Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Home! $weet Home! – Vandræðabarnið 75 ára

$
0
0

Árið 1940 má telja að marki upphaf nútímavæðingar á Íslandi. Með hernámi landsins í stríðsbyrjun gekk tækniöld í garð. Það er því fróðlegt að stikla yfir húsnæðissögu höfuðborgarinnar í þrjá aldarfjórðunga frá upphafi nútímavæðingar. Í hnotskurn má lýsa húsnæðispólítík tímabilsins á þessa leið: Séreignastefnan á 75 ára afmæli. Á sama tíma á tvíburasystir séreignastefnunnar líka afmæli: húsnæðisekla höfuðborgarsvæðisins.

Úr Morgunblaðinu 2. Október 1940

Úr Morgunblaðinu 2. Október 1940

Húsnæðisvandræði höfuðborgarinnar hófust fyrir alvöru með hernáminu. Þá myndaðist gríðarleg eftirspurn eftir leiguhúsnæði fyrir útlenskt herlið. Bretar og Ameríkanar yfirbuðu með gjaldeyri fátæka íslenska alþýðu í frumskógi leigumarkaðarins.

Alþýðublaðið 26. Október 1940

Alþýðublaðið 26. Október 1940

75 árum síðar er nánast sama staða í húsnæðismálum höfuðborgarinnar. Erlendir ferðamenn með haftalausan gjaldeyri yfirbjóða borgarbúa í „Villta vestrinu“. Það er annað orð yfir leigumarkað höfuðborgarsvæðisins. Þar að auki hafa „fagfjárfestar“ fjármagnaðir af lífeyrissjóðum gengið í lið með ferðamönnum. Þessi félög byggja viðskiptamódel sitt á síhækkandi fasteignaverði. Þau hafa undanfarin misseri keypt hundruð íbúða í miðborginni og eru byrjuð að kaupa íbúðir í úthverfum. Tilgangurinn er fasteignabrask. Fyrsta verk þessara félaga er yfirleitt að hækka leigu íbúanna. Oftast eru leigusamningar einungis eitt ár, enda markmiðið að leysa út söluhagnað eftir ákveðinn tíma. Oft eru talsmenn þessara félaga álitsgjafar í fjölmiðlum um þróun fasteignaverðs. Fjölmiðlar kalla svo yfirleitt á fasteignasala eða bankafulltrúa til andsvara til að ræða síhækkandi fasteignaverð.

Screenshot 2015-04-28 21.53.14

Þjóðviljinn Miðvikudagur 14. nóv 1945

 

Húsnæðisekla höfuðborgarinnar var viðvarandi eftir stríðið. Á stríðsárunum reisti hernámsliðið bragga fyrir starfsemi sína. Þeir voru hannaðir sem bráðabirgðahúsnæði. Uppsetningin tók örfáa daga en braggarnir stóðu áfram í áratugi eftir stríð víða í borgarlandinu. Þegar flest var bjuggu um 2400 manns í bröggum á Reykjavíkursvæðinu. Við þessa tölu bættist fjöldi fólks sem bjó við ófullnægjandi skilyrði í kjöllurum og á hanabjálkum, í geymslum eða öðru álíka.

braggi

Áratugina eftir stríð áttu sér stað miklir fólksflutningar frá sveitum landsins til höfuðborgarinnar. Einnig óx úr grasi stór „barnasprengju“-kynslóð eftirstríðsáranna. Samverkandi þættir viðhéldu þannig mikilli spennu á frumstæðum leigumarkaði borgarinnar.

Þjóðviljinn 13. febrúar 1955

Þjóðviljinn 13. febrúar 1955

Á þessum árum tók nokkur fjöldi til sinna eigin ráða í húsnæðiseklunni. Þetta fólk byggði sér hús á landskikum fyrir utan þáverandi borgarmörk. Húsakynnin voru byggð af vanefnum úr kassafjölum og afgangsefni sem til féll. Þessi hús voru flest illa einangruð og hreinlætisaðstaða bágborin. Langverandi búseta í þeim var talin heilsuspillandi. Fyrir fáeinum árum sáust allvíða minjar um þessi mannvirki í útjaðri borgarinnar.

Vikan 17. Desember 1964

Vikan 17. Desember 1964

Ef að er gáð er ástandið í dag mjög svipað og á áðurnefndu tímabili. Nú búa milli fjögur og fimm þúsund manns í ólöglegu iðnaðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi fólks býr ennfremur í ósamþykktum kjöllurum, bílskúrum, reiðhjólageymslum osfrv.

Morgunblaðið 28.september 1994

Morgunblaðið 28.september 1994

Helsti munurinn er að í dag er þessi búseta síður sýnileg en kofa- og braggaþyrpingar eftirstríðsáranna. Samsvarandi íbúafjöldi nútímans „týnist“ í kjallarakompum og bak við gardínur í iðnaðarhverfum. Það var ekki síst sýnileiki bragganna og kofahreysanna sem knúði á um aðgerðir í húsnæðismálum höfuðborgarinnar.

Ruv.is 9.9 2013

Ruv.is 9.9 2013

Á sama hátt er það ósýnileikinn, þögnin og meðvirkni stjórnvalda sem viðheldur núverandi vanda. Síðustu áratugina hefur ekkert stjórnmálaafl sett fram markmið um að eyða ólöglegri búsetu í íðnaðarhverfum, bílskúrum osfrv. Samkvæmt könnun á vegum slökkviliðs höfuðborgarinnar hefur fjöldi fólks sem býr við þessar aðstæður fjór- eða fimmfaldast undanfarinn áratug. Enginn borgarstjóri hefur gert opinbera heimsókn í þessi fátækrahverfi nútímans. Þau eru týnd í kerfinu.

Vísir 23. nóvember 2014

Vísir 23. nóvember 2014

Alveg eins og á eftirstríðsárunum vantar nú ódýrt og hentugt húsnæði fyrir þúsundir, ef ekki tugþúsundir manna í Reykjavík og nágrenni. Fjöldi fólks sem á í húsnæðisvandræðum um þessar mundir samsvarar stóru borgarhverfi eða kaupstað á landsbyggðinni.

Fyrir 50 árum krafði verkalýðshreyfingin stjórnvöld um aðgerðir í húsnæðismálum. Niðurstaðan varð svokallað júnísamkomulag, sem leiddi af sér uppbyggingu Breiðholtsins nokkrum árum síðar. Í fyrsta áfanga voru byggðar 1250 blokkaríbúðir. Þetta voru eignaríbúðir sem verkafólk fékk úthlutað til kaups á hagstæðum kjörum. Þetta var á sínum tíma ein stærsta byggingarframkvæmd á landinu. Með byggingu Breiðholtsins hurfu smám saman braggahverfin úr borgarmyndinni.

þjóðviljinn 26. mai 1978

þjóðviljinn 26. mai 1978

Breiðholtið er barn síns tíma, í ýmsum skilningi. Framkvæmdin var umdeild af mörgum ástæðum. Byggingarnar þóttu einsleitar, og ekki þótti góð latína að hrúga almennu verkafólki í einskonar gettó í úthverfi. Enn heyrast svipuð sjónarmið, ekki síst í umræðunni um hugsanlegar lausnir á núverandi húsnæðisvanda. Þá vill oftast gleymast úr hvaða kringumstæðum fólk flutti í Breiðholtið. Og við hvaða aðstæður fólk býr um þessar mundir í „ósýnilegu Breiðholti“ nútímans. Breiðholtið var þarft framtak sem sló á versta húsnæðisvandann. Nútímatækni var þá innleidd við byggingu fjölbýlis á Íslandi. Önnur afleiðing var nokkuð stöðugt fasteignaverð næstu árin. Það er fáséð í sögulegu samhengi. Samt sem áður leysti Breiðholtið ekki nema hluta húsnæðisvandans. Þegar best lét fékk einn af hverjum þremur íbúð úthlutað. Leigumarkaðurinn var áfram sama olbogabarnið í húsnæðispólítík höfuðborgarinnar.

Stríðsárin eru oft talin upphaf nútímavæðingar á Íslandi. Að þremur aldarfjórðungum liðnum er margt morgunljóst um húsnæðismál höfuðborgarsvæðisins:

Íslenska húsnæðisformúlan (séreignastefnan) hefur aldrei getað leyst þarfir allra borgarbúa í húsnæðismálum. Það vantar á hverjum tíma eitt stykki Breiðholt eða svo í húsnæðisjöfnuna. Til að sannreyna þetta þarf ekki annað en slá inn í leitarvél setningu á borð við „neyðarástand á leigumarkaði“, „húsnæðisokur“, „húsnæðiskreppa“ osfrv. Þá koma upp áratuga gamlar fyrirsagnir og blaðagreinar. Þær fjalla um stöðuga húsnæðiskreppu í höfuðborginni. Það má taka hvern áratug fyrir sig og finna lýsingar sem gætu alveg eins átt við líðandi stund.

Screenshot 2015-04-28 23.27.21

Séreignastefnan er séríslenskst fyrirbrigði að magni til. Hlutfall séreignar á Íslandi er með því hæsta sem þekkist í sambærilegum löndum. Í Þýskalandi, efnahagslegum mótor V-Evrópu, búa t.d. einungis um 40% þjóðarinnar í séreign. Með öðrum orðum: Þar í landi leigja fleiri en eiga sinn íverustað. Leigumarkaðurinn myndar þannig kjölfestu og stöðugleika á þýskum húsnæðismarkaði. Stöðugleiki er varla til í orðaforða húsnæðissögu Reykjavíkur. Á Íslandi er hlutfall séreignar tvöföld á við Þýskaland eða um 80 hundraðshlutar.

Í lok síðustu og byrjun 21. aldar stimplaði heilbrigð skynsemi sig út af íslenskum fjármála- og fasteignamarkaði. Bankar gengu berserksgang á uppsprengdum hlutabréfa- og fasteignamarkaði. Fasteignaverð hækkaði upp úr öllu valdi á örfáum árum. Himinhátt hlutfall séreignar á Íslandi kynti undir þessa ógæfulegu þróun. Sambærileg bóla myndaðist ekki í Þýskalandi né öðrum löndum þar sem heilbrigður leigumarkaður virkar sem kjölfesta í sambærilegum aðstæðum.

Það er því lyginni líkast að eftir hrun hafa stjórnvöld endurreist nákvæmlega sömu kerfisvillu sem er ýkt íslensk séreignastefna.

Fyrir nokkru hélt Göran Persson ræðu í Hörpu. Hann var forsætisráðherra Svíþjóðar árin eftir sænsku bankakreppuna sem var í hámarki 1990 til 1994. Sú kreppa átti upptök sín í glórulausum fasteignaviðskiptum banka og fjármálafyrirtækja. Stjórnartímabil Perssons 1996 til 2006 var tími niðurskurðar og aðhalds í ríkisrekstri landsins.

Screenshot 2015-04-28 23.36.08

Inntak ræðu Göran Persons var nauðsyn þess að staldra við og spyrja hvað fór úrskeiðis. Hvaða kerfisgalli gerði atburðarásina mögulega? Hverju þarf að breyta til að sagan endurtaki sig ekki?

Á ekki þetta einmitt við um íslenska húsnæðispólítík? Hefur íslenska húsnæðisformúlan (ýkt séreignastefna) virkað síðasta sjö og hálfan áratug?

Hverju þarf að breyta til að forðast nýja fasteignabólu?

Er ekki þörf á nýrri hugsun / húsnæðisformúlu eftir hrun? Með áherslu á uppbyggingu leigumarkaðar í svipuðu hlutfalli og nágrannalöndin?

Með það að markmiði að útrýma búsetu í nútíma braggahverfum?

Eða á húsnæðisekla að vera íslenskt „náttúrulögmál“ áfram næstu áratugina?

Eins og frá upphafi nútímavæðingar fyrir 75 árum?

Breiðholt tvö, where art thou?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283