Þegar ég var 15 ára þá var ég með skelfilega brotna sjálfsmynd eftir að hafa lent í hundsun samnemenda minna í grunnskóla í níu ár. Oft hefur mér dottið í hug að þau hafi jafnvel ekki hundsað mig, ég hafi kannski ekki gefið þeim færi á að kynnast mér vegna hræðslu um að verða hafnað.
Brotna sjálfsmyndin kom einnig í kjölfar þess að hafa ekki hugmynd um hvort að blóðfaðir minn hefði áhuga á að þekkja mig, ég þekkti hann ekkert og vissi varla hvernig hann leit út á þessum tíma. Ég var uppfull af höfnunartilfinningu og sjálfsmyndin var algjörlega brotin.
Eins og ég skrifaði í öðrum pistli þá var ég mikið inn og út af BUGL á þessum tíma og í dag get ég engan veginn skilið hvers vegna starfsfólkið þar greip ekki í taumana þegar ég taldi mig 15 ára gamla vera orðna fullorðna og fór að vera í sambandi við mann sem var örfáum árum yngri heldur en mamma mín.
Ég kynntist þessum manni inni á síðu fyrir ungt fólk sem hafði sameiginlegt það áhugamál að fylgja goth-stílnum. Hann sendi mér vinabeiðni sem ég samþykkti, guð má vita af hverju, og fór strax að spjalla við mig. Hann talaði við mig eins og ég væri fullorðin en ekki eins og barn og mér fannst það kúl. Það var eins og hann læsi tilfinningar mínar eins og opna bók og sýndi mér mikla samúð sem var kærkomin á þessum tíma.
Eftir ekki margra daga spjall vildi hann fá að hitta mig. Ég bjó úti á landi og hann í höfuðborginni þannig ég sagði honum að ég kæmist ekkert og hann svaraði til baka að því miður gæti hann ekki komið þar sem bíllinn hans væri í viðgerð en benti mér á að ég gæti húkkað mér far. Í örvæntingarfullri tilraun til að öðlast nánd stökk ég út á þjóðveg og húkkaði mér far. Þetta reyndist örlagarík ferð.
Þegar ég lenti í Reykjavík tók hann á móti mér og byrjaði á því að biðjast innilegrar afsökunar á því að geta ekki boðið mér í flottu íbúðina sem hann sagðist eiga, hann þyrfti að bjóða mér í herbergi sem hann væri að leigja tímabundið þar sem íbúðin hans hefði orðið fyrir vatnsskemmdum og verið væri að redda því.
Ó, hvað ég var vitlaus að trúa þessu.
Ég var í nokkra tíma hjá honum en þessa tíma notaði hann til að segja mér sorgarsögu af æskuástinni sinni sem hafði lent í bílslysi og dáið. Hann sagðist aldrei hafa jafnað sig á þessu en ég gæfi honum von þar sem ég væri svo hrikalega lík þeirri stelpu. Ég uppveðraðist öll við að geta loksins hjálpað einhverjum en ekki öfugt. Allt í einu var ég komin í hlutverk hetjunnar, ég var ekki í hlutverki fórnarlambsins sem ég þekkti því miður allt of vel.
Þessi hittingur þróaðist út í sjúklegt samband. Nánast samstundis gerði ég mér grein fyrir því að þetta væri alls ekki rétt og líðanin fór hríðversnandi og það var þá sem kerfið brást mér á þann hátt sem ég get aldrei fyrirgefið.
Í stað þess að grípa í taumana brást barnavernd við með því að bruna með mig inn á kvennadeild Landspítalans og láta setja upp getnaðarvarnarstafinn í höndina á mér.
BUGL-ið virtist ekkert sjá að þessu, a.m.k. man ég ekkert eftir að þau hafi reynt að tala mig ofan af þessu alvarlega nema kannski einstaka ráðgjafi.
Þegar þarna er komið er ég orðin fullkomlega meðvituð um að maðurinn átti hvorki bíl né íbúð. Það eina sem hann átti var fullt af lygum og einstakur hæfileiki til að spila sig inn á samviskuna hjá ungum og brotnum stelpum.
Ég man kvöldið sem ég reyndi að enda þessa vitleysu sjálf. Ég hringdi í manninn og sagði honum að þessu væri lokið, hann brást við með því að fara að háskæla og hóta að drepa sig. Ég réði ekki við það að hlusta á fullorðinn mann gráta svona sárt og eins ung og ég var og reynslulaus í lífinu þá trúði ég því virkilega að hann myndi drepa sig og ekki gat ég haft það á samviskunni.
Símtalið endaði á þann hátt að ég var enn þá föst í sambandi og búin að lofa honum því að reyna ekki að slíta sambandinu aftur.
Ég man ekki hvort það var vika eða hálfur mánuður sem leið þangað til ég settist niður og ræddi þetta alvarlega við góða vinkonu mína. Þar sem ég á skelfilega erfitt með að brjóta loforð sem ég hef gefið þá þurftum við að finna aðra leið til að enda þetta. Eina sem okkur hugkvæmdist var að vinkona mín myndi hringja í hann og ljúga að ég væri að halda framhjá honum með gaur sem var að vinna með mér og vinkonunni.
Á meðan hún hringdi brynjaði ég mig upp fyrir símtalið sem ég vissi að myndi koma um leið og hinu væri slitið og það stóð heima.
Hann hringdi og spurði mig hvort að þetta væri satt og ég játaði, þótt það væri það auðvitað ekki. Hann brast í grát og hótaði að drepa sig. Þarna þurfti ég að loka á allar tilfinningar og segja hreint út að það væri ekkert sem ég gæti gert í því, ég væri bara barn og hann fullorðinn og þetta gæti ekki gengið svona áfram.
Hann skellti á mig en sendi mér sms stuttu síðar og sagðist vera búinn að gleypa heilan haug af lyfjum.
Ég sendi ekkert til baka en hringdi þess í stað í sjúkrabíl og sendi heim til hans.
Hann reyndi að hringja í einhver skipti eftir þetta en ég svaraði símtölunum ekki. Fimm árum síðar reyndi hann að hafa samband aftur en ég hleypti honum ekki að mér. Síðustu fjögur ár hefur hann reynt að hafa samband í tvö skipti en ég verið hörð eins og grjót. Ég mun aldrei hleypa þessum manni nálægt mér aftur.
Oft velti ég því fyrir mér hvort þetta hefði ekki getað farið á annan hátt ef einhver í barnavernd eða á BUGL-inu hefðu reynt að kæra þennan mann. Þeirri spurningu fæ ég örugglega aldrei nein svör við, það sem ég get gert er að halda áfram að vinna í sjálfri mér og vona að þessi maður hafi ekki haldið áfram að veiða barnungar stelpur í lyga og samviskunetið sitt.