Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þetta eru alvöru konur

$
0
0

Nú í haust var opnuð sýning sem nefnist Samleikur í Ásmundarsafni þar sem Anna Hallin vann verk í tengslum við höggmyndir Ásmundar Sveinssonar. Anna sýnir skúlptúra og teikningar og hefur valið höggmyndir eftir Ásmund í þennan samleik sinn. Einnig hefur hún litið til verka hins sænska lærimeistara Ásmundar, Carl Milles. Sýningin var opnuð hinn 21. september og stendur til 5. janúar 2014.

Anna Hallin er fædd í Svíþjóð árið 1965 og hefur búið á Íslandi frá árinu 2001. Hún er með meistaragráðu í leirkerasmíð frá Háskólanum í Gautaborg og í fagurlistum frá Mills College, Oakland, í Kaliforníu.

Á dögunum hlustaði ég á Önnu Hallin flytja erindi í Ásmundarsafni um sýninguna. Eftir erindið tylltum við okkur niður í sýningarsal safnsins umluktar þeirri miklu birtu og fegurð sem einkennir safnið.

   Hvernig var að fá að velja verk eftir Ásmund Sveinsson og stilla þeim upp með þínum eigin verkum?

Mér fannst það mjög gaman. Ég hrífst af verkum Ásmundar frá tímabilinu 1930–1940 en eldri verk geta einnig verið spennandi. Þetta hornverk eftir Ásmund Sveinsson hérna fyrir framan okkur er til dæmis ótrúlega áhugavert. Maður veit ekkert hvar höggmyndin átti upphaflega að vera. Konan horfir til hliðar og ögn niður á við en í þessu verki skynja ég mikla blíðu og kyrrð. Ég hef gert mína útgáfu af konu í horni og stilli henni hér upp skáhallt á móti en læt konuna þá horfa beint fram til áhorfenda.

RÝMI TIL AÐ SKAPA

Konur fá vissulega rými til að skapa en það virðist þó yfirleitt vera mun minna. Fókusinn er líka á einhvern hátt brenglaður. Athyglin beinist gjarnan fyrst og fremst að einkalífi þeirra en ekki að verkunum sjálfum. Eins og til dæmis kvikmynd sem ég sá á dögunum um Camille Claudel. Camille var lokuð inni á geðveikrahæli í 30 ár af bróður sínum. Hún var auðvitað frábær listamaður en samt beinist öll athyglin að hinni geðveiku manneskju sem var ástkona Rodin. Og hugsaðu þér, við erum að tala um alveg splunkunýja kvikmynd. Tíminn og rýmið sem konum hefur verið úthlutað í listasögunni er í raun verðugt rannsóknarefni. Eiginkona myndhöggvarans Milles, Olga, var með sína eigin vinnustofu en hún var miklu minni en sú sem hann sjálfur hafði til afnota. Hið sama sjáum við þegar vinnustofur fyrri eiginkonu Ásmundar Sveinssonar, Gunnfríðar Jónsdóttur höggmyndara, og hans eru bornar saman. Ásmundur hafði rými í stóra salnum á Freyjugötunni þar sem Listasafn ASÍ er til húsa en Gunnfríður hafði þá aðstöðu í hinni svokölluðu gryfju.

   Talandi um listapör. Þú ert nú einmitt sjálf í þeirri aðstöðu og hefur gert verk um þig og myndlistarkonuna Olgu Bergmann sem við sjáum hér á sýningunni.  

Já, ég nota ljósmyndir af augum okkar á sama hátt og ég vinn með skannaðar myndir af munni og augum Ásmundar og Milles. Þá þarf maður að brenna einu sinni enn í vinnsluferlinu til að ná að festa myndina.

   Þú vinnur mjög mikið með pör en maður sér ekki endilega hvers kyns þessar verur eru. Þarna má líka sjá plástur á bakinu á einni þeirra?

Fólk upplifir oft sárindi í ástarsamböndum. Margt getur komið upp á. Þess vegna er plásturinn þarna. Fyrir mér er kynið á þessum pörum aukaatriði. Mig langaði til að leggja áherslu á að þetta séu ekki endilega karl og kona en þó auðvitað kynverur. Ég nota pastelliti mikið en þessir mildu litir virðast einfaldlega fylgja mér. Ásmundur Sveinsson notar líka stundum rauðbleika liti, til dæmis þennan girnilega ,,terracotta” lit.

  Þú hefur gert stakar höggmyndir af systrum sem kallast á við eitt af þekktari verkum Ásmundar, en hjá þér eru þær orðnar þrjár?

Þetta er einfaldlega mín útgáfa og hún er af mér og systrum mínum. Mér finnst bæði höggmynd Ásmundar og ljósmyndin sem hann tók fyrir framan foss af eiginkonu sinni og mágkonu heillandi en það er í raun ótrúlega afslöppuð stemning yfir myndinni af systrunum kviknöktum þarna úti í náttúrunni. Ég geri mín verk úr postulíni en gegnum lítinn glugga hér inni sem vísar í norður má sjá bronsstyttu Ásmundar af systrunum tveimur úti í höggmyndagarðinum.

   Hvað geturðu þá sagt mér um uppblásnu fígúrurnar sem þú sýnir í kúlunni?

Ég valdi einnig þá leið að vinna með andstæður á þessari sýningu en með stóru uppblásnu skúlptúrunum mínum er ég þó fyrst og fremst að vinna með léttleika og loft á móti þunga höggmyndarinnar.

ALVÖRU KONUR

   Kynfæri sjást mjög greinilega í teikningum þínum á þessari sýningu og stemningin í þeim verkum er erótísk, jafnvel kynferðisleg og fígúrurnar súrrealískar á að líta. Upplifirðu mikla erótík í verkum Ásmundar Sveinssonar?

Verk Ásmundar eru mjög kraftmikil. Þessir stóru rassar og miklu læri. Konan er sterk en orkan er þó á sinn hátt ,,maskúlín”. Ég hrífst af kvenmyndum hans en þær eru að mínu áliti miklu erótískari en hjá Milles. Hjá Milles eru þær támjóar og brjóstin fullkomin og ávöl og minna einna helst á kókostoppa! Ég valdi til dæmis hinn fræga Vatnsbera eftir Ásmund á þessa sýningu en ég hrífst af ávölum hálsi konunnar; sveigjunni á honum og hef nýtt þá hreyfingu í þetta samspil. Ótrúlegt að þessi höggmynd hafi farið fyrir brjóstið á Íslendingum á sínum tíma. Þetta er auðvitað nútímalegt og táknrænt verk og gjörólíkt Hafmeyju hans sem er eitt af elstu verkum Ásmundar í klassískum stíl. Ég hef reynt að skilja líf hans og einbeitt mér að því að nálgast veröld hans. Ég ber auðvitað mikla virðingu fyrir honum, ekki síst þar sem hann var fyrstur Íslendinga til að opna höggmyndagarð, og upplifi Ásmund Sveinsson sem mjög nútímalegan listamann, arkitekt og frumkvöðul. Konurnar í verkum hans eru ekki eingöngu kynverur, þær eru bæði sjálfstæðar og jarðbundnar. Þetta eru alvöru konur!

AFTURHVARF TIL UPPRUNANS

   Undirbúningurinn virðist hafa verið ákveðið rannsóknarferli hjá þér. Hafðirðu frá upphafi hugsað þér að láta samspil þitt hér á sýningunni kallast bæði á við verk Ásmundar og Milles? 

Auðvitað er hér um ákveðið afturhvarf til upprunans að ræða. Ég hef fest rætur á Íslandi en á meðan ég vann að sýningunni fór ég til Svíþjóðar gagngert til að endurnýja kynni mín við Milles en þegar ég var í listnámi þá var ég alls ekkert hrifin af honum! Ég þekkti Milles auðvitað vel frá uppvaxtarárum mínum í Svíþjóð en ungir listamenn eru oft mjög ferkantaðir í hugsun og ég kunni því einfaldlega ekki að meta hann. Ég játa að það er fyrst og fremst Ásmundi Sveinssyni að þakka að ég hef náð að upplifa Milles, þennan mikla lærimeistara hans, á alveg splunkunýjan hátt og fyrir það er ég auðvitað mjög þakklát.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283