Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

Árni Páll Árnason sigraði með einu atkvæði

$
0
0

Árni Páll Árnason sigraði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í formannslagi Samfylkingarinnar með einu atkvæði. Hann er því enn formaður flokksins en með afar laskað umboð. Sigríður Ingibjörg tilkynnti framboð sitt seint í gærkvöldi eftir að frestur til að kalla til atkvæðagreiðslu meðal allra flokksfélaga var liðinn. Kosningin var því í höndum landsfundarfulltrúa, ekki allra meðlima flokksins.

Formaðurinn fer frá landsfundi með laskað umboð en munurinn gæti ekki verið minni, nema þá að ef til hlutkestis hefði komið. Árni Páll þakkaði landsfundarfulltrúum fyrir en tók skilaboðin augljóslega til sín. „Þetta er sérkennileg niðurstaða,“ sagði hann þegar hann ávarpaði landsfundinn eftir að tilkynnt var um úrslitin. Árni Páll sagði þessa niðurstöðu leggja sér ríka ábyrgð á herðar og hana myndi hann reyna að axla. „Við verðum að snúa bökum saman og sækja fram ef okkur á vel að farnast.“

503 voru á kjörskrá. 487 greiddu atkvæði. Árni Páll hlaut 241 atkvæði en Sigríður Ingibjörg 240.


Síðasta veggklæði Ásgerðar Búadóttur

$
0
0

Laugardaginn 21. mars verður opnuð sýning á veflistaverkum Ásgerðar Búadóttur í Gallerí Fold við Rauðarárstíg.

Á sýningunni er meðal annars síðasta veggklæðið sem Ásgerður gerði. Þetta er abstrakt-verk byggt á línum og formum ofið úr ull og hrosshárum en auk verksins eru sýndar skissur og vinnuteikningar af verkinu sem gefur einstaka sýn á vinnuferli listamannsins.

Ásgerður Ester Búadóttir fæddist í Borgarnesi 4. desember 1920 en ólst upp í Reykjavík. Hún hóf nám í Handíða- og myndlistarskólanum árið 1942 og stundaði framhaldsnám við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn árin 1946–49 og lagði einkum stund á málaralist. Á námsárunum kynntist hún þó einnig listvefnaði og þá kviknaði áhugi hennar á því listformi.

Eftir námið flutti hún með sér vefstól heim og fór að vinna með listvefnað sem hefur haldið nafni hennar á lofti allar götur síðan en Ásgerður var án efa markverðasti veflistamaður þjóðarinnar á 20. öld. Árið 1956 vann hún til gullverðlauna á alþjóðlegu lista- og handverkssýningunni í München fyrir veggklæðið „Stúlka með fugl“. Verðlaunin gáfu henni byr í seglin og í kjölfarið hélt hún fyrstu sýningarnar á verkum sínum.

Alls urðu einkasýningar Ásgerðar 15 talsins og hún tók þátt í um 70 samsýningum hér á landi sem erlendis. Verk hennar má finna á söfnum hérlendis, á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum, auk þess sem þau prýða ýmsar opinberar stofnanir. Forseti Íslands sæmdi hana fálkaorðu árið 1993. Ásgerður naut heiðurslauna Alþingis frá árinu 1995.

Sýningin stendur til 12. apríl.

Þekkirðu til á Skagfirska efnahagssvæðinu?

$
0
0

Advanced Poll

Hver eftirtalinna er fjármálastjóri Kaupfélags Skagfirðinga?

Blómkáls-pitsu-beyglur

$
0
0

Stundum er erfitt að koma grænmeti ofan í börnin mín. Stundum er erfitt að koma grænmeti ofan í mig. Það er bara nýlega sem ég fór að kunna að meta blómkál. Ég er líka þessi ýkta týpa. Núna er blómkál í öllu sem ég geri, nánast. Skiptir ekki máli hvort ég sé að baka eða elda. Ég finn leið til að troða blómkáli í uppskriftina.

Þessa hugmynd sá ég fyrir löngu á netinu. Búin að vera með hana bak við eyrað í marga mánuði. Svo loks þegar ég ætlaði að skella í hana þá fann ég ekki uppskriftina aftur. Týpískt.

Svo maður bara sullar saman og býr til nýja.
Þær komu mjög dökkar út úr ofninum en ómæ hvað ég elska það. Krispí að utan en mjúkar að innan.

Pitsu-beyglur 6 stk.

100 g blómkálsgrjón
100 g rifin ostur
2 egg
1/4 rauðlaukur
2 hvítlauksgeirar
6 pepperoni sneiðar
2 skinkusneiðar
(tómatar, sveppir, paprika eða annað sem þið eigið til)
1 tsk. hvítlauksalt
2-3 msk. oregano
salt og pipar eftir smekk
Rífið niður blómkál í matvinnsluvél eða blandara.
Setjið blómkálsgrjónin í örbylgjuofn í ca 7-10 mínútur.
Skerið niður álegg og grænmeti og setjið í skál með rifnum osti, blómkálsgrjónum, eggi og kryddi.
Blandið vel saman og setjið í kleinuhringjaform. Ég keypti mitt í Allt í köku.
Bakið á 180 í ca 30 mínútur eða þar til orðið vel dökkt. Ég kýs að hafa mínar beyglur vel dökkar og eldaðar að utan en þið getið prófað að hafa eldunartímann styttri ef þið viljið.
Þessar voru fljótar að fara ofan í magann á mér og syni mínum.

 

Hvað er best fyrir þig og barnið þitt?

$
0
0

Gerður Eva Guðmundsdóttir og Sigrún Huld Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður skrifa:

Gerður Eva Guðmundsdóttir

Gerður Eva Guðmundsdóttir

Sigrún Huld Gunnarsdóttir

Sigrún Huld Gunnarsdóttir

 

Hvað er best fyrir þig og barnið þitt?

-Taktu upplýsta ákvörðun

Nýverið birtist grein eftir Tobbu Marinós í Kvennablaðinu með fyrirsögninni „Gerðu það sem er best fyrir þig og barnið þitt“. Greinin er um reynslu höfundarins af sinni fyrstu fæðingu. Í þessari grein kemur margt jákvætt fram, til dæmis að konur eigi ekki að bera saman fæðingar sínar, þær séu ekki í keppni við hver aðra og að þær konur sem fæða án deyfingar séu ekki öðrum konum fremri.

Það er jákvætt að vakin hafi verið athygli á þessu mikilvæga málefni fyrir konur, engin fæðing er eins og allar mæður eru hetjur óháð því hvernig barnið þeirra kom í heiminn. Það er upplifun konunnar og hvernig henni og barninu reiðir af eftir fæðinguna sem skiptir mestu máli. Út frá þessari grein hefur skapast mikilvæg umræða um notkun mænurótardeyfinga í fæðingum. Þar er sögð reynslusaga, reynslusaga sem á fullan rétt á sér en ekki má alhæfa út frá reynslu einnar konu.

spítalafæðing bað

 

Það virðist vera að konur séu ekki nægilega vel upplýstar um mögulegar aukaverkanir deyfinga í fæðingum sem bendir til þess að fræðslu um málefnið sé ábótavant. Í umræðunni hefur mikil áhersla verið lögð á sársaukann sem getur fylgt fæðingum og út frá henni er auðvelt fyrir konur að álykta að fæðingum fylgi alltaf óyfirstíganlegur sársauki sem sé sá versti sem þær munu upplifa á lífsleiðinni. Þessi skilaboð eru varhugaverð.

Sársauka í fæðingum hefur einnig verið líkt við þann sársauka sem hlýst af tannviðgerðum og skurðaðgerðum. Því hefur verið slegið fram að þar sem sjaldgæft er að slíkar aðgerðir séu framkvæmdar án deyfinga þá geti það sama gilt um fæðingar. Þessi samanburður er ekki við hæfi þar sem fæðing barns á lítið skylt við slíkt sjúkdómsástand.

Í fæðingu hafa hríðarnar tilgang, þann tilgang að koma barni í heiminn, þær stafa ekki af sjúklegu ástandi og eru ekki hættulegar á nokkurn hátt. Í fæðingu spila hormónin oxýtósin, adrenalín og endorfín saman og hjálpa konunni að takast á við hríðarnar. Hið síðastnefnda, endorfín, er náttúrulegt verkjalyf skylt morfíni, sem líkaminn framleiðir þegar hann er undir miklu álagi og eykst styrkur þess í blóði eftir því sem líður á fæðinguna. Þessi hormón eru víðs fjarri á tannlækna- og skurðstofum.

IMG_1206

Það er leitt að við séum komin svo langt frá uppruna okkar að konur líki barnsfæðingu við skurðaðgerðir og tannviðgerðir. Hugsanlega skýrist það af mikilli hræðslu við fæðinguna sem oft er komin til vegna frásagna um hræðilegar fæðingar og Hollywood-kvikmynda þar sem fæðingar eru oftar en ekki sjúkdómsvæddar og gerðar ógnvænlegar. Þetta getur orðið til þess að konur verði dauðhræddar við fæðingu jafnvel löngu áður en þær verða barnshafandi í fyrsta sinn. Einhverra hluta vegna virðist alltaf heyrast hærra í þeim sem eiga neikvæða reynslu en þeim sem eiga jákvæða.

Engin fæðing er eins, verkjaupplifun hverrar konu er ólík. Fæðing er alltaf vinna, eins og enska orðið „labour“ gefur til kynna, en hún er ekki alltaf sársaukafull. Sumar konur finna ekki til við fæðingar á meðan aðrar upplifa mikinn sársauka.

Verkjaupplifun í fæðingu er samspil innri og ytri þátta. Innri þættir eins og hræðsla, hvaðan sem hún er uppsprottin, getur aukið mjög á verkjaupplifun og getur hún einnig hamlað framgangi fæðingarinnar og þess vegna er svo mikilvægt að konur mæti ekki hræddar til leiks í fæðingu. Einn af þeim þáttum sem getur aukið á hræðslu fyrir fæðingu er skortur á þekkingu.

Fræðsla og undirbúningur fyrir fæðingu eru mikilvæg atriði. Aðrir innri þættir eins og til dæmis þreyta og streita geta einnig magnað upp verkjaupplifun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góður stuðningur í fæðingu hafi jákvæð áhrif á útkomu og upplifun kvenna í fæðingu. Ytri þættir eins og upphaf og gangur fæðingar, staða barns í grindinni og hvort vatnið sé farið getur einnig skipt máli. Engin kona er eins, sögur þeirra eru ólíkar og fæðingar þeirra líka.

IMG_7775

Í eðlilegri fæðingu sem fer sjálkrafa af stað stýra hin fyrrnefndu hormón fæðingarferlinu. Flæði þessara hormóna getur auðveldlega truflast af áreiti í umhverfi og inngripum í fæðinguna. Öllum inngripum fylgir hætta á frekari inngripum og þar með aukinni hættu á verri útkomu fyrir móður og barn. Þess vegna er mikilvægt að sterkar ábendingar séu fyrir inngripum í fæðingarferlið. Stór hluti af starfi ljósmæðra og lækna sem sinna konum í fæðingu er að meta hvort þörf sé á inngripum eður ei. Mænurótardeyfing í ákveðnum tilfellum er mjög gott hjálpartæki, sérstaklega þegar að fæðingin gengur ekki eðlilega fyrir sig. Hún getur hjálpað þreyttum mæðrum að hvílast og slaka á sem getur leitt til þess að fæðingin fari að ganga betur. Konum með vandamál tengd meðgöngu eins og meðgöngueitrun er gjarnan ráðlagt að þiggja mænurótardeyfingu.

Mænurótardeyfingu geta fylgt aukaverkanir. Þegar gripið hefur verið inn í ferlið með mænurótardeyfingu hægist oft á gangi fæðingar og rembingsstigið verður frekar lengra meðal annars vegna þess að grindarbotninn er dofinn og konan finnur síður rembingsþörf. Auk þess á konan oft erfiðara með að hreyfa sig þar sem fætur hennar geta dofnað og hún verður bundnari við rúmið en við það getur hægst enn frekar á fæðingunni.

11029664_10152849255143022_535144147_o

 

Notkun mænurótardeyfingar eykur einnig líkur á því að fæðingin endi með áhaldafæðingu, sem sagt að barninu sé hjálpað út með sogklukku eða töngum. Brjóstagjöf getur farið verr af stað og staðið skemur en ella  þá sérstaklega ef fleiri inngrip eins og áhaldafæðing fylgja í kjölfarið. Rannsóknir hafa líka bent til að  deyfingin geti haft áhrif á aðlögun að móðurhlutverkinu og tengslamyndun. Fleiri mögulegar aukaverkanir eru t.d. blóðþrýstingsfall, þvagteppa, hiti í fæðingu og höfuðverkur eftir fæðingu. Brugðist er við aukaverkunum með frekari inngripum eins og hríðaörvandi lyfjum sem auka líkur á blæðingu eftir fæðingu, vökvagjöf í æð, uppsetningu þvagleggs, notkun sýklalyfja og fleira.

Þó er mikilvægt að hafa í huga að þetta eru aukaverkanir sem sumar eru líklegri til að koma fram því lengur sem konan hefur deyfinguna og þær koma alls ekki alltaf fram. Jafnframt virkar deyfingin ekki alltaf sem skyldi og benda rannsóknir til að upplifun kvenna sem fæða með deyfingu sé ekki endilega betri en þeirra sem fæða án hennar. Stundum vega kostirnir við deyfinguna meira en hugsanlegir gallar og því er hún oft kærkomin. Aðrar meðferðir eins og notkun djúpöndunar, vatns, nudds, vatnsbóla, nálastungna og glaðlofts geta hjálpað konum að takast á við hríðarnar en aukaverkanir þeirra eru oftast minni háttar.

Konur geta andað sig í gegnum fæðingu, þær eiga að hafa á trú sér og getu sinni til að koma barninu sínu í heiminn. Konur eru magnaðar með eða án mænurótardeyfingar! Konur og stuðningsaðilar þeirra ættu að fara með opnum hug en upplýstum inn í það óútreiknanlega og dásamlega ferli sem barnsfæðing er.

Dr Jekyll and Mr Hyde

$
0
0

Kvennablaðið birtir hér þýðingu á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands sem hann flutti á litháíska þinginu þann 11. mars sl. í tilefni af 25 ára sjálfstæðisafmæli Litháen. Í sjálfsupphafinni ræðu fer forsetinn mörgum orðum um stuðning Íslendinga í sjálfstæðisbaráttu Litháa en minnist ekki orði á störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hefur hlotið æðstu viðurkenningar litháísku þjóðarinnar fyrir að hafa fyrstur erlendra ráðamanna tekið stöðu með baltnesku löndunum gegn ægivaldi Rússa. 

Ólafur dásamar í ræðunni hinar sjálfstæðu þjóðir Evrópu og aldingarða Evrópusambandsins, sem er sannarlega óvænt í ljósi þess sem allir vita að hann er harður andstæðingur sambandsins, hefur gert núverandi utanríkisráðherra að bréfdúfu sinni og á heimavelli sýnist hann helst vilja treysta böndin við stórveldi og umdeilda einræðisherra.

„Á óróatímum komum við saman til að staðfesta frelsi okkar, frjálsræði okkar, lýðræðislegt gildismat okkar; til að fagna því hvernig vilji fólksins sigraði að lokum járnhnefa harðstjórnar og kúgunar; til að lýsa yfir þeim staðfasta vilja að heiðra, nú og um eilífð, minningu þeirra sem báru vonarbálið í brjósti sér, þeirra sem öllu fórnuðu, jafnvel lífi sínu, til að færa þjóðinni sjálfstæði.

Þegar nær dró lokum aldar tveggja styrjalda og einræðisstjórna varð saga Litháens og Eystrasaltsríkjanna á síðasta áratugnum svo sem leiðarbál lýðræðislegrar byltingar, vettvangur þar sem þjóðhreyfingar, nærðar af menningu og minningum fyrri tíma, hófu til vegs nýtt tímabil í Evrópu og hinum vestræna heimi.

Þessi sögulega barátta, dagarnir dramaþrungnu í höfuðborg ykkar, í bæjum ykkar og héruðum, munu um eilífð lifa í hugum okkar og í minningu fólks hvarvetna sem sönnun þess að ekkert veldi er nógu sterkt til að sigra vilja sameinaðrar þjóðar, þess að hugsjón lýðræðis og frelsis mun að lokum fara með sigur af hólmi.

Atburðirnir við þessar krossgötur munu áfram bera þau boð sem Vytautas Landsbergis tjáði á svo snjallan hátt fyrir tuttugu og fimm árum þegar honum var boðið sem æðsta fulltrúa þjóðar ykkar að heiðra setningu Alþingis, íslenska þjóðþingsins, elstu löggjafarsamkundu heims.

Screenshot 2015-03-21 17.12.02

Aldrei fyrr í ríflega þúsund ára sögu hafði Alþingi boðið slíkum gesti að taka þátt í árlegri setningu sinni, en hann gekk með okkur sem íslenska þjóðin hafði kosið frá þinghúsinu að dómkirkjunni eins og venja er í landi mínu – fólksfjöldinn sem safnast hafði saman á torginu fagnaði hlýlega og af festu og lýsti með því þjóðarvilja sem síðan leiddi til þess að Ísland varð fyrsta landið til að viðurkenna algjört fullveldi Litháens, staðfesta fullt sjálfstæði ykkar; þjóðarvilja sem leiddi til þess fáeinum árum síðar að Ísland tók höndum saman við önnur Norðurlönd og Bandaríkin og studdi heilshugar aðild ykkar að NATO, stefna sem tryggði öryggi til frambúðar og aðeins fáeinar þjóðir innan Atlantshafsbandalagsins mæltu fyrir á þeim tíma.

Einhvern veginn hefur það gleymst að ekki voru allir fylgjandi þessum athöfnum, að margir hvöttu til varkárni og þolinmæði, en við gengum djarflega fram og síðar ákváðu aðrir að gera eins.

Þessar ákvarðanir sýndu gildi þess boðskapar sem Vytautas Landsbergis setti fram fyrir tuttugu og fimm árum í ávarpi sínu til íslensku þjóðarinnar, boðskapar sem er jafnsannur nú og hann var þá.

Hann lýsti því yfir að hann ætti sér draum, rétt eins og Martin Luther King, draum um að litlar þjóðir kæmu saman í virku bandalagi til mótvægis við yfirráð stærri velda. Smærri þjóðir gætu bjargað heiminum með því að rétta hver annarri hjálparhönd, því þær byggju yfir siðferðisstyrk, hugjóninni um lýðræði og frelsi allra, þær gætu látið til skarar skríða þegar aðrar væru fastar í neti landsyfirráða og tálsýninni um ævarandi heimsveldi.

Litlar þjóðir sækja innblástur í sameinaðan vísdóm kynslóðanna sem varðveittu loga frelsisins, í menningu sína og arf tungunnar, eiginleika sem lifðu af stríðsátök og erlenda kúgun.

Screenshot 2015-03-21 17.09.59

Eins og Landsbergis fullyrti varð draumur hans að veruleika með aðgerðum Íslands, minnstu Evrópuþjóðarinnar, á meðan aðrar létu áhyggjuefni hafa áhrif á sig sem stærri lönd vekja oft hvert hjá öðru.

Draumurinn leiddi litháísku þjóðina einnig áfram ásamt hinum Eystrasaltsþjóðunum í viðleitni ykkar til að tryggja örugga stöðu innan evrópufjölskyldu sjálfstæðra ríkja og að lokum aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Þegar aðrir fylgdu dæmi ykkar urðum við vitni að nýju tímabili í langri sögu Evrópu. Aldrei áður hafa svo margar smáar og meðalstórar þjóðir myndað mósaík meginlands sem áður þjáðist vegna átaka milli stórvelda, en hefur nú verið mótað af sameiginlegum vilja smærri þjóða, sem flestar mynduðu síðan NATO, þar sem Ísland hafði áratugum saman sem stofnfélagi tilheyrt yngri armi bandalagsins ásamt nokkrum öðrum.

Á þessari nýju öld hefur Evrópa í fyrsta sinn orðið að samveldi þar sem meirihluti ríkja eru litlar eða miðlungs stórar þjóðir, þar sem margbreytileiki er grunnurinn að vel heppnaðri framtíð; vonandi ekki skipulagt sem miðstýrt kerfi hraðbrauta, heldur sem lystigarður með mörgum lundum og flötum sem hver um sig skartar sínum eigin plöntum og blómum.

Ákvörðunin sem Ísland tók og hin vel heppnaða þróun Litháens og annarra Eystrasaltsríkja, ferðalag ykkar frá því þið fögnuðuð sjálfstæði til fullrar aðildar að NATO og Evrópusambandinu ber vott um það hvernig smærri þjóðir heims geta haft áhrif á sameiginlega framtíð sína, vísað veginn til umbreytinga og fært öllum lýðræði, frelsi og að lokum hagsæld og velferð.

Í Norður-Evrópu eru Norðurlanda- og Eystrasaltsþjóðirnar átta nú tengdar nánum böndum í gegnum margvíslegar stofnanir, svæðisbundin og alþjóðleg samtök og vinna á uppbyggilegan hátt að friði, öryggi framförum og löggæslu.

Fyrir okkur hefur þetta orðið að lifandi og hagnýtu norður-evrópsku bandalagi sem byggist á sögulegum tengslum okkar, sameiginlegum stuðningi okkar við mannréttindi, umburðarlyndi og virðingu fyrir mismunandi siðum og sannfæringu, og öðrum hefur það jafnt orðið fyrirmynd og áminning um að sannarlega geta þjóðir tekið höndum saman og leitað inn á nýjar brautir, innblásnar af norrænum arfi og afrekum Eystrasaltsbúa.

Því færi ég ykkur í dag staðfestingu á vináttu okkar, boðskap um samstöðu frá íslensku þjóðinni, fullvissu þess að bandalag okkar mun að eilífu eiga sér rætur í þeim sögulega tíma þegar viljinn til sjálfstæðis færði þjóðir okkar saman.“

Íslendingar með Evrópumet í klamydíusmitum

$
0
0

Nýverið birti breska lyfjaverslunin Superdrug samantekt um fjölda greindra kynsjúkdómasmita í Evrópu og Bandaríkjunum. Niðurstöðurnar voru sláandi, en þar eru Íslendingar efstir á lista fyrir þrjá kynsjúkdóma; klamydíu, lifrarbólgu B og C ásamt því að komast í þriðja sætið í tíðni greindra tilfella kynfæravartna.

Eðli málsins samkvæmt voru margir slegnir yfir þessum fréttum og samantektinni var víða deilt inn á samfélagsmiðlum Íslendinga. Ekki er þó allt sem sýnist eins og Kvennablaðið komst á snoðir um er við ræddum við Guðrúnu Sigmarsdóttur, sérfræðing hjá sóttvarnalækni, um niðurstöður samantektarinnar.

Kynhegðun ungra Íslendinga skýrir að hluta tíðni klamydíusmita

Guðrún sagði embætti sóttvarnalæknis meðvitað um háa tíðni klamydíusmita á Íslandi og gekkst við því að Íslendingar væru því miður réttmætir handhafar efsta sætis á tíðni klamydíusmita í Evrópu. Aðspurð hvað valdi því að klamydía reynist svo algeng meðal Íslendinga sagði hún ýmislegt koma til.

Í fyrsta lagi væru Íslendingar duglegri að greina og skrá kynsjúkdóma heldur en flest lönd innan Evrópu, það sama megi reyndar segja um hinar Norðurlandaþjóðirnar sem skýri að stórum hluta hvers vegna Norðurlönd sitja í fjórum efstu sætunum í tíðni klamydíusmita í samantektinni. Hins vegar verði einnig að líta til annarra þátta. Guðrún segir að nýleg rannsókn hafi leitt í ljós að tíðni klamydíusmita hjá eldri konum  á Íslandi sé með svipuðu móti og á hinum Norðurlöndunum en að yngri konur greinist þeim mun oftar með klamydíusmit. Þessa niðurstöðu mætti að öllum líkindum skýra með breyttri kynhegðun ungs fólks á Íslandi, en í ljós hefur komið að ungmenni hér eiga að jafnaði mun fleiri rekkjunauta heldur en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum.

Þegar tölfræði sóttvarnalæknis um tíðni klamydíusmita eftir kyni eru skoðaðar má sjá mikinn mun á milli kynjanna. Þannig greinast fjögur til fimm hundruð fleiri tilfelli klamydíu hjá konum heldur en körlum á ári hverju. Guðrún sagði skýringuna á þessum mikla mun að karlar leiti síður til læknis heldur en konur og að konur væru líklegri til þess að gefa þvagsýni sem prófað yrði fyrir klamydíu til öryggis, til dæmis við meðgönguskoðanir. Þá væru karlar líklegri til þess að leita einungis til læknis ef einkenni  sjúkdómsins gerðu vart við sig en þau eru alls ekki alltaf til staðar.

Guðrún var ekki meðvituð um sérstaka stefnu eða átak hjá embætti sóttvarnalæknis til þess að stemma stigu við þessum stóra fjölda klamydíusmita en samsinnti því að forvarnir væru vissulega mikilvægur liður í því að stemma stigu við frekari útbreiðslu sjúkdómsins. Henni var ekki heldur kunnugt um neinar rannsóknir sem gerðar hefðu verið um viðhorf ungs fólks til smokkanotkunar hérlendis, nema að því leytinu til að hún hafði heyrt að smokkar þættu „ekki kúl“.

Tölur um lifrarbólgu B villandi

Guðrún sagði tíðni lifrarbólgu B smita mjög lága á Íslandi. Hérlendis væru kannski að greinast tvö til þrjú tilfelli á ári og væri þá venjulega um smitaða einstaklinga erlendis frá að ræða. Hún sagði niðurstöður samantektarinnar um að Íslendingar tróni á toppnum í tíðni lifrarbólgu B smita skýrast af röngum talningaraðferðum sóttvarnalæknis þar til nýverið. Þannig hafi allir sem smitaðir væru af lifrarbólgu B verið taldir sem ný smit á hverju ári. Á meðan hin Evrópulöndin væru einungis að skila inn tölum um ný tilfelli hefðu Íslendingar skilað inn tölum um alla smitaða. Þetta hafi gefið mjög misvísandi mynd af ástandinu hérlendis og nú séu talningar komnar í rétt horf.

Lifrarbólga C herjar helst á sprautufíkla

Lifrabólga C er sjúkdómur sem leggst helst á sprautufíkla hérlendis sem og í annars staðar í heiminum. Guðrún vildi ekki fullyrða um hvort Ísland tróni raunverulega á toppnum í Evrópu án þess að skoða málið betur og niðurstöðum hennar má vænta hvað úr hverju hvað þetta varðar. Hins vegar væri alltaf erfitt að bera saman tölfræði sem þessa milli landa. Fjöldi þátta kæmi til skoðunar, meðal annars aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu, tíðni skimanna fyrir sjúkdómum og gæði þjónustu. Samantekt Superdrug tæki ekki tillit til þessarra þátta og því ekki hægt með góðu móti að sannreyna niðurstöðurnar án frekari rannsókna.

Rannsóknaraðferðir skipta máli

Það er ekki að undra að mörgum hafi verið brugðið við að sjá Íslendinga hljóta þann vafasama titil að vera efstir á lista í tíðni þriggja alvarlegra kynsjúkdóma. Eins og sjá má á þessum pistli ber þó að varast að taka rannsóknir sem þessar of alvarlega. Íslendingar eru vissulega duglegir að næla sér í klamydíusmit og þar hefur viðhorf íslenskra ungmenna til smokkanotkunar eflaust veruleg áhrif þó aðrir þættir spili inn í, eins og tíðni greininga og skráninga en það er dagljóst að við erum engir methafar í lifrabólgu B eins og tíðrædd samantekt vill láta í veðri vaka.

Staða okkar á lifrabólgu B listanum virðist mega rekja til undarlegra talningaraðferða sóttvarnarlæknis framan af en það hefur sem betur fer verið leiðrétt. Efsta sætið í lifrabólgu C gæti hins vegar verið áhyggjuefni þó að Guðrúnu þætti undarlegt að heyra að Íslendingar væru þar fremstir í flokki. Kvennablaðið mun upplýsa lesendur sínar um niðurstöður Guðrúnar um leið og þær berast okkur.

Stúlkur, lærið sjálfsvörn!

$
0
0

Í þessu kennslumyndbandi frá 1947 má læra hin ótrúlegustu sjálfsvarnarbrögð til að verjast óæskilegum aðilum. Hún fer snöfurlega að þessu daman í myndbandinu og ekki annað hægt en að hrífast af því hversu lipurlega hún verst andstæðing sínum aftur og aftur og svona líka kattslök á milli atrenna.

Mary Parker hét hún stúlkan í myndbandinu og var víst þekkt fyrir júdó og jijitsu hæfni sína hér á árum áður.


Hversdagsmatur gærdagsins, matarhefðir morgundagsins

$
0
0

Eins og kemur fram í formálanum að Ömmumat Nönnu er helsta kveikjan að bókinni að ég var áður búin að skrifa bækur um íslenskan mat fyrir útlendinga (Icelandic Food and Cookery 2001, Cool Cuisine ogCool Dishes 2004) og heyrði þá oft utan að mér að það vantaði svona bók fyrir Íslendinga; reyndar er Maturinn okkar, sem kom út 2007, þýðing á Cool Cuisine en mér fannst alltaf galli að bókin var upphaflega skrifuð fyrir útlendinga og val á uppskriftum og texti tóku mið af því. Og svolítið skrítið kannski að þýða bók sem maður hefur sjálfur skrifað á ensku yfir á móðurmálið …

Þannig að þegar ég byrjaði að endurskrifa og uppfæra Icelandic Food and Cookery 2011 (kom út 2014) var ég með það í huga að gera jafnframt íslenska bók en þó allt öðruvísi, ekki íslenska útgáfu af ensku bókinni, og þegar ég byrjaði að taka myndirnar í Icelandic Food sumarið 2013 var ég farin að sjá fyrir mér hvernig sú bók gæti verið og miðaði við að sumar myndirnar gætu nýst í báðum.

Mig langaði líka til að halda íslenskri matarhefð meira á lofti – það er að segja, sýna fólki fram á að hún er svo miklu, miklu meira en súrmatur og hangikjöt og þess háttar. Og að hún frýs ekki á einhverjum ákveðnum tímapunkti, hvorki í upphafi 20. aldar, um miðja öldina né í lok hennar, hún heldur stöðugt áfram að þróast. Mér fannst að bæði ég og aðrir – og þar er auðvitað Hallgerður heitin Gísladóttir langfremst í flokki – hefðu gert gömlu matarhefðunum þokkaleg skil þótt alltaf megi gera miklu, miklu meira – en maturinn sem við ólumst sjálf upp við, tuttugustu aldar maturinn, nyti kannski ekki sannmælis, fólki þætti hann ekki hluti af íslenskri matarhefð (,,þetta er allt saman komið frá Danmörku …“ og hann ætti skilið að vera haldið miklu meira á lofti.

Reyndar var ég búin að ganga með þessa hugmynd lengi og á dögunum rakst ég á færslu sem ég skrifaði á gamla bloggið mitt í apríl 2005, fyrir tíu árum:

,,Það er danskur bókamarkaður í Pennanum/Eymundsson þessa dagana og ég sá þar ýmsilegt sem ég gat vel hugsað mér að eiga en lét þó nægja að kaupa tvær bækur eftir Camillu Plum. Önnur þeirra heitir Umoderne Mad. Það finnst mér skemmtilegt konsept, ég er líka töluvert fyrir ,,umoderne“ mat.

Upphafið á formálanum gæti líka vel átt við hér: ,,Hvor har vi hørt på meget sludder om, at vi ikke har en dansk madkultur. Gu har vi da så. Den er måske ikke hverken så fin, raffineret eller oldgammel som i andre lande. Men der er mad, vi holder af, som vi har spist i generationer, og som faktisk stadig er dejlig. Om det så også er dansk mad er et åbent spørgsmål; de fleste af vores finere retter stammer fra Frankrig.“

Svei mér ef mig langar ekki að skrifa svona bók.“

Og nú er ég búin að því.

Í vinnsluferlinu var bókin lengst af kölluð heimilismatarbókin eða eithvað ámóta og bráðabirgðatitillinn var Heimilismatur Nönnu (markaðsdeildin studdi það eindregið, þeim finnst að allar bækurnar mínar ættu að heita eitthvað – Nönnu af því að ég sé vörumerki, ég reyni alltaf að malda í móinn því mér finnst ég ekki vera vörumerki) en þegar kom að því að taka ákvörðun var ég ekki alveg sátt – ég hef til dæmis sent frá mér bók sem heitir Maturinn hennar Nönnu og hefur undirtitilinn Heimilismatur og hugmyndir svo mér fannst hætta á ruglingi. Þegar ég hafði verið að segja fólki frá bókinni og hvers konar matur væri í henni sagði það gjarna ,,já, svona ömmumatur“ og mér fannst flott að nota það í titilinn. Það hafði reyndar farið framhjá mér að áður hefur komið út bók sem heitirÖmmumatur (eða Ömmu matur, samkvæmt skráningu í Gegni), útskriftarverkefni í Listaháskólanum.

En ég hefði heldur aldrei látið mína bók heita bara Ömmumatur; það er svo alþekkt og vítt hugtak og líklega eiga flestir sinn ömmumat, eitthvað sem amma þeirra eða gamlar frænkur elduðu og á að vera nákvæmlega þannig. Svo að bókin heitir Ömmumatur Nönnu, þetta er minn ömmumatur og þær útgáfur af hefðbundnum réttum sem ég ólst upp við. Reyndar ekki ömmumatur í þeirri merkingu að þetta hafi ég fengið hjá ömmum mínum; móðuramma mín dó 1930, hjá föðurömmu minni borðaði ég sjaldan, svo að þetta er mest maturinn hennar mömmu, sem hún hafði jú lært að elda af ömmu sinni og á húsmæðraskóla um miðja öldina. En þetta er svo sannarlega ömmumatur barnanna minna og ég hef oft fengið að heyra að þetta hafi nú samt verið betra hjá ömmu Diddu. Og af því að ég er sjálf löngu orðin amma og hvorki ömmur né matargerð þeirra festast í einhverju ákveðnu tímaskeiði, þá tók ég með ýmsa rétti frá síðustu áratugum tuttugustu aldar, sem mín kynslóð lítur kannski ekki á sem ömmumat en börnin okkar og barnabörnin gera það …

Því að það má ekki gleyma því að matur dagsins í dag verður kannski að matarhefðum morgundagsins.

Og ef einhver ætlar að halda því fram að til dæmis kjötbollur séu ekki partur af íslenskri matarhefð af því að þær séu ættaðar frá dönskum friggadellum – ja, þá hefur sá hinn sami einfaldlega rangt fyrir sér og var að öllum líkindum ekki að alast upp laust eftir miðja 20. öld. Það eru til ótal uppskriftir að steiktum kjötbollum – úr hakki, ekki tilbúnu kjötfarsi – kryddaðar og bragðbættar á ýmsa vegu þótt kryddúrvalið væri kannski ekki mikið – mamma átti bara pipar, salt og karríduft, og svo kanel, negul og annað slíkt sem næstum engum hefði á þeim tíma svo mikið sem dottið í hug að nota í kjötbollur.

Þetta er samt ekki uppskriftin hennar en náskyld. Þetta er sú útgáfa sem ég gerði oftast þegar ég var að byrja að búa seint á áttunda áratugnum. Þá þótti reyndar nokkuð djarft að nota ferskan hvítlauk, frekar að fólk áræddi að nota örlítið hvítlauksduft eða hvítlaukssalt.

_MG_1750

Ég byrjaði á að taka 500 g af kjöthakki. Í bollurnar má hafa hvaða hakk sem er; mér finnst best að nota blöndu af lamba- og svínahakki. en lambahakk fæst ekki víða og það má alveg nota nautahakk, að hluta eða eintómt. Svo saxaði ég 1 lauk smátt og 2 hvítlauksgeira mjög smátt. Mamma hakkaði kjötið alltaf sjálf lengst af og hakkaði þá laukinn bara með.

Ég blandaði lauk og hvítlauk svo saman við hakkið, ásamt ½ tsk af pipar, 1 tsk af salti, 1 tsk af þurrkuðu timjani, 1 tsk af paprikudufti og 1 eggi.

_MG_1753

Svo tók ég 100 ml (1 dl) af hafragrjónum og 3 msk af kartöflumjöli og hrærði saman við. Það má líka nota hveiti í staðinn fyrir kartöflumjöl, jafnvel í staðinn fyrir hafragrjónin líka, en mér finnst þetta best svona.

Í matreiðslu í grunnskóla lærði ég að þegar búið væri að hræra hakk, lauk, krydd og egg (ef það var notað) saman ætti maður að jafna yfirborðið á farsinu í skálinni, skera djúpan kross í það til að skipta því í fjórðunga, taka einn fjórðunginn upp úr og fylla holrúmið með hveiti, setja svo fjórðunginn aftur út í og hræra allt saman. Þetta virkaði svosem alveg og hlutföllin í farsinu urðu alltaf þau sömu en mér finnst bara ekki eins gott að nota svona mikið hveiti …

_MG_1756

Svo skipti ég farsinu í 12 jafna hluta (eða eftir því hvað maður vill hafa bollurnar stórar) og mótaði kringlóttar bollur úr því. Setti svo 1 1/2 msk af olíu og 1 msk af smjöri á pönnu. Hér áður fyrr hefði maður sett væna sneið af smjörlíki – mér finnst stundum eins og flestar uppskriftir á sjöunda áratugnum hafi byrjað á orðunum ,,takið 100 g af smjörlíki“ – en það eru nú ýkjur. Ekki svo miklar þó …

Allavega, ég setti bollurnar á pönnuna og brúnaði þær á öllum hliðum (þremur, nánar til tekið) við meðalhita.

_MG_1757

Svo hellti ég hálfum lítra af vatni á pönnuna, hitaði að suðu og jafnaði sósuna með 1 1/2-2 msk af hveiti hristu með dálitlu köldu vatni, en það má líka nota sósujafnara, hann var ekki til hér áður fyrr.

_MG_1761

Ég lét þetta malla í um 5 mínútur. Smakkaði svo sósuna, bragðbætti með pipar og salti eftir þörfum og dekkti hana með nokkrum dropum af sósulit.

_MG_6400

Og svo er bara að bera bollurnar  fram með sósunni og ef þetta á að vera alveg klassískt þurfa náttúrlega að vera soðnar kartöflur, Ora grænar og sultutau með, og kannski súrsaðar rauðrófur eða rauðkál.

*

Kjötbollur í brúnni sósu

500 g kjöthakk

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

pipar og salt

1 tsk timjan

1 tsk paprikuduft

1 egg

100 ml hafragrjón

3 msk kartöflumjöl (eða hveiti)

1 ½ msk olía

1 msk smjör

½ l vatn

1½ msk hveiti (eða sósujafnari eftir þörfum)

sósulitur

Stafar ógn af Rússum á norðurslóðum?

$
0
0

 

Aftur til fortíðar
Að undanförnu hafa atburðir í Úkraínu vakið ugg í brjósti og stjórnarhættir Vladimirs Putin Rússlandsforseta þótt minna á fyrri tíð hins kalda stríðs. Athyglin hefur því einnig beinst að norðurslóðum þar sem Rússar hafa verið að auka viðbúnað sinn og þær spurningar vaknað hvort Rússar hyggi þar á framrás og landvinninga. Hér verður reynt að varpa ljósi á málið, hvort raunveruleg ógn stafi af Rússum á norðurslóðum.

Þegar rússneskir landkönnuðir settu niður fána á hafsbotninn á norðurskautinu árið 2007 var freistandi að túlka þá djörfu aðgerð á þann veg að þar með væri hafið kapphlaup um norðurslóðir, hugsanlega með átökum. Reyndin hefur þó verið önnur og líklega voru rússnesk stjórnvöld að styrkja pólitíska stöðu sína innanlands og að senda öðrum ríkjum skilaboð. Þannig gerðu þeir ákveðið tilkall til svæðisins og styrktu mögulega strategíska stöðu á heimsvísu til framtíðar.

Putin viðurkenndi seinna að hinar miklu olíuauðlindir á svæðinu gætu verið grundvöllur fyrir landfræðilega hagsmunabaráttu. Hann lagði samt áherslu á að þarna væru engar aðstæður fyrir stríðsátök og ríkin fimm sem hagsmuna eiga að gæta leystu úr deilumálum á vettvangi alþjóðlegs réttar Sameinuðu þjóðanna.

Auk fánamálsins hafa Rússar nú boðað eflingu norðurflota síns með endur-opnun herstöðvar á Nýju-Síberíueyjum þar sem öflugur floti mun hafa aðsetur allt árið um kring, en stöðin var síðast í notkun árið 1993. Einnig hafa rússneskir „Birnir“ tekið til við að fljúga nýja leið, m.a inn í lofthelgina umhverfis Ísland og lofthelgi Kanada, eins og tíðkaðist á kaldastríðsárunum.

Helstu fræðimenn á sviði norðurslóðamála, ma. Michael Byers, Alyson Bailes og Lasse Heninen hafa þó sagt að þrátt fyrir hernaðaruppbyggingu Rússa á norðurslóðum sé megináhersla þeirra á að viðhalda stöðugleika og stuðla að samvinnu á svæðinu.

Rétt er að hafa í huga að þegar rætt er um öryggismál og viðbrögð við slysum eða umhverfisvá í norðurhöfum, verður vart hjá því komist að nýta sér hernaðarleg úrræði. Tilvitnun í fyrrverandi yfirmann kanadíska heraflans, Walt Natynczyk, setur hlutina í rétt samhengi:

„Ef einhver væri nógu heimskur til að ráðast á okkur á norðurskautssvæðinu væri mitt fyrsta verk og skylda að senda björgunarsveit á staðinn.“

Aukin hernaðarumsvif þurfa því ekki endilega að þýða aukna hernaðarlega spennu. Aðstæður í Íshafinu eru hreinlega svo erfiðar að ekkert ríki heldur úti sjálfstæðum björgunarsveitum, nógu öflugum til að bregðast við þeim ógnum sem þar eru, án hernaðarlegra úrræða.

Staða Rússa
Hér verður ekki gert lítið úr alvarleika framferðis Rússa í Úkraínu og almennt ögrandi utanríkisstefnu þeirra. Kannski er erfitt að gera tæmandi grein fyrir þessu máli í fáum orðum en mikilvægt er þó að leggja ekki aukin umsvif á norðurslóðum að jöfnu við td. atburði á Krímskaga. Skal það útskýrt nánar hér á eftir.

Rússar hafa í raun langa sögu tengsla og kröfugerða gagnvart norðurskautssvæðinu sem rekja má aftur til upphafs nítjándu aldar. Það sem styrkir þessa stöðu þeirra er sú staðreynd að einn fimmti alls landsvæðis Rússlands er innan norðurskautssvæðisins og þar eru heimkynni tveggja milljóna manna. Sex stórfljót í Rússlandi renna í Íshafið á móti einu til tveggja fljóta í öðrum ríkjum og hátt í helmingur svæðisins í heild tilheyrir Rússlandi.

Yrði norðursiglingaleiðin, norður fyrir Rússland til Asíu, reglulegur valkostur þýddi það róttæka breytingu á landfræðipólitísku umhverfi. Þar gætum við horft upp á kínversk herskip sigla um til verndar kaupskipum sínum sem gæti orðið krefjandi staða gagnvart Rússum og NATO út frá sjónarmiðum öryggismála.

Þó Rússar hafi lagt í talsverðar fjárfestingar í höfnum og annarri nauðsynlegri þjónustu, meðfram 17.500 km langri strandlengjunni, er ljóst að enn er ekki útséð um hvernig leiðin beri sig fjárhagslega. Flutningar milli Asíu og Evrópu, sem byggja jafn mikið á áreiðanlegum tímasetningum og tryggu þjónustuneti, eru ekki endilega fýsilegir í Norður-íshafinu. Þeir bjartsýnustu telja þó að leiðin geti tekið við aukinni umferð, sér í lagi ef til vandræða horfir á núverandi leið um Súez-skurð.

Aðilar að málinu hafa ekki enn sem komið er véfengt stjórn Rússa yfir norðursiglingaleiðinni. Kínverskir fræðimenn hafa þó sagt að Kína gæti skoðað þá möguleika að láta þar reyna á fullveldi Rússa – og þá einnig Kanadamanna yfir norðvestur-leiðinni. Það getur haft mikla þýðingu því ef siglingaleið liggur innan svæðis sem telja má til efnahagslögsögu ríkis, getur það í raun krafist gjalds af þeim sem sigla þar um.

Af þessu má ætla að mikilvægt sé fyrir Rússa að sýna fram á hernaðarlega getu til þess að stjórna svæðinu. Að sögn Pútins er þó ekki einungis ætlunin að endurreisa fyrrnefnda herstöð með tilheyrandi viðbúnaði, heldur verði þar einnig aðsetur sérfræðinga og vísindamanna til að veita þjónustu á norðursiglingaleiðinni.

Ekki verður lagt mat á hvort þessi orð endurspegli stefnu Rússa þegar á hólminn er komið en það er ekki sjálfgefið að barátta um olíu og aðrar auðlindir verði tilefni til átaka af þeirra hálfu. Líklegra er að átök muni fremur spretta af herstjórnarlegum rótum hvað varðar opnun norðursiglingaleiðarinnar, sem gerir Rússland berskjaldað gagnvart árásum sem áður voru óhugsandi.

Þó ber að hafa í huga að Rússar eiga einnig mikilla hagsmuna að gæta gagnvart nýtingu orkuauðlinda á norðurslóðum. Það getur haft afgerandi áhrif á viljann til að hafa í heiðri umhverfissjónarmið ef að þeim þrengir í orku- og efnahagsmálum. Þar gæti legið raunveruleg hætta sem vert er að gefa gaum.

Nú þegar öll spjót virðast beinast að Rússum, sem flokka mætti undir fallandi heimsveldi, er mikilvægt að vera vel á verði því ríki í þannig stöðu geta sýnt af sér hegðun hins afkróaða dýrs. Það er hins vegar lítil ástæða til að óttast bein átök á svæðinu sem um ræðir og óhætt er að fullyrða að það eru í raun engar deilur á borðinu um landsvæði eða réttindi sem útkljá þarf með hernaði.

Sögulegar breytingar á flutningsleiðum hafa í gegnum tíðina verið tengdar tilfærslu á efnahagslegu og pólitísku valdi í heiminum. Aukin umsvif Rússa nú eru fyrst og fremst til að tryggja yfirráð, hafa viðveru, á svæði sem tilheyrir þeim sannarlega og er að verða aðgengilegt, ma. með auknum alþjóðlegum siglingum.

Ljóst er að íslenskum hagsmunum stendur engin bein ógn af Rússum vegna aukinna umsvifa þeirra á norðurslóðum. Mestu skiptir að þau ríki sem þarna hafa aðkomu gæti þess að tryggja öryggi með hliðsjón af vernd hinnar viðkvæmu náttúru og varðar ma. auðlindir Íslendinga.

 

Ásakanir settar fram í hita leiksins

$
0
0

Fréttatilkynning frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur:

Sameinuð í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi

Framboð mitt til formanns í Samfylkingunni á landsfundi nú um helgina var svar við kröfum fólks um breyttar og skýrari áherslur Samfylkingarinnar. Kosningabaráttan var snörp. Sitjandi formaður hafði betur og ég er sátt við þá niðurstöðu, styð Árna Pál og tel það styrkja flokkinn að undiralda fái að komast upp á yfirborðið og umbreytast í kraft til að skerpa áherslur jafnaðarstefnunnar og endurmeta stefnumál. Öllum má vera ljóst að áhrifa gætti þegar daginn eftir, þegar nýtt fólk var valið til ábyrgðarstarfa innan flokksins, margt af því ungt hugsjónafólk með skýrar áherslur og með samþykktum landsfundar á róttækum ályktunum um lífskjör, umhverfisvernd, mannréttindi og frjálslyndi.

Landsfundur Samfylkingarinnar varð allt í senn, snarpur, kröftugur og róttækur. Sú heift sem birst hefur vegna framboðs míns er í algjörri andstöðu við þann kraft sem kom fram á landsfundi. Ég kýs að túlka það sem svo að ásakanir áhrifafólks í Samfylkingunni vegna lýðræðislegs framboðs míns hafi verið settar fram í hita leiksins.

Við Árni Páll erum einhuga um að nýta kraftinn frá landsfundi til að herða sókn Samfylkingarinnar. Samfylkingin hefur á að skipa frábæru fólki á öllum aldri, af öllu landinu, sem ég hlakka til að starfa áfram með að réttlátara samfélagi. Við höfum verk að vinna.

 

Viltu halda andlitinu?

$
0
0

Við rákumst á þessi myndbönd á Youtube en þau kenna æfingar til að halda andlitinu í bókstaflegri merkingu.  Við ákváðum að deila æfingu með lesendum en lofum engu um sýnilegur árangur náist af iðkun hennar.

Hvernig koma á í veg fyrir leiðindahrukkur við nefið og munnvikin

Varðveitir fortíðina í ljósmyndum

$
0
0

Ljósmyndarinn Darryl W. Moran hefur vakið mikla athygli fyrir ljósmyndir sínar sem hann birtir bæði á Facebooksíðu sinni, „Subject Matters Photography“ og á Flickr. Darryl fæst við allskyns ljósmyndun og hefur meðal annars fastan starfa við að ljósmynda fyrir Pensilvaníuháskóla.

En það eru aðallega myndir hans af yfirgefnum byggingum víðsvegar um Bandaríkin sem hafa hreyft við fólki en þær eru afskaplega hrífandi á einhvern óhuggulegan hátt.

"Ég hata myndir af sjálfum mér. Fyrirgefðu að ég sendi ekki 'close-up'."

Darryl sendi okkur mynd af sér að okkar beiðni. Myndinni fylgdi orðsending: „Ég hata myndir af sjálfum mér. Fyrirgefðu að ég sendi ekki ‘close-up’.“

Við höfðum uppi á Darryl í gegnum Facebook og spurðum hann hvort við mættum deila verkum hans með íslenskum lesendum. Hann var meira en til í það og við biðum ekki boðanna og baunuðum á hann spurningum, en hann var staddur á heimili sínu í Pottstown, rétt fyrir utan Fíladelfíu.

Myndirnar þínar af yfirgefnum byggingum hafa birst víða á netinu og greinilega hafa þær mikil áhrif á fólk. Hvað er það, heldurðu, sem gerir það að verkum að yfirgefnar byggingar og hús hafa svona mikið aðdráttarafl?

Frá yfirgefnum geðsjúkrahúsi í New York fylki. Smellið á mynd til að sjá fleiri myndir.

Frá yfirgefnu geðsjúkrahúsi í New York fylki. Smellið á mynd til að sjá fleiri myndir og lesa sögu þess.

Augnablik, það er ekki auðvelt fyrir mig að svara þessu…

Taktu allan þann tíma sem þú þarft.

Sagan segir að hér hafi búið norn. Nú er húsið að mestu hulið gróðri. Náttúran endurheimtir plássið sitt.

Sagan segir að hér hafi búið norn. Nú er húsið að mestu hulið gróðri. Náttúran endurheimtir plássið sitt. Smellið á mynd til að fræðast frekar.

Að uppgötva fortíðina á hverjum stað og hvernig náttúran með tímanum hefur slegið hendi sinni á hana aftur. Það fylgir mörgum þessara staða og bygginga mikil saga, góð og slæm, og eftir ára og áratuga vanrækslu er hún hægt og rólega að glatast að fullu. Þegar ég tek ljósmyndir á stöðum sem þessum þá hætti ég ekki að undrast það hversu miklum verðmætum er kastað á glæ. Ég reyni að fanga síðustu augnablik fortíðarinnar, minningarnar, arkitektúrinn og eyðilegginguna á þann veg að það veki áhuga og fái fólk til að hugsa, hvernig gerðist þetta og af hverju?

Yifrgefið fangelsi. Smellið á mynd til að skoða fleiri myndir þaðan.

Yifrgefið fangelsi. Smellið á mynd til að skoða fleiri myndir þaðan.

Vonastu til að ljósmyndir þínar af yfirgefnum spítulum, fangelsum, geðveikrahælum og verslunum, svo fátt eitt sé nefnt, verði til þess að borgaryfirvöld á hverjum stað sjái sóma sinn í að hirða um þessar byggingar og önnur verðmæti þó ekki væri nema náttúrunnar vegna?

Yfirgefið 'resort'  í Pocono fjöllunum. Fleiri myndir þaðan má finna ef smellt er á mynd.

Yfirgefinn dvalarstaður í Poconofjöllunum. Fleiri myndir þaðan má finna ef smellt er á mynd.

Það var ekki upphaflegi tilgangurinn en það hefur þó orðið til þess á stöku stað.

Geturðu nefnt mér dæmi?

Mynd frá Monsour Medical Center.

Mynd frá Monsour Medical Center.

Eftir að grein með myndum af spítalanum Monsour Medical Center birtist hafa yfirvöld komið í veg fyrir slysahættu og tryggt að byggingin væri læst. Þá hefur verið ákveðið af borgaryfirvöldum að jafna spítalann við jörðu. (Á spítalanum fann Darryl lífsýni fjölda einstaklinga, sjúkraskýrslur og upplifði það að vera ekki einn í löngu yfirgefnu líkhúsi spítalans.)

Úr líkhúsi Monsour Medical Center.

Úr líkhúsi Monsour Medical Center.

Yfirgefið spítalarúm.

Yfirgefið spítalarúm.

Myndirnar þínar hafa birst víða, eflaust með leyfi og í leyfisleysi. Hvað finnst þér um það að fólk taki myndirnar þínar traustataki og birti þær hingað og þangað?

Ekkert stórmál – Ef fólk nýtur myndanna þá er það bara frábært!

10460607_717171841674305_7759809165865685269_o

Yfirgefið öldrunarheimili.

Hafðu samband ef þú kemur einhvern tímann til Íslands.

Ég hefði mjög gaman af því að koma til Íslands. Ég ferðast á nýja staði á hverju ári. Hver veit nema að ég þiggi að hafa samband ef ég fer til Íslands.

Yfirgefin súlustaður.

Yfirgefin súlustaður.

Skór skildir eftir á yfirgefnum súlustað.

Skór skildir eftir á yfirgefnum súlustað.

Langar þig ekkert til að gefa út bók með þessum ljósmyndum þínum?

Ég hef oft verið beðinn um það en ég hef bara engan tíma til þess.

Takk kærlega fyrir leyfa okkur að deila myndunum þínum og að gefa þér tíma til að spjalla við okkur.

Takk sömuleiðis

 

Mynd efst í grein úr myndasafni Darryl Random Abandoned Places and Things Left Behind

 

Monica Lewinsky talar á TED- Skömmin er dýrkeypt

$
0
0

Monica Lewinsky talar um sjálfa sig sem konuna sem þagði í heilan áratug. Í opinskáum fyrirlestri sem hún flutti hjá TED tjáir hún sig á opinskáan hátt um þau áhrif sem opinber umræða um hana hafði á líf hennar.

„Ég var úthrópuð um allan heim og missti æruna nánast á einu augnabliki“, segir Monica en með fyrirlestri sínum vill hún opna umræðuna um það hversu alvarleg áhrif fjölmiðlar og opinber umræða getur haft fyrir einstaklinga og þann niðurlægingarkúltúr sem viðgengst á internetinu. Gefum Monicu orðið:

Tíminn og ljósið

$
0
0

Tíminn og ljósið

Í vetrarins kyrrð þegar vatnið er slétt
og vitund mín speglast í draumanna heimi,
um hjartað fer tilfinning himnesk og létt
og hugmyndir eru sem fuglar á sveimi.

Og tíminn er spurning sem treystir á svar
er taktfastar gárur um vatnsflötinn berast
því steini í kyrrðinni kastað er þar
í krafti þess alls sem á eftir að gerast.

Ég skynja að aldrei fer lífið með leynd
er ljósið og tíminn fá sálir að tengja;
það verður að heimsmynd í örsmárri eind,
og ómar sem hljómkviða titrandi strengja.

 

 

Ljósmynd af Flickr. eftir Mariusz Kluzniak

Tortillur, kraftmikill kjúklingur, salsa, guacamole, hummus, hægelduð paprika og …

$
0
0

Ég tel mig vera ótrúlega heppna að fá að tilheyra bókaklúbb. Fyrir um það bil þremur árum fékk ég boð á facebook um að ganga í bókaklúbb. Auðvitað stökk ég á það og skráði mig með því sama. Klúbburinn samanstendur eingöngu af konum. Lára bókavinkona sendi út boð til kvenna sem hún þekkti og vissi að læsu sér til yndis. Takk, Lára, fyrir að bjóða mér. Einu sinni í mánuði hittumst við, oftast á kaffihúsi, fáum okkur að borða og jafnvel vínglas með og ræðum vítt og breitt um bók mánaðarins. Klúbburinn okkar hlaut nafnið Bókaklúbburinn Óskar. Einhverjum kann að þykja það undarlegt nafn á kvennabókaklúbbi. En það er ekki svo í ljósi þess að í tvö ár kölluðum við klúbbinn okkar „bókaklúbbur óskar eftir nafni“. Þannig að þegar loks var ákveðið að kjósa nafn á klúbbinn í leynilegri kosningu vann nafnið Bókaklúbburinn Óskar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Eitt af því sem mér finnst svo frábært við að vera í bókaklúbb er að þá les ég líka bækur sem ég hefði annars ekki lesið og kynnist upplifun annarra á bókum.

Febrúar-bókin okkar var Kryddlegin hjörtu eftir mexíkósku skáldkonuna Lauru Esquivel. Hver kafli í bókinni hefst á dásamlega töfrandi mataruppskrift. Til að gera langa sögu stutta fjallar bókin meðal annars um Titu sem er yngst þriggja systra. Frá fæðingu var hún að mestu alin upp í eldhúsinu af eldabusku heimilisins. Tita kynnist töfrum eldamennskunnar í gegnum hana. Þar sem Tita var yngst átti hún ekki að fá að giftast, hennar hlutverk í lífinu var að hugsa um móður sína. Það var ekki endilega það sem Tita hefði viljað. Ástin logaði í brjósti hennar en hún hafði ekkert val. Í eldhúsinu fann Tita farveg fyrir ástríður sínar í gegnum eldamennskuna. Tilfinningar hennar og þrár fylltu matinn töfrum sem allir sem borðuðu hann fundu mjög vel fyrir.

Þar sem ég átti að stjórna febrúarfundinum og elska að gefa fólki að borða fannst mér tilvalið að bjóða bókavinkonum mínum í mat til mín. Áður en ég hafði lesið bókina hafði ég hugsað mér að elda eina af uppskriftum bókarinnar. Ég verð þó að viðurkenna það hér og nú að eftir að hafa pælt í gegnum uppskriftirnar fannst mér þær bæði tímafrekar og heldur flóknar. Nú voru góð ráð dýr. Ég var búin að tilkynna það með margra mánaða fyrirvara að maturinn ætti að vera unninn upp úr bókinni. Hvað átti ég að gera? Eftir smá bollaleggingar ákvað ég að bjarga mér fyrir horn og bjóða upp á mat af bókarkápunni.

Komduadborda

Þrátt fyrir að það væri bandbrjálað veður og  allt meira og minna ófært, þriðjudaginn sem bókaklúbburinn átti að vera, reyndi ég að vera mjög yfirveguð yfir matseldinni. Ekki vildi ég að óveðurstilfinnignar mínar þennan dag hlypu í matinn og eitthvað ægilegt kæmi fyrir bókavinkonur mínar.

Uppskriftir

Mexíkóskt matarboð fyrir átta konur sem voru undir töfrum Kryddleginna hjarta.

Mér finnst ótrúlega gaman að bjóða upp á mat sem gestirnir sjá um að raða saman sjálfir.

Það sem ég útbjó ekki sjálf og setti aðeins í skálar.

  • Grófar tortillur.
  • Gerið ráð fyrir tveimur á mann.
  • Hitið í ofni á 210°C í 2 mínútur.
  • 2 dósir sýrður rjómi.
  • 1 poki rifinn ostur.
  • Eða 200 g
  • 1 poki blandað lífrænt veislusalat.
  • 1 – 2 stk. rauðlaukar.
  • Niðurskornir.
  • 1 stk. súkkini.
  • Rifið niður í strimla.
  • 2 dl ósoðin hýðishrísgrjón.
  • Sjóðið samkæmt leiðbeiningum.
  • Suður-amerískt rauðvín.
  • Kjúklingur
    • Úrbeinuð kjúklingalæri

Heitur kjúklingur

Innihald:

  • 1 bakki úrbeinuð kjúklingalæri.
  • 2 msk. cumin.
  • 1 msk. paprikuduft.
  • 1 msk. maldon salt.
  • 3 stk. hvítlauksrif.

kjuklingur /komduadborda

Aðferð:

Fyrir tilviljun komst ég að því að það er svo miklu betra að láta kjúklinginn liggja í kryddinu í a.m.k. sólarhring.

  • Skerið kjúklingalærin í litla bita.
  • Setjið í skál.
  • Ristið cuminfræin á pönnu.
  • Tekur 2 mínútur.
  • Setjið í mortel og myljið.
  • Blandið paprikunni og saltinu saman við.
  • Skerið hvítlaukinn niður í litla bita.
  • Blandið kryddinu saman við kjúklinginn.
  • Lokið skálinni og geymið inni í ísskáp í sólarhring.
  • Steikið á pönnu.
    • Tekur í mesta lagi 4 mínútur.

Hummus

hummus/komduadborda

Innihald:

  • 1 krukka tilbúnar kjúklingabaunir.
    • Ég notaði lífrænar.
  • ½ dl ólífuolía.
    • Má vera meira.
  • 2 stk. hvítlauksrif.
  • 3 msk. tahini.
  • 1 msk. tamari-sósa.
  • 1 tsk. salt.
  • ½ tsk. cumin-duft.
  • cayenne-pipar.
    • Mjög lítið eða eins og sagt er framan á hnífsoddi.
  • ½ sítróna.
  • ½ appelsína.

Hummus/komduadborda

Aðferð:

  • Hellið kjúklingabaununum í sigti og skolið vel.
  • Allt neman ólífuolían sett í matvinnsluvél og blandað vel saman.
  • Hellið olíunni saman við á meðan vélin er að vinna.
  • Ef þið viljið hafa hummusinn þynnri bætið þá meiri olíu saman við.

Tómat-salsa

Tomatsalsa/komduadborda

Innihald:

  • 6 stk. meðalstórir tómatar.
  • 1 stk. rauðlaukur.
  • 2 stk. hvítlauksrif.
  • ½ lime.
  • 2 matskeiðar ólífuolía.
  • Salt og svartur pipar.

Tomatsalsa/komduadborda

Aðferð:

  • Skerið tómatana, rauðlaukinn og chillið fínt niður.
  • Setjið saman í skál.
  • Kreistið lime yfir.
  • Kryddið með salti og svörtum pipar.
  • Bætið olíunni við.
  • Lokið skálinni og látið standa í um 30 mínútur við stofuhita.

Hægelduð paprika

Stillið ofninn á 120°C á meðan verið er að undirbúa.

DSC_0045

Innihald:

  • 4 stk. rauðar paprikur.
  • 1 msk. maldon salt.
  • ½ dl ólífuolía.

Haegeldud paprika/komduadborda

Aðferð:

  • Þvoið paprikuna.
  • Skerið í tvennt og hreinsið fræin innan úr.
  • Skerið niður.
  • Ég skar hana fyrst í tvennt, síðan hvorn helming í sex parta.
  • Raðið í eldfast fat.
  • Hellið olíunni yfir.
  • Saltið.
  • Bakið við 120°C í 2 klukkustundir.
    • Það þarf ekkert að hugsa um hana á meðan.

Guacamole

Ég nota matvinnsluvél en ef hún er ekki til staðar er hægt að stappa með gaffli.

Til að ekki komi leiðinlegur litur (svarbrúnn) á guacamole útbý ég það rétt áður en ég ber það á borð.

Innihald:

  • 6 stk. lítil vel þroskuð avakado.
  • ½ sítróna.

Aðferð:

  • Kljúfið avakado.
  • Takið steininn úr.
  • Takið úr hýðinu.
    • Ég nota skeið.
  • Vinnið saman þar til allt hefur blandast vel.
  • Þegar allt er að verða tilbúið kreistið þá úr sítrónunni og blandið saman við.

Njótið töfranna.

.

Skemmtilegt konukvöld og spennandi nýjungar

$
0
0

10

Það var margt um manninn og skemmtileg stemning á Konukvöldi K100 og Smáralindar. Gestir konukvöldsins virtu fyrir sér nýjungar hjá snyrtivörumerkinu L’Oreal.

Dóra Björg kennir hvernig móta má augabrúnir á einfaldan máta.

Dóra Björg kennir hvernig móta má augabrúnir á einfaldan máta.

Hjá L’Oreal kennir ýmissa grasa en á markaðinn var að koma breið lína af augabrúnavörum til að fullkomna lag augabrúnanna og sannkölluð vorstemning fylgdi nýrri línu af björtum og sumarlegum varalitum.

1

Stina Ottós sýnir nýju varalitina úr vor- og sumarlínu L’Oréal.

Nýjasti maskarinn frá merkinu var sérstaklega kynntur fyrir gestum en Miss Manga Punky maskarinn er ólíkur öllum sem hafa komið á undan frá merkinu.

Valgerður Þóris sýndi nýja Miss punky maskarann frá L’oréal sem rammar augun fallega inn með því að margfalda umgjörð augnanna og þétta og þykkja augnhárin.

Valgerður Þóris sýndi nýja Miss punky maskarann frá L’oréal sem rammar augun fallega inn með því að margfalda umgjörð augnanna og þétta og þykkja augnhárin.

 

Naglasérfræðingar á vegum L’Oreal, Freyja María og Margrét Marta, sýndu áhugasömum gestum hvernig væri gott að bera sig að í notkun lakkanna og hvernig væri hægt að poppa upp á þau á einfaldan hátt.

naglafræðingar Loreal sýndu fallegt naglaskraut og leiðir til að brjóta upp útlit naglanna með yfirlakki.

Naglafræðingar L’oreal sýndu fallegt naglaskraut og leiðir til að brjóta upp útlit naglanna með yfirlakki.

Infallible naglalökkin frá L’Oreal hafa á stuttum tíma orðið gríðarlega vinsæl og þá helst fyrir fallega áferð og einstaka endingu. Freyja María heldur úti skemmtilegu naglabloggi sem nefnist Manicure Lover  þar sem hún deilir skemmtilegum hugmyndum að naglaskreytingum með lesendum.

Naglafræðingarnir Margrét Marta og Freyja María, en Freyja María Heldur úti naglablogginu manicurelover.wordpress.com

Naglafræðingarnir Margrét Marta og Freyja María, en Freyja María Heldur úti naglablogginu manicurelover.wordpress.com

Freyja sýndi gestum flottar hugmyndir að því hvernig er hægt að poppa upp á einföld naglalökk með flottum skreytingum eða yfirlökkum. Það má með sanni segja að þær sem settust í stólinn hjá þeim stöllum hafi yfirgefið Smáralindina með glæsilegar neglur!

6

Reyðarfjörður á topp 10 lista CNN

$
0
0

Samkvæmt CNN er Reyðarfjörður einn af tíu stöðum í heiminum sem vert er að heimsækja áður en þeir breytast til frambúðar.

Á listanum eru meðal annars smáeyjan Gozo skammt frá Möltu, Antarktíka, og löndin Kúba og Níkaragva.

Í frétt CNN er haft eftir íslenskum fararstjórum að það hafi orðið 100 prósenta aukning í heimsóknum ferðamanna til Reyðarfjarðar á undanförnum árum.

Mynd af vef The Icelandic Tourist Board.

Mynd af vef The Icelandic Tourist Board sem fylgir grein CNN. Myndin er reyndar frá Seyðisfirði.

Fréttin skýrir frá því að sjónvarpsþættir á borð við „The Killing“ og „Fortitude“ sem einmitt eru teknir á Reyðarfirði, hafi þar mikil áhrif en skandinavísku krimmaþættirnir hafa notið mikilla vinsælda bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Íslenski leikarinn Björn Hlynur Haraldsson fer með stórt hlutverk í þáttunum Fortitude sem eiga að gerast í Noregi en eru teknir eins og áður sagði á Reyðarfirði en innitökur fara fram í London. Fyrir liggur að fleiri þættir Fortitude fara í framleiðslu í janúar 2016 og eftir sem áður munu tökur fara fram á Reyðarfirði sem mun vafalítið auka hróður Fjarðabyggðar.

Ástarbréf frá Pírötum til fylgismanna sinna

$
0
0

Fréttatilkynning:

Píratar þakka fyrir

Píratar eru djúpt snortnir og þakklátir yfir þeim stuðningi sem mælst hefur við flokkinn í skoðanakönnunum undanfarna daga. Það er magnað og óvænt að mælast allt í einu vinsælasti flokkurinn á Íslandi og áhuginn hefur skilað sér á áþreifanlegan hátt. Skráningar í flokkinn hafa rokið upp með þvílíkum krafti að við höfum vart undan að skrá nýja félaga.

Píratar hafa frá upphafi stefnt að því að vera lifandi og virkt lýðræðisafl sem er opið öllum sem styðja við grunnstefnu okkar og gildi og vilja koma upp á dekk með okkur. Höfuðstöðvar Pírata við Fiskislóð 31, Tortuga, iða af lífi og fjöri og framundan eru alls konar fundir og uppákomur sem nýliðar eru boðnir sérstaklega velkomnir á.

Virkt lýðræði byggist á virku fólki sem ræðir hlutina opinskátt og vinnur saman á málefnalegan og lýðræðislegan máta. Við viljum breyta stjórnmálunum á varanlegan hátt og stokka upp kerfin. Við viljum að það komi skýrt fram að við erum þriðja kyns flokkur sem staðsetur sig hvorki til hægri né vinstri.

Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir fortalsmenn hennar eru og hjá okkur er pláss fyrir fólk með alls kyns skoðanir en fyrst og fremst er það fólkið sem venur sig á að hugsa út fyrir kassana sem finnur sig best hjá okkur. Píratisminn er og verður píratismi og það er ánægjulegt að sjá hversu margir virðast fatta hann og kunna að meta hann.

Einn liður í þankagangi okkar og starfsemi er að vera óhrædd við að setja fram okkar hugmyndir og vangaveltur og taka okkur síðan tíma í að ræða þær og melta, bæði okkar á meðal og við almenning og önnur stjórnmálaöfl. Hugmyndin um einhvers konar stjórnarsáttmála eða leikreglur sem gengist er við fyrir kosningar var sett fram í þeim anda. Grunnstefna Pírata felst í að vernda borgararéttindi og efla lýðræðið og Píratar munu halda áfram að starfa með öllum almennt að því marki á sínum forsendum.

Við erum ennþá rótföst og jarðtengd og gerum okkur grein fyrir að við erum glæný og með smá vaxtaverki en viljum beita athyglinni sem við fáum til að knýja fram breytingar. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að flokkarnir vinni að því að endurheimta traust kjósenda með því að fara eftir skýrum og gagnsæjum leikreglum á heiðarlegan og opinn hátt. Við lítum ekki á flokka sem heilagar stofnanir, heldur verkfæri til að koma vilja grasrótar okkar á framfæri. Ykkar er að forgangsraða með okkur hverju þið mynduð vilja sjá Alþingi einbeita sér að.

Ófrávíkjanleg grundvallarstefna okkar verður alltaf lýðræðisumbætur og þar byrjum við heima hjá okkur. Við höfum búið til verkfæri fyrir alla sem heitir Öryggisventilinn (www.ventill.is), þar sem almenningur getur veitt þingheimi aðhald með því að gefa álit sitt á þingmálum. Þetta verkfæri, sem önnur, nýtist ekki almennilega nema fólk noti það. Við búum til verkfæri handa öllum óháð því hvaða stórnmálaskoðanir fólk hefur eða hvaða flokka það styður.

Við lítum á bylgjuna sem er með okkur sem lýðræðisbylgju fyrst og fremst – brennandi áhuga stórs hluta Íslendinga á heiðarlegum stjórnmálum sem almenningur getur verið með í á sínum forsendum. Hvernig sem fylgi okkar þróast og hver söguleg örlög okkar verða er ljóst að þessi flóðbylgja er komin til að vera og verður ekki stöðvuð.

Við hefðum ekkert á móti því að nýir valkostir við fjórflokkinn kæmu fram á næstunni sem og skýr almennur vilji til alvöru breytinga. Píratar lofa að breytast ekki í hrokafulla valdastofnun, heldur halda áfram að gera tilraunir, gera mistök, læra af reynslunni og fikra sig áfram en umfram allt leyfa öllum að vera með sem elska Píratakóðann. Vertu með!

Ást og friður,

Píratar

Grunnstefna: http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna/
Píratakóði: http://www.piratar.is/stefnumal/piratakodinn/
Öryggisventill: https://www.ventill.is/
Betra Ísland: https://www.betraisland.is/
Hvað á að fara á dagskrá Alþingis: https://piratar.betraisland.is/

Lögbrot að skammta öldruðum vasapeninga

$
0
0

Við fengum leyfi hjá ritstjórn Lifðununa.is til að birta þessa grein í Kvennablaðinu enda er umræðan brýn.

 

Helga Jónsdóttir, viðskiptalögfræðingur frá Bifröst segir að henni hafi þótt fróðlegt að kanna hvort það stæðist lög að einstaklingur greiddi það sama fyrir að kúra í herbergi í kjallara með öðrum á hjúkrunarheimilinu og sá sem væri í lúxusherbergi á þriðju hæð með svölum og sér snyrtiaðstöðu.

Þarf úrskurð dómara

Lokaritgerð Helgu sem hún skrifaði 2012 fjallar um fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara á hjúkrunarheimilum og hún spyr hvort aldraðir séu sviptir fjárræði og eða sjálfræði við flutning á hjúkrunarheimili? Helga segir í ritgerðinni að meginreglur lögræðislaganna kveði á um að enginn verði sviptur lögræði nema með úrskurði dómara og að enginn verði sviptur lögræði sínu, hvorki sjálfræði né fjárræði, nema þörf sé sviptingar. Miklar kröfur eru gerðar til málsmeðferðar í í slíkum málum og hafi Hæstiréttur hiklaust ómerkt úrskurði um lögræðissviptingu hafi formkröfum laganna ekki verið fylgt til hins ýtrasta.

Allir eiga að borga

Fyrir árið 1989 voru hjúkrunarheimili flokkuð sem legudeildir fyrir aldraða og lutu sömu lögmálum og sjúkrahús. Allt fram til þess tíma greiddu aldraðir ekki fyrir legu sína á hjúkrunardeildum né heldur á sjúkrahúsum.Nú greiða hins vegar allir þeir sem eru orðnir 67 ára og eldri fyrir dvalarkostnað sinn á sjúkrastofnunum hafi einstaklingur tekjur umfram 74.696 krónur. Það fer svo eftir tekjunum hversu mikið fólk þarf að greiða uns ákveðnu hámarki er náð sem í dag er 354.902 krónur. Þeir sem hafa engar tekjur fá vasapeninga sem í dag eru 53.354 krónur. Helga segir:

„Það að svipta einstakling öllum tekjum sínum umfram tiltekna upphæð án undangengins dóms brýtur, að mati höfundar, í öllum meginatriðum gegn fjórðu grein lögræðislaganna um að ekki megi svipta mann fjárræði nema með úrskurði dómara.“

Mannréttindi ekki virt

Helga segir jafnframt að öldruðum séu ekki tryggð sjálfsögð mannréttindi. „Þegar þeir flytjast á hjúkrunarheimili vegna sjúkleika flytja þeir ekki heimilisfesti sitt heldur eru skráðir á stofnanir þar sem öldrunarstofnanir eru ekki heimili í lagalegum skilningi.

Þar er þeim ekki gert kleift að hafa neitt um það að segja hvaða þjónustu þeir þiggja eða er veitt, hafa lítið sem ekkert um sitt nánasta umhverfi að segja og verða að láta sér nægja það sem að þeim er rétt.

Víst er að stefna hefur verið sett á að útrýma fjölbýlum á öldrunarheimilum en enn skammtar ríkisvaldið hinum aldraða sömu fjárhæð hvort sem hann býr í sambýli eða einbýli. Ljóst er að hinn aldraði þegar hann er orðinn öðrum háður hefur ekki um marga kosti að velja og verður að láta sér lynda það sem í boði er.“

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live