Jæja, hvernig voru jólin? Drakkstu of mikið, of oft, varðstu þér til skammar, keyrðirðu bíl undir áhrifum, vaknaðirðu í vitlausu póstnúmeri eða ertu bara lerkuð af langvarandi veisluhöldum og þynnku? Ertu kannski bara brött, búin að hrista þetta af þér og afsakar þig með því að jólin séu nú bara einu sinni á ári og allir hvort eð er á sneplunum yfir hátíðarnar?
Ég ákvað að fara í meðferð inn á Vog í ágúst 2012. Ég hafði aldrei reynt að hætta að drekka, ætlaði að hætta öllu fyrr en því að láta áfengið vera. Fyrst átti að hætta að reykja, vera betri mamma, stunda líkamsrækt, verða grænmetisæta, því ég var þrátt fyrir allt á höttunum eftir betri líðan og kannski ekki síst betri andlegri líðan.
Eftir að ég eignaðist yngstu börnin mín þrjú glímdi ég við þunglyndi um margra ára skeið. Ég fékk eins og margir hraðafgreiðslu hjá geðlækni sem ráðlagði geðlyf. Hann ráðlagði reyndar að ég skyldi láta áfengi eiga sig en mér fannst nú ekki mín kúltíveraða daglega rauðvínsdrykkja vera áfengisneysla. Ég var ekki í neinni neyslu!
En auðvitað var ég í neyslu. Að drekka eitthvað þótt lítið sé nánast daglega er neysla. Að drekka oftar en fjórum sinnum í viku eitthvað áfengi er skilgreint sem dagdrykkja þótt neyslan fari fram að kvöldi til.
Ég hélt sumsé ekki að ég væri dagdrykkjumanneskja af því að ég fékk mér rauðvín eftir sólsetur en skilgreining læknanna á Vogi er sú að áfengisneysla fjórum sinnum í viku SÉ dagdrykkja enda nái maður þá aldrei almennilega að losna við áfengið úr líkamanum.
Kannski drekkurðu bara um helgar. Megnið af laugardegi og sunnudegi fer í það að jafna sig. Kannski ertu einhleyp og getur safnað kröftum án þess að það komi nokkrum við en kannski áttu börn sem vakna á morgnana, eldsnemma um helgar eins og aðra daga og gera réttmætar kröfur um að þeim sé sinnt.
Það er erfitt að sinna börnum þegar maður er illa fyrir kallaður, jafnvel þótt lítið hafi verið drukkið, það verður erfitt að gera einföldustu hluti og það sem ætti að vera sjálfsagt mál og auðvelt verk verður pirrandi og óyfirstíganlega flókið. Og þín líðan bitnar á þeim sem standa næst þér og samviskubitið og vanlíðan þín eykst.
Þunglyndi og áfengisdrykkja fer afskaplega illa saman. Áfengi er þunglyndisvaki og þunglyndi fylgir kvíði, lágt sjálfsmat, frestunarárátta, flótti og nagandi vanmáttarkennd. Að drekka áfengi ofan í þunglyndislyf er því algjört rugl.
Þegar talað er um konur sem drekka heima fyrir er stundum talað um gardínufyllibyttur, að drekka fyrir aftan gardínuna og horfa á lífið fyrir utan gluggann renna fram hjá sér. Að drekka í laumi. Stunda vinnu en koma svo heim og drekka sig í svefn.
Sorglegt, en það er staðreynd að fullt af konum drekka einar heima, konur á öllum aldri. Margar eldri konur eru einmana, drekka einar, eru löngu búnar að koma börnunum til manns, búnar að ljúka sinni starfsævi og finnst þær ekkert hafa til að lifa fyrir. Ég hitti nokkrar eldri konur á Vogi, konur sem voru komnar um og yfir sjötugt og vildu bæta lífsgæði sín því áfengisneysla dregur líka úr allri framkvæmd og áræðni. Þær voru hættar að hafa sig í nokkurn skapaðan hlut nema það að fá sér í glas.
Lífið er sko ekki búið um sjötugt, ég þekki konu sem er komin yfir áttrætt og hætti að drekka rétt eftir sextugt og hún er allra manna hressust. Ung í anda, fylgist vel með, lifir innihaldsríku lífi og stundar félagslíf án áfengis.
Mín áfengisdrykkja var aldrei á bak við gardínu, ég drakk áfengi bara þegar mér sýndist, faldi það aldrei og fór aldrei í launkofa með það að ég ætti örugglega við áfengisvandamál að stríða. Það hafði ég vitað í mörg ár og um það vitnuðu ótal atvik þar sem ég hafði drukkið of mikið og sett ofan fyrir vikið. Allajafna var þetta ekki til nokkurs ama fyrir aðra í kringum mig en af og til komu stóru fylliríin, skandalarnir sem erfiðara var að strauja yfir og atburðir þar sem ég hreinlega stofnaði lífi mínu eða annarra í hættu. Dómgreindarleysi er fylgifiskur áfengisneyslu og ég er vissulega sek um það að hafa tekið afdrifaríkar ákvarðanir í trássi við alla dómgreind.
Þegar ég ákvað að fara í meðferð brást fólk mismunandi við því, sumir voru hissa, aðrir samglöddust mér, enn aðrir eflaust dauðfegnir og ég skal viðurenna að það fór afskaplega í taugarnar á mér að fólk hefði yfirleitt einhverja skoðun á því hvort ég ætti að hætta að drekka eða ekki.
Ég ráðlegg því þeim sem eiga ættingja og vini sem vilja hætta að drekka að vera ekkert að láta uppi eigið viðhorf, hvort heldur er undrun, gleði eða ofskæti yfir ákvörðun viðkomandi, heldur að vera bara til taks. Það að hætta að drekka er stór ákvörðun og sá sem hefur tekið þá ákvörðun þarf ekkert á athugasemdum ófaglærðra besservissera að halda.
Vogur er spítali og þar starfa læknar og hjúkrunarfólk sem vita nákvæmlega hvers við alkóhólistarnir þörfnumst. Alkóhólismi er sjúkdómur sem hægt er að halda niðri með því að drekka ekki áfengi, og teljir þú að þú hefðir gott af því að fá hjálp við það þá áttu ekki að bíða með að hringja og biðja um pláss á Vogi. Þú getur líka, ef þú vilt ekki rjúka inn á Vog, haft samband við einhvern sem er hættur að drekka og bara byrjað á að spjalla við viðkomandi. Þú ert ekki ein á báti.
Að vera sjúklingur á Vogi er ekki slæm staða. Já, þú ert á slopp og heimafatnaði eða náttfötum. Þú þarft að deila herbergi með öðrum en er það svo slæmt? Gildir það ekki líka um aðrar sjúkrastofnanir? Ertu eitthvað of góð til að deila herbergi með öðrum? Ég var í herbergi með kornungum stuðboltum og þetta var eins og að fá loksins að upplifa að vera á heimavist sem í mínu tilfelli var langþráður draumur. Mikið hlegið og skrafað.
Ég hélt að á Vogi væri stundað eitthvert trúboð, en það var öðru nær. Aldrei var minnst á Guð utan þegar einn maður kom og hélt svoleiðis dómadagsþvæluræðu um guðsótta og helvíti á lokuðum AA kynningarfundi að ég gekk á dyr. Maðurinn reyndist vera galinn og það var viðurkennt af starfsfólki að hann hefði ekki átt að fá leyfi til að messa yfir mannskapnum.
Þeir eru margir pokaprestarnir sem vilja kenna alkóhólistum að lifa lífinu. Margir þeirra eru sérlega viljugir að kenna meðan þeir eru sjálfir í meðferð en ég valdi sumsé að hlusta eingöngu á læknana, hjúkrunarfólkið og meðferðarráðgjafana sem allir sem einn voru fyrsta flokks að mínu viti.
Dagarnir á Vogi einkennast af fyrirlestrum og hópatímum. Ég var dauðhrædd um að vitsmunum mínum yrði stórlega misboðið á Vogi en það var nú öðru nær. Fræðandi og merkilegir fyrirlestrar og gagnlegir hópatímar. Ekkert kjaftæði.
Það sem kannski er mikilvægt að vita er það að inni á Vogi eru allir á sama báti. Þú ert meðal fólks sem eins og þú á við vanda að stríða. Það eru allir komnir þangað til að ná bata eins og þú og það er enginn að pæla í þér. Það eru allir uppteknir við það sem þeir eiga að vera að gera, að ná áttum og heilsu sjálfra sín vegna. Þar er ekki boðið upp á neinar sérmeðferðir, eitt gengur yfir alla hvort sem þú ert sprautufíkill, pilluæta, grashaus eða áfengissjúklingur. Enda allir að glíma við það sama, að losna undan fíkn og ná stjórn á eigin líðan allsgáður.
Ekki draga það að hætta að drekka ef þú hefur grun um það að það yrði þér til gagns.
Ég get ekki byrjað að lýsa hvað það hefur gert mér gott að hætta að drekka. Ég eins og margir byrjaði að drekka áfengi á unglingsaldri og því má segja að áfengisneysla hafi leynt og ljóst litað allt mitt líf með beinum og óbeinum hætti.
Ég hef aldrei fyrr en nú náð því að vera það sem kallað er í jafnvægi. Mér finnst ég fyrst núna orðin fullorðin, geta hugsað verulega skýrt, tekið ígrundaðar ákvarðanir, ég er hætt að fresta og draga á langinn. Ég hef fulla orku til að takast á við börnin mín og vinnuna og það setur mig fátt úr jafnvægi. Og þunglyndið og fylgifiskar þess eru á bak og burt. Enginn kvíði, ástæðulaus depurð, sjálfshatur og sjálfsniðurrif. Og engin þunglyndislyf sem ég kannski þurfti aldrei á að halda hefði ég bara hætt fyrr að drekka.
Og ég hef ekkert öðlast englavængi, gengið öfgasamtökum á hönd eða misst húmorinn. Síður en svo. Lífið er skemmtilegra, innihaldsríkara, mér verður margfalt meira úr verki og ég er 100% til reiðu fyrir þá sem mér þykir vænst um.
Það er alltaf góður tími til að hætta að drekka ef þú átt við vandamál að stríða. Enginn tími verri en annar og flestir vinnuveitendur hafa fullan skilning á því að fólk vilji bæta heilsu sína og stunda vinnu sína af fullum kröftum.
Ef þú handleggsbrýtur þig þá reynirðu ekki að tjasla þér saman sjálfur eða hringir í vinkonu sem að eigin viti er uppfull af fræðandi upplýsingum um beinbrot. Þú ferð á slysavarðstofuna og færð faglega aðstoð, ekki satt?
Ef þú ert farin að sjá illa á bók þá ferðu til augnlæknis og færð gleraugu svo að þú þurfir ekki að giska á innihald bókarinnar.
Ef þú þjáist af sykursýki þá þarftu í mörgum tilfellum að sprauta þig með insúlíni sem þú færð hjá lækni, ekki satt? þú lætur ekki Nonna frænda þræla einhverju glundri í æðarnar á þér af því að hann segist hafa vit á því.
Hættu að láta eins og þú sért læknir, gefðu besservisserunum í kringum þig frí, sættu þig við þá staðreynd að þú hefur misst stjórnina, berðu höfuðið hátt, fáðu aðstoð hjá fagfólki og þiggðu hana með þökkum. Ekki hika við það.