Engar nýjar upplýsingar komu fram á fundi Ólafs Ólafssonar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í dag. Fréttin verður uppfærð ef frétt finnst.
Nýjar upplýsingar á fundi Ólafs Ólafssonar hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd:
Ný frétt: Utanaðkomandi stýrir rannsókn FBI á meintum rússatengslum
Skipaður hefur verið sérstakur utanaðkomandi yfirmaður rannsóknar á meintum ólögmætum inngripum Rússa í bandarísku forsetakosningarnar á liðnu ári. þetta var tilkynnt af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna í kvöld. Sá sem varð fyrir valinu er kallaður óháður en er þó fyrrverandi yfirmaður FBI, Alríkislögreglunnar. Sá er Robert Mueller. Tilskipunin kom ekki frá dómsmálaráðherranum, Jeff Sessions, heldur varadómsmálaráðherranum, Rod Rosenstein. Sessions hafði áður lýst sig vanhæfan til þess að fara með þessi mál.
Þetta er nýjasta vendingin í ótrúlegri atburðarrás sem hófst á þriðjudag í liðinni viku þegar Donald Trump rak James Comey, forstjóra FBI frá störfum. Óhætt er að segja að allt hafi verið á öðrum endanum í stjórnmálum Bandaríkjanna síðan þá og krafan orðin hávær um að þingið taki til meðferðar tillögu um að víkja forsetanum úr embætti.
Sjálfur er Donald Trump á leið í fyrsta ferðalagið sitt í opinberum heimsóknum. Sádí Arabía er fyrsta landið sem hann heimsækir en annað og þriðja er Ísrael og Vatikanið í Róm. Talandi um Róm þá yfirgefur Trump Washington í logum eftir stanslausar upphrópunarfréttir í rúma viku.
„Mér líður eins og ég þurfi að hlaupa eftir göngum hér með slökkvitæki“, sagði einn ónafngreindur starfsmaður Hvíta hússins í samtali við fréttasíðuna Daily Beast. Annar sagði að starfsmenn væru einfaldlega dofnir vegna kröfu um endalaus viðbrögð við nýjustu snúningum.
Það hefur ekki verið auðvellt að tala máli Hvíta hússins. Í liðinni viku voru talsmenn forsetans rétt búnir að slípa þá sögu, á miðvikudag, að Trump hefði orðið að reka FBI forstjórann þegar hann fékk álitsgerð þar um á þriðjudag frá Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra landsins. Trump sjálfur gerði sjálfur þá sögu ómerka – og þar með eigin starfsmenn í Hvíta húsinu – með því að mæta í viðtal á NBC á fimmtudag og segja að hann hefði fyrir löngu verið búinn að ákveða að reka Comey.
Á meðan starfsfólk Hvíta hússins var í óða önn að slökkva elda hitti forsetinn Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússa. Blaðamönnum var ekki leyft að mynda fundinn en samstundis dreifði rússneska ríkisfréttastofan TASS mynd af Trump og Lavrov. Hvíta húsið varð að segja að viðkomandi ljósmyndari hefði laumað sér inn á fölskum forsendum sem varð ekki til að friða reiða blaðamenn. Þegar ljósmyndarar fengu loks aðgang að Trump sat hann ekki með Lavrov, heldur Henry Kissinger, utanríkisráðherra Nixon – þess forseta sem demókratar og fjölmiðlar voru í vaxandi mæli að vísa til sem fordæmi um stöðuna í dag, til stuðnings kröfu sinni um afsögn.
Blaðamenn fengu svo aukið fóður þegar spurðist að Trump hefði deilt leynilegum upplýsingum um ISIS með Lavrov. Það þótti ekki sérstaklega taktískt í ljósi ásakana um óeðlilegan samblástur starfsliðs forsetans og rússneskra aðila, í kosnignabaráttunni í fyrra og raunar eftir hana.
Þegar fréttir bárust síðan af því frá fólki í kringum Comey að forsetinn hefði krafið hann um að sýna sér hollustu og ekki fengið, fór enn að hitna í kolunum. Trump neitaði þessu staðfastlega en sendi út tíst þar sem hann hafði í duldum hótunum við Comey. Hann ætti að vara sig á að vera að leka einhverju – það gætu nefnilega verið til upptökur af samtölum forsetans og Comey.
Í gær birti svo New York Times fréttir um að minnisblöð í fórum Comey segðu að Trump hefði beðið hann um það í febrúar að FBI hætti rannsókn á Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trumps. Trump lét Flynn fara í sama mánuði þegar ljóst var að hann hefði greint ranglega frá fundi sem hann átti eftir kosningar með sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.
Enn þurftu starfsmenn Hvíta hússins að hlaupa til með slökkvitækin. Strax var því þverneitað að forsetinn hefði lagt fram slíka beiðni. Repúblíkanar urðu hvumsa og voru varfærnir í viðbrögðum (fyrir utan einn sem skv. blaðamanni sendi puttann í viðbragði við fyrirspurn). Demókratar hafa hins vegar farið hamförum og hrópa nú enn hærra en áður um þörf á sérstökum saksóknara til að rannsaka málin og aðrir telja þegar komna fram fulla ástæðu fyrir að þingið setji forsetann af. Sömu raddir eru einnig farnir að heyrast í röðum Repúblíkana, en fara þó hjóðar.
Embættishlutverk Roberts Muellers er ekki embætti sérstaks saksóknara heldur rannsóknarembætti. Hann hefur þó víðtæk völd til að kalla eftir upplýsingum og boða menn til skýrslutöku. Í ljós á eftir að koma hvort andstæðingar Trumps telja að með þessu sé unninn áfangasigur í tilraunum til að koma forsetanum frá völdum.
Leikmunur – Opið bréf til kjósenda Bjartrar framtíðar
“Guð hjálpi þeim sem heillast af hagfræðitölum hveitiframleiðslunnar en staldrar ekki við til að dást að kornaxinu. Þótt peningar falli vissulega ljúfar ofan í reiknilíkön og prósentur en aðrir þættir mannlífsins, þá skipta aðrir hlutir ekki síður máli. Kærleikur, virðing og mannréttindi eru ekki síður mikilvæg og ber að hafa hugfast í störfum bæði þings og ríkisstjórnar. Höfum það hugfast að við vorum ekki bara kosin til að taka ákvarðanir og fara með völd, heldur til þess að þjóna almenningi í landinu. Gerum það, verum góð.”
– Óttarr Proppé í þingræðu 2016
Formaður flokksins ykkar hann Óttarr Proppé slæddist inn í borgarpólitíkina í kjölfari Jóns Gnarrs. Hann var utangarðsmaður í huga samfélagsins sem ögraði ríkjandi stjórnmálamönnum sem höfðu fjarlægst fólkið í landinu og vilja þess í mikilvægum málum. Síðan var hann kjörinn á Þing og í stjórnarandstöðu flutti hann hrífandi ræður um mikilvægi kærleikans og mannréttinda og þess að þing og ríkisstjórn geri sér grein fyrir því að peningar séu ekki allt (sjá ívitnum hér að ofan). Nú er hann heilbrigðismálaráðherra í ríkisstjórn peningastrákanna, Bjarna og Benedikts, og hefur um það stór orð hvað honum líði vel að vinna með þeim. Það er eins og hann hafi ekki hlýtt á eigin ræður hvað þá annað samið og flutt, nema þær hafi verið hugsaðar sem öfugmælavísur. Það er ekki nóg með að hann sætti sig við félagsskapinn, hann er orðinn einn af strákunum og það finnst honum kúl.
Fyrir kosningar var íslensk þjóð nokkuð einróma í þeirri skoðun sinni að heilbrigðiskerfið væri í rusli og það yrði að ráðast í myndarlega endurreisn þess. Krafa til Alþingis um að 11% af vergri landsframleiðslu yrði varið til reksturs heilbrigðiskerfisins var undirrituð af 85000 atkvæðisbærum Íslendingum. Allir stjórnmálaflokkarnir hétu því að þeir myndu ráðast í endurreisnina eftir kosningar, að undanskildum Sjálfstæðisflokknum sem sló í og úr og hélt því stundum fram að það væri að mestu búið að endurreisa kerfið. Annað loforð sem allir flokkarnir veittu var að stemma stigu við einkavæðingu heilbrigðiskerfisins utan Sjálfstæðisflokkurinn sem einnig þar sló í og úr. Í stjórnarmyndunarviðræðunum segir formaður ykkar að hann hafi beðið um heilbrigðismálaráðuneytið sem hann og fékk. Nú skulum við skoða hvernig honum gengur að efna loforð honum Óttari Proppé og hversu vel hann lýtur vilja fólksins í landinu. Það má vera að ykkur kjósendum hans finnist fullsnemmt að meta það eftir aðeins fjóra mánuði, en ekki gleyma því að við höfum fimm ára áætlun ríkisfjármála sem yfirlýstan vilja hans og samráðherra hans um það hvernig þeir hyggjast taka á heilbrigðiskerfinu.
Loforð um endurreisn heilbrigðiskerfisins
Krafan til Alþingis sem var undirrituð af 85 þúsund manns í fyrra var upp á 11 % af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins sem hefði aukið fé til þess um 40 milljarða króna á ári. Ríkisfjármálaáætlunin gerir ráð fyrir 45 milljörðum af nýju fé inn í kerfið á 5 árum. Þar af fara 36 milljarðar í nýbyggingu Landspítalans sem hefur ekkert með rekstur heilbrigðiskerfisins að gera. Af þeim níu milljörðum sem eftir standa er tveimur ætlað að standa straum af kostnaði við læknisþjónustu Íslendinga erlendis sem er furðuleg ráðstöfun á fé og verður vikið að henni hér að neðan. Þá eru eftir sjö milljarðar króna af nýju fé á fimm árum sem gera 1.4 milljarða á ári eða rétt um 3% af kröfu fólksins í landinu.
Þegar rýnt er vendilega ofan í tölurnar í ríkisfjármálaáætluninni og gert ráð fyrir fólksfjölgun og breytingu í aldurssamsetningu er ljóst að það er gert ráð fyrir því að setja nákvæmlega ekkert nýtt fé í að endurskipulegga og bæta þjónustu við landsmenn á næstu fimm árum. Endurreisn heilbrigðiskerfisins er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.
Þegar við sátum á löngum fundi með Óttari Proppé niður í Vatnsmýrinni á föstudaginn 5. Maí, ég og tveir forsvarsmenn læknisfræði í landinu, bentum við honum á þetta. Hann yppti öxlum og viðurkenndi að ríkisfjármálaáætlunin væri í litlu samræmi við kröfur fólksins í landinu en hann væri samt ánægður með hlut heilbrigðiskerfisins. Hann talaði um fjárhagslegan raunveruleika sem setti okkur skorður. Okkar svör við því voru að það hefði aldrei verið meiri auður í íslensku samfélagi og það væri vilji fólksins í landinu að skattleggja þennan auð að því marki að við höfum efni á mannsæmandi heilbrigðiskerfi. Það leist heilbrigðismálaráðherranum ekki á vegna þess að það kynni að valda óróa í hinu góða stjórnarsamstarfi. Honum er sem sagt meira í mun að þóknast Bjarna Benediktssyni og Benedikt Jóhannessyni en fólkinu í landinu. Þeir tveir virðast hins vegar staðráðnir í því að hunsa þann grundvallarþátt lýðræðisins sem felst í því að fara að vilja fólksins þegar hann er skýr. Og hvers vegna skyldi það svo vera er spurning sem beinir sjónum að einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.
Loforð um að stemma stigu við einkavæðingu heilbrigðiskerfisins
Þegar við félagarnir þrír bentum heilbrigðismálaráðherra á þá staðreynd að stefna Sjúkratrygginga sem hefur verið við líði um árabil, að svelta Landspítalann en gera ríkulega samninga við félög heilbrigðisstétta, hafi leitt til mikillar einkavæðingar á heilbrigðisþjónustu sagðist hann gera sér grein fyrir þessu en hefði engin plön um að breyta stefnunni. Þessi háttur Sjúkrastrygginga hlýtur að skoðast sem markviss tilraun til einkavæðingar vegna þess að ekki sparar hann fé. Með því að koma í veg fyrir að Spítalinn sé í stakk búinn til þess að sinna verkefnum er hins vegar búin til knýjandi þörf fyrir einkaframtakið.
Klíníkin í Ármúlanum er orðin flaggskip einkavæðingarinnar en þar eru framkvæmdar inngripsmiklar aðgerðir á sjúklingum. Þörfin fyrir þjónustu Klíníkurinnar er alfarið háð fjársvelti Landspítalans. Víkur nú sögunni að milljörðunum tveimur í ríkisfjármálaáætluninni sem eiga að fara í læknisþjónustu við Íslendinga erlendis. Það fé fer líklega í fyrstu til þess að borga fyrir aðgerðir framkvæmdar á einkasjúkrahúsum í Svíþjóð af þeirri gerð sem eru framkvæmdar á Klíníkinni í Ármúlanum. Síðan verður látið undan þrýstingi og borgað fyrir aðgerðirnar á Klíníkinni. Milljarðarnir tveir eru sem sagt fé sem er eyrnamerkt til þess að fjármagna einkavæðingu í íslenskri heilbrigðisþjónustu.
Í stað þess mætti nota þetta fé til þess að útbúa Landspítalann til þess að sinna allri þeirri þörf sem er fyrir þessar aðgerðir á landi hér. Þar er öryggi sjúklinga mun betur gætt en á fábrotinni einkaklíník í Ármúlanum og aðgerðirnar nýtast til þess að mennta og þjálfa næstu kynslóð heilbrigðisstarfsmanna.
Er ekki nokkuð ljóst á því sem hér hefur verið rakið að það er dálítið bil milli þess Óttars sem flutti í fyrra ræðuna sem ég vitnaði í og hins sem nú situr sem heilbrigðismálaráðherra?
Ég er að velta fyrir mér þeim möguleika að hann hafi í rauninni aldrei meint það sem hann sagði í ræðunum sínum. Hann vann lengi sem afgreiðslumaður í bókabúð og leit á sig sem mann bókmenntanna. Kannski var ræðunum hans einfaldlega ætlað að höfða til tilfinninga og hrífa eins og prósaískt ljóð án þess að baki þeim væri loforð um að standa við eitt einasta orð sem hann sagði; án þess að hann meinti eitt einasta orð sem annað en tæki til þess að kitla tilfinningar. Hinn möguleikinn er sá að hann meini allt en skilji einfaldlega ekki það sem er að gerast í kringum hann og láti Bjarna og Benedikt, sem eru læsari á tölur en hann, þyrla í kringum sig bókhaldsskýi hnausþykku.
Hvort sem reynist rétt er hann ekki maður orða sinna og kominn tími til þess að þið sem kusuð hann losið okkur við hann. Það er ekki bara nauðsynlegt fyrir okkur og ykkur heldur líka fyrir Óttar, vegna þess að hann er farinn að líta út eins og leikmunur á sviðinu þar sem Bjarni og Benedikt syngja vesöld og sult í bú hins almenna borgara.
Kári Stefánsson og Óttarr Proppé eru sammála
Kristinn Hrafnsson skrifar:
Tvær greinar í fjölmiðlum í dag kallast á með áhugaverðum hætti. Málefni beggja er Óttarr Proppé. Í annari greininni skrifar Óttarr Proppé um sjálfan sig sem heilbrigðisráðherra og í hinni hvetur Kári Stefánsson Óttarr til að hætta að vera heilbrigðisráðherra.
Í sjálfsgreiningu Óttarrs sem hann kýs að birta alþjóð í hinum viðlesna alþýðumiðli Viðskiptablaðinu, er að verulegu leyti tekið undir rök Kára. Óttarr upplýsir að hann langi til að vera heilbrigðisráðherra, hafi raunar sótt það fast í stjórnarmyndun, en kunni ekki hlutverkið. Vilji samt læra. Ráðherrann bendir á sá lærdómur geti tekið sinn tíma og vísar til þess að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi. Helstu atriðin á námslista Proppé eru eftirfarandi:
„Það þarf að vera ljóst í hverju sérstaða Landspítalans á að felast og hvernig við stöndum vörð um hlutverk hans sem sérhæfðs háskólasjúkrahús. Það verður að vera ljóst til hvers er ætlast af heilbrigðisstofnununum í öllum umdæmum landsins og hvaða kröfur er hægt að gera til þjónustunnar. Það er algjörlega nauðsynlegt að taka upplýsta ákvörðun um það hvaða heilbrigðisþjónustu við teljum rétt og skynsamlegt að fela einkaaðilum að annast á grundvelli samninga.“
Það liggur ljóst fyrir að þorri almennings og þúsundir heilbrigðisstarfsmanna gætu tekið próf í þessu pensúmi í dag og náð fyrstu einkunn, án þess að leggjast yfir lærdóm sem tekur þann óratíma sem tók að byggja Róm. Óttarr og Kári hljóta því að vera sammála um að Óttarr ráði ekki við verkefnið. Það eru vissulega fordæmi fyrir því að þingmenn séu að gaufast í námi samhliða þingmennsku en ekki eru fordæmi fyrir því að ráðherrar leggist í viðamikið grunnnám í þeim málaflokki sem þeir eiga að vera að stýra þá stundina.
Óttarr lofar að vísu að ljúka náminu á „tiltölulega skömmum tíma“ og móta svo stefnu. Á sama tíma hefur hann samt í raun samþykkt stefnuna því hún birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Þar birtist sú heilbrigðisstefna að byggja hús í stað þeirra sem eru mygluð. Heilbrigðisstefnan felur því í sér að lækna hús. Það er í sjálfu sér virðingarvert að lækna hús, svo að fólki verði ekki sjálfkrafa meint af að heimsækja þau og efalítið er þetta innspýting í gróða verktakafyrirtækjanna og skapar heilbrigða atvinnu fyrir innflutt vinnuafl á byggingartíma. Þetta teldist því gott framlag iðnaðarráðherra og Óttari ef til vill vorkunn að greina ekki á milli heilbrigði iðnaðarins og fólksins, af því hann hefur ekki klárað lærdóminn.
Kára telst til að þeir aukaaurar sem fari í raunverulegan rekstur heilbrigðisþjónustunnar, samkvæmt ríkisfjármálaáætluninni, séu svona 3% af þeirri fjáraukningu sem nærri hundrað þúsund Íslendingar kröfðust fyrir kosningar. Hann bendir samt á að tveimur milljörðum verði varið í að senda Íslendinga í aðgerðir til útlanda og leiðir að því getum að þetta sé tímabundinn íslenskur ríkisstyrkur við erlend einkasjúkrahús. Og af því Kári Stefánsson er púki, læðist að honum sá grunur að þessum fjármunum sé ætlað að vera fyrirfram eyrnamerking fyrir einkareknu íslensku klínikstofurnar sem eiga smám saman að fara á ríkisspenann, á meðan Óttarr Proppé grúfir sig yfir námsbækunar og lærir að vera heilbrigðisráðherra. Það sé líka í takt við undirliggjandi stefnu þeirra sem stýra raunverulega málum: Engeyinganna í fjármála- og forsætisráðuneytinu: „Með því að koma í veg fyrir að Spítalinn sé í stakk búinn til þess að sinna verkefnum er (…) búin til knýjandi þörf fyrir einkaframtakið“.
Óttarri Proppé óar við þessu viðamikla verkefni að læra til heilbrigðisráðherra og kvartar sáran yfir því í Viðskiptablaðinu að það sé eins og að þurfa að borða heilan fíl. Það gerist vissulega bara á löngum tíma, þó að líkindum skemmri tíma en að byggja Róm. En það má heldur ekki gleymast að Róm þurfti að endurbyggja nokkrum sinnum. Einu sinni brann hún og það tók ekki nema 5-6 daga. Þar fórust efalaust margir námsmenn sem voru of niðursokknir í námsbækur til að taka eftir logunum, menn sem dauðlangaði að verða keisarar – en kunnu það bara ekki.
Tryggjum grundvallarréttindi fjölskyldunnar í veikindum
Anna Rós Jóhannesdóttir, Yfirfélagsráðgjafi Landspítala og Gunnlaug Thorlacius Félagsráðgjafi Landspítala skrifa:
Fjölskyldur ganga í gegnum ýmis þroskaverkefni á lífsleiðinni og alvarleg veikindi geta ógnað því jafnvægi sem er nauðsynlegt til þroska. Skilgreining á fjölskyldu er; maki, foreldrar, börn, systkini og aðrir sem fjölskyldan telur nána. Þegar talað er um fjölskyldur er átt við frumhóp, sem stendur vörð um vellíðan einstaklingsins, þá sem standa honum næst.
Sá jarðvegur sem skapast með líkamlegu- og andlegu heilbrigði, tengslamyndun, samstöðu og ættartengslum, getur ráðið úrslitum um velferð hvers og eins. Fjölskyldufræðingar hafa lagt grunninn að kenningum um tengslamyndun samskipti, og hlutverk. Þessar kenningar hafa verið þróaðar í áranna rás og nú er til staðar gagnreynd þekking sem beitt er í meðferðar- og forvarnarstarfi í með fjölskyldum.
Fjölskyldan getur gefið skýra mynd af aðstæðum sjúklingsins, hún býr oftast yfir mikilli þekkingu á venjum, tengslum, styrkleikum og veikleikum, sem fagfólki ber að taka mið af. Við veikindi er mikilvægt að vinna með fjölskyldum við að bæta líðan, veita aðstandendum upplýsingar um ástand og meðferðarmöguleika og draga úr óöryggi og kvíða. Vinna með fjölskyldum byggir á sterkum vísindalegum grunni og gagnsemi ítrekað verið staðfest með rannsóknum.
Við líkamleg og geðræn veikindi hefur verið lögð áhersla á að heilbrigðisstarfsmenn meti aðstæður sjúklinga vel og séu meðvitaðir um að manneskjan er nær alltaf hluti af stærri heild. Hvernig unnið er með það getur ráðið úrslitum um velferð einstaklingsins og því er mikilvægt að heilbrigðisstarfmenn séu vakandi og tilbúnir til að virkja fjölskyldu og umhverfi. Það má því líta á fjölskylduna sem hreyfiafl til góðs.
Réttur barna vegna veikinda foreldra verði bundinn í lög
Veikindi fjölskyldumeðlims geta skapað kvíða, depurð og streitu hjá öðrum. Í samskiptum við þá skapast möguleikar á að skima fyrir þessu og leiðbeina um viðeigandi úrræði.
Eitt af því sem fagfólk innan heilbrigðiskerfisins hefur lagt sérstaka áherslu á, er að réttur barna á viðeigandi meðferð og stuðningi vegna veikinda foreldra verði bundinn í lög. Hér á landi eru ekki skýr ákvæði í lögum þegar kemur að þessu en sé litið til hinna norðurlandanna er staðan önnur.
Í norskum lögum um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna kveður á um skyldu til að bera kennsl á, meta þarfir, og að gæta hagsmuna barna þeirra sem hafa geðsjúkdóma, fíknisjúkdóma eða alvarlega líkamlega sjúkdóma. Auk þess bera heilbrigðisstarfsmenn ábyrgð á að veittar séu réttar og viðeigandi upplýsingar. Foreldrar eru spurðir um þarfir barns fyrir upplýsingar og meðferð og þeim boðinn stuðningur og handleiðsla. Með tilliti til þagnarskyldu skal einnig bjóða barninu og þeim sem sjá um það að taka þátt í slíku samtali. Þá þarf að fá samþykki til þess að fylgja þessu eftir með hagsmuni barnsins að leiðarljósi.
Valdefling fjölskyldunnar sem og þess veika er mikilvæg og hlutverk allra í fyrirhugaðri meðferð skýr. Rannsóknir hafa sýnt þátttaka fjölskyldu bætir lífsgæði þess veika og auðveldar útskriftir. Þetta styðja leiðbeiningar National Institute for Health and Care Excellence (NICE) sem lagðar eru til grundvallar innan heilbrigðiskerfisins.
Anna Rós Jóhannesdóttir, Yfirfélagsráðgjafi Landspítala
Gunnlaug Thorlacius Félagsráðgjafi Landspítala
Slick, Spencer, eiturlyfin og þjóðin í teboði Undralands
Veraldarsagan hefði getað tekið breytingum ef Grace Slick, söngkonu Jefferson Airplane, hefði tekist ætlunarverk sitt 1970 og náð að lauma LSD í tebolla Nixons Bandaríkjaforseta. Lagið White Rabbit, eða hvíta kanínan, sem Slick söng með hljómsveitinni hafði verið misserum saman vinsælasti sálmur hugvíkkunarhippa og vitaskuld var það sungið á Woodstock hátíðinni (sjá hlekk á youtube að neðan).
Textinn fjallar þó að formi til um Lísu í Undralandi sem eltir hvítu kanínuna niður í holu, setur ofan í sig dulafulla kökubita og drekkur af elexírum og upplifir alls kyns bilanir; einna frægust er hjartadrottningin sem vildi leysa öll vandamál með því að afhausa menn og skepnur.
Grace hafði verið í sama skóla og Tricia, dóttir Nixons og var því boðið í Hvíta húsið til samdrykkju fyrrverandi nemenda. Enginn áttaði sig á því að Grace Wing hafði umbreyst í Grace Slick. Hún afréð að mæta og lauma sýru í drykk Nixons og taldi líkur á því að hann kynni að hafa gott af upplifunninni; sæi ef til vill Vietnam stríðið í öðru ljósi og léti af ofstæki sínu í garð fíkniefna (Nixon er upphafsmaður af helstefnunni War on Drugs, sem hefur drepið fleiri en fíkniefnin sem átti að bjarga fólki frá).
Grace og kærastinn vöktu hins vegar grunsemdir öryggisvarða Hvíta hússins enda stungu þau í stúf í samkvæminu eins og framsóknarþingmenn í Jamæskri rastafari messu. Málið var athugað og þar sem Slick var á válista FBI var þeim vísað á dyr hússins hvíta og ekkert varð af þessari hugvíkkunareitrun forsetans.
Mögulega hefur svipuð jákvæð fyrirætlan vakið fyrir þeim sem laumaði MDMA eða e-pillu í drykkinn hjá rasistanum Robert Spencer í Reykjavík á dögunum. Spencer er að ekki rasisti, að eigin mati, en finnst bara að Islam, sem fjórðungur mannkyns aðhyllist, hættuleg trúarbrögð sem ali af sér endalaust vesen. Hann náði að fylla Andreas Breivik mikilli hugljómun og væntanlega verið honum hvatning til ógeðslegastu fjöldamorða síðari tíma.
Sá eða sú sem gaf Spencer eiturlyfið hefur ef til vill vonast til að hann sæi ljósið; tæki sporið í góðum rythma og elskaði barasta alla í kringum sig. En planið gékk ekki alveg upp. Spencer var í skyndi ekið á slysavarðsstofuna undir læknishendur enda töldu allir í kringum hann að fólk sem hatar hatara hefðu reynt að ráða hann af dögum.
Fyrirlesarinn deildi læknaskýrslunni frá bráðavaktinni til DV sem birti hana í heild. Hún er athyglisverð því eitrunareinkennin sem Spencer fann fyrir voru „skyndileg svimatilfinning, iðandi erting kringum munn og í handleggjum, ásamt hita í andliti.” Spencer kom á bráðavaktina í andnauð sem er ekki að undra fyrir mann sem telur að hann sé við dauðans dyr.
Hjalti Már Björnsson, vakthafandi læknir, skrifar upp á, að einkennin Spencers séu lýsandi fyrir mann í miklu kvíðakasti. Hann sjái þó engin einkenni alvarlegrar eitrunar. Spencer hafi sagt að hann væri undir miklu álagi og streitu vegna vinnu og er ráðlagt að minnka streituna, sé það gerlegt. Er svo útskrifaður og sendur heim.
Einhvern veginn flökrar það að manni að þessi óumbeðna alsælutilraun hafi ekki neinar varanlegar jákvæðar afleiðingar eða breyti hugarfari Spencers til betri vegar. Mögulega hefði því farið eins fyrir Nixon ef Grace Slick hefði tekist ætlunarverkið; hann hefði fengið kvíðakast, fleygt sér í gólfið í andnauð og verið ekið í skyndi á sjúkrahús í fylgd manna sem héldu á skjalatösku með kóðanum til að byrja kjarnorkustríð og enda siðmenninguna. Það gerðist ekki.
Nú er Grace Slick amma á áttræðisaldri og hefur upplifað tímana tvenna, ef ekki þrenna, eins og aðrir hippar. Draumar þeirra um að hugvíkkandi efni myndu auka innsæi, samkennd, manngæsku og ást gékk aldrei upp. Án nokurra hvítra kanína hefur heimurinn samt umbreyst í veröld Lísu í Undralandi. Lýðræðið hefur alið af sér galnar Hjartadrottningar í unnvörpum sem öskra „af með hausana“ á móðins máta, eins og þegar Trump, Bandaríkjaforseti lýsti því yfir við forstjóra FBI í liðinni viku að honum hefði verið „tortímt“.
Á Íslandi situr þjóðin í teboði sem er álíka og Lísa lenti í; heslimúsin liggur ofan í heilbrigðissúspunni, hérinn þvælir tómar rökleysur í fjármálunum og hattarinn segir óánægðu fólki sem sér ekki veisluna að það sé geðveikt.
„Fáðu þér meira te“, sagði hérinn við Lísu. „En ég hef ekki fengið neitt te“, svaraði Lísa móðguð, „svo ég get ekki fengið mér meira“. „Þú meinar að þú getir ekki fengið þér minna“, leiðrétti hattarinn, „það er mjög auðvelt að drekka meira en ekki neitt“.
Í guðana bænum ekki blanda neinu hugvíkkandi í drykkina.
Þetta er nóg – þetta er nóg.
Heslimúsin hafði þó ein skilaboð í svefnrofanum sem vert er að minnast, eins og Slick syngur um: „Fóðraðu hausinn“
Jóhanna Kristjónsdóttir – Minningarorð
Búrka frá Yemen
Kyrtill frá Oman (mikið notaður á jólunum)
Blár emeleraður diskur frá Sameinuðu þjóðunum og Írönum
Músik frá Portúgal ásamt saltfisksamböndum
Uppi á loftskörinni ævafornt teppi frá Írak
Ullarkambur útskorinn frá Kyrgyzstan
Papýrus úr Konungadalnum
Koparstungur frá Kýpur
Hálsfesti frá Beirut
Krydd og kokkabækur frá Sýrlandi
Útskorið höfuð frá Eþíópíu
Matreiðslubækur frá Líbanon
Krydd reykelsi og myrra frá Jerusalem
Þetta er bara brotabrot af því sem hún Jóhanna dreifði um heimili mitt ásamt með sögunum af hverjum hlut og hvaðan hann kæmi og hver lét hann í té.
Og þetta hefur áhrif, eins og þið getið rétt ímyndað ykkur, á börnin. Þau hugsa sitt. Hvernig er heimurinn? Hvernig er hann í laginu eiginlega?
Og fyrst amma getur þetta, hví þá ekki ég?
Og þetta hefur áhrif á tengdadóttur.
Hún hugsar vonandi líka sitt.
Fyrir utan ævintýralegt ævistarf, þá var það einn kostur í hennar fari sem ég tók strax eftir og fannst og finnst enn til mikillar fyrirmyndar og mætti vera mörgum konum til eftirbreytni: Hún ræktaði fyrrverandi tengdadætur og syni. Hún tók sér þann sjálfsagða rétt að vera amma barnanna sinna hvar sem þau voru í sveit sett og alveg burtséð frá hvernig foreldrum þeirra kom saman; það var ekki hennar mál, heldur hvernig þessar manneskjur hennar væru í laginu að utan sem innan.
Hún hafði ferðast og horft uppá heimsins margslungnu böl en líka lystisemdir, og lét okkur heyra af því. Nei, hún lá ekki á liði sínu hún Jóhanna. Hún vissi hvað það var að vera einstætt foreldri, og tók líka málin í sínar hendur þegar kom að því að vera einstæð amma.
Ég veit að hennar fólk gefur mikið fyrir ritað mál, en lag og mynd er þarna líka. Og hér í Skólastræti á gamlárskvöld náðum við Jóhanna stundum að dansa pínulítið saman og syngja nú árið er liðið.
Og mig langar mest að kveðja hana hér í Kvennablaðinu sem mér finnst hæfa henni og þakka henni allar lífsins gjafir.
Guðrún Snæfríður Gísladóttir
Kvenfrelsun og kvennaathvarf
Arnar Sverrisson skrifar í aðsendri grein:
Frelsun kvenna á Vesturlöndum hefur staðið yfir í drjúgar tvær aldir. Í upphafi voru kvenfrelsunarhóparnir sundurgerðarlegir rétt eins og í dag. Þá eins og nú bar á öfgum og ofbeldi. Rússneskur kvenfrelsari myrti um aldamótin 1900 um þrjú hundruð eiginmenn kvenna, sem töldu sig beittar ofbeldi af körlum sínum. Á sama méli unnu kvenréttindakonur í Lundúnum skemmdarverk og gerðu árásir á (karlkyns) lögreglumenn. Konur úr röðum kvenfrelsunarsamtaka tóku þátt í starfi breskra og þýskra nasista. Konur tóku þátt í útrýmingu gyðinga. Atkvæði kvenna vógu þungt við valdatöku nasista í Þýskalandi og fasista á Ítalíu. Konur börðust ötullega á vígvöllum Austur-Evrópu í seinna heimsstríði og aukin heldur héldu þær vopnaframleiðslunni gangandi, meðan karlar þeirra öttu kappi á vígvöllunum. Hugmyndafræðingar jafnaðarstefnu börðust gegn hjónabandinu.
Í ríkjandi hjónabandslöggjöf Vesturlanda stóð konan í skjóli karlsins. Einungis efnahagslega sjálfstæðar konur voru lögaðiljar. Þetta fól m.a. í sér, að erfitt var að koma lögum yfir giftar konur. T.d. var ekki unnt að draga sænska kvensjóræningjann, Christina Anna Skytte, fyrir dóm af þeim sökum. En eiginkarl hennar sat í súpunni. Þegar kosningaréttur kom til sögunnar voru það einungis konur (og karlar reyndar einnig), er voru sjálfs sín ráðandi, sem öðluðust þann rétt.
Kosningaréttur kvenna var önnur þungamiðja í kvenfrelsisbaráttunni um og upp úr aldamóttunum 1900. Fjöldi karla lagði þar þung lóð á vogarskálarnir. Meðal annars skrifuðu fjórir þekktustu karlrithöfunda Noregs ávarp til kvenna og þings um breytingar á hjónabandsráðgjöfinni. Þeir, Björnstjerne Björnsson, Henrik Ibsen, Jonas Lie og Alexander Kielland, sögðu:
“Hún [konan] verður að skilja og finna, að hún stofni til hjónabands á jafnréttisgrundvelli, hafi sama lagarétt og karlmaðurinn. Slíkt er siðferðilega gott báðum aðiljum og sambúðin mun verða auðveldari, bera vott gagnkvæmri virðingu.”
Margir íslenskir karlmenn voru einnig ákafir talsmenn sömu lýðréttinda handa körlum og konum og brautryðjendur í baráttunni fyrir þeim. Karlar á þjóðþingum Vesturlanda greiddu götu löggjafar, sem tryggði slík réttindi. (Fyrstir voru reyndar karlar í bresku nýlendunni, Nýja-Sjálandi, fyrir aldamótin 1900.)
Þrátt fyrir að karlar Vesturlanda hefðu samþykkt óskorðuð lýðréttindi handa öllum körlum og konum, hélt kvenfrelsunin áfram. Konur tóku ótvíræða forystu. Spjótunum er beint að svonefndu feðraveldi eða karlaveldi. Kvenfrelsunarfræðimenn á borð við Simone de Beauvoir, Betty Friedan, Carol Hanisch, Juliett Mitchell og Germaine Greer, hafa gríðarleg áhrif.
Boðskapurinn er í hnotskurn sá, að konur eigi körlum illt upp að unna, að karlar um víða veröld hafi verið og séu kúgarar. Kúgunarþörf karla býr í eðli þeirra eða í samfélagsgerðinni og tungumálinu, sem karlar eru ábyrgir fyrir. Þannig er hvert sveinbarn kúgari.
Sumar baráttuhreyfingar kvenna aðhylltast fyrrnefnda eðlishyggju.
„Treystið engu sem karlar hafa skrifað um konur, því þeir eru í senn kúgarar og dómarar.“ (Simone de Beauvoir)
„Frelsun kvenna er annað og meira en „jafnrétti“ til að lifa eins og „fjötraðir“ karlmenn. (Germaine Greer)
„Oft og réttilega er á það bent, að konur eigi ekki að stíga fram á svið þjóðlífsins sem einhver eftirlíking þeirra ímyndar, sem karlmannasamfélagið hefur getið af sér og birtist sem einhliða, mótaður, tilfinningafirrtur einstaklingur.“ (Soffía Guðmundsdóttir)
„Karlmaðurinn er meinið. Því má einu gilda úr hvaða sjónarhorni stjórnmála eða hagfræða tilveran er skoðuð.“ (Nina Karin Monsen)
„Ég lít svo á að konur séu kúgaðar vegna þess að þær eru konur.“ (Stefanía Traustadóttir)
„Launamisrétti, fátækt kvenna, valdaleysi þeirra og kynbundið ofbeldi, eru allt greinar af sama meiði. Þann meið kalla ég karlveldi.“ (Valgerður Bjarnadóttir)
„Hér á landi eru þúsundir kvenna og barna sem hræðast hversdaginn. Þau eru ekki örugg heima hjá sér, finna fyrir daglegum ótta, vanmætti og niðurlægingu. … Ástæðan er kynbundið ofbeldi [þ.e. ofbeldi karla] sem þrífst í skjóli þagnarinnar, …“ (Drífa Snædal)
Staðreyndin er að undirrót vandans er valdbeiting karlsins innan fjölskyldunnar. (Pia Bäcklund)
Öfgafyllstu kvenfrelsararnir láta að því liggja, að karlar hafi gagngert tekið höndum saman um að kúga konur og börn. Lykilhugtakið er þöggun:
„Hvernig stendur á því að karlar, sem lengstum hafa ráðið ríkjum í stéttum lækna og sálfræðinga hafa ekki [fyrir] löngu kannað rækilega þessa hegðun [kynferðislegt ofbeldi gegn konum og börnum] meðbræðra sinna. Hefur verið í gildi einhvers konar þegjandi samtrygging karla um að tala ekki um þessi mál og taka mildilega á þeim, jafnt í dómstólum sem annars staðar?“ (Kristín Ástgeirsdóttir.)
„Karlar hafa haft greiðan aðgang að umræðunni um jafnrétti og ofbeldi. Þeir hafa hins vegar hundsað hana og ég held að ástæðan sé óþægilega einföld. Allt of mörgum hefur hentað það ljómandi að ástandið breyttist ekki. Þeir hafa völdin, launin og ofbeldi karla gegn konum hefur verið áhrifarík leið til þess að viðhalda ástandinu.“ (Guðrún Jónsdóttir)
Kvennaathvarfið, stofnað árið 1982 af ýmsum samtökum kvenna, grundvallast á ofangreindri hugmyndafræði – og Stígmót reyndar einnig. Þangað er konum, sem telja sig fórnarlömb karla, boðið að koma með börn sín (og feðra þeirra). Það er gildur aðgöngumiði. Konurnar nema börnin á brott frá heimili og föður. Feðrum er meinað að hafa samband við börn sín í Kvennaathvarfinu.
„Enginn viðmælendanna var í sambandi við föður sinn eftir að þeir komu í Kvennaathvarfið.“ (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir) Logið er að börnunum um dvalarstaðinn.
„Barn [er] ekki upplýst um þann stað sem kvennaathvarf er, því er sagt t.d. að dvalið sé á hóteli, erlendis eða að það sé í fríi.“ … „Staðsetningu athvarfsins [er] haldið leyndri.“ … „Barn [er] ekki upplýst um að dvöl í kvennaathvarfi sé í vændum.“ (Anni Haugen og Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)
Fátt er vitað um mæður barnanna; um 36 af hundraði þeirra eru öryrkjar og um helmingur þeirra snýr aftur til ofbeldiskarla sinna með börnin. Fáar kæra staðhæft ofbeldi. Um 87 af hundraði segja það andlegt. Nánari skilgreining fylgir ekki.
Hluti kvennanna á margar vistanir að baki. „Þetta eru sterkar konur sem hafa kjark til að leita aðstoðar fyrir sig og börnin sín – hafa kjark til að rjúfa þögnina.“ (Drifa Snædal)
Frá stofnun Kvennaathvarfs til ársins 2013 höfðu 3.400 kjarkaðar konur lagt leið sína til stofnunarinnar. Árið 2004 dvöldu 55 börn í Athvarfinu, árið 2012 voru þar vistuð 87 börn. Meðaldvalartími var 24 dagar. Mæður og börn koma stundum í fylgd fulltrúa barnaverndarnefndar, stundum með fulltingi fulltrúa Barnaverndarstofu. Þessi fulltrúi veitir jafnvel „meðferðarviðtöl“ í Athvarfinu.
Stundum koma konur í fylgd lögreglu, sem veitir þeim ýmis konar þjónustu: „Lögregla kemur með sumar konur og börn þeirra í Athvarfið eftir að hafa verið kölluð á heimili þar sem ofbeldi á sér stað. Einnig geta dvalarkonur fengið lögreglufylgd heim til að ná í helstu nauðsynjar/persónulegar eigur ef þannig stendur á. Undanfarin ár hefur Athvarfið átt sinn sérstaka tengilið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Starfskonur eiga greiðan aðgang að þessari lögreglukonu … [sem] kemur einnig í Athvarfið ef nauðsyn krefur og ræðir við konur þar.“ (Hildur Guðmundsdóttir)
Heilbrigðisstarfmenn eru sumir hverjir afar greiningasnjallir, þegar ofbeldi er annars vegar: “[Kvenlæknirinn var fljótur] að sjá að konan bjó við ofbeldi bara á því hvernig maðurinn hennar talaði við hana á sjúkrahúsinu. Læknirinn sagði henni frá Kvennaathvarfinu og bauð henni að hringja sem hún gerði.“ (Hildur Guðmundsdóttir)
Í hverju felst svo aðstoðin við börnin? „Starfskonur“ bjóða upp á klínísk viðtöl:
„Starfskonurnar nefndu allar að sú hugmynd að bjóða börnum upp á viðtöl hefði snert þær á skrítinn hátt og þær hefðu ekki verið vissar um hvort þær myndu treysta sér til þess að taka viðtöl við þau.“ (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)
Viðtöl við börnin byggja á ofanrakinni hugmyndafræði:
„Starfið hefur … einkennst af hugmyndum kvennahreyfinga … enda sprottið upp úr kvennahreyfingum og með áherslu á að rétta við hlut kvenna í samfélaginu og berjast gegn feðraveldi. … [S]ko það er kannski asnalegt að segja það en það er rauðsokkugangur yfir starfsseminni, en mér finnst það ekki neikvætt,…“ (Starfskona)
Áður var rekinn skóli í Kvennaathvarfinu. Nú ganga börn af höfuðborgarsvæðinu venjulega í skóla sína og dagvistarstofnanir. Börn utan svæðisins fá ekki skólagöngu. Sum þeirra eru lokuð inni í Athvarfinu að mestu, jafnvel 133 daga. „Starfskonur“ leggja sig fram um að vinna úr ofbeldisreynslu vistbarna, sem þau, að sögn móður, hafa orðið fyrir. Og hvernig skyldu nú börnunum líða, meðan á meðferð stendur?
Norsk rannsókn frá sams konar starfsemi í Noregi árið 2009 gæti gefið vísbendingu:
„Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að börnum fannst staða þeirra oft vera ruglingsleg, þau skorti upplýsingar … [Á]herslan á að halda staðsetningu athvarfsins leyndri flækti líf sumra, þau þurftu sum hver að ljúga og skipuleggja sögu sína vel til þess að koma ekki upp um staðsetninguna. Í nokkrum tilfellum leiddi það til þess að barnið einangraði sig frá lífinu utan athvarfsins. Þátttakendur kvörtuðu yfir því að hafa ekki fengið mikilvægar upplýsingar um dvöl sína, svo sem hvar þau voru, hver væri ástæða dvalar þeirra og hvað tæki við er dvöl í kvennaathvarfinu lyki.“ (Bergdís Ýr Guðmundsdóttir)
Sú spurning hlýtur að vakna, hvert sé eðli téðrar starfsemi og hverjar séu lagalegar og kerfislegar forsendur hennar. Hér er greinilega rekin starfssemi, sem í senn fellur undir barnalög og barnaverndarlög, enda koma bæði barnaverndarnefndir og Barnaverndarstofa að starfseminni.
Sé um heilbrigðisþjónustu að ræða er starfsemin skilyrt leyfi landlæknis, sem einnig hefur eftirlitsskyldu að gegna. Þáttur löggæslunnar stangast á við lög. Engum er heimilt að nema barn brott af heimili sínu, nema að undangengnum úrskurði barnaverndarnefndar eða dómstóla. Lögreglan tekur þátt í slíkum hráskinnaleiki. Sama gildir um tálmun á umgengni foreldris við barn sitt.
Í þessu efni er Kvennaathvarf, barnavernd og lögregla samsek. Að þessu sögðu hlýt ég að beina þeim tilmælum til hlutaðeigandi stofnanna og yfirvalda að útskýra hlutdeild sína. Þá væri fróðlegt að lesa rökstuðning hins opinbera, ríkisvalds og sveitarfélaga, fyrir fjármögnun þeirrar starfsemi, sem hér er fjallað um.
Höfundur er ellilífeyrisþegi
Langar þig til að rækta kryddjurtir og grænmeti en veist ekki alveg hvernig á að fara að því?
Þriðjudaginn 23. maí á milli kl. 17-19 býðst gestum og gangandi að fræðast um sáningu, útplöntun og umhirðu krydd- og matjurta auk þess sem farið verður yfir ráðleggingar varðandi smádýrin í matjurtagarðinum. Sérstök áhersla verður á kartöflur en Grasagarður Reykjavíkur tekur þetta sumarið þátt í mjög spennandi verkefni með sáðkartöflur. Garðyrkjufræðingar Grasagarðsins og félagar í matjurtaklúbbi Garðyrkjufélags Íslands sjá um fræðsluna.
Hægt er að koma við í Grasagarðinum hvenær sem er á milli 17 og 19 þennan dag og fá góð ráð.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!
Allt að 350 íbúðir á Gelgjutanga í Vogabyggð
Fréttatilkynning
Nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt í auglýsingu fyrir Gelgjutanga í Vogabyggð og fer það í sex vikna formlegt kynningarferli í næstu viku. Á Gelgjutanga við Elliðaárvog mun rísa vistvæn byggð í nálægð við náttúruna.
Svæðið Gelgjutangi í Vogabyggð afmarkast af lóðinni Kleppsmýrarvegur 8 til vesturs, Skútuvogi 13, 13A, Brúarvogi 1-3, Kjalaravogi 12 og 14 til norðurs, Elliðaárvogi til austurs og suðurs. Afmörkun deiliskipulags byggir á þeim rökum að svæðið myndar heildstæða einingu íbúðarbyggðar og er innan afmarkaðs landsvæðis. Áætlanir gera ráð fyrir 1.100 – 1.300 íbúðum í allri Vogabyggð.
Hluti af stærra þróunarsvæði
Skipulagssvæði Vogabyggðar er hluti af stærra þróunarsvæði við Elliðaárvog og Ártúnshöfða sem eru landfræðilega í miðri Reykjavík. Svæðið verður endurskipulagt og byggt upp samkvæmt áherslum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Það er skilgreint sem þróunarsvæði með breyttri landnotkun þar sem iðnaðar- og athafnasvæði er breytt í íbúðabyggð. Í skipulagstillögunni er lögð rík áhersla á fjölbreytta byggð, góð almenningsrými og tengingar við nálæg útivistarsvæði. Þannig getur hverfið orðið eftirsóttur valkostur fyrir fólk sem kýs að búa og starfa í umhverfi sem einkennist af hvoru tveggja í senn, borgarbrag og nálægð við náttúru.
Markmið skipulagsins er að skapa jákvæðar forsendur fyrir áhugaverða og vistvæna byggð í Vogabyggð þar sem húsbyggjendur og hönnuðir fá svigrúm til sköpunar í gerð mannvirkja sem jafnframt verða hluti af heildarmynd samfelldrar byggðar.

Yfirbragð bygginga í Vogabyggð verður ljóst og allar lausnir við þær vistvænar. Myndin sýnir hvernig byggðin gæti litið út en ekki endanlegt útlit.
Bjarg reisir 75 íbúðir
Nýlega skrifaði Reykjavíkurborg undir samninga um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Gelgjutanga en heildarfjöldinn þar verður 349 íbúðir. Inni í þeirri tölu eru 75 íbúðir sem Bjarg – íbúðafélag ASÍ og BSRB mun byggja og eru þær ætlaðar fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga. .
Gert er ráð fyrir landfyllingu til austurs á Gelgjutanga og hækkun og aðlögun lands við ströndina. Við uppbyggingu Vogabyggðar verður lögð áhersla á vandaða hönnun og samræmda efnisnotkun þannig að byggðin fái fallegt og heildstætt yfirbragð. Þá er notagildi, ásýnd og gæði almenningsrýmis og svæða hátt metin. Reynt verður að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif við framkvæmdir í hverfinu, á líftíma mannvirkja og við notkun hverfisins.

Uppdráttur af deiliskipulagi Vogabyggðar. Græni hlutinn er Gelgjutangi.
Ljósar byggingar og græn þök
Í allri hönnun hverfisins verður lögð áhersla á svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir . Græn þök og önnur gróðurþekja eru mikilvægir þættir í blágrænum ofanvatnslausnum sem geta haft jákvæð áhrif á vistkerfið á margan hátt. Til dæmis finna fuglar sér stundum varpstaði á gróðursælum þökum í skjóli frá ófleygum óvinum. Þá er hugað að styrkingu vistkerfisins og aukna líffræðilega fjölbreytni í skipulagsvinnunni.
Ásýnd og yfirbragð Vogabyggðar mun einkennast af ljósum byggingum sem endurspegla hvort tveggja í senn fjölbreytileika og heildarsvip hverfisins. Gróður skal nýttur í yfirborð bygginga og lóða. Þannig er stuðlað að skilvirkum ofanvatnslausnum, líffræðilegri fjölbreytni og gróðursælum svip hverfisins.
Nokkrar staðreyndir um deiliskipulagið:
· Hámarksbyggingarmagn húsnæðis (A+B rými), þ.e. brúttóflatarmál sbr. ÍST 50, orðið allt að 33.300m2
· Hjóla- og bílageymslur (A+B rými) allt að 6.880m2 auk bílageymsluhúss sem er allt að 6.880m2
· Heildarbyggingarmagn í íbúðarbyggð getur orðið allt að 47.080m2 ásamt bílageymsluhúsi
· Fjöldi íbúða í íbúðarbyggð getur orðið allt að 350. Viðmiðunarstærð íbúða er 100m2 brúttó flötur íbúðarhúss, en lægra viðmið er á lóð 1-1.
· Nýta má allt að 20% byggingarmagns fyrir atvinnustarfsemi.
· Fyrirliggjandi byggingar eru 7.012m2. Þær verða fjarlægðar til þess að framfylgja megi deiliskipulagi.
Gott rými fyrir gangandi og hjólandi
Samgöngukerfi Vogabyggðar tryggir jafnræði allra samgöngumáta og gerir skýran greinarmun á aðalgötu og íbúðargötum. Aðalgata Vogabyggðar, Dugguvogur, hlykkjast í gegnum hverfið og skilur að atvinnusvæði og íbúðarbyggð. Þar er gert ráð fyrir almenningsvögnum, hjólareinum og meiri umferðarþunga en í íbúðargötum hverfisins. Strandgatan sem heitir Drómundarvogur, tengist öllum svæðum Vogabyggðar. Þar verða allir samgöngumátar nýttir en með áherslu á gangandi og hjólandi vegfarendur.
Tveir þriðju reyklausra nota rafrettur
Tveir af hverjum þremur sem hafa hætt að reykja, nota veipur (eða svokallaðar rafrettur). Þetta kemur fram í facebookfærslu hjá lækninum Guðmundi Karli Snæbjörnssyni, baráttumanni gegn veipfrumvarpi Óttarrs Proppé, heilbrigðisráðherra, sem býður afgreiðslu þingsins. Guðmundur Karl hefur fengið upplýsingar úr óbirtri rannsókn á vegum Landlæknisembættisins, ef marka má stöðuuppfærsluna, þar sem fram komi að hún hafi verið gerð á liðnu ári og náð til 5600 einstaklinga. „ Þá kom í ljós að þeir sem voru hættir að reykja voru 63% þeirra sem veipa. Engin smá snilld það”, segir Guðmundur Karl i færslunni.
Guðmundur Karl hafði veg og vanda af ráðstefnu um liðna helgi þar sem fjórir sérfræðingar, þar af þrír sem tengjast læknasamtökunum Royal College of Physicians og Bresku lýðheilsustofnuninni (Public Health England). Á síðasta ári gáfu bæði þessi samtök út skýrslur þar sem lagt er til að rafrettum verði fagnað í skaðaminnkunarskyni, til að hjálpa fólki að hætta að reykja. Samkvæmt báðum skýrslunum er afar óveruleg skaðsemi af rafrettum, þrátt fyrir einhverja vísindalega óvissu, þegar þær eru bornar saman við reykingar. Aðspurðir sögðust fyrirlesararnir, sem allir hafa mikla reynslu af fíknirannsóknum og tóbaksvarnarstarfi, boðnir og búnir að vera Alþingi til ráðgjafar í stefnumótun, þegar kemur að rafrettum. Sagt er frá ráðstefnunni hér.
Costco er fimm sinnum stærra en Ísland
Costco veltir hærri fjárhæð á 10 vikum en allt íslenska þjóðarbúið á heilu ári. Verslun Costco sem verður opnuð á þriðjudag er númer 730 í heiminum. Fyrirtækið er skráð á Nasdaq markaðnum og er þar að finna tilkynningar um afkomu fyrirækisins og söluveltu. Fyrr í mánuðinum voru birtar tölur um að söluvelta í apríl hefði numið 10 milljörðum Bandaríkjadala eða jafnvirði ríflega 1000 milljarða króna. Landsframleiðslan á Íslandi á liðnu ári nam 2422 milljörðum króna, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, svo að nærri lætur að Costco velti þeirri fjárhæð á tveimur og hálfum mánuði.
Samkvæmt upplýsingum frá fyrirækinu rekur Costco 729 verslanir (eða vöruhús, eins og það er kallað) þannig að sú sem opnuð verður í Kauptúni á þriðjudag verður númer 730 í röðinni. Hlutabréf í Costo hafa skilað eigendum dágóðum arði og frá því greint að þau hafi verið helmingi betri fjárfesting miðað við meðaltal þeirra hlutabréfa sem eru að baki vísitölu Standard & Poor.
Fyrsta vöruhús Costco var opnað 1976 en undir nafninu Price Club í San Diego í Bandaríkjunum en fyrsta vöruhúsið undir nafni Costco var opnað í Seattle árið 1983. Tíu árum síðar voru félögin Costco og Price Club sameinuðu og síðustu 20 ár hefur reksturinn verið alfarið undir nafni Costco. Þeir sem þar versla verða að greiða meðlimagjald og fá meðlimakort. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins eru meðlimirnir nú 88 milljónir. Ekki eru auðfinnanlegar upplýsingar um fjölda þeirra íslendinga sem hafa gerst meðlimir hjá fyrirtækinu. Heildarvelta á liðnu ári nam 116 milljörðum Bandaríkjadala eða sem svarar til 11657 milljarða íslenskra króna, miðað við skráð gengi dagsins. Það stappar nærri því að vera fimmföld landsframleiðsla Íslands, miðað við tölur 2016.
Forskot Íhaldsflokksins minnkar
Nú hálfum mánuðu fyrir kosningar í Bretlandi hefur bilið á milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins minnkað verulega en er enn umtalsvert. Samkæmt nýrri könnun sem greint er frá í Independent hefur munurinn minnkað um helming á einni viku. Íhaldsflokknum, undir stjórn Thereseu May, forsætisráðherra, er spáð stuðningi 43% kjósenda en Verkamannaflokknum, stýrt af Jeremy Corbyn er spá 34 %.
Kosningaáherslur flokkana hafa verið að koma fram á liðnum dögum og eru taldar skerpa línurnar og skýra að hluta fylgisbreytingar. Umdeildar aðgerðir sem boðaðar hafa verið af stjórn May eru taldar hafa dregið úr stuðningi við Íhaldsflokkinn. Þar er til dæmis um að ræða niðurskurð á velferðarþjónustu; skólamáltíðum og tekjutengingu á húshitunarstyrk til aldraðra.
Theresa May boðaði óvænt til kosninga 18. apríl s.l. , þvert á eigin fyrirheit, þegar flokkur hennar mældist með meiri styrk umfram höfuðandstæðinginn en mælst hafði í sögunni. Kosið verður 8. júní næstkomandi. Undanfarið hefur traust á leiðtogahæfileikum May meðal þjóðarinnar verið nærri tvöfallt meira en tiltrú á Corbyn sem forsætisráðherra.
Bandaríkjaforseti dansar undir blóðugum bjúgsverðum
Kristinn Hrafnsson skrifar:
Það er súrrealískt að fylgjast úr fjarlægð með fyrstu opinuberu heimsókn Donald Trump, Bandaríkjaforseta. Sádí-Arabía var fyrsta landið sem var heimsótt og í öðru og þriðja sæti komu svo Ísrael og Vatikanið. Þetta á væntanlega að endurspegla áherslur í utanríkismálum.
Skilaboðin til Sáda og annara fylgifiska voru svo öfugsnúin að jaðrar við sjúkleika. Trump sendi þau hefðbundnu skilaboð að hryðuverk yrðu ekki liðin, en skilaboðunum var ekki beint til ISIS heldur Íran. Það er heldur afkáralegt þegar þannig er talað í höfuðvígi þeirra útungunarstöðvar sem alið hefur af sér þá hugmyndafræði sem hættulegustu hryðjuverkamenn okkar tíma hafa sótt í – að ekki sé talað um fjárstuðning. Til að bíta höfuðið af skömminni kom Trump með vopnaviðskiptasamning til að færa Sádum – vel yfir 110 milljarða dollara virði.
Að beina spjótum sínum gegn Íran fremur en ISIS er einstaklega nöturlegt í ljósi þess að Íranir höfðu tveimur dögum áður endurkjörið Hassan Rouhani, forseta landsins. Hann sigraði með yfirburðum. Samkvæmt frásögn fréttastofu Aljazeera fór kosningaþáttaka fram úr björtustu vonum og þurfti að framlengja kjörtímann vegna langra biðraða sem mynduðust við kjörstaði. Kosningabaráttan var hörð en helstu fyrirheit Rouhani voru að styrkja og bæta tengsl Írans við umheiminn og færa mannréttindamál til betri vegar innanlands.
Á mælistiku þessa heimshluta telst Rouhani framsækinn og hefur sýnt vilja til frðisamlegra lausna. Rétt tvö ár eru síðan hann gerði samkomuleg við helstu valdaríki um að nota ekki kjarnorku í hernaðartilgangi gegn því að létt yrði á viðskiptaþingunum gegn landinu.
Þegar Trump hafði lofað Sádum vopnastuðningi og skammast út í Íran steig hann þjóðlegan sverðdans með pótintátunum í Ryhadm þar sem glitrandi bjúgsverðum var sveiflað, sem alla jafna eru notuð til að höggva hendur og hausa af almennum borgurum, fyrir litlar eða engar sakir. Finn ekki heimildir um að Trump hafi minnst á mannréttindi, þegar hann tók sér hlé frá sverðdansinum.
Yfir tuttugu létust í gærkvöld í sprengingu í Manchester
Að minnsta kosti 22 eru látnir og 59 særðir í sprengjárás í tónleikahöll í Manchester í Englandi. Árásins varð um klukkan hálf ellefu að staðartíma og er talið að karlmaður með heimatilbúna sprengju um sig hafi sprengt sig í loft upp á meðal tónleikagesta á tónleikum Ariönu Grande, rétt eftir að hún lauk þeim og gestir voru að búa sig til heimferðar. Sprengjumaðurinn virðist hafa verið einn á ferð en hann hefur ekki verið auðkenndur. Bandaríska söngkonan Ariana er vinsæl meðal táninga og er staðfest að börn eru meðal hinna látnu.
Sprengingin var í anddyri tónleikahallarinnar Manchester Arena og varð mikil ringulreið og örvænting þegar tónleikagestir reyndu að koma sér út. Höllin tekur yfir 20 þúsund manns og var uppselt á tónleika Ariönu. Engin hefur enn lýst ábyrgð á verknaðinum en hann er rannsakaður sem hryðjuverk sem er þá það mannskæðasta í Englandi síðan 52 létust og yfir 700 særðust í röð sprenginga í samgöngukerfi Lundúna 7. júlí 2005.
Helstu flokkar hafa frestað kosningabaráttu sinni vegna þingkosninga í Bretlandi 8. júní vegna þessa atburðar. Flaggað var í hálfa stöng í Downingstræti 10, ráðherrabústað Thereseu May forsætirsráðherra, nú í morgunsárið.
Myndband sem tekið var inni í tónleikahöllinni þegar gestir þustu þaðan út eftir sprenginguna var sett á youtube:
Ísland, næst-best í heimi!
Magnús Karl Magnússon, prófessor við Læknadeild Hí og fyrrum forseti deildarinnar, skrifar:
Þau ánægjulegu tíðindi bárust nýlega að Ísland skoraði hátt í nýrri tegund heilbrigðiskerfisvísitölu samkvæmt rannsókn í læknisfræðitímaritinu Lancet. Þessum fréttum ber að fagna. Þau gefa vísbendingu um að heilbrigðiskerfið á Íslandi síðustu áratuga sé gott. En slíkar fréttir eiga líka að minna okkur á að við eigum að gæta að þessu fjöreggi. Þessar fréttir eiga að hvetja okkur til dáða en ekki á að nota þær til að slaka á eða hætta uppbyggingu.
Hvað var verið að mæla? Þarna var beitt nýrri og nákvæmari nálgun á aðferðafræði þar sem horft er á árangur meðferðar í sjúkdómum þar sem heilbrigðisþjónusta skiptir miklu máli. Það er síðan horft á dánartíðni vegna þessara sjúkdóma og reynt að yfirfæra þessar margþættu tölur í einfaldan mælikvarða á gæði heilbrigðiskerfisins. Að sjálfsögðu er slíkur einfaldur mælikvarði ekki einhlýtur en hann gefur vísbendingar sem ber að taka mark á.
Þeir sjúkdómar sem horft er á eru meðal annars smitsjúkdómar, til dæmis þeir sem leggjast á börn og hægt er að fyrirbyggja með einföldum hætti eins og bólusetningum. Þarna er horft á ýmsa alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein af ákveðnum flokkum og króníska sjúkdóma í hjarta- og æðakerfi. Það er horft á flogaveiki, sykursýki og marga aðra sjúkdóma.
Þegar við túlkum niðurstöður þurfum við að hafa ýmislegt í huga. Þarna er ekki verið að meta heilbrigðiskerfið á afmörkuðum tímapunkti, árið 2015. Þarna er verið að horfa á árangur margra ára. Þannig ræðst dánartíðni fyrir árið 2015 vegna flestra sjúkdóma af árangri margra síðustu ára, jafnvel áratuga. Þarna er ekki verið að mæla með beinum hætti aðgengi, kostnað eða ánægju. Þarna er ekki verið að mæla árangur þessarar eða síðustu ríkisstjórnar á Íslandi, þarna er langtímaárangur mældur.
Við eigum að fagna þessum niðurstöðum. Þær eru merkilegar. En hverjar eru ástæðurnar? Nú veit ég það ekki frekar en aðrir. Ég ætla þó að leyfa mér að benda á nokkra hluti. Ég myndi setja efst á blað mannauð í heilbrigðisstéttum á íslandi. Í þeirri stétt sem ég þekki best, læknastétt er vert að benda á gífurlega fjölbreyttan bakgrunn með sérmenntun á bestu háskólasjúkrahúsum bæði vestan hafs og austan. Ég vil líka leyfa mér að benda á að aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefur verið gott gegnum tíðina. Þar vil ég þó benda á ákveðna annmarka, aðgengi að heimilislæknum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu hefur verið slæmt síðustu ár og þar þarf mjög að bæta úr. Ég tel líka að lengst af hafi kostnaður ekki verið mjög íþyngjandi fyrir þá verst settu. Það hefur þó verulega breyst síðustu ár, sérstaklega frá hruni og af því þarf að hafa verulegar áhyggjur. Þannig getur of mikill kostnaður hindrað aðgengi og þannig dregið úr árangri. Ýmis konar fyrirbyggjandi læknisfræði hefur verið góð. Almenningsþekking er að mínu mati nokkuð góð, bólusetningar hafa verið til fyrirmyndar og krabbameinsskimanir nokkuð góðar. Þar má þó benda á að ristilkrabbameinsskimun er ábótavant og þátttaka í krabbameinsskimunum hefur eitthvað fallið á síðustu árum.
Það er því mitt mat að við höfum á síðustu áratugum byggt upp gott kerfi. Við verðum að viðhalda því og fjárfesta í því. Tortryggni stjórnamálamann gagnvart grundvallarstofnunum, svo sem LSH verður að linna. Við verðum líka að átta okkur á því að ef farið er að molna undan grunnþáttum kerfisins þá mun það ekki mælast með þeim mælistikum sem var beitt í umræddri vísindagrein fyrr en mörgum árum síðar. Til þess að mæla árangur ár frá ári þarf aðrar mælistikur.
Hér má lesa greinina sem birtist í Lancet í síðustu viku.
Sameiginlegur sigur!
Leikrit Nick Payne, Í samhengi við stjörnurnar (e.: Constellations) er ákaflega vel skrifað, smellið og líflegt verk – samið útfrá lögmálum skammtafræði og afstæðiskenningar, svo vitnað sé til örkynningar í leikskrá. Það segir frá þeim Ragnari og Maríu sem hittast í grillveislu hjá sameiginlegum vini og það verður tenging á milli þeirra. Hvað síðan verður er hulið í því samhengi sem skapast á milli sviðs og salar, milli sögu og áhorfanda, enda ku það vera þannig samkvæmt skammtafræðinni: við teljum okkur vera að horfa á ögn, en hún kemur fram sem bylgja, og öfugt: við teljum okkur vera að horfa á bylgju, en hún kemur fram sem ögn. Þetta er tvíeðli agnar og bylgju og það var danski eðlisfræðingurinn Niels Bohr sem kvað uppúr með að það væri fyrirkomulag tilraunarinnar sem réði því hvort það væri bylgjueðli eða agnareðli viðfangsefnisins sem kæmi fram í henni.
Ef verk Nick Paynes og sýningu Árna Kristjánssonar er skoðað sem viðfangsefnið sem við, áhorfendur, erum að rannsaka, þá er það undir þeim Nick og Árna komið hvort verið sé að sýna okkur agnir eða bylgjur, en það er svo aftur undir áhorfendum komið hvort þeir sjái bylgjur úr bylgjum eða agnir úr ögnum – eða öfugt: bylgjur úr ögnum eða agnir úr bylgjum! Þess konar leikhús mætti kalla lýðræðislegt og engu öðru undangengnu leikhúsi líkt í þeim skilningi að leikhúsið hefur hingað til ekki verið neitt sérlega upptekið af því að viðurkenna og vinna útfrá valfrelsi áhorfenda. Hér er því nokkurt nýmæli á ferð.
Þau Ragnar, leikinn af Hilmi Jenssyni, og María, leikin af Birgittu Birgisdóttur, eiga í erfiðleikum með að finna sambandið og treysta það, gefa því færi á að þróast. Þau eru efins um sjálf sig og hvort annað og áður en þau hafa náð áttum endanlega hafa þau bæði svikið; en um síðir er eins og rofi til, þau virðast ætla að ná saman og vonir vakna um happy end … En Nick Payne hefur hæfileikann að koma á óvart og leikstjóri og leikendur ljóstra engu upp fyrr en í fulla hnefana og úr verður dramatísk spenna – eða ætti kannski frekar að segja spennitreyja, sem áhorfandinn fær sig ekki losað úr fyrr en allt er að lokum komið.
Hér skal ekki ljóstrað upp um endinn, aðeins sagt að þótt verkið sé vel samið af Nick Payne og þýðingin skili hugsun og flæði vel yfir á íslensku, hefði sá sem hér skrifar viljað sjá hið óvænta betur kynnt til sögunnar – það má vissulega greina fyrirboða í því sem á undan fer, en hefði höfundur farið eftir bókinni, hefði hið óvænta fengið betri kynningu; það hefði líka áreiðanlega verið hægt að gera það án þess að koma upp um það sem gerist í raun. Nema tilgangurinn sé að færa frásagnarmátann og byggingu sögunnar nær skammtafræðinni – óvæntar uppákomur eiga sér sannarlega stað í lífinu í raun og það án þess að vera kynntar til sögu með einhverjum fyrirvara.
Uppúr stendur að sýning Árna Kristjánssonar er ákaflega vönduð og vel gerð og fylgir ásetningi höfundar vel eftir. Leikurinn er ekki síðri þegar kemur að því að glæða hinn skammtafræðilega söguþráð lífi og skilningi; hér er unnið með endurtekningar og miklu skiptir að skilin á milli þeirra séu skýr og að eitthvað gerist á milli þeirra, að þær sýni að þróun eigi sér stað í sambandi einstaklinganna. Og það gera þau Birgitta Birgisdóttir og Hilmir Jensson nær svikalaust.
Leikrýmið er sérlega snoturt – hér er í fyrsta skipti, held ég, leikið í Tjarnarbíói með áhorfendur á fjóra vegu og það gerir sérstakar kröfur til leikrýmisins, leikmyndarinnar og hreyfingar leikara. Leikmynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur er ákaflega falleg og stílhrein – átján kljásteinar hanga úr lofti rétt ofan við gólf, síðan ferningur úr þykkum járnteini með opnum hliðum á alla vegu og þríhyrnd strýta einnig úr járnteinni með strengjum, og hvort tveggja nýtist á ýmsan hátt og er fært til af leikurum í hita leiks til að marka áherslu- og atriðaskipti. Ásamt smekklegri hönnun Hafliða Emils Barðasonar á lýsingu nýtist bæði leikmynd og sviðsrými vel sem mínimalistískt umhverfi fyrir þau Maríu og Ragnar í leit sinni að sjálfum sér og hvoru öðru.
Sú leit fer fram um sviðsrýmið allt og það er hrein unun að sjá, hvernig leitin er hönnuð og hvernig hún fer fram. Leikstjórinn gætir þess að halda vel um það að sjáist til leikaranna úr öllum áttum og það skapar ákveðinn ryþma, fallega hreyfingu og ekki svo litla dýnamík og spennu – það skapast beinlínis þrá hjá áhorfendum að sjá og fylgjast með, þau Hilmir og Birgitta bókstaflega dansa um sviðið á köflum. Staðsetningarnar eru ávallt mjög vel heppnaðar, í samræmi við efnið og alls staðar og alltaf eðlilegar, eins og ekki væri öðruvísi hægt að gera. Hreyfingarnar minna á stundum á hreyfingar taflmanna á skákborði, eins og fylgt væri reglum sem eru persónunum sterkari og minna á, að mannskepnan verður aldrei stærri en örlög sín og fær aldrei umflúið það afl, sem í örlögunum felst. Hreyfingarnar einkennast af léttleika og þegar á líður verður þessi léttleiki til að gera þann skugga sem færist yfir samband þeirra Maríu og Ragnars bærilegri og þolanlegri. Það er ómögulegt að ljóstra upp því, sem gerist, en mikið sem fallega er úr því unnið á öllum plönum hinnar tæknilegu vinnu – í hreyfingum, stefnu, ryþma og svo þeim mögnuðu andartökum þar sem hugsunin hverfist og persónur skipta um stefnu, leita í nýja átt og sækja enn meiri þrótt í enn nýja tilfinningu. Ég hygg að bæði Hilmir og Birgitta hafi hér náð lengra í list sinni en áður og það verður spennandi að sjá hvort ekki verði framhald á þessari þróun þeirra.
Hér verður þó að doka við og ræða eitt atriði í list leikarans sem er einatt til vandræða á íslensku leiksviði og hefur reyndar oft verið áður rætt og í öðru samhengi, en það er röddin og beiting hennar. Eins og þau Hilmir og Birgitta eru bæði snjöll í að veita léttleika og lipurð í líkama og hreyfingu, þá leyfa þau sama léttleika líka að smita röddina og raddbeitinguna. Það hygg ég sé óheppileg leið til að skapa dramatíska spennu – milli persóna verksins og milli sviðs og salar; betri leið til þess væri að mynda sterkari hljómbotn, skapa tengingu raddar við jörð, eins og það er stundum orðað og leyfa þeim ólíku hljóðum sem mynda orð, setningu og hugsun að mótast til fulls og hljóma í leikrýminu öllu. Þau hljóð eru líka agnir og bylgjur og þannig í samræmi við þá skammtafræði sem verkið að öðru leyti byggist á. Og það má nær öruggt telja að sú spenna sem myndast við að skapa þyngd og hljóm í röddina en halda léttleikanum í líkama, hreyfingum og tímasetningu (e. timing) mun geta lyft sögunni og túlkuninni í hærri hæðir. Og nóg um það að sinni.
María og Ragnar ganga í gegnum það ferli, sem þeir þekkja, sem einhvern tímann hafa gripist af ástinni, ofsi fyrstu kynna, að hefja sambúð, lenda í klóm efans, svíkja, þjást í upplausn og skilnaði. Þetta er fallega unnið ferli hjá þeim, sagan verður trúverðug í meðförum þeirra og það er góður grunnur að því lagður í lögn leikstjóra. Endurtekningarnar, sem eru bæði margar og margvíslegar, einkennast af þeim húmor sem skapast þegar hismið er skilið frá kjarnanum, krafturinn soðinn úr beinunum og það sem skiptir máli, hin hinstu rök, stendur eftir og verður ekki umflúið.
Sagan er okkur færð í skömmtum (afsakið brandarann!) og skammtaskilin, eða atriðaskilin eru mörkuð með hógværum ljósbreytingum og áhrifamikilli hljóðmynd í formi örstuttra lagabúta – örlaga! – eftir Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur – sem hvort tveggja byggir söguna og styrkir og bindur saman hina mismunandi hluta hennar og þá þætti, sem gefa henni svip: ást, löngun, þrá, efa, óöryggi, svik …
Endurtekningin felur í sér markvissa byggingu og leiðir, eins og lögmál Aristótelesar um hina dramatísku frásögn, til þess endis sem ekki verður umflúinn. En þegar minnst varir, leikur höfundur á okkur og sagan tekur enn eina óvæntu kúvendinguna, breytir um karakter og um stund er eins og sýningin hafi svikið áhorfendur sína, hrifsað af þeim hinn hamingjusama endi … Og þó.
Það skal látið hverjum áhorfanda eftir að dæma um það. Leikstjórinn leyfir því að gerast – það er eins og leikurinn einnig sé hrifsaður úr höndum leikaranna og þeir fái engu ráðið um það sem gerist – og er það ekki nákvæmlega þannig, sem örlögin spinna þræði sína og vinna vef sinn? Og hvað hangir ekki þarna, yfir miðju sviðinu eins og til að minna á örlaganornirnar: átján kljásteinar! Og örlagaþræðirnir í þríhyrndu súlunni …
Og óhjákvæmilega vaknar spurningin sem lifir til loka og fylgir áhorfandanum út úr The Lakehouse Theatre: Getur það fólk sem á erfitt með að sameinast um lífið sameinast um dauðann? Skynja þau afl örlaganna – tímann – á sama hátt?
Það er hreint magnað, hversu samstilltir hinir ólíku þættir sýningarinnar eru. Leikur, leikstjórn, leikmynd, lýsing, tónlist rennur saman í glæsilegt flæði sem ber vitni um góða greiningarvinnu og farsæla úrvinnslu. Svo ekki sé minnst á samtakamátt þeirra listamanna, sem þarna koma við sögu. Í samhengi við stjörnurnar er sameiginlegur sigur þeirra allra!
Tjarnarbíó: The Lakehouse Theatre: Í samhengi við stjörnurnar
Höfundur: Nick Payne
Leikstjóri og þýðandi: Árni Kristjánsson
Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir
Frumsamin tónlist: Harpa Fönn Sigurjónsdóttir
Ljósahönnuður: Hafliði Emil Barðason
Leikarar: Hilmir Jensson og Birgitta Birgisdóttir
Vill pólitíska stjórn yfir Landspítalann svo stjórnendur þar séu ekki í pólitískri baráttu og „betli“
Við umræðu um fjármaálaáætlun ríkisstjórnarinnar í gærkvöld komu þær hugmyndir til umræðu sem hreyft hefur verið innan fjárlaganefndar að stjórnvöld settu sérstaka pólitíska stjórn yfir Landspítlann. Katrín Jakobssdóttir, formaður Vinstri-grænna, vakti máls á þessu og spurði Nichole Leigh Mosty, formann velferðarnefndar út í þessar hugmyndir og sagði: „ Að mínu viti lítur þetta út eins og meirihluti fjárlaganefndar vilji ekki horfast í augu við þá þörf sem augljóslega er uppi á Landspítala og ætli að leysa þann vanda sem þar er uppi með því að setja pólitískan yfirfrakka á spítalann.“
Nichole sem er frá Bjartri framtíð eins og Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, játaði að hugmyndin um pólitíska yfirstjórn væri frá sér komin: „Ég ætla að vera alveg hreinskilin, það er ég sem hef verið að hlaupa hérna um þinghúsið að leggja fram hugmyndir um stjórn yfir spítalann. Ekki á pólitískum forsendum heldur faglegum, að við setjum fagaðila í reksturinn svo að forstjóri spítalans þurfi ekki að vera í baráttu, í pólitískri baráttu á fundum eftir pening, að hann þurfi ekki að koma hérna niður í þinghús fimm mínútum í afgreiðslu fjárlaga til þess að betla um pening“.
Bjarkey Olsen, vinstri grænum undraðist þessi orð og sagði þau hljóma eins og verið væri að lýsa vantrausti á stjórn spítalans. Nichole Mosty þvertók fyrir það og tók fram að hún vildi að stjórnendur einbeittu sér að rekstrinum. „Ég kem frá annað land og ég þekki hvergi spítala heima hjá mér, hvor sem er opinber eða einkavæddur, sem er án stjórnar“. Hún tók fram að þetta væri viðbragð við því að sjá stjórnendur eyða kröftum sínum í að reka spítalann en líka vera í pólitískri baráttu fyrir fjármunum. Aðspurð sagðist hún ekki hafa rætt þetta við forstjóra spítalans.
Skoða má upptöku af þingfundi þar sem þessi mál eru til umræðu hér en fyrst var greint frá þessum orðaskiptum á Stundinni.
Fyrir barnið í okkur öllum
Á eigin fótum er fjarska falleg, einföld og einlæg saga, ætluð börnum frá tveggja ára aldri og fjölskyldum þeirra og víst er að ekki lætur sýningin meira yfir sér en svo; þó leynir hún á sér, það býr meira undir en virðist í fyrstu og það á fleiri en einu plani.
Ef litið er fyrst til þess sem við blasir, þá er sýningin ákaflega vel samin. Sagan er sögð blátt áfram, framvindan er eðlileg og gerð hæfilega spennandi bæði að efni og listrænni útfærslu til að vera vel til þess fallin að barnshugur skilji hana og kveiki á þeim hugmyndum sem þar koma fram; hún er sögð á hugmyndaríkan hátt þannig að fullorðnir hljóta líka að geta hrifist og þá eru allir möguleikar á að kynslóðirnar taki leikhúsupplifunina til sín, eigi hana saman og geti rætt um hana löngu eftir að leikhúsljósin eru slokknuð og sýningunni lokið – enda er sagan það nálægt raunveruleika barna að þeim hlýtur að finnast hún mikilvæg og það er okkur fullorðna fólkinu hollt að vera minnt á hvað brennur helst á litla fólkinu okkar.
Höfuðpersóna verksins heitir Ninna, hún er sex ára stúlka sem elskar hann pabba sinn, sem er henni góður og skemmtilegur faðir. Ninna lendir í ævintýrum sem lítil börn og stór skilja; hafi þau ekki reynt þau á eigin skinni, sér samhygðin til að halda vitundinni vakandi og hjartanu í hæfilegum slætti.
Ninna er send í sveit yfir sumarið og þetta nýja umhverfi er henni ókunnugt og framandi, eins ólíkt bænum þar sem hún á heima. Í þessum nýju heimkynnum birtast henni alls konar undarlegar verur, sem hún þarf að kynnast: kýr, kindur og hundur og það reynir á þor hennar og áræði; og þá ekki síður þegar hún lendir í óveðri og erfitt reynist að rata aftur heim á bæ. En verstur er kannski einmanaleikinn, tilhugsunin um að sjá kannski aldrei aftur hann pabba sinn, sem reynist Ninnu erfiðust og sem yfirgnæfir allan annan ótta.
En Ninna er áræðin telpa, hún er snögg að átta sig á aðstæðum og takast á við þá erfiðleika sem þær hafa í för með sér. Hún bregst við þannig að hún viðurkennir ótta sinn, tekst á við hann, og veit ávallt innst inni hvað hún vill. Hún er hugrökk og leitar uppi vináttu, hvort sem það er við menn eða dýr, enda hefur það komið greinilega fram í upphafinu, að samband hennar og pabba hennar byggir á vináttu. Og þetta er gert á trúverðugan máta í sýningunni, enda er sagan byggð á endurminningum raunverulegrar telpu, Signýjar Óskarsdóttur, sem er amma leikstjórans, Agnesar Wild.
Agnes hefur tekið sögu ömmu sinnar og fært í búning leikhússins og sniðið að barninu í okkur öllum; atriði sögunnar og tilfinningar hitta beint í mark og kveikja löngun til að sjá hvað verður um hana Ninnu – því hún er persónan í brennidepli og við látum okkur svo sannarlega varða afdrif hennar og örlög.
Og þá er ekki eftir nema ljóstra upp um þá skemmtilegu staðreynd, að Ninna er brúða. Brúða, sem liggur ekki á tilfinningum sínum, viðbrögðum eða vilja – og fátt er betur fallið til að vekja undrun, spennu, samúð og kæti en uppátæki brúðu og óvissan um örlög hennar og afdrif.
Brúðuleikhús er heillandi listform. Á Íslandi hefur alltof lítið farið fyrir því, en þó skal nefnt það sem vel hefur verið gert eins og ævistarf frumkvöðulsins Jóns E. Guðmundssonar; þá má nefna Leikbrúðuland sem þær Bryndís Gunnarsdóttir, Hallveig Thorlacius og Helga Steffensen stofnuðu og ráku um árabil og auðvitað Brúðubílinn, sem Helga Steffensen rekur á vegum Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar og hefur gert í meira en þrjá áratugi. Þá skal einnig nefndur Bernd Ogrodnik sem hefur um árabil rekið brúðuleikhúsið Brúðuheima sem hefur sett upp fjölda sýninga, nú seinustu árin í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Bernd gerir brúður með margvíslegri tækni, Jón E. Guðmundsson gerði einkum strengjabrúður meðan Leikbrúðuland og Brúðubíllinn hafa aðallega notast við handbrúður og stangarbrúður, en leikbrúður eru af ýmsu tagi og stjórntækin jafn mismunandi og stærð þeirra og útlit. Einatt eru leikbrúður flokkaðar eftir uppruna, menningarsvæðum og tækninni sem þeim er stjórnað með.
Ninna, sem birtist okkur í Á eigin fótum, á sér líka uppruna. Hún er svonefnd Bunraku-brúða, en slíkar brúður eru ættaðar frá Osaka í Japan og eiga sér sögu allt frá seinni hluta 17. aldar, þegar þessi sérstaka tegund brúðuleiklistar kom til sögunnar þar. Bunraku er einatt aðskilið frá kabuki-leiklist, þar sem leikarinn hefur frelsi til að bæta við texta og sprelli frá eigin brjósti; bunraku er aftur á móti leikstíll þar sem handriti er stranglega fylgt og sagan sögð með aðstoð sögumanns; samkvæmt ströngustu hefð er sögumaðurinn sá sem leikur öll hlutverkin en með aðstoð brúðustjórnenda, sem eru yfirleitt þrír um hverja brúðu og er stöðumunur nokkur á þeim – sá elsti og reyndasti stjórnar höfði og hægri hendi brúðunnar, sá sem næstur honum kemur stjórnar vinstri hendi, en nýliðinn í hópnum sér um fætur brúðunnar. Þeir bera hvert sitt starfsheitið, en sameiginlegt starfsheiti þeirra er “kuromaku” sem merkir svart tjald, eða í yfirfærðri merkingu “sá sem dregur í spottana á bak við tjöldin”. Það er ekkert auðvelt verk að stjórna bunraku-brúðu; stjórnendur hennar verða að bogra við starf sitt og ganga um verulega hoknir í hnjám og það krefst þess að þeir séu í góðri líkamlegri þjálfun, séu fimir og kattliðugir og hafi jafn mikið vald á eigin líkama og brúðunni. Stjórnendur brúðunnar eiga svo gjarnan um tvo kosti að ræða þegar kemur að leik og hegðun brúðunnar og það er “furi”, sem er nokkuð raunverulegur leikstíll eða “kata” sem er stílfærð túlkun.
Lýsingin hér á að öllu leyti við Ninnu og leikstíll hennar myndi teljast nær hinum raunverulega – viðbrögð hennar, hreyfingar og ryþmi er með náttúrulegra móti og það hygg ég sé gert til að ná betur til hinna ungu áhorfenda og gekk að mínu viti alveg upp – þeir fylgdust með af athygli og fylgdu Ninnu eftir í öllum atriðum, stórum sem smáum.
Það er held ég allt í lagi að segja, að eins og Ninna lendir í mörgum ævintýrum og mikilli óvissuferð í sveitinni og eigin tilfinningaheimi, þá fer allt vel að lokum og við áhorfendur finnum, rétt eins og Ninna sjálf, til ekta og fölskvalausrar gleði yfir endalokunum.

Aðstaðdendur sýningarinnar.
Samræður eru í lágmarki í þessari sýningu, það er brúðan Ninna sem ræður för ásamt fjölda aðstoðarbrúða og reyndar nokkurra leikara af holdi og blóði einnig; einkum eru það dýrin í sveitinni, sem vekja ósvikna hrifningu sakir hugkvæmni í gerð þeirra – þar birtist nútíminn í brúðugerð svo ekki verður um villst; á meðan Ninna er hefðbundin bunraku-brúða eru dýrin í sveitinni gerð úr því sem hendi er næst. Mjólkurskjóla, ferðataska og ýmislegt fleira tekur breytingum fyrir augum áhorfenda, öðlast líf og skapgerð og hefur áhrif á gang mála í sögunni. Það er bæði fallegt og fyndið og vekur hrifningu.
Brúðugerðin, eins og reyndar smekkleg og látlaus leikmyndin, sem og búningar, skrifast á Evu Björgu Harðardóttur, sem notið hefur aðstoðar Brynhildar Sveinsdóttur. Þær vinna ákaflega glæsilega og listræna umgjörð utanum söguna hennar Ninnu, fullkomlega í stíl við einfaldleika og einlægni sýningarinnar. Þeirra verki er vel fylgt eftir í lýsingu Kjartans Darra Kristjánssonar, sem setur fókus þar sem við á og skapar stemningu í átökum og skerpir á þeim – þegar Ninna kveður föður sinn, lendir í óveðrinu og víðar.
Ógetið er tónlistarinnar, sem er frumsamin og flutt af þeim Sigrúnu Harðardóttur og Margréti Arnardóttur; þær skapa hógværa hljóðmynd sem ýtir vel og eðlilega undir þær tilfinninningar sem við eiga hverju sinni; einkar notalegt er sú lausn að láta Ninnu og pabba hennar skapa tengslin sín í millum með litlu lagi, sem verður svo að eins konar leiðarstefi í gegnum alla söguna. Þar er unnið fyrir barnið í okkur öllum, sem þráir og elskar að skynja allt, sem þekkist aftur og finna fyrir örygginu og traustinu, sem það vekur.
Á eigin fótum er vel unnin og þekkileg sýning sem vonandi verður langra lífdaga auðið; sannarlega á allt lítið fólk þessa lands skilið að sjá svo vandaða sýningu og fær með henni seiðmagnaða og töfrandi leiðsögn fyrir yngstu áhorfendurna inn í undraheim leikhússins.
Tjarnabíó: Leikhópurinn Miðnætti í samstarfi við Lost Watch Theatre Company: Á eigin fótum
Leikstjóri: Agnes Wild
Höfundar: Leikhópurinn Miðnætti og Lost Watch Theatre Company
Tónlist og tónlistarflutningur: Sigrún Harðardóttir og Margrét Arnardóttir
Leikmynd/búningar/brúðugerð: Eva Björg Harðardóttir
Ljósahönnuður: Kjartan Darri Kristjánsson
Leikarar: Nick Candy, Olivia Hirst, Rianna Dearden, Þorleifur Einarsson
Þar sem rómantíkin svífur yfir vötnum
Hinn stórfallega borg Veróna á Ítalíu er talin ein af rómantískustu borgum veraldar enda borg elskendanna Rómeo & Júlíu. Þar má m.a. finnu Julíu vegginn fræga þar sem elskendur víðsvegar að úr heiminum rita nöfn ástvina sinna á með stjörnur í augum. Þaðan koma líka afar flott og ekki síður rómantísk vín, Pasqua Romeo & Juliet´s Passione Sentimento en flösku miðinn er einmitt af veggnum fræga.
Rómantískur Romeo & Julia leikur
Það er í gangi ansi skemmtilegur leikur á Bestu vínkaupunum á Facebook þar sem hægt er að vinna alls kyns freistandi vinninga, m.a. 3ja rétta kvöldverði með vínum á Essensia, Kaffi Rosenberg og Uno Bistro og stærsti vinningurinn er svo helgardvöl með öllu á hinu fallega Hótel Húsafelli. Og svo eru fullt af flöskum í pottinum. Hér má taka þátt í þessum skemmtilega leik.
Passimento vínin
Svokölluð apassimento vín hafa rutt sér til rúms á Íslandi undanfarin ár og Íslendingar virðast vel kunna að meta slík vín. Vínin eru gerð á svipaðan hátt og Amarone vínin vinsælu frá Valpolicella. Amarone vínin eru gerð úr hálfþurrkuðum þrúgum, Corvina, Rondinella og Molinara. Þessi vín eru því sæt, oft rík í áfengismagni og oftast miklir boltar. Ansi margir hafa séð sér leik á borði og reynt að stæla þessa víngerð og notaðar hálfþurrkaðar allskonar þrúgur í bland við venjulegar og þannig reynt að slá sér á brjóst en með afar misjöfnum árangri.
Romeó og Júlía Passimento vínin frá Pasqua eru þó trú uppruna sínum og nota réttu þrúgurnar að einhverju leyti. Þau hafa enda fengið fína dóma og einkunnir út um allan heim.
Romeo & Julia Passione Sentimento Hvítt kr. 2.190
Þetta vín er gert 100% úr Garganeca þrúgunni þar sem þrúgunar eru látnar þurrkast í þar til gerðum bökkum í opnum skemmum í einn mánuð. Þannig missa þrúgurnar um 30% vökva og sykurinn situr eftir. Í nefi má finna sítrus ávexti, perur og hnetur. Í munni er það sætkennt en með afar góða sýru sem vinnur á móti sætunni. Epli, krydd og stikkilsber eru þarna líka og vínið er í góðu jafnvægi. Hentar vel með bragðmiklum fiskréttum og ljósu kjöti. Þetta hvítvín smellpassar með jólakalkúninum. Þolir vel kryddaðan asíkan mat. Þorri Hrings gaf víninu 3,5 stjörnur og taldi vínið mjög góð kaup.
Romeo & Julia Passione Sentimento rautt kr. 2.290
Þetta mikla rauðvín er gert úr þrúgunum Corvina ( sem notað er í Amarone vínin ),Croatina og Merlot. Þrúgurnar eru þurrkaðar á sama hátt og í hvítvíninu og útkoman er ansi tilkomumikil. Í nefi má finna fullt af rauðum berjum, lakkrís og krydd. Í munni er það líka sætkennt en góð sýra hjálpar vinnur vel á móti því. Þurrkaðir ávextir, lakkrís og appesínubörkur koma upp í hugann ásamt plómum. Passar frábærlega með alls kyns kjöti, nautakjöti og villibráð. Smellpassar líka með bragðmiklum ostum. Það væri alveg tilvalið að prófa það með hamborgarhryggnum. Þetta er án efa eitt besta vín sinnar tegundar á Íslandi og á alveg frábæru verði. Þorri Hrings gaf því 4 stjörnur af 5 mögulegum!