Það er skemmtilegt að skoða og pæla í úrvalinu af íslenskum bókum sem koma út fyrir jólin. Það sem gerir gruflið enn betra er að geta lesið kafla úr bókinni. Að fá tilfinningu fyrir stemningunni, sökkva sér niður í annan heim í örlitla stund í miðju jólaamstrinu. Niðurstaðan er þó oftast sú að maður kaupir aukajólagjöf, handa sjálfum sér, svo að það sé nú alveg öruggt að maður hafi eitthvað að lesa í jólafríinu. Kvennablaðið í samstarfi við útgáfur fékk þrjá kafla senda til birtingar.
Sjá kynningu á fleiri íslenskum bókum: Íslenskar bækur um fortíð, framtíð og smákökur í nútíð
Bókaútgáfan Sæmundur gefur út skáldsöguna Bjargræði eftir Hermann Stefánsson. Bókin er um Látra-Björgu sem var uppi á 18. öld en sagan gerist þó í nútímanum. Fjölmörg kvæði eftir Látra-Björgu birtast í bókinni.
Draumsýn bókaforlag gefur út smásagnasafnið Undarlegar og öðruvísi jólasögur eftir Eirík Brynjólfsson. Í bókinni segir frá því þegar frelsarinn reynir að koma vitinu fyrir ýmsa þekkta karaktera sem eru komnir á fremsta hlunn með að fremja illvirki. Áhugaverð pæling á þekktum söguminnum.
Utan þjónustusvæðis – krónika eftir Ásdísi Thoroddsen er gefin út af bókaútgáfunni Sæmundi. Ásdís er vel þekkt fyrir handritaskrif og leikstjórn en haslar sér nú völl í bókaskrifum.
UTAN ÞJÓNUSTUSVÆÐIS – KRÓNIKA eftir Ásdísi Thoroddsen
![utan_thjonustusv_kapa]()
Utan þjónustusvæðis lýsir mannlífi í litlum byggðarkjarna við sjávarsíðuna þar sem margslungin bönd tengja sveitungana. Blóðbönd, bróðerni og kviðmægðir spinna fínan þráð sem fljótlega verður að spjörum á síprjónandi tungum íbúanna. Mitt í þessari flækju situr sambýliskona skólastjórans, Heiður Gyðudóttir. Í þessum sambandslausa firði reynir hún að ná til nemenda skólans. En eftir því sem Heiður brýst hatrammlegar um í viðjum vanans, þeim mun frekar rofnar sambandið við raunveruleikann. Þögnin þrengir að henni eins og þokan og þeir sem eitthvað segja tala tungum. Höfundur snýr hér þráð úr þeim gamla og nýja tíma sem standa samhliða í stað í íslenskri sveit. Fólksfækkun og framtaksleysi fléttast hér saman við hrun og innflutt vinnuafl.
Hér er gripið ofan í bók Ásdísar.
Kafli 21
Með morgninum eftir þorrablótið gerði snarvitlaust veður. Það hélst allan sunnudaginn og stendur enn, það ber utan gluggana og húsin og kominn er mánudagur, þessu ætlar ekki að linna. Fannfergið er gífurlegt, allt er á kafi, hús og bílar, hvar sem skaflar geta myndast. Þetta þýðir aðeins eitt, hvíld og hægagang fyrir mannfólkið. Ekki er farið út fyrir hússins dyr nema til gegninga, en auðvitað þarf að halda uppi skólastarfi. Þetta eru fyrstu dagar Heiðar í heimasetu. Hún væri gjörsamlega týnd ef hún hefði ekki Pawel að sinna.
Síminn hringir og Heiður hleypur til.
Heiður? Þórólfur hér.
Sæll.
Hné Heiðar kikna og því þarf hún ekki að hafa fyrir því að setjast. Þau þegja bæði og jafna sig á því að heyra rödd hvort annars. Síðan byrjar Þórólfur:
Var verið að berja þig á blótinu?
Ha? Já, alveg rétt. Ég var nú búin að gleyma því. Það hefur mikið gengið á síðan það gerðist. Hvernig veist þú það?
Þetta hefur spurst út. Hvers vegna lamdi hún þig, þessi kona?
Það veit ég ekki. Ég þekki hana ekki.
Ég veit hver þetta er, segir Þórólfur. Hún er eitt barnabarna Jónínu á Grund, en hvað hún heitir, veit ég ekki.
Jónína gamla á Grund, mér þykir ósköp vænt um hana.
Þú ættir að kæra þetta. Þetta er líkamsárás.
Ég á bágt með það, segir Heiður, þótt full ástæða sé til. Það væri leiðinlegt að kæra barnabarnið hennar Jónínu á Grund.
Um þetta tala þau fram og aftur og aftur og fram. Bylurinn dynur á glugganum og það fellur á Heiði værð, hún bætir við sögunni af Pawel og hnífstungunni til að lengja samtalið og fær í staðinn að heyra af kvennafari Agnars í Túni með gamansömu ívafi, en öll sveitin varð vitni að því að aðkomustúlka beit á agnið í nótt sem leið í bíl Agnars fyrir framan dansstaðinn. Allir unna honum þess, var kominn tími til. Stúlkan hlýtur að vera veðurteppt enn í Túni og það verður vonandi til þess að hún ílendist.
Svo taka við þagnir í símtalinu, fullar af þrá á milli þess sem er hjalað. Heiður spyr ekkert um reiðmennsku hjónanna á Felli.
Snjórinn nær upp að þakskeggjum bæjarhúsa og lokar dyrum, svo fólk þarf að grafa sig út. Slíkt fannfergi er svo sem ekki nýtt, en kemur ekki á hverjum vetri.
Í kolsvartri hríð og belgingi paufast tvær konur niður afleggjarann frá Mýri, önnur lítil og hin stór. Þær eru að flytja sig um set, þær mæðgur, snúa heim í Krók, því heimilisfólkið kom í sveitina aftur fyrir blót. Aðgerðin á Friðgeiri heppnaðist vel. Hann bauðst til að skutla þeim þegar hríðinni linnti, en Kristín vill ekki skulda neinum neitt. Svanur vildi heldur ekki renna eftir þeim, sagði að veðrið væri of vont, sagði þeim að bíða, svo að þær ganga.
Kristín tíndi til hlýjar spjarir á Guðrúnu og færði hana í þær, því Guðrún hreyfði sig ekki til þess.
Mamma, ég vil ekki fara.
Svona nú, hjálpaðu til og stingdu handleggnum í ermina.
Ég vil vera lengur hérna.
Guðrún mín, við eigum ekki heima hér. Við áttum bara að vera hér stuttan tíma.
Ekki aftur í Krók.
Hnepptu sjálf.
Mamma, það er vont í Króki. Mjög vont.
Kristín setti stóran trefil fyrir vitin á Guðrúnu til varnar gegn hríðarkófinu, svo að síðustu orð Guðrúnar köfnuðu í ullinni. Batt hann síðan í kross um kroppinn. Stakk aukahosum í vasann til öryggis.
Guðrún er döpur yfir því að fara úr fína húsinu að Mýri og til baka í holuna í Króki. Hún er döpur yfir því að þá hittir hún nýja kennarann sinn, hana Bergljótu, alla daga, heima og líka í skólanum. Og svo þennan Svan.
Heiður brýst út í veðrið til þess að líta til með hænunum. Sér til undrunar kemur hún auga á að búið er að gefa þeim. Hún tínir eggin saman í plastfötu og lokar á eftir sér. Undrast stöðugar heimsóknir ókunnugra og afskipti af þessu púdduhúsi.
—
![Ásdís Thoroddsen leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi hefur skrifað fjölda handrita fyrir styttri og lengri kvikmyndir og þætti – en haslar sér nú í fyrsta sinn völl í klassískum sagnaskáldskap.]()
Ásdís Thoroddsen leikstjóri og kvikmyndaframleiðandi hefur skrifað fjölda handrita fyrir styttri og lengri kvikmyndir og þætti – en haslar sér nú í fyrsta sinn völl í klassískum sagnaskáldskap.
Hér má sjá ritdóm eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur
Utan þjónustusvæðis – krónika er gefin út af Bókaútgáfunni Sæmundi
Facebook síða Sæmundar Bókaútgáfu
UNDARLEGAR OG ÖÐRUVÍSI JÓLASÖGUR eftir Eirík Brynjólfsson
Hvað gerir lítil, svöng og ísköld berfætt stelpa sem er að selja eldspýtur í hríðarbyl í Kaupmannahöfn á aðfangadag og gengur fram hjá uppljómuðu húsi þar sem allt er til sem hugurinn girnist? Og hvað gerir frelsarinn litla stúlkan fær vonda hugmynd? Til hvaða ráða grípur litla gula hænan þegar hún finnur fræ og hin dýrin nenna ekki að hjálpa henni að baka. Og hvar kemur frelsarinn inn í það mál? Og fátæku hjónin sem eiga tvö börn, Hans og Grétu, og það eru að koma jól. Læra þau af ævintýrinu um Hans og Grétu? Og hefur frelsarinn lesið ævintýrið? En hin fátæku hjónin sem eiga tvö börn sem heita Jón og Guðrún og hafa ekkert ævintýri að styðjast við! Hvernig fer fyrir þeim?
Í Undarlegum og
öðruvísi jólasögum segir frá því þegar frelsarinn reynir að koma vitinu fyrir ýmsa sem eru komnir á fremsta hlunn með að fremja illvirki. Stundum tekst honum ætlunarverk sitt, stundum ekki og stundum þarf hann að gera málamiðlanir.
Eiríkur Brynjólfsson er kennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla, rithöfundur og þýðandi. Hann var tilnefndur til Ísnálarinnar fyrir best þýddu glæpasöguna, Sjöunda barnið eftir Erik Valeur. Sjá nánari umfjöllun hér.
Við kíkjum á brot úr sögu þar sem Frelsarinn reynir að kom í veg fyrir hræðilegar afleiðingar kreppunnar:
Kalli Kreppa hafði verið að leita að hentugum stað til að láta illt af sér leiða. Hann var núna staddur á lítilli eyju. Það var kalt á eyjunni og kolniðamyrkur. Kalli fann fyrir tilhlökkun. Honum fannst langskemmtilegast að ýta undir kreppu í kulda og myrkri.
Þetta virðist vera áhugaverður staður. Og ekki laust við að hann sé dálítið kreppulegur, hugsaði Kalli og fylltist heimilislegri tilfinningu.
Það voru fáir á ferli í höfuðborg eyjunnar og fólk með fullu viti hélt sig innan dyra og horfði á sjónvarpið. Kalli ráfaði um auðar götur borgarinnar. Þetta var sem sagt áður en erlendir ferðamenn fóru að hópast þangað. Í miðbænum var hvítt hús sem eitt sinn var fangelsi en var núna bústaður fangavarða. Fyrir framan það tvær myndastyttur og drengur sem virtist vera að föndra. Forvitni Kalla vaknaði og hann staðnæmdist til að skoða hvað væri á seyði.
Drengurinn var meðalmaður á hæð með dökkt hár og sitt að aftan. Hann var með bréf sem hann braut saman í skutlu og lét svífa í fagurlegum boga yfir húsið. Það vildi til að það var logn.
Hentu henni svo til baka aftur, aðeins hærra, hrópaði drengurinn.
Kalli Kreppa gekk til drengsins. Hvað ertu að gera? spurði hann vingjarnlega.
Við erum í yfir, ég og vinur minn, sagði drengurinn glaður. Hann er hinum megin við húsið.
Hvað er yfir?
Jú, sko … Æ, bíddu aðeins. Svo hljóp hann og greip skutluna sem sveif til baka. Sjáðu, sagði hann svo og tók upp penna. Þetta bréf heitir til dæmis FLGroup og nú skrifa ég á það: Ég kaupi bréfið fyrir einn milljarð, bý til skutlu og skutla henni yfir til bróður míns sem er þá búinn að græða milljarð. Svo skrifar hann kannski tvo milljarða á bréfið og skutlar því til mín og þá hef ég grætt tvo milljarða. Og þessi þarna á banka og lánar okkur gommu af peningum, sagði hann og benti á ljóshærðan, vatnsgreiddan dreng sem stóð afsíðis undir húsvegg. Skilurðu? bætti hann við.
Svo sannarlega, sagði Kalli Kreppa og glotti. Þetta er sko sniðugt.
Ég get líka selt sjálfum mér, sagði drengurinn. Þá skutla ég bréfinu mjög stutt og gríp það sjálfur.
Þetta er svo sannarlega flottur leikur, þetta yfir, sagði Kalli. Honum sá í hendi sér að allt á góðri leið en að þeir þyrftu að leika aðeins lengur áður en hann hæfist handa. Hann bætti því við: Megið þið vera svona lengi úti? Það er komið niðamyrkur.
Þessi leikur er langskemmtilegastur í kolniðamyrkri, sagði drengurinn, því þá sér enginn hvað við erum að gera. Fattaru.
Ég skil. En hvað segja foreldrar ykkar? Leyfa þeir ykkur að vera úti svona lengi? Klukkan er orðin ellefu.
Drengurinn horfði á hann hissa. Sagði svo:
Pabbi segja að við séum flottastir, fínastir og bestir og allt það. Kallar okkur útrásarvíkinga.
Í sama bili birtist andlit í einum glugga hússins og drengurinn vinkaði og sagði: Sjáðu, þarna er pabbi. Hann er svona ráðherra. Hann ræður en leyfir okkur að gera það sem okur sýnist.
Þetta verður ekki betra, hugsaði Kalli Kreppa með sér. Þetta er gósenland fyrir kreppugerðarmann eins og mig. Ég skal búa til þá mestu óáran sem landið hefur séð frá móðuharðindunum.
Hann vissi ekki af hverju honum duttu móðuharðindin í hug því það sér hvert barn að sá samanburður er gjörsamlega út í hött. En samt …
Með aðstoð foreldra drengjanna legg landið í rúst, hélt hann áfram að hugsa. Það verður hreinn barnaleikur. Allur undirbúningur er pottþéttur. Drengirnir hafa unnið mjög gott verk. Þetta er spilaborg sem þarf aðeins að blása á. Afleiðingin verður atvinnuleysi og fátækt, fjöldagjaldþrot þegar verðtryggðar húseignirnar hrynja yfir fólkið eins og við jarðskjálfta. Og best af öllu er að þetta gerist á jólunum. Og Kalli hló.
Skyndilega lýstist umhverfið af gulri og hlýlegri birtu. Kalli var svo upptekinn af hugsunum sínum að hann gaf birtunni engan gaum en hélt áfram að draga upp í huga sér myndir af hörmungum kreppunnar.
Veistu hvaða afleiðingar ráðagerðir þínar hafa? spurði rödd sem kom innan úr birtunni.
Ef þú ert að spurja hvort ég viti hvað ég er að hugsa um þá er svarið já. Ég veit hvað ég er að hugsa um, sagði Kalli önugur yfir þessar truflun.
Það er einmitt það sem ég átti við, sagði röddin.
Bíddu hægur. Ég er að hugsa, sagði Kalli. Hvernig getur þú vitað hvað ég er að hugsa?
Ég les hugsanir, sagði röddin.
Lest hugsanir. Huh! Hver ertu?
Ég er frelsari, sagði frelsarinn og steig fram úr birtunni
Jæja, og lest hugsanir. Gott og vel. Og ert frelsari. Hvað ertu þá að gera hér? Ekki þarfnast ég frelsunar og því síður hann, sagði Kalli og benti á drenginn sem enn var að skutla hlutabréfum yfir hvíta húsið bak við myndastytturnar. Eða vinir hans.
Vertu ekki of viss um það, sagði frelsarinn og glotti. Ekki eru öll kurl komin til grafar enn.
Það er örugglega mjög gaman að ræða við þig en ég má bara ekki vera að því, sagði Kalli. Hér er allt til reiðu fyrir mig og tíminn er dýrmætur. Á þessum stað er allt sem ég þarfnast, sagði Kalli kreppa óðamála. Hér er gjörspillt stjórn. Hér eru strákar sem eru svo ótrúlega ósvífnir að ég man ekki annað eins. Hef ég þó komið víða við.
En hvað með afleiðingarnar sem þú varst að upphugsa áðan. Atvinnuleysið? Fátæktina og hörmungar sem bitna á almenningi, spurði frelsarinn. Afleiðingarnar sem koma nipur á alþýðu og hún hefur ekkert til sakar unnið.
Alþýðan hefur ekkert til sakar unnið, hermdi Kalli eftir frelsaranum. Þetta snýst ekki á það. Þetta er kreppa. Hefurðu heyrt talað um kreppu án atvinnuleysis og fátæktar? Hefurðu heyrt um kreppu þar sem alþýðunni líður vel og hefur það huggulegt? Hvurslags kreppa væri það eiginlegana?
—
Öðruvísi jólasögur er gefin út af Draumsýn bókaforlagi
Facebook síða Draumsýnar bókaforlags
BJARGRÆÐI eftir Hermann Stefánsson
Hér segir frá Látra-Björgu (1716-1784) sem leiðir lesendur um söguna og er sjálf leidd um rangala reykvískrar samtímamenningar. Látra-Björg er einhver stórbrotnasti karakter Íslandssögunnar, kraftaskáld á tímum þegar kvæði hafa sannarlega áhrif á veruleikann og koma góðu eða illu til leiðar, sægarpur hinn mesti og fiskin með eindæmum, grálynd og ögrandi galdrakerling og hin versta grýla sem menn bæði óttuðust og virtu, húskona og eigin húsbóndi við svaðalegar aðstæður á Látrum, flökkukona í móðuharðindunum, brennd af háskalegum ástum samkvæmt þjóðtrúnni. Látra-Björg var sérkennilegt, stórbrotið og kraftmikið skáld og furðu nútímalegt, lét engan eiga neitt inni hjá sér, hitti alltaf í mark í samskiptum við valdsmenn og kyssti ekki vöndinn. Í þessari bók er Björg Einarsdóttir komin til Reykjavíkur í ókunnum erindagjörðum við ókunnugan mann og þótt hún sé fædd fyrir 300 árum hefur hún aldrei verið nær okkur. Hvað vill hún? Hverra erinda gengur hún? Hver er sagan á bakvið goðsögnina um Látra-Björgu? Bókina prýðir fjöldi kvæða eftir Látra-Björgu.
Hermann Stefánsson er höfundur fjölda bóka og vakti mikla athygli fyrir síðustu skáldsögu sína, Leiðina út í heim, sem tilnefnd var til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut einróma lof gagnrýnenda.
Við grípum ofan í upphaf bókarinnar þar sem skörungurinn Látra-Björg situr á reykvísku kaffihúsi og lætur móðan mása.
„Þú hebbðir ekki átt að boða mig hingað, Tómas, ég á ekkert erindi á þennan stað, á kaffihús í miðbæ Reykjavíkur, ég hefði ekki látið tilleiðast fyrir neinn nema þig, hinn ástfangni fer um í þreifandi myrkri, svo mikið er víst, og þá grípur hann til ýmissa ráða og ýmislegt verður fyrir honum í ljósaskiptunum, en þú mátt ekki misnota trúnað minn, ég hefði ekki látið tilleiðast fyrir annan en þig, sem ert utanveltu og utangarðs, í raun og veru, það er nóg til af fólki á þessum tíma þínum sem heldur sig utangarðs en er það ekki, fólki sem aflar sér dágóðra tekna og hefur fulla burði til að vera hamingjusamt en sífrar þó án afláts, lítur eiginlega á vesöld sem heiðursmerki og keppir sín á milli í volæðisbarlómi, snerpist við að eiga sem mestum andbyr að fagna. Þetta er meiri öldin sem þú lifir, Tómas, hún er fráleit, fólk trúir engu, trúir ekki einu sinni á spádóma, á að hægt sé að sjá í gegnum glufur tímans og yfir í aðra tíma, smeygja sér inn og út um glufurnar. Á minni tíð höfðu menn þó örlitla rænu, gerðu sér ljóst að tíminn er háll og orð hafa magn. Tíminn þinn er skekktur, sýn hans svo kolröng að hann sér ekki einu sinni sjálfan sig í nokkru réttu ljósi, og hvernig ætti hann þá að geta séð inn í nokkra aðra tíma, litið aðra tíma sönnu ljósi, skilið eitthvað annað en sjálfan sig, sem hann botnar þó ekkert í? Engir tímar hafa verið falskari, Tómas, þú veist það, þig rennir allavega grun í það, einhver smáræðis glæta lifir með þér, annars værirðu ekki svona úti á kantinum, þetta eru mestu dekurtímar sem mannkyn hefur lifað, sjálfsvorkunnarsamir og eftirlátssamir, þóttafullir og vílgjarnir. Jafnvel valdsmennirnir ykkar, þeir kunna ekki að vera valdsmenn, það er engin leið að ganga á hólm við þá því þeir eru hreint engir valdsmenn heldur ofsóttir þrælar, ambrandi fórnarlömb, með því móti kynna þeir sig og þanneginn tala þeir, eins og menn á hrakhólum, þeim sé vorkunn, fremur en að þeir taki ábyrgð á gjörðum sínum og beri höfuðið hátt, nei, þeir stíga á stokk og berja lóminn ef einhver vogar sér að rétta fram mynd af þeim sjálfum. Þeir eru holdtekja sinnar tíðar, ekki undantekning heldur reglan, fyrirmyndin að reglunni, þess vegna hata þá allir, almúginn og undirokaðir, ekki af réttri óbeit heldur í bland við sjálfskennsl, þeir eru sjálfur andi tímans, andi skinhelgi og hræsni, yfirdrepsskapar og hroka.
Og það versta sem þessum tíma datt í hug, veistu hvað það var? Nú, auðvitað að hrófla upp þessu borgartildri, þessum ævintýralega heiftarsvíma, þessu makráða letidýri, þessum aumingja, þessu gegnumspillta, sjálfsblinda, skynvillukennda, ómálga hrúgaldi sem hreykir sér af löstum sínum og fyrirlítur allt sem satt er og gott, þessu meinbægna, sýndarklædda, yfirborðslega þunnildi, þessari værðarvoð. Og hvað skyldi nú vera það versta, Tómas, það versta sem fyrirfinnst í því versta, í hrúgaldinu Reykjavík, það sem mér er allra fjarlægast og þér sjálfum, Tómas, það sem þér og eðli þínu stendur fjærst? Það veistu, þú veist það sjálfur, það lægsta af öllu lágu á þessum guðsvoluðu tímum ykkar eru kaffihús í miðbæ Reykjavíkur, og þangað dregurðu mig, í gegnum aldirnar, blásaklausa konuna.
Ekki að ég sé stygg, óekki, ég hef aldrei verið stygg, ljúfa og góða kallaði mig mætur maður flandrískur og hlýr sem þekkti mig betur en margir. Ég er ekki stygg en þetta slytti í stórum heimi, þetta smáslytti sem þið kallið borg, og þessir hrákadallar í slyttinu sem þið kallið kaffihús, þau eru það versta, það allra versta. Og ekki vegna þess að kaffið sé vont, kaffi er mikið góður drykkur sem bætir lund og hressir geð til jafns við tóbak og þurrkaðan þyrskling, það veit góður guð, ekki þessvegna, heldur hins að fólkið sem samankemur á kaffihúsum er ekki þangað komið til að blanda geði, deila yl og gleði, eða drekka kaffi, ekki til að gæða sér á gómsætu kaffinu og hlusta á það sem aðrir hafa að segja í almæltum tíðindum og ómæltum, onei, heldur til að sýna sig og skoða aðra, eins og útstillingarmyndir, raupsamar styttur, hamingja og heilnæmi til sýnis. Eins og eitthvað geti teflt hamingjunni í meiri tvísýnu en að standa svona berskjalda.
Og jafnvel ekki einu sinni það, þú, í þínum ástarraunum og dauðabeyg, sérð í hendi þér tengslaleysið, það blasir við, fólk situr á kaffihúsinu og hefur varla áhuga á stillimyndinni af náunganum heldur sökkvir sér ofaní tölvurnar sínar, hver einstaklingur í sínum heimi, að stilla sér upp í enn meiri sýnd en sýndin á kaffihúsinu, ástleysið er algert, áhugaleysið algert, kuldinn eins og kaldast verður, hraksmánarleg meðferðin á sjálfi og sálum: Sogast þau inn í sultarheim, sálin völt á fæti, kveður við raust með kuldahreim, kvöl þeirra í Austurstræti. Allt þetta fólk býr við haf en samt er ekkert haf í vitund þess, ekki minnsti snertur af hafi, ekki högg á vatni eða nokkurt skynbragð á litbrigðin sjávarins, allt þetta fólk gengur um vetur eftir vetur í borgarhrúgaldi sem er fullt með svermi af hröfnum en enginn sér hrafnana, ég á við beinlínis sér þá, bið ekki einu sinni um að nokkurt manntötur kunni að lesa í flug þeirra og renni í grun hvað hljóðin merkja, hljóðbrigði krunks, gutlið og aðrar veðurspár, örfáir veita þeim athygli en hinir eru hreint ærlega staurblindir, hrafnar rúmast ekki í hugmyndavitundinni, þar rekst hvað í annars horn af öllu mögulegu tæi en að það sé pláss fyrir einn hrafn að smjúga í gegnum plasthúðina í skilvitin með sín skilaboð, onei, útilokað. Helst að það sé álitin færni að sjá ekki hrafna, að sjá ekki nokkur heimsins teikn, því enginn maður getur spáð fyrir um svo mikið sem skúr af því hvernig þykkir upp og blikur koma á himin og skiptir um vindátt og ískrar í fjöllunum, enginn þekkir merkingu hundslappadrífu, sem veit undantekningarlaust á sjóskaða, enginn skilur hvernig flyðran skiptir litum og skyggist í roðið ef ofankoma er í grennd, að fástirnt veit á frost.
Sérðu þessa konu þarna, já, mændu svolítið á hana, hún mun ekki taka eftir því, þessi kona veit örugglega ekki muninn á hrafni og álft, hún þekkir ekki hljóðið í einum einasta fogli, hún hefur aldrei séð fisk í sjó, hvað þá dregið hann þaðan, ekki einu sinni komið inn í fiskbúð, ekki séð neitt sem synt hefur í hafinu öðruvísi en í vakúmplasti. Eða sjáðu manninn þarna, þennan spraðibassa, hann er ekki einu sinni áttaður, í hans huga eru suður og norður eitt og hið sama og heitir „þangað“, hann hefur fest í huga sér ákveðnar leiðir til að komast á milli staða sem stutt er millum en ekki áttirnar, hann veit ekki áttirnar á hverri stundu, hvílíkt ástand, að vera óáttaður. Vafalaust sómapiltur og hún þarna sómastúlka, en tilvist þeirra er ekki í takti við gang veraldar og himintungla, fjöll og veður, heiminn, enda eru þau stödd í rassi veraldar, Reykjavíkurrassinum, þessum sem andskotinn skapaði á engum tíma, síðan sogaði hrófatildrið til sín allt úr öllum áttum eins og hafsvelgur, allt líf og allt lífmagn og alla atorku og allan kraft. Ekki það að borg er í sjálfu sér ágæt hugmynd, alveg prýðileg hugmynd, í útfærslunni gleymdist bara að tengja við líf og dauða. Það hefði verið hægt að hafa sauðfé í bland, vott af búskap og lífi í þyrpingunni, hægt að útdeila hverjum sínu útræði, hafa skepnur í reitum og halda við opnum kömrum, kúm á stangli, þó ekki væri meira, opnu klóaki, fremur það en þetta dauðhreinsaða, ógeðfellda þrifnaðaræði. Þrifnaður er góður en fyrr má nú rota en rauðrota, kenndi Kiljan ykkur þetta? Það stertimenni? Borg er góð hugmynd en illa útfærð drepur hún allt sálarlíf. Reykjavík er rauphneigð byggð, ráða þar andans pestir, löstur hver þar er látinn dyggð, léttvæg fundin sálar hryggð, mannkostir eru lestir.
Þú hebbðir ekki átt að boða mig hingað, Tómas, ég á ekkert erindi hingað, hvernig ætti það að vera, ég, Björg, og nei, ekki kalla mig Látra-Björgu, ég heiti það ekki, ég heiti Björg Einarsdóttir, þeir byrjuðu ekki að kalla mig Látra-Björgu fyrr en á nítjándu öld, í einhverju skensi, þeir Gísli Konráðs og félagar, og gekk varla hreinn einn hugurinn til. Ég kallaði mig aldrei annað en Björgu, ég heiti það. Fólk á næstu borðum er að horfa á okkur, ekkert er verra en kaffihús, ég segi það satt, þar hittir skrattinn ömmu sína og þú mig og ég þig, ég þig, þú mig. Því kynni ég betur ef á kaffihúsunum væri leitað að hughreystingu eða blessun guðs eða þess sem þú þó leitar, Tómas, en maður gengur ekki gegn vilja drottins, ég get sagt þér það strax, um erindin þín. En taktu mig ekki of bókstaflega, ekki lesa of mikið í það sem ég segi, ekki hugsa of þröngt, nóg hefur verið rangtúlkað í aldanna rás, faðirvorinu snúið upp á andskotann, öfund verið dubbuð upp sem hofmóðug siðprýði, harmur nefndur gleði og gleði sorg. Ég held mig á Látrum, allajafna, þyrfti reyndar að fá þig þangað við tækifæri, Tómas, en hrokanum er ekki fyrir að fara í mér, öðrunær, ég er bóngóð, menn hafa rægt mig án afláts í þrjár aldir, þeir um það. Nafni þinn Guðmundsson er ekki barnanna bestur, borgarskáldið það, en þó kem ég ef ég er beðin, ég kem vel fram við þá sem koma vel fram við mig, það hef ég alltaf gert, gerði alla tíð. Þeir sem hafa það ekki í sér að koma artarsamlega fram við annað fólk og sér lægra sett, það eru hundingjarnir sem baknaga og rægja þegar þeir fá eigið dramb og eigið eitur ómengað aftur í smettið, þeir vilja að fólk sé sér undirgefið. Ég er einmitt þannig, svo auðmjúk að jaðrar við undirgefni, en aldrei þýlynd, ég get aldrei unað slæmsku og illsku og undirhyggju og illu sinni og vondri sál og hraklegri framkomu og óærlegri, nei, ég uni því ekki, aldrei, Tómas, þú hefur ekkert slíkt í hyggju, er það nokkuð, Tómas?“
—
Hér má finna bókadóm eftir Steinunni Ingu Óttarsdóttur
Hér má finna umfjöllun um útgáfuteitið í Hörpu ásamt upptöku af upplestri af kvæði eftir Látra-Björgu
Bjargræði er gefin út af Bókaútgáfunni Sæmundi
Facebook síða Sæmundar bókaútgáfu
Umfjöllun unnin í samstarfi við: Bókaútgáfuna Sæmund og Draumsýn bókaforlag