Ég hef aldrei skilið af hverju valsviðið er svona þröngt í sambandi við trúmál.
Fyrst er ætlast til að maður svari því hvort maður sé trúaður eða trúlaus.
Ef maður er trúlaus þá nær það víst ekki lengra, en ef maður er trúaður á maður að velja sér ein trúarbrögð. Þetta er eins og að segja fólki að það verði að velja sér eitt uppáhaldsbragð fyrir lífstíð, vanillu, jarðarberja eða súkkulaði og halda sig svo við það bragð en láta hin vera. Ekki þar fyrir, mörgum finnst gott að útiloka sitt eigið valfrelsi, það frelsi sem aðgreinir manneskjurnar frá öðrum lífverum, og velja sér einn stjórnmálaflokk og eitt knattspyrnufélag og einn tónlistarmann til að trúa á og fylgja ævilangt.
Sjálfur er ég stundum trúaður, til dæmis var ég dáldið trúaður í gærmorgun þangað til um tvöleytið um eftirmiðdaginn, en í dag er ég eiginlega alveg trúlaus og finn enga trúarþörf í mínum beinum.
Og þegar trúin kemur yfir mig er ég stundum lúterskur (þó alltaf án hörkunnar og kuldans), stundum er ég pínukaþólskur – hvernig ætti annað að vera eftir að hafa komið í nokkrar af fegurstu kirkjum Evrópu.
Oft, sérstaklega á kvöldin, er ég búddisti og svo inn á milli koma Múhameðstrúaraugnablik þegar ég er undirlagður af draumum um óendanlega fegurð og naga mig í handarbökin fyrir að kunna hvorki persnesku né arabísku til að komast nær skáldskap eftir Rumi.
Eiginlega öll trúarbrögð sem ég hef kynnst eða kynnt mér með einhverjum hætti hafa höfðað til mín að einhverju leyti, samt hef ég aldrei hitt tvo menn sem meina nákvæmlega það sama með orðinu “guð” og ég veit sjálfur ekki nákvæmlega hvaða merkingu það hefur í huga mér.
Það eina sem ég veit er að ég veit ekki neitt og í rauninni minna en ekki neitt, því að ég er ekki einu sinni jafnupplýstur og Sókrates heitinn, og bý í veröld sem er staðsett einhvers staðar í óendanleikanum og enginn getur sagt fyrir um það með nokkurri vissu hvort jólin sem nálgast verði rauð eða hvít…
Ég held að sé það mælt í tíma sé ég mestan part trúleysingi, alla vega hvíli ég sjaldan öruggur og án efasemda í trúnni nema bara stund og stund og þá er alveg undir hælinn lagt í hvaða trú ég hvíli, nema hvað það er venjulegast styst í lúterskuna, og hverfa augnablik trúarinnar út í buskann, rétt eins og hamingjan sem ég upplifi venjulega sem óvænt en dásamleg augnablik og mundi alls ekki treysta mér til að vera á valdi takmarkalausrar hamingju marga klukkutíma á dag.
Þannig er það nú.