Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Sameinuð stöndum við – sundruð föllum við

$
0
0

Anna Lára Steindal heimspekingur skrifar:

anna lara

Í kjölfar hryllilegra obeldisverka í París hefur umræða um íslam og fjölmenningu á Íslandi enn komist í hámæli. Því miður er umræðan nú sem fyrr mjög afdráttarlaus og sundrandi. Þó margir hafi risið upp og krafist þess að við mætum ofbeldi með kærleika hafa aðrir brugðist við af ótta og hatursorðræða og áraásir á múslima á Íslandi færst í aukana. Það er miður og afar ólíklegt til að sameina okkur í baráttunni fyrir þeim gildum sem eru okkur kær og við viljum grundvalla samfélag okkar á, gildum sem ekki á að gera nokkra málamiðlun um og árásirnar í París beindust gegn; frelsi og virðingu fyrir fjölbreytileikanum.

Margir hafa haft orð á mikilvægi þess að Ísland leggi sig fram við að læra af þeim atburðum sem áttu sér stað í París og koma í veg fyrir að slíkt gæti átt sér stað hér á landi. Undir þetta sjónarmið tek ég heilshugar, enda hef ég unnið að verkefnum í þeim anda í mörg ár í náinni og góðri samvinnu við múslima á Íslandi. En til að geta lært af mistökunum þurfum við að átta okkur á þeim undirliggjandi þáttum sem urðu til þess að árásarmennirnir í París gripu til slíkra voðaverka. Öfgamenn þróa hugmyndafræði sína ekki í tómarúmi og til að geta tekist á við ógnina sem af slíkri hugmyndafræði stafar er nauðsynlegt að hafa innsýn inn í þann hugmyndaheim og þær aðstæður sem eru umgjörð um hana. Að leggja til kerfisbundna mismunun í garð múslima á Íslandi er ekki vænleg leið.

En hvað getum við þá gert? Það er einkum tvennt sem skiptir máli til að skilja þann árangur sem þeir sem ég kýs að kalla öfgafulla átakafrumkvöðla, hafa náð við að breiða út sinn ömurlega boðskap og fá fótgönguliða sem fremja voðaverk í þeirra nafni til liðs sig. Það eru nokkrir þræðir úr sögunni í nútíð og fortíð sem þeir spinna málstað sínum til framdráttar og skapa þannig sýn sem elur á sundrungu, óánægju og rótleysi meðal múslima, á Vesturlöndum sem og annars staðar í heiminum. Sú aðferð sem „við“ höfum beitt í baráttunni gegn þessum öfgum og þær aðstæður sem margir múslimar í Evrópu búa við hefur verið olía á þennan eld og því hefur vandinn vaxið en ekki minnkað síðastliðinn áratug.

Til þess að sporna við þessu þurfum við fyrst og síðast að gera tvennt:

Í fyrsta lagi vera samkvæm sjálfum okkur í kröfugerðinni um mannréttindi, frelsi, mannhelgi og jafnræði.

Þau gildi sem baráttunni gegn öfgamönnum er ætlað að standa vörð um eru algild og við eigum undantekningarlaust að umgangast þau sem slík. Því miður höfum „við“ ítrekað orðið uppvís að því að útdeila þessum gildum eftir hentisemi. Slíkt gerist þegar óttinn ræður för. Þá förum við að leyfa okkur að velja hverjir njóta mannréttinda og á hvaða forsendum.

Þetta hefur gerst innan fjölmenningarsamfélaga á Vesturlöndum, tillagan um að rannsaka bakgrunn múslima á Íslandi sérstaklega eða að meina múslimum að byggja mosku á Íslandi eru dæmi um slíka hentisemi sem grundvallast á óskilgreindum – og oft ástæðulausum – ótta. Þetta sundrar samfélögum, elur á óeiningu, ótta og sundurlyndi.

Víða í fjölmenningaramfélögum Evrópu hefur uppgjör við fortíðina leitt í ljós stofnanabundna mismunun gegn innflytjendum, ekki síst múslimum, sem nutu ekki og njóta jafnvel ekki enn þeirrar verndar og þeirra réttinda sem borgarar eiga tilkall til. Það þarf ekki flóknar reiknikúnstir til að reikna út gremjuna, vonbrigðin og andúðina sem slíkt kerfi, sem mismunar borgurum, elur af sér. Við þessar aðstæður eiga öfgafullir átakafrumkvöðlar, sem spila á strengi tilfinninga og vonbrigða, auðveldara en ella með að lokka ungt fólk sem upplifir sig svikið af samfélaginu, til liðs við sig. Við þurfum að leggja allt í sölurnar svo slíkar aðstæður skapist ekki á Íslandi.

Þessi hentisemi birtist líka í stærra samhengi. Í desember var birt svokölluð pyntingarskýrsla sem nefnd á vegum Bandaríkjaþings vann um brot gegn mannréttindum í því sem kallað hefur verið stríð gegn hryðjuverkum. Sú skýrsla er ekki fögur lesning, og eru þó aðeins 500 af 6.700 blaðsíðum skýrslunnar birtar almenningi.

Í skýrsluna vantar til dæmis alfarið umfjöllun um samstarf CIA við leyniþjónustur víða í Evrópu, meðal annars MI6, sem hafði í för með sér handtökur, fangelsun og pyntingar einstaklinga, m.a. breskra ríkisborgara af líbískum uppruna, sem aldrei voru formlega ákærðir fyrir neitt en nutu ekki þeirrar verndar sem þeim bar samkvæmt mannréttindasáttmálum og þeim gildum sem stríðið var háð til að vernda. Í skýrslunni kemur í ljós að kerfisbundnum mannréttindabrotum var beitt gegn grunuðum íslamistum, m.a. í Guantanamo-fangelsinu. Slík brot gegn mannhelgi eru eldsneyti fyrir hugmyndir og framgöngu öfgamanna.

Að lokum ber að nefna framgöngu og ósamkvæmni „okkar“ í hernaðarbrölti í löndum múslima. Hér dugar að nefna umsvifin í Afganistan og Írak – en tregðuna til að bregðast við í Sýrlandi. „Við“ höfum tekið þátt í því að skapa þá ringulreið sem ríkir víða í löndum múslima. Ein afleiðing þessa er flóttamannavandinn sem talsvert hefur verið rætt um undanfarin misseri, en „við“ höfum sýnt lítinn áhuga á að taka þátt í að leysa.

Hluti múslima á Íslandi og í Evrópu allri á ástvini sem hafa fallið í átökum eða eru á vergangi í Írak og Sýrlandi, eða hírist við illan kost í flóttamannabúðum í Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu eða annars staðar þar sem fórnarlömb átaka finna takmarkað skjól. Evrópa vill sem minnst af þessum mannréttinda- og mannúðarvanda vita en það breytir ekki því að örlög og aðstæður þessa fólks hefur áhrif á viðhorf borgara í Evrópu til síns eigin samfélags og kerfisins sem það býr við.

Þessi hentistefna og ósamkvæmni – sem múslimar (en ekki bara þeir) upplifa margir sem hræsni – er að verulegu leyti það afl sem knýr þróun og útbreiðslu öfgafullrar hugmyndafræði íslam.

Með því að benda á þetta er ég ekki að afsaka framgöngu öfgafullra íslamista og tek skýrt og skilmerkilega fram að hlutfallslega örfáir múslimar flækjast í net öfgafullrar hugmyndafræði sem knýr þá til ofbeldisverka. En ég vil benda á að til þess að skilja hvers vegna þessi hugmyndafræði nær þó þeirri útbreiðslu þarf að hafa innsýn í söguna, söguskoðunina og rökin (eða rökleysuna) sem hún grundvallast á. „Við“ þurfum að axla hluta ábyrgðarinnar rétt einsog „hinir“ eigi okkur að lánast að uppræta vandann. Þessi vandi varð til í samspili austurs og vesturs og hann verður aðeins leystur í samspili austurs og vesturs.

Í öðru lagi endurskipuleggja samfélag okkar þannig að það ráði við fjölbreytileikann.

Þessi síðari tillaga mín er tengd þeirri fyrri, og snýst um að endurbyggja samfélag okkar þannig að það ráði við fjölbreytileikann og útdeili réttindum, gæðum og skyldum jafnt. Atburðina í Frakklandi má ekki slíta úr samhengi við vangetu Frakka (og Evrópu allrar) við að innleiða fjölmenningarstefnu sem virkar í reynd.

Æði margir virðast gera ráð fyrir því að fjölmenningin sé sjálfkrafa gjaldþrota draumsýn og gefa sér forsendur sem eru ekki sjálfgefnar. Þó mjög margt hafi misfarist í fjölmenningarprójektinu í Evrópu er ekki endilega þar með sagt að þróunin þurfi að verða eins hér á landi. Menn hafa árum saman legið yfir því að greina hvað misfórst í Evrópu og Ísland á að minnsta kosti fræðilegan möguleika á að draga lærdóm af þeim rannsóknum.

Eitt af því sem ýtti undir vandann í Evrópu var að samfélögum mistókst að móta eiginlega fjölmenningarstefnu. Nóbelsverðlaunahafinn og hugsuðurinn Amartya Sen orðaði það sem svo að í stað þess að leggja áherslu á fjölmenningu hafi stefnumótendur týnt sér í því sem hann kallar fjöl-einmenningu. Í slíku samfélagi deila ólíkir hópar ekki samfélagi heldur er samfélagið byggt upp af mörgum sérsamfélögum eða örsamfélögum sem „mætast sem skip að nóttu“ en hafa annars afar takmörkuð, eða jafnvel fjandsamleg, samskipti sín á milli. Slíkt ástand er ávísun á vandræði.

Það er því reginmisskilningur að innflytjendastefna sem grundvallast á forsendum fjöl-einmenningar gagnist sem heppileg umgjörð um fjölbreytileika. Langtum fremur sér stefnumótun á þeim nótum um að halda hópum aðskildum, ýtir undir einsleitni innan örsamfélaganna og elur þannig á sundrungu, þekkingarleysi, skilningsleyis og fordómum.

Grundvöllur fjöl-einmenningarinnar er það sem hefur verið kallað menningarleg afstæðishyggja og sú hugmynd að í nafni fjölbreytileikans eigum við að umbera allt sem hefur menningarlega eða trúarlega skírskotun því það sé hrokafullt að leggja mælikvarða á þau gildi sem aðrir aðhyllast. Út frá mannréttindum og undir siðferðilegu sjónarhorni er þetta galin afstaða vegna þess að hún leiðir af sér aukna hættu á því að réttindum einstaklinga sé fórnað fyrir menningarleg/trúarleg gildi hópsins, leiðir af sér marglaga kerfi sem býr borgurum misjöfn skilyrði.

Of ströng krafa um aðlögun getur að sama skapi brotið á réttindum borgara. Finna verður einhvern skynsamlegan milliveg í gegnum samræðu. Auðvitað eru fjölmörg gildi, sem réttlætt hafa verið á menningarlegum eða trúarlegum forsendum, vægast sagt ámælisverð og þannig að inntaki að við ættum ekki aðeins að hafna þeim heldur beinlínis berjast gegn þeim. Kúgun kvenna, fordæming hinsegin fólks, þrælahald, ofbeldi af öllu tagi … og svo framvegis. Susan Moller Okin skrifaði fræga grein um þetta viðfangsefni – Is multiculturalism Bad for Women? – sem lesa má hér: https://www.amherst.edu/media/view/88038/original/susan+moller+okin.pdf

Fjölmörg gildi sem rökstudd eru á trúarlegum og menningarlegum forsendum gefa líka fyrirheit um að þeir sem aðhyllast þau séu vel í stakk búnir til þess að lifa í fjölmenningarlegu samfélagi – þar á meðal eru kærleikur, vinátta, samhygð, réttlæti, virðing og umburðarlyndi. Hugmyndum í þessa veru teflir K. Anthony Appiah fram í grein – Cosmopolitanism and Difference – sem lesa má hér: http://www.huffingtonpost.com/kwame-anthony-appiah/cosmopolitanism-and-diffe_b_3274310.html

Sannleikurinn er sá að bæði menning og samfélag eru lifandi veruleiki í sífelldri þróun – eilíf verðandi. Nútímasamfélög eru í eðli sínu fjölmenningarleg – fjölbreytt. Frjálslyndu lýðræði er ætlað að vera það verkfæri sem við notum til þess að ræða okkur niður á sameiginlegan útgangspunkt sem við byggjum svo samfélag okkar á, í því felst að við þurfum öll að eiga aðgengi að samræðunni og virða leikreglur lýðræðisins. Sama máli gegnir um virðingu gagnvart gildum á borð við mannréttindi, frelsið til að velja sér leið í lífinu og þá skýlausa kröfu að allir njóti jafnra tækifæra, sjálfræðis og mannvirðingar. Við þurfum líka að sporna gegn því að einstakir hópar lokist inni í staðalímyndum, einangarðir á jaðrinum.

Niðurstöðu sem tryggir frið, samhug og mannvirðingu náum við aðeins í gegnum hófstillta, sanngjarna og einlæga samræðu þar sem allir hafa rödd og tækfæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Slík samræða er möguleg, ef rétt er á spilum haldið og flestir leggja sig fram. Og hún er okkar eina von um réttlátt og kærleiksríkt samfélag laust við óttann sem eitrar líf okkar allra ef við leggjumst ekki á eitt við að uppræta hann.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283