Gerður Eva Guðmundsdóttir og Sigrún Huld Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður skrifa:
Hvað er best fyrir þig og barnið þitt?
-Taktu upplýsta ákvörðun
Nýverið birtist grein eftir Tobbu Marinós í Kvennablaðinu með fyrirsögninni „Gerðu það sem er best fyrir þig og barnið þitt“. Greinin er um reynslu höfundarins af sinni fyrstu fæðingu. Í þessari grein kemur margt jákvætt fram, til dæmis að konur eigi ekki að bera saman fæðingar sínar, þær séu ekki í keppni við hver aðra og að þær konur sem fæða án deyfingar séu ekki öðrum konum fremri.
Það er jákvætt að vakin hafi verið athygli á þessu mikilvæga málefni fyrir konur, engin fæðing er eins og allar mæður eru hetjur óháð því hvernig barnið þeirra kom í heiminn. Það er upplifun konunnar og hvernig henni og barninu reiðir af eftir fæðinguna sem skiptir mestu máli. Út frá þessari grein hefur skapast mikilvæg umræða um notkun mænurótardeyfinga í fæðingum. Þar er sögð reynslusaga, reynslusaga sem á fullan rétt á sér en ekki má alhæfa út frá reynslu einnar konu.
Það virðist vera að konur séu ekki nægilega vel upplýstar um mögulegar aukaverkanir deyfinga í fæðingum sem bendir til þess að fræðslu um málefnið sé ábótavant. Í umræðunni hefur mikil áhersla verið lögð á sársaukann sem getur fylgt fæðingum og út frá henni er auðvelt fyrir konur að álykta að fæðingum fylgi alltaf óyfirstíganlegur sársauki sem sé sá versti sem þær munu upplifa á lífsleiðinni. Þessi skilaboð eru varhugaverð.
Sársauka í fæðingum hefur einnig verið líkt við þann sársauka sem hlýst af tannviðgerðum og skurðaðgerðum. Því hefur verið slegið fram að þar sem sjaldgæft er að slíkar aðgerðir séu framkvæmdar án deyfinga þá geti það sama gilt um fæðingar. Þessi samanburður er ekki við hæfi þar sem fæðing barns á lítið skylt við slíkt sjúkdómsástand.
Í fæðingu hafa hríðarnar tilgang, þann tilgang að koma barni í heiminn, þær stafa ekki af sjúklegu ástandi og eru ekki hættulegar á nokkurn hátt. Í fæðingu spila hormónin oxýtósin, adrenalín og endorfín saman og hjálpa konunni að takast á við hríðarnar. Hið síðastnefnda, endorfín, er náttúrulegt verkjalyf skylt morfíni, sem líkaminn framleiðir þegar hann er undir miklu álagi og eykst styrkur þess í blóði eftir því sem líður á fæðinguna. Þessi hormón eru víðs fjarri á tannlækna- og skurðstofum.
Það er leitt að við séum komin svo langt frá uppruna okkar að konur líki barnsfæðingu við skurðaðgerðir og tannviðgerðir. Hugsanlega skýrist það af mikilli hræðslu við fæðinguna sem oft er komin til vegna frásagna um hræðilegar fæðingar og Hollywood-kvikmynda þar sem fæðingar eru oftar en ekki sjúkdómsvæddar og gerðar ógnvænlegar. Þetta getur orðið til þess að konur verði dauðhræddar við fæðingu jafnvel löngu áður en þær verða barnshafandi í fyrsta sinn. Einhverra hluta vegna virðist alltaf heyrast hærra í þeim sem eiga neikvæða reynslu en þeim sem eiga jákvæða.
Engin fæðing er eins, verkjaupplifun hverrar konu er ólík. Fæðing er alltaf vinna, eins og enska orðið „labour“ gefur til kynna, en hún er ekki alltaf sársaukafull. Sumar konur finna ekki til við fæðingar á meðan aðrar upplifa mikinn sársauka.
Verkjaupplifun í fæðingu er samspil innri og ytri þátta. Innri þættir eins og hræðsla, hvaðan sem hún er uppsprottin, getur aukið mjög á verkjaupplifun og getur hún einnig hamlað framgangi fæðingarinnar og þess vegna er svo mikilvægt að konur mæti ekki hræddar til leiks í fæðingu. Einn af þeim þáttum sem getur aukið á hræðslu fyrir fæðingu er skortur á þekkingu.
Fræðsla og undirbúningur fyrir fæðingu eru mikilvæg atriði. Aðrir innri þættir eins og til dæmis þreyta og streita geta einnig magnað upp verkjaupplifun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góður stuðningur í fæðingu hafi jákvæð áhrif á útkomu og upplifun kvenna í fæðingu. Ytri þættir eins og upphaf og gangur fæðingar, staða barns í grindinni og hvort vatnið sé farið getur einnig skipt máli. Engin kona er eins, sögur þeirra eru ólíkar og fæðingar þeirra líka.
Í eðlilegri fæðingu sem fer sjálkrafa af stað stýra hin fyrrnefndu hormón fæðingarferlinu. Flæði þessara hormóna getur auðveldlega truflast af áreiti í umhverfi og inngripum í fæðinguna. Öllum inngripum fylgir hætta á frekari inngripum og þar með aukinni hættu á verri útkomu fyrir móður og barn. Þess vegna er mikilvægt að sterkar ábendingar séu fyrir inngripum í fæðingarferlið. Stór hluti af starfi ljósmæðra og lækna sem sinna konum í fæðingu er að meta hvort þörf sé á inngripum eður ei. Mænurótardeyfing í ákveðnum tilfellum er mjög gott hjálpartæki, sérstaklega þegar að fæðingin gengur ekki eðlilega fyrir sig. Hún getur hjálpað þreyttum mæðrum að hvílast og slaka á sem getur leitt til þess að fæðingin fari að ganga betur. Konum með vandamál tengd meðgöngu eins og meðgöngueitrun er gjarnan ráðlagt að þiggja mænurótardeyfingu.
Mænurótardeyfingu geta fylgt aukaverkanir. Þegar gripið hefur verið inn í ferlið með mænurótardeyfingu hægist oft á gangi fæðingar og rembingsstigið verður frekar lengra meðal annars vegna þess að grindarbotninn er dofinn og konan finnur síður rembingsþörf. Auk þess á konan oft erfiðara með að hreyfa sig þar sem fætur hennar geta dofnað og hún verður bundnari við rúmið en við það getur hægst enn frekar á fæðingunni.
Notkun mænurótardeyfingar eykur einnig líkur á því að fæðingin endi með áhaldafæðingu, sem sagt að barninu sé hjálpað út með sogklukku eða töngum. Brjóstagjöf getur farið verr af stað og staðið skemur en ella þá sérstaklega ef fleiri inngrip eins og áhaldafæðing fylgja í kjölfarið. Rannsóknir hafa líka bent til að deyfingin geti haft áhrif á aðlögun að móðurhlutverkinu og tengslamyndun. Fleiri mögulegar aukaverkanir eru t.d. blóðþrýstingsfall, þvagteppa, hiti í fæðingu og höfuðverkur eftir fæðingu. Brugðist er við aukaverkunum með frekari inngripum eins og hríðaörvandi lyfjum sem auka líkur á blæðingu eftir fæðingu, vökvagjöf í æð, uppsetningu þvagleggs, notkun sýklalyfja og fleira.
Þó er mikilvægt að hafa í huga að þetta eru aukaverkanir sem sumar eru líklegri til að koma fram því lengur sem konan hefur deyfinguna og þær koma alls ekki alltaf fram. Jafnframt virkar deyfingin ekki alltaf sem skyldi og benda rannsóknir til að upplifun kvenna sem fæða með deyfingu sé ekki endilega betri en þeirra sem fæða án hennar. Stundum vega kostirnir við deyfinguna meira en hugsanlegir gallar og því er hún oft kærkomin. Aðrar meðferðir eins og notkun djúpöndunar, vatns, nudds, vatnsbóla, nálastungna og glaðlofts geta hjálpað konum að takast á við hríðarnar en aukaverkanir þeirra eru oftast minni háttar.
Konur geta andað sig í gegnum fæðingu, þær eiga að hafa á trú sér og getu sinni til að koma barninu sínu í heiminn. Konur eru magnaðar með eða án mænurótardeyfingar! Konur og stuðningsaðilar þeirra ættu að fara með opnum hug en upplýstum inn í það óútreiknanlega og dásamlega ferli sem barnsfæðing er.