Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Öryggis- og varnarmál – hernaðarbrölt og vígvæðing?

$
0
0

Þegar minnst er á öryggis- og varnarmál á Íslandi, að hér þurfi tiltekinn varnarviðbúnað heyrast stundum viðbrögð eins og að við ættum ekki að standa í einhverju hernaðarbrölti og vígvæðingu. Jafnvel nefnt að við höfum ekki ráð á því að eyða fjármunum í það þegar hér hangi allt á horriminni, eða að við ættum frekar að vera boðberar friðar í heiminum.

Það fyrra er hugsanlega byggt á þeim misskilningi að ekkert ógni okkur Íslendingum og ef eitthvað kæmi upp á séu alltaf einhverjir vinir sem komi okkur til bjargar. Hið seinna er gott og göfugt viðhorf sem taka má undir að einhverju leyti. Hér verður hins vegar útskýrt hvernig það getur farið saman að vera friðelskandi þjóð en að taka jafnframt virkan þátt í öryggis- og varnarsamvinnu — sem um leið varðveitir hið mikilvæga fullveldi Íslands.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum vissulega tekið ákveðin skref þegar kemur að stefnu í öryggismálum, ma. með áhættumatsskýrslunni frá árinu 2009 og með tillögum nefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem nýlega voru gefnar út.

Umræðan hefur þó sjaldnast verið mjög djúp eða heildstæð. Á meðan hér var bandarískt varnarlið einblíndu menn því einna helst á það sem fullnægjandi vörn gagnvart utan að komandi vá, hve margar orustuþotur væru á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem NATO-aðild var talin þjóna öryggi og vörnum landsins.

Þetta var vissulega í samræmi við þá meginhugsun að hernaðarmáttur skipti mestu um öryggja ríkja. Þessi almenni skilningur hefur þó verðið að breytast á síðustu árum því að öryggismálahugtakið hefur verið víkkað út, bæði í fræðilegri og almennri umræðu.

Þó menn deili eitthvað um hversu langt eigi að ganga í þeirri skilgreiningu er þó almennt farið að fjalla um öryggi í mun víðara samhengi en áður. Má nefna þætti eins og efnahagslegt öryggi, matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi, persónuöryggi og pólitískt öryggi.

Gott dæmi um þetta er hrunið og afleiðingar þess sem sýndi okkur að ógnirnar geta verið fleiri en frá vígbúnum óvini í öðru landi. Þar virtist hrunið koma flestum í opna skjöldu og er ljóst af frásögnum þeirra sem í eldlínunni stóðu að þar skall hurð nærri hælum, að ekki kæmi til algert hrun með tilheyrandi lokunum banka og erlendra viðskipta við Ísland.

Má nefna í þessu samhengi nýlega rannsókn sem gerð var á hinu meinta fæðuöryggi Íslands. Þar sýndu sláandi niðurstöður í grófum dráttum að kæmi til alvarlegra atburða sem stöðvuðu flutninga til og frá landinu, eru í raun ekki nema u.þ.b. tveggja vikna birgðir af mikilvægum vörum og matvælum hjá birgjum og verslunum í landinu.

Er ekki bara nóg að eiga góða vini og bandamenn?
Hvaða úrræði eru þá til þegar kemur að því að tryggja öryggi landsins í sífellt flóknari heimi? Það er í gildi varnarsamningur við Bandaríkin og Ísland er vissulega í NATO en þótt þar hafi þróunin eitthvað verið í þá átt að víkka út hið hefðbundna varnarhlutverk þá beinist það þó einna helst að því að tryggja aðildarríkjun öryggi gagnvart utanaðkomandi ógn frá öðrum ríkjum og eða hryðjuverkahópum. Reynslan sýnir okkur einmitt að varnarsamningurinn og NATO-aðild hjálpar okkur skammt í tilfellum eins og efnahagshruninu.

Mikilvægt atriði sem nánast enga umfjöllun hefur fengið þegar ræddir eru kostir og gallar ESB-aðildar er samstöðuákvæðið, grein 222 í Lissabon-sáttmálanum, sem kveður á um að öll ríki skuli skilyrðislaust aðstoða annað sambandsríki komi til áfalla eða hættuástands. Þó ekki hafi reynt á ákvæðið og það eigi eftir að sanna sig væri fráleitt annað en taka það með í reikninginn þegar kostir ESB-aðildar eru metnir í samhengi við stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Hvað þá með samstarf á vettvangi Norðurlandanna, má ekki gera ráð fyrir að frændur vorir þar myndu hlaupa undir bagga ef mikið lægi við? Hugsanlega má gera ráð fyrir að Ísland eigi hauka í horni hjá hinum Norðurlöndunum. Það er til eitthvað sem kalla má norrænt samstarf á sviði borgaralegra öryggismála, í anda hins útvíkkaða öryggismálahugtaks, sem ma. byggir á Stoltenberg-skýrslunni.

Einhvern veginn virðist þetta hljóma voðalega vel; ‘norrænt samstarf’- nánast krúttlegt og allir eru góðir við alla, sérstaklega litla Ísland. Það fer enginn að svíkja neinn undir svoleiðis formerkjum eða hvað? Þarna þurfa Íslendingar einmitt að vera á verði og mikilvægt að allir hlutir séu vel skilgreindir, á formlegum nótum. Reynslan sýnir nefnilega að meintur vinskapur í ríkjasamskiptum er engin trygging. Það kom berlega í ljós í kjölfar fjármálahrunsins eða makríldeilunni við Norðmenn.

Bæði reynslan og kenningar í alþjóðasamskiptum sýna okkur því að besta vörnin eru víðtæk bandalög, gagnkvæmir samningar og eða sáttmálar. Tvíhliða samvinna getur átt við en sé hún byggð á grunni einhvers konar hagsmuna eða vináttu getur hún verið varasöm og tvísýn. Það getur jafnframt reynst skeinuhætt byggi slíkt samkomulag á efnahagslegum hagsmunum eða þáttum sem væri ógnað ef við fylgdum ekki viðkomandi að málum.

Um þetta höfum við raunveruleg dæmi eins og hið meinta ‘sérstaka samband’ við Bandaríkin á liðinni öld sýnir; Lengi vel voru Íslendingar mjög háðir efnahagslegri aðstoð þeirra, fyrst í gegnum Marshall-aðstoðina, auk þess sem umsvifin vegna herstöðvarinnar sköpuðu umtalsverðan fjölda starfa á Suðurnesjum og drjúgan skerf af gjaldeyristekjum landsins um árabil.

Í því ljósi má fullyrða að Íslensk stjórnvöld hafi talið illmögulegt að fara gegn vilja bandarískra stjórnvalda þegar á reyndi í mikilvægum málum sem varða stórar siðferðilegar spurningar, eins og sýndi sig með stuðninginn við innrásina í Írak og að látast ekki sjá fangaflug á vegum CIA.

Ógn við fullveldið
Fullveldið margumtalaða er mjög mikilvægt í þessu samhengi, í raun grundvallaratriði. Hvað er það sem gerir ríki fullvalda? – Ein af skilgreiningunum segir fullveldi fela í sér einkarétt til að fara með dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald, hjá hópi fólks, til dæmis þjóð eða ættbálki á tilteknu landsvæði.

Ef Ísland þarf að leita til annars ríkis í neyð eða ástandi sem ógnar getu yfirvalda til að sinna þessum grundvallaratriðum er ljóst að það vegur að fullveldinu. Ef Íslendingar stæðu utan varnarbandalags við slíkar aðstæður og yrðu hér óvirkir þiggjendur aðstoðar annars ríkis, má fullyrða að þar væri gróflega vegið að fullveldinu.

Þetta sýnir nauðsyn þess að Íslendingar séu virkir þátttakendur í einhvers konar öryggis- og varnarbandalagi, hvort sem það heitir NATO, Norðurlönd eða jafnvel ESB. Leggi sitt af mörkum, taki þátt í æfingum sem tryggja rétt viðbrögð við aðsteðjandi ógn. Því ef þetta er ekki til staðar verður landið valdalaus leiksoppur, algerlega háður duttlungum og eða hagsmunum utanaðkomandi ríkja.

Heimurinn mun líklega alltaf stjórnast á endanum af ákvörðunum stórveldanna í ákveðnum málum. Hins vegar á það ekki við um nærri allt og sífellt eru sáttmálar og samningar á milli ríkja að verða veigameiri. Þar er hlutunum ekki umbylt á einni nóttu með einleik einstakra ríkja, sér í lagi smáríkja eins og Íslands.

Trúverðugleiki er mikilvægari en aflsmunir
NATO er vissulega ekki hafið yfir gagnrýni og mun ekki leysa öll okkar vandamál eins og hér hefur verið bent á. Þarna er trúverðugleiki smáríkisins hins vegar aðalatriðið og góðar hugmyndir settar fram af ábyrgð eru sannarlega velkomnar á alþjóðavettvangi. Því skiptir máli að koma fram í samræmi við getu, draga ekki lappirnar eða vera þiggjendur á stöðugum undanþágum, þannig getum við lagt okkar af mörkum til að móta starf og stefnu bandalagsins.

Við ættum að skilgreina hagsmuni okkar og hópa okkur saman með þeim NATO-ríkjum sem hafa sömu hagsmuna að gæta. Við getum haft meiri áhrif með því að taka fyrir mál sem aðrir hafa ekki tekið fyrir, með því er auðveldara að auka stuðning við þau því önnur ríki hafa síður myndað sér skoðun á þeim málefnum.

Íslendingar geta lagt sitt af mörkum til friðarmála í heiminum. Við getum sett skýr mörk og reglur um hvernig þessum málum er háttað. Einmitt með því að taka þátt af ábyrgð með úthugsuðu virku framlagi í samstarfi um öryggis- og varnarmál tryggjum við þessa afstöðu okkar og sjálfstæði.

Þannig þarf síður að slá af ýmsum grundvallar kröfum og viðmiðum sem Íslendingar vilja setja sér, t.d. hvað varðar siðferðisleg efni og umhverfis- og friðarmál, sem nefnd voru hér að framan. Það kostar fjármuni, horfumst í augu við það, milljarður eða tveir til eða frá, þetta varðar fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði, í því samhengi eru það smáaurar.

Það þarf að ræða öryggismál út frá hagsmunum þjóðríkisins Íslands, ekki ofan í gömlum skotgröfum til að ná sér í pólitískan stundargróða, eða óraunsæjum og útópískum hugmyndum um frið. Annars verðum við alltaf aftaníkerrur meintra vina sem á ögurstundu munu taka sína hagsmuni fram yfir okkar, þannig er það bara.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283