Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Árni Páll mátti sjá mótframboð fyrir: Sigríður Ingibjörg gæti tekið formannsstólinn

$
0
0

Óvænt formannsframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, gegn Árna Páli Árnasyni, formanni flokksins, er reiðarslag fyrir formanninn sem stendur afar höllum fæti í flokknum. Árni Páll hefði þó átt að sjá að í slag stefndi, enda gríðarleg óánægja með störf hans. Árni Páll hefur misst stuðning fylgismanna sinna frá því að hann fór fram gegn Jóhönnu Sigurðardóttur með skipulögðum hætti til að knýja fram aukalandsfund og formannskjör. Meðal stuðningsfólks Sigríðar Ingibjargar er fólk sem barðist ötullega fyrir formannsetu Árna Páls á sínum tíma.

Það er því ljóst að hann tekur mótframboðið alvarlega enda ekki um bjölluat að ræða. Heimildarmenn Kvennablaðsins í flokknum segja stuðningsfólk formannsins afar ósátt við framgöngu Sigríðar Ingibjargar sem tilkynnti framboð sitt eftir að frestur til að kalla til allsherjaratkvæðagreiðslu allra félagsmanna rann út. Stuðningsfólk Árna Páls hefur þegar hafist handa við að opinbera þá línu að um „launsátur“ sé að ræða gegn formanninum. [1][2][3][4] Lög flokksins heimila þó framboð á landsfundi sjálfum og raunar gera lögin ráð fyrir að allir landsfundarmenn séu í framboði.

Missti yfirsýnina

Árna Páli mátti þó sjálfum vera ljóst hvað væri í uppsiglingu. Mikill doði er í starfi Samfylkingarinnar og erfiðlega hefur gengið að manna flokksstofnanir og starf. Þá hefur Árna ekki tekist að ná til stuðningsfólks Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi formanns. Í fyrstu stefnuræðu sinni sem formaður gagnrýndi Árni Páll störf Jóhönnu og flokksins harkalega og sagði Samfylkinguna hafa eytt of miklum kröftum í tilgangslaus stríð á kjörtímabilinu. Þessi orð hafa setið í fólki innan Samfylkingarinnar sem barðist fyrir breytingu á kvótakerfinu, nýrri stjórnarskrá og Rammaáætlun, svo fáein dæmi séu nefnd.

Sem formaður hefur Árni Páll einangrað sig og sækir lítið ráðgjöf utan síns innsta kjarna. Þá hefur honum ekki tekist að sannfæra kjarnakjósendur Samfylkingarinnar um að snúa aftur til flokksins. Þá gerði hann tilraun til að grafa undan Rósagöngu til heiðurs Jóhönnu Sigurðardóttur í lok síðasta kjörtímabils, með því að þrýsta á fólk sem skipulagði atburðinn um að hætta við, það hefur honum ekki verið fyrirgefið af fólki í kjarna flokksins.

AR-150318786

Ungir, Reykjavík og frjálslyndir
Samfylkingarfélagið í Reykjavík er langsamlega stærsta aðildarfélag flokksins. Félagið hefur um 250 skráða fulltrúa á landsfundi samanborið við um það bil 50 fulltrúa hjá Ungum jafnaðarmönnum, ungliðahreyfingu flokksins. Það er í þessum tveimur hreyfingum sem mótframboðið við Árna Pál sækir líklega uppruna sinn. Samfylkingarfélagið í Reykjavík er áhrifavaldur í Samfylkingunni og hefur horn í síðu margra kjörinna fulltrúa. Sama félag ber mikla ábyrgð á að slíta formlega ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en félagið ályktaði á frægum Þjóðleikhúsfundi að slíta yrði samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrir vikið er Samfylkingarfélagið í Reykjavík ekki alltaf vinsælt meðal kjörinna fulltrúa flokksins. Þannig tók Össur Skarphéðinsson, þingmaður flokksins, nokkur skot á félagið í bók sinni Ár drekans. Þar sem hann sagði meðal annars að Þjóðleikhúsfundurinn hafi engu breytt. Össur hefði sjálfur stjórnað öllum þráðum. Innan Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hefur óánægjan með Árna Pál náð slíkum hæðum að samkvæmt heimildum Kvennablaðsins kom til umræðu að félagið sniðgengi formannskosninguna til að veikja formanninn.

Sama má segja um Unga jafnaðarmenn en hópur þar á meðal hafði íhugað að skila auðu eða sameinast um að kjósa Sigríði Ingibjörgu eða Katrínu Júlíusdóttur. Samkvæmt lögum Samfylkingarinnar eru allir landsfundarfulltrúar í framboði til formanns sé kjörið á landsfundi.

Heimildarmenn Kvennablaðsins þvertaka þó fyrir að Sigríður Ingibjörg hafi ákveðið sig fyrr en í gær. Hins vegar hafi verið töluverður þrýstingur á að hún byði sig fram undanfarnar vikur. Það eru Ungir jafnaðarmenn sem upphaflega settu nafn Sigríðar Ingibjargar í formannspottinn árið 2011, þá sem arftaka Jóhönnu. Nafn Sigríðar er því ekki nýtilkomið en hún hefur hingað til ekki lýst sig reiðubúna að fara fram. Hvorugt félagið hefur þó opinberlega lýst stuðningi við Sigríði Ingibjörgu og fátt bendir til þess að slíkt verði gert opinberlega.

Þá virðist Árni Páll ekki geta treyst á stuðning Félags frálslyndra jafnaðarmanna, en áhrifafólk í því félagi var meðal stuðningsfólks hans í formannskjörinu síðast.

Gæti styrkt Árna Pál
Framboð Sigríðar Ingibjargar getur um leið styrkt Árna Pál. Útlit var fyrir afar dræma þátttöku á landsfundi. Lítill áhugi var meðal fólks að skrá sig sem landsfundarfulltrúa og um tíma var útlit fyrir að aðeins 300–400 þingfulltrúar mættu til fundarins. Dræm mæting á landsfund í bland við atkvæði sem ekki féllu Árna Páli í hag hefðu veikt umboð hans enn frekar. Standi Árni Páll sem sigurvegari dagsins gerir hann það með endurnýjað umboð. Um leið er líklegt að pólitískri framgöngu Sigríðar Ingibjargar sé lokið. Vandi Árna Páls felst þó í því að hann nýtur stuðnings utan flokksins en ekki innan hans. Í hnotskurn er vandamálið að hann stendur veikur hjá fólki sem mætir í flokkstarfið, starfar fyrir flokkinn og mætir á landsfund. Árni Páll getur þó nýtt sér óánægju meðal félaga utan höfuðborgarsvæðisins með skamman fyrirvara Sigríðar Ingibjargar. Þau félög eiga erfiðara með að ýta á eftir sínum fulltrúum að mæta og því geta þeirra fulltrúar túlkað aðferð Sigríðar Ingibjargar sem leið til að grafa undir áhrifum landsbyggðarfélaga.

Sneri á flokksfélagana síðast
Sjálfur varð Árni Páll formaður Samfylkingarinnar eftir langvarandi valdabaráttu innan flokksins. Honum hefur ekki tekist að auka fylgi flokksins frá því að hann tók við en dræmt gengi Samfylkingarinnar undir stjórn Jóhönnu var hryggjarsúlan í gagnrýni Árna Páls á þáverandi stjórn flokksins. Í síðasta formannskjöri voru 18.318 á kjörskrá Samfylkingar en aðeins 5.621 greiddi atkvæði. Árni Páll hlaut 3.474 atkvæði í þeirri kosningu, eða 62 prósent. Samfylkingin er prófkjörsflokkur og sækir þá hefð frá Alþýðuflokknum.  Árni Páll hefur sjálfur kallað það fyrirkomulag að kjósa formann flokksins með allsherjaratkvæðagreiðslu flokksmanna „lýðræðisveislu“. Formannsslag hefur þó fylgt töluverður kostnaður en saman eyddu þeir Guðbjartur og Árni Páll tæpum sex milljónum í síðasta slag. Þessi miklu fjárútlát kjörinna fulltrúa í prófkjörum og kosningu til formanns eru óheppileg í ljósi sögu flokksins.

Afneitun á stöðunni

Árni Páll sagði í samtali við fréttastofu RÚV í gærkvöld að það hefði komið sér á óvart þegar Sigríður Ingibjörg hringdi í hann um sexleytið og tilkynnti honum um mótframboð. „Ég hafði ekkert heyrt af þessu,“ segir Árni. Hann bendir á að á einu ári hafi flokkurinn náð umtalsverðum árangri. Hann hafi tekið við flokki með tólf prósenta fylgi en hann mælist nú með 15 prósenta fylgi – flokkurinn hafi náð mjög góðum árangri víða í síðustu sveitarstjórnarkosningum og ásættanlegum árangri víða. „Ég hef alltaf sagt að þetta væri langhlaup og við erum hálfnuð á leið okkar í átt að settu marki sem á að nást í næstu þingkosningum.“

Ummælin eru lýsandi fyrir viðbrögð Árna Páls við alvarlegri stöðu flokksins. Árni Páll tók ekki við 12 prósenta flokk heldur ríkisstjórnarflokki með 20 þingmenn og 29 prósentum atkvæða en skilaði honum eftir kosningar í 13 prósentum atkvæða með einungis 9 þingmenn. Þótt vissulega hafi margir í Samfylkingunni samúð með því verkefni að stýra flokknum í gegnum kosningar eftir erfitt kjörtímabil voru heimildarmenn Kvennablaðsins sammála um að þessi ummæli væru birtingarmynd af viðvarandi afneitun Árna Páls á stöðu mála.

Kosið verður um formann milli klukkan 17.30 og 18.30 en niðurstöður verða kynntar klukkan 18.45.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283