Ef þið eigið leið austur á land er upplagt að koma við á Stöðvarfirði og skoða eitthvert skemmtilegasta og óvenjulegasta safn landsins, Steinasafn Petru.
Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir (24.12.1922 – 10.01.2012) safnaði með aðstoð fjölskyldu og vina stærsta einkasafni steina í heimi að því er talið er. Safnið stendur í stórum garði umhverfis hús Petru og garðurinn sjálfur er hið mesta augnayndi.
Öllu er vel við haldið og gróðurinn og steinasafnið mynda mikinn ævintýraheim. Fjölskylda Petru aðstoðaði hana við hinar ýmsu framkvæmdir sem sneru að garðinum og steinatínslunni og reka nú safnið af miklum myndarbrag. Umhverfið er allt til fyrirmyndar og var þar margt gesta þegar Kvennablaðið bar að garði.
Það er með ólíkindum að kona sem vann fulla vinnu í frystihúsinu á Stöðvarfirði, varð ekkja á miðjum aldri og kom mörgum börnum á legg skuli hafa haft tíma til að safna öðru eins magni af steinum, því steinarnir skipta þúsundum.
Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir hafði áhuga á fallegum steinum alla ævi en byrjaði að safna þeim fyrir alvöru árið 1946. Langflestir steinanna eru frá nágrenni Stöðvarfjarðar og annars staðar úr fjórðungnum. Hún leitaði nær ekkert að steinum í öðrum landshlutum.
Við hittum á safninu nöfnu hennar og barnabarn sem sagði okkur að amma hennar hefði sennilega verið sett á rítalín á okkar dögum sökum ofvirkni, en að sögn Petru yngri var amma hennar alltaf að og oft var erfitt að gera henni til hæfis þegar einhver hugdettan greip hana. Þá vildi hún að hlutirnir gerðust hratt og örugglega.
Við spurðum Petru yngri hvort steinasöfnunin hefði farið fram á einhverjum sérstökum tímum og hún svaraði því til að ekkert sérstakt hefði ráðið því, amma hennar hefði gjarnan farið eftir vinnu eða bara þegar hún átti lausa stund. Oft voru krakkarnir hennar og síðar barnabörn með í för og til að hafa stjórn á krakkahópnum sagði Petra þeim sögur af álfum og huldufólki og bað börnin vinsamlegast að fara ekki um með ærslum og köllum og ganga varlega um jörðina því vel gæti verið að þau væru að trufla og fótumtroða húsakynni álfanna.
Við spurðum Petru yngri ennfremur hvort amma henni hefði trúað á álfa og huldufólk og fullyrti hún að svo hefði verið. Hún hefði verið sannfærð um að kraftur og orka leyndust í steinunum enda gekk hún allajafna með steinvölur í vösunum.
Petra safnaði ekki bara steinum því í húsi hennar má sjá feiknarlegt pennasafn en einnig safnaði hún vasaklútum, eldspítustokkum og barmnælum svo eitthvað sé nefnt. Petra var safnari af Guðs náð.
Vigdís Finnbogadóttir sæmdi Petru riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og einnig hlaut hún hvatningarverðlaun Þróunarfélags Austurlands.
Margar sjaldgæfar plöntur og blóm vaxa í garðinum hennar Petru. Hér er glæsilegur bláþyrnir.
Petra átti marga eftirlætissteina en þessi átti sérstakan stað í hjarta Petru.
Til gamans má geta þess að kvenmannsnafnið Petra þýðir steinn.