Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Með kjarkinn í farteskinu II

$
0
0

Kvennablaðið birti áður grein Huldu Karenar Ólafsdóttur Með kjarkinn í farteskinu en Hulda, sem er fædd 1949, tók sig upp fyrir tæpu ári síðan og settist að í Noregi þar sem hún starfar sem sjúkraliði.  Okkur lék forvitni á að vita hvernig lífið gengur fyrir sig hjá Huldu þegar meiri reynsla er komin á lífið í Noregi og nábýlið við okkar norsku frændur.

 

Hulda Karen Ólafsdóttir skrifar:

„Ég hef það gott og líkar mjög vel hér í Noregi. Vinnan sem ég sótti um og fékk er í bænum Ålgård. Mjög góð vinna og gott fólk sem hér starfar. Ég sakna auðvitað vinnufélaganna heima sem ég var búin að starfa lengi með. Alltaf toga tilfinningarnar í mann þegar ég heyri í þeim, ætli þetta flokkist ekki undir heimþrá!

Þegar ég hinsvegar heyri frá vinum mínum og baráttu þeirra fyrir bættum aðbúnaði, vinnutíma og kjörum á Íslandi þá hef ég ekki mikla löngun til þess að vinna á Íslandi.

Í Ålgård búa nokkrir Íslendingar eins og svo víða í Noregi. Og þeir sem ég þekki hér eru mjög ánægðir og ekki á leiðinni heim, svo að ég viti.

Bærinn Ålgård er ekki langt frá Stavanger. Bæjarfélagið Ålgård er stjórnsýslumiðstöð fyrir sveitarfélagið Gjesdal í Jæren og tilheyrir Rogeland-fylkinu eins og reyndar litli bærinn Moi þar sem ég bý.

Í Ålgård er þó nokkur uppbygging og nýbúið að samþykkja glæsilegt 5 ára skipulagsplan. Þar á að rísa stórt verslunarsvæði sem minnir á risa útsöluverslunarmiðstöðvar í Ameríku. Bærinn áætlar að slíkt muni laða að margan kaupglaðan manninn í þeirri von að þeir opni budduna sína þar.

Í Ålgård er skemmtigarður sem er mjög vinsæll hjá yngri kynslóðinni, hann er opinn á sumrin og hefur því visst aðdráttarafl fyrir svæðið. Gott hótel er í bænum þannig að þetta plan ætti að geta gengið upp hjá bæjarstjórninni. Bærinn mun bjóða upp á margt fyrir fjölskyldufólk.

Vinnustaðurinn minn er vel staðsettur í miðbæ Ålgård. Ég er um það bil klukkutíma að aka í vinnuna. Það finnst íbúum í Moi ekki mikið tiltökumál enda þarf margur íbúinn að sækja vinnu langt frá heimili sínu, því ekki er mikið um atvinnu að hafa hér í Moi. Það er því erfitt að fá hér fasta vinnu.

Um daginn var til dæmis auglýst föst staða og það voru 17 manns sem sóttu um stöðuna. En fólk getur fengið lausráðningu sem er mjög algengt hér í Noregi. Þessu fyrirkomulagi er reyndar mótmælt kröftuglega og um daginn lagði fólk niður vinnu til þess að mótmæla þessum lausráðningum. Enda eru lausráðningar ekki hagstæður kostur fyrir fólk og sérstaklega ekki fjölskyldufólk sem þarf að hafa vinnuöryggi og tryggar tekjur.

Aftur á móti þeir sem hafa fastar stöður eru mjög vel tryggðir og það þarf mikið til að hægt sé að segja manneskju upp sem hefur fasta stöðu, er mér sagt af þeim sem til þekkja.

Ålgård bo- og aktivitetssenter.

Ålgård bo- og aktivitetssenter þar sem ég vinn.

Að lifa og vinna

Vinnuaðstaðan er ágæt og það er mjög gott skipulag á vinnustaðnum mínum, enda röskar konur sem hér stjórna og skipuleggja starfsemina í húsinu.

Í hverjum mánuði eru haldnir fundir með starfsmönnum og farið yfir skipulag, hvernig hægt sé að gera betur og til að hrósa því sem vel er gert. Einnig er fræðsla í gangi en hún er yfirleitt sett á dagskrá utan starfsmannafunda.

Þetta finnst mér gott fyrirkomulag, þá er ekki hætta á að fólk sofni yfir of stífri dagskrá og ekkert síist inn í hausinn á manni.

Vinnufélagarnir eru mjög hjálpsamir við þennan Íslending sem sestur er að í Noregi um stundarsakir. Vilja allt fyrir mig gera, ef ég leita til þeirra. Bjóða mér meira að segja leiguhúsnæði eða hafa jafnvel boðist til þess að leita fyrir mig að íbúð, sem ekki er á okurverði.

Hér á þessu svæði er mjög dýrt að leigja sér íbúð. Pínulítil íbúð með tveimur herbergjum er leigð á 8 til 10 þúsund krónur norskar á mánuði og oft er rafmagn ekki innifalið í leiguverðinu en raforkan er dýr á þessu svæði. Og oftast þarf að greiða tvo til þrjá mánuði fyrirfram í leigu.

Að kaupa í matinn er svipað og heima en það eru til verslanir hér sem eru í dýrari kantinum en þangað fer maður helst ekki að versla heldur nýtir sér ódýrari verslanirnar. Fatnaður er einnig í svipuðum verðflokki og heima á Íslandi en við sem hér störfum höfum meira fé á milli handanna vegna þess að launin eru jú hærri hér í Noregi en á Íslandi.

Þannig að ég hef getað leyft mér ýmislegt í þeim efnum og er ánægð með það. Þarf ekki að safna mér fyrir hlýrri úlpu eða útivistarskóm eins og ég þurfti að gera heima. Átti meira að segja fyrir nýjum gleraugum um daginn þegar ég var svo óheppin að brjóta þau gömlu.

Skemmtilegar gönguleiðir er auðvelt að finna.

Skemmtilegar gönguleiðir er auðvelt að finna.

Tungumálakunnátta mín hefur batnað til muna og ég verð óskaplega montin þegar sagt er við mig að ég tali góða norsku, eftir svona stuttan tíma í Noregi. En það fyndna við það er að ég skil þær ekki allar, vegna þess að hér eru talaðar svo margar mállýskur og þær sjálfar skilja stundum ekki alltaf hver aðra. Til dæmis er textað í sjónvarpinu efni frá öðrum svæðum.

Tungumálið er skrítið og maður hefur það á tilfinningunni að Norðmenn hafi glatað niður sínu eigin tungumáli sem mér finnst sorglegt.

En það hefur nú gengið á ýmsu hjá mér og ekki allt gengið vel eins og ég hefði viljað og helst þá það sem snýr að bílnum mínum. Hann hefur verið í endalausum viðgerðum. En það góða við þetta er að nú er ég útlærð þegar kemur að orðaforða er tengist varahlutum og viðgerðum á bílum. Karlarnir á Toyota-verkstæðinu í Egersund eru farnir að hlaupa í felur þegar íslenska konan kemur inn með gassagangi fórnandi höndum af hjálparleysi. En þeir eru hjálpsamir, þessar elskur, en nú er komið nóg af viðgerðum!

Öll þjónusta getur tekið langan tíma hér í Noregi, það hef ég þurft að læra. Enda hlusta ég á son minn þegar hann útskýrir fyrir mér að hér geti hlutirnir tekið langan tíma.

„Mamma, þetta er ekki eins og heima, að allt eigi að gerast í dag! Þú verður að bíða róleg!“

Maður þarf því að hafa þolinmæðina í lagi, og hana hef ég því miður ekki alltaf en er sem betur fer farin að læra að sýna stillingu í þeim efnum, eftir allar ferðirnar með bílinn á verkstæðið.

Við mæðginin í gönguferð. (Ólafur Stefánsson, Hulda Karen.)

Við mæðginin í gönguferð. 

Talandi um bíla þá er bensínverð hér í svipuðum verðflokki og heima en að vísu lækkar verðið á sunnudögum eða mánudagsmorgnum og þá æða allir af stað og ná sér í ódýrt eldsneyti. Hér er ódýrara að kaupa dísilolíu á bílana en bensín, alveg öfugt á við heima. Enda telja Norðmenn að fyrst að dísilbílar mengi minna eigi að hafa eldsneytið á þá ódýrara.

Annars eru Norðmenn mjög meðvitaðir og framarlega þegar kemur að notkun rafmagnsbíla. Hér í Rogeland-fylki er þó nokkuð um slíka bíla enda fjárráð ‘olíugreifanna’ töluverð á þessu svæði. Mér er tjáð að á síðustu tveimur árum hafi slík bílaeign aukist um helming. Rafmagnsbílar eru dýrir hér í Noregi en í kaupunum fylgja töluverð fríðindi, til dæmis frí bílastæði, frítt með ferjunum innanlands og niðurfellingar á tollum, svo eitthvað sé nefnt.

Mildur vetur

Ég fagna mildum vetri enda ekki hættulaust að aka hér um fylkið, vegirnir eru þröngir og ekki auðveldir til aksturs. Göng eru mjög víða og þá er betra að fara varlega. Mér finnst Norðmenn aka gætilega þótt auðvitað séu undantekningar frá slíku.

Einn morguninn snjóaði töluvert þegar ég var að aka heim af næturvakt og ég varð að aka varlega eins og aðrir. Þegar ég kom út á E39, aðalbrautina, var snjóplógur á undan mér og ég hugsaði með mér æ, ég lulla bara á eftir honum enda snjóaði töluvert þennan fallega morgun. Síðan sá ég mér til skelfingar að eftir smá tíma var komin löng bílahalarófa fyrir aftan mig, en enginn fór fram úr eða flautaði.

Allir lulluðu eins og ég fyrir aftan snjóplóginn. En ég varð eitthvað svo stressuð og leið á þessu og þegar ég hafði ekið svona í tæpan hálftíma þá kom tækifæri og ég skaust fram úr snjóbílnum. Ég var hálf hissa þegar ég leit í spegilinn og sá að enginn bílanna hafði fylgt mér.

Ég hefði betur ekki farið fram úr snjóplógnum, vegurinn háll og töluverður snjór það sem eftir var leiðarinnar heim til Moi. En ég komst nú loks heim hálf titrandi og þreytt eftir aksturinn á hálum veginum. Þegar ég var búin að jafna mig sagði ég voðalega grobbin við son minn að ég hefði nú bara hreinlega ekki nennt að aka á efir þessum blessaða snjóplóg og farið fram úr honum.

„Mamma, þetta gera Norðmenn alls ekki!“

Svo mörg voru þau orð og ég dauðskammaðist mín fyrir að hafa hagað mér eins og asni í umferðinni! Já, það er margt sem ég þarf að læra í Noregi!

Bestu kveðjur heim og farið varlega í umferðinni, elskurnar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283