Jón Hjartarsson skrifar:
Ég veit af þessum fjöllum, nöfn þeirra og svipmót eru greipt í sálina. Þau fylgja mér hvert fótmál, heillandi og hræðileg. Ég er einn á ferð, sé ekkert fyrir sudda, en þau standa þarna álengdar.
Sum nöfnin verða ágengari en önnur: Svörtutindar, Bárðarkista, Hreggnasi. Þau lúra eins og skúrkar, hvína og gnauða í skjóli Jökulsins, sem rís að baki þeim kaldur og dulur í sinni himinbornu tign. Hraunið er úfið og í því mörg gjótan. Eyvindarhola er hyldjúp, gleypir mann með húð og hári. Bænir eru örþrifaráð: “Fús ég Jesú fylgi þér… Jesú bróðir besti…“
Hver er hann annars þessi Jesú? Ef hann er bróðir minn, hvað þá um alla hina? Ég nálgast Djúpudali, desembermyrkrið er að detta á. Afturgöngur og útburðir væla og ýla úr hverri gjá. Það eru engin jólalög. Ég hleyp eins og fætur toga til þess að ná bílveginum út í Beruvík. Það er Þorláksmessa. Ég er tólf ára, á eftir hundrað rolluskjátum sem struku í sumarhagana.
Á hverju hausti koma trúboðarnir og halda samkomur í plássinu með predikunum og söng. Það er húsfyllir í samkomuhúsinu. Þetta er eins og uppskeruhátíð eða kannski friðþæging fyrir lömbin í sláturtíðinni. Þeir dvelja vikutíma og gista heima hjá okkur af því mamma er velunnari kristniboðsins. Hún spilar á orgelið og stjórnar kór Ingjaldshólskirkju. Þannig hefur það verið frá því ég man eftir mér. Þetta eru agentar fyrir Kristniboðssambandið. Þeim fylgir kristileg glaðværð. Samkomurnar lita drungalegt skammdegið í illa lýstu plássi. Og svo eru þetta ósköp elskulegir menn.
Skemmtilegastur er Ólafur Ólafsson, hann er alvöru, var trúboði í Kína í 14 ár, þar til landinu var lokað fyrir slíku starfi. Hann segir sögur og sýnir kvikmynd frá Kína. Svo bregður hann fyrir sig kínversku okkur til skemmtunar. Eiginlega finnst manni hann vera meiri Kínverji en Íslendingur, Kínverji sem kann íslensku. Ólafur talar af mikilli innlifun og hlýju um fátækt fólk í Kína. Af þessu leiðir hugrenning sem heldur fyrir mér vöku heilt haust: Var Jesú kannski Kínverji eftir allt saman?
En nú er Kína lokað og kristniboðarnir komnir til Konsó í Eþíópíu, landsins sem sagt er vagga mankyns. Kristniboðarnir sýna myndir af næpuhvítum Íslendingum í hópi kolsvartra Konsóbúa, sem syngja líka “Jesú bróðir besti…” Þar hlýtur Jesú að vera blökkumaður, segir sig sjálft
Ég næ rollunum loks suður í Beruvík. Þær hafa öslað milda súldina alla þessa 13 kílómetra til þess að bíta kafloðið gras í varpa eyðibýlanna. Þær eiga þetta til ef góðviðrisdagar koma á veturna eins og núna, og ef maður á annað borð hleypir þeim út af túninu heima meðan gefið er á garðann.
Ég stugga þeim til baka, tregum í fyrstu, en svo taka þær strikið. Fyrir þeim fer Stóra-Svört. Hún er engin venjuleg rolla. Hún er guðslamb, gefin Kristniboðssambandinu þegar hún var gemlingur. Peningar fyrir allar hennar afurðir renna til eigandans. Einu sinni varð hún þrílembd. Þá var kátt í Konsó. Hún er gædd þeim hæfileikum sem hæst ber í fari sauðkinda. Hún er forystuær. Hún ratar leiðina, hratt og hiklaust, í náttmyrkrinu. Ég og öll hjörðin trítlum á eftir, örugg og óttalaus. “Fús ég Jesú fylgi þér … “
Gleðileg jól
Ljósmynd af Flickr.