Þann 27. janúar voru liðin 70 ár frá frelsun fanga í Auschwitz-Birkenau og er dagurinn nefndur International Holocaust Remembrance Day.
Við þekkjum þessa sögu öll, höfum séð myndir af vannærðum og niðurlægðum föngum. Af háum hesti og í vandlætingartón deilum við skoðunum okkar á hryllingnum sem átti sér stað og trúum því að ef við bara gleymum aldrei því sem gerðist, geti það aldrei gerst aftur.
En ef við stoppum aðeins og horfum á heimsmyndina, skoðum vandlega síðustu áratugi og jafnvel daginn í dag sjáum við að helförin (án þess að ég geri á nokkurn hátt lítið úr henni) var ekki endapunktur eða lexía á nokkurn hátt. Hryllingurinn gerist aftur og aftur, à nýjum stöðum. Sumt kemst í beina útsendingu, öðru er varla gefinn gaumur.
Við getum nefnt apartheid Suður-Afríku þar sem milljónir létu lífið og þrjár og hálf milljón manna, kvenna og barna var gert að yfirgefa heimili sín.
Stríðið í Júgóslavíu var hrikalegt, sríðsglæpirnir þar kostuðu um 140.000 mannslíf, mesta mannfall í Evrópu síðan í seinna stríði.
Milljón í Rúanda, þúsundir í Palestínu, Sýrland, Úkraína …
Það er verið að drepa fólk í dag, í Afríku, í Evrópu. Konum er nauðgað, börn eru látin berjast. Mesta mannfallið er alltaf á meðal almennra borgara, fólk eins og ég og þú.
11 milljónir voru drepnir í helförinni, rúmlega helmingur voru gyðingar, restin voru pólitískir fangar, samkynhneigðir, fatlaðir, sígaunar og aðrir sem ekki voru æskilegir í þriðja ríkinu.
Vissulega eru 11 milljónir meira en 1 milljón eða 500.000. En er þá í lagi að drepa og limlesta fólk á meðan við toppum ekki helförina?
Verður það daginn sem einstaklingur númer 11 milljón og eitt verður drepinn í sama stríði sem við mannkynið munum standa upp og gera eitthvað?
Okkur kemur þetta kannski ekki við fyrr?
Ljósmynd/Reuters