Árið 1895 hóf Bríet Bjarnhéðinsdóttir útgáfu Kvennablaðsins. Hún ritstýrði og gaf út blaðið í heil tuttugu og fimm ár. Það er fallegt að lesa um vægi blaðsins í lífi hennar. Kvennablaðið var fyrsta blað hérlendis sem fjallaði einungis um málefni kvenna og varð afar mikilvægur vettvangur fyrir Bríeti til að koma skoðunum sínum varðandi réttindi kvenna á framfæri.
Bríet var afar strategísk í hugsun í öllu sem hún tók sér fyrir. Til að byrja með fjallaði blaðið einungis um mál tengd heimili, heilsu kvenna og börnum. Hún vissi að þjóðin væri ekki enn tilbúin fyrir sínar pólitísku skoðanir og notaði því mildari aðferð við að vekja áhuga kvenna á réttindamálum.
Á skömmum tíma varð Kvennablaðið eitt útbreiddasta blað landsins og vakti töluverðar vinsældir. Með auknum áhuga lesenda fór Bríet að skrifa um sín heitustu áhugamál: réttindi kvenna.
Stuttu eftir aldamótin 1900 lagði Bríet til dæmis mikið upp úr því að brýna fyrir lesendum sínum hve mikilvægt það væri að íslenskar konur hlytu kosningarétt. Hún notaði blaðið til að hafa samskipti við þjóðina og sér í lagi til þess að vekja konur til umhugsunar um rétt sinn og vægi í samfélaginu.
Í dansverkinu mínu um Bríeti höfum við tileinkað Kvennablaðinu heilan kafla. Ég hafði tínt saman texta úr hinum og þessum heimildum þar sem Bríet hefur orð á því hve miklu máli blaðið skipti hana. Við leyfðum huganum að fara á flug og komumst að skemmtilegri leið við að nota textana við hreyfingar og gjörðir. Það er mér mikil ánægja að deila með ykkur minni upplifun af Bríeti hér á samtímaútgáfu blaðsins sem var henni svo kært.
Ótrúlega margt hefur gerst á æfingum á síðustu vikum og get ég glöð sagt að komin sé heilsteypt mynd á verkið. Vinna sumarsins mun felast í tæknilegri verkefnum eins og að sauma búninga, hanna plakat og taka upp tónlistina. Við tökum smá frí frá æfingum á meðan en förum svo á fullt í byrjun ágúst. Frumsýningin verður 28. ágúst kl. 17 í Smiðjunni á Sölvhólsgötu.
Síðustu vikur hafa verið nokkuð þéttskipaðar og strembnar en hefur skilað frábærum árangri. Við höfum þurft að vinna töluvert hratt þannig það hefur ekki verið neinn tími fyrir óákveðni eða efasemdir. Jákvæðni og gleði eru sterk vopn sem ætti ekki að vanmeta og gátum við nánast án árekstra unnið verkið frá byrjun til enda. Ég er sérstaklega heppin með samstarfskonur sem allar hafa lagt sitt af mörkum og unnið með opnum hug og mikilli sköpunargleði. Ég er afar stolt af vinnunni okkar og er nánast feimin við tilhugsunina um hve vel þessi fyrsta æfingatörn hefur gengið.
Þegar við hófum það að greina efnið frá Bríeti og kafa ofan í hana nánar fundum við fljótt fyrir því hve sterk tengingin er í samtímann. Baráttumál hennar tíma og baráttumál kvenna í dag eru ekki ósvipuð. Heilu textarnir sem Bríet skrifaði gætu vel verið skrifaðir í dag. Það veldur mér ákveðnum áhyggjum að uppgötva hve lítið hefur í raun breyst á hundrað árum.
Á sama tíma fyllist ég eldmóði og vissu um að við verðum að halda baráttunni áfram. Við verðum að vera virkar og áhugasamar um réttindamál kvenna og vanda okkur þegar það kemur að þessum málum. Vanda okkur í framsetningu og nálgun. Vanda okkur í orðavali þegar við tölum um réttindamál kvenna.
Bríet sagði í viðtali þegar hún var áttræð:
„Við höfum fengið fjölda margar réttarbætur, en allt of margar þeirra eru bara á pappírnum, en ekki í framkvæmdinni. Lítið í kringum yður. Þér sjáið órétt alls staðar. Konur vinna við sömu störf og karlmenn, en fá miklu lægri laun. Lögin heimila þeim þetta, en svona er framkvæmdin. En þetta er ekki fyrst og fremst karlmönnum að kenna. Konurnar geta leitað að orsökunum hjá sjálfum sér. Þær eru alltof áhugalausar og skeytingalausar um eigin hag og aðstöðu sína í þjóðfélaginu. Þær eru sannarlega sínir eigin böðlar.”
Þetta er ágæt áminning frá Bríeti sem taka mætti til fyrirmyndar. Sýnum stuðning í hinum ýmsu byltingum og baráttum sem eiga sér stað á mismunandi vettvöngum samfélagsins. Fylgjum þeirri óhjákvæmilegu þróun sem tilkoma samskiptamiðla og netsins hefur haft í för með sér. Yngri kynslóðir hafa staðið að hinum ýmsu málefnalegu byltingum á netheimum undanfarið eins og átökin #freethenipple, #þöggun og #heforshe. Verum hugrökk og sýnum þeim yngri stuðning.
Þegar Bríet var á lífi notaði hún Kvennablaðið til að hvetja þjóðina til baráttu fyrir kvenréttindum. Það er ekki svo ólíkt því að nota samskiptamiðla til hvatningar um byltingu og baráttu. Tímarnir eru aðrir og er um að gera að fylgja flæðinu í stað þess að streitast á móti nýrri nálgun ungra femínista og nýrrar bylgju kvenréttindabaráttu. Við verðum að standa saman og við verðum að stefna áfram eins og Bríet orðaði það fyrir rúmum hundrað árum.