Bókmenntir á Matarmarkaði Búrsins helgina 28. feb.–1. mars
Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Penninn Eymundsson taka höndum saman í Hörpu um helgina og bjóða gestum að hlýða á átta rithöfunda lesa úr verkum sínum og spjalla um þau við sjónvarpsmanninn Egil Helgason.
Það hefur lengi verið vilji Bókmenntaborgarinnar að tengja saman menningu og atvinnulíf og er þetta skref í þá átt. Við kynnum höfunda úr ólíkum áttum og vörpum ljósi á þá miklu breidd sem sjá má í íslensku bókmenntalífi. Grasrótin les úr verkum sínum ásamt skáldum í útrás og reyndari skáldum hér innanlands. Þarna verða handhafar Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2014 í flokki barna- og ungmennabóka og fagurbókmennta, þau Bryndís Björgvinsdóttir og Ófeigur Sigurðsson, nýskipaður rithöfundur í stöðu Jónasar Hallgrímssonar við Háskóla Íslands, Sigurður Pálsson, þau Gerður Kristný, Yrsa Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason, sem öll eru á mikilli siglingu erlendis og Meðgönguljóðaskáldin Björk Þorgrímsdóttir, Elías Knörr og Valgerður Þóroddsdóttir.
Harpa mun iða af lífi alla helgina. Matarveislan mikla, Food and Fun, verður í brennidepli þegar matreiðslumaður hátíðarinnar verður krýndur. Íslenskur sjávarútvegur og landbúnaður kynna sig, bæði innan dyra í Hörpu og fyrir utan húsið. Matarmarkaður Búrsins, beint frá býli, verður í Flóa alla helgina og Sinfóníuhljómsveit Íslands og Reykjavík Bókmenntaborgin krydda dagskrána með tónlist og bókmenntum.
Bókmenntadagskráin verður í Vísu – fyrirlestrasal á 1. hæð og tekur Egill Helgason vel á móti skáldum og gestum Hörpu.
Laugardagur:
Kl. 13.00. Valgerður Þóroddsdóttir, Björk Þorgrímsdóttir og Elías Knörr lesa úr verkum sínum og ræða um grasrótarforlagið Meðgönguljóð og hvernig er að vera ungt ljóðskáld í Reykjavík.
Kl. 14.00. Andri Snær Magnason.
Kl. 14.30. Gerður Kristný.
Sunnudagur:
Kl. 13.00. Ófeigur Sigurðsson.
Kl. 13.30. Yrsa Sigurðardóttir.
Kl. 14.00. Bryndís Björgvinsdóttir.
Kl. 14.30. Sigurður Pálsson.
Nánar um skáldin:
VALGERÐUR ÞÓRODDSDÓTTIR
Valgerður er eitt af grasrótarskáldunum okkar og er hún í forsvari fyrir forlaginu Meðgönguljóð. Hún var tilnefnd fyrir hönd Íslands til New Voices-verðlauna Pen árið 2014. Eftir Valgerði hefur komið út ljóðabókin Þungir forsetar sem var samstarfsverkefni hennar og Kára Tulinius, síðan á hún m.a. ljóð í ljóðasafninu Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík, sem gefið var út í tilefni Lestrarhátíðar 2013.
BJÖRK ÞORGRÍMSDÓTTIR
Björk Þorgrímsdóttir er í hópi Meðgönguljóðaskáldanna. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók Neindarkennd hjá forlaginu árið 2014. Þar áður gaf hún út bókina Bananasólkom hjá forlaginu Tungl árið 2013. Björk nam ritlist í Háskóla Íslands.
ELÍAS KNÖRR
Elías Knörr eða Elías Portela er ljóðskáld og þýðandi frá Galisíu og er í hópi Meðgönguljóðaskálda. Elías skrifar bæði á íslensku og galisísku og hefur nýlega unnið til virtustu ljóðaverðlauna Galisíu fyrir bókina Bazar de traidores (Svikabasar). Á íslensku hefur hann sent frá sér ljóðabókina Sjóarinn með morgunhestana undir kjólnum sem bókaforlgaið Stella gaf út árið 2010. Ljóð eftir hann hafa einnig birst í tímaritinu Stellu og bókinni Ljóð í leiðinni: skáld um Reykjavík.
GERÐUR KRISTNÝ GUÐJÓNSDÓTTIR
Gerður Kristný gaf út sína síðustu bók, Drápu, sl. haust og hlaut eindóma góðar viðtökur fyrir hana. Áður hefur Gerður sent frá sér meðal annars ljóðabækur, barnabækur og smásögur. Hún fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010 fyrir ljóðabók sína Blóðhófnir. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga innan lands sem og erlendis.
ANDRI SNÆR MAGNASON
Andri Snær gaf út bókina Tímakistan árið 2013 og hlaut fyrir hana Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokknum barna- og ungmennabækur sama ár. Verk hans Sagan af bláa hnettinum er á mikilli siglingu um heiminn og var nýlega frumsýnt leikrit eftir bókinni í Aalborg Teater í Álaborg og Akvavit Theatre in Chicago. Verk Andra Snæs hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og velgengni hans mikil hér heima og erlendis.
ÓFEIGUR SIGURÐSSON
Ófeigur Sigurðsson er þekktastur fyrir skáldsögur sínar en hann hefur einnig gefið út ljóð. Bók hans Skáldsaga um Jón vann bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins árið 2011 fyrst íslenskra skáldverka til að hljóta þau verðlaun og fyrir nýjasta verk sitt, Öræfi, fékk hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2014.
YRSA SIGURÐARDÓTTIR
Vilborg Yrsa hefur gefið út spennusögu árlega síðan árið 2005. Hún er einn af okkar vinsælustu spennusagnahöfundum. Verk Yrsu hafa verið þýdd á yfir 30 tungumál og hefur hún borið hróður íslensku glæpasögunnar víða um lönd.
BRYNDÍS BJÖRGVINSDÓTTIR
Bryndís Björgvinsdóttir er eitt af nýju skáldunum í hópnum. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir sögu sína Flugan sem stöðvaði stríð árið 2011 og fyrir nýjustu bók sína Hafnarfjarðarbrandarinn hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2014.
SIGURÐUR PÁLSSON
Sigurður Pálsson er vel þekktur rithöfundur og þýðandi. Hann er hvað þekktastur fyrir ljóð sín en minningabækur hans undanfarin ár hafa hlotið frábærar viðtökur lesenda og gagnrýnenda. Sigurður hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga og fyrir Minnisbók fékk hann Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2008.