Kristinn Hrafnsson skrifar:
Skólakrakkar muna yfirleitt það eitt um Jón Sigurðsson að hann sagði „Ég mótmæli“ og þingheimur tók undir: „Vér mótmælum allir“. Jú, og svo rámar fólk í að Ingibjörg hafi beðið eftir honum í festum í áratug og skildu sumir svo að hún hefði verið tjóðruð við rúmgafl.
Ingibjörg var þó bara að bíða róleg eftir frænda sínum til að fullnusta hjónabandið en litlum sögum fer af sælunni á rúmfjölunum, enda ávann Nonni sér einhverja millifótaslæmsku í Kaupmannahöfn.
Svo var barist fyrir lýðveldi sem kom smám saman en þó ekki fyrr en danski kóngurinn var upptekinn við eitthvert vesen heimafyrir. Innlendir lögspekingar copy/paste-uðu danska stjórnarskrá með hraði, með aðferð sem síðan hefur verið viðurkennd í íslensku háskólanámi.
Svo mikill var asinn að í eyðurnar þar sem stóð „kóngur“ var í flýti sett orðið „forseti“, sem síðan hefur verið stjórnskipulegt vandræðabarn, en að mestu til friðs, á lágu nesi suður af höfuðborginni.
Lýðveldið var í fyrstu hamingjusamt og burðugt enda mikill gróði af mesta hildarleik mannkynssögunnar. Til minningar um það var ákveðið að lýðveldið hefði aldrei her. Eftir örfá ár var þó allur peningurinn farinn til „money heaven“ og fastaher boðið að setjast að á örfoka heiði suður á nesjum. Þá urðu margir fúlir og mótmæltu en öðrum þótti það argasti dónaskapur og vanvirðing. Vildu fremur að landsmenn kyrjuðu þjóðsönginn sem var gamall sálmaslagari um titrandi tár og blóm sem dó.
Það væri nú meiri kjarkur í því.
En uppfrá þessu magnaðist heimtufrekjan með endalausum kröfum um svokölluð mannsæmandi laun og húsnæði, í stað bragga og spýtukofa.
Enn var vaðið áfram með dónaskap og verkföllum þangað til ofstopafólkið fékk sínu framgengt. Breiðholt varð til og svokölluð verðbólga. Sem betur fer lærði betra fólk landsins að flýja hvort tveggja og byggja sér bústaði í grennd við sveitasetur forsetakóngsins.
Allar götur frá stofnun lýðveldisins hefur staðið til að fullnusta hjónaband þjóðarinnar og hins svokallaða lýðræðis, sem útlendingum þykir mikið varið í. Svo mikið, að mesta veldi heimsins hefur látið sprengjum rigna yfir heimsbyggðina til þess að stuðla að framgangi fyrirbærisins. Því til heiðurs munu borgarar þessa mikla ríkis bráðum fá alfrjálst val um að velja sér forsetakóng úr annarri af tveimur aðalsættum landsins: Bush III eða Clinton II.
Hér heima hefur gengið illa að koma þessari lýðræðishugmynd í framkvæmd þó að endrum og sinnum fái þjóðin að kjósa um enn eina (N1) ríkisstjórnina.
Það hefur aldeilis reynst útilokað að endurskoða gamla bráðabirgðaplaggið sem í hasti var hnoðað saman uppúr danska skjalinu og þykir jaðra við dónaskap að halda slíkum kröfum á lofti. Allar hugmyndir um lýðræði þar sem lýðurinn ræður með því að greiða atkvæði um örlög sín, þykja einnig frekar dónalegar og barnalegar.
Talandi um börn, þá þykir ekki við hæfi að bjóða þeim upp á að fólk láti á sér bera með dólgslegar kröfur um jöfnuð, frelsi og bræðralag. Allt svoleiðis þykir líka hallærislegt og gamaldags enda var búið að afgreiða þau mál útaf borðinu í einhverri aðgerð í Frakklandi fyrir lifandis laungu.
Þjóðin er því enn að bíða eins og hún Ingibjörg sem beið eftir honum Jóni sínum.
Þjóðin hefur beðið eftir lýðræðinu og bíður enn. Hún er í festum.
Svo gengur lífið bara sinn vanagang. Einhverjar kerlingar hafa verið til vandræða með dólgslegar kröfur um launajafnrétti og þessa endalausa kröfu um „mannsæmandi laun“. Það er nú blessunarlega búið að stoppa þær með stjórnvaldsaðgerð og konunum boðið í staðinn á ráðstefnu í Hörpu, ef þær geta borgað hundraðþúsundkall fyrir.
Á morgun ætlar einhver hópur, sem er leiður á að bíða í festum eftir lýðræði, að láta í sér heyra; fólk sem til þessa hefur haft vit á að hafa hægt um sig á opinberum vettvangi, þar til kemur að því að birta nafn þess í dánartilkynningum blaðanna.
Það er talinn dónaskapur og virðingarleysi – við smáblómið og tárið titrandi, sem tilbað almættið og hunskaðist svo til að drepast.
Líða svo önnur þúsund ár.