Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Minjagripir og Davy Crockett

$
0
0

Hann var einstakur hann Davy Crockett, vinur indíánanna, veiddi íkorna og fugla, naut lífsins gæða, vinamargur, réttlátur og dagfarsprúður maður. Veiðimaður í húð og hár. Hann átti indíána að besta vini.

davy3

Í uppvextinum las ég bækurnar um hann upp til agna, hverja á fætur annarri. Hann var mín hetja!

Sumir voru hrifnir af Roy Rogers, Have gun will travel, Gunsmoke, jafnvel af Skugga í Tímanum, Zorro var sumra, John Wayne, Kirk Douglas en Davy Crockett var minn maður. Sjö ára las ég meira um David en um Litlu gulu hænuna.

davy crockett book

Ég gekk í Ísaksskóla, átti Röggu Gunn sem kærustu og lífið brosti við mér. Fór í sveit í Öræfunum á vorin og kom heim að aflokinni sláturtíð á haustin. Sláturtíðin gat dregist en ég hafði ekki áhyggjur af því þótt það frestaðist fram á skólatíma. Þá var slagtað í sláturshúsinu við flugvöllinn á Fagurhólsmýri. Gæta varð að veðrinu, því ef ekki var flugveður gátum við ekki slátrað. Það þurfti að koma kjötinu „suður“, til Reykjavikur samdægurs. Oft gat þessi aðgerð dregist fram eftir hausti en ég kærði mig kollóttan um skólasetningar og þvílíkt brambolt.

Ég vissi að Gunnar, bóndinn minn, þurfti að greiða laun starfsmanna sláturhússins á meðan hans fé var slagtað og því gat ég sparað honum aurinn með því að vera til staðar. Svo hoppaði ég einfaldlega upp í DC 3-vélina (Snorri var stundum flugmaðurinn) þegar allir skrokkarnir voru komnir út í vél og flaug suður. Þá voru ekki farþegalistar til í orðabókum, hvað þá í notkun.

Við flugum lágt eftir ströndinni, fældum seli og gerðum sjávarbýlum hverft við. Ég stóð oftast milli flugmannanna á leiðinni, hélt mér bara í sætin þeirra og fékk stundum að sitja í flugstjórasætinu.

Á þessum árum var fjölskylda mín í sambandi við ættingja í Vesturheimi og 1955 var Bryndís systir send til Kanada að hitta þessa ættingja okkar. Stundum breyta svona ferðir líka lífi systkina ferðalangsins, og þessi ferð hennar breytti mínu heldur betur. Hún var hjá þeim í Manitoba og Winnipeg að mig minnir, skiptir ekki máli, frændur og frænkur höfðu komið í heimsókn fyrr á árinu og setið yfir okkur í fjórar vikur. Það var því mátulegt á þau að við sendum Bryndísi vestur til að þau fengju að finna fyrir því líka.

crockett hat

Og Bryndís hugsaði um litla bróður og keypti Davy Crockett-húfu á snáðann. Til var mynd af mér fimm ára gömlum niðri við Tjörnina í Reykjavík með húfuna góðu. Húfuna tók ég svo með mér í sveitina, ásamt dálki úr Geysi og veiðistöng frá Alberti í Veiðimanninum.

Nú skildu þau á bænum mínum fá að komast að því sanna, að ég var ígildi Davys. Ég gekk með húfuna upp á hvern dag allt sumarið! Talandi um húfur, sumarið eftir fann ég sjórekið skipstjórakaskeiti á fjöru úti við Ingólfshöfða og gekk með það flesta daga og mætti á öll böll sem voru haldin í Fundarhúsinu.

En aftur að Davy og veiði. Í þessa daga var ekkert til sem gat geymt mat. Engir ísskápar, engir frystiskápar og engar „vakúm“-pakkningar. Allt var reykt, saltað, kæst, sýrt eða þurrkað. Aldrei nýmeti á boðstólum nema ef róið var á lýsu undan Hnappavöllum, það gerðist að ég held tvisvar á þeim átta árum sem ég var í sveitinni. Selkjöt auðvitað ef farið var á fjöru, og svo af nýslátruðu þegar leið á sumarið.

Ég tók því að mér að afla matar, máfsunga, skúmsunga og silunga. Bar þetta heim og lagði á borðið hjá Sigrúnu, fóstru minni. Það var því stoltur lítill snáði, hinn íslenski Davy Crockett, sem gat litið yfir kvöldverðarborðið.

Gallinn við að vera Davy kom stundum í ljós, þá helst heima þegar við stákarnir í Skjólunum vorum í kábój-leik. Virkið okkar voru svalirnar yfir bílskúrnum á Faxaskjóli 10 og indíánar sóttu að virkinu.

Ég átti aldrei klannettu-byssu eins og hinir kábójarnir, heldur var ég með billjardkjuða að heiman. Pabbi var með billjardborð í kjallaranum og frá einum enda á borðinu var svo stutt út í vegg að hann hafði keypt rúmlega metralangan kjuða. Hann var heppileg stærð fyrir riffil Davys og ég tók hann með mér út í leiki.

Þetta var framhlaðinn riffill í mínum huga og því tók ég ekki annað í mál en skjóta bara einu skoti í einu og hamast svo við að hlaða hann með handahreyfingu og koma kúlu fyrir í hlaupinu Þetta tók allt sinn tíma og ég var stráfelldur æ ofan í æ í hverjum leik. En ég var Davy og því varð ekki breytt.

davy crockett 4

Svona geta minjagripir gripið þann sem þá fær. Ég á tvo stráka og komst að því nýverið að Magnús Orri heldur með Arsenal en Ellert Kristófer með West Ham. Ég spurði þá út í þetta og skýringin var að ég hafði einhvern tímann komið heim frá útlöndum með drykkjarmál merktum þessum félögum, síðan hafa þeir haldið tryggð við þau!

Screen Shot 2014-08-10 at 09.58.57 e.h.

Var að velta því fyrir mér, hvaða áhrif hafa íslenskir minjagripir á erlenda gesti okkar nú til dags?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283