Þegar ráðist var á Tvíburaturnana fylltist maður lamandi hryllingi, lá yfir fréttum nánast allan sólarhringinn og reyndi að skilja hvað hafði gerst sem orsakaði dauða 3.000 einstaklinga. Reiðin greip Kanann og heimsbyggðina alla. Falskur fréttaflutningur um gleði í múslimalöndum fyllti fjölmiðla og mig minnir að Ísraelar hafi nýtt sér tækifærið til að storma aðeins inn á Gaza með skriðdreka og landnema.
Nokkrum vikum síðar horfði maður meðvirkur á beina útsendingu frá innrás herja hinna réttlátu inn í Afganistan, Talibönum var komið frá og þeir innviðir sem ekki voru komnir til steinaldar eftir stjórn talibana, voru samviskulega sprengdir upp í nafni réttlætis og hefndar fyrir þá sem dóu þann 11. september.
Þó var það ekki það eina sem 11. september var notaður til að réttlæta. Stríð gegn hryðjuverkum með öllum sínum fjáraustri var réttlætt með 11. september, eftirleikurinn í Afganistan sem hefur kostað um 20.000 almenna borgara lífið var réttlættur með 11 september og Íraksstríðið sem hefur kostað 150 þúsund almenna borgara lífið var einnig reynt að réttlæta með 11. september.
Réttlætingin náði einnig til þess að sett voru lög sem þrengdu að réttindum fólks undir yfirskininu að vernda þyrfti hið bandaríska föðurland. Lögin gerðu stjórnvöldum kleift að herða eftirlit með almennum borgurum sem sagðir voru hættulegri en bankamaður að búa til hungursneyð í Afríku í hagnaðarskyni auk þess sem njósnastofnanir fengu greiðan aðgang að persónulegum tölvusamskiptum fólks sem hýst voru hjá bandarískum fyrirtækjum.
Fangabúðir yfirfylltust á Kúbu þar sem fangar nutu ekki réttinda réttarríkisins lengur heldur voru látnir dúsa þar árum saman og dúsa þar enn í nafni 11. september. Einnig var flogið með fanga í leynifangelsi þar sem engin mannréttindi eru til staðar, mannrán á saklausu fólki af hálfu CIA fengu að viðgangast og réttlættar voru með 11. september. Pyntingar CIA sem notaðist við aðferðafræði Gestapo og þykja þær svo ógeðfelldar að meirihluti skýrslu um þær þykir ekki birtingarhæfur. Stríðsglæpir og slátranir á saklausu fólki í nafni „bandalags hinna viljugu“ þóttu einnig réttlætanlegir líkt og ákvörðun tveggja ráðamanna á Íslandi sem tóku þá ákvörðun að gera Ísland samábyrgt fyrir stríðsrekstrinum í Írak sem byggður var á lygi.
Þessar réttlætingar hafa einnig haft ýmsar hliðarafleiðingar sem við sjáum ekki fyrir endann á. Árásin 11. september og það sem fylgdi í kjölfarið varð einnig vatn á myllu íslamskra öfgamanna sem bentu á Vesturlönd sem uppsprettu hins illa sem dræpi fjölskyldur þeirra og færi illa með múslima sem hefur m.a. leitt til vinsælda ISIS.
Vestrænir fasistaflokkar og nýnasistahópar skiptu út gyðingum út fyrir múslima og básunuðu stríð gegn íslam til að sækja sér aukið fylgi og vinsældir svo hugmyndafræði þeirra gæti færst af jaðrinum til miðjunnar. Hatursáróðursíður á netinu spruttu upp þar sem sagðar voru „fréttir“ af stríði múslima gegn hinum „saklausa“ vestræna heimi einungis í því skyni að kynda undir hatur og fordóma í garð tiltekins hóps fólks. Þeir sem þekkja söguna fá ónotahroll af því að hugsa um á hvaða vegferð mannkynið er eina ferðina enn.
Með þetta í huga þá hefur manni þótt eins og að hryðjuverkamennirnir þann 11. september hafi hreinlega unnið sigur því afleiðingarnar urðu þær að stjórnlynd og stríðsækin stjórnvöld hófust handa við að grafa undan frelsinu, mannréttindum og friðsæld manna á milli í hinum vestræna heimi sem státar af slíku á tyllidögum.
Upp úr þessum viðbrögðum hafa svo fleiri og fleiri öfgahreyfingar sprottið og náð til sín fylgi eins og Gullna dögunin á Grikklandi, PEGIDA, UKIP, Svíþjóðardemókratar, Sannir Finnar og fleiri sem höfðu verið litlu fasistaflokkarnir á hliðarlínunni.
Fórnarlömbin þann 11. september eru að flestum gleymd nema þeirra nánustu enda hefur óbragðið og daunninn af réttlætingunum í nafni þeirra kæft minninguna um dauða saklauss fólks.
Þetta landslag haturs og öfga leiddi einnig til þess svo að maður að nafni Breivik drap 77 manneskjur í Noregi og skaðaði fleiri, bæði líkamlega sem og andlega. Breivik hafði legið á hatursáróðurssíðum og spjallborðum vestrænna öfgamanna. Í kolli hans mótaðist sú hugmyndafræði að yfir stæði múslimsk innrás í Evrópu, fjölmenning væri ógn við Vesturlönd, taka þyrfti upp einstaklega harða innflytjendastefnu til að vernda hina hreinræktuðu og innfæddu. Breivik vildi koma í veg fyrir að flóttamenn settust að í Evrópu og fleira sem kunnuglegt er orðið frá öfgahægri hreyfingum og er líklegt til að ná hylli illa upplýstra kjósenda.
Viðbrögðin í kjölfarið af hryðjuverkum Breivíks urðu þó allt önnur en hjá Bandaríkjamönnum, Bretum og öðrum stríðsglöðum þjóðum. Norðmenn handsömuðu Breivík, ákváðu sem samfélag að láta ekki etja sér út á þær brautir réttlætingar sem höfðu leitt til frelsisskerðingar og mannréttindabrota. Norðmenn létu málin fara í sinn eðlilega farveg með réttarhöldum og upplýstum fréttaflutningi og heiðarlegri umræðu um það hvernig maður sem tilheyrði „okkur“ fremur hryllilegt hryðjuverk.
Þetta hafði einnig þær litlu en eftirtekarverðu afleiðingar að allavega einn einstaklingur sem hafði flutt „stríðsfréttir“ úr „fjölmenningar- og múslimastríðinu“ á Norðurlöndum á bloggsíðu sem var mikið vitnað til á hatursáróðurssíum, iðraðist og hætti slíkum skrifum vegna þess sem lygilegur hatursáróður hans hafði átt sinn þátt í að skapa.
Þessi ólíku viðbrögð þjóðanna hafa orðið þess valdandi að þegar við heyrum minnst á Útey þá munum við hvað gerðist þar og við munum eftir þeim sem dóu þann dag án þess að skuggi réttlætingar frelsisskerðingar, mannréttindabrota og illverka í kjölfarið hvíli yfir þeim að eilífu.
Sá skuggi réttlætingar illverka er þó enn á kreiki líkt og maður hefur séð í kjölfarið á hryðjuverkunum í París. Viðbrögðin hafa nefnilega verið þannig að maður er ekki viss um hvert hinn vestræni heimur stefnir. Hinn vestræni heimur virðist nefnilega vera frekar klofinn í afstöðu sinni um hvert hann vilji falla af þeim hnífsoddi sem hann stendur á, sums staðar er margþátta tvískinnungur í gangi sem er reyndar efni í aðra grein eða greinar, það eru friðarfundir haldnir meðan herskip eru send í átt til stríðssvæða og árásir eru gerðar á moskur. Í mörgum löndum verður svo vart við að öfgahreyfingar nýta sér tækifærið og blása í herlúðra sigri hrósandi yfir því að þetta hafi gerst.
Fjölmiðlar refsins sem nærist á fæðu hins herskáa ameríska arnar, koma með áróðursfréttir sem þeir stilla upp „við gegn þeim“ sem yfirskyggir ljótleika skýrslunnar um CIA og skuggann sem situr eftir stjórnartíð þeirra stjórnmálaafla sem FOX-stöðin boðar áróður fyrir.
Annars staðar er svo brugðist við með umræðum, tilraunum til útskýringa og vangaveltum um samfélagið og hvernig skal varðveita frelsið og réttindin sem hinn vestræni heimur stærir sig af.
Ísland er svo sem ekki undanskilið þessari klofnu afstöðu í sinni smáu mynd, öfgamenn ýmiss konar njóta skyndilegrar fjölmiðlaathygli þar sem t.d. útvarpsmenn humma sig gagnrýnislaust í gegnum brenglaðar staðhæfingar án sannleiksgildis. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins reynir að koma mannréttindabrotahugmynd sinni um að skoða þurfi múslima sérstaklega í gegnum almenna umræðu en uppsker blessunarlega, harða fordæmingu flokkssystkina sinna sem andstæðingar flokksins taka heilshugar undir.
Hatursfullir öfgamenn fylkja sér úr símatímum Útvarps Sögu og af Mótmælum mosku-síðunni til að læka við PEGIDA Iceland á Feisbúkk sem merkilega nokk svipar mikið til allra haturssíðna sem spruttu upp eftir 11. september.
Við sjáum líka að þingmenn nota tækifærið til að reyna að láta fella úrelt tjáningarfrelsisheftandi lög um guðlast úr gildi, við sjáum fólk ræða tjáningarfrelsi og mannréttindi, við sjáum að innan samfélagsins er fólki umhugsað um að varðveita grunngildi hins opna vestræna samfélags og tryggja að við glötum þeim ekki. Við megum því ekki láta draga okkur út á leið varðaða réttlætingum hinna stjórnlyndu öfgaafla sem vilja svipta okkur öll manréttindum, mannréttindum sem flestir til hægri, vinstri, uppi og niðri geta sameinast um að vilja ei glata.
Það er því á okkar valdi að ákveða hvert við látum okkur falla af hnífsoddinum og það er á okkar valdi að ákveða hvort við viljum sitja uppi enn á ný með skugga réttlætingar illra verka yfir okkur sem einhvers konar „viljug þjóð“.
Við ættum að hafa lært af þeirri skömm sem við sitjum enn í skugganum af og mun seint gleymast.
Íraksstríðið og listi hinna viljugu þjóða.