Brauðbretti eða ostabakkar eru af ýmsum stærðum og gerðum, en sem timburmaður segi ég að þau eigi alltaf að vera úr timbri, algert náttúrulögmál! Margir hafa miður góða reynslu af því og kaupa sér plastbretti, sem að mínu mati hafa engan karakter eða sál. Við ættum að halda plastbrettabrennu sem fyrst.
Þessi miður góða reynsla af trébrettum er léleg ending þeirra, þ.e. brettin verða stundun föl og litlaus, þau vilja skemmast ef við látum renna vatn á og skrúbbum þau upp úr sápu, sem er nauðsynlegt af og til. Þau ofþorna og springa og þar fram eftir götunum.
Við getum lengt líftíma á trébrettum með því að olíubera þau, áður en við setjum þau í notkun. Í flestum tilfellum eru brettin, sem við kaupum í búð, ómeðhöndluð. Afgreiðslufólkið lætur þig ekki alltaf vita að nauðsynlegt er að bera olíu á brettið fyrir notkun.
Þetta er ekki flókið: þú tekur einfaldlega matarolíu eða „food safe mineral oil“ (ekki borðplötuolíu, hún storknar og myndar filmu), berð á brettið nokkrar umferðir, eða þangað til viðurinn hættir að drekka í sig olíuna. Látið líða lengri tíma eftir hvert skipti svona þrisvar sinnum og brettið er tilbúið. Það sem gerist við þetta er að viðaræðarnar, sem eru eins og sogrör, mettast af olíu og hlífa þannig viðnum fyrir óæskilegum vökva eins og vatni. Því eins og flestir vita er vatn og súrefni okkar versti óvinur um leið og það er okkar besti vinur … þetta er svona „Stockholms syndrome“.
Vatnið þenur viðinn út, þornar og skilur viðinn eftir óvarinn, öfugt við olíuna sem þornar mun hægar. Þegar vatnið þornar eru viðarpípurnar í viðnum útþandar og móttækilegri fyrir vökva. Þannig getur hann tekið í sig matarleifar og annað sem festist á brettinu og brettið verður blettótt og úfið. Það sem verra er að næst þegar brettið blotnar þenst það meira og sprungurnar verða óhjákvæmilegar. Þá eignast þú nýja vini, bakteríurnar!
Endurtakið olíumeðferðina eftir þörfum eða þegar olían fer að skolast af brettinu.
Í lokin langar mig að koma með hugmyndir fyrir fólk að osta og brauðbrettum. Ef þú sérð einhvern saga niður trjábol reyndu þá að fá viðkomandi til að saga þunna sneið handa þér, þurrkaðu hana í rólegheitum, pússaðu létt yfir og berðu olíuna á. Þurrkaðu sneiðina í rólegheitum, ekki á ofninum, annars getur hún bognað og sprungið. Þetta er þó alltaf smekksatriði, persónulega finnst mér alltaf flott að hafa viðinn grófan og náttúrulegan.
Sem ostabakka er flott að taka einfaldlega náttúrustein, eins og gólfflísar og líma filt eða gúmmítappa neðan á. Fara í steinsmiðjurnar, sem selja granít og fleiri steintegundir, og sníkja afsag af grjóti. Það er oft verið að henda svoleiðis afsagi og gæti nýst í bretti. Notið gamla þakskífu eða síldartunnulok. Þá er hægt að fara í grjótnámur og fleiga úr klöpp með hamri og meitli. Látið ímyndunaraflið leiða ykkur áfram.
Passið bara að detta ekki í grjótinu og verið með öryggisgleraugu ef þið ætlið að meitla steina.
Bon appetit!