Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Verðskulduð viðurkenning

$
0
0

Guðrún Guðlaugsdóttir skrifar:

Gudrun_Gudlaugsdottir_300dpi

Ánægjulegt er þegar þeir hljóta viðurkenningu sem til hennar hafa unnið. Ekki síst á þetta við ef störf viðkomandi eru til heilla fyrir samborgara.

„Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hlaut nú fyrir skömmu verðlaun Stjórnvísis, sem besti yfirstjórnandinn. VIRK var stofnað árið 2008 og hefur á undanförnum árum skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði.

Ég hef tekið viðtöl við ýmsa þá einstaklinga sem verið hafa í samstarfi við VIRK. Þau verkefni hafa skilað mér innri gleði. Það er svo mikil ánægja því samfara að ræða við fólk sem hefur öðlast endurnýjað sjálfstraust og lífsgleði, eftir að hafa átt við erfiðleika að stríða vegna veikinda eða slysa. Sjá hvernig það hefur fundið sig á ný á vinnumarkaði og lítur björtum augum á framtíðina. Þessi samtöl hafa beinlínis gefið mér nýja sýn og von um betra samfélag á Íslandi.

Vigdís Jónsdóttir er að mínu mati verðug fyrirmynd fyrir íslenskar konur. Hún hefur haft heill síns fyrirtækis að leiðarljósi, svo það geti sinnt sínu mikilvæga starfi. Vigdísi er í rökstuðningi fyrir valinu lýst sem „leiðtoga með skýra framtíðarsýn og markmið og skapi vinnuumhverfi þar sem hver einstaklingur fær að nýta hæfileika sína til fulls.“

Stéttarfélög, Lífseyrissjóðir og íslenska ríkið leggja fé til starfsemi VIRK í þágu þeirra sem standa um tíma einhverra hluta vegna höllum fæti gagnvart vinnumarkaðinum.

Stjórnvís er stærsta stjórnunarfélag Íslands, með tæplega 3000 félagsmenn og öflugt tengslanet. Það er opið öllum einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem hafa áhuga á stjórnun. Á heimasíðu félagsins segir að það sé í eigu félagsmanna og starfi ekki með fjárhagslegan ágóða í huga.

Á tímum þegar áhyggjur manna snúast um afkomu íslenskra fyrirtækja í nokkuð erfiðu umhverfi er þörf á starfsemi af þeim toga sem Stjórnvís stundar.

Gaman er að geta þess að viðurkenningu Stjórnvís hlaut líka önnur kona, í hópi millistjórnenda. Ágústa Björg Bjarnadóttir mannauðsstjóri hjá Sjóvá frá 2007. Í tilkynningu Stjórnvís segir að hún sé mikil fagmanneskja sem hafi komið að þróun aðferða við starfsmannamat, starfsmannaviðtöl og stjórnendamat.

Það er ekki slæmt fyrir íslenskar konur að heyra þennan vitnisburð um kynsystur sínar frá Stjórnvís, sem er, eins og segir á heimasíðunni, mikið í mun að verðlaun séu byggð á faglegu mati og hefur því vandað verulega til dómnefndar sem sjö valinkunnar manneskjur skipa.

Loks ber að nefna Jón G. Hauksson, ritstjóra Frjálsrar verslunar, sem gerður var að heiðursfélaga Stjórnvís. Til að öðlast þá viðurkenningu þarf viðkomandi að vera m.a. frumkvöðull að innleiðingu nýjunga á sviði stjórnunar og vera öðrum góð fyrirmynd í starfi sínu.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283