Enn berast mér póstar frá fólki sem lifir í neðstu þrepum þjóðfélagsstigans sem langar til að segja sögu sína en þorir það ekki vegna ættingja sinna, barna og vina sem gætu mögulega séð skrifin og haft eitthvað út á þau að setja eða skammast sín fyrir það líf sem þeir tekjulægstu neyðast til að lifa.
Í þessu tilfelli fékk ég bréf frá liðlega fimmtugum manni sem er einstæðingur í dag eftir skilnað, en á börn sem hann vill ekki að blandist í umræðuna.
Þessi maður er öryrki eftir slys. Hann var búinn að vinna sér til húðar upp úr fertugu, en þá fór að halla undan fæti hjá honum og fyrir 10 árum skildu hann og konan. Hún fékk húsið og megnið af innbúinu, bílinn og börnin en hann flutti í herbergiskytru í iðnaðarhúsnæði, því ekkert annað var að fá sem hann réð við að borga leigu af eins og staðan var hjá honum.
Kannast einhver við þetta?
Ég bjóst við því, enda margir karlmenn í þessari stöðu. Miklu fleiri en við gerum okkur grein fyrir sem svona er ástatt hjá. Hann vildi ekki gefa upp hvar hann býr en sagði að það væri á höfuðborgarsvæðinu og það væru nokkur herbergi í þessu iðnaðarhúsnæði þar sem aðallega væru útlendingar.
Ég fékk ekki miklar upplýsingar hjá honum en hann vildi segja smá sögu og sendi mér brot úr dagbókarskrifum en hann sagðist hafa haldið dagbók í fjölda ára með mislöngum hléum. Hann sendi mér eina viku, eða sjö daga úr lífi sínu, en sagðist hafa tekið út nöfn og staði sem gætu vísað í hver hann eða fólk honum tengt væri og virði ég það því það rýrir ekki frásögn hans á nokkurn hátt.
Vika í lífi öryrkja og einstæðings.
Mánudagur 16. febrúar, 2015.
Vaknaði seint í morgun þar sem svefninn vildi ekki miskunna sig yfir mig fyrr en langt var liðið á nóttina og verkjalyfin voru ekki að gera mikið gagn. Endaði með því að taka svefnpillu til að geta sofið og hvílst.
Dagurinn byrjaði ágætlega þrátt fyrir að vera dasaður og þungur eftir lyfin en hafragrauturinn og lýsið hjálpa mér að komast af stað og fór svo í göngutúr til að liðka mig og halda mér í því litla formi sem eftir er. Þolið og þrekið hefur minnkað mikið síðustu mánuði enda er ég hættur að hreyfa mig eins og ég gerði.
Kom heim um klukkan 14.00 og kveikti á sjónvarpinu, nú hefur maður bara RÚV og alþingisrásina þar sem ég hafði ekki efni á að borga fjölvarpið fyrir þennan mánuð og rétt náði að kreista út fyrir netinu.
Skil ekki hvernig maður á að geta lifað af á þessum bótum því þótt maður reyni hvað maður getur að spara við sig þá er maður alltaf orðinn auralaus upp úr miðjum mánuðinum og „þurrmaturinn“ klárast sennilega um næstu helgi nema maður geti einhvers staðar komist yfir smá aur.
Kvöldið fer eins og venjulega í sjónvarpsgláp og nethangs.
Kvöldmaturinn, grjónagrautur og súr lifrarpylsa, bjargaði deginum og sennilega vikunni þar sem ekkert ferskmeti er lengur eftir.
Þriðjudagur 17. febrúar, 2015.
Náði að sofa í nótt og vaknaði fyrir klukkan níu í morgun. Hafragrautur og slátur ásamt lýsissopanum gerir kraftaverk. Fór síðan og verslaði fyrir síðustu aurana, mjólk, brauð, kaffi og annað smávægilegt sem erfitt er að vera án. Skal alveg játa að það er rosalega erfitt að fara út í búð þegar mánuðurinn er rétt rúmlega hálfnaður og verða að neita sér um vörur sem flestum finnst sjálfsagt að kaupa.
Horfði á fjölskyldu versla stórsteikur, grænmeti og ávexti ásamt kippum af gosi og snakki og maður spyr sig hvernig fólk hafi efni á þessu? Sumir hljóta að vera á þannig launum að þeir þurfi aldrei að spá í hvað þeir kaupa þegar þeir fara í búðina. Var svo eftir þeim á kassa og fyrir tilviljun heyrði ég upphæðina sem þau versluðu fyrir og það voru tæplega 80 þúsund krónur. Það er meira en ég fer með í heildarinnkaup á heilum mánuði. Nærri helmingi meira.
Það toppaði svo alveg þegar þau voru að fara út að maðurinn sagði við frauku sína að það væri ágætt að þurfa ekki að fara að versla fyrr en á föstudaginn.
Var þungt í sinni þegar ég labbaði út með hálfan taupokann af vörum sem ég rétt náði að skrapa síðustu aurana fyrir.
Miðvikudagur 18. febrúar 2015.
Vaknaði við símann rúmlega átta í morgun. Fyrrverandi að spyrja hvort ég gæti farið með yngstu dóttur okkar í bíó um helgina. Sagði henni að ég hefði engin efni á því, hefði farið með síðustu aurana í mat deginum áður.
Var skammaður og minntur á hvað ég væri mikill aumingi og ræfill áður en það var skellt á. Á svona stundum spyr maður sig hvers vegna maður sé ekki búinn að farga sér því maður er greinilega fyrir öllum og bara til óþurftar og ama fyrir alla sína nánustu. Börnin skammast sín fyrir mann og fyrrverandi hatar mann út af lífinu. Enginn tilgangur með þessu því maður á sér ekkert líf, maður bara lifir í algjöru tómarúmi og tilgangsleysi, gagnslaus ræfill sem ekkert getur.
Fimmtudagur 19. febrúar, 2015.
Vaknaði aftur við símann, það var fyrrverandi. Skellti á án þess að svara og sneri mér á hina hliðina. Hún hringdi aftur og ég slökkti á símanum.Náði að sofna og svaf til hádegis og fékk mér lýsi. Hef ekki lyst á mat og líður illa.
Sofnaði aftur í eftirmiðdaginn og svaf fram undir kvöld með sjónvarpið á þögn. Eina sem heyrist er þegar aðrir leigjendur eru á ferðinni en stundum er eins og einhver sé að koma að dyrunum hjá mér og þá byrjar hjartað að hamast í brjóstinu. Vil ekki fá heimsóknir frá neinum sem ég þekki og oft hef ég vísað fólki frá sem hefur sagst ætla að kíkja því ég vil bara fá að vera einn og í friði. Hef dregið mig út úr öllum félagsskap sem ég var í á árum áður og nú er svo komið að ég heyri nánast aldrei í gömlum vinum og kunningjum því ég hef hvort eð er aldrei efni á að gera neitt með þeim.
Er þegar farinn að kvíða helginni því þegar ég kveikti á símanum voru fimm skilaboð frá fyrrverandi.
Hef ekki lesið þau því ég veit og þekki innihaldið og það er ekkert þar sem lætur mér líða betur heldur þvert á móti. Langar ekki að lifa svona lengur.
Enn einu sinni komin helgi og ekki til króna í kotinu.
Ætla að reyna að fara á dósa- og flöskuveiðar í kvöld og nótt og sjá hvort ég næ að safna saman fyrir nokkrum þúsundköllum. Varla samt að það borgi sig að standa í þessu lengur því það eru svo margir um hituna og það liggur við slagsmálum og morðum um eina helv… öldós á almannafæri oft á kvöldi.
Reyni frekar að halda mig við hverfispöbbana í úthverfunum þessa helgina, þá er síður að maður rekist á einhvern sem maður þekkir. Vissi sem var í gær eftir öll skilaboðin frá fyrrverandi að þetta var ekkert nema níð og niðurbrot enda ekki við öðru að búast frá henni.
Sú stutta sendi mér reyndar skilaboð í gegnum facebook sem lýstu tilveruna aðeins bjartari litum enda elska ég börnin mín og mundi allt fyrir þau gera, ef ég gæti.
Laugardagur 21. febrúar, 2015.
Vaknaði ekki fyrr en langt var liðið á daginn enda nóttin löng.
Fór á stjá upp úr miðnætti og þvældist fram til hálf fimm í morgun á dósa- og flöskuveiðum. Ótrúlegt hvað sumt fólk getur verið illa innrætt þegar það sér mann vera við þessa iðju. Sumir ögra manni hreinlega með því að brjóta flöskur og henda dósum þar sem maður kemst ekki að þeim, bara til að geta niðurlægt mann og haft gaman af því. Skal alveg játa að stundum langar mig til að ganga í skrokk á því fólki sem hagar sér svona en geri það samt ekki því það er ekki þess virði. Maður bara snýr sér við og gengur burt. Engin slagsmál og ekkert vesen, tæpar 3 þúsund krónur í þetta sinn sem dugar fyrir smá mat.
Fer aftur á stjá í kvöld.
Sunnudagur 22. febrúar, 2015.
Vaknaði algjörlega ónýtur seinnipartinn eftir hrikalega útreið í nótt sem leið.
Það er mikið af fólki sem er úti um helgarnætur í sömu erindagjörðum og ég og stundum getur komið til harkalegra árekstra en það gerðist einmitt um fjögurleytið í nótt þar sem ég var að snuðra bak við pöbb þar sem fólk fer oft út að reykja og skilur þá jafnan flöskur og dósir eftir þar ef það er að mæta á staðinn.
Var búinn að sækja mér slatta þarna af dósum og var á leiðinni frá staðnum þegar par, sem líka stundar flösku- og dósaveiðar kom að og hafði engar vöflur á því og réðust á mig með barsmíðum og spörkum. Náði að forða mér með megnið af því sem ég hafði safnað en sér vel á mér eftir þetta, glóðarauga, sprungin vör og marinn hér og þar. Spurning hvort maður fer ekki að vopnast þegar maður fer út á næturnar í framtíðinni.
Rétt skreið yfir 5 þúsundkallinn yfir helgina svo ég get leyft mér að eiga fyrir mat í næstu viku.
Þarf svo að fara til læknis eftir mánaðamótin og fá lyfin mín. Það er nú einn útgjaldaliðurinn sem maður kvíðir alltaf fyrir.
Fyrrverandi hringdi svo í kvöld og ég asnaðist til að svara. Hún byrjaði sinn venjulega söng og ég skellti á hana. Liggur við að ég hati hana fyrir það hvernig hún hagar sér alltaf.
Ég bað ekki um þetta ömurlega líf sem ég lifi en ég get ekkert gert nema sætt mig við það eða kálað mér. Sennilega er seinni kosturinn skástur þegar upp er staðið því maður er í raun engum til gagns og öllum til ama og leiðinda. Þetta er heldur ekkert líf. Vakna, gera ekki neitt allann daginn og fara að sofa að kvöldi. Svona er þetta dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og svona verður þetta í mörg ár þar til ég drepst því stjórnvöld gera ekkert til að létta okkur lífið, heldur þvert á móti, þau gera allt til að við höfum það sem allra, allra verst. Skammsýnin, heimskan og sjálfsánægja þessa fólks getur gert mann svo illan að mann hreinlega verkjar af hatri á þessu fólki sem stjórnar landinu.
En maður er ekkert bættari með því, maður verður af tvennu illu að velja það, að annaðhvort sætta sig við þetta eða skjóta sig. Vonandi verður betri dagur á morgun.
Þarna fær maður smá innsýn í líf einstæðings sem er öryrki og býr við mjög kröpp kjör og sjálfsagt eru margir í þessari stöðu þar sem fyrrverandi eiginkona hefur engan skilning og ræðst á hann með því að niðurlægja hann og svívirða, vitandi að hann hefur ekki tök á að sinna barninu sínu eins og hann vildi helst gera.
Þetta er eitthvað sem við verðum öll að vekja athygli þeirra sem landinu stjórna á og krefjast þess að þeir hætti að leika sér með skattfé almennings, hygla auðmönnum meðan almenningur í landinu greiðir laun þeirra, jafnvel þeir sem eru á lægstu bótunum þurfa að greiða skatta, og fari að gera það sem þeir voru kosnir til að gera, hlú að landi og þjóð í stað þess auðmannadekurs og spillingar sem virðist grassera í þeirra röðum.
Þetta ástand verður ekki þolað lengur án þess að eitthvað róttækt fari að gerast.