölmiðillinn Reykjavik Media birti þann 3. apríl síðastliðinn.

Auglýsing

Þann 27. nóvember árið 2014 vakti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, máls á því í umræðum á Alþingi að hugmyndir hefðu verið uppi um að kaupa gögn með upplýsingum um skattaskjól.

„Ég hef átt fund með Skattrannsóknarstjóra vegna þessa máls og ráðuneytinu hefur jafnframt borist erindi fyrr á árinu frá Skattrannsóknarstjóra í tilefni af upplýsingum sem embættinu standa til boða,“ sagði Bjarni í svari sínu við spurningu Katrínar og bætti við: „Á fundi okkar Skattrannsóknarstjóra var farið yfir málið frá öllum hliðum og þar kom fram að í sjálfu sér væri ekkert sem kæmi í veg fyrir það að Skattrannsóknarstjóri gæti sótt þessar upplýsingar.“

Afskipti Bjarna Benediktssonar að kaupum Skattrannsóknarstjóra á gögnum um eignir Íslendinga erlendis eru rakin hér. Í umfjöllun Stundarinnar kom fram að ráðuneytið hefði sett fram skilyrði sem töfðu málið og minnt var á að Bjarni Benediktsson lagði mikinn kraft í að láta semja sérstakar griðareglur fyrir þá sem ættu falið fé í skattaskjólum.

„Þann 3. desember bárust þau skilaboð frá ráðuneytinu að það væri tilbúið að tryggja þær fjárheimildir sem nauðsynlegar væru að tveimur skilyrðum uppfylltum. Annars vegar mætti ekki gera samninga við aðra en þá sem væru „til þess bærir“ og hins vegar þyrftu greiðslur fyrir upplýsingarnar að ráðast af hlutfalli innheimtra skattkrafna sem af þeim leiddi.

Auglýsing

Skattrannsóknarstjóri greindi ráðuneytinu frá því að líklega yrði ekki unnt að uppfylla annað hinna tveggja skilyrða og þann 27. janúar 2015 óskaði embættið jafnframt eftir því að ráðuneytið skýrði betur hvaða skilning bæri að leggja í inntak hins skilyrðisins,“ segir í frétt Stundarinnar af málinu.

Í kjölfarið gagnrýndi Bjarni Benediktsson skattrannsóknarstjóra harðlega í fjölmiðlum. „Mér hefur þótt þetta mál vera að þvælast hjá embættinu alltof lengi og að ekki hafi allt staðist sem þaðan hefur komið,“ sagði ráðherrann í viðtali við RÚV þann 7. febrúar. „Auðvitað getur það ekki komið til greina að við ætlum að fara að greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna.“

Bjarni sagði jafnframt að málið strandaði „svo sannarlega ekki á fjármálaráðuneytinu“ en ljóst er að þegar þetta var haft eftir ráðherranum var skattrannsóknarstjóri í biðstöðu vegna þess að bréfi embættisins til ráðuneytisins hafði ekki verið svarað. Bjarni varð því uppvís að því að segja almenningi ósatt í viðtali, sem er það sama og ritari Sjálfstæðisflokksins gagnrýnir Sigmund fyrir. Sigmundur er þó ekki flokksfélagi ritarans og því virðast gilda aðrar reglur.

Auglýsing

Bjarni lét sér ekki nægja að segja almenningi ósatt vegna kaupa Skattrannsóknarstjóra á gögnum um einstaklinga í skattaskjólum, þar sem nafn hans og fjölskyldumeðlima var að finna, heldur sagði hann Alþingi ósatt um málið. Í munnlegri skýrslu sem Bjarni flutti á Alþingi síðasta vor sagði hann að þegar skattrannsóknarstjóra hefði boðist að kaupa gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum hefði fjármálaráðuneytið „eingöngu spurt að því hvort skattrannsóknarstjóri teldi eitthvert gagn af því fyrir meginstarfsemi embættisins að fá gögnin keypt“ og „aldrei gert ágreining um verðið“.

„Vorið 2014 bauðst skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn um skattaskjólsstarfsemi Íslendinga og þann 9. september sama ár barst fjármálaráðuneytinu formlegt erindi vegna gagnanna. Sama dag lagði Bjarni Benediktsson fram fjárlagafrumvarp ársins 2015 þar sem lagt var til að framlag til embættis skattrannsóknarstjóra lækkaði um 39,4 milljónir króna frá yfirstandandi ári, að frátöldum 11,3 milljóna launa- og verðlagsbótum. Þann 23. október fundaði svo Bjarni Benediktsson með skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra vegna mögulegra kaupa á gögnunum,“ segir í umfjöllun Stundarinnar um málið.

Ummæli Bjarna um að hann hafi ekki verið að þvælast fyrir eru því í algjörri andstöðu við raunveruleikann. Á mannamáli er slíkt kallað að hagræða sannleikanum eða einfaldlega að ljúga, enda setti ráðuneyti Bjarna Benediktssonar það sem skilyrði að greiðslur fyrir upplýsingarnar yrðu að ráðast af hlutfalli innheimtra skattkrafna sem af þeim leiddu.

Bjarni Benediktsson lét skattinum í té rangar upplýsingar um varnarþing Falson & Co. Hann hefur viðurkennt að hafa talið fyrirtækið skrásett í Lúxemborg. Þar af leiðir að annað hvort gaf hann skattinum rangar upplýsingar um fyrirtækið eða laug að almenningi þegar upp um málið komst. Við vitum einfaldlega ekki hvað hið rétta er. Þá hefur Bjarni sagt Alþingi ósatt og átt beinan þátt í að tefja kaup skattrannsóknarstjóra á mikilvægum gögnum sem vörðuðu hann sjálfan og fjölskyldu hans. Í tilraunum til þess tók Bjarni sig meira segja til og réðst opinberlega á skattrannsóknarstjóra og reyndi með því að grafa undan trausti almennings á verkum stofnunarinnar.

Hvað sagði Bjarni við þingið? „Við gerðum aldrei ágreining um verðið. Við gengum út frá því á sínum tíma að verðið yrði allt að fimmfalt það sem á endanum varð niðurstaðan og embættið bar hitann og þungan af öllum samskiptum vegna þessa máls og gerði vel í því að ná niðurstöðu sem hefur gagnast embættinu og þar með stjórnvöldum í þessari baráttu.“

Það er algjörlega ljóst að Skattrannsóknarstjóri lagði þann skilning í skilyrði fjármálaráðuneytisins að um athugasemd við verð á gögnum væri að ræða – enda gerð krafa um að endursamið yrði um verðið.

Í bréfi embættisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá 10. febrúar 2015 er skilyrðinu þannig lýst að fjármálaráðuneytið vilji að „mögulegt sé að skilyrða greiðslur til seljanda gagnanna við hlutfall af innheimtu“.

Útlendingastofnun hunsaði ítrekað neyðarköll hælisleitandans sem kveikti í sér

$
0
0

Hælisleitandinn sem kveikti í sjálfum sér hafði sýnt ítrekuð merki þess að vera svo langt leiddur af örvæntingu og vonleysi að þeir sem þekkja til málsins tala um að tímaspursmál hafi verið hvenær hann gripi til slíkra örþrifaráða. Skipulags- og áhugaleysi á aðstæðum hælisleitenda skapi andrúmsloft vonleysis meðal fólks sem hingað sækir.

Auglýsing

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að húsnæði Útlendingastofnunar í Víðinesi á þriðja tímanum síðastliðinn miðvikudag, en þar hafði hælisleitandi hellt yfir sig bensíni og kveikt í.  „Maðurinn, sem er illa brunninn, var fluttur á sjúkrahús, en ekki er vitað frekar um líðan hans á þessari stundu. Þetta var annað útkallið sem lögreglan sinnti í Víðinesi í dag, en í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig. Ekki kom þó til þess, en maðurinn var fluttur á lögreglustöð á meðan unnið er í máli hans. Áfallateymi Útlendingastofnunar var kallað út til að hlúa að íbúum og starfsfólki í Víðinesi,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér frá íbúum Víðiness.

Kvennablaðinu barst ljósmynd af manninum sem kveikti í sjálfum sér, frá íbúum Víðiness. Íbúar eru mjög skelkaðir eftir atvikið og hugsi yfir því að ítrekaðar beiðnir um aðstoð til handa manninum hafi verið hunsaðar.

Maðurinn sem er frá Makedóníu hafði samkvæmt heimildum Kvennablaðsins sýnt af sér einkenni alvarlegs þunglyndis um nokkurn tíma. Vinir og kunningjar mannsins í Víðinesi höfðu um leið óskað þess að hann fengi aðstoð. Kvennablaðið veit til þess að öryggisverðir á staðnum og þjónustuteymi Útlendingastofnunar hafði borist ósk um að gripið yrði inn.

Viðmælendur blaðsins, hælisleitendur og fólk sem starfar með hópnum, er slegið vegna málsins. Öllum ber saman um að skipulags- og sinnuleysi hafi orðið til þess að maðurinn greip til slíkra örþrifaráða. Greina má þreytu meðal þeirra sem sinna málaflokknum.

Maðurinn sem er á þrítugsaldri hafði nýlega verið hafnað um landvist hér og átti von á að vera vísað úr landi. Íbúar Víðiness eru slegnir eftir atvikið sem ýtt hefur undir almennt vonleysi á staðnum. Í samtali við íbúa kemur fram að einangrunin sé því sem næst algjör. Íbúarnir fái mat sem sé líkt og skepnufóður, kaldur, ólystugur og einhæfur. Þá sé Víðines nokkuð úr leið þannig að nokkuð mál er að komast í samskipti við aðra en þá sem bíða hælis.

Hljóp um í ljósum logum

Atvikum er lýst þannig að hælisleitandinn hafi hellt yfir sig bensíni og kveikt í sjálfum sér innandyra. Hann hafi síðan í ljósum logum hlaupið út. Íbúarnir eru almennt í miklu áfalli eftir atvikið. Þá reynist mörgum erfitt að sjá að þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt hafi verið að í óefni stefndi, hafi ekki verið gripið inn. Í samtölum við íbúa kemur fram að þau upplifi algjört sinnuleysi um velferð sína. Hælisleitendur njóta ekki heilbrigðistryggingar og verða því að reiða sig á Útlendingastofnun fyrir alla heilbrigðisþjónustu. Biðin eftir aðstoð getur tekið margar vikur og raunar er heilbrigðisþjónusta aðeins aðgengileg í neyðartilvikum.

Áfallahjálp í skötulíki – hælisleitendur urðu að þýða hvort fyrir annan

Sinnuleysi yfirvalda gagnvart íbúum Víðiness hafi svo endanlega verið staðfest þegar áfallahjálp barst íbúum aðeins í skötulíki eftir að hafa orðið vitni af því að einstaklingur kveikti í sér fremur en að eiga á hættu að fara aftur til heimalandsins. Áfallahjálpin barst í stuttum fundi með sjálfboðaliðum sem töluðu aðeins ensku. Það var hælisleitenda sjálfra að þýða fyrir þá sem ekki tala ensku. Jafnvel þegar einstaklingur reyni að enda líf sitt á sársaukafullan máta telji Útlendingastofnun það ekki forsvaranlegt að skaffa túlkun.

Íbúar á Víðinesi fá ekki svokölluð iKort þar sem þeim er skaffaður matur. Ikort koma með 8000 króna pening á viku fyrir þá hælisleitendur sem ekki fá mat úr mötuneyti. Í vasapeninga fá hælisleitendur kr 2500 á viku. Það segja íbúar gera að verkum að raunar eigi þau erfitt með að fara frá í lengri tíma því þá geti þau ekki borðað. 2500 krónur á viku séu fljótar að fara ef fólk sleppir máltíðunum á Víðinesi. Þau upplifa sig einskis virði, einangruð og finna fyrir vonleysi. Eftir atvikið sé fólk enn í þeirri stöðu að eiga erfitt með að fara af svæðinu en þörfin til að komast burt sé enn meiri en venjulega.

Viðmælendur Kvennablaðsins lýstu svefnleysi, martröðum og ugg.

Auglýsing

Íslendingar hæddust að örvæntingu mannsins

Fjallað var um atvikið í fjölmiðlum í kjölfarið. Á vef DV mátti lesa ógeðfelldar athugasemdir frá lesendum sem fögnuðu og gerðu grín að atvikinu. „Og þetta er fólkið sem við viljum fá til Íslands,“ skrifar Facebook-notandi í athugasemd við frétt sem DV.is. „Um að gera að lýsa upp skammdegið,“ skrifar annar. „Það er ekkert verið að spara bensínið, og ríkið borgar það fyrir hann,“ skrifar sá þriðji.

Sema Erla Serdar, baráttukona fyrir réttindum hælisleitenda, bregst við athguasemdunum og gagnrýnir mannfjandsamleg viðhorf á Facebook. „Hælisleitandi hellir yfir sig bensíni og kveikir í sér. Ég mun aldrei geta sett mig í spor einstaklings sem gerir svo og mun aldrei þykjast skilja hvað veldur því að einstaklingar grípi til slíkra örþrifaráða en hjartað í mér brestur þegar ég ímynda mér þjáningarnar og örvæntinguna sem sá einstaklingur hlýtur að búa yfir. Svona viðburður er átakanlega sorglegur og það er enginn sem gerir svo nema hann upplifi algjöra uppgjöf og úrræðaleysi.“

Sema segir viðburðinn endurspegla þær hræðilegu aðstæður sem Íslendingar bjóði hælisleitendum upp á. „Það hatur sem birtist á kommentakerfunum og samfélagsmiðlum í kjölfar fregna af svona hræðilegum atburði er líka óskiljanlegt. Athugasemdir eins og „Það veitir ekki af því að lýsa aðeins upp í skammdeginu“ og „vona að þeir kveiki allir í sér“ og „gat hann ekki fengið að vera í friði með sína brennu auminginn“ eru dæmi um viðbrögð við þessum sorgarfréttum. Ég mun aldrei skilja hvernig hægt er að búa yfir svona ótrúlega miklu hatri í garð annars fólks, hvernig hægt er að sýna svona mikla mannfyrirlitningu. Samkennd, umhyggja og kærleikur eru gildi sem við ættum öll að tileinka okkur. Auðmýkt, virðing og skilningur eru einkenni sem allt mannfólk ætti að búa yfir. Réttlæti, mannúð og jöfn tækifæri eru leiðarstef sem við ættum öll að fylgja. Það mun ég a.m.k. segja við skólakrakkana sem ég heimsæki á morgun til þess að ræða við um fordóma og hatursorðræðu. Það vil ég líka segja við þá sem hafa ekkert fram að færa nema hatur. Þeim vil ég líka senda knús. Svo langar mig að biðja þau um að velta því fyrir sér hvort viðbrögðin hefðu verið einhvern veginn öðruvísi ef ekki hefði verið um karlkyns hælisleitanda að ræða? Og þá hvers vegna?“

Spennan liggur í loftinu og undir jólatrénu

$
0
0

Þegar jólin nálgast þá rennur upp tími spennu- og glæpabókmennta. Vinsældir þeirra ár eftir ár sýna að Íslendingar geta einfaldlega ekki staðist góða fléttu. Norrænar spennusögur passa svo vel inn í skammdegið og kuldann sem umlykur allt yfir háveturinn. Í samstarfi við útgefendur þá fékk Kvennablaðið lista yfir sex bækur sem ættu að kæta alla aðdáendur góðra bóka.

Sjá einnig: Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð

Botnfall eftir norska höfundinn Jørn Lier Horst er um yfirlögregluþjóninn William Wisting. Afskornir fætur reka á land í litlum smábæ og William fer á stúfana. Horst er margverðlaunaður rithöfundur og hefur meðal annars unnið Glerlykilinn eftirsótta.

Bráð eftir Magnús Þór Helgason fjallar um Svein, sænsk-íslenskan jarðfræðing. Morð er framið þar sem hann vinnur á Skarðsheiði og hann þarf að standa í stappi við að sanna sakleysi sitt.

Sjöunda barnið er dönsk saga eftir Erik Valeur um hneykslismál í yfirstétt Danmörku. Leyndarmál, feluleikir og yfirhylmingar. Sjöunda barnið vann Glerlykilinn sem besta glæpasaga Norðurlanda.

Á meðan ég lokaði augunum fjallar um eina verstu martröð foreldra, barnsrán. Í umfjölluninni fyrir neðan má finna tengil í kafla úr bókinni.

Einfari eftir Hildi Sif Thorarensen hefur tengsl við Noreg, Bandaríkin og Ísland. Spennusaga með húmor sem heldur manni við lesturinn.

Nýja Breiðholt dregur upp framtíð í Reykjavík án laga og reglna. Þetta er fyrsta skáldsaga Kristjáns Atla og vísar hann í minni Íslendingasagna um blóðhefndir í drungalegu umhverfi.

NÝJA BREIÐHOLT eftir Kristján Atla

screen-shot-2016-12-08-at-11-27-42Hvað myndum við gera ef allt færi á versta veg, ef Ísland myndi einangrast frá umheiminum og innviði hins siðmenntaða samfélags myndu hrynja á einni nóttu? Hvernig myndum við bregðast við og hverjir myndu erfa landið?

Þessum spurningum leitast rithöfundurinn Kristján Atli við að svara í fyrstu skáldsögu sinni, Nýja Breiðholt. Auk þess að vera greining á nútímasamfélagi fléttast söguþættir saman í nýstárlega spennusögu þar sem hver er sjálfum sér næstur og blóðhefndin ríkir að sið hinna fornu Íslendingasagna. Nýja Breiðholt er óvenjuleg og spennandi skáldsaga sem kannar hvert íslenskt nútímasamfélag stefnir með því að skoða hvað við eigum á hættu á að glata.

Í Reykjavík þrjátíu árum eftir flóttann mikla þar sem helmingur þjóðarinnar flúði land og skildi eftir borg án stjórnkerfis, skipulags og yfirvalda þurfa þau sem eftir sitja að reyna að bjarga sér með því sem þau hafa, en þurfa að berjast fyrir sínu og jafnvel útdeila eigin réttlæti. Eftir flóttann hafa innviðir borgarinnar smám saman brotnað niður og einni kynslóð síðar er lítið um nútímaþægindi eins og rafmagn, bifreiðar og þjónustustörf. Reykvíkingum hefur verið varpað aftur á miðaldir og þar mæta þeim ýmsar áskoranir við að reyna að koma upp skikkanlegu samfélagi á nýjan leik.

Í þessu umhverfi gengur raðmorðingi laus. Hann rænir ungum konum úr Breiðholtinu og þegar hann nemur hina ungu Mónu á brott hrindir hann óafvitandi af stað atburðarás sem mun breyta landslagi hinnar nýju Reykjavíkur. Númi, einstæður faðir Mónu þarf að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni og saga hans fléttast saman við sögu hinnar undarlegu Brittu sem hefur sérstakan áhuga á máli feðginanna. Saman steypa þau öllu á annan endann en gjörðir þeirra ógna viðkvæmum stöðugleika borgarinnar og gætu leitt til blóðugra átaka valdaafla á milli.

„Hér var einu sinni fólk. Út um allt, fólk. Búið í hverju húsi, bílar í hverri götu, svo mikið að stundum stoppaði allt. Bílar sátu fastir, fólk stóð í biðröðum, tróð sér jafnvel þúsundum saman eitthvert til að horfa á tónleika eða íþróttir. Samvera var það dýrmætasta sem hægt var að njóta en það áttaði sig enginn á því fyrr en fólkið var farið. Nú söknum við bara, það er það eina sem við gerum. Við söknum.“

Hvað myndir þú gera ef veröldin í kringum þig myndi hrynja á morgun? Velkomin í Nýja Breiðholt, farðu varlega!

Gefin út af Draumsýn bókaforlagi

Facebook síða Draumsýnar 

EINFARI eftir Hildi Sif Thorarensen

einfariforsidargb72pEinfari er ólík hefðbundnum skandinavískum sakamálasögum að því leyti að þrátt fyrir mikla spennu þá er húmorinn aldrei langt undan. Uppbygging bókarinnar skapar sögunni sérstöðu með því að flétta saman lögreglurannsókn og ólíkum sjónarhornum sögupersóna. Með þessu móti tekst höfundi að setja á svið ógnvekjandi spennutrylli með einstökum persónum.

Ljóslifandi lýsingar og listilega skrifuð samtöl gera söguna mjög skemmtilega en höfundur bókarinnar hefur jafnframt einstakt lag á íslensku máli og er flæði textans til fyrirmyndar. Þetta er bók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara og síst þeir sem vilja lesa vel skrifaða spennusögu yfir hátíðirnar.

 

Einfari er gefin út af Óðinsauga útgáfu

Facebook síða Óðinsauga

MEÐAN ÉG LOKAÐI AUGUNUM eftir Lindu Green

Á meðan ég lokaði augunum

Einn, tveir, þrír….

kapa

Lísa Dale lokar augunum og byrjar að telja upp að hundrað, í feluleik með dóttur sinni. Þegar hún opnar augun er Ella, fjögurra ára gömul dóttir hennar, horfin. Það finnst hvorki tangur né tetur af henni. Lögreglan, fjölmiðlar og fjölskylda Lísu halda allir að þeir vita hver tók Ellu. En hvað ef sá sem tók Ellu er ekki ókunnugur? Hvað ef sá sem tók hana er sannfærð/ur um að það hafi í raun verið góðverk að taka hana? Og hvað ef þessi litla, saklausa stúlka á það á hættu að hverfa fyrir fullt og allt?

Á meðan ég lokaði augunum, eftir Lindu Green, hefur slegið í gegn á þessu ári. Hún fór í efsta sæti metsölulista Amazon í Bretlandi og búið er að selja réttinn á bókinni til fjölmargra landa um allan heim. Þessi bók er ekta sálfræðilegur spennutryllir þar sem við kynnumst sjónarhorni þriggja einstaklinga sem allir koma við sögu í ráninu á Ellu litlu.

Hér má sjá nokkra dóma um bókina:

„MJÖG spennandi bók um hvarf á litlu barni, ég almennt er EKKI hrifin af því að lesa bækur sem fjalla um lítil börn en ég get sagt ykkur með sanni að það er ekkert að óttast. Lesist.

– Kollster á Goodreads  

„Þetta er sálfræðitryllir sem fjallar um verstu martröð allra foreldra – um það þegar barn hverfur.  Ég get varla sagt að bók sem fjallar um svona atvik sé auðvelt að lesa, en höfundurinn hleypir sögunni áfram á snarpan hátt sem gerir lesturinn spennandi og áhugaverðan. Öruggur lestur, hraður og ótrúlega spennandi.“

– Susan á Goodreads

„Spennan verður nánast óbærileg – og svo eru óvænt flétta í lokin sem lokar sögunni á sannfærandi hátt. Hræðilega möguleg saga sem mun fá alla foreldra sem lesa hana til þess að vera varir um sig – og sína!“

– Sunday Mirror

Hér má sjá fyrri umfjöllun Kvennablaðsins um bókina og útgáfuna Drápu.  

Hér má sjá umfjöllun um rithöfundinn Lindu Green ásamt kafla úr bókinni. 

Meðan ég lokaði augunum er gefin út af Drápu forlagi

Facebook síða Drápu forlags  

SJÖUNDA BARNIÐ eftir Erik Valeur

í þýðingu Eiríks Brynjólfssonar

Sjöunda barnið er margverðlaunuð spennusaga eftir danska rithöfundinn Erik Valeur.

sjo%cc%88unda-barnid-forsida

Börnin sjö áttu eitt sameiginlegt – þau fæddust á fæðingargangi B á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Öll voru þau flutt í Fílaherbergið á hinu fræga og virta ungbarnaheimili Konungslund strax eftir fæðingu. Næstu mánuði fundu konurnar á Konungslundi fjölskyldur sem ættleiddu börnin. Þau uxu úr grasi víðs vegar um Danmörku án minnstu vitneskju um hvert annað og sameiginlega fortíð þeirra.  Eitt barnanna, það sjöunda, komst smám saman að leyndarmálunum um uppruna þeirra. Uppruna sem átti að halda leyndum hvað sem það kostaði.

Kona fannst látin á ströndinni milli Skodsborg og Bellevue, skammt frá barnaheimilinu Konungslundi. Það var fyrsta skrefið í margslunginni atburðarás þar sem hulunni er svipt af örlögum barnanna sjö og þeim sem báru ábyrgð á þeim. Höfðu ungfrúrnar á hinu mikilsvirta barnaheimili Konungslundi leynt hneykslismálum manna úr efstu stigum þjóðfélagsins í hálfa öld? Voru ættleiðingarnar aðferð til að fela hliðarspor frægra og háttsettra feðra með ungum konum sem var vikið til hliðar?

Hér má sjá tilnefningar, verðlaun og umsagnir um bókina:

  • Tilnefnd til Ísnálarinnar fyrir bestu þýddu glæpasöguna 2016 – þýðandi er Eiríkur Brynjólfsson
  • Besta norræna glæpasagan – Glerlykillinn 2012
  • Bókmenntaverðlaun Weekendavisen
  • Bókmenntaverðlaun Danska ríkisútvarpsins
  • Verðlaun Danske Bank fyrir bestu frumraun höfundar

„Skáldsaga, sem er svo góð að ég hlakka til að lesa hana aftur.“

– Weekendavisen, René Gummer

„Ein besta danska skáldsagan sem hefur verið gefin út í mörg ár.“  

– litteratursiden.dk

„Framúrskarandi skáldsaga.“

– 5 stjörnur – Vejle Amts Folkeblad

„Grípandi og dramatísk frumraun Erik Valeurs… Hún er meiriháttar!“

– 5 stjörnur – Berlingske Tidende, Niels Houkjær

„Mögnuð og flott frumraun.“

– 5 stjörnur – Ekstra Bladet

Gefin út af Draumsýn bókaforlagi

Facebook síða Draumsýnar bókaforlags

BRÁÐ eftir Magnús Þór Helgason

Brad_bokakapa_prent

Magnús Þór Helgason gaf nýlega út bókina Bráð, fyrstu spennusögu sína. Hann sinnti skrifum í baði og í lestinni til og frá vinnu. Að sögn Magnúsar kviknaði hugmyndin að sögunni þegar hann lá í baði og rifjaði upp sumur sem unglingur í sveit þar sem allir voru góðir og hjálpsamir. Slíkar aðstæður voru því kjörið sögusvið fyrir spennandi glæpasögu.

Bókin fjallar um Svein, sænsk-íslenskan jarðfræðing, sem stundar jarðfræðirannsóknir á Skarðsheiði. Þegar morð er framið í sveitasælunni breytist hugguleg sumardvöl hans í óvænta og óhugnanlega atburðarás. Lögreglan sinnir ekki starfi sínu sem skyldi og er Sveinn grunaður um morðið. Sveinn þarf sjálfur að finna sönnunargögn til að sanna sakleysi sitt.

Sagan er spennutryllir og gefur íslensku spennusagnaflórunni nýjan blæ þar sem lesandinn fær ekki strax að vita hver það er sem er myrtur og fær því að upplifa atburðarásina fram að morðinu ásamt því taka þátt í úrlausn málsins.

Bráð er gefin út af Óðinsauga útgáfu

Facebook síða Óðinsauga útgáfu

BOTNFALL eftir Jørn Lier Horst

screen-shot-2016-12-08-at-14-35-45Hvað gerir yfirlögregluþjónn þegar fjóra afhöggna vinstri fætur rekur á ströndina í litlum bæ í Vestfold?

William Wisting, yfirlögregluþjónn, hefur aldrei upplifað slíkt áður en hefur grun um að þetta geti tengst gömlum mannshvörfum. Aldraðir menn og geðsjúk kona hafa horfið skyndilega. Vissu þau eitthvað sem þau máttu ekki vita? Metsölu- og verðlaunahöfundurinn Jørn Lier Horst, höfundur Botnfalls, er einn besti glæpasagnahöfundur Noregs. Hann vann meðal annars Glerlykilinn 2013 fyrir bókina Veiðihundarnir. Í starfi sínu sem yfirmaður í rannsóknarlögreglunni hefur hann verið í hringiðu norskra sakamála og reynsla hans í starfi skín í gegnum skrif hans í bókinni.

„Mjög hugmyndarík og spennandi.“  Kurt Hanssen, Dagbladet

„Aftur slær Horst í gegn.“ Terje Stemland, Aftenposten

„Frábær glæpasaga“ Morten Abrahamsen, VG

Botnfall er fjórða bókin um yfirlögregluþjóninn William Wisting sem Draumsýn gefur út og njóta bækurnar um hann sífellt meiri vinsælda hér á landi sem og erlendis. Bækurnar eru nú gefnar út í 25 löndum og í Noregi hafa rúmlega milljón bækur um William Wisting selst. Hafin er framleiðsla á sjónvarpsþáttaröð sem byggir á sex bókum um William Wisting og er Botnfall ein þeirra bóka.

Gefin út af Draumsýn bókaforlagi

Facebook síða Draumsýnar bókaforlags

Umfjöllun unnin í samstarfi við : Drápa forlag, Draumsýn bókaforlag og Óðinsauga útgáfa


Viðurkenning Stígamóta til þátttakenda „Styttum svartnættið“

$
0
0

Viðurkenningu Stígamóta árið 2016 hlýtur hópur einstaklinga sem steig fram og sagði sögur sínar af kynferðisofbeldi í tengslum við fjáröflunarverkefnið „Styttum svartnættið.“ „Við erum ákaflega stolt af þeim og því starfi sem farið hefur fram á staðnum okkar allra og viðurkenningar ársins eru þeirra,“ segir í tilkynningu Stígamóta.

Auglýsing

Eitt af því ánægjulegasta sem við gerum á Stígamótum er að veita árlegar viðurkenningar fyrir mikilvægt starf í þágu málaflokksins okkar. Það höfum við gert síðan árið 2008. Við höfum veitt jafnréttisviðurkenningar, réttlætisviðurkenningar, sannleiksviðurkenningar, samstöðuviðurkenningar og ýmislegt fleira sem okkur hefur þótt mikilvægt.“

Þá segir að starfsfólk Stígamóta hafi í ár velt fyrir sér hvaða fólk væri verðugast til þess að hljóta þennan heiður. „Valið var auðvelt. Árið 2016 var ár Stígamótafólksins sem stóð fram og sagði sögur sínar og leyfði birtingu mynda af sér með tölurnar sínar sem tákna tímann sem leið frá því ofbeldi var framið á þeim og þar til þau sögðu frá ofbeldinu. Það voru þau sem voru talskonur og talsmenn Stígamóta í fræðslu og fjáröflunarátaki ársins „Styttum svartnættið“. Við erum ákaflega stolt af þeim og því starfi sem farið hefur fram á staðnum okkar allra og viðurkenningar ársins eru þeirra.“

Augnablik í amstri dagsins með íslenskum bókmenntum

$
0
0

Það er skemmtilegt að skoða og pæla í úrvalinu af íslenskum bókum sem koma út fyrir jólin. Það sem gerir gruflið enn betra er að geta lesið kafla úr bókinni. Að fá tilfinningu fyrir stemningunni, sökkva sér niður í annan heim í örlitla stund í miðju jólaamstrinu. Niðurstaðan er þó oftast sú að maður kaupir aukajólagjöf, handa sjálfum sér, svo að það sé nú alveg öruggt að maður hafi eitthvað að lesa í jólafríinu. Kvennablaðið í samstarfi við útgáfur fékk þrjá kafla senda til birtingar.

Sjá kynningu á fleiri íslenskum bókum: Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð

Bókaútgáfan Sæmundur gefur út skáldsöguna Bjargræði eftir Hermann Stefánsson. Bókin er um Látra-Björgu sem var uppi á 18. öld en sagan gerist þó í nútímanum. Fjölmörg kvæði eftir Látra-Björgu birtast í bókinni.

Draumsýn bókaforlag gefur út smásagnasafnið Undarlegar og öðruvísi jólasögur eftir Eirík Brynjólfsson. Í bókinni segir frá því þegar frelsarinn reynir að koma vitinu fyrir ýmsa þekkta karaktera sem eru komnir á fremsta hlunn með að fremja illvirki. Áhugaverð pæling á þekktum söguminnum.

Utan þjónustusvæðis – krónika eftir Ásdísi Thoroddsen er gefin út af bókaútgáfunni Sæmundi. Ásdís er vel þekkt fyrir handritaskrif og leikstjórn en haslar sér nú völl í bókaskrifum.

UTAN ÞJÓNUSTUSVÆÐIS – KRÓNIKA eftir Ásdísi Thoroddsen

utan_thjonustusv_kapa

Utan þjónustusvæðis lýsir mannlífi í litlum byggðarkjarna við sjávarsíðuna þar sem margslungin bönd tengja sveitungana. Blóðbönd, bróðerni og kviðmægðir spinna fínan þráð sem fljótlega verður að spjörum á síprjónandi tungum íbúanna. Mitt í þessari flækju situr sambýliskona skólastjórans, Heiður Gyðudóttir. Í þessum sambandslausa firði reynir hún að ná til nemenda skólans. En eftir því sem Heiður brýst hatrammlegar um í viðjum vanans, þeim mun frekar rofnar sambandið við raunveruleikann. Þögnin þrengir að henni eins og þokan og þeir sem eitthvað segja tala tungum. Höfundur snýr hér þráð úr þeim gamla og nýja tíma sem standa samhliða í stað í íslenskri sveit. Fólksfækkun og framtaksleysi fléttast hér saman við hrun og innflutt vinnuafl.

Hér er gripið ofan í bók Ásdísar.

 

Kafli 21

Með morgninum eftir þorrablótið gerði snarvitlaust veður. Það hélst allan sunnudaginn og stendur enn, það ber utan gluggana og húsin og kominn er mánudagur, þessu ætlar ekki að linna. Fannfergið er gífurlegt, allt er á kafi, hús og bílar, hvar sem skaflar geta myndast. Þetta þýðir aðeins eitt, hvíld og hægagang fyrir mannfólkið. Ekki er farið út fyrir hússins dyr nema til gegninga, en auðvitað þarf að halda uppi skólastarfi. Þetta eru fyrstu dagar Heiðar í heimasetu. Hún væri gjörsamlega týnd ef hún hefði ekki Pawel að sinna.

Síminn hringir og Heiður hleypur til.

Heiður? Þórólfur hér.

Sæll.

Hné Heiðar kikna og því þarf hún ekki að hafa fyrir því að setjast. Þau þegja bæði og jafna sig á því að heyra rödd hvort annars. Síðan byrjar Þórólfur:

Var verið að berja þig á blótinu?

Ha? Já, alveg rétt. Ég var nú búin að gleyma því. Það hefur mikið gengið á síðan það gerðist. Hvernig veist þú það?

Þetta hefur spurst út. Hvers vegna lamdi hún þig, þessi kona?

Það veit ég ekki. Ég þekki hana ekki.

Ég veit hver þetta er, segir Þórólfur. Hún er eitt barnabarna Jónínu á Grund, en hvað hún heitir, veit ég ekki.

Jónína gamla á Grund, mér þykir ósköp vænt um hana.

Þú ættir að kæra þetta. Þetta er líkamsárás.

Ég á bágt með það, segir Heiður, þótt full ástæða sé til. Það væri leiðinlegt að kæra barnabarnið hennar Jónínu á Grund.

Um þetta tala þau fram og aftur og aftur og fram. Bylurinn dynur á glugganum og það fellur á Heiði værð, hún bætir við sögunni af Pawel og hnífstungunni til að lengja samtalið og fær í staðinn að heyra af kvennafari Agnars í Túni með gamansömu ívafi, en öll sveitin varð vitni að því að aðkomustúlka beit á agnið í nótt sem leið í bíl Agnars fyrir framan dansstaðinn. Allir unna honum þess, var kominn tími til. Stúlkan hlýtur að vera veðurteppt enn í Túni og það verður vonandi til þess að hún ílendist.

Svo taka við þagnir í símtalinu, fullar af þrá á milli þess sem er hjalað. Heiður spyr ekkert um reiðmennsku hjónanna á Felli.

Snjórinn nær upp að þakskeggjum bæjarhúsa og lokar dyrum, svo fólk þarf að grafa sig út. Slíkt fannfergi er svo sem ekki nýtt, en kemur ekki á hverjum vetri.

Í kolsvartri hríð og belgingi paufast tvær konur niður afleggjarann frá Mýri, önnur lítil og hin stór. Þær eru að flytja sig um set, þær mæðgur, snúa heim í Krók, því heimilisfólkið kom í sveitina aftur fyrir blót. Aðgerðin á Friðgeiri heppnaðist vel. Hann bauðst til að skutla þeim þegar hríðinni linnti, en Kristín vill ekki skulda neinum neitt. Svanur vildi heldur ekki renna eftir þeim, sagði að veðrið væri of vont, sagði þeim að bíða, svo að þær ganga.

Kristín tíndi til hlýjar spjarir á Guðrúnu og færði hana í þær, því Guðrún hreyfði sig ekki til þess.

Mamma, ég vil ekki fara.

Svona nú, hjálpaðu til og stingdu handleggnum í ermina.

Ég vil vera lengur hérna.

Guðrún mín, við eigum ekki heima hér. Við áttum bara að vera hér stuttan tíma.

Ekki aftur í Krók.

Hnepptu sjálf.

Mamma, það er vont í Króki. Mjög vont.

Kristín setti stóran trefil fyrir vitin á Guðrúnu til varnar gegn hríðarkófinu, svo að síðustu orð Guðrúnar köfnuðu í ullinni. Batt hann síðan í kross um kroppinn. Stakk aukahosum í vasann til öryggis.

Guðrún er döpur yfir því að fara úr fína húsinu að Mýri og til baka í holuna í Króki. Hún er döpur yfir því að þá hittir hún nýja kennarann sinn, hana Bergljótu, alla daga, heima og líka í skólanum. Og svo þennan Svan.

Heiður brýst út í veðrið til þess að líta til með hænunum. Sér til undrunar kemur hún auga á að búið er að gefa þeim. Hún tínir eggin saman í plastfötu og lokar á eftir sér. Undrast stöðugar heimsóknir ókunnugra og afskipti af þessu púdduhúsi.

Ásdís Thoroddsen leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi hefur skrifað fjölda handrita fyrir styttri og lengri kvikmyndir og þætti – en haslar sér nú í fyrsta sinn völl í klassískum sagnaskáldskap.

Ásdís Thoroddsen leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi hefur skrifað fjölda handrita fyrir styttri og lengri kvikmyndir og þætti – en haslar sér nú í fyrsta sinn völl í klassískum sagnaskáldskap.

Hér má sjá ritdóm eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur

Utan þjónustusvæðis – krónika er gefin út af Bókaútgáfunni Sæmundi

Facebook síða Sæmundar Bókaútgáfu 

 

UNDARLEGAR OG ÖÐRUVÍSI JÓLASÖGUR eftir Eirík Brynjólfsson

Hvað gerir lítil, svöng og ísköld berfætt stelpa sem er að selja eldspýtur í hríðarbyl í Kaupmannahöfn á aðfangadag og gengur fram hjá uppljómuðu húsi þar sem allt er til sem hugurinn girnist? Og hvað gerir frelsarinn litla stúlkan fær vonda hugmynd? Til hvaða ráða  grípur litla gula hænan þegar hún finnur fræ og hin dýrin nenna ekki að hjálpa henni að baka. Og hvar kemur frelsarinn inn í það mál? Og fátæku hjónin sem eiga tvö börn, Hans og Grétu, og það eru að koma jól. Læra þau af ævintýrinu um Hans og Grétu? Og hefur frelsarinn lesið ævintýrið? En hin fátæku hjónin sem eiga tvö börn sem heita Jón og Guðrún og hafa ekkert ævintýri að styðjast við! Hvernig fer fyrir þeim?

Í Undarlegum ogodruvisi_jolasogur-kapa öðruvísi jólasögum segir frá því þegar frelsarinn reynir að koma vitinu fyrir ýmsa sem eru komnir á fremsta hlunn með að fremja illvirki. Stundum tekst honum ætlunarverk sitt, stundum ekki og stundum þarf hann að gera málamiðlanir.

Eiríkur Brynjólfsson er kennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, rithöfundur og þýðandi. Hann var tilnefndur til Ísnálarinnar fyrir best þýddu glæpasöguna, Sjöunda barnið eftir Erik Valeur. Sjá nánari umfjöllun hér. 

Við kíkjum á brot úr sögu þar sem Frelsarinn reynir að kom í veg fyrir hræðilegar afleiðingar kreppunnar:

Kalli Kreppa hafði verið að leita að hentugum stað til að láta illt af sér leiða. Hann var núna staddur á lítilli eyju. Það var kalt á eyjunni og kolniðamyrkur. Kalli fann fyrir tilhlökkun. Honum fannst langskemmtilegast að ýta undir kreppu í kulda og myrkri.

Þetta virðist vera áhugaverður staður. Og ekki laust við að hann sé dálítið kreppulegur, hugsaði Kalli og fylltist heimilislegri tilfinningu.

Það voru fáir á ferli í höfuðborg eyjunnar og fólk með fullu viti hélt sig innan dyra og horfði á sjónvarpið. Kalli ráfaði um auðar götur borgarinnar. Þetta var sem sagt áður en erlendir ferðamenn fóru að hópast þangað. Í miðbænum var hvítt hús sem eitt sinn var fangelsi en var núna bústaður fangavarða. Fyrir framan það tvær myndastyttur og drengur sem virtist vera að föndra. Forvitni Kalla vaknaði og hann staðnæmdist til að skoða hvað væri á seyði.

Drengurinn var meðalmaður á hæð með dökkt hár og sitt að aftan. Hann var með bréf sem hann braut saman í skutlu og lét svífa í fagurlegum boga yfir húsið. Það vildi til að það var logn.

Hentu henni svo til baka aftur, aðeins hærra, hrópaði drengurinn.

Kalli Kreppa gekk til drengsins. Hvað ertu að gera? spurði hann vingjarnlega.

Við erum í yfir, ég og vinur minn, sagði drengurinn glaður. Hann er hinum megin við húsið.

Hvað er yfir?

Jú, sko … Æ, bíddu aðeins. Svo hljóp hann og greip skutluna sem sveif til baka. Sjáðu, sagði hann svo og tók upp penna. Þetta bréf heitir til dæmis FLGroup og nú skrifa ég á það: Ég kaupi bréfið fyrir einn milljarð, bý til skutlu og skutla henni yfir til bróður míns sem er þá búinn að græða milljarð. Svo skrifar hann kannski tvo milljarða á bréfið og skutlar því til mín og þá hef ég grætt tvo milljarða. Og þessi þarna á banka og lánar okkur gommu af peningum, sagði hann og benti á ljóshærðan, vatnsgreiddan dreng sem stóð afsíðis undir húsvegg. Skilurðu? bætti hann við.

Svo sannarlega, sagði Kalli Kreppa og glotti. Þetta er sko sniðugt.

Ég get líka selt sjálfum mér, sagði drengurinn. Þá skutla ég bréfinu mjög stutt og gríp það sjálfur.

Þetta er svo sannarlega flottur leikur, þetta yfir, sagði Kalli. Honum sá í hendi sér að allt á góðri leið en að þeir þyrftu að leika aðeins lengur áður en hann hæfist handa. Hann bætti því við: Megið þið vera svona lengi úti? Það er komið niðamyrkur.

Þessi leikur er langskemmtilegastur í kolniðamyrkri, sagði drengurinn, því þá sér enginn hvað við erum að gera. Fattaru.

Ég skil. En hvað segja foreldrar ykkar? Leyfa þeir ykkur að vera úti svona lengi? Klukkan er orðin ellefu.

Drengurinn horfði á hann hissa. Sagði svo:

Pabbi segja að við séum flottastir, fínastir og bestir og allt það. Kallar okkur útrásarvíkinga.

Í sama bili birtist andlit í einum glugga hússins og drengurinn vinkaði og sagði: Sjáðu, þarna er pabbi. Hann er svona ráðherra. Hann ræður en leyfir okkur að gera það sem okur sýnist.

Þetta verður ekki betra, hugsaði Kalli Kreppa með sér. Þetta er gósenland fyrir kreppugerðarmann eins og mig. Ég skal búa til þá mestu óáran sem landið hefur séð frá móðuharðindunum.

Hann vissi ekki af hverju honum duttu móðuharðindin í hug því það sér hvert barn að sá samanburður er gjörsamlega út í hött. En samt …

Með aðstoð foreldra drengjanna legg landið í rúst, hélt hann áfram að hugsa. Það verður hreinn barnaleikur. Allur undirbúningur er pottþéttur. Drengirnir hafa unnið mjög gott verk. Þetta er spilaborg sem þarf aðeins að blása á. Afleiðingin verður atvinnuleysi og fátækt, fjöldagjaldþrot þegar verðtryggðar húseignirnar hrynja yfir fólkið eins og við jarðskjálfta. Og best af öllu er að þetta gerist á jólunum. Og Kalli hló.

Skyndilega lýstist umhverfið af gulri og hlýlegri birtu. Kalli var svo upptekinn af hugsunum sínum að hann gaf birtunni engan gaum en hélt áfram að draga upp í huga sér myndir af hörmungum kreppunnar.

Veistu hvaða afleiðingar ráðagerðir þínar hafa? spurði rödd sem kom innan úr birtunni.

Ef þú ert að spurja hvort ég viti hvað ég er að hugsa um þá er svarið já. Ég veit hvað ég er að hugsa um, sagði Kalli önugur yfir þessar truflun.

Það er einmitt það sem ég átti við, sagði röddin.

Bíddu hægur. Ég er að hugsa, sagði Kalli. Hvernig getur þú vitað hvað ég er að hugsa?

Ég les hugsanir, sagði röddin.

Lest hugsanir. Huh! Hver ertu?

Ég er frelsari, sagði frelsarinn  og steig fram úr birtunni

Jæja, og lest hugsanir. Gott og vel. Og ert frelsari. Hvað ertu þá að gera hér? Ekki þarfnast ég frelsunar og því síður hann, sagði Kalli og benti á drenginn sem enn var að skutla hlutabréfum yfir hvíta húsið bak við myndastytturnar. Eða vinir hans.

Vertu ekki of viss um það, sagði frelsarinn og glotti. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn.

Það er örugglega mjög gaman að ræða við þig en ég má bara ekki vera að því, sagði Kalli. Hér er allt til reiðu fyrir mig og tíminn er dýrmætur. Á þessum stað er allt sem ég þarfnast, sagði Kalli kreppa óðamála. Hér er gjörspillt stjórn. Hér eru strákar sem eru svo ótrúlega ósvífnir að ég man ekki annað eins. Hef ég þó komið víða við.

En hvað með afleiðingarnar sem þú varst að upphugsa áðan. Atvinnuleysið? Fátæktina og hörmungar sem bitna á almenningi, spurði frelsarinn. Afleiðingarnar sem koma nipur á alþýðu og hún hefur ekkert til sakar unnið.

Alþýðan hefur ekkert til sakar unnið, hermdi Kalli eftir frelsaranum. Þetta snýst ekki á það. Þetta er kreppa. Hefurðu heyrt talað um kreppu án atvinnuleysis og fátæktar? Hefurðu heyrt um kreppu þar sem alþýðunni líður vel og hefur það huggulegt? Hvurslags kreppa væri það eiginlegana?

Öðruvísi jólasögur er gefin út af Draumsýn bókaforlagi 

Facebook síða Draumsýnar bókaforlags

 

BJARGRÆÐI eftir Hermann Stefánsson

bjargraedi_kapaHér segir frá Látra-Björgu (1716-1784) sem leiðir lesendur um söguna og er sjálf leidd um rangala reykvískrar samtímamenningar. Látra-Björg er einhver stórbrotnasti karakter Íslandssögunnar, kraftaskáld á tímum þegar kvæði hafa sannarlega áhrif á veruleikann og koma góðu eða illu til leiðar, sægarpur hinn mesti og fiskin með eindæmum, grálynd og ögrandi galdrakerling og hin versta grýla sem menn bæði óttuðust og virtu, húskona og eigin húsbóndi við svaðalegar aðstæður á Látrum, flökkukona í móðuharðindunum, brennd af háskalegum ástum samkvæmt þjóðtrúnni. Látra-Björg var sérkennilegt, stórbrotið og kraftmikið skáld og furðu nútímalegt, lét engan eiga neitt inni hjá sér, hitti alltaf í mark í samskiptum við valdsmenn og kyssti ekki vöndinn. Í þessari bók er Björg Einarsdóttir komin til Reykjavíkur í ókunnum erindagjörðum við ókunnugan mann og þótt hún sé fædd fyrir 300 árum hefur hún aldrei verið nær okkur. Hvað vill hún? Hverra erinda gengur hún? Hver er sagan á bakvið goðsögnina um Látra-Björgu? Bókina prýðir fjöldi kvæða eftir Látra-Björgu.

Hermann Stefánsson er höfundur fjölda bóka og vakti mikla athygli fyrir síðustu skáldsögu sína, Leiðina út í heim, sem tilnefnd var til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut einróma lof gagnrýnenda.

Við grípum ofan í upphaf bókarinnar þar sem skörungurinn Látra-Björg situr á reykvísku kaffihúsi og lætur móðan mása.

„Þú hebbðir ekki átt að boða mig hingað, Tómas, ég á ekkert erindi á þennan stað, á kaffihús í miðbæ Reykjavíkur, ég hefði ekki látið tilleiðast fyrir neinn nema þig, hinn ástfangni fer um í þreifandi myrkri, svo mikið er víst, og þá grípur hann til ýmissa ráða og ýmislegt verður fyrir honum í ljósaskiptunum, en þú mátt ekki misnota trúnað minn, ég hefði ekki látið tilleiðast fyrir annan en þig, sem ert utanveltu og utangarðs, í raun og veru, það er nóg til af fólki á þessum tíma þínum sem heldur sig utangarðs en er það ekki, fólki sem aflar sér dágóðra tekna og hefur fulla burði til að vera hamingjusamt en sífrar þó án afláts, lítur eiginlega á vesöld sem heiðursmerki og keppir sín á milli í volæðisbarlómi, snerpist við að eiga sem mestum andbyr að fagna. Þetta er meiri öldin sem þú lifir, Tómas, hún er fráleit, fólk trúir engu, trúir ekki einu sinni á spádóma, á að hægt sé að sjá í gegnum glufur tímans og yfir í aðra tíma, smeygja sér inn og út um glufurnar. Á minni tíð höfðu menn þó örlitla rænu, gerðu sér ljóst að tíminn er háll og orð hafa magn. Tíminn þinn er skekktur, sýn hans svo kolröng að hann sér ekki einu sinni sjálfan sig í nokkru réttu ljósi, og hvernig ætti hann þá að geta séð inn í nokkra aðra tíma, litið aðra tíma sönnu ljósi, skilið eitthvað annað en sjálfan sig, sem hann botnar þó ekkert í? Engir tímar hafa verið falskari, Tómas, þú veist það, þig rennir allavega grun í það, einhver smáræðis glæta lifir með þér, annars værirðu ekki svona úti á kantinum, þetta eru mestu dekurtímar sem mannkyn hefur lifað, sjálfsvorkunnarsamir og eftirlátssamir, þóttafullir og vílgjarnir. Jafnvel valdsmennirnir ykkar, þeir kunna ekki að vera valdsmenn, það er engin leið að ganga á hólm við þá því þeir eru hreint engir valdsmenn heldur ofsóttir þrælar, ambrandi fórnarlömb, með því móti kynna þeir sig og þanneginn tala þeir, eins og menn á hrakhólum, þeim sé vorkunn, fremur en að þeir taki ábyrgð á gjörðum sínum og beri höfuðið hátt, nei, þeir stíga á stokk og berja lóminn ef einhver vogar sér að rétta fram mynd af þeim sjálfum. Þeir eru holdtekja sinnar tíðar, ekki undantekning heldur reglan, fyrirmyndin að reglunni, þess vegna hata þá allir, almúginn og undirokaðir, ekki af réttri óbeit heldur í bland við sjálfskennsl, þeir eru sjálfur andi tímans, andi skinhelgi og hræsni, yfirdrepsskapar og hroka.

Og það versta sem þessum tíma datt í hug, veistu hvað það var? Nú, auðvitað að hrófla upp þessu borgartildri, þessum ævintýralega heiftarsvíma, þessu makráða letidýri, þessum aumingja, þessu gegnumspillta, sjálfsblinda, skynvillukennda, ómálga hrúgaldi sem hreykir sér af löstum sínum og fyrirlítur allt sem satt er og gott, þessu meinbægna, sýndarklædda, yfirborðslega þunnildi, þessari værðarvoð. Og hvað skyldi nú vera það versta, Tómas, það versta sem fyrirfinnst í því versta, í hrúgaldinu Reykjavík, það sem mér er allra fjarlægast og þér sjálfum, Tómas, það sem þér og eðli þínu stendur fjærst? Það veistu, þú veist það sjálfur, það lægsta af öllu lágu á þessum guðsvoluðu tímum ykkar eru kaffihús í miðbæ Reykjavíkur, og þangað dregurðu mig, í gegnum aldirnar, blásaklausa konuna.

Ekki að ég sé stygg, óekki, ég hef aldrei verið stygg, ljúfa og góða kallaði mig mætur maður flandrískur og hlýr sem þekkti mig betur en margir. Ég er ekki stygg en þetta slytti í stórum heimi, þetta smáslytti sem þið kallið borg, og þessir hrákadallar í slyttinu sem þið kallið kaffihús, þau eru það versta, það allra versta. Og ekki vegna þess að kaffið sé vont, kaffi er mikið góður drykkur sem bætir lund og hressir geð til jafns við tóbak og þurrkaðan þyrskling, það veit góður guð, ekki þessvegna, heldur hins að fólkið sem samankemur á kaffihúsum er ekki þangað komið til að blanda geði, deila yl og gleði, eða drekka kaffi, ekki til að gæða sér á gómsætu kaffinu og hlusta á það sem aðrir hafa að segja í almæltum tíðindum og ómæltum, onei, heldur til að sýna sig og skoða aðra, eins og útstillingarmyndir, raupsamar styttur, hamingja og heilnæmi til sýnis. Eins og eitthvað geti teflt hamingjunni í meiri tvísýnu en að standa svona berskjalda.

Og jafnvel ekki einu sinni það, þú, í þínum ástarraunum og dauðabeyg, sérð í hendi þér tengslaleysið, það blasir við, fólk situr á kaffihúsinu og hefur varla áhuga á stillimyndinni af náunganum heldur sökkvir sér ofaní tölvurnar sínar, hver einstaklingur í sínum heimi, að stilla sér upp í enn meiri sýnd en sýndin á kaffihúsinu, ástleysið er algert, áhugaleysið algert, kuldinn eins og kaldast verður, hraksmánarleg meðferðin á sjálfi og sálum: Sogast þau inn í sultarheim, sálin völt á fæti, kveður við raust með kuldahreim, kvöl þeirra í Austurstræti. Allt þetta fólk býr við haf en samt er ekkert haf í vitund þess, ekki minnsti snertur af hafi, ekki högg á vatni eða nokkurt skynbragð á litbrigðin sjávarins, allt þetta fólk gengur um vetur eftir vetur í borgarhrúgaldi sem er fullt með svermi af hröfnum en enginn sér hrafnana, ég á við beinlínis sér þá, bið ekki einu sinni um að nokkurt manntötur kunni að lesa í flug þeirra og renni í grun hvað hljóðin merkja, hljóðbrigði krunks, gutlið og aðrar veðurspár, örfáir veita þeim athygli en hinir eru hreint ærlega staurblindir, hrafnar rúmast ekki í hugmyndavitundinni, þar rekst hvað í annars horn af öllu mögulegu tæi en að það sé pláss fyrir einn hrafn að smjúga í gegnum plasthúðina í skilvitin með sín skilaboð, onei, útilokað. Helst að það sé álitin færni að sjá ekki hrafna, að sjá ekki nokkur heimsins teikn, því enginn maður getur spáð fyrir um svo mikið sem skúr af því hvernig þykkir upp og blikur koma á himin og skiptir um vindátt og ískrar í fjöllunum, enginn þekkir merkingu hundslappadrífu, sem veit undantekningarlaust á sjóskaða, enginn skilur hvernig flyðran skiptir litum og skyggist í roðið ef ofankoma er í grennd, að fástirnt veit á frost.

Sérðu þessa konu þarna, já, mændu svolítið á hana, hún mun ekki taka eftir því, þessi kona veit örugglega ekki muninn á hrafni og álft, hún þekkir ekki hljóðið í einum einasta fogli, hún hefur aldrei séð fisk í sjó, hvað þá dregið hann þaðan, ekki einu sinni komið inn í fiskbúð, ekki séð neitt sem synt hefur í hafinu öðruvísi en í vakúmplasti. Eða sjáðu manninn þarna, þennan spraðibassa, hann er ekki einu sinni áttaður, í hans huga eru suður og norður eitt og hið sama og heitir „þangað“, hann hefur fest í huga sér ákveðnar leiðir til að komast á milli staða sem stutt er millum en ekki áttirnar, hann veit ekki áttirnar á hverri stundu, hvílíkt ástand, að vera óáttaður. Vafalaust sómapiltur og hún þarna sómastúlka, en tilvist þeirra er ekki í takti við gang veraldar og himintungla, fjöll og veður, heiminn, enda eru þau stödd í rassi veraldar, Reykjavíkurrassinum, þessum sem andskotinn skapaði á engum tíma, síðan sogaði hrófatildrið til sín allt úr öllum áttum eins og hafsvelgur, allt líf og allt lífmagn og alla atorku og allan kraft. Ekki það að borg er í sjálfu sér ágæt hugmynd, alveg prýðileg hugmynd, í útfærslunni gleymdist bara að tengja við líf og dauða. Það hefði verið hægt að hafa sauðfé í bland, vott af búskap og lífi í þyrpingunni, hægt að útdeila hverjum sínu útræði, hafa skepnur í reitum og halda við opnum kömrum, kúm á stangli, þó ekki væri meira, opnu klóaki, fremur það en þetta dauðhreinsaða, ógeðfellda þrifnaðaræði. Þrifnaður er góður en fyrr má nú rota en rauðrota, kenndi Kiljan ykkur þetta? Það stertimenni? Borg er góð hugmynd en illa útfærð drepur hún allt sálarlíf. Reykjavík er rauphneigð byggð, ráða þar andans pestir, löstur hver þar er látinn dyggð, léttvæg fundin sálar hryggð, mannkostir eru lestir.

Þú hebbðir ekki átt að boða mig hingað, Tómas, ég á ekkert erindi hingað, hvernig ætti það að vera, ég, Björg, og nei, ekki kalla mig Látra-Björgu, ég heiti það ekki, ég heiti Björg Einarsdóttir, þeir byrjuðu ekki að kalla mig Látra-Björgu fyrr en á nítjándu öld, í einhverju skensi, þeir Gísli Konráðs og félagar, og gekk varla hreinn einn hugurinn til. Ég kallaði mig aldrei annað en Björgu, ég heiti það. Fólk á næstu borðum er að horfa á okkur, ekkert er verra en kaffihús, ég segi það satt, þar hittir skrattinn ömmu sína og þú mig og ég þig, ég þig, þú mig. Því kynni ég betur ef á kaffihúsunum væri leitað að hughreystingu eða blessun guðs eða þess sem þú þó leitar, Tómas, en maður gengur ekki gegn vilja drott­ins, ég get sagt þér það strax, um erindin þín. En taktu mig ekki of bókstaflega, ekki lesa of mikið í það sem ég segi, ekki hugsa of þröngt, nóg hefur verið rangtúlkað í aldanna rás, faðirvorinu snúið upp á andskotann, öfund verið dubbuð upp sem hofmóðug siðprýði, harmur nefndur gleði og gleði sorg. Ég held mig á Látrum, allajafna, þyrfti reyndar að fá þig þangað við tækifæri, Tómas, en hrokanum er ekki fyrir að fara í mér, öðrunær, ég er bóngóð, menn hafa rægt mig án afláts í þrjár aldir, þeir um það. Nafni þinn Guðmundsson er ekki barnanna bestur, borgarskáldið það, en þó kem ég ef ég er beðin, ég kem vel fram við þá sem koma vel fram við mig, það hef ég alltaf gert, gerði alla tíð. Þeir sem hafa það ekki í sér að koma artarsamlega fram við annað fólk og sér lægra sett, það eru hundingjarnir sem baknaga og rægja þegar þeir fá eigið dramb og eigið eitur ómengað aftur í smettið, þeir vilja að fólk sé sér undirgefið. Ég er einmitt þannig, svo auðmjúk að jaðrar við undirgefni, en aldrei þýlynd, ég get aldrei unað slæmsku og illsku og undirhyggju og illu sinni og vondri sál og hraklegri framkomu og óærlegri, nei, ég uni því ekki, aldrei, Tómas, þú hefur ekkert slíkt í hyggju, er það nokkuð, Tómas?“

Hér má finna bókadóm eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur 

Hér má finna umfjöllun um útgáfuteitið í Hörpu ásamt upptöku af upplestri af kvæði eftir Látra-Björgu 

Bjargræði er gefin út af Bókaútgáfunni Sæmundi 

Facebook síða Sæmundar bókaútgáfu

Umfjöllun unnin í samstarfi við: Bókaútgáfuna Sæmund og Draumsýn bókaforlag

Matarhátíð Búrsins um helgina 10.–11. desember

$
0
0

Það verður líf og fjör í Hörpu um helgina og tilvalið að skella sér á Matarhátíð Búrsins og finna kannski gjafir fyrir sælkerana í fjölskyldunni, því þar verður hægt að finna fallegt matarhandverk sem er tilvalið í gjafir.

Markaðurinn er opinn 10.-11. desember og er opið frá 11-17 báða daga. Hátt í fimmtíu framleiðendur verða í Hörpu og fylla neðstu hæðina lífi og lykt.

1920090_746317952114082_6273069634726279712_n

Laugardagurinn 10. des er dagur móðir jarðar hjá Slow food og aðstaðdendur Búrsins eru að vinna með sömu gildi og Slow food. Það er að segja – Hreinn beinn og sanngjarn matur!

12821409_992129357491505_6219563009251436523_n

 

Til að skýra hugsunina á bak við þetta segir Hlédís Sveinsdóttir hjá Búrinu:

„Við viljum gefa neytendum og framleiðendum tækifæri á að tala saman, það er svo mikilvægt. Það hefur sýnt sig að upplýstir neytendur eru sterkir og samstaða þeirra getur breytt miklu.“

10670124_747008602045017_7834528621272202462_n

Kvennablaðið bað Hlédísi að gefa okkur dæmi um eitthvað sem vert væri að taka eftir á markaðinum nú í desember en af nægu er að taka:

„Á markaðinum verða t.d lausagöngu svín frá Bjarteyjarsandi og Lindarbrekku. Lífrænt lambakjöt frá Höllu Fagradal sem og lambakjöt frá okkar eina sláturhúsi í eigu bændanna á Seglbúðum. Þar eru lömbin tekin beint af heiðinni, fara aldrei af bænum. Hann Júlíus eggjabóndi ætlar líka að koma í bæinn og kynnist vonandi fleirum hænuvinum sem langar að fóstra hænur. “

12814016_992129037491537_2219887749164769148_n

Verður okrið ferðamannaiðnaðinum að falli?

$
0
0

Margir eru þeirrar skoðunar að græðgi Íslendinga sem starfa í ferðamannaiðnaði verði greininni að falli. Óhóflegt verðlag á gistingu, veitingum og þjónustu verði til þess að fæla fólk frá því að heimsækja landið.
Ragnar Gunnarsson er einn þeirra sem er þeirrar skoðunar og birti eftirfarandi stöðuuppfærslu á Facebook:

„Það vakti athygli mína í gær að hótelhaldarinn Friðrik Pálsson gekk eins og ekkert væri inn á allar fréttastofur landsins, vældi þar og skældi yfir háu gengi krónunnar og heimtaði að gengið yrði fryst.

Þannig að allir séu með það á hreinu selur þessi kotbóndi nóttina á € 300-1050 í þessum geitnakofa sem hann rekur sem hótel á bökkum Rangár. Þetta leggst út á 35-125.000.- ÍSK nóttin og þessi fíni morgunverður fylgir.

Fréttasnápar landsins eltu þennan okrara með grasið í skónum til að hlusta á hann kenna háu gengi krónunnar um að ferðamannaiðnaðurinn væri í mikilli hættu og það gæti bara orðið annað hrun ef ekki yrði gripið í taumana, og það strax.

Eitt er alveg á hreinu, ef ekki er hægt að reka hótel, bílaleigur, veitingastaði o.s.frv. á gengisvísitölu 160 þá má bara hætta strax, ég vil benda á að útfluttningsgreinar voru reknar um árabil á gengisvísitölu 127-130 – það er ekki svo langt síðan.

Í dag er staðan sú að gosflaska kostar á bilinu 290-380 kr. á bensínstöð, hamborgara ræfill er að skríða í þrjúþúsundkallinn, þokkalegur bílaleigubíll kostar c.a. 25.000 dagurinn, sæmilegt hótel 25-125.000 nóttin, að stinga stórutánni í drullupoll á Reykjanesi 8000 kr. o.s.frv.

Það er deginum ljósara að ef ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi hrynur er það fyrst og fremst græðgi og okri þeirra sem að greininni standa að kenna en ekki gengi krónunnar. Ég held að fréttamenn hafi allt annað og betra að gera en hlusta á vælið í Friðriki Pálssyni.“

Auglýsing

Alþingi Íslendinga, þjóðin er þinn herra, ekki satt ? Opið bréf til löggjafans

$
0
0

Alþingi, það er réttur þinn og skylda, það er hlutverk þitt að stjórna landinu í samræmi við vilja fólksins sem byggir það. Þú hefur hins vegar engan rétt til þess að brjóta gegn vilja fólksins þegar það hefur tjáð hann þannig að ekki verði um villst. Þess vegna skaltu hafa það í huga að það yrði eftir því tekið ef þú samþykktir það frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 sem nú liggur fyrir og litið á það sem dæmi um ginnungagap milli þings og þjóðar, brot á rétti þess síðari, framið af þeim fyrri.

Þú glataðir trausti þjóðarinnar við Hrunið og þér hefur gengið illa að vinna það aftur. Fjárlagafrumvarpið veitir þér núna tækifæri til þess sannfæra þjóðina um að þú berir hag hennar þér fyrir brjósti, fyrst og fremst, og hafnir því að gera mistök einstakra ráðherra að þínum, þótt meðal þeirra kunni að vera formaður þess stjórnmálaflokks sem telur innan sinna raða fleiri einstaklinga sem mynda þig en nokkur annar flokkur. Það er einnig eins gott fyrir þig, kæra Alþingi, að gera þér grein fyrir því að ef þú samþykkir fjárlagafrumvarpið í núvernandi mynd er fullt eins líklegt að forsetinn neyðist til þess nýta sér málsskotsréttinn og vísa því til þjóðarinnar, vegna þess að það gengur klárlega í berhögg við þann vilja sem hún hefur tjáð á ýmsan máta.

Nú skulum við skoða röksemdir sem styðja þá skoðun mína að fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, stangist á við vilja þjóðarinnar og sé í raunréttri helber dónaskapur:

Heilbrigðiskerfi landsins er ekki þess megnugt að sinna hlutverki sínu vegna langvinns fjársveltis, sem eitt og út af fyrir sig hefði nægt til þess að lama það, en hefur líka getið af sér glundroða sem hefur bætt gráu ofan á svart og heimtar endurskipulagningu kerfisins. Á síðustu átján mánuðum hefur þjóðin vaknað til meðvitundar um vandamál heilbrigðiskerfisins og sett fram harðorðar kröfur um að betur sé hlúð að því. Til dæmis skrifuðu 86.500 Íslendingar, 18 ára og eldri, undir þá kröfu að Alþingi veitti 11% af vergri landsframleiðslu til rekstar heilbrigðiskerfisins á ári hverju.

Allir stjórnmálaflokkarnir hétu því fyrir kosningar að beita sér fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins ef þeir enduðu í ríkisstjórn, þar á meðal Sjálfstæðisflokkurinn. Landspítalinn er þungamiðja heilbrigðiskerfisins. Stjórnendur hans áttu fundi með forráðamönnum stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar og reyndu að sýna þeim fram á að það þyrfti að bæta 14 milljörðum við rekstrarfé Spítalans til þess að hann gæti sinnt hlutverki sínu sómasamlega eins og það er skilgreint í dag. Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar gerir ráð fyrir því að Spítalinn fengi einungis 4 milljarða í viðbót en þar af væru rúmlega 3 milljarðar verðbætur þannig að raunveruleg aukning yrði einungis rúmlega 800 milljónir króna.

Það er engum vafa undirorpið að fólk þjáist og deyr jafnvel af völdum þess hvað spítalinn er illa í stakk búinn til þess að sinna því. Þjóðin gerir sér grein fyrir þessu og krefst þess að þetta sé lagað. Bjarni Benediktsson hunsar þessa kröfu þjóðarinnar í fjárlagafrumvarpi sínu, sem gerir þó ráð fyrir því að ríkissjóður skili 28 milljarða króna afgangi á næsta ári og skattar og tollar séu lækkaðir. Þessi afgangur er borð fyrir báru sem er ætlað að draga úr hættunni á því að ríkissjóður líti bókhaldslega illa út í lok næsta árs. Afleiðingin af þessu borði fyrir báru sem fjármálaráðherra ætlar sér er aukin hætta sem steðjar að þeim sem eru meiddir og lasnir og þurfa að leita til Spítalans. Þetta er nístingskalt. Þetta er ljótt. þetta er með öllu óásættanlegt. En þetta á ekki rætur sínar í grimmd fjármálráðherrans okkar, sem er góður maður, heldur annars vegar í því að hann virðist ekki skynja vandamál venjulegs fólks og lítilmagnans og hins vegar í hégómagirnd hans sem vill hafa brilljantín greiddan ríkisreikning í lok 2017. En Alþingi Íslendinga, þú mátt ekki gleyma því að það er á þínu valdi að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum og mæta á þann veg vilja fólksins í landinu.

Auglýsing

Þegar fjölmiðlafólk hefur leyft sér að gagnrýna fjárlagafrumvarpið hefur Bjarni gjarnan brugðist við með forundran og sagt að fólkið í landinu hafi aldrei haft það betra en í dag, hann skilji ekki þetta vanþakklæti. Það hefur líka vottað fyrir svolitlum hroka, líklega vegna þess að honum finnst hann hafi verið góður strákur og lagt töluvert að mörkum til þess lýðurinn sé í svona góðum málum. Þetta er einfaldlega ekki rétt, nema hann takmarki notkun sína á heitinu, fólkið í landinu, við ríkisbubba eins og mig og hann sjálfan.

Ástandið er allt annað hjá venjulegum launþegum, að maður tali nú ekki um þá sem eru lasnir eða meiddir eða eru að reyna að kaupa sína fyrstu íbúð eða eru börn eða unglingar eða ungmenni að brjótast til menntunar. Honum gleymist að venjulegt fólk í okkar samfélagi sækir meiri verðmæti í velferðarkerfið en í nokkurn annan stað á ævi sinni, skólakerfið til þess að mennta börnin sín, heilbrigðiskerfið þegar eitthvað bjátar á og húsnæðiskerfið til þess að kaupa sína fyrstu íbúð. Heilbrigðiskerfið er í rusli, nýjustu kannanir benda til þess að menntakerfið sé í engu betri málum og það hefur aldrei verið erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sitt fyrsta húsnæði. Venjulegir launþegar á Íslandi eru ver settir en oft áður vegna þess að velferðarkerfið hefur verið vanrækt.

Fjármálaráðherra gleymist að það gerist svo ótrúlega margt utan debit og kredit dálka ríkisfjármála af þeirri gerð sem ærlegt fólk vill að sé gert upp í lok árs eins og 2017. Það eru líka áleitnar spurningar sem Bjarni forðast eins og heitann eldinn í frumvarpinu sínu, eins og til dæmis hvernig beri að færa við uppgjör ríkisfjármála 75000 klukkutíma af sársauka og 100000 klukkutíma af annarri vanlíðan sem hefði verið hægt að forðast með því að hlúa betur að Spítalanum, 300 ónauðsynlega dauðdaga fyrir aldur fram og óteljandi klukkutíma af sorg og angist þeirra sem eftir lifðu. Stjórnmálamaður sem á jafn auðvelt og Bjarni Benediktsson með að forðast spurningar af þessu tægi og er í jafn litlu sambandi við örlög venjulegs fólks í landinu er ekki líklegri til þess að geta leitt þjóðina í samfélagi réttlætis og kærleika en einfættur maður að spila fótbolta í meistaradeild.

Hæstvirt Alþingi Íslendinga, þjóðin krefst þess að þú lesir fjárlagafrumvarpið í tætlur, sem víti til varnaðar og lærir það utan bókar. Helst ættir þú að varpa því yfir á bundið mál þannig að það yrði auðveldar fyrir komandi kynslóðir að gera hið sama.

Að lokum þetta, ef þú átt í einhverjum erfiðleikum með að hafna frumvarpinu mundu að fyrir nokkrum dögum sótti 100 ára gömul kona í okkar samfélagi um vist á hjúkrunarheimili og var sett á biðlista. Það er lítil huggun að því að þau nákvæmu gögn sem við eigum í íslensku samfélagi um lífslíkur fólks benda til þess að hún verði þar ekki mjög lengi.

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live