Kosningasjónvarpið, auglýsingar og Eurovision
Mótmælum Framsókn á Íslandi
Nú hefur einhver stofnað Facebooksíðu undir heitinu Mótmælum Framsókn á Íslandi. Nafn hópsins, opnumyndin og prófílmyndin benda til þess að síðan sé stofnuð í hálfkæringi og ég sé alveg húmorinn í því.
En yfirskrift síðunnar, sem speglar áróðurinn sem rekinn er undir merkjum hópsins Mótmælum mosku á Íslandi er því miður viðhorf sem allt of margir hafa í fullri alvöru:
Það er öryggismál, að ekki verði leyfð þjóðernishyggja á Íslandi, þar sem undirbúningur hryðjuverka virðist oft eiga upptök sín hjá hægri öfgamönnum.
Þótt ég þykist nokkuð viss um að þetta sé ekki sannfæring þeirra sem stofnuðu hópinn, heldur skot á þjóðernissinna, þá skulum við samt athuga að á Norðurlöndunum er raunverulega verið að reyna að banna skoðanir sem bera lit af andúð á kynþáttum og trúflokkum. Og ekki nóg með það heldur líka „and-feminisma“ meðal annars skoðanir þeirra sem benda á að feminismi er einmitt sama eðlis og rasismi.
Með fullri virðingu fyrir þeim sem vilja standa vörð um réttindi minnihlutahópa, þá er skoðanakúgun eitt skýrasta merki fasisma og það er í meira lagi kaldhæðnislegt að berjast gegn rasisma með fasisma.
Vondar skoðanir verða ekki upprættar með skerðingu borgaralegra réttinda. Eina nothæfa aðferðin til þess að takast á við þjóðernishyggju er að afhjúpa hana. Draga hana upp á yfirboðið, benda á rökvillurnar og gagnafölsunina sem einkennir þann hræðsluáróður sem nazistar gera út á. Og við skulum bara hafa það hugfast að ef við látum það viðgangast að tjáningarfrelsi og félagafrelsi sé skert, þá gæti það bitnað á samherjum okkar næst.
Reynum því að losna við Framsókn á Íslandi með því að mótmæla málflutningi Framsóknar á Íslandi en ekki með því að mótmæla rétti fólks til að stofna Framsóknarflokka. Með því höfða til skynsemi þeirra sem óttast áhrif útlendinga en ekki með því að banna hálfvitaskap og illsku. Með því að draga nazismann út úr greni sínu en ekki hrekja hann lengra undir yfirborðið. Það er nefnilega ekki hægt að breyta viðhorfum með því að banna þau.
Kryddaðu tilveruna
Það er fátt betra en að geta gripið til ferskra kryddjurta þegar maður eldar góðan mat. Ferskar kryddjurtir er hægt að rækta í eldhúsglugganum og margar þeirra þrífast með ágætum utandyra. Kryddjurtir hafa í aldanna rás verið notaðar í matseld en líka í heilsubótarskyni. Lítum á nokkrar.
Rósmarín
Rósmarín er upplagt sem krydd á lamba- og nautakjöt og ómissandi í ítalska matargerð. Rósmarín er notað hvort sem er ferskt eða þurrt. Rósmarín er sótthreinsandi og á að bæta minnið!
Minta
Mynta er harðger kryddjurt og vex vel utandyra á Íslandi en það er ágætt að hafa hana í pottum eða á stað þar sem hún má auðveldlega breiðast út því hún er frek til fjörsins. Mynta er frábær sem krydd í salöt og á fisk og er ómissinda í rétti frá mið-austurlöndum Einnig er hún góð söxuð saman við kúskús. Myntulauf eru frábær í te og límónaði má bragðbæta með myntu til tilbreytingar. Mynta þykir ómissandi í drykkinn Mojito. Myntu olía fælir frá skordýr og mynta hefur góð áhrif á meltinguna.
Basilíka
Basilíka er frábær fersk í salöt og ítalska pastarétti. Basilíka, tómatar og mozzarella ostur er hreint unaðslega gott saman. Basil er ríkt af A vítamíni og andoxunarefnum.
Íbúar við Grettisgötu mótmæla
Íbúar við Grettisgötu standa fyrir undirskriftasöfnun þar sem fyrirhuguðum skipulagsbreytingum við Grettisgötu er mótmælt. Í kynningartexta segir:
Nú á að fella eldgamlan, stóran og tignarlegan silfurreyni sem stendur við Grettisgötu 17 og einnig færa húsið sem þar stendur en það er friðað og mun ólíklega þola að vera fært. Húsið á að færa þannig að það stendur alveg ofan í garðinum að Grettisgötu 13 og skyggir þar með á alla sólarglætu í garðinum.
Ofan á þetta allt á að byggja hótel sem mun teygja sig frá Laugavegi og upp að Grettisgötu með tilheyrandi rútustoppum og óþægindum fyrir alla íbúa í nágrenni við reitinn. Einnig á að gera göngustíg að hótelinu frá Grettisgötu sem liggur alveg ofan í íbúum.
Engin grenndarkynning var gerð áður en teikningar voru samþykktar en skipulagsbreytingarnar voru aðeins auglýstar í Fréttablaðinu og það á Þorláksmessu. Aðeins nýlega fréttum við nágrannarnir af þessu og margir fréttu að þessu fyrst í dag. Þetta skipulag mun auðsjáanlega rýra lífsgæði okkar. Það mætti halda að miðbærinn væri aðeins ætlaður ferðamönnum og peningagræðgi. Einnig mótmælum við því að komið sé svona aftan að fólki og því nánast gert ómögulegt að nýta réttindi sín. Við undirrituð skorum á Reykjavíkurborg að framkvæma hið margumtalaða íbúalýðræði og leyfa þeim sem hér búa að fá að hafa eitthvað um málið að segja.“
Hægt er að undirrita áskorunina hér
Málið vekur ýmsar spurningar um rétt íbúa og friðun húsa og trjáa. Kvennablaðið mun á næstunni leita svara við þeim.
Boðið pláss í Konukoti, eftir 13 ár á biðlista hjá borginni
Framkvæmdirnar við Grettisgötu hafa ekki aðeins vakið reiði vegna fyrirætlana um að rífa hús og fella tré, heldur kemur yfirgangur hins nýja eiganda einnig illa við íbúana. Nýi eigandinn er Nordik lögfræðiþjónusta sem samkvæmt upplýsingum Kvennablaðsins er leppur fyrir þýska fjárfesta.
Anna Stefánsdóttir hefur búið að Grettisgötu 17 frá árinu 2002 en hefur nú misst heimili sitt vegna framkvæmdanna.
„Ég hef reyndar verið með umsókn um húsnæði hjá Reykjavíkurborg í 13 ár, því ég réði ekki við að borga svona háa leigu og því miður þá er bara ekkert ódýrara í boði. Ég hef svo ofan á það verið í mikilli óvissu frá því að eigandinn missti eignina ásamt fleiri eignum við Grettisgötu í kjölfar hrunsins. Landsbankinn yfirtók eignirnar og um tíma stóðu vonir til þess að eigandinn gæti keypt þær aftur. Landsbankinn hafnaði því hinsvegar og seldi Nordik þær í staðinn.
Ég gerði 6 mánaða leigusamning við Nordik en áttaði mig ekki á því að með því að skrifa undir tímabundinn samning væri ég að afsala mér öllum réttindum. Ég hef búið þarna allt frá 2002 og það bara hvarflaði ekki að mér að það væri hægt að henda fólki út eftir svo langan tíma. Þann 28. apríl hefur svo lögfræðingur Nordik samband við mig og segist vera að koma til að sækja lyklana.” segir Anna.
Anna segist hafa reiknað með að fá samninginn framlengdan en enda þótt hún hefði ekki í nein hús að venda hafi tilslakanir ekki komið til greina af hálfu Nordik.
„Þeir hömuðust á mér allan maímánuð og hótuðu að láta bera mig út. Það var einfaldlega ekkert húsnæði að hafa svo ég leitaði til Reykjavíkurborgar og sagði þeim að ég væri á götunni. Þar á bæ fékk ég þau svör, þrátt fyrir að hafa haft hjá þeim umsókn um húsnæði í 13 ár, að það væri ekkert hægt að hjálpa mér. Mér var ráðlagt að kanna möguleikann á að fá herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði í húsnæði þar sem pólskir verkamenn búa og þegar mér leist illa á það var mér boðið pláss í Konukoti!”
Önnu bauðst að lokum húsnæði uppi á Grafarholti, án tilstuðlunar Reykjavíkurborgar.
„Það er lán í óláni en þetta er engin lausn fyrir mig. Leigan er 165.000 kr á mánuði og ég ræð ekki við þessa fjárhæð. Ég er orðin 57 ára og fékk örorkumat núna í nóvember, ég á því litla möguleika á hálaunastarfi og hef hreinlega ekki tekjur til að standa undir þessu.”
Silfurreynirinn líklega friðaður
Kvennablaðið greindi fyrr í dag frá undirskriftasöfnun íbúa við Grettisgötu.
Að sögn aðstandenda undirskriftasöfnunar er talið að trénu sem talað er um í kynningartextanum hafi verið plantað árið 1908, það sé því friðað samkvæmt byggingarreglugerð.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem íbúar við Grettisgötu mótmæla því að tré séu felld vegna framkvæmda. Í garðinum við Grettisgötu 17 eru fleiri gömul og glæsileg tré og fyrir nokkrum árum stóð til að fella 50 ára gamalt tré vegna skólplagnar en íbúum tókst að afstýra því.
Tré eru menningarverðmæti
Það eru ekki aðeins íbúar við Grettisgötu sem efast um réttmæti þess að fella silfurreyninn sem stendur við Grettisgötu 17. Garðyrkjufræðingurinn Hafsteinn Hafliðason kemst þannig að orði á Facebooksíðu sinni:
„Silfurreynirinn er frískur og fínn. Þarna hefðu borgaryfirvöld átt að setja kvöð um að við þessu tré yrði ekki hróflað. En til vara að ef það væri óhjákvæmilegt, þá skyldi flytja það á fagmannlegan hátt með góðum og faglegum undirbúningi. Og leggja um leið til nægilega stóra lóð fyrir það (a.m.k. 60 fermetra). Aldargömul tré eru menningarverðmæti, ekki síður en annar menningararfur frá gengnum kynslóðum. En heimska, dónaskapur, fáfræði og hugsunarleysi græðginnar hefur víst yfirtökin í þjóðfélaginu um þessar mundir.”
Væri hægt að flytja tréð?
Málið vekur margar spurningar, meðal annars um það hvaða reglur gildi um það hvaða tré megi fella og hvort sé hægt að færa þau. Kvennablaðið leitaði til Vilmundar Hansen garðyrkjufræðings.
Vilmundur telur að löngu sé orðið tímabært að taka tilit til eldri trjáa við byggingarframkvæmdir enda séu tré hluti að sögunni alveg eins og hús.
Að sögn Vilmundar er mögulegt að flytja svo stórt tré enda séu tré af þessari stærð flutt erlendis með stórvirkum vinnuvélum. Hann segir það þó erfitt verk sem krefjist mikils undirbúnings og tæki líklega um tvö ár í framkvæmd.
Vilmundur segir að til þess að flytja stór tré með góðum árangri þurfi rótarhnausinn að vera mjög stór svo ræturnar skemmist ekki. Helst þurfi að finna lóð á svipuðum slóðum og síðan þurfi að sinna trénu vel með vökvun næstu ár á eftir. Aðspurður segist hann ekki vita til þess að svo stór silfurreynir hafi verið fluttur á Íslandi.
Kosningaúrslit í Reykjavík kærð
Björgvin E. Vídalín, stjórnarformaður Dögunar í Reykjavík, hyggst á morgun leggja fram kæru til Sýslumannsins í Reykjavík vegna sveitarstjórnakosninga í Reykjavík. Þess er krafist að kosningin verði úrskurðuð ógild og að borgarstjórnarkosningar verði endurteknar.
Fern rök eru færð fyrir því að ógilda skuli kosninguna.
Í fyrsta lagi er krafist ógildingar á þeirri forsendu að oddviti eins framboðanna hafi ekki uppfyllt skilyrði um kjörgengi. Bent er á að málflutningur oddvitans hafi haft ótvíræð áhrif á úrslit kosninganna þar sem framboðið hafi samkvæmt skoðanakönnunum bætt við sig fylgi upp á 8-9 prósentustig eftir að hinn ókjörgengi oddviti fór að beita sér í kosningabaráttu.
Í öðru lagi er bent á að annmarkar á atkvæðatalningu í ráðhúsinu gefi tilefni til að efast um að talning hafi verið laus við mistök eða jafnvel misferli.
Í þriðja lagi dró borgarstjórn of lengi að kjósa yfirkjörstjórn og því telur kærandi ekki hægt að treysta óhlutdrægni hennar.
Í fjórða lagi segir að samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 eigi jafnvel minni háttar gallar að hafa í för með sér ógildingu kosningar, þar með hafi Hæstiréttur sett bindandi fordæmi.
Til vara er þess krafist að kosningin verði ógild á þeirri forsendu að þar sem lögheimilsskráning oddvitans hafi verið ólögleg standist úrskurður yfirkjörstjórnar um kjörgengi hans ekki lög.
Merkilegur pinni sem alkunnur var um allt land
Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) var fræðimaður og skáld, snillingur á mörgum sviðum en gekk illa að nýta hæfileika sína af ýmsum ástæðum.
Hann ritaði sjálfsævisögu, Dægradvöl, sem prentuð var löngu eftir hans dag og Mál og menning gaf út nýlega í kilju í flokknum „íslensk klassík“ með skýringum og athugasemdum Ingvars Stefánssonar úr útgáfunni frá 1965. Dægradvöl er eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu. Hún skipar sérstakan sess meðal sjálfsævisagna, m.a. vegna þess að Gröndal hlífir engum í frásögninni, allra síst sjálfum sér, og vegna þeirra áhrifa sem hún hefur haft á íslenskrar bókmenntir, t.d. á skrif Þórbergs Þórðarsonar. Nú síðast varð lítið atvik sem minnst er á í verkinu kveikja að skáldsögunni Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson (355-6).
Dægradvöl hefur varðveist í handriti í Landsbókasafni, bæði í styttra uppkasti og sem rúmlega 500 blaðsíðna endurgerð með fíngerðri og fallegri rithönd Gröndals. Textinn er innblásinn, andríkur og meinfyndinn, með neðanmálsgreinum, útstrikunum og innskotum, hann flæðir viðstöðulaust fram og mörgu ægir saman: minningum, skáldskaparpælingum, samfélagsgagnrýni, mannlýsingum og vonbrigðarausi; og allt á gullaldarmáli.
Sögunni er skipt í kafla eftir tímaröð. Æskuárunum er lýst í skipulegum texta, sem morar af margs konar staðar- , náttúru- og mannlýsingum. Í gegnum þær glittir í lítinn strák, sílesandi og teiknandi, sem þráir ást og viðurkenningu og særist í samskiptum sínum við annað fólk enda „ekki vanur að vera með mönnum“ eins og mamma hans sagði (98).
Skemmtilegar eru lýsingar hans á skólalífinu á Bessastöðum, bæði á hrekkjum piltanna, kennurunum og kennsluháttum. Sjálfur segist hann vera latur meðalsluksari og þegar hann útskrifast er hann stefnulaus og óráðinn um framtíðina og foreldrar hans láta hann sjálfráða: „en hefði nokkur maður þurft leiðbeiningar eða áminningar, þá var það ég; lífið var fyrir mér eins og fagur draumur, ég vissi ekkert, hvað ég vildi, ég hafði enga hugmynd um embættislestur, og mér datt ekki í hug, að maður þyrfti að vinna fyrir sér; allt sem ég gerði, það gerði ég út í bláinn, tilgangslaust, einungis mér til gamans eða einhverrar ánægju“ (155).
Eins og glópur fór hann í háskólann í Kaupmannahöfn, var áhugalaus við námið enda stundaði hann það án nokkurs takmarks eða tilgangs. Gröndal segir þegar hann horfir um öxl að Hafnardvölin hafi haft slæm áhrif á sálarlíf hans, valdið „alvöru hans undir niðri“ þótt hann væri „glaður ofan á og haft gaman af lífsnautn og fyndni“ (185). Rúmlega þrítugur hefur hann ekki lokið neinu háskólaprófi, slarkað og sukkað, eitthvað ort og skrifað en ekkert af viti, „sundurtættur af sorg og eymd“.
Um hríð dvaldi hann í klaustri án þess þó að fá nokkra sáluhjálp en náði að einbeita sér að skáldskap. Loks lauk hann prófi í norrænum fræðum, fyrstur Íslendinga, náði sér í konu og gerðist kennari í Reykjavík en missti konuna, hraktist svo frá kennarastarfinu vegna þunglyndis og drykkjuskapar, og harkaði ýmislegt upp frá því, skrifaði, orti og teiknaði, einmana og fátækur. Allt þótti honum sér andsnúið og enginn vildi neitt hafa að gera með „þennan merkilega pinna sem alkunnur var um allt land“ (365).
Undir lok sögunnar er tímaskynið farið að riðlast og tíminn hleypur frá honum. Hann reynir að skapa heild úr smáatriðum, minnisleiftrum og gloppóttum brotum en hrekst alltaf út í óreiðu og stefnuleysi í skrifunum sem enda síðan snögglega, á dæmigerðum bituryrðum um „hvernig ég var flekaður, með refjum og lygum og yfirgangi…“ (392).
Fánýti, vonbrigði og sársauki gegnsýra ævisöguna og einmanakenndin er leiðarstef. Gröndal er útilokaður, beiskur og vonsvikinn, dægradvölin snýst upp í dægurþras.
Brugðið er upp óvægnum myndum af t.d. Jóni Sigurðssyni, Fjölnismönnum, Matthíasi Jochumssyni, Grími Thomsen og fleiri kunnum 19. aldar mönnum sem og alþýðufólki samtímans, og gagnrýnum lýsingum á aldarfari og tíðaranda. Fræg er lýsing hans á rímnaskáldinu Sigurði Breiðfjörð, og örlögum hans: „Sigurður var gildur meðalmaður, ljótur og luralegur, og auðsjáanlega spilltur og tútinn af slarki; hann gekk á grófum kalmúksfrakka og var fullur, þegar hann gat. Hann dó úr sulti á lofti í „Hákonsenshúsi“, Íslendingum til sóma“ (92).
Það kemur skýrt fram í sögunni að Gröndal upplifir sig öðruvísi en aðrir menn. Hann stóð alltaf í skugga föður síns, Sveinbjarnar Egilssonar, skálds og þýðanda, þótt hann nyti góðs af orðstír hans í mörgu. Hann passaði hvergi inn, tilheyrði hvorki menntamannaklíkunni sem skipti með sér embættum og bitlingum í samfélaginu, þjóðskáldunum né alþýðu manna.
Í Dægradvöl birtist ráðvilltur og vanmetinn snillingur, viðkvæmur sveimhugi og ídealisti í fjandsamlegu og þröngsýnu samfélagi sem einkennist af stéttaskiptingu, klíkuskap og kjaftagangi. Alla tíð var Gröndal ósáttur við sinn hlut og það brýst út í sögunni, í kæruleysi, biturri kaldhæðni og sárri öfund yfir velgengni annarra. En hann fegrar ekki mynd sína heldur leyfir sér alltaf að vera hann sjálfur, fúllyndur en fyndinn karl sem á endanum hætti að vonast eftir langþráðri viðurkenningu og grúfði sig yfir hugðarefni sín í litlum kofa út við sjó.
Mynd af Gröndal eftir Ólaf Th. Ólafsson.
Þegar (lögreglu)maður drepur mann
Snemma morguns annan dag desembermánaðar 2013 féll Sævar Rafn Jónsson fyrir hendi lögreglu. Dauði Sævars markaði tímamót í Íslandssögunni: Þetta var fyrsta skiptið sem lögreglan beitti skotvopnum í aðgerðum sínum og, það sem meira er, fyrsta dauðsfallið af þeirra völdum.[1] Umfjöllun fjölmiðla um þetta mál hefur verið afar lítil, í raun ótrúlega lítil miðað við hve sögulegt og grafalvarlegt atvik er um að ræða. Nú, hálfu ári síðar er ótalmörgum spurningum enn ósvarað: Var drápið á Sævari virkilega óumflýjanleg nauðsyn? Munum við einhvern tímann fá viðunandi svör við því?
Það sem við vitum
Við vitum að Sævar var heima hjá sér að morgni þessa dags, hann var með skotvopn og er talinn hafa byrjað að skjóta um klukkan eitt eftir miðnætti. Lögreglan mætti á vettvang tveimur tímum síðar og um sexleytið var Sævar helsærður. Í raun vitum við mjög lítið um hvað átti sér stað þessa þrjá tíma sem umsátrið stóð. Við vitum að sérsveit ríkislögreglustjóra og um fimmtán til tuttugu lögreglumenn aðrir tóku þátt í aðgerðum þessa afdrifaríku nótt. Við vitum að Sævar hleypti af miklum fjölda skota og að tvö þeirra hæfðu lögreglumenn. Önnur málsatvik eru óljós og ótal spurningum er ósvarað. Ríkissaksóknari hefur yfirumsjón með rannsókn málsins og ætla má að hún gefi út skýrslu um málsatvik innan nokkurra vikna. Sú skýrsla mun vonandi varpa meira ljósi á hvað gerðist og svara þessum spurningum sem sitja í mér – og vonandi fleirum.
Er ríkissaksóknari rétti aðilinn til þess að rannsaka málsatvik?
Á meðan við bíðum skýrslu ríkissaksóknara má spyrja sig hvort núverandi kerfi geti ákvarðað á hlutlausan hátt um aðgerðir lögreglu. Er lögreglan rétta stofnunin til þess að rannsaka lögregluna? Embætti ríkissaksóknara er vissulega sjálfstæð stofnun en hún á í nánu daglegu samstarfi við lögregluna. Í máli Sævars er ríkissaksóknari formlega handhafi rannsóknarvaldsins og yfirmaður annara rannsóknarmanna en engar upplýsingar fást um þá lögreglumenn sem standa að rannsókninni með henni. Í svari ríkissaksóknara við fyrirspurn höfundar um hvernig hlutleysi þeirra lögregluþjóna er standa að rannsókn málsins sé tryggt svarar hún meðal annars:
„Þeir starfsmenn embættis sérstaks saksóknara og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. starsmenn tæknideildar, starfa undir beinni stjórn ríkissaksóknara við rannsókn málsins. Ríkissaksóknari fær þá að láni ef svo má að orði komast. Þeirra daglegu yfirmenn hafa hins vegar ekkert yfir þeim að segja við þessa rannsókn ríkissaksóknara á atvikum í Hraunbæ 20.“
Það má því færa sterk rök fyrir því að margir þeirra lögreglumanna sem rannsaka málsatvik skotbardagans tilheyri í raun sama lögregluumdæmi og þeir sem tóku þátt í aðgerðum lögreglu umrætt kvöld. Það sama gildir um tæknideild lögreglu sem rannsakaði vettvang í Hraunbæ – tæknideild lögreglu er jú einungis ein og heyrir undir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Tæknideildin er því að rannsaka kollega sína og samstarfsmenn. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur einnig hlutverki að gegna samkvæmt fréttartilkynningu á vef ríkissaksóknara:
„Atriði sem varða forsögu mannsins sem lést, handhöfn og meðferð hans á skotvopni, sem og annað er hann varðar, er á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka, allt eftir því sem hann telur tilefni til.“
Þess ber að geta að engum þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í aðgerðum var gert að víkja úr starfi á meðan rannsókn málsins fer fram.
Verður ekki að teljast bráðnauðsynlegt að rannsókn á dauðsfalli af völdum lögregluaðgerða sé yfir alla gagnrýni hafin? Spurningin um hver skal gæta gæslumannanna er ekki ný af nálinni og hún á sannarlega vel við hér. Er það virkilega ásættanlegt að lögreglumenn rannsaki lögreglumenn sem tilheyra sama umdæmi og þeir sjálfir?
Alls ekki, ef marka má dómsorð Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE). Dómstóllinn á sér langa málasögu þar sem ítarlega er farið yfir hvernig stjórnvöldum aðildarríkja Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) ber að framkvæma svokallaðar „skilvirkar rannsóknir“ á grunsamlegum dauðsföllum, þá sérstaklega þeim sem verða af völdum opinberra starfsmanna. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til þess að framkvæma slíka rannsókn á grundvelli annarrar greinar MSE sem tryggir réttinn til lífs.
Réttur til lífs og hvað í honum felst
Önnur grein MSE felur í sér að réttur allra til lífs er ófrávíkjanlegur nema í örfáum ítarlega skilgreindum tilfellum. Það má því einungis taka líf annarra ef um framfylgd dauðarefsingar að loknum réttarhöldum er að ræða eða þá í algerri nauðsyn og neyð í sjálfsvörn eða til varnar lífi og heilsu annarra.[2] Þegar um seinni undantekninguna er að ræða (en einnig þegar um hvers kyns grunsamleg eða óeðlileg dauðsföll er að ræða) þá leiðir hún af sér skyldu til þess að framkvæma skilvirka rannsókn á dauðsfallinu. Þetta er svokölluð réttarfarsleg skylda og MDE hefur skilað inn fjölda dóma sem útlista þær ýmsu skyldur og aðferðir sem ríkjum ber að fara eftir í þessum málum.[3]
Til að rannsókn geti talist „skilvirk“ („effective“) verður hún að vera óháð, fljótvirk, ítarleg og aðgengileg almenningi og fjölmiðlum (og sérstaklega fjölskyldu hins látna).
Til þess að rannsókn geti talist óháð mega rannsakendur ekki tilheyra sömu stofnun og þeir sem verknaðinn frömdu né heldur mega þeir tengjast stigveldisböndum (þ.e. hvorki vera yfir- né undirmenn þeirra sem rannsakaðir eru). Að lokum skulu rannsakendur vera óháðir og sjálfstæðir frá þeim sem rannsóknin snýr að bæði í orði og á borði (þ.e. „a practical independence“).[4] Það er einnig alveg ljóst að það nægir ekki að sjálfstæð stofnun (lesist: Ríkissaksóknari) hafi yfirumsjón með starfi tengdra aðila, til þess að um óháða rannsókn sé að ræða ef mannskapurinn sem hún nýtir til verksins er ekki óháður og/eða ótengdur þeim sem rannsókninni sæta.[5]
Það gefur augaleið að þegar sönnunargögnum er safnað og vitnaskýrslur eru teknar af lögreglumönnum sem tilheyra sama umdæmi og þeir sem til rannsóknar eru getur rannsóknin ekki talist óháð í þessum skilningi.[6] Langt í frá. Svarið við því hver skuli gæta gæslumannanna er nefnilega einmitt ekki hinir gæslumennirnir í borginni.
Hvað varðar fljótvirkni og ítarleika þá er erfiðara að gera því skil hvort því hafi verið fylgt eftir fyrr en við sjáum skýrslu ríkissaksóknara. Ítarleiki, samkvæmt MSE, felur í sér að ríkið noti allar helstu aðferðir við rannsókn glæpa sem viðurkenndar eru í þessum vísindum, m.a. við krufningu, tæknirannsókn, viðtöl við vitni og fleira. Hvort rannsókn teljist fljótvirk eða ekki fer svo algerlega eftir hverju máli fyrir sig.
En hvað með gagnsæi? Aðgengi almennings og fjölmiðla að rannsókn málsins? Aðgengi þeirra að ítarlegum upplýsingum um niðurstöðu rannsóknarinnar? Fréttir af þessu máli hafa verið óvenju fáar í ljósi þess hve alvarlegt og mikilvægt það er í raun og veru, og þar af leiðandi fréttnæmt – mundi maður halda. Að auki hefur megnið af fréttaflutningnum snúið að erfiðri og átakafullri fortíð Sævars, að geðrænum veikindum hans og vímuefnaneyslu og þá sérstaklega um hvernig kerfið brást honum, fremur en atburðarásina sem leiddi til þess tímamótaatburðar að hann var að lokum skotinn til bana af lögreglumanni. Ríkissaksóknari og lögregla hafa veitt lágmarksupplýsingar og hafa í raun ekkert tjáð sig um þessa rannsókn frá því í desember síðastliðnum.
Annað sem torveldar aðgang almennings að rannsókn málsins er að verklagsreglur ríkislögreglustjóra um beitingu skotvopna eru trúnaðarmál á Íslandi.[7] Mikilvægir hagsmunir lögreglu eru tilteknir sem réttlæting á þessu fyrirkomulagi en birting þessara reglna er sögð geta stefnt lögreglu í hættu í aðgerðum sínum. Það verður því erfitt fyrir almenning að ákvarða hvort settum reglum hafi verið fylgt í þessu máli sem öðrum. Lögregluyfirvöld í öðrum löndum, til dæmis Hollandi, Danmörku, Kanada og Þýskalandi, þar sem beiting skotvopna er mun algengari, virðast þó ekki hafa sömu áhyggjur og kollegar þeirra hér á landi. Þar má auðveldlega nálgast reglur um beitingu skotvopna á netinu.[8]
Við ættum samt að spyrja spurninga
Dauði Sævars vakti strax í upphafi margar spurningar um hvernig kerfið hefði getað staðið sig betur í lífi Sævars. Hann lenti endurtekið í nauðungarvistun á geðspítala, hann var handtekinn oftar en einusinni og oftar en tvisvar, og hann hótaði fjölskyldu sinni margítrekað. Lögreglan og önnur yfirvöld vissu af þessum hótunum en aðhöfðust ekkert. Umræðan rumskaði í örskamma stund um að Íslendingar ættu kannski að endurskoða hvernig velferðarkerfið meðhöndlar þá einstaklinga er kljást við geðræn veikindi eða fíkn. Meira var það nú ekki. Og það er bara alls ekki nóg.
Ég vil sjá Íslendinga krefjast sjálfstæðrar stofnunar sem fer með rannsókn á aðgerðum lögreglu og tekur við kvörtunum og kærum á hendur henni. Ég vil líka að málsmeðferðin í slíkum málum sé gagnsæ og aðgengileg almenningi. Núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt af fulltrúa Evrópunefndar Evrópuráðsins um forvarnir gegn pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu og hér heima af Umboðsmanni Alþingis fyrir skort á gagnsæi og aðgengilegum og skýrum málsmeðferðarreglum. [9]
Þess ber að geta að höfundur er ekki að ásaka saksóknara né þá lögregluþjóna er standa að rannsókninni á dauða Sævars um hlutdrægni, hvað þá um að þau vinni ekki faglega að rannsókn málsins. Þessarri grein er einfaldlega ætlað að benda á að þegar maður deyr vegna aðgerða lögreglu er afskaplega mikilvægt að rannsókn þess máls sé hafin yfir alla gagnrýni og fari eftir settum reglum.
Sem betur fer virðist lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vera sammála höfundi. Nýlega skrifaði Stefán Eiríksson pistil um eftirlit með starfsemi lögreglu í vefritinu Kjarnanum.[10] Pistlinum er ætlað að svara „gagnrýnisröddum“ um að núverandi eftirlitskerfi skorti sjálfstæði. Í pistlinum fer Stefán svo yfir það margvíslega innra og ytra eftirlit sem haft er með aðgerðum lögreglu af hinum ýmsu stofnunum. Hann fer líka lauslega yfir hlutverk ríkissaksóknara í þessu samhengi og minnist á að sumum þyki það óheppilegt að stofnun sem vinni eins náið með lögreglu og raun ber vitni skuli hafa það undir höndum að rannsaka aðgerðir hennar. Að lokum ályktar Stefán að það beri að íhuga alvarlega að setja á laggirnar sjálfstæða stofnun til þess að sinna eftirliti með lögreglu þar sem það myndi auka traust almennings til lögreglunnar enn frekar. Enda er meginástæða skyldunnar til þess að framkvæma skilvirka rannsókn byggð á því að fullvissa almenning um að lögreglan hafi farið rétt með einokunarvald sitt á ofbeldi.[11]
Pistill Stefáns er frábær byrjun að mati höfundar og ég vonast til þess að sjá tillögu hans rædda á þingi í náinni framtíð. Íslenskt réttarkerfi þarfnast nefnilega óháðrar stofnunar til þess að rannsaka mál sem þessi. Stofnun sem byggir á gagnsæjum málsmeðferðarreglum sem er aðgengileg almenningi. Það þarf nefnilega að vera hafið yfir allan vafa að lögreglan verði fólki aldrei að bana nema ítrasta nauðsyn krefji, eins og Mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um.
2. gr. MSE: Réttur til lífs.
1. Réttur hvers manns til lífs skal verndaður með lögum. Engan mann skal af ásettu ráði svipta lífi, nema sök sé sönnuð og fullnægja skuli refsidómi á hendur honum fyrir glæp sem dauðarefsingu varðar að lögum.
2. Þótt mannsbani hljótist af valdbeitingu skal það ekki talið brjóta í bága við þessa grein ef valdbeitingin er ekki meiri en ýtrasta nauðsyn krefur:
a. til að verja menn gegn ólögmætu ofbeldi;
b. til að framkvæma lögmæta handtöku eða til að koma í veg fyrir flótta manns sem er í lögmætri gæslu;
c. vegna löglegra aðgerða sem miða að því að bæla niður uppþot eða uppreisn.
Þessi grein birtist upphaflega á Grapevine.is. Ljósmynd tók Sigtryggur Ari Jóhannesson.
Heimildir:
[2] Sjá t.d. Oğur v. Turkey [GC], nr. 21594/93, málsgrein 78, MDE 1999‑III. Þetta er reyndar ákveðin einföldun á túlkun dómstólsins, en skyldan til þess að framkvæma skilvirka rannsókn byggist einnig á þrettándu grein MSE sem er Réttur til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.
[3] Sjá t.d. Ramsahai and others v. The Netherlands [GC], nr. 52391/99, málsgrein 322, MDE 2007; Tahsin Acar v. Turkey [GC], nr. 26307/95, málsgreinar 222 og 223, ECHR 2004‑III; Eitt af þekktustu málum MDE og með þeim fyrstu um skilvirkar rannsóknir er svo: Kelly et al. v. The United Kingdom, Nr. 30054/96, 2001.
[4] Sjá t.d : Edwards v. United Kingdom [2002] 35 EHRR 19, málsgrein 70.
[5] Aktaş v. Turkey, nr. 24351/94, málsgrein 337, 2003; Ramsahai and others v. The Netherlands, málsgrein 322.
[6] MDE hefur ítrekað dæmt brot á annari grein MSE ef um slík málsatvik er að ræða, sjá t.d. : Hugh Jordan v. the United Kingdom, nr. 24746/94, málsgrein 120, 2001, og McKerr v. the United Kingdom, nr. 28883/95, málsgrein 128, ECHR 2001-III. Nú eða Ramsahai and others v. The Netherlands málsgreinar 337 og 341.
[7] Sjá úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 5. maí 2014.
[8] Hér er hlekkur á beitingu skotvopna í Danmörku (byrjar á 18. grein). Enska þýðingu á reglum um beitingu skotvopna hollenskra lögregluþjóna má svo finna hér: Ramsahai and others v. The Netherlands í kafla II. D; Her eru svo reglurnar fyrir Kanada – nú eða Þýskaland.
[9] Report to the Icelandic Government on the visit to Iceland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT), From 18-24 September 2012, Adopted on 8 March 2013.
Fyrirspurnarbréf Umboðsmanns Alþingis sem og ábendingar hans er lúta að eftirliti með störfum lögreglu. Sent 30. desember 2013. Þess má geta að svar hefur ekki borist frá Innanríkisráðuneytinu.
[11] Ramsahai and others v. The Netherlands, málsgrein 325.
Hreinræktaðir íslendingar?
Í gær skrifaði ég um „Mitt síðasta teik“ í Kvennablaðið.
Verandi orðum mínum trú þá vil ég taka fram að ég er því alls ekki að tala um kynþáttahyggjusigur Framsóknar í borginni, ónei, ég ætla bara að skrifa um rasisma svona almennt.
Þegar ég bjó í Svíþjóð á námsárum mínum þá var umræðan um málefnið lifandi og allsstaðar.
Ég bjó í fjölþjóðasamfélagi í Gautaborg innan um Finna, Svía, Dani, Pólverja, Víetnama ásamt fólki frá Chile og Urugvæ, sem höfðu flúið hörmungarnar í sínum heimalöndum og sögunum þeirra um flótta og morð á fjölskyldumeðlimum opnuðu augu mín endalega fyrir mannvonsku heimsins.
Ég tek fram að þetta gerðist þegar Palme lifði og allir voru beisíklí að reyna að vera með opinn hug og að kynna sér málin.
Mikið sem ég sakna þessa fólks eins og það leggur sig, það hefur haft óafturkræf áhrif á mig og hvernig ég horfi á lífð.
En……
Ég hitti líka rasista.
(Hafðiði tekið eftir hvað fólk sem þjáist að þjóðernis- og aðskilnaðarhyggju fríkar út ef þú notar orðið rasisti? Sorrí, skófla er skófla og við skulum kalla hana það bæ oll míns).
Þó nokkuð marga skal ég segja ykkur, fólk sem var hrætt við hið óþekkta, sá horn og hala á öllum sem voru ekki með hátt skor á aríamælinum og talaði auk þess með hreim.
Halló.
Ég fæ alltaf sömu tilfinninguna þegar ég stend andspænis rasistum.
Þeir eru venjulegir í útliti, eru elskulegir oftar en ekki, góðir við börnin sín og þeir eru stundum með allt á hvolfi heima hjá sér og seinir í vinnuna.
Ég hugsa alveg: Hún borðar, sefur og er bara til eins og ég nema hvað það er eitthvað að innan í henni (eða honum offkors).
Þá grípur mig alltaf sterk löngun til að rétta út bendifingur og ýta svona létt á andlit viðkomandi (ekki til að meiða, nei,nei) til að fullvissa mig um að mig sé ekki að dreyma og að manneskjan sé þarna í alvörunni.
Ég vil pota til að reyna að skilja.
Hingað til hef ég ekki kunnað við það en ég gæti misst mig þar sem a.m.k. fimmþúsund manneskjur, að ég held, eru haldnar þessari meinsemd í Reykjavíkurkjördæmi einu saman.
Úff.
Svo spyr ég svona út í loftið. Hversu margra kynslóða Íslendingur þarf maður að vera til að teljast hreinræktaður?
Ef til er hreinræktaður Íslendingur þá er það einhver í mínum huga sem þarf að fara hætta að svamla um í sínum grugguga genapolli enda orðin rósrauður á lit, og mjög útvatnaður og glær allur í útliti. Andlitshreyfingar nánast horfnar og hann allur hinn ankannalegasti bæði til orðs og æðis.
Ég hins vegar, er allt annað.
Að mér standa franskir duggarar og alkahólískur danakonungur.
Níd æ sei mor?
Súkkulaði karamellu bollaköku ís
Ég verð að játa að það er tvennt sem ég er mjög veik fyrir og það er ís og súkkulaði kökur af öllum gerðum. Ég var því rosa spennt að prófa uppskrift af súkkulaði karmellu bollaköku ís. Mmm, já einmitt, ómótstæðileg blanda.
Engin ástæða til að bíða eftir næsta afmæli til að prófa, skella bara í nokkrar Betty Crocker súkkulaði bollakökur og kaupa Mjúkís frá Kjörís með pekanhnetum og karmellu og eftirrétturinn er klár.
Innihald:
Betty Crocker Devils Food Cake Mix
Deigið dugar í u.þ.b. 16 bollakökur. Þú þarft að eiga olíu, 3 egg og vatn til að útbúa kökudeigið.
1 mjúkís frá Kjörís með pekanhnetum og karmellu.
2 stk lítil mars stykki
1 bolli rjómi
3 mtsk súkkulaði íssósa
Aðferð:
Bakaðu bollakökurnar samkvæmt uppskrift á kassanum. Bakist í u.þ.b. 15 mín við 180 gráður.
Láttu bollakökurnar kólna alveg.
Settu mjúkísinn í skál og hrærðu niðurskornu mars saman við í litlum bitum.
Settu þetta svo í frystinn í u.þ.b. 30 mín.
Þegar kökurnar eru orðnar kaldar þá er sett 1 kúla af ísnum ofan á hverja bollaköku og skreytt með smá þeyttum rjóma og súkkulaði íssósu.
Verði ykkur að góðu.
Brotið gegn réttindum fanga
Afstaða til ábyrgðar — Félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun fanga, hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Á u.þ.b. einum mánuði hafa tveir fangar á Litla Hrauni reynt að fremja sjálfsmorð og aðrir tveir hafa greint Afstöðu frá því að þeir hafi haft sjálfsvígshugsanir á þessum tíma.
Fangelsismálastofnun hefur neitað að hlusta á Afstöðu með þessi mál og hefur Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar sent öllum föngum á Litla Hrauni bréf að framvegis sé föngum bannað að fara inn á klefa annara en sína eigin, þrátt fyrir að þrír helstu sérfræðingar Fangelsismálastofnunar vilji að fangar séu hvattir til aukinna samkipta þeirra á milli vegna andlegrar líðan þeirra.
Í skýrslu þessara þriggja sérfræðinga Fangelsismálastofnunar um sjálfsvíg í fangelsum frá árinu 2005, er einnig sagt að alls ekki eigi að einangra fanga, en það er akkúrat það sem Fangelsismálastofnun gerir með þessari reglu.
Páll Winkel hefur einnig sent Afstöðu bréf þess efnis að hann telji ekki geta komið upp alvarleg atvik þar sem Fangelsismálastofnun þurfi að vera í samskiptum við Afstöðu. Páll Winkel hefur með öllu hafnað öllum samskiptum við Afstöðu þrátt fyrir að í gegnum tíðina fyrir hans forstjóratíð, hafi verið mjög gott og mikið samstarf einmitt í mjög alvarlegum málum eins og með líðan fanga, einelti og forvörnum.
Í dag eru tveir sálfræðingar í vinnu hjá Fangelsismálastofnun, annar þeirra er í barneignarfríi og hinn er í sérstökum verkefnum á skrifstofu Fangelsismálastofnunar, því er enginn sálfræðingur í dag að veita föngum þá nauðsynlega aðstoð sem þeir þurfa á að halda.
Það er alveg ljóst að þessir atburðir eru grafalvarlegir og í raun alger heppni að ekki hefur tapast líf síðastliðinn mánuð á Litla Hrauni, þeir einstaklingar sem um ræðir eru bæði íslenskir og erlendir sem hafa lítið sem ekkert tengslanet á Íslandi og því telur Afstaða það skyldu sína að upplýsa almenning og ráðamenn um þessa alvarlegu atburði.
Engin innlend eftirlitsnefnd er til á Íslandi til að fylgjast með stofnunum sem vista einstaklinga sem hafa verið sviptir frelsi, en CPT eftirlitsnefnd Evrópu hefur frá árinu 1999 marg ítrekað bent stjórnvöldum á að það sé bráðnauðsynlegt fyrir Ísland að samþykkja OPCAT samninginn sem öll lönd sem við berum okkur við hafa samþykkt, svo einmitt sé hægt að rannsaka og hafa eftirlit með málum eins og þessum.
F.H. AFSTÖÐU
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður stjórnar
Fangelsinu Akureyri.
Hyggst ekki funda með föngum
Félag fanga, Afstaða til ábyrgðar, hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að fangelsismálayfirvöld hafni óskum samtakanna um fund með talsmönnum þeirra.
Þann 5. mars óskuðu fulltrúar Afstöðu eftir fundi með forstjóra Fangelsismálastofnunar. Kvennablaðið hefur undir höndum svarbréf dagsett 4. apríl 2014, undirritað af Páli Winkel:
Vísað er til bréfs þíns, dags. 5. mars sl. Í bréfinu er óskað eftir fundi með forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins. Þá er óskað eftir að skipaðir verði tengiliðir á milli Afstöðu, Fangelsisins Litla-Hrauns og Fangelsismálastofnunar þannig að aðilar geti haft samband hver við annan ,,mjög fljótt ef um neyðartilfelli er að ræða“.
Fangelsismálastofnun mun svara erindum sem til hennar er beint. Forstjóri Fangelsismálastofnunar hyggst ekki funda með forsvarsmönnum Afstöðu. Ekki verður séð að upp geti komið neyðartilfelli sem nauðsynlegt sé að ræða ,,mjög fljótt“. Því er ekki nauðsynlegt að skipa sérstaka tengiliði.
Að sögn Guðmundar Inga Þóroddsonar eru sjálfvígshugsanir algengar meðal fanga og sjálfsvígstilraunir hreint ekki sjaldgæfar.
„Það hefur sýnt sig að fangar leita ekki til fangavarða þegar þeir eru í sjálfsvígshugleiðingum, heldur til annarra fanga og þegar ástandið er þannig að fangar hafa takmarkaðan eða engan aðgang að þjónustu sálfræðinga og geðlækna eykst hættan. Nú hafa komið upp tvö tilvik á nokkrum vikum þar sem fangar hafa reynt að fyrirfara sér og við vitum um fleiri sem eru í hættu. Við lítum á það sem neyðartilvik ef fangi sér enga aðra leið út úr vanlíðan sinni og það bætir ekki stöðuna að einangra fanga eins og nú er verið að gera. Við þurfum að geta rætt þessi mál við Forsvarsmenn fangelsismálastofnunar,“ segir Guðmundur Ingi.
Samkvæmt 43. grein laga um fullnustu refsinga geta fangar kosið sér talsmenn til að vinna að málefnum fanga og til að koma fram fyrir þeirra hönd.
Sú spurning hlýtur að vakna hvaða tilgangi það þjóni fyrir fanga að hafa talsmenn þegar fangelsisyfirvöld neita þeim um áheyrn.
Hékk í pilsfaldi móður sinnar í brúðkaupinu
Shona Carter-Brooks frá Tennesee hefur vakið athygli fyrir það að hafa fest mánaðargamla dóttur sína í kjólfald brúðarkjóls síns. Myndir af þessu óvanalega faldskrauti poppuðu víða upp á vefnum í dag en Shona hefur svarað gagnrýnisröddum á Facebooksíðu sinni svona:
“ Hún (dóttirin Aubrey) var vakandi og vandlega föst við slóðann og umvafin Jesú.“
Má nærri geta að kirkjugestir hafi rekið upp stór augu þegar brúðurin gekk fram kirkjugólfið með barnið hangandi í pilsfaldinum í bókstaflegri merkingu. Vafalaust hefur þurft að gera breytingar á kjólnum til að koma þessu óvanalega faldskrauti fyrir svo vel á færi.
Prjón og hönnunarstuldur
Hér segir af fyrsta nafngreinda prjónakennaranum á Íslandi og af fyrsta fyrirhugaða prjónahönnunarstuldinum hérlendis.
Gytha Steffensen Howitz fæddist árið 1782 í Lundbyvester á Amager og var dóttir gestgjafa/kráareiganda. Hún giftist Þórði Thorlacius 1801 og sama ár héldu þau til Íslands þar sem Þórður varð sýslumaður í Suður-Múlasýslu. Gytha og Þórður bjuggu lengstum á Eskifirði og nágrenni en fluttust aftur til Danmerkur árið 1815.
Á gamals aldri skrifaði Gytha Thorlacius endurminningar sínar frá Íslandi. Því miður er frumritið glatað en tengdasonur hennar sá um að hluti endurminninganna væri gefinn út árið 1845, stytti sjálfur frásögn Gythu eftir sínu höfði og umorðaði víða. Bókin heitir Fru Th.s erindringer fra Iisland og er aðgengileg á Vefnum (hér er krækt í þá útgáfu). Hún var endurútgefin árið 1930 og sú útgáfa kom út í íslenskri þýðingu árið 1947: Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815.
Hér verður einungis staldrað við þann hluta endurminninganna þar sem segir frá því hvernig Gytha kenndi Íslendingum að prjóna fallegt prjónles í litum, ganga þannig frá því að það líktist ofnu klæði, og að prjóna klukkuprjón. Klukkuprjónskunnátta hér á landi er yfirleitt rakin til hennar og mögulega náði önnur kennsla hennar í prjóni einhverri útbreiðslu. Á móti kenndu íslenskir henni sitthvað í litun garns.
Sem sést af textanum hér að neðan var Gytha að reyna að finna aðferðir til að prjónles líktist vaðmáli/ofnu klæði, sem er skiljanlegt í ljósi þess að það er miklu seinlegra að vefa en að prjóna. Ég giska á að hún hafi verið að reyna að ná áferð vormeldúks/ormeldúks sem var mikið notaður í fatagerð á nítjándu öld. Miðað við ýmsar heimildir hafa Austfirðingar einmitt staðið framarlega í vormeldúksvefnaði allt frá miðri nítjándu öld og e.t.v. hafa þeir vel kunnað þá list á dögum Gythu.
En vindum okkur í frásögn Gythu sjálfrar. Líklega gerist þessi hluti einhvern tíma á árunum 1807-1813. Hér er textinn í þýðingu Sigurjóns Jónssonar læknis (s. 108-109 í íslensku þýðingunni frá 1947) birtur. Athugasemdir innan hornklofa eru mínar. Ég hef einnig sett inn millifyrirsagnir og skipt textanum í efnisgreinar.
Heimilisiðja Gythu Thorlacius
Frú Th. segir líka þarna nokkuð frá vinnubrögðum sínum, bæði um þetta leyti og á fyrri árum. Hún kenndi Íslendingum „patentprjón‟ og fleiri prjónaðferðir. [Í neðanmálsgrein segir Sigurjón Jónsson: „Í aths. aftan við útg. frá 1930 segir, að prjónles prjónað með þessum hætti sé þykkra og líkara dúk en venjulegt prjónles. Ef til vill er þetta sama sem klukkuprjón eða enskt prjón.“ Patenstrikning er danska heitið á klukkuprjóni, sem kann einnig að hafa verið kallað enskt prjón hér á landi. Klukkuprjón líkist dúk/ofnu klæði ekki hið minnsta.]
Hvernig láta má prjónles líkjast ofnu klæði
Mig vanhagaði um vestisefni. [Í frumtextanum talar Gytha um betri klæði, líklega spariföt, en minnist ekki á vesti.] En þegar mjúkt þelband var prjónað með röndum og prjónlesið þæft og fergt, sýndist mér það vera útlits eins og klæði. Ég gerði þetta, prjónaði rendur með litum, er vel áttu við á svörtum eða gráum grunni, þæfði, kembdi [ýfði] og fergði. Öllum þótti þetta efni nytsamlegt og dáindis fallegt. Ég gaf nokkuð af því, til þess að koma skriði á þessi vinnubrögð.‟
Kennsla í klukkuprjónuðum teppum
Nóg var til af ull [sem kemur heim og saman við það sem allar prjónakonur vita, nefnilega að klukkuprjón er miklu garnfrekara en venjulegt slétt og brugðið prjón] á heimilinu og lét því frúin vinnufólk sitt líka prjóna „patenprjón‟ með fábreyttum litum. Þetta prjónles var líka þæft og fergt og búnar til gólfábreiður úr því grófara, en rúmábreiður úr því, sem fíngerðara var. „Við þurfum ekki að nota neitt til fatnaðar á heimilinu‟, ritar frúin, „annað en heimaunnið efni, nema í frakka handa manninum mínum‟.
Áformaður hönnunarstuldur
Þegar sýslumaður var í þann veginn að leggja af stað til hins nýja embættis síns [sýslumannsembættis í Árnessýslu, um áramótin 1813/14], stakk hann upp á því við konu sína, að hún skyldi láta sig útvega yfirlýsingu embættismanna og verzlunarmanna á Eskifirði og þar í nágrenninu um það, að hún hefði orðið fyrst til þess að taka þar upp prjónaðferðir þær, sem áður er getið. En hún bað hann að gera það ekki, því hún vildi ógjarna vekja öfund annarra né gefa neinum tilefni til að ætla, að sig langaði til að fá meðmæli til að öðlast verðlaun frá Landbúnaðarfélaginu [danska] í þriðja sinn.
Samt atvikaðist það svo, að hún féllst seinna á tillögu manns síns. Hún hafði nefnilega gefið hjónum nokkrum sína flíkina með hverri gerð af því, er hún hafði unnið. En hún varð þess aldrei vör, að þessar gjafaflíkur væru notaðar, en aftur á móti sá hún notaðar flíkur, sem voru stæling á þeim. Einkanlega furðaði hún sig á því að sjá aldrei yfirhöfn úr fínu, brúnu ullarbandi, sem var prjónuð handa 7 ára gamalli telpu og svo vel frá gengið að allir héldu, að yfirhöfnin væri úr klæði.
Hún lét í ljós undrun sína við kaupmannskonu eina, en hún svaraði brosandi: „Þér eruð á förum héðan, og það eru hjónin líka – til Kaupmannahafnar. Ég er viss um að hjónin ætla að senda flíkurnar frá yður til Landbúnaðarfélagsins, því þau eru samvalin í því, að langa til að skreyta sig með annarra verðleikum.‟
Þetta olli því, að frúin bað mann sinn seinna að æskja yfirlýsingar þeirrar, sem ofar getur. Undir hana skrifuðu presturinn, hreppstjórinn og kaupmenn og verzlunarstjórar á Eskifirði. Meðal þeirra var maðurinn, sem hafði flíkurnar frá frúnni í vörzlum sínum, og gerði hann það mjög fúslega. Yfirlýsingu þessa geymdi frúin, en notaði hana aldrei.
- Þessi pistill er stytt útgáfa af bloggfærslu minni Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn, 25. nóv. 2013.
- Umfjöllun um æviminningar Gythu Thorlacius má sjá í færslu Kristínar Svövu, Veslings frúin sem sundreið ár og bjó um lærbrot, 7. mars 2013. Druslubækur og doðrantar.
- Frekari upplýsingar um klukkuprjón og sögu þess á Íslandi má sjá á bloggfærslum mínum: Klukkuprjón, fyrri hluti, 9. des. 2013, og Klukkuprjón, seinni hluti,11. des. 2013.
Fyrir þá sem kunna að meta það góða í lífinu
Njóttu er lífsstílssíða á Facebook þar sem fólk sem hefur áhuga á hönnun, góðri matreiðslu og góðum vínum getur fundið ýmislegt við sitt hæfi. Þarna má finna ýmsan gagnlegan fróðleik sem tengjist borðvínum, mat og skemmtanahaldi en einnig eru alltaf mikið af sértilboðum sem gott er að geta nýtt sér.
Lífstílssíðan Njóttu tengist veitinga og skemmtistöðum landsins þannig að þeir sem tengjast síðunni fá þá upplýsingar og tilboð sem ella kynnu að fara fram hjá þeim.
Á síðu Njóttu færðu líka aðgang að spennandi og girnilegum uppskriftum og ráðleggingar með val á borðvínum með hverjum rétti. Frábært að geta hannað matseðilinn með góðum upplýsingum frá fólki sem kann að njóta lífsins.
Framsetning efnis á síðunni Njóttu er með ýmsum hætti, í formi stuttra myndbanda þar sem sýnd verður kokkteilagerð, eldun á ýmsum réttum, vínráðgjöf og margt fleira áhugavert.
Lífstílssíðan Njóttu höfðar til fólks á aldrinum 20 ára og eldri og ef þú vilt kynna þér málið betur skaltu endilega tengjast síðunni á Facebook og fá frábærar upplýsingar beint í æð.
Sumarið er á næsta leiti! Njóttu!
Kostuð kynning
Engin sálgæsla á Litla-hrauni
Félag fanga, Afstaða til ábyrgðar hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu.
Afstaða, hagsmunafélag fanga, harmar málflutning forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins í kvöldfréttum fréttastofu RÚV í gærkvöldi.
Útskýringar Páls Winkel, forstjóra stofnunarinnar, á skammarlega bágri sálgæsluþjónustu innan veggja fangelsa landsins eru fyrir neðan allar hellur, líkt og algert viljaleysi stofnunarinnar til samstarfs eða viðræðna við forsvarsmenn Afstöðu.
Við viljum ítreka fyrri fullyrðingar okkar þess efnis að enginn sálfræðingur starfi nú í fastri og fullri vinnu í fangelsum landsins við þá lágmarks heilbrigðisþjónustu sem sálgæsla svo sannarlega er. Hið hörmulega ástand í þessum málum hefur án nokkurs vafa átt sinn þátt í því að tveir fangar hafi reynt að taka sitt líf undanfarnar vikur.
Ljóst er að ekki nokkurt faglegt eftirlit er með andlegu álagi og líðan þess frelsisvipta hópi fólks sem í umsjón og á ábyrgð Fangelsismálastofnunar afplánar sína dóma nú. Afstaða fordæmir harkalega þá hræðilegu skammsýni og metnaðarleysi þeirra sem alla ábyrgð bera, Fangelsismálastofnun ríkisins og forstjóra þess.
Afstaða, sem kemur fram fyrir hönd allra fanga, undrar sig ennfremur á einstaklega ódýrum réttlætingum Páls á nýjum reglum sem banna föngum eðlilega og óþvingaða samveru inni á einkarýmum þeirra. Vill Afstaða auðmjúklega benda á að slíkar reglur eiga sér enga hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur svo gjarnan saman við. Það er ekki að ástæðulausu. Slíkar reglur eru einungis til þess fallnar að einangra fanga meira félagslega heldur en ella. Árið 2005 gáfu þrír sérfræðingar Fangelsismálastofnunar út skýrslu um sjálfsvíg í fangelsum það árið. Þar mæltu þeir eindregið á móti slíkri einangrun eins og nýju reglurnar mæla fyrir um.
Þá er það Afstöðu óskiljanlegt hvernig hinar nýju reglur geti mögulega komið í veg fyrir ofbeldi meðal fanga í ljósi þess að allar klefahurðir eru ólæsanlegar innanfrá. Ólíklegt verður að teljast að menn í ofbeldishug láti einhverjar umgengisreglur stöðva sig, ef sá gállinn er á þeim. Ef forstjóranum væri umhugað um öryggi sinna skjólstæðinga, þá væri honum í lófa lagið að setja upp slíkar læsingar, enda er það vel þekktur öryggisbúnaður í langflestum fangelsum norðurlanda. Sem betur fer heyrir ofbeldi meðal fanga inni á vistarverum þeirra til algjörra undantekninga.
Páll Winkel sagði ennfremur að traust yrði að ríkja á milli aðila svo af samstarfi geti orðið. Því er Afstaða hjartanlega sammála.
Afstaða hvetur því Pál, sem hingað til hefur algjörlega hafnað öllum samskiptum og viðræðum við talsmenn fanga, til að brjóta odd af oflæti sínu og hlusta á og virða sjónarmið og ábendingar okkar. Það teljum við einu raunhæfu leiðina til að byggja upp á ný það traust sem stofnunin hefur undanfarin ár vanvirt og fótum troðið.
Geldingartangir ennþá notaðar af leikmönnum
Umræðan um ólöglegar geldingar á grísum rifjaði upp fyrir mér gamlar fréttir af geldingum leikmanna á lambhrútum og kálfum. Ég sendi fyrirspurn til MAST um það hvort vitað væri til þess að geldingar án deyfingar væru enn stundaðar og hvort hinar umdeildu tangir væru enn í notkun.
Þóra Jóhanna Jónasdóttir hefur svarað fyrirspurn minni. Hún segir því miður ennþá eitthvað um að geldingar á búfénaði séu gerðar án deyfingar og af fólki sem ekki hefur læknisfræðilega menntun. Í slíkum tilvikum segir hún að klemmt sé á sæðisstrenginn til þess séu notaðar Burdizzo geldingartangir en annarskonar tangir séu notaðar við geldingar með skurði sem aðallega séu notaðar við geldingar graðhesta. Dýralæknir noti einnig Burdizzo tangir en þá með deyfilyfjum.
Þóra segir Matvælastofnun leitast við að fyrirbyggja það að leikmenn sjái um geldingar með betri skráningu og eftirliti:
„Við höfum undanfarna mánuði verið að setja í ferli m.a. skráningar í sláturhúsum á geltum nautkálfum, sauðum og svínum og öðlumst þá einmitt grundvöll til að fá yfirlit yfir geldingar sem mögulega eru framkvæmdar af leikmönnum án leyfis og notkunar deyfilyfja þar sem hægt verður að gera samanburð við aðgerðaskýrslur dýralækna.Reglubundin skráning og skoðun á slíku hefur ekki verið gerð áður og vonumst við til að slíkar aðgerðir hafi ekki síst fyrirbyggjandi aðgerðir sem jú er það sem skiptir dýrin sem um ræðir mestu máli.“
Samkvæmt lögum um velferð dýra er dýralæknum einum heimilt að fremja læknisfræðilegar aðgerðir á dýrum, þar með taldar geldingar án húðrofs. En hér er kennslumyndband fyrir þá bændur sem telja sig hafna yfir dýraverndarlög, að vísu fékk þolandinn í þessu myndbandi tinktúru áður en leikmaður, sem þegar hafði mistekist einu sinni, mundaði töngina.
Femarelle slær í gegn meðal íslenskra kvenna
Femarelle vinnur á einkennum tíðahvarfa hjá konum eins og hitakófi, nætursvita, skapsveiflum og verkjum í liðum og vöðvum. Varan er náttúruleg, unnin úr soya og hefur virkni þess verið staðfest með fjölda rannsókna á undanförnum 13 árum. Þær sem prófað hafa Femarelle eru á sama máli um að það sé algjört undraefni sem allar konur á besta aldri ættu að prófa. Kvennablaðið í samstarfi við Femarelle ætlar að gefa sex konum vörur til að prófa gegn því að þær skrifi um reynslu sína af notkuninni. Látið okkur endilega vita í skilaboðum á síðu Kvennablaðsins á Facebook ef þið viljið taka þátt.
Hér er vitnisburður nokkurra íslenskra kvenna sem eru búnar að prófa Femarelle.
“Ég fann alveg ótrúlega fljótt góðu áhrifin af Femarelle. Eftir aðeins tvo daga var ég farin að sofa betur. Skapið hefur lagast og verkirnir hafa minnkað. Mér líður mun betur og er sáttari við sjálfa mig.” -Selma Björk Grétarsdóttir
“Ég fór að sofa betur, hætti að svitna á nóttunni, skapið er miklu léttara og ég hef mun meiri orku en áður.” -Bryndís Guðmundsdóttir
“Eftir aðeins 10 daga notkun hurfu öll einkenni breytingarskeiðsins.Ég mæli með því að allar konur á breytingaraldrinum prufi Femarelle og get ekki ímyndað mér hvernig mér liði í dag ef ég hefði ekki kynnst þessu dásamlega undraefni.” -Soffía Káradóttir
Femarelle er fáanlegt í apótekum, heilsuverslunum og í heilsuhillum stórmarkaða. Nánari upplýsingar má nálgast á icecare.is og á Facebook-síðunni Femarelle.
Kostuð kynning
Andinn er frjáls en líkaminn í járnum
Ég bý með tíu manns í húsi sem áður var unglingaheimili en er nú Kvennafangelsið í Kópavogi. Það er ekki frjálst val. Andinn er frjáls en líkaminn í járnum.
Ég las Úr djúpunum eftir Oscar Wilde þegar ég kom inn og bar mig saman við hann fangelsaðan. Ég veit nú meira um glæpaheiminn en mig langaði nokkru sinni að vita.
Hér eru sex karlar og fjórar konur. Ég var siðferðilega á röngunni eins og við öll. Ég vil helst gleyma því að ég sé í fangelsi þegar ég skrifa þetta. Það kemur upp skömm, kvíði og þunglyndi. Ég er læst inni klukkan tíu á kvöldin í mínum níu fermetra klefa ef klefa skyldi kalla því við vistmenn, eins og við erum kölluð hér, viljum kalla hann herbergi.
Lífið innan fangelsisveggjanna
Herbergið er opnað klukkan átta á morgnana og þá komumst við niður í eldhús í morgunmat og kíkjum í Moggann, Fréttablaðið og Fréttatímann. Ég horfi á sjónvarpið, CCTV, Bíórásina, Stöð 2 sport, Stöð 2, Bravó, Popp tv og RÚV, hlusta á útvarpið og ég læri að prjóna, hekla og sauma. Ég les bækur sem ég fæ sendar að heiman en hér er fábrotið bókasafn um 60 bækur. Ég fæ DVD hjá fangavörðunum eða sendingar frá Aðalvídeóleigunni. Ég teikna, skrifa og hugsa og hugsa.
Hér eru líka kennd fög úr MK, t.d. íslenska, enska og stærðfræði. Við fáum borgað fyrir að vera í skólanum 600 krónur á tímann. AA-fundir eru þrisvar í viku og við megum fá sponsor í heimsókn.
Leyfðar heimsóknir eru tvær á viku. Gestirnir verða að vera samþykktir af Fangelsismálastofnun og sumir koma í svokallaða „glerheimsókn“ þar sem talað er saman í gegnum síma en aðrir fá að koma í „snertiheimsókn“ og þá getum við setið saman í litlu herbergi og spjallað.
Hér er líka vinna, fangavinna, við brutum saman og límdum möppurnar fyrir Íslenska erfðagreiningu, sem landsmenn fengu senda heim eins og við, við gerðum barmmerki fyrir stjórnmálaflokkana fyrir kosningarnar, við límdum Tryggjó yfir orðið tyggjó á extra tyggjópakka fyrir Sjóvá, settum kynningarbæklinga fyrir Háskólann í Reykjavík í umslög, bjuggum til fataslár úr vírum fyrir listamanninn Krumma, og svo mætti lengi telja. Fyrir þetta fáum við 380 kr á tímann.
Við spjöllum saman í vinnunni, hlustum á útvarpið eins og þið og veltum fyrir okkur spurningum eins og hver launin séu í unglingavinnunni og hvað kosti nú í strætó.
Hér sitjum við inni fyrir að hafa keyrt undir áhrifum, við vorum á fylleríi, stálum úr verslunum, vorum í blakkáti eða í ruglinu, svikum undan skatti, vorum með lyfjaglas í vasanum á röltinu eða spítt heima hjá okkur inni í frysti, stungum fólk, lömdum fólk, hræktum á lögguna, komum til landins á fölsuðu vegabréfi, smygluðum dópi til landsins, prentuðum okkar eigin fimmþúsundkalla í húsi Hjálpræðishersins eða stráðum lúpínufræjum í garðinn hjá þeim sem við skulduðum. Löggunni fannst víst nóg um en flestallt var þetta gert á ruglinu.
Þegar ég kom inn var White musk ilmvatnið tekið af mér, Lancome kornamaskinn, Dove brúnkukremið, Listerine munnskolið, Esteer lauder rakakremið og Moroccan oil sjampóið því það stendur litlum stöfum „alcohol“ á þeim og svoleiðs nokkuð hefur einhvern tímann verið drukkið í fangelsum.
Augnhárauppbrettarinn var líka tekinn, plokkarinn, yddarinn og meikið því það er í gleri. Ég hef ekki enn komist að því hvernig ég get skaðað mig eða aðra með augnhárauppbrettara eða yddara en ef ég fæ bjálæðiskast, sem ég geri aldrei, gæti ég eflaust brotið meikdolluna og meitt mig. Ég þurfti líka að senda til baka strigaskóna mína sem voru skreyttir tveimur 3ggja sentimetra keðjum því allar keðjur eru bannaðar í fangelsum.
Heimurinn fyrir utan og við
Við fáum yfirleitt að fara í svokallaða útivist tvisvar á dag ef við biðjum um hana en samkvæmt lögum á hún að standa í 90 mínútur. Þá fæ ég teskeið fulla af fresistilfinningu. Að anda að mér útiloftinu eins og aðrir Íslendingar.
Úti geng ég í hringi hlusta á i-podinn minn, sem er ekki með nettengingu, upptökutæki eða myndavél því það er bannað. Ég spila krikket, badminton, ligg í sólbaði, leik mér í fótbolta, körfubolta, gróðurset rófur, kartöflur, rabbabara, gulrætur, slæ grasið og horfi á krakkana í leikskólanum, sem er staðsettur alveg við hliðina á okkur, leika sér.
Þau horfa líka á mig og foreldrar þeirra sem koma með þau og sækja þau og svo horfa líka allir sem búa í húsunum á móti á okkur.
Ertu bófi eða lögga?
Leikskólakrakkarnir spyrja mig hvort ég sé bófi eða lögga. Lítill snáði af leikskólanum spurði mig hvenær ég kæmist út og áður en mér gafst tækifæri til að svara spurði hann hvort það væri þegar ég væri búin að hugsa málið.
Það er rétt hjá honum ég er að endurhanna líf mitt eins og flestir hér og ákveða hvað við ætlum að gera að afplánun lokinni. Ég er að hugsa málið.
Stóri bróðir
Það versta fyrir alla er að við vitum aldrei hvenær við losnum héðan. Ekki fyrr en á síðustu stundu, þegar pappírarnir koma frá Fangelsismálastofnun, og því er erfitt að ákveða hvað við ætlum að gera, hvort við viljum fara í skóla, vinnu eða hvar við ætlum að búa.
Það er litla aðstoð að fá hér við það enda einn félagsfræðingur í vinnu hjá Fangelsismálastofnun sem annar vart að sinna öllum föngum í öllum fangelsum landsins. Við eigum að hitta félagsráðgjafa aðra hverja viku sem og sálfræðing en það stenst ekki alltaf. Eiginlega aldrei. Sálfræðingurinn fór líka í barneignarfrí, fyrir nokkrum mánuðum og verið er að ráða nýjan.
Fangaverðirnir hugsa vel um okkur og eru hjálplegir og góðir við okkur en við verðum alltaf að fylgja reglunum, sem eru fjölmargar, og alltaf að breytast. Það eru myndavélar í öllum hornum hér, hverjum krók og kima nema á salerninu. Stóri bróðir fylgist með 24 tíma á sólarhring.
Við getum sótt um að komast á reynslulausn. Það er að segja að losna út eftir að hafa afplánað í fangelsinu helming eða tvo þriðju refsitímans. Eins getum við sótt um að fá að afplána í meðferð, í opnu úrræði eins og að Sogni, á Kvíabryggju eða áfangaheimilinu Vernd, en þá verðum við að stunda vinnu og ef við erum með 12 mánaða dóm eða lengri fáum við ökklaband að Verndardvölinni lokinni.
Þangað komumst við þó ekki ef við fáum agabrot hér fyrir brot á reglum fangelsins eins og að tala við dómstóla, fjölmiðla, önnur fangelsi, saksóknara, vera með netpung, dóp eða ofbeldi eða að fylgja ekki öllum fjölmörgu reglunum. Enginn hér vill fá á sig agabrot og allt er gera til að forðast það. Konur mega ekki fara inn á karlaklefa og öfugt þá getum við fengið skýrslu á okkur. Margar skýrslur sýna hegðunarbrot okkar og koma sér illa þegar sótt er um frekari fríðindi eins og áður var upp talið.
Örvæntingin ekki langt undan
Stundum grípur um sig kúgfylli af örvæntingu, þunglyndi, kvíða og vonleysi og er þá stundum tekið til ýmissa ráða til að losna út í smástund. Einni datt í hug að éta ljósaperu til að rispa sig að innan til að komast á spítala í augnabliks frelsi í sjúkrabílnum og á spítalanum. Rúður hafa verið brotnar, reynt að klifra yfir girðinguna, hengja sig með bandi af slopp í gardínustönginni, skera sig á púls með geisladiskahulstri, skera sig á púls með DVD, sprauta sig með penna, hvernig sem það virkar, stinga sig til blóðs til að reyna að fá blýeitrun, drekka hreinsivökva, borða rottueitur og svo mætti lengi telja. Það er líka gott að fá að fara til tannlæknis en þangað erum við keyrð af bílstjórum fanganna.
Oft er þó kúltúrsjokk að komast í bíltúrana eftir langa dvöl innan veggjanna. Að horfa á bílana, fólkið, umhverfið, húsin og allt sem fyrir augun ber á leiðinni.
Mikill munur er á milli fangelsa. Í Kvennafangelsinu er líkamsræktaraðstaðan bágborin, lóðin hafa verið fjarlægð því einhver notaði þau sem vopn, eins voru kókflöskurnar sem fylltar voru af vatni og notaðar sem handlóð teknar, skíðavélin er biluð, teipuð saman og vart nothæf, flakkarar eru bannaðir hér en leyfðir á Skólavörðustíg, usb lyklar eru bannaðir alls staðar og tölvur ef ekki er skóli. Við megum ekki vera með síma eða netið.
Í opnum fangelsum eins á Sogni og Kvíabryggju eru tölvur leyfðar og símar og netið og þar er útivistartími yfir daginn frjáls. Á Skólavörðustíg eru flakkarar leyfðir en ekki tölvur. Á Vernd sem er áfangaheimili borgarðu sjálfur fyrir dvölina og þér er skylt að vera í vinnu.
Á ökklabandi eru nú aðeins sjö manns en þar þarftu að fylgja útivistarreglum og skilyrðum settum fyrir hvern og einn af Fangelsismálastofnun. Þú finnur fyrir því að þú sért fangi hvar sem þú ert hvort sem þú afplánar í meðferð, í opnu úrræði á ökklabandi eða á reynslulausn. Stóri bróðir er alls staðar hér inni og eftir að út kemur.
Ég er að hugsa mig um
Sumir hafa engan stað að fara á eftir fangelsisvistina. Okkur er hleypt út á slaginu átta að morgni þegar við losnum og fáum ekki að vera lengur inni. Þá stöndum við kannski með farangurinn okkar fyrir utan að bíða eftir að vera sótt. Sumir eru ekki sóttir og hafa engan stað til að fara á. Einn tók til dæmis stætó fyrir restina af fangalaununum og gisti á BSÍ í nokkurn tíma á meðan verið var að finna heimili. Og til að getað fundið heimili þarftu hjálp góðra manna en ekki kannski þeirra sem fylgdu þér í lífinu fyrir fangelsið. Því við erum jú flest að hugsa okkur um og við viljum á beinu brautina.
Úrræði fyrir konur eru færri en fyrir karla. Konur geta einungis afplánað í Kvennafangelsinu, nokkrar fá að fara á Kvíabryggju, Sogn og Vernd og ökklaband en karlarnir hafa fleiri úrræði eins og Litla Hraun, Fangelsið á Akureyri, Kvennafangelsið, Hegningarhúsið, Kvíabryggju, Sogn, Vernd, og ökklaband. Þeir eru og í miklum meirihluta í yfirfullum fangelsum landsins. Alls eru fjórar konur í Kvennafangelsinu, engin á Sogni, fjórar á Kvíabryggju og tvær á Vernd. Lofað er að fangelsið á Hólmsheiði ætti að leysa þessi vandamál en hjá mér er komið að skuldadögum, ég þarf að biðjast fyrirgefningar.
Ég er að hugsa mig um eins og litli drengurinn sagði og þarf að bæta fyrir brot mín.
En ég hlakka til að frelsast. Ég hlakka til að faðma fjölskylduna, hitta vini mína, keyra bíl, fara í matvöruverslun, þurfa ekki að biðja um ilmvatnið mitt og sjampóið, getað farið út þegar ég vil, farið í göngutúra og þurfa ekki alltaf spyrja leyfis.
Við sem höfum verið á röngunni í samfélaginum erum að bæta okkur. Gangi okkur vel!
Það verður gaman að sjá og hitta ykkur hin!
Kveðja úr Kópavogsfangelsi