Um helgina voru nokkuð merkileg tímamót fyrir íslenska neytendur. Þá tók við ný reglugerð um merkingar matvæla og um leið hurfu á braut fjórar reglugerðir sem áður gegndu sama hlutverki. Reglurnar eru góðar. Þær taka við af ágætis reglu-umhverfi sem við höfum notast við og það sem er nýtt er einnig ágætis.
Framleiðendur matvæla eru ábyrgir fyrir því að vörur þeirra séu rétt merktar. Þeir ættu því að reyna að kappkosta að fara eftir reglunum sem gilda. Þannig er það reyndar oftast og ábendingum frá eftirlitsaðilum er yfirleitt vel tekið. Það er líka hægur leikur að rétta af það sem miður fer og rúmur tími vanalega gefinn til þess að bæta fyrir.
Neytendasamtökin stóðu fyrir könnun á því hvernig staðan er varðandi merkingu matvæla í byrjun desember. Eftir úrvinnslu og flokkun kemur í ljós að staðan er góð. Merkingar matvæla á Íslandi er almennt fullnægjandi og margir matvælaframleiðendur hafa þegar tekið upp nýju reglurnar (en þær voru kynntar fyrir margt löngu) og fara eftir þeim í einu og öllu.
Þessu ber að fagna.
Á nýja árinu ætla Neytendasamtökin að beina sjónum sínum að merkingu matvæla og koma þeim í „deigluna“ ef svo má að orði komast. Við þessa reglubreytingu skapast mjög gott tækifæri á að byrja með hreint borð. Ekki bara hjá framleiðendum (sem standa sig almennt vel eins og áður sagði) heldur líka neytendum en mig grunar að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir þeim upplýsingum sem eiga að vera á matvælum.
Ef ég fer yfir reglurnar á hundavaði þá þarf oftast að hafa innihaldsupplýsingar og næringargildisupplýsingar með matvöru. Það eru undantekningar, en reglan er sú að íslenskir framleiðendur nýta sér ekki undantekningarnar og birta bæði innihaldsupplýsingar og næringargildisupplýsingar. Sem er auðvitað til fyrirmyndar.
Innihaldsupplýsingar má setja upp á ótal máta. Það er þó gerð krafa um að þær séu ekki ruglandi. Hérna eru dæmi um mismunandi framsetningu á innihaldsupplýsingum.
Hér eru innihalsdupplýsingarnar góðar en mér finnst textinn svolítið í belg og biðu. Þetta er hinsvegar skýrt og greinargott.
Hérna eru innihaldsupplýsingarnar betri að mínu mati. Afmarkað og upplýsingar skýrar. Ég veit reyndar ekkert hvernig mjólkursykur er klofin með hvata. En það er önnur saga.
Hérna er allt í sómanum og lítið mál að átta sig á innihaldi þessarar vöru
Næringargildisupplýsingum má sleppa, en það er skylt að hafa þær með ef fullyrt er eitthvað um hollustu eða þvíumlíkt Uppsetning á þeim er tiltölulega frjáls en þær mega ekki vera ruglandi. Hérna er dæmi um mismunandi framsetningu á næringargildisupplýsingum.
Fínar upplýsingar þarna.
Allt eins og það á að vera fyrir utan framsetningu sem er svolítð ó-afmörkuð og jafnvel ruglingsleg
Mjög fínt hér alltsaman.
Ég er búin að þræla mér í gegnum þessa reglugerð og er satt best að segja svolítið „stúmm“ eftir lesturinn. En eins ótrúlega og það kann að hljóma er þetta svolítið spennandi. Þessi hugleiðing er að sönnu engin ný sannindi og margir kunna ágætlega að lesa út úr matvæla-upplýsingum. Það eru eigi að síður örugglega einhverjir sem kunna það ekki og vonandi verður þessi grein til þess að kveikja áhuga þeirra á þessu mikilvæga máli. Ég ætla allavega að sökkva mér í þetta málefnin og deila með lesendum Kvennablaðsins.
Á næstu dögum og vikum mum ég fjalla ýtarlega um matvælaupplýsingar og kynna þær á þessum vettvangi. Í næsta bloggi mun ég fjalla um ofnæmisvaka og hvernig á að merkja þá séu þeir hluti af innihaldi matvöru. “Það er sko stöff sem kengur er í“ eins og kellingin sagði.
Neytendasamtökin hvetja auðvitað alla að gefa svona upplýsingum gaum því þær skipta máli. Upplýstur neytandi er sterkasta aflið til að byggja upp almennilegt viðskiptaumhverfi.
-Hvorki meira né minna.